top of page

Körfuvíðirinn ´Katrin´

Updated: Jul 7, 2023

Körfuvíðir (Salix viminalis) er hávaxin víðitegund með löngum grönnum og sveigjanlegum greinum sem bera löng og mjó blöð. Hér á landi getur hann vel orðið 3 til 5 metrar á hæð en er oftast klipptur í lægri runna. Við góð skilyrði getur hann orðið enn hærri, eða allt að 9 metrar.



Körfuvíðir finnst villtur allt frá Írlandi í vestri og austur um Rússland og Síberíu, allt að fljótinu Lenu. Óvíst er hvort hann hefur borist sjálfur til vesturhluta Evrópu eftir að ísöld lauk eða einfaldlega borist þangað með mönnum, því öldum saman hefur hann verið ræktaður til körfugerðar og ber af því nafn sitt, bæði hér og víða annarsstaðar. Greinarnar geta verið mjög langar og sveigjanlegar og henta alveg prýðilega til þess að flétta körfur og fleira. Víða í Evrópu má enn sjá gamlar körfuvíðiplöntur sem eru enn klipptar þannig að auðvelt er að klippa af þeim greinar til körfugerðar.


Hefðbundin klipping á körfuvíði í Evrópu. Hér í morgunþokunni á Jótlandi. Þarna eru greinarnar ekki nýttar en hefðin mælir með því að svona sé hann klipptur.


Víðir, sem hefur svona víðáttumikið útbreiðslusvæði, getur verið all fjölbreytilegur í útliti. Almennt má segja að í Vestur Evrópu er körfuvíðir með enn mjórri blöð en körfuvíðirinn sem vex austar. Sá körfuvíðir sem hér er ræktaður líkist meira þeim austrænu.


Körfuvíðir í 24 hólfa bökkum sem stungið var í vor. Ræting mjög góð.

Eftir að bleiknefjar hófu landnám í Ameríku fluttu þeir með sér körfuvíði og enn má finna hann sums staðar í þeirri álfu. Mest er af honum í Síberíu og Rússlandi. Þar myndar hann sums staðar víðáttumikil flæmi, allt frá freðmýrum í norðri og að þurrum gresjum í suðri. Algengastur er hann þar við vötn, ár og stórfljót.



Á Íslandi (eða að minnsta kosti á Norðurlandi) er einn klónn langmest ræktaður af þessari víðitegund.


Myndin sýnir körfuvíði á Hólasandi. Þar lifir hann þótt hann vaxi minna en á heppilegri stöðum. Sennilega verða þessar greinar seint nothæfar til körfugerðar.

Árið 1997 skrifaði grasafræðingurinn Jóhann Pálsson, sem þá var garðyrkjustjóri Reykjavíkur, góða og ýtarlega grein um víði í Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Þar segir hann frá því að hann hafi fengið að klippa græðlinga af ýmsum víðitegundum í Grasagarðinum í Uppsölum vorið 1978. Allir klónarnir voru síðan reyndir í Lystigarðinum á Akureyri enda var téður Jóhann þá forstöðumaður hans. Eftirfarandi umfjöllun byggir á þessari grein. Jóhann hafði veitt einum klón af körfuvíði sérstaka athygli því hann felldi lauf á undan öðrum víði í Uppsalagarðinum. Dró hann þá ályktun að einmitt þess vegna gæti hann hentað prýðilega á Íslandi. Þessum víði hafði verið safnað við Kiruna í Norður-Svíþjóð. Þar vex enginn körfuvíðir frá náttúrunnar hendi svo líklega hefur hann verið fluttur þangað en sú saga er ókunn. Aftur á móti segir Jóhann frá því í grein sinni að þegar verið var að leggja sænsku járnbrautirnar, um það bil öld áður en greinin var skrifuð, var lagt mikið upp úr því að hafa fallega garða við járnbrautarstöðvarnar. Til verksins var fenginn þýskur skógfræðingur. Hann lagði upp úr því að fá harðgerðan efnivið sem hentað gæti svo norðlægu landi sem Svíþjóð vissulega er. Í þeirri viðleitni sinni fékk hann sendar plöntur frá grasagarðinum í St. Pétursborg. Telur Jóhann að það kunni að vera upprunastaður þessa víðis sem hann flutti hingað á sínum tíma, enda fellur hann vel að lýsingum að þeim víði sem vex á þeim slóðum. Þessi klónn er kvenkyns og því var það að Jóhann valdi honum nafn eftir einni frægustu og sigursælustu kvenpersónu Rússlands; Katrínu miklu. Er það vel viðeigandi nafn fyrir þennan glæsilega víði sem ferðast hefur frá Pétursborg í Rússlandi til Kiruna í Svíþjóð, þaðan til Uppsala og loks til Akureyrar.


Körfuvíðirinn ´Katrín‘ (Salix viminalis ´Katrin´) blómstrar um leið og hann laufgast eða skömmu fyrir laufgun. Árssprotarnir eru grænir og langir en eldri greinar gulbrúnar að lit. (Heimild: Jóhann Pálsson 1997)


Körfuvíðirinn 'Katrín' í Lystigarðinum á Akureyri.


Í grein Jóhanns Pálssonar, sem vitnað var í hér að framan, er sagt frá því að talið sé að óþarfi sé að skipta venslahópi körfuvíðis í margar tegundir sem þó hefur stundum verið gert. Hann nefnir að áður fyrr hafi sumir viljað flokka okkar körfuvíði sem S. rossica en því hafi verið hafnað af rússneskum grasafræðingum. Sá sem þetta ritar nýtir sér gjarnan plöntulista frá Kew Gardens til að skoða hvaða latínuheiti hinir færu grasafræðingar garðanna nota. Svo er að sjá sem þar séu menn sammála Jóhanni og segja að S. rossica sé samheiti með S. viminalis.


Körfuvíðir í limgerði á Akureyri.



Aðrar heimildir eru þessu ekki endilega sammála. Í bókinni Willows, The Genus Salix eftir Christopher Newshome (1992) er talað um þetta sem tvær aðskildar tegundir og að S. rossica taki við af S. viminalis á stórum svæðum í Rússlandi en að tegundirnar séu líkar. Lýsingarnar á S. rossica í þeirri bók passa betur við okkar körfuvíði en lýsingarnar á S. viminalis. Það bendir auðvitað til þess að Jóhann hafi haft rétt fyrir sér, eins og við var að búast, og okkar körfuvíðir sé ættaður úr ríki Katrínar miklu.


Annar körfuvíðir í Lystigarðinum. Vel má sjá hversu langir árssprotarnir eru.


Hér á landi er hann stundum nýttur sem skraut í skógarjaðra eða sem skrautrunni á opnum svæðum og í blönduðm runnabeðum. Hann hentar einnig prýðilega til að auka fjölbreytni á útivistarsvæðum og sumarhúsalöndum. Hann er sjaldnar notaður sem limgerðisplanta eða í skjólbelti og enn sjaldnar sem stakstætt tré. Hann er óalgengur í minni görðum enda nokkuð fyrirferðamikill. Best fer á að gefa honum gott pláss og hann fer einkar vel við tjarnir og læki og mætti gjarnan vera meira nýttur á slíkum stöðum enda fara löng víðiblöð og vatn alveg sérlega vel saman.


Körfuvíðirunni speglar sig í vatni á Dalvík.

Mörgum finnst það galli við körfuvíði, eins og marga aðra stórvaxna víðirunna, að þeir „vaxa úr sér“, sem kallað er. Það merkir að með aldrinum geta þeir orðið hálfljótir. Auðvitað er það smekksatriði hvort og hvenær plöntur eru ljótar, en vel má klippa gamlan körfuvíði niður og yngja hann þannig upp. Þá spretta upp langar, grannar og sveigjanlegar greinar sem aldrei fyrr. Má nýta þær til körfugerðar eða annars föndurs ef áhugi er á því.


Körfuvíðir í blönduðu runnabeði sem yngdur hefur verið upp með klippingu. Myndirnar með greininni tók Sigurður Arnarson.

322 views

Recent Posts

See All
bottom of page