Þetta vorið hafa víðirunnar og -tré blómstrað óvenju mikið. Því höfum við sett inn þetta myndasafn með víðiblómum. Víðirunnar og -tré treysta á flugur til að flytja frjó á milli plantna. Sumar víðitegundur, sennilega flestar víðitegundir á heimsvísu, blómstra fyrir laufgun. Aðrar blómstra um leið og þær laufgast en þá er ekki eins auðvelt fyrir býflugurnar að flögra milli blóma. Á móti kemur að þá nýtast stutt sumur betur til vaxtar.
Blóm víðitegunda raðast mörg saman á svokallaða rekla. Reklarnir geta verið langir og áberandi en hjá sumum eru þeir styttri og lítt ásjálegir. Víðitegundir eru einkynja. Það merkir að hver einstaklingur er annað hvort karlkyns (kk.) eða kvenkyns (kvk.). Þess vegna eru annað hvort kvk. eða kk. blóm á hverjum rekli. Þau raðast þétt á reklana, mörg saman. Kvk. reklar eru að jafnaði ekki eins áberandi og kk. reklar. Á kvk. reklunum má sjá frævurnar raðast saman á reklunum, jafnvel tugum saman. Efst á hverri frævu er frænið. Fljótt á litið getur frænið með frævunni líkst pínulítilli flösku eða mjóum vasa. Á kk. reklunum myndast kk. blóm. Þar má sjá fræflana teygja sig upp í loftið þegar þeir þroskast. Efst á þeim er frjóhnappur með frjókornum. Fræflarnir og frjóhnapparnir geta verið áberandi gulir eða rauðir á litinn og er mikil prýði af þeim. Eftir að fræflarnir hafa lokið sínu hlutverki falla þeir af plöntunum en í kvk. blómunum þroskast fræ ef allt hefur gengið samkvæmt áætlun.
Víðifræ eru mjög létt og geta borist langar leiðir. Eflaust hafa fræ erlendra víðitegunda oft borist hingað til lands og jafnvel lent á heppilegum stöðum, náð að spíra og myndað plöntu. Slíkt landnám verður þó ekki varanlegt nema að bæði kynin berist á sama svæðið. Er það að líkindum meginástæða þess að íslenskar víðitegundir eru ekki mjög margar. Margar innfluttar tegundir mynda töluvert af frjóu fræi á Íslandi og hafa sáð sér hér og þar um landið. Má þar nefna viðju, alaskavíði, jörfavíði og selju. Samt er það svo að oftast er víði fjölgað kynlaust með græðlingum. Á það við um allar tegundir nema selju, sem að jafnaði er fjölgað með sáningu.
Ljósmyndirnar sem hér fylgja með eru flestar teknar í Kjarnaskógi. Pistillinn birtist fyrst á Facebook.
Texti og myndir: Sigurður Arnarson.
Comentarios