top of page

Sniðgötubirkið

Updated: Jun 9, 2023

Sum af glæsilegustu trjám höfuðstaðar hins bjarta norðurs eru svo merkileg að þau hafa sérnafn. Tré vikunnar að þessu sinni er einmitt eitt þeirra. Það er birkitré, Betula pubescens, og er kallað Sniðgötubirkið. Það stendur í húsagarði í grónu hverfi og hangir limið í löngum slæðum úr víðri og glæsilegri krónu.


Óvenjuglæsilegt birki sem stendur við Sniðgötu á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Staðsetning

Eins og vænta má af birki sem kallast Sniðgötubirki stendur það þétt við samnefnda götu. Nánar tiltekið stendur það á lóð sem er á horni Sniðgötu og Munkaþverárstrætis. Sú lóð tilheyrir reyndar Munkaþverárstræti og er númer 26 við þá götu. Neðst á horni lóðarinnar stendur þessi glæsilega björk, þétt við Sniðgötu og krónan teygir sig yfir götuna.

Horft að hausti til trésins yfir lóðina við Munkaþverárstræti. Strangt til tekið stendur Sniðgötubirkið á lóð við Munkaþverárstræti 26. Mynd: Sig.A.


Lýsing

Birkið virðist vera af tegundinni ilmbjörk, Betula pubescens, nema hvað hinar slútandi greinar minna mun frekar á norrænt hengibirki. Það hefur ýmist verið skráð sem Betula pendula Roth., B. verrucosa Ehrh., eða jafnvel sem B. verrucosa var. lapponica Lindq. á latínu. Öll önnur einkenni, svo sem neðri hluti stofnsins, laufgerð, lykt og hæring á smágreinum bendir til ilmbjarkarinnar frekar en hengibjarkar.


Stofn trésins minnir meira á ilmbjörk en hengibirki. Mynd: Sig.A.

Þetta er ekki eina tréð í bænum sem hefur einhver einkenni beggja tegunda. Má nefna þetta dularfulla birki sem við fjölluðum um í ágúst 2022. Við frekari skoðun og athuganir teljum við fullvíst að það tré sé blendingur, enda hefur ekki tekist að staðfesta fræmyndun hjá trénu. Það er oft einkenni blendinga að vera ófrjóir. Má nefna múlasna sem dæmi. Þeir eru blendingar hesta og asna og eru alltaf ófrjóir. Aftur á móti er það ekki alltaf svo með plöntur. Blendingar plantna geta stundum verið frjóir.


Horft upp í krónuna. Smágreinarnar hanga niður. Sjá má skemmdir eftir birkiþélu á laufunum. Mynd: Sig.A.

Víða um bæinn eru bjarkir með vaxtarlag sem minnir á þetta birki. Þau hafa öll almenn einkenni ilmbjarka nema hvað greinarnar slúta eins og á hengibjörkum. Sem dæmi má nefna umfjöllun okkar frá árinu 2020 um tré sem stendur á Eiðsvelli við Grænugötu. Gömul tré með svipaða greinabyggingu má einnig sjá víðar við Munkaþverárstræti, Hamarsstíg og Þórunnarstræti svo dæmi séu tekin. Yngri tré má einnig finna í bænum, svo sem í Síðuhverfi og við Rauðumýri. Ekkert þessara trjáa hefur samt eins slútandi greinar og Sniðgötubirkið.


Vetrarmynd af garðinum við Munkaþverárstræti. Myndin tekin frá Sniðgötu. Mynd: Sig.A.


Saga

Á hverju ári útnefnir SKógræktarfélag Íslands tré ársins. Nokkur tré á Akureyri hafa fengið þennan heiður og árið 1998 varð Sniðgötubirkið fyrir valinu. Í tilefni þess skrifaði Vilhjálmur Lúðvíksson stutta grein um tréð í Ársrit Skógræktarfélags Íslands, enda mun það hafa verið að hans frumkvæði að tréð varð fyrir valinu. Í greininni bað hann um að fá frekari upplýsingar um tréð og sögu þess. Því var einboðið að hafa samband við Vilhjálm við gerð þessa pistils og kanna hvort honum hefði orðið ágengt í upplýsingaöflun sinni. Vilhjálmur varð góðfúslega við beiðni okkar. Hann sendi okkur allar þær upplýsingar um tréð sem hann býr yfir, ásamt hugleiðingum sínum um ræktun þess. Að mestu leyti er þessi grein byggð á þessum tölvusamskiptum og hinni stuttu grein í Ársritinu. Einnig var leitað upplýsinga á Facebooksíðu Garðyrkjufélags Akureyrar.


Mynd úr Ársritinu frá 1998 þegar okkar tré var valið tré ársins.


Skemmst er frá því að segja að ekki hefur tekist að fá áreiðanlegar upplýsingar um sögu þessa trés. Gamlar konur, sem voru látnar þegar tréð varð valið sem tré ársins, töldu það hafa komið frá ræktunarstöðinni á Hallormsstað með dönskum garðyrkjumanni á árunum í kringum 1920. Vilhjálmur hafði samband við vin sinn, Sigurð Blöndal, skógræktarstjóra, sem fullyrti að íslenskt birki með þetta vaxtarlag hafi ekki verið framleitt sérstaklega í Hallormsstað, svo eitthvað er þetta málum blandið.

Mynd úr greininni frá 1998 eftir Vilhjálm Lúðvíksson.


Slútbjörk

Ástæða þess að Vilhjálmur Lúðvíksson stakk upp á að þetta tré yrði útnefnt tré ársins árið 1998 er áhugi hans á slútandi vaxtarformi birkisins sem víða má sjá á Norðurlandi. Hann nefnir sem dæmi tré á bökkum Laxár í Laxárdal í Mývatnssveit, t.d. við veiðistaðinn Æsufit. Seinna sá hann þetta form á einstökum trjám í Vaglaskógi, Fossselsskógi og Þórðarstaðaskógi. Fór hann þá að kalla þett form slútbjörk af tegundinni ilmbjörk. Hann gerði sér auðvitað ljóst að þetta er ekki sama birkið og við köllum hengibjörk.


Frægt birki með slútvöxt við Gróðrarstöðina á Vöglum. Ætli Sniðgötubirkið sé ættað úr Vaglaskógi? Mynd: Sig.A.


Vilhjálmur fór, ásamt félögum sínum í svokölluðu Gróðurbótarfélagi, að skoða þann möguleika að framleiða birki með þessu vaxtarlagi. Hann, Pétur N. Ólason og Þröstur Eysteinsson, fóru í ferð um Fossselsskóg og Þórðarstaðaskóg til að safna efni. Síðar var einnig safnað af Sniðgötutrénu og glæsilegu birki sem stendur við Gróðrarstöðina á Vöglum. Tilraunir þessar fóru fram sunnan heiða þar sem efniviðurinn var græddur á annað birki. Vandinn var sá að fyrir sunnan fengu plönturnar ekki þetta eftirsóknarverða, slútandi form. Að auki er vöxturinn lítill og lélegur. Þetta er reyndar sama sagan með annað birki sem flutt hefur verið af Norðurlandi og suður. Það kemur einhver kyrkingur í trén. Svipaður vandi er einnig þekktur í birkirækt í útlöndum. Ef birki er fært suður eða norður frá upprunalegum vaxtarstöðum, þótt ekki sé nema um eina eða tvær breiddargráður, getur vöxturinn orðið lélegur. Markverð undantekning frá þessu er birki sem ættað er úr Bæjarstaðaskógi. Það þrífst allstaðar vel á Íslandi.


Haustmynd úr Leyningshólum. Birki þaðan þrífst illa sunnan heiða. Þótt slútvöxt megi finna víða í birki á Norðurlandi vottar ekki fyrir honum í Leyningshólum. Mynd: Sig.A.


Vilhjálmur á enn tvö ágrædd tré af Sniðgötubirkinu. Hvorugt hefur sýnt þetta vaxtarform með afgerandi hætti, þótt greinabyggingin sé önnur en á hefðbundnu birki.


Sniðgötubirkið er óneitanlega glæsilegt tré. Mynd: Sig.A.

Vel má vera að hægt væri að endurtaka þessar tilraunir norðan heiða og kanna hvort við gætum búið til norðlenskt slútbirki fyrir garða og skóga um norðanvert landið. Hér er tilvalið verkefni fyrir áhugasama ræktendur. Gallinn við slík verkefni er að oft kemur slútvöxturinn ekki í ljós fyrr en tréð hefur náð fullorðinsaldri. Svona þróunarvinna er því mjög tímafrek.


Þetta birkitré virðist vera yngra en margar bjarkir með slútandi vaxtarlag. Það er staðsett við Rauðumýri. Mynd: Sig.A.


Genaflæði

Þetta tré hefur öll einkenni ilmbjarkar, nema þessar hangandi greinar. Slíkt er þó ekki einsdæmi eins og að framan greinir. Vel má vera að hér sé að sjá áhrif genaflæðis milli hengibjarka og ilmbjarka. Að vísu dregur það úr líkum á genaflæði að ilmbjörkin er ferlitna en hengibjörkin tvílitna. Samt eru blendingar þessara tegunda til og þeir eru ekki alltaf ófrjóir. Frjó hengibjarka geta vel borist með sterkum vindum til Íslandsstranda frá Skandinavíu. Það má meðal annars sjá í Ársskýrslu NÍ árið 2006, bls. 21. Vilhjálmur hefur sagt undirrituðum frá því að Þorsteinn Tómasson hefur velt fyrirbærinu mikið fyrir sér og skoðað rannsóknir Margrétar Hallsdóttur á birkifrjói. (Vilhjálmur 2023). Ekki verður birkifrjóið greint til tegundanna í greiningum Margrétar og líklegt að frjósúpan sé einhver blanda.


Mynd úr skýrslu NÍ sem sýnir ferðalag loftmassa frá Rússlandi til Íslands og

tengsl hans við frjómælingar í Reykjavík. Veðurstofan reiknaði uppruna evrópska loftmassans sex daga aftur í tímann. Þær upplýsingar eru á myndinni tengdar frjómælingum Margrétar Hallsdóttur hjá NÍ.

Þorsteinn Tómasson telur að þetta sýni að genaflæðið milli ólíkra tegunda af birkiættkvíslinni er veðurfarslega hugsanlegt ef „gangmál“ birkis hér og á meginlandinu fara saman.


Fjalldrapinn á Íslandi er tvílitna eins og hengibjarkirnar og því er hugsanlegt að gen þeirrar síðarnefndu geti borist í fjalldrapa og þaðan í ilmbirkið með blendingum fjalldrapa og ilmbjarka. Kallast hann skógarviðarbróðir og er að jafnaði þrílitna. Þessa blöndu má skrá svona: (B. nana x B. pendula) x B. pubescence. Ekki er hægt að útiloka að frjó hengibjarka geti borist hingað á fengitíma fjalldrapa ef og þegar árferði leyfir. Við getum ekkert fullyrt um hve oft þetta gerist eða eftir hvaða leiðum erfðirnar berast í gegnum tegundir með mismunandi litningafjölda. Við vitum bara að frjóið getur borist hingað og að blendingar eru til.


Hengibjörkin Margrét hefur slútandi vaxtarlag. Umfjöllun um þetta tré má sjá hér. Getur verið að genaflæði frá hengibjörk valdið þessum vexti hjá ilmbjörkum? Mynd: Sig.A.


Í bók sinni, Genus Betula, taka Kenneth Ashburner og Hugh A. McAllister (2013) undir þessa tilgátu. Þeir benda á (bls. 307-308) að þótt blendingar ilmbjarka við annars vegar fjalldrapa og hins vegar hengibjarkar séu oft ófrjóir (eins og algengast er með blendinga) geta þeir stundum verið frjóir. Þannig geta eiginleikar þessara tegunda færst yfir í ilmbjarkir. Útbreiðsla hins slútandi vaxtarlags á hengibjörk er fyrst og fremst að finna norðarlega á norðvesturhluta útbreiðslusvæðis hennar, það er að segja í norður Evrópu. Þetta vaxtarlag sést líka hjá sumum ilmbjörkum á þessu sama svæði, en ekki austar. Þetta gæti bent til genaflæðis milli tegundanna (Ashburner & McAllister 2013). Vel má vera að þessi slútandi vöxtur hafi ekkert með genaflæði að gera, en það eykur vissulega líkurnar á genaflæði að arfgerðirnar finnast á nálægt hvor annarri.


Þess má til gamans geta að í þessari bók segja þeir félagar að sjálfur Linnaeus hafi ekki skilið á milli þessara tegunda og kallað þær B. alba (Ashburner & McAllister bls. 66 og 262). Það var að vísu í bók sem hann gaf út árið 1753 (Species Plantarum). Engu að síður sýnir það vel að tegundirnar eru skyldar.


Birki við Munkaþverárstræti sem hefur hangandi greinar. Mynd: Sig.A.


Gagn af slútvexti?

Vel má vera að þessi slútvöxtur hjálpi trjánum. Ef það er rétt má velta því fyrir sér af hverju þetta er ekki algengara en raun ber vitni. Hjá birki sést þessi vöxtur fyrst og fremst hjá trjám sem vaxa vestan til á norðurhluta Evrasíu þar sem vænta má mikilla snjóa. Því liggur beinast við að álykta að þetta sé aðlögun að snjóþyngslum. Það er einmitt tilgátan sem Vilhjálmur varpar fram hér í næsta kafla. Þetta er einnig sú tilgáta sem algengust er. En til eru tvær aðrar tilgátur sem rétt er að nefna.


Tré við Grænugötu með hangandi greinar alhrímað eftir frostþoku.

Mynd: Sig.A.


Barrtrjáasérfræðingurinn Aljos Farjon, sem skrifað hefur margar og merkar bækur, hefur bent á að þetta vaxtarlag má finna hjá greni á norðlægum slóðum. Rétt eins og hjá birkinu er almennt álitið að slútvöxturinn sé aðlögun að snjóþyngslum. Farjon hefur þó bent á að þetta vaxtarlag getur hugsanlega einnig verið aðlögun að ljósgjafa sem aldrei fer hátt á himininn á norðlægum slóðum. Lauf og barr greina sem hanga eiga ef til vill auðveldara með að nýta sólarbirtuna. Ef þetta er rétt kann það að eiga sinn þátt í þessari þróun. Hugsanlega þróast svona vöxtur til að auðvelda ljóstillífun. Hin tilgátan er sú að þetta hafi ekki neitt með norðlæga útbreiðslu að gera. Margar lirfutegundir éta birki. Flestar þurfa þær að klifra upp stofnana og út á greinarnar. Sigvarður Einarsson hefur sett fram þá tilgátu að þetta vaxtarlag geti gagnast trjánum í þeirri baráttu. Lirfurnar geti frekar misst fótanna á svona hangandi greinum enda sveiflast þær meira en aðrar greinar ef vindur leikur um krónurnar. Því sé að minnsta kosti hluti laufanna betur varinn fyrir afræningjum en á venjulegu birki. Vel má vera að eitthvað sé til í þessu og má benda á vaxtarlag grátvíðis sem dæmi. Hann hefur hangandi vaxtarleg en í hans tilfelli getur það hvorki verið aðlögun að snjóþyngslum eða lágri sólarstöðu. Grátvíðir vex ekki norðarlega á hnettinum. Sigvarður telur að ef til vill myndist þessi vöxtur frekar á þeim stöðum þar sem vindasamt getur verið.


Fagurt tré á fögrum degi. Mynd: Sig.A.


Tilgáta um uppruna

Eins og áður segir fékk Vilhjálmur aldrei neitt afgerandi svar um uppruna Sniðgötubirkisins. Hann lét samt ekki duga að spyrja í Skógræktarritinu. Hann ræddi þetta við suma af okkar helstu sérfræðingum eins og Sigurð Blöndal, Jóhann Pálsson, Þorstein Tómasson og fleiri.

Tilgáta Vilhjálms er sú að þetta vaxtarform á trjám í görðum á Akureyri sé komið af sérvöldum trjám í Vaglaskógi. Í garðinum við Munkaþverárstræti fékk Sniðgötubirkið gott atlæti og hlýja sumardaga og trúlega áburðarskammta framan af æfi. Því hefur trénu tekist að mynda þessa mögnuðu trjákrónu.


Horft upp í krónu Sniðgötubirkisins. Mynd: Sig.A.

Sem best gæti vaxtarformið hafa komið fram í snjóþungum skógum norðan heiða. Þetta gætu verið staðbundin viðbrögð og aðlögun af snjóþyngslum. Svona vaxtarform á birki er mun algengara norðan heiða en sunnan. Það styður að eitthvað í umhverfinu hér nyðra ýti undir tilgátuna.

Sá sem þetta ritar getur vel tekið undir þessa tilgátu. Hér og hvar um bæinn má sjá þetta vaxtarlag hjá birki og stöku tré í Vaglaskógi hafa það líka. Fá eru samt jafn glæsileg og Sniðgötubirkið sem stendur í garðinum við Munnkaþverárgötu 26.


Haustmynd úr Sniðgötu. Mynd: Sig.A.


Arfur Akureyrarbæjar

Þann 29. ágúst árið 2022 var stofnað til samtaka sem kallast Arfur Akureyrarbæjar. Dagsetningin var engin tilviljun. Daginn bar upp á 160 ára afmæli bæjarins. Helsta markmið samtakanna er að standa vörð um menningarminjar í bænum. Nánar má lesa um markmið félagsins á Facebooksíðu þess. Sá sem þetta ritar telur fulla þörf á að benda á sérstök tré í bænum sem vel geta talist til arfs Akureyrar og ber því að varðveita og verja. Þau eru hluti af bæjarlandslagi, sögu og menningu kaupstaðarins. Ef einstök tré í bænum eiga að njóta sérstakrar verndar er ljóst að Sniðgötubirkið ætti að vera þar á meðal. Þessa grein má því líta á sem innlegg til að vekja athygli á sögulegum verðmætum þessa trés fyrir nútíð og framtíð. Þannig fellur hún að markmiðum samtakanna.


Þakkir

Þeir sem lögðu orð í belg á Facebooksíðu Garðyrkjufélags Akureyrar er þakkað þeirra framlag, sem og starfsmönnum SÍ og NÍ sem sendu mér myndir. Sérstakar þakkir fær Vilhjálmur Lúðvíksson. Án hans hefði þessi pistill orðið þunnur þrettándi.


Vetrarmynd af Sniðgötubirkinu. Lítill snjór er í krónu þess nema á stærri greinum. Mynd: Sig.A.Heimildir:


Arfur Akureyrarbæjar. Facebooksíða samtakanna, sótt 12.03. 2023. Sjá: https://www.facebook.com/groups/623525656007097


Kenneth Ashburner & Hugh A. McAllister (2013): The Genus Betula. A Taxonomic Revision of Birches. Kew Publishing. Royal Botanic Gardens, Kew.


Álfheiður Ingadóttir, Birta Bjargardóttir og Snorri Baldursson (ritstj.) (2007) Ársskýrsla Náttúrfræðistofnunar Íslands 2006. Sjá: https://utgafa.ni.is/Arsskyrslur/NI_Arsskyrsla_2006.pdf


Vilhjálmur Lúðvíksson (1998): Tré ársins 1998. Í: Skógræktarritið 1998, Ársrit Skógræktarfélags Íslands bls. 20-21. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík. Vilhjálmur Lúðvíksson(2023) Samskipti með tölvupósti í febrúar 2023.384 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page