top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Beinvaxið leyndardómsbirki

Updated: Apr 10, 2023

Árið 2004 eða 2005 fór Sigríður Aðalsteinsdóttir, sem býr ásamt móður sinni í Oddeyrargötu 19, í Kjarnaskóg til að kaupa tvö tré. Þar hitti hún að máli þáverandi framkvæmdarstjóra félagsins, Johan Holst. Hún lýsti aðstæðum og hann ráðlagði henni að kaupa tvö birkitré af yrki sem kallast ´Embla´. Sigríður gerði eins og fyrir hana var lagt. Keypti tvö tré af félaginu, sem þá rak gróðrarstöðina í Kjarna, og fór með þau heim. Trén voru þá um 150 cm á hæð. Síðan hafa þessi tvö tré vaxið með miklum ágætum. Annað þeirra veljum við nú sem tré vikunnar.


Uppeldissysturnar tvær, snemma vors 2022. Þegar þau eru ekki að fullu laufguð sést vel hvað trén eru beinvaxin.


Hvar er tréð?

Þegar ekið er niður Oddeyrargötu sést tréð mjög vel. Það stendur neðan við húsið og ekkert skyggir á það frá götunni. Tréð er ótrúlega beint með hvítan og fallegan stofn. Það er ekki eitt af þessum gömlu, virðulegu trjám, heldur er það ungt og spengilegt. Það er enn í fullum vexti og getur glatt bæði gesti og gangandi í marga áratugi, enda eru innan við tveir áratugir frá því að því var plantað.


Horft upp eftir hvítum stofni trésins áður en það er að fullu laufgað. Vel má sjá hversu beint tréð er.


Bergsteinn Þórsson, starfsmaður félagsins, gerði sér ferð, ásamt formanni og stjórnarmanni, að trénu og mældi hæð þess. Reyndist vera 9,1 metri á hæð. Það hefur þá stækkað um 7,6 metra, eða þar um bil, á 17 eða 18 árum, eða um meira en 40 cm á ári að meðaltali.



Undanfarin ár hefur birkiþéla lagst á birkitré seinnipart sumars. Tré vikunnar hefur ekki sloppið, eins og sjá má. Óvíst er hversu lengi tré geta staðist svona áföll. Við vonum að þetta ár verði skárra hvað þetta varðar en hið síðasta. Nánar má lesa um þennan ófögnuð hér.


Yrkið ´Embla´

Árið 1985 stofnuðu nokkrir áhugamenn um kynbætur trjáa með sér óformlegan félagsskap sem kallast Gróðurbótafélagið. Aðal sprautan í þessu félagi er Þorsteinn Tómasson sem manna mest hefur fengist við kynbætur á íslensku birki. Þessi félagsskapur tók að sér að finna fallegustu birkitrén á höfuðborgarsvæðinu. Valin voru tré með einn meginstofn, heppilega greinabyggingu, ljósan barkarlit og góðan vöxt. Þessum efnivið var safnað saman og kynbótastarfið hófst. Einkum fór það fram í Gróðrarstöðinni Mörk. Afkomendur þessara trjáa ganga undir yrkisheitinu ´Embla´. Allt fræ af Emblu er fengið af þessum sérvöldu trjám og þau eru látin æxlast innbyrðis í sérstöku gróðurhúsi. Rétt er að taka það fram að ef fræ er tekið af Emblubirki úti í garði er ómögulegt að vita hvert faðernið er. Slíkt birki uppfyllir ekki skilyrði þess að vera kallað ´Embla´ þótt þau geti orðið ljómandi falleg. Þegar ræktun á Emblu hófst var hugmyndin að búa til fallegt birki sem hentað gæti á suðvestur horni landsins. Yrkið hefur þó verið margreynt víða um land og alls staðar kemur það vel út. Tréð til vinstri á myndinni hér að neðan er klárlega emblubirki. Hvort tré vikunnar er líka ´Embla´ er ekki alveg eins öruggt.


Bæði trén, hlið við hlið. Báðar eru þær glæsilegar en nokkuð ólíkar.


Tegundir

Íslenska ilmbjörkin, Betula pubescens, er eina tegund trjáa sem myndað hefur villta, samfellda skóga frá því að skógar tóki að vaxa hér á landi eftir að ísöld lauk. Ekkert tré er jafn algengt í skógrækt og ekki er neinu tré plantað í jafn miklu magni og birkinu. Við höfum skrifað nokkrar greinar um birki á heimasíðu SE og má finna þær hér. Til eru fleiri tegundir af birki. Má þar nefna fjalldrapa, Betula nana, sem er runni og blending þeirra tegunda sem hér var fjallað um. Allt finnst þetta villt á Íslandi.


Ilmbjarkir geta verið með hangandi greinar. Myndin fengin úr greininni sem vísað er í hér ofar.

Nokkrar tegundir af birki hafa verið fluttar inn til landsins. Mestum þroska af þeim trjám hafa steinbjarkir, Betula ermanii, og hengibjarkir náð. Kallast þær Betula pendula eða Betula verrucosa á latínu. Pendula merkir hangandi og á við um greinarnar, sem hanga gjarnan á eldri trjám. Hér er gott dæmi um það. Verrucosa vísar í það að tegundin er með áberandi litla hnúða, bólur eða vörtur á smágreinum. Frænka hennar, ilmbjörkin, er með hærða árssprota.

Mynstrið neðst á stofninum er dæmigert fyrir hengibjarkir. Með auknum aldri stækkar þetta mynstur og færist þá ofar á stofninn.


Neðsti hluti ilmbjarkarinnar við hlið okkar trés er öðruvísi. Það ber hinn hvíta lit sem sóst er eftir hjá yrkinu ´Emblu´.

Tré vikunnar hefur ýmiss einkenni hengibjarkar, frekar en ilmbjarkar. Að vísu eru greinarnar ekki farnar að hanga, en þær hanga ekki hjá öllum kvæmum og fyrst og fremst hjá eldri trjám. Að auki eru til ilmbjarkir sem hafa hangandi greinar eins og sjá má hér. Aftur á móti er svipmót allt miklu líkara hengibjörk en ilmbjörk. Barkarliturinn passar vel við hengibjörk og neðst á stofninum er mynstur sem er nokkuð dæmigert fyrir þá tegund. Laufblöð hengibjarka og ilmbjarka eru ekki eins. Laufin á þessu tré eru miklu líkari hengibjörk en ilmbjörk. Er þetta þá ekki bara hengibjörk? Nei, svo er sennilega ekki. Það vantar vörturnar! Að minnsta kosti er þetta ekki dæmigerð hengibjörk.


Hvaða tegund er þetta?

Þetta tré var keypt og gróðursett sem ilmbjarkaryrkið ´Embla´. Hitt tréð er klárlega ´Embla´ en þetta tré líkist miklu meir hengibjörk en ilmbjörk, nema hvað vörturnar vantar á árssprotana. Líklegt er að einhvers staðar í ræktunarferlinu hafi eitthvað ruglast og þetta sé ekki ´Embla´. Engin lýsing á þeim birkitegundum sem reyndar hafa verið hér passa við þessa lýsingu. Því er með öllu óvíst hvaða tegund af birki hér er um að ræða. Þetta gæti verið ódæmigerð hengibjörk. Einnig er hugsanlegt að hér sé um einhvern blending að ræða. Hvernig á þessu stendur er okkur hulin ráðgáta. Tré vikunnar er sannkallað leyndardómsbirki. Við getum þó reynt að nota erfðafræðina til að skoða þetta ögn nánar.

. Litningafjöldi og blendingar

Sýnt hefur verið fram á að ættkvíslir trjáa standa saman af skyldum tegundum. Þær geta verið mismunandi mikið skyldar og haft mismunandi litningafjölda en grunnfjöldinn innan hverrar ættkvíslar er að jafnaði sá sami. (Sumar ættkvíslir trjáa geta reyndar haft mismunandi grunnfjölda litninga. Sem dæmi ná nefna að innan víðiættkvísarlirnnar, Salix spp. þekkjast þrjár grunntölur. Víðitegundir geta haft litningafjölda sem er margfeldi af 11, 12 eða 19.) Í tilfelli birkiættkvíslarinnar (Betula) er grunnfjöldinn alltaf 14 litningar. Það merkir að talan 14 gengur upp í litningafjöldann hjá öllum tegundum birkis. Lágmarksfjöldi litninga í birki er 14 litningar frá hvoru foreldri um sig. Það gefur lágmark upp á 28 litninga. Til að lýsa litningafjölda trjáa eru stundum notuð fræðiheiti sem segja til um hversu oft grunnfjöldinn kemur við sögu. Hér eru erlend fræðiheiti notuð ásamt íslenskum þýðingum. Í okkar sögu koma þrjú hugtök fyrir. Það eru: diploid eða tvílitna (með tvisvar sinnum fjórtán = 28 litninga), tetraploid eða fjórlitna (með fjórfaldan grunnfjölda = 56 litninga) og svo triploid eða þrílitna (með þrefaldan grunnfjölda = 42) Triploid eru blendingar hinna tveggja og fá þá 14 og 18 litninga frá sýnum foreldrum. Það gefur 42 litninga. Slíkir belndingar ættu ekki að vera frjóir. Innan ættkvíslarinnar þekkist enn meiri fjöldi, allt upp í dodecaploid sem merkir tólflitna Það gefur okkur fólffaldan grunnfjöldi eða 12x14 = 168 litningar. (Ashburner & McAllister 2013).

Ashburner og McAllister gáfu út stórfróðlega bók árið 2013 um birki (sjá heimildaskrá). Þeir segja að náskyldar tegundir, sem hafa sama litningafjölda, séu líklegar til að eignast saman frjó afkvæmi. Tegundir með ólíkan litningafjölda eru mun ólíklegri til að eignast saman frjó afkvæmi, jafnvel þótt þær séu náskyldar (bls. 37). Þeir benda á rannsóknir sem styðja þetta, t.d. frá Tyrklandshluta Kákasusfjallanna. Þar vaxa fimm tegundir af birki sem hver um sig hefur sinn litningafjölda. Engin dæmi eru staðfest um að þær myndi kynblendinga. Það er þó ekki óþekkt fyrirbæri að tegundir blandist saman þvert á þessa meginreglu. Við þekkjum vel að ilmbirkið (B. pubescens) og fjalldrapi (B. nana) geta myndað frjóa kynblendinga en þessar tegundir hafa ekki sama litningafjölda. Fjalldrapinn er tvílitna tegund með 2N=2X=28 litninga á meðan ilmbjörkin er fjórlitna tegund með 2n=4x=56 litninga. Það sem er óvenjulegt við þennan blending er að hann getur verið frjór. Þannig getur erfðaflæði átt sér stað frá fjalldrapa yfir í birki eins og við þekkjum á Íslandi.


Hengibjörkin hefur sama litningafjölda og fjalldrapinn (28 litningar). Það er þekkt, þótt ekki sé það algengt að hengibjörkin geti myndað blendinga með ilmbjörkinni. Þeir blendingar eru oftast ófrjóir eða lítt frjóir, en ekkert er vitað um fræmyndun á okkar leynibirki. Þessir blendingar eru þrílitna 2N=3X=42 (14+28) litninga. (Ashburner & McAllister 2013).



Hvaðan kemur svona vaxtarlag inn í venjulegt, íslenskt ilmbirki?


Fyrst við erum farin að tala um litningafjölda má geta þess að birkifrjó geta borist mjög langt með vindi. Má vel vera að birkifrjó frá Evrópu berist hingað reglulega og hafi áhrif á íslenskt birki. Má vera að það sé ástæða þess að villt birki er að jafnaði hærra um austanvert landið en vestanvert. Vel má vera að frjó af hengibjörk berist hingað reglulega en vanti þá heppilegan móttakanda þar sem tegundin vex ekki villt hér á landi. Aftur á móti getur verið að frjóið lendi á fjalldrapa og komi þannig erfðum sínum í litlum mæli yfir í genamengið. Fjalldrapi og hengibirki hafa sama litningafjölda. Svo getur erfðaefnið borist í ilmbirkið í gegnum skógarviðarbræður. Hér er því varpað fram, án ábyrgðar, að hangandi greinar á ilmbjörk sem að öðru leyti ber öll einkenni ilmbjarkar, séu svona til komnar.


Þakkir og heimildir

Sigríði Aðalsteinsdóttur eru færðar okkar bestu þakkir fyrir upplýsingar um sögu trésins.


Kenneth Ashburner & Hugh A. McAllister (2013): The Genus Betula. A Taxonomic Revision of Birches. Kew Publishing. Royal Botanic Gardens, Kew.



Höfundur texta og mynda: Sigurður Arnarson



853 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page