top of page

Björk eða hengibjörk?

Updated: Jun 6, 2023

Á Íslandi eru fáeinar tegundir ræktaðar af birkiættkvíslinni (Betula) en innlendar teljast aðeins tvær tegundir. Það eru íslenska birkið, ilmbjörkin eða bara birki (Betula pubescens) og fjalldrapi (Betula nana). Hið síðarnefnda telst varla til trjáa en hið fyrrnefnda er uppistaðan í villtum skógum landsins og að auki víða ræktað í görðum. Einnig eru til blendingar þessara tegunda.


Á stöku stað má finna aðrar innfluttar tegundir. Algengust er sennilega hengibjörk (Betula pendula). Það kemur fyrir að ilmbjörkinni sé ruglað saman við hengibjarkir enda eru þær nokkuð líkar við fyrstu sýn. Þó er talsverður munur ef að er gáð. Lögun laufblaða er önnur og ilmbjarkir hafa hærða árssprota á meðan hengibjörkin er með litlar vörtur á sínum sprotum eins og fleiri tegundir af þessari ættkvísl. Að auki lyktar ilmbjörkin mun meira.


#TrévikunnarSE að þessu sinni er ilmbjörk á Eiðsvelli. Hún hefur þetta slútandi vaxtarlag sem einkennir margar hengibjarkir en er engu að síður ilmbjörk. Þið, lesendur góðir, getið gengið úr skugga um það með því að skoða ársprotana þegar tréð laufgast og þefa af laufinu.


Texti og myndir: Sigurður Arnarson.

162 views

Recent Posts

See All
bottom of page