Á Íslandi vaxa villtar tvær af þremur tegundum birkiættkvíslarinnar sem finnast í norðanverði Evrópu. Það eru birki (Betula pubescens) og fjalldrapi (Betula nana). Tegundirnar eru nokkuð ólíkar í útliti en skyldleikinn er engu að síður mikill. Hann er reyndar það mikill að svo virðist sem tegundirnar geti æxlast saman. Ávöxtur þessa ástarsambands er stundum nefndur skógviðarbróðir og er #TrévikunnarSE þessa vikuna. Þessi blendingur getur verið frjór og blandast því birki sem fyrir er. Slíkir blendingar hafa þá einn fjórða af erfðaefni fjalldrapa og þrjá fórðu hluta frá birkinu. Þannig hefur erfðaflæði orðið frá fjalldrapa yfir í birki á Íslandi.
Þar sem svona blendingar náskyldra tegunda verða til í heiminum eiga þeir sjaldnast mikla möguleika á framhaldslífi, jafnvel þótt þeir kunni að vera frjóir. Ástæðan er sú að hver tegund á sér sitt kjörlendi. Kjörlendi fjalldrapa og birkis er ekki endilega það sama. Blendingar eru því að jafnaði verr aðlagaðir umhverfisaðstæðum en báðir foreldrarnir. Ef umhverfinu er mikið raskað kann þetta þó að breytast. Án þess að farið verði nánar í þessa sálma að þessu sinni bendir margt til þess að við landnám hafi orðið slík röskun á vistkerfum að blendingarnir hafa átt töluverða möguleika fram yfir báða foreldranna. Það hefur auðveldað erfðaflæðið frá fjalldrapa yfir í birkið á Íslandi.
Í Dimmuborgum má sjá allskonar haustliti í birki. Hér gyllir sólin gula og rauða haustliti sem og allskonar blendinga þar á milli.
Fjalldrapi er að jafnaði margstofna, lítill runni með dökkar greinar og laufblöðin eru lítil, nær hringlótt og fá rauða haustliti. Þar sem birki vex án erfðaflæðis frá fjalldrapa er það einstofna tré með ljósgula haustliti og ljósan stofn. Hér á landi getur birki verið mun fjölbreyttara. Stofnarnir ýmist dökkir eða ljósir, stundum einn stofn og stundum margir og haustlitirnir geta verið allt frá rauðu yfir í gult. Allt bendir þetta til erfðaflæðis á milli tegundanna. Samkvæmt lögmálinu um aðskilnað litninga geta eiginleikar erfst óháð hver öðrum. Það er t.d. ekkert samband milli háralitar og gáfnafars, svo dæmi sé tekið. Því geta blendingarnir verið allskonar.
Myndirnar sem hér birtast sýna þennan breytileika í haustlitum. Hér má fræðast meira um þessa blendinga.
Fremst er runnakennt birki með rauðum haustlitum. Þar í kring má sjá gula haustliti og aðeins annað vaxtarlag. Myndin tekin í Dimmuborgum.
Gylltir haustlitir á hvítstofna birki við Mývatn. Fjalldrapinn (til hægri við tréð frá okkur séð) er að mestu orðinn lauflaus en enn má sjá þar rauða liti.
Skógviðarbræður í Mývatnssveit. Sennilegt er að allt öðruvísi skógur hafi vaxið hér við landnám en nú má sjá.
Gulir og rauðir haustlitir í birki benda til erfðaflæðis frá fjalldrapa yfir í birkið.
Í Dimmuborgum er fróðlegt að skoða mismunandi vaxtarlag, barkarlit og haustliti.
Rauðir og gulir haustlitir í birki.
Heiðgulir haustlitir birkis með hvítan stofn. Sennilega hverfandi erfðaefni frá fjalldrapa. Myndin tekin í Lystigarðinum.
Birkiskógur með gula haustliti. Lyngið sér um rauðu litina.
Gulir haustlitir. Stofnar nokkuð beinir.
Þrír eða fjórir klónar birkis austur í Skriðdal. Hæð, stofnlitur og lauflitur er misjafn. Að auki er misjafnt hvenær klónarnir laufgast og missa lauf. Fremst á myndinni eru ungar, sjálfsánar plöntur. Þær munu keppa um vaxtarrými og náttúruvalið mun velja þá einstaklinga sem standa sig best.
Þetta runnakennda birki, í Víkurskarði, hefur gula haustlitil Vaxtarlagið gæti bent til erfðaflæðis frá fjalldrapa en haustlitirnir staðfesta það ekki.
Texti og myndir: Sigurður Arnarson
Comments