top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Blágreni á Íslandi

Danski skógfræðingurinn Christian E. Flensborg dvaldist á Íslandi öll sumur frá 1899 til 1906 og lagði grunn að trjá- og skógrækt víða um land. Enn eru víða til tré sem Flensborg kom í jörðu. Þar á meðal eru fyrstu blágrenitrén sem hann plantaði á Íslandi. Þeim var plantað í Mörkina á Hallormsstað vorið 1905. Því eru liðin 120 ár frá því fyrsta blágreninu, Picea engelmannii, var plantað á Íslandi.

Þetta er annar afmælispistill okkar um blágreni. Sá fyrri var almennt um tegundina en í þessum pistli skoðum við sögu blágrenis á Íslandi.

Fyrsta blágrenitrénu á Íslandi var plantað árið 1905. Var það jafnframt fyrsta grenitréð sem plantað var á Hallormsstað. Tegundin á því 120 ára afmæli á Íslandi. Það má gjarnan slá í pönnukökur að minna tilefni. Mynd: Þór Þorfinnsson.
Fyrsta blágrenitrénu á Íslandi var plantað árið 1905. Var það jafnframt fyrsta grenitréð sem plantað var á Hallormsstað. Tegundin á því 120 ára afmæli á Íslandi. Það má gjarnan slá í pönnukökur að minna tilefni. Mynd: Þór Þorfinnsson.

Upphaf ræktunar á Íslandi

Fyrsta gróðursetning þessarar tegundar var í Mörkinni á Hallormsstað árið 1905 (Ásgeir 1989, Sigurður 2006) og verða því elstu blágrenitré landsins 120 ára gömul nú í sumar. Að sögn Baldurs Þorsteinssonar (1990) er ekki ljóst hvort þetta eru tré sem flutt voru inn frá Jótlandi 1905 eða hvort þau eru úr sáningu frá 1903 sem plantað var tveimur árum síðar. Almennt er þó talið að hið fyrrnefnda sé rétt. Ef svo er var það Christian E. Flensborg sem kom með trén til landsins. Það er að minnsta kosti skráð að hann kom með fáeina tugi plantna frá Danmörku og gróðursetti í Mörkina, skammt frá gróðrarstöðinni, í júní 1905 að sögn Sigurðar Blöndal (2006) og Þórs Þorfinnssonar (2025).

Hvort heldur sem er telst sennilegt að fræið hafi komið frá Kólóradó þar sem foreldrarnir uxu í um 3000 metra hæð. Það er þó ekki vitað með fullri vissu. Svo vill til að langmest af því fræi sem síðan hefur borist hingað er einmitt sótt í háfjöll þessa ríkis.

Elstu og hæstu blágrenitré Íslands eru jafnframt fyrstu barrtrén sem plantað var á Hallormsstað árið 1905. Trén hafa öll náð yfir 20 metra hæð. Í fyrri pistli okkar um blágreni má sjá fleiri myndir af þessum trjám. Mynd: Þór Þorfinnsson.
Elstu og hæstu blágrenitré Íslands eru jafnframt fyrstu barrtrén sem plantað var á Hallormsstað árið 1905. Trén hafa öll náð yfir 20 metra hæð. Í fyrri pistli okkar um blágreni má sjá fleiri myndir af þessum trjám. Mynd: Þór Þorfinnsson.

Árið 1946 voru tíndir könglar af þessum trjám í fyrsta skipti og Baldur Þorsteinsson (1990) segir að það hafi verið í fyrsta skipti sem trén báru fræ. Síðan hafa þessi tré borið fræ nokkrum sinnum enda er blágreni almennt talið frekar frjósamt þótt aðrar grenitegundir hafi reynst frjósamari á Íslandi. Árið 1969 gáfu þessi tré svo mikið fræ að af þeim voru nærri 9 þúsund plöntur gróðursettar á Hallormsstað (Sigurður 2006).


Myndir sem Lilja Sigríður Jónsdóttir tók af afkomendum trjánna í Mörkinni 3. febrúar 2025. Myndirnar tók hún af stíg sem liggur frá Mörkinni upp að Fjósakambi á Hallormsstað, en þar ólst hún upp í skjóli trjánna.


Afkomendur blágrenisins í Mörkinni er nú að finna víða um land og á Hallormsstað eru allmargir reitir gróðursettir af trjáplöntum sem uxu upp af fræi gömlu trjánnna. Má nefna sem dæmi að neðan við Fjósakamb á Hallormsstað er sérlega fallegur lundur sem vaxinn er upp með þessum hætti. Myndir úr þeim reit eru hér að ofan. Sumir telja að greinarnar séu meira slútandi en á hinu algenga kvæmi Rio Grande. Ef til vill stafar það af því að grenið sé upprunnið frá snjóþyngra svæði. Best sést þetta þegar snjór lendir á greinunum (Jón Kr. 2025).

Skógræktandinn Skúli Björnsson tók þessar myndir af pallinum við hús sitt við Fjósakamb á Hallormsstað snemma árs 2025. Þessi tré eru afkomendur trjánna í Mörkinni sem gróðursett voru árið 1905. Grenið sem er í bakgrunni vinstra megin við breiða tréð er sitkabastarður. Blágreni hægra megin var gróðursett 1976. Myndirnar tók Skúli með tveggja daga millibili. Þær sýna ágætlega hvernig trén sveigjast undan snjó.


Það hefur vakið athygli margra að þessi gömlu tré, sem standa á Mörkinni í Hallormsstað, hafa nýtt sér svokallaða sveiggræðslu til fjölgunar. Það virkar þannig að neðstu greinarnar, sem liggja þétt við jörðu, hafa slegið rótum og upp vaxa nýir stofnar af sömu rót. Við sögðum nánar frá þessari aðferð til fjölgunar blágrenis í fyrri pistli okkar. Að þessum trjám liggur göngustígur en til að sjá sveiggræðsluna þarf að ganga bak við trén. Þar nær krónan niður að jörðu. Þegar kemur að því að þessi tré drepast úr elli, eftir nokkur hundruð ár, verða þessir nýju stofnar orðnir að myndarlegum trjám.


Þrjár myndir sem Samson Bjarnar Harðarson tók 25. mars 2025. Þær sýna hvernig neðstu greinar trjánna geta lagst að jörðu og skotið rótum. Það kallast sveiggræðsla. Eins og sjá má spretta upp nýir stofnar þegar þetta gerist. Þeir geta tekið við þegar gömlu trén falla úr elli.


Eftir árið 1905 varð nokkurt hlé á ræktun þessarar tegundar hér á landi. Það var ekki fyrr en árið 1936 sem ræktun tegundarinnar hófst fyrir alvöru á Íslandi (Ásgeir 1989). Árið 1937 bárust að Hallormsstað einar 50 plöntur frá Norður-Noregi. Fræið þaðan kom frá Arapaho-þjóðgarðinum í Kólóradó (Sigurður 2006).

Það mætti halda að blágreni hafi lent utan við radarinn hjá skóg- og trjáræktendum lengi vel. Má sem dæmi nefna að á vegum Skógræktarfélags Eyfirðinga var ekki plantað neinu blágreni fyrr en árið 1956. Við vitum ekki um eldra blágreni í gjörvöllum Eyjafirði.

Blágreni á Hólmsheiði haustið 2024. Mynd: Samson Bjarnar Harðarson.
Blágreni á Hólmsheiði haustið 2024. Mynd: Samson Bjarnar Harðarson.

Kóngurinn og Drottningin

Eins og búast má við hefur verið fylgst nokkuð vel með elstu blágrenitrjánum á Íslandi, þar sem þau standa keik í Mörkinni á Hallormsstað. Þór Þorfinnsson, skógarvörður, sendi okkur upplýsingar sem við nýtum í þessum kafla. Eru honum hér með færðar okkar bestu þakkir fyrir upplýsingarnar.

Eins og áður greinir var fyrstu blágreniplöntunum plantað í júní árið 1905. Fyrst voru þarna nokkrar plöntur, en smám saman hefur þeim fækkað. Árið 1964 voru þær níu að tölu og sama tala er skráð árið 1969. Þegar Sigurður Blöndal skrifaði um þessi tré árið 2006 stóðu fimm tré eftir. Nú standa fjögur tré eftir. Tvö af þessum trjám hafa sérstök sérnöfn. Heita þau Kóngurinn og Drottningin. Kóngurinn hlaut nafn sitt af því að hann óx mest allra þessara trjáa en Drottningin var krónufegursta tréð. Enn þann dag í dag er Drottningin fegurst þessara trjáa. Því miður gerðist það fyrir góðum áratug að um 4-7 metra toppur brotnaði af Kónginum í bleytusnjó og hvassviðri. Má segja að þá hafi Kóngurinntapað kórónunni og hann er því ekki hæstur í dag. Drottningin hefur náð honum eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.

Mæling sem skógarvörðurinn Þór Þorfinnsson gerði 9. janúar 2025.
Mæling sem skógarvörðurinn Þór Þorfinnsson gerði 9. janúar 2025.

Margt vekur athygli í þessari töflu. Fyrir það fyrsta hafa öll trén náð 20 metra hæð en eftir að Kóngurinn brotnaði er hann lægsta tréð í lundinum. Nú ber Drottningin af á allan hátt. Þvermál stofnsins er orðið það mikið að hinn hefðbundni klafi, sem notaður er til að mæla breidd trjástofna, dugði ekki til. Þór þurfti því að fara upp á loft og sækja gamla klafann hans Guttorms Pálssonar (1909-1955) til að mæla tréð. Reyndist hann prýðilega.

Klafinn sem skógarvörðurinn á Hallormsstað notar oftast til trjámælinga dugði ekki til að mæla þvermál stofnsins á Drottingunni. Því þurfti hann að ná í gamla klafann hans Guttorms Pálssonar.
Klafinn sem skógarvörðurinn á Hallormsstað notar oftast til trjámælinga dugði ekki til að mæla þvermál stofnsins á Drottingunni. Því þurfti hann að ná í gamla klafann hans Guttorms Pálssonar.

Eldri mælingar

Þessi tré í Mörkinni voru um tíma hæstu tré á Íslandi en nokkrar aðrar tegundir hafa nú náð þeim fyrir nokkru og tekið fram úr þeim. Blágrenið á þó eflaust eftir að vaxa í að minnsta kosti eina til tvær aldir áður en það fer að hægja verulega á hæðarvexti. Svo getur það lifað í um tvær aldir eftir það án þess að bæta miklu við hæðarvöxtinn. Þór Þorfinnsson (2025) sendi okkur þær upplýsingar að árið 1929 var hæsta tréð 3,6 m á hæð og árið 1961 hafði það náð 10,2 m. Ásgeir Svanbergsson (1989) sagði í bók sinni að 1983 hefði eitt þessara trjáa verið 16,4 m á hæð. Þá var það að sjálfsögðu hæsta blágreni á Íslandi eins og þessi tré hafa alltaf verið. Til samanburðar voru hæstu sitkagrenitrén um 15 metrar á sama tíma og hæstu rauðgrenitrén voru um 14 metrar á hæð, samkvæmt Ásgeiri. Rauðgrenið og blágrenið voru álíka gömul, en sitkagrenið töluvert yngra. Áður en öldin var öll höfðu sitkagrenitré tekið fram úr blágreninu og þannig er staðan núna.


Reynsla á Íslandi

Villt blágreni vex til fjalla í heimkynnum sínum og hvergi nærri sjó. Því þarf ekki að koma á óvart að á Íslandi vex það betur inn til landsins á Norður- og Austurlandi en nær sjávarsíðunni. Vel er hægt að rækta blágreni víða um Ísland en þó síst í lágsveitum á Suður- og Vesturlandi (Pétur 2023). Samt er það svo að víða eru til falleg eintök af blágreni sem vaxa í sjávarplássum um landið. Helst er það á stöðum þar sem umhleypingar eru fágætir og inni á fjörðum er ekki endilega víst að saltstormar af hafi séu tíðir. Sennilega er það nær alltaf kvæmi sem við köllum Rio Grande sem þolir þessa staðsetningu. Það kvæmi er samt ættað úr háfjöllum eins og annað blágreni. Narfi Hjartarson (2024) fræddi okkur á því að við æskuheimili hans að Aðalstræti 17 á Patreksfirði yxi blágreni á sjávarkambi og sjórinn seytlaði bókstaflega rétt undir því á flóði. Samt þrífst það þarna prýðilega.

Þetta blágreni vex á Hólmavík nokkuð nærri opnu hafi. Mynd: Narfi Hjartarson árið 2021.
Þetta blágreni vex á Hólmavík nokkuð nærri opnu hafi. Mynd: Narfi Hjartarson árið 2021.

Eins og annað greni nær blágreni bestum þroska í frjóu og sæmilega röku landi. Það getur einnig náð þokkalegum þroska þótt jarðvegur sé þurr og nokkuð rýr en þá vex það töluvert hægar eins og sagt er frá í fyrri pistli okkar um tegundina. Varast skyldi að planta blágreni í rýra lyngmóa. Reynslan sýnir slæman árangur í slíku landi (Pétur 2023). Þó má bæta skilyrðin á slíkum svæðum með jarðvinnslu.

Þessi blágreniþyrping, sem plantað var í hljóðmön á Akureyri, sýnir vel hvað aðgengi að vatni skiptir miklu máli fyrir vöxt grenitrjáa. Brekkan er þurrari eftir því sem ofar dregur og það sést vel á vexti trjánna. Mynd: Sig.A.
Þessi blágreniþyrping, sem plantað var í hljóðmön á Akureyri, sýnir vel hvað aðgengi að vatni skiptir miklu máli fyrir vöxt grenitrjáa. Brekkan er þurrari eftir því sem ofar dregur og það sést vel á vexti trjánna. Mynd: Sig.A.

Rétt er að nefna þrjú atriði sem tengjast því að blágreni er háfjallatré og hafa áhrif á það hvernig og hvar hægt er að rækta það á Íslandi. Hið fyrsta er að trén eru að jafnaði mjög frostþolin. Svo virðast þau þurfa minni sumarhita en flestar aðrar grenitegundir á Íslandi til að ná viðunandi vexti. Það er eiginleiki sem lítið hefur verið nýttur. Ef til vill má planta blágreni hærra í fjallshlíðar en öðru greni og fá ásættanlegan vöxt. Furðu sætir hversu sjaldan þetta hefur verið reynt.

Þriðja atriðið er að blágreni hefur ekki þróast til að þola umhleypinga á vorin. Þess vegna er því hætt við að hefja vöxt of snemma ef hlýnar of mikið síðla vetrar eða snemma vors. Getur það leitt til kals. Þetta er vitanlega algengara nærri sjó þar sem veðrið er með þeim hætti. Þetta er meginástæða þess að minna er ræktað af blágreni í lágsveitum sunnan- og vestanlands en í öðrum landshlutum. Þó ber að nefna að blágreni er víða mjög fallegt í upplöndum á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Meðal annars eru nokkur glæsileg tré í Mosfellsbæ.

Blágreni af óþekktu kvæmi í Hamrahlíð í Mosfellsbæ. Gróðursett nálægt aldamótum. Mynd: Samson B. Harðarson.
Blágreni af óþekktu kvæmi í Hamrahlíð í Mosfellsbæ. Gróðursett nálægt aldamótum. Mynd: Samson B. Harðarson.

Nytjar

Vaxtarhraði blágrenis er fremur hægur. Hann er ekki ósvipaður og hjá hinu evrópska rauðgreni. Hér á landi vex blágreni mun hægar en sitkagreni sem er algengasta grenitré í ræktun á Íslandi. Það gerir að verkum að trén verða þétt og falleg en þar með henta þau líka síður til skógræktar ef markmiðið er mikill vöxtur og viðarmassi. Aftur á móti hentar þessi vöxtur þeim mun betur í görðum og til skrauts í skógum. Má segja að það séu aðalnytjar þessa trés. Þau fegra umhverfið í stórum görðum, almenningsrýmum og í útivistarskógum. Þétt og fallegt vaxtarlag getur einnig hentað vel í ræktun jólatrjáa.

Óþarfi ætti að vera að rugla saman rauðgreni og blágreni. Mynd: Sig.A.
Óþarfi ætti að vera að rugla saman rauðgreni og blágreni. Mynd: Sig.A.

Vaxtarhraðinn gerir að verkum að sitkagreni og blendingar þess eru meira ræktaðir en blágreni. Aftur á móti er það svo að hægvaxta tré geta myndað verðmætari og þéttari við en þau sem vaxa hratt. Eftir því sem trén vaxa hægar, þeim mun mjórri eru árhringirnir og viðurinn þar með þéttari. Því má búast við að blágreni verði áfram ræktað í skógum landsins og að viður þess verði nýttur í framtíðinni sem úrvalsviður. Samt verður að teljast líklegt að tegundin haldi áfram að standa í skugganum af sitkagreni, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Að sögn Sigurðar Blöndal (2006) er helsti gallinn við viðinn sem blágreni myndar sá að hann getur verið nokkuð kvistóttur. Ástæðan er sú að greinarnar standa lengi á stofninum. Ef blágreni er ræktað til viðarframleiðslu getur verið gott að afkvista trén með því að saga neðstu greinarnar af.

Árlega birtast ýmsar tölur um gróðursetningar, trjáplöntuframleiðslu og umhirðu skóga í seinna hefti Skógræktarritsins. Þar má sjá að gróðursetning blágrenis í hefðbundinni skógrækt hefur verið hverfandi hin síðari ár. Má nefna sem dæmi að í seinna heftinu frá 2024 er tegundin ekki nefnd á lista yfir plöntuð skógartré. Aftur á móti er blágreni ræktað í garðyrkjustöðvum fyrir almennan markað. Blágreni sómir sér vel í garðrækt og er víða ræktað við sumarbústaði, í minni trjáreitum og í almenningsrýmum, enda er það að jafnaði mjög fallegt ef það þrífst á annað borð. Það er snoturt tré og þótt það sé heldur hægvaxta fyrir timburframleiðslu og sumum þyki sum trén helst til krónumjó sem jólatré er það fallegt tré sem getur verið til mikillar prýði í görðum, á almenningssvæðum í þéttbýli og innan um aðrar tegundir í skógum. Tegundin er einnig upplögð til að auka fjölbreytni á skógarsvæðum og mýkja ásýnd skógarjaðra.

Þétt og fallegt blágrenitré í garði á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Þétt og fallegt blágrenitré í garði á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Styrkleikar

Rétt er að taka saman helstu styrkleika tegundarinnar í lok almennrar umfjöllunar um ræktun blágrenis á Íslandi. Fyrst ber að nefna að það hefur töluvert frostþol og lýkur vexti það snemma að haustkal er nánast óþekkt hjá tegundinni.

Ef tréð þrífst á annað borð er það formfagurt og með fallega blátt barr sem lífgar upp á umhverfið og skapar gott skjól og fallegan bakgrunn fyrir annan gróður. Það gerir að verkum að tréð getur hentað prýðilega í garðrækt og til skrauts í skógum og almenningsrýmum svo dæmi séu tekin.

Þar sem blágreni þarf stutt sumar til að þrífast og getur vaxið við nokkuð lágan sumarhita má rækta það hærra yfir sjávarmáli en annað greni. Á það hefur lítið verið látið reyna hingað til en þó finnast þess dæmi. Má nefna að í Eyrarteigi í Skriðdal var plantað blágreni í suma af efstu reitum skipulagðrar skógræktar. Þar óx blágrenið ekkert síður en neðar í brekkunum þegar síðast var gáð.

Eins og annað greni vex blágreni best í frjóu landi en það getur vel vaxið í rýrara og þurrara landi. Það má nýta sér þann eiginleika í garðrækt, því hægvaxta blágreni er oftast þéttara en hraðvaxta greni.

Að lokum má nefna að blágreni hentar vel sem jólatré en þótt því haldist betur á barrinu en rauðgreni þarf að gæta vel að vökvun heima í stofu yfir hátíðarnar. Nánar um það síðar.

Blágreni í fremur litlu beði í garði á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Blágreni í fremur litlu beði í garði á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Sveppasýking

Um sunnanvert landið herjar sjúkdómur einn sem heitir greniryð eða Chrysomyxa abietis. Þetta er sveppur leggst á árssprota sumra grenitegunda og þar á meðal er blágreni. Sveppurinn hefur fundist víðar, svo sem á Norðurlandi, en veldur þar mun minna tjóni. Af einhverjum ástæðum, sem eru öldungis ókunnar, leggst sveppurinn ekki á aðrar amerískar tegundir. Aftur á móti leggst hann á rauðgreni, sem talið er nokkuð skylt blágreni. Það verður þó að teljast merkilegt að sveppurinn skuli ekki leggjast á rauðgreni úr Ölpunum, heldur á rauðgreni frá Noregi. Af hverju sveppurinn hagar sér svona er ein af fjölmörgum óleystum gátum líffræðinnar.

Tvær myndir af rauðgreni sem ættað er frá Noregi og gróðursett var á Suðurnesjum. Sjá má að greniryð hrjáir trén. Einkennin geta verið svipuð þessu þegar sveppurinn leggs á blágreni. Myndir: Ingvar Åberge.
Tvær myndir af rauðgreni sem ættað er frá Noregi og gróðursett var á Suðurnesjum. Sjá má að greniryð hrjáir trén. Einkennin geta verið svipuð þessu þegar sveppurinn leggs á blágreni. Myndir: Ingvar Åberge.

Jólatré

Ýmis kvæmi blágrenis geta hentað prýðilega sem jólatré. Litur trjánna er fallegur og það er barrheldnara en rauðgreni, sem sumir líta á sem hið eina sanna jólatré. Blágreni er samt hvorki jafnbarrheldið og furur né þinir, en ef rétt er að staðið og tréð ekki látið þorna heldur það barrinu alveg prýðilega. Tréð vex að jafnaði fremur hægt og það leiðir til þess að jólatrén verða þétt og falleg.

Sum kvæmi blágrenis eru mjög grannvaxin og sumum þykir það ljóður á jólatrjám. Það þarf þó ekki að vera. Grönn jólatré taka minna pláss en breiðvaxin og mjóar krónur geta verið kostur ef plássið er ekki mjög mikið. Það verður því að telja smekksatriði hvort mjó króna telst vera kostur eða galli. Svo eru önnur kvæmi sem eru ekki eins grönn framan af ævinni og þau geta vel hentað sem jólatré handa þeim sem vilja þannig löguð tré í stofur sínar.

Jólatrjáaakur í Kristnesi í Eyjafjarðarsveit. Kvæmið er Rio Grande. Mynd: Helgi Þórsson.
Jólatrjáaakur í Kristnesi í Eyjafjarðarsveit. Kvæmið er Rio Grande. Mynd: Helgi Þórsson.

Því miður hefur það gerst að hvítgreni, eða blendingar hvítgrenis og blágrenis sem nefndir voru í fyrri pistli, hafa verið seldir sem jólatré. Sum þeirra bera hinn bláa lit sem gerir trén eftirsóknaverð, en því miður fylgir þessum trjám lykt sem stundum einkennir hvítgreni. Mörgum þykir hún óþægileg í þröngum rýmum stássstofunnar. Því hefur jafnvel verið haldið fram að hún minni á lyktina af kattarhlandi. Hreint blágreni hefur ekki þessa vondu lykt. Þvert á móti lyktar það ljómandi vel. Það er því alveg óþarfi að hræðast blágreni af þeim sökum. Það hefur einfaldlega verið haft fyrir rangri sök.

Það kvæmi sem er vinsælast til jólatrjáaframleiðslu á Íslandi er tvímælalaust Rio Grande. Það er blátt, þétt og mjög heppilegt sem jólatré.

Kvæmið Rio Grande fær gjarnan fjólubláan blæ þegar brumin opnast. Mynd: Kristján Friðbertsson.
Kvæmið Rio Grande fær gjarnan fjólubláan blæ þegar brumin opnast. Mynd: Kristján Friðbertsson.

Í Bandaríkjunum er blágreni vinsælt jólatré. Það er næstalgengasta tegundin til að vera nýtt í þeim tilgangi við Hvíta húsið í höfuðborg Bandaríkjanna og hefur verið valið ellefu sinnum frá því að þessi siður var tekinn upp árið 1964 (Earle 2024).

Blágreni í haustsól á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Blágreni í haustsól á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Helstu kvæmi

Samkvæmt fræskrá Skógræktarinnar, sem nú heitir Land og skógur, hafa fjölmörg kvæmi verið reynd á Íslandi. Þó er það þannig að aðeins örfá þeirra hafa verið flutt til landsins í einhverju magni. Bergsveinn Þórsson, skógfræðingur og starfsmaður Skógræktarfélags Eyfirðinga, tók saman meðfylgjandi töflur sem sýna hversu mikið hefur verið flutt inn af fræjum af hverju kvæmi fyrir sig. Fræskrárnar eru tvær og því eru þetta tvær myndir. Ef aðrir aðilar hafa flutt inn fræ kemur það ekki fram í töflunum.

Fyrri taflan sýnir hversu mikið var flutt inn af blágrenifræi frá 1933 til 1992. Seinni taflan sýnir magnið frá 1992 til 2018. Í töflunum sést einnig hvaðan fræið kom. Mest hefur komið frá Sapinero í Kólóradó eða samtals næstum 15,5 kg af fræi. Hin síðari ár hefur fræ frá Santa Fe og Rio Grande verið mest áberandi. Hér má skoða fræskrárnar nánar.


Í fyrri töflunni má sjá að kvæmi hafa verið flutt inn frá Bresku-Kólumbíu (Br. Col. á kortinu) og Alberta í Kanada. Kvæmin eru efst í töflunni. Þetta eru kvæmi sem heimamenn kölluðu innlandsgreni (e. Inland spruce) og er álitið vera blendingur hvítgrenis og blágrenis og kallast P. x albertiana. Trén sem spruttu upp af þessu fræi eru mun líkari hvítgreni en blágreninu sem ættað er sunnan úr bandarísku Klettafjöllunum (Aðalsteinn 2024). Sennilega er meira af erfðaefni hvítgrenis í þessum kvæmum en erfðaefni blágrenis, en Feng og félagar (2019) hafa sýnt fram á að þróunarfræðilega eru þessar tegundir náskyldar.

Blendingur hvítgrenis og blágrenis sem merktur er sem blágreni í töflunni hér að ofan. Mynd: Helgi Þórsson.
Blendingur hvítgrenis og blágrenis sem merktur er sem blágreni í töflunni hér að ofan. Mynd: Helgi Þórsson.

Bergsveinn hefur líka legið yfir því hvar þessir staðir eru, sem kvæmin eru kennd við. Upplýsingar um það geta verið misjafnlega nákvæmar en meðfylgjandi kort eru byggð á okkar bestu þekkingu.

Á kortið eru settir rauðir punktar. Þeir sýna hvaðan blágrenifræ hefur borist til landsins. Í sumum tilfellum hefur ekki tekist að fá fulla vissu fyrir hvaðan kvæmin eru. Þeim þarf því að sleppa. Hingað hefur borist fræ af blágreni frá nokkuð stóru svæði, eins og sjá má. Þó er eins og þetta séu tvö meginsvæði. Frá sumum þessara svæða hefur aðeins borist mjög takmarkað magn eins og sést á töflunum hér að ofan. Á myndinni er ein stjarna í Fossafjöllunum. Hún á að sýna hvar McKenzie Pass er. Nánar um það hér að neðan. Mynd: Bergsveinn Þórsson.
Á kortið eru settir rauðir punktar. Þeir sýna hvaðan blágrenifræ hefur borist til landsins. Í sumum tilfellum hefur ekki tekist að fá fulla vissu fyrir hvaðan kvæmin eru. Þeim þarf því að sleppa. Hingað hefur borist fræ af blágreni frá nokkuð stóru svæði, eins og sjá má. Þó er eins og þetta séu tvö meginsvæði. Frá sumum þessara svæða hefur aðeins borist mjög takmarkað magn eins og sést á töflunum hér að ofan. Á myndinni er ein stjarna í Fossafjöllunum. Hún á að sýna hvar McKenzie Pass er. Nánar um það hér að neðan. Mynd: Bergsveinn Þórsson.
 Á syðri hluta útbreiðslusvæðisins eru kvæmi sem margir ræktendur þekkja og sjá má í töflunni hér að ofan. Þessi kvæmi hafa almennt reynst betur en norðlægari kvæmi. Almennt má segja að þau vaxa hærra í fjöllunum en norðlægu kvæmin sem hingað hafa borist. Ekki er útilokað að norðlæg kvæmi, hærra úr fjöllunum, gætu reynst hér vel. Mynd: Bergsveinn Þórsson.
 Á syðri hluta útbreiðslusvæðisins eru kvæmi sem margir ræktendur þekkja og sjá má í töflunni hér að ofan. Þessi kvæmi hafa almennt reynst betur en norðlægari kvæmi. Almennt má segja að þau vaxa hærra í fjöllunum en norðlægu kvæmin sem hingað hafa borist. Ekki er útilokað að norðlæg kvæmi, hærra úr fjöllunum, gætu reynst hér vel. Mynd: Bergsveinn Þórsson.

Kvæmin úr söfnuninni árið 1971

Árið 1971 fóru þeir Þórarinn Benedikz og Ágúst Árnason til Klettafjallanna til að safna fræi. Við sögðum frá því í fyrri pistli okkar um blágreni. Þeir komu meðal annars með blágrenifræ úr þessari söfnun og má finna tré úr söfnuninni víða um land.

Hluta af þessum trjám var plantað í Þjórsárdal. Lárus Heiðarsson mældi þetta safn kvæma í október 2004. Þá voru 43 ár liðin frá því að safninu var plantað en í allt voru gróðursett 42 kvæmi úr þessari frægu söfnunarferð. Ekki var um eiginlega tilraun að ræða, heldur var hverju kvæmi plantað sérstaklega. Það kann að hafa einhver áhrif á niðurstöðurnar. Það var hinn ungi Úlfur Óskarsson sem stjórnaði útplöntuninni á sínum tíma. Rétt er að geta þess að ekki rötuðu öll þessi kvæmi í fræskrána, enda var í sumum tilfellum um mjög lítið magn fræsýna að ræða. Þeir söfnuðu  95 fræsýnum af 12 tegundum barrtrjáa í þessari ferð og aðeins 14 þeirra rötuðu í fræskrána (Helgi 2025).

Á sumrin sker blágreni sig frá öðrum gróðri. Mynd: Sig.A.
Á sumrin sker blágreni sig frá öðrum gróðri. Mynd: Sig.A.

Mestur vöxtur var í kvæmi frá McKenzie Pass. Það ágæta skarð er í rúmlega 1600 metra hæð í Oregon. Strangt til tekið tilheyrir þetta svæði ekki Klettafjöllunum heldur Fossafjöllunum (stundum nefnd Strandfjöll) eða Cascades eins og heimamenn kalla þau. Á korti hér að ofan er sá staður merktur með stjörnu.

Samkvæmt mælingunni ber þetta kvæmi af í vexti og má sjá myndrit sem sýnir árlegan meðalvöxt allra kvæmanna hér fyrir neðan. Því miður er ekki alltaf alveg auðvelt að bera heiti allra kvæmanna saman við heiti kvæmanna í fræskránni sem sagt er frá hér ofar. Í gegnum tíðina hafa verið notaðar allskonar skammstafanir sem flækja málin dálítið. Í þessari söfnun var ekki farið til þeirra staða þaðan sem mest af fræi hefur borist. Því er ekki hægt að bera þau kvæmi við þessar niðurstöður.

Árlegur meðalvöxtur 22 kvæma í rúmmetrum á hvern hektara lands í Þjórsárdal. Mynd: Lárus Heiðarsson.
Árlegur meðalvöxtur 22 kvæma í rúmmetrum á hvern hektara lands í Þjórsárdal. Mynd: Lárus Heiðarsson.

Meðalrúmmálsvöxtur á því kvæmi sem mest vex er 6,7 rúmmetrar á hvern hektara og meðalhæðin er 10,6 m fyrir þetta kvæmi. Það merkir að meðalhæðarvöxtur er rétt tæpir 25 cm á ári. Meðalvöxtur gæti í raun verið enn meiri ef einhver mæld tré hafa tapað toppsprotum eða brotnað.

Samkvæmt fræskrám hafa aðeins borist 2 kg af fræi frá þessum stað og ekkert annað fræ hefur borist hingað frá Oregon. Athyglisvert er að sjá að kvæmið Hallormsstaður, sem væntanlega hefur verið haft með til viðmiðunar og stendur væntanlega saman af afkomendum fyrstu trjánna af blágreni á Íslandi, er aðeins í áttunda sæti. Eins og áður segir eru trén á Hallormsstað frá sömu slóðum og algengustu kvæmin sem hér eru ræktuð. Þetta gæti gefið til kynna að rétt sé að sækja meira fræ til Oregon.

Blágreni og fura í eldfjallajarðvegi við McKensie Pass. Myndin fengin héðan. Grenið er mjög mjóslegið eins og sjá má.
Blágreni og fura í eldfjallajarðvegi við McKensie Pass. Myndin fengin héðan. Grenið er mjög mjóslegið eins og sjá má.

Það vakti athygli hins vana mælingamanns, Lárusar Heiðarssonar, hvað blágrenið í þessu safni var mjóslegið. Þess vegna mældi hann þvermál þeirra í 3 m hæð en ekki bara í brjósthæð eins og algengast er. Taflan hér fyrir neðan sýnir þessar mælingar.

Þvermál í þriggja metra hæð. McKenzie Pass er með þykkustu stofnana. Mörg trén hafa þykkari stofna en viðmiðunartrén frá Hallormsstað. Mynd: Lárus Heiðarsson.
Þvermál í þriggja metra hæð. McKenzie Pass er með þykkustu stofnana. Mörg trén hafa þykkari stofna en viðmiðunartrén frá Hallormsstað. Mynd: Lárus Heiðarsson.

Fræ frá Oregon

Samkvæmt fyrirliggjandi fræskrám hefur ekkert blágrenifræ borist til Íslands frá Oregonríki í Bandaríkjunum nema þessi tvö kíló frá McKenzie Pass. Ef marka má fræskrárnar var þessu fræi að mestu deilt út á fimm árum en einhverjar smárestar fóru enn seinna út. Svo er að sjá sem Skógræktarfélag Reykjavíkur, sem þá var með aðstöðu í Fossvogi, hafi fengið töluvert af þessu fræi. Því má ætla að þessi tré séu víða til en óvíst að upplýsingar um kvæmi hafi fylgt eða varðveist. Við vitum ekki til þess að gerðar hafi verið kvæmatilraunir þar sem okkar helstu kvæmi frá Kólóradó eru borin saman við þetta kvæmi. Mest ræktuðu kvæmin á Íslandi, Sapinero og Rio Grande, eru bæði þaðan. Talið er að uppruna trjánna í Mörkinni á Hallormsstað megi rekja til sömu slóða. Ef marka má ofangreindar mælingar má því gera ráð fyrir að McKenzie geti skilað meiri vexti en kvæmin frá Kólóradó.

McKenzie er mun nær sjó en aðrir þeir staðir sem fræ hefur borist frá. Ef til vill er kominn tími til að reyna að fá meira fræ úr Fossafjöllunum (Cascades) á þessum slóðum og bera trén saman við þann efnivið sem til er í landinu. Getur verið að veðráttan í þessum fjöllum sé þannig að fræið sem þaðan kemur sé heppilegra fyrir Ísland en fræið úr Klettafjöllunum?

Blágreni af óþekktum uppruna.
Blágreni af óþekktum uppruna.

Blágreni í Eyjafirði

Lengi hefur blágreni fengist í gróðrarstöðinni í Kjarnaskógi. Það átti jafnt við um stöðina á meðan Skógræktarfélagið rak hana sem nú, þegar Sólskógar reka garðyrkjustöðina og stærstu skógarplöntustöð landsins. Þar af leiðir að blágreni má sjá nokkuð víða í Eyjafirði. Það er til dæmis mjög áberandi í hinu nýlega Naustahverfi. Samt er það svo að mjög gömul og glæsileg blágrenitré eru ekki í bænum, enda hóf Skógræktarfélag Eyfirðinga ekki að platna blágreni fyrr en árið 1956. Má nefna sem dæmi að ekkert blágreni er að finna í plöntuvefsjá félagsins, sem geymir upplýsingar um mörg merkilegustu tré svæðisins. Annars hefur Skógræktarfélag Eyfirðinga plantað blágreni í marga af reitum sínum eins og sjá má á meðfylgjandi töflu.

Blágreni í Naustahverfi á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Blágreni í Naustahverfi á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Fyrst var blágreni plantað á vegum félagsins í Kjarna árið 1956. Þá var plantað 1.150 plöntum. Sennilega komu þær plöntur frá Kólóradó, en við vitum ekki nánar um hvaða kvæmi var að ræða. Í gögnum félagsins frá þessum tíma er kvæmið ekki alltaf tilgreint en sama ár var 500 plöntum plantað i Miðhálsstaði og þar kemur fram að fræið sé frá Kólóradó. Að auki var 10 plöntum plantað í Garðsárreit og þar segir að um kvæmið Sapinero sé að ræða. Þetta sama ár sýnist okkur að farið hafi verið með 40 blágrenitré að Grund í Eyjafirði en það kann að vera eitthvað málum blandið. Yngsta gróðursetning félagsins á blágreni er frá því árið 2024 en þá var 2000 blágrenitrjám plantað að Hálsi í Eyjafirði af kvæminu San Juan.

Fjöldi blágrenitrjáa og fjöldi kvæma sem plantað hefur verið í reiti Skógræktarfélags Eyfirðinga samkvæmt skráningu félagsins. Tölunum frá Miðhálsstöðum ber að taka með fyrirvara. Byggt á gögnum sem Bergsveinn Þórsson heldur utan um. Mynd: Sig.A.
Fjöldi blágrenitrjáa og fjöldi kvæma sem plantað hefur verið í reiti Skógræktarfélags Eyfirðinga samkvæmt skráningu félagsins. Tölunum frá Miðhálsstöðum ber að taka með fyrirvara. Byggt á gögnum sem Bergsveinn Þórsson heldur utan um. Mynd: Sig.A.

Eins og sjá má í töflunni hér að ofan hefur verið plantað rúmlega 88 þúsund blágreniplöntum á vegum SE. Það segir þó ekki alla söguna. Stundum má í gögnum félagsins finna upplýsingar sem falla ekki alveg að veruleikanum eins og við þekkjum hann. Það sem helst stingur í stúf í gögnum félagsins er að þar kemur fram að árið 1965 hafi 25.100 blágreniplöntum af kvæminu Sapinero pverið lantað á vegum félagsins. Af þeim hafi 5.100 plöntum verið plantað í Kjarnaskóg en restinni, samtals 20.000 trjám, á Miðhálsstöðum. Það er eitthvað brogað við þessa skráningu. Við sögðum frá því í pistli okkar um broddgreni að á Miðhálsstöðum hefði sennilega verið meira plantað af þeirri ágætu tegund en skrárnar segja til um. Ástæðan er þessi gróðursetning frá 1965. Það lítur út fyrir að þar hafi verið bæði blágreni og broddgreni og við erum hreint ekki viss um að fjöldinn sé réttur. Eins og við sögðum frá í fyrri pistli okkar um blágreni vex blágreni hærra til fjalla en broddgreni en á mörkum tegundanna vaxa þær báðar. Vel má vera að fræsöfnunarstaðurinn Sapinero sé einmitt þannig staður. Því hefur borist bæði fræ af broddgreni og blágreni sem skráð var sem blágreni. Þessar tölur frá 1965 skekkja myndina töluvert. Þær gera að verkum að þegar við skoðum hvaða kvæmi hefur verið mest plantað í Eyjafirði trónir kvæmið Sapinero í efsta sæti eins og sjá má á töflunni hér að neðan. Í eldri skráningum á vegum félagsins hefur kvæmi ekki alltaf verið skráð. Í seinni tíð hefur það líka gerst að ef plantað hefur verið fremur fáum plöntum, hefur gleymst að skrá kvæmið. Má sem dæmi nefna að árið 2003 var 60 blágreniplöntum plantað í Bæjarbrekkurnar á Akureyri án þess að kvæmi væri tilgreint en árið 1987 var 2.150 plöntum af sömu tegund plantað í þessar sömu brekkur án þess að kvæmis væri getið. Við viljum líka vekja athygli á að tvisvar sinnum, árin 1956 og 1960, var plantað plöntum sem sagðar eru af kvæminu Kólóradó. Það er eflaust rétt en segir ekki mikið. Í fræskránni hér að ofan eru tiltekin nöfn á átta eða níu kvæmum sem öll koma frá Kólóradó. Þar á meðal er Rio Grande og Sapinero en þau bera höfuð og herðar (eða greinar og krónu) yfir gróðursett blágrenikvæmi í Eyjafirði og væntanlega landinu öllu.

Fjöldi trjáa af hverju kvæmi sem plantað hefur verið á vegum Skógræktarfélags Eyfirðinga frá 1956 til 2024 samkvæmt skráningum. Við teljum að ef við skoðum lifandi tré í Eyjafirði sé mest af trjám af kvæminu Rio Grande en ekki Sapinero. Byggt á gögnum sem Bergsveinn Þórsson heldur utan um. Mynd: Sig.A.
Fjöldi trjáa af hverju kvæmi sem plantað hefur verið á vegum Skógræktarfélags Eyfirðinga frá 1956 til 2024 samkvæmt skráningum. Við teljum að ef við skoðum lifandi tré í Eyjafirði sé mest af trjám af kvæminu Rio Grande en ekki Sapinero. Byggt á gögnum sem Bergsveinn Þórsson heldur utan um. Mynd: Sig.A.

Á töflunni hér að ofan sést að ef allt er rétt skráð hefur mest verið plantað af kvæminu Sapinero. Því kvæmi hefur samt ekki verið plantað frá því árið 1965. Eins og gengur og gerist hafa ekki öll trén lifað og svo hafa þessir reitir verið grisjaðir og stundum hefur verið náð í jólatré í skógarreiti félagsins. Þess vegna er mjög langt frá því að 88.164 blágrenitré séu til í reitum félagsins, þótt svo mörgum trjám hafi verið plantað.

Blágreni í Kjarnaskógi. Mynd: Sig.A.
Blágreni í Kjarnaskógi. Mynd: Sig.A.

Ungplöntur

Ungar plöntur blágrenis eru sérstaklega skuggþolnar. Blágreniskógar geta verið ákaflega þéttir og dimmir. Margar plöntutegundir þola ekki þann skugga en ungar blágreniplöntur komast af með mjög lítið ljós. Þannig getur blágrenið auðveldlega endurnýjað sig í þéttum skógum þótt margar aðrar trjátegundir eigi erfitt með það. Þetta er líklega meginástæða þess hversu algengt er að blágreni myndi alveg hreina skóga eða skógarlundi. Að vísu er það þannig að þessar litlu blágreniplöntur vaxa mjög hægt í miklum skugga, en þær gefast ekki upp og hafa vel efni á að bíða í nokkra áratugi eftir að gömlu trén falli. Þá kemst sólarljósið að plöntunum og þær auka vöxt sinn. Þannig geta blágreniskógar haldið sjálfum sér við um aldir án þess að hleypa nema fáum öðrum trjám að. Það er ekki fyrr en skógareldar, snjóflóð eða aðrar hamfarir herja að aðrar tegundir komast að svo nokkru nemi (Culross Peattie 2007).

Þessi aðlögun kann að eiga sinn þátt í því að ungplöntur af sumum kvæmum blágrenis þola illa að vaxa í beinu sólarljósi þar til þær fara að framleiða vaxhúð sem einkennir barrið á mesta vaxtarskeiðinu. Það tekur, sem betur fer, ekki margar vikur að mynda þetta vax. Sumir ræktendur hafa tekið mið af þessu þegar blágreni er sáð. Þá er það ekki haft í jafn mikilli birtu og annað greni, heldur í allt að 50% skugga. Þannig, segja sumir ræktendur, fást mun jafnari og betri plöntur (Jón Kr. 2024). Líklegt er að einhver kvæmamunur sé á þessu. Sum kvæmin vaxa alveg við skógarmörk og þar hafa þau þróast án þess að vera endilega í skugga.

Þegar blágreni er afhent kaupendum er það ekki lengur jafn viðkvæmt, þannig að ekki þarf að hafa áhyggjur af þessu við útplöntun.

Þetta stæðilega blágreni stendur í Lystigarðinum á Akureyri. Einhvern tímann hefur brotnað ofan af því og því er vöxturinn dálítið öðruvísi en við er að búast. Mynd: Sig.A.
Þetta stæðilega blágreni stendur í Lystigarðinum á Akureyri. Einhvern tímann hefur brotnað ofan af því og því er vöxturinn dálítið öðruvísi en við er að búast. Mynd: Sig.A.

Að lokum

Þetta er seinni pistill okkar af tveimur um blágreni. Í fyrri pistlinum var fjallað almennt um tegundina en hér er kastljósinu beint að blágreni á Íslandi. Við höfum sagt frá upphafi ræktunarinnar, hvar trén þrífast best, helstu kvæmum og ýmsu fleiru. Þetta hefðum við allsekki getað gert nema vegna þeirra upplýsinga sem vinir og velunnarar hafa veitt okkur. Þeir hafa líka lánað okkur myndir og stutt okkur með ráðum og dáð. Fyrir það erum við þakklát. Að lokum viljum við einnig þakka Pétri Halldórssyni fyrir vandaðan yfirlestur prófarkar og þarfar ábendingar.

Blágreni við lítinn læk. Mynd: Sig.A.
Blágreni við lítinn læk. Mynd: Sig.A.

Heimildir:


Ágúst Árnason og Þórarinn Benktedikz (1973): Ferð til Bandaríkjanna og Kanada. Í Skógræktarritið 1972 til 1973 bls. 6-20. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.


Ásgeir Svanbergsson (1989) Tré og runnar á Íslandi. Gefin út að frumkvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur. Íslensk náttúra I. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.


Baldur Þorsteinsson (1990); Barrtré. Í: Skógræktarbókin bls. 77-93. Ritstj. Haukur Ragnarsson. Skógræktarfélag Íslands.


Donald Culross Peattie (2007): A Natural History of North American Trees. Trinity University Press, San Antonio, Texas.


Christopher J. Earle (2024): The Gymnosperm Database, Picea engelmannii.


James E. Eckenwalder (2009) Conifers of the World. The Complete Reference. Timber Press, Portland & London.

Aljos Farjon (2008): A Natural History of Conifers. Timber Press, Inc. Portland, Oregon, USA.

 

Shuo Feng, Dafu Ru, Yongshuai Sun, Kangshan Mao, Richard Milne & Jianquan Liu (2019): Trans-lineage polymorphism and nonbifurcating diversification of the genus Picea. Í: New Phytologist (2019) 222: 576–587. Sjá: Trans‐lineage polymorphism and nonbifurcating diversification of the genus Picea - Feng - 2019 - New Phytologist - Wiley Online Library. Sótt 27.10. 2024.

 

Pétur Halldórsson (2023): Blágreni. Á vef Lands og skógar. Sjá: Blágreni | Ísland.is. Sótt 27. maí 2025.


Sigurður Blöndal (2006): Innfluttu skógartrén III. Blágreni (Picea engelmanni Parry). Í Skógræktarritið 2006 1. tbl. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.

 

Munnlegar heimildir og upplýsingar í gegnum samskiptamiðla mest í október 2024 og janúar 2025:


Aðalsteinn Sigurgeirsson (2024)

Bergsveinn Þórsson (2024)

Helgi Þórsson (2024 og 2025)

Narfi Hjartarson (2024)

Jón Kr. Arnarson (2024 og 2025)

Þór Þorfinnsson (2025)

Þröstur Eysteinsson (2025)









 


Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page