Gráþröstur
- Sigurður Arnarson
- 1 day ago
- 11 min read
Talið er að í heiminum öllum séu til um 90 tegundir þrasta, Turdus spp. Þrjár tegundir þeirra hafa verpt nokkuð reglulega á Íslandi hin síðari ár. Tvær þeirra, skógarþröstur, T. iliacus og svartþröstur, T. merula, teljast til íslenskra fugla enda alveg öruggt að þeir verpa hér á hverju ári. Sú þriðja, gráþrösturinn, T. pilaris, er fyrst og fremst algengur haust- og vetrargestur sem kemur gjarnan í október og nóvember. Flestir fara þrestirnir svo í burtu þegar hinir dæmigerðu farfuglar koma til landsins. Oftast verða sumir eftir sumarlangt og reyna hér varp. Því má segja að gráþrösturinn hafi knúið hér dyra og sé á mörkum þess að setjast hér að. Við vitum ekki fyrir víst hvort komið sé að því að telja megi hann reglulegan varpfugl hér á landi. Sennilega er bara tímaspursmál hvenær við föllumst á að hann tilheyri íslenskum varpfuglum.
Gráþröstur er skógarfugl vikunnar.
Gráþröstur er tíður vetrargestur á Íslandi. Þegar þessir fuglar komu til landsins er ósennilegt að þeir hafi búist við þessum hvítu móttökum. Á fyrri myndinni lætur fuglinn vængina lafa og er var um sig og tilbúinn til að flýja ef þörf er á. Seinni myndin sýnir mun rólegri fugl. Með því að hnipra sig saman sparast orka sem fer í að halda fuglinum heitum. Myndirnar voru teknar veturinn 2018. Það gerði Elma Benediktsdóttir.
Heimkynni
Gráþröstur verpir í skógum og kjarrlendi í Norður- og Mið-Evrópu og í Asíu. Varp hans hefur einnig verið staðfest í Skotlandi og á Grænlandi að sögn Aðalsteins Arnar Snæþórssonar og Jóns Geirs Péturssonar (1992). Engu að síður telst hann ekki til árlegra varpfugla þar.
Mjög misjafnt er á milli ára hversu mikið berst hingað af gráþresti á haustin. Líklega ráða veður og vindar á fartíma því hvort hann berast hingað yfir höfuð og þá hversu margir fuglar. Má nefna að mjög fáir gráþrestir bárust hingað haustið 2025. Talið er að flestir þrastanna séu farfuglar á leið frá sumarstöðvum sínum á Norðurlöndunum til vetrarstöðva á Bretlandseyjum. Þangað koma þeir ekki tugþúsundum saman til vetrardvalar heldur er fjöldi þeirrar talinn í hundruðum þúsunda. Þegar mest lætur er talið að yfir 600.000 gráþrestir séu á veturna á Bretlandseyjum ef marka má Woodland Trust. Þeir koma ekki aðeins þangað frá Norðurlöndunum heldur einnig frá Rússlandi.
Þegar gráþrestir koma til Íslands í flokkum á haustin halda þeir gjarnan til í skógum eins og þeir eiga kyn til en stundum má sjá þá í mólendi þar sem skóga vantar. Yfir veturinn má oftast rekast á gráþresti í trjálundum og görðum víða um land. Auk þess sjást þeir stundum í fjörum.


Á Bretlandseyjum er mikill fjöldi trjáa og runna sem myndar ber. Það eru fyrst og fremst þessi fjölbreyttu ber sem gráþrestir éta yfir veturinn á þeim slóðum. Hér á landi duga berin sjaldnast sem fæða yfir allan veturinn. Þegar þrengist um fæðu og snjór hylur jörð sækir fuglinn í fjörur og tekur þar ýmsar pöddur eða að mannabústöðum þar sem fuglum er gefið. Stórir almenningsgarðar þar sem fæðu er að finna, eins og í Lystigarðinum á Akureyri, verða þá vinsælir. Þar hefur mátt sjá gráþresti á hverjum vetri í allmörg ár. Þar sem þeim er gefið verða þeir heimaríkir og verja svæðið af hörku ef þeir telja sig þurfa þess. Flestir smáfuglar víkja fyrir gráþrestinum en svartþrösturinn gerir það ekki enda eru þeir svipaðir að stærð. Upphefjast þá áflog og læti.

Varpheimkynni tegundarinnar er á breiðu belti frá Skandinavíu og austur um Evrópu og Asíu (Jóhann Óli 2025). Fuglinn verpir einnig í Mið-Evrópu þar sem hann er staðfugl eins og sést á kortinu hér að ofan. Í Skandinavíu er varptíminn frá fyrri hluta maí og fram í júní. Algengt er að hann verpi tvisvar á sumri en eftir því sem norðar dregur aukast líkurnar á að hann verpi aðeins einu sinni á hverju sumri. Hann verpir nær alltaf í trjám eða runnum.

Vist
Kjörlendi gráþrastarins er í fjölbreyttu skóglendi. Hann verpir í greni-, furu-, birki- og elriskógum og í allskonar blandskógum. Sérstaklega ef í skógunum er ríkulegur undirgróður. Oft má finna þröstinn við læki og ár en hann er sjaldnar í þéttum og dimmum skógum. Hann verpir nær alltaf í trjám en á það til að ferðast út fyrir skógana eftir varp. Hér á landi finnur hann stundum æti í fjörum og er þá víðs fjarri skógum. Hann er ákaflega hrifinn af hvers kyns berjum en getur einnig tekið fæðu á jörðu niðri eins og frændi hans skógarþrösturinn (Aðalsteinn og Jón Geir 1992).
Á þessum myndum sést vel munur á framhlið og bakhluta gráþrastar. Hann er óneitanlega fallegur fugl. Myndir: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Einkenni
Gráþrösturinn er líkur skógarþresti en er þó nokkuð stærri og stéllengri. Þótt hann beri þetta nafn er hann fallegur á litinn eins og sjá má á myndunum sem hér fylgja. Hann er blágrár eða stálgrár á höfði, hálsi og ofan við gumpinn. Á baki og vængjum er hann dökkbrúnn en að neðan er hann ljós með dökkum dröfnum á bringu og síðum. Á framhálsi er hann ryðbrúnn eða gulleitur með dökkum dröfnum. Stélið er langt og svart.

Sá sem þetta ritar verður að viðurkenna að heitið gráþröstur finnst honum gefa til kynna að þessi fallegi fugl sé litdaufur. Það er hann alls ekki. Hann er sérlega fallegur. Það er merkilegt hvað tungumálið getur haft sterk áhrif á þankaganginn. Höfuðið, sem oftast er sagt vera grátt á litinn, er miklu flottara ef það er sagt blágrátt í stað grátt.

Áberandi er að gráþröstur grípur til renniflugs með aðfellda vængi á milli þess sem hann blakar þeim. Hann er var um sig og oftast nokkuð styggur. Hann getur þó vanist mannfólkinu, einkum þar sem honum er gefið.
Hér á landi sjást oftast stakir fuglar eða litlir hópar gráþrasta. Hóparnir geta þó verið nokkuð stórir þegar mikið er um fuglinn á landinu. Erlendis er sagt að á vetrum myndi hann hópa sem geti verið frá um 20 fuglum og upp í nokkur hundruð fugla. Svo stórir flokkar hafa sjaldan sést á Íslandi nema þegar þeim mun meira er af gráþresti í landinu. Sigurður Gunnarsson (1983) nefnir að þegar gráþrösturinn flýgur um í hópum sé áberandi að hann fljúgi hærra en skógarþrösturinn.

Stærð og óvenjulegir varnarhættir
Gráþröstur er meðal stærstu fugla af ættkvísl þrasta. Hann er svipaður að stærð og svartþrösturinn eða örlítið lengri. Gráþrösturinn hefur samt aðeins minna vænghaf. Á Fuglavefnum sem Jóhann Óli Hilmarsson heldur úti, er hann sagður 25-26 cm langur á meðan svartþrösturinn er 24-25 cm langur. Báðar tegundirnar eru um 100 g að þyngd.

Í krafti stærðar sinnar bregðast gráþrestir af hörku við óvinum sínum. Þeir gefa beinlínis skít í þá. Erlendis er vel þekkt að þeir halda gjarnan hópinn eins og að framan greinir. Þar verpa þeir oft í sérstökum byggðum þótt þeir geri það varla á Íslandi nema í undantekningartilfellum. Ef þeir verða varir við unga- eða eggjaræningja úr hópi fugla í nálægð við byggðina rekur einhver gráþrastanna upp aðvörunarhljóð. Fljótlega taka aðrir undir með þeim. Garg þeirra dugar oft til að hrekja eggjaræningjann í burtu en ekki alltaf. Hljóðin gegna einnig því hlutverki að kalla íbúa byggðarinnar saman svo þeir geti myndað vígalegan her. Þeir halda áfram herópi sínu er þeir hefja sig til flugs og reyna að hrekja boðflennuna á brott. Þeir gera á hann loftárásir og garga án afláts. Þeir fljúga þar til þeir eru aðeins fáein fet frá eggjaræningjanum, sem getur til dæmis verið skjór og láta dritsprengjur falla á hann. Oft er miðað það vel að dritið hæfir óvininn þannig að fjaðrir hans klístrast og smyrjast af fugladriti. Stundum verða árásirnar svo harðar að óvinurinn hlunkast til jarðar og þarf að leita sér skjóls til að þrífa af sér skítinn (Attenborough 1999).

Fjöldi á Íslandi
Heimildir geta þess að fjöldi gráþrasta á Íslandi sveiflast mikið á milli ára. Má nefna að haustið 2025 voru óvenjufáir gráþrestir á Íslandi (Gaukur 2025). Á vef Fuglaverndar segir að fjöldinn sé á milli 30 og 300 á hverju ári en Guðmundur Páll (2005) segir að þegar mest lætur skipti þeir þúsundum. Stór ganga gráþrasta kom til Húsavíkur árið 1982. Þá voru þeir í hundraðatali í bænum og mjög áberandi í nokkra daga og sóttu þá mikið í reyniber (Sigurður 1983). Svona stórar göngur á einum stað benda til þess að mat Guðmundar Páls gæti verið rétt (Gaukur 2025). Á sumrin eru hér miklu færri fuglar en á vetrum en undanfarin ár eru alltaf einhverjir sem reyna hér varp. Með stærri skógum og meira framboði berja má búast við að líkur á varanlegu landnámi aukist.

Varp á landinu
Á vorin fara flestir gráþrestir af landi brott en í sumum tilfellum dveljast þeir hér áfram og stöku fuglar virðast vera hér allt árið. Þegar bæði kynin eru hér á sama tíma yfir sumarið er líklegt að þeir verpi og komi upp ungum. Það virðist ganga vandræðalaust fyrir sig en þó án þess að fuglunum virðist fjölga að ráði á milli ára. Þannig hefur þetta verið lengi, en fjöldinn er þó heldur á uppleið. Þeir Aðalsteinn Örn Snæþórsson og Jón Geir Pétursson (1992) segja frá því að á tímabilinu 1979 til 1988 var vitað um sex hreiður á fjórum stöðum á landinu. Fuglinn verpti og kom upp ungum í Reykjavík, Mývatnssveit, á Akureyri og Kirkjubæjarklaustri. Miðað við þessar tölur virðist varp gráþrasta heldur hafa aukist á þessari öld. Þar kunna veðurfarsbreytingar, aukin skógrækt og meiri ræktun á trjám og runnum í görðum að skipta miklu máli. Gráþröstur gerir sér nokkuð veglegt hreiður í trjám. Hreiðrin eru að jafnaði stærri en hjá frænda hans skógarþrestinum. Eggin eru 5-6 og útungunartíminn er tæpar tvær vikur. Ungarnir verða fleygir á 12-15 dögum.

Það sem einna helst kemur í veg fyrir að þrösturinn teljist til varpfugla hér á landi kann að vera hversu ótrúlega laumulegur hann er í varpi þegar hann verpir ekki í sérstökum byggðum. Fuglaáhugamaðurinn Gaukur Hjartarson (2025) sagði okkur frá því að á Höfn í Hornafirði tókst gráþrastarpari að koma virkustu fuglaskoðurum landsins í opna skjöldu með því að koma upp ungum í Einarslundi. Fuglaskoðararnir ganga daglega um lundinn allt sumarið og sáu þrestina þar um vorið. Svo sáust þeir ekki meir fyrr en þeir voru allt í einu komnir með unga. Ungar hafa einnig sést í Kjarnaskógi og Jóhann Óli (2025) segir á Fuglavefnum að eitt eða örfá pör hafa orpið á Akureyri síðustu árin að minnsta kosti frá 2014. Þrátt fyrir það virðist þeim ekki hafa fjölgað í bænum. En ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Gaukur Hjartarson (2025) fræddi okkur á því að á Akureyri hefðu gráþrestir verpt í nokkur ár á sjötta áratug síðustu aldar en það varp lognaðist út af. Við bindum þó vonir við að núverandi varp sé komið til að vera, en lítið má út af bera á meðan fuglarnir eru svona fáir. Annars hafa gráþrestir sést víða á sumrin. Síðsumars hafa sést gráþrastarhópar við Laugaból í Reykjadal og varp hefur verið staðfest í Reykhólasveit svo dæmi séu nefnd. Þess vegna er væntanlega aðeins tímaspursmál hvenær fuglinn fær íslenskan ríkisborgararétt. Ef til vill má nú þegar telja hann til íslenskra varpfugla en lítið má út af bregða svo varpið leggist ekki af (Gaukur 2025). Ekki eru allir fuglasérfræðingar sammála um að komið sé að því að kalla gráþröstinn íslenskan varpfugl þótt hann hafi verpt hér óreglulega frá 1950. Jóhann Óli Hilmarsson (2025) telur að hér á landi verpi árlega aðeins 0-5 pör. Það er allt of lítið til að hægt sé að telja hann til íslenskra varpfugla. Tíminn mun skera úr um hvort um þessar mundir megi greina upphaf varanlegs landnáms eða aðeins tímabundið varp.

Fæða
Fæða gráþrastarins er fjölbreytt eins og hjá öðrum þröstum. Hann étur bæði úr jurta- og dýraríkinu og ýmsir hryggleysingjar og ber eru ofarlega á matseðlinum. Það auðveldar honum að þrauka af þorrann og góuna að hann tekur fjölbreytta fæðu. Upp úr því er vanalega næga fæðu að hafa. Þegar fyrstu skordýrin fara á stjá er lífi hans borgið. Svo fitar hann sig á berjum á haustin. Það hjálpar honum á köldum vetrarmánuðum. Þegar jarðbönn verða og berin eru uppurin sækir hann mikið í matargjafir eins og fleiri vetrargestir. Epli, rúsínur og feitmeti kann hann vel að meta. Það þekkist að gráþrestir í görðum éti nær eingöngu epli yfir veturinn. Þau duga þeim vel.
Þrjár myndir af gráþresti í eplaveislu í Lystigarðinum á Akureyri. Myndirnar tók Emma Hulda Steinarsdóttir í febrúar og mars 2023.
Framtíð gráþrasta
Margt bendir til að framtíð gráþrastarins á landinu sé mjög björt. Með stækkandi, samfelldum og fjölbreyttum skógum aukast líkurnar á að fuglinn verpi hér reglulega. Íslenskir skógar geta vel séð þeim fyrir nægri fæðu á sumrin en veturnir eru erfiðir þegar gengur á berjaforðann. Fuglarnir sem hingað flækjast á haustin eru taldir vera norrænir farfuglar þannig að ef þeir setjast hér að er líklegt að þeir haldi áfram farflugi sínu til Bretlandseyja. Svo kann vel að vera að fuglinn leggi af farflug á Íslandi, rétt eins og sumir skógarþrestir hafa gert. Þá skiptir öllu máli hvernig honum gengur að afla sér fæðu yfir veturinn. Hingað til hefur hann stundum sést í fjörum í leit að hvers kyns pöddum en annars treystir hann á matargjafir í þéttbýli þegar berin eru horfin. Vel má vera að þetta sé mynstrið sem gráþrestir hafi tekið upp á Akureyri og hér byggist hægt og rólega upp staðbundinn stofn gráþrasta. Sunnar á hnettinum dugar honum að tína upp ber í skógum og þéttbýli þar til ýmsar pöddur fara á stjá. Því getur skipt sköpum fyrir fuglinn hvort aukning verði á ýmsum berjarunnum í skógum og skógarjöðrum. Eftir því sem skógar stækka á Íslandi aukast líkurnar á því að fuglar sái berjarunnum í skógarbotninn. Ef að auki verður lögð meiri áhersla á að planta trjám og runnum í jaðra og rjóður sem gefa af sér fjölbreytt ber aukast líkurnar verulega á því að gráþrösturinn setjist víða að í íslenskum skógum og gleðji gesti og gangandi. Berjarunnar gætu einnig gagnast öðrum fuglum sem vilja setjast hér að.

Þakkir
Við viljum nýta tækifærið og þakka ljósmyndurunum okkar fyrir lán á myndum. Án þeirra yrði lítið varið í þennan pistil. Við viljum einnig þakka Gauki Hjartarsyni fyrir veitta aðstoð. Hann las handritið yfir í vinnslu og kom með gagnlegar upplýsingar og ábendingar. Að lokum viljum við þakka yfirlesaranum okkar, henni Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur, fyrir þarfan og vandaðan yfirlestur.
Heimildir
Aðalsteinn Örn Snæþórsson og Jón Geir Pétursson (1992): Fuglar og skógrækt. Skógræktarritið 1992 bls. 99-108. Skógræktarfélags Ísland, Reykjavík.
Attenborough, David (1999): Lífshættir fugla. Þýðing: Atli Magnússon og Örnólfur Thorlacius. Bókaútgáfan Skjaldborg hf. Reykjavík.
Fuglavernd (2025): Gráþröstur. Sjá: Gráþröstur - Fuglavernd.is Sótt 26. júní 2025.
Gaukur Hjartarson (2025) Fjölbreytt aðstoð, ábendingar og upplýsingar í gegnum samskiptamiðla.
Guðmundur Páll Ólafsson (2005) Fuglar í náttúru Íslands. Mál og menning.
Jóhann Óli Hilmarsson (2025): Gráþröstur. Fuglavefurinn. Sjá: Fuglavefur- Gráþröstur. Sótt 4. október 2025.
Sigurður Gunnarsson (1983): Gráþrestir á Húsavík haustið 1982. Bliki, tímarit um fugla. 2. tbl. 1983, bls. 55-57. Sjá: Bliki-2.pdf.



















Comments