top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Svartþröstur

Á Íslandi eru til fuglar sem syngja fallega. Sérstaklega virðist það eiga við um nokkrar tegundir spörfugla sem helst hafast við í skógum. Auðvitað hefur hver og einn sinn eigin smekk hvað fegurð áhrærir en sennilega er á engan fugl hallað þótt því sé haldið fram að frægustu söngröddina eigi svartþrösturinn. Því til sannindamerkis má nefna að hann hefur meira að segja fengið að syngja inn á Bítlaplötu. Svartþrestir eru á Íslandi vegna framtakssemi okkar manna. Við höfum búið honum til ágætis vist sem hann kann að meta. Við höfum plantað trjám og berjarunnum og við fóðrum hann gjarnan á veturna. Pistill vikunnar fjallar um svartþröst.

Þessi svartþrastarkarl lætur ekki svona gósenberjaland frá sér að óreyndu. Helstu einkenni, svo sem gulur hringur í kringum augun, skærgulur goggur og langt stél, sjást vel. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Þessi svartþrastarkarl lætur ekki svona gósenberjaland frá sér að óreyndu. Helstu einkenni, svo sem gulur hringur í kringum augun, skærgulur goggur og langt stél, sjást vel. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Lýsing

Fyrir það fyrsta er rétt að nefna að svartþröstur er nokkuð stór þröstur. Hann er töluvert stærri en frændi hans skógarþrösturinn en svipaður að stærð og gráþröstur. Þessir þrír fuglar tilheyra allir ættkvísl þrasta eða Turdus. Aðrir þrestir sjást að jafnaði ekki á Íslandi þótt stöku sinnum fréttist af flækingum af þessari ættkvísl.

Svartþröstur er með áberandi langt stél. Þegar það er meðtalið er fuglinn um 25 cm langur og þyngdin er um 80-100 g. Vænghafið er 34-39 cm (Jóhann Óli án ártals). Kyn svartþrasta eru harla ólík. Fullorðinn karlfugl er alsvartur með skærgulan gogg og gulan hring um augun. Karlfuglar á fyrsta vetri eru með dökkan gogg sem lýsist og gulnar þegar líður á veturinn. Búkurinn er alveg einlitur og því alger óþarfi að rugla svartþresti við til dæmis stara þótt þeir geti verið áþekkir. Að auki er munur á atferli þessara fugla og svartþrösturinn er með mun lengra stél.

Svartþrastarkarl með skærgulan gogg og áberandi gulan hring um augun. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Svartþrastarkarl með skærgulan gogg og áberandi gulan hring um augun. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Svartþrestir eru meira á jörðu niðri en aðrir þrestir á Íslandi. Þá eru þeir varir um sig og vængstaðan á þessum fugli er einkennandi fyrir þá. Fuglinn á myndinni er karlfugl á fyrsta ári. Það sést á dökku nefinu. Mynd: Sig.A. í október 2017.
Svartþrestir eru meira á jörðu niðri en aðrir þrestir á Íslandi. Þá eru þeir varir um sig og vængstaðan á þessum fugli er einkennandi fyrir þá. Fuglinn á myndinni er karlfugl á fyrsta ári. Það sést á dökku nefinu. Mynd: Sig.A. í október 2017.

Fullorðnir kvenkyns svartþrestir bera ekki nafn með rentu, því þeir eru hreint ekki svartir. Þeir eru í meiri felulitum en karlfuglarnir og því ekki eins áberandi. Þeir eru dökkbrúnir að lit en ljósrákóttari  neðan og með gráa kverk sem er misjafnlega áberandi eftir einstaklingum. Goggurinn er gulur en litdaufur og það sama má segja um augnhringinn.

Kvenfuglinn er í ágætum felulitum. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Kvenfuglinn er í ágætum felulitum. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Ungarnir líkjast móður sinni en nefið er nánast alveg svart.

Svartþröstur er ekki mikið fyrir að láta bera á sér. Hann er jafnan nokkuð felugjarn. Það breytist þó hjá karlfuglinum á vorin. Þá brestur hann í þvílíkan söng að annað eins þekkist varla hér á landi. Á sama tíma sest hann gjarnan á staði þar sem hann hefur gott útsýni og sést vel.

Ungfuglar líkjast kvenfuglunum. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Ungfuglar líkjast kvenfuglunum. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Fræðiheitið

Frá því að Linnæus hinn sænski setti fram tvínafnakerfið sitt heita allar lífverur tveimur fræðinöfnum sem lúta latneskum beygingareglum. Við höfum oft sagt frá þessu þegar kemur að plöntum en að sjálfsögðu á þetta einnig við um fugla. Fræðiheiti svartþrasta er Turdus merula L. (1758). Bókstafurinn L. stendur fyrir Linnæus, því það var hann sem gaf tegundinni nafn árið 1758. Fyrir þann tíma hét tegundin Turdus ater rostro palpebrisque fulvis, ef marka má þessa síðu. Ættkvíslarheitið, Turdus, er notað á fugla af ættkvísl þrasta en um 65 tegundir eru til af þessari ættkvísl, auk undirtegunda.


Kvenfugl að hefja sig til flugs af grenigrein. Þar hefur hann eflaust fundið eitthvert skordýr í gogginn. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Kvenfugl að hefja sig til flugs af grenigrein. Þar hefur hann eflaust fundið eitthvert skordýr í gogginn. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Seinna heitið, merula, hefur sennilega verið tekið upp úr frönsku en á því tungumáli heitir svartþröstur merle og Skotar kalla hann merl, nema þegar þeir grípa til enska heitisins blackbird. Upphafleg merking orðsins gæti verið að merla eða glansa með vísan í gljáandi svartan litinn á karlfuglunum. Sumar heimildir gefa upp aðra merkingu viðurnafnsins. Það er sagt vísa í það að svartþrösturinn er talinn einrænni en aðrir þrestir. Á það sérstaklega við utan varptíma. Þá er svartþrösturinn áberandi ófélagslyndur og sést að jafnaði í smáhópum eða stakir. Heitið á að vísa í það háttarlag (Snæbjörn 2017). Vel vera þetta það sem Linnæus hafði í huga á sínum tíma en þarna skortir höfund þessa pistils þekkingu á latínu til að fá úr þessu skorið.

Glansandi fínn svartþrastarkarl. Það merlar á fjaðrahaminn. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Glansandi fínn svartþrastarkarl. Það merlar á fjaðrahaminn. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Flækingur

Áður en svartþröstur náði að nema hér land var hann lengi þekktur sem flækingsfugl og sjaldgæfur vetrargestur á Íslandi.

Í grein um stara frá árinu 1981 vísar Skarphéðinn Þórisson í ferðabók Sveins Pálssonar frá árunum 1791-1797 þar sem talað er um fugla í Öræfum. Þar segir: „Margar tegundir fugla, sem eflaust eru óþekktar hér á landi eiga oft að hafa sést hér [. . .] Talað var um smáfugla nokkra á stærð við Turdus ilacus [skógarþröst] kolsvarta, með gult nef og fætur. Eru þeir ekki taldir mjög sjaldgæfir.Skarphéðinn telur einsýnt að hér sé verið að lýsa svartþresti enda vandséð hvaða annar fugl kæmi til greina, þótt fætur svartþrasta séu ekki gulir. Samkvæmt þessu hefur hann sést hér, af og til, nokkuð lengi. Samt er það svo að eftir að okkur Íslendingum tókst nánast að útrýma nær öllum trjágróðri landsins var Ísland lengi vel ekki mjög fýsilegt land fyrir smáfugla. Hvaða fuglar voru hér fyrir landnám, meðan landið var skógi vaxið milli fjalls og fjöru, vitum við ekki. Ekki er hægt að útiloka að hér hafi þá verið svartþrestir sem hafa þá væntanlega verið farfuglar. Ósennilegt er að við fáum nokkurn tímann að vita það.

Svartþröstur í haganlega gerðu hreiðri í grenitré. Þeir verpa gjarnan í sígræna barrviði enda veita slíkir gott skjól. Eins og aðrir þrestir getur hann verpt mun fyrr ef sígræn tré eru til staðar, því í birki verpa þeir ekki fyrr en það laufgast og veitir skjól. Mynd: Sigurður Ægisson.
Svartþröstur í haganlega gerðu hreiðri í grenitré. Þeir verpa gjarnan í sígræna barrviði enda veita slíkir gott skjól. Eins og aðrir þrestir getur hann verpt mun fyrr ef sígræn tré eru til staðar, því í birki verpa þeir ekki fyrr en það laufgast og veitir skjól. Mynd: Sigurður Ægisson.

Guðmundur Páll (2005) segir að fyrsta staðfesta dæmið um varp svartþrasta á Íslandi sé frá árinu 1960 en frá 1991 hefur hann verpt reglulega á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Reyndar var það eingöngu í Reykjavík til að byrja með. Það varp var lengi ótryggt og framtíðin í óvissu. Einar Þorleifsson (2025) sagði okkur að þetta fyrsta, staðfesta varp hefði verið í Öræfum. Það var sjálfur Hálfdán Björnsson á Kvískerjum sem staðfesti það á sínum tíma.

Á þessari öld hefur fuglinn heldur betur komið undir sig dökkum fótunum og smám saman dreift sér um landið. Kristinn Haukur Skarphéðinsson og félagar (2016) segja að svartþröstur hafi náð varanlegri fótfestu hér á landi sem varpfugl í kjölfar mikillar göngu vorið 2000. Undir það taka aðrir heimildarmenn. Það er því ekki nema aldarfjórðungur frá því að honum tókst að nema landið varanlega. Aldamótavorið komu þeir hingað svo hundruðum skipti að sögn Guðmundar Páls Ólafssonar (2005). Þessi mikla vorganga var sú vítamínsprauta sem íslensku varpfuglarnir þurftu til að festa sig í sessi hér á landi.

Einar Þorleifsson (2019) upplýsti í sinni góðu og ítarlegu grein að til Akureyrar hefði fuglinn borist árið 2009. Þar hefur hann komið sér vel fyrir. Í grein sinni rekur Einar landnámssöguna á Íslandi og er áhugasömum bent á þá grein til frekari fróðleiks. Þó er rétt að geta þess að nú finnst fuglinn víðar en hann gerði árið 2009 þegar Einar skrifaði greinina, enda hefur honum fjölgað.

Það getur verið kalt þegar Kári er í jötunmóð og kveður sín kuldaljóð. Þá er gott að ýfa fjaðrirnar og kúra til að forðast hitatap. Svartþröstur er þjóðarfugl Svía og kallaður koltrast. Þar í landi er hann talinn geta sagt fyrir um veður. Myndirnar tók Elma Benediktsdóttir. Sú fyrri var tekin í janúar 2019 en sú seinni í febrúar 2023.


Fjöldi

Fyrir tæpum áratug var sagt um fuglinn að hann væri orðinn algengur varpfugl í þéttbýli á Suðvesturlandi og þá verpti hann hér og hvar á Suður-, Vestur- og Norðurlandi. Um áramótin 2016/2017 sáust yfir 2.000 fuglar í vetrarfuglatalningu Náttúrufræðistofnunar. Þá þegar var talið að varpstofninn gæti hafa verið nokkur þúsund pör (Kristinn Haukur o.fl. 2016). Árlega er það svo að svartþresti fjölgar hér jafnt og þétt fram undir lok nóvember. Framhaldið ræðst svo af Vetri konungi. Ef hann er harður við þegna sína getur svartþresti fækkað mikið. Í heildina litið fjölgar þó svartþresti nokkuð jafnt og þétt ef marka má vetrartalningar. Yfir 3.500 fuglar sáust í vetrarfuglatalningu Náttúrufræðistofnunar um áramótin 2021/2022 að sögn Aldísar og Borgnýjar (2025). Auðvitað sjást ekki allir fuglar landsins í vetrartalningum en þetta er fjölgun upp á 1.500 fugla á fimm árum. Þrátt fyrir það segja flestar heimildir ennþá að stofnstærðin sé nokkur þúsund pör en nákvæmur fjöldi er óþekktur.

Heildarstofninn í Evrópu er metinn á bilinu 80 til 160 milljónir fugla.


Vísitala svartþrastar á strandsvæðum í vetrarfuglatalningum Náttúrufræðistofnunar 1960 – 2024 samkvæmt TRIM-aðferðinni. Rauðir punktar tákna vísitölu (með staðalskekkju) fyrir fugla miðað við skilgreint grunngildi (árið 2005, vísitala = 1). Myndina fengum við héðan af vef Náttúrufræðistofnunar.
Vísitala svartþrastar á strandsvæðum í vetrarfuglatalningum Náttúrufræðistofnunar 1960 – 2024 samkvæmt TRIM-aðferðinni. Rauðir punktar tákna vísitölu (með staðalskekkju) fyrir fugla miðað við skilgreint grunngildi (árið 2005, vísitala = 1). Myndina fengum við héðan af vef Náttúrufræðistofnunar.

Fuglinn er að öllum líkindum staðfugl hér á landi en ekki er loku fyrir það skotið að einhverjir fuglar fari héðan á haustin þótt svartþrestir, sem merktir hafa verið á Íslandi, hafi aldrei fundist í útlöndum. Nánast á hverju ári koma hingað göngur af svartþröstum síðla hausts og dvelja hér yfir veturinn. Guðmundur Páll (2005) segir að líklegast sé að þeir komi hingað frá norðanverðum Skandinavíuskaga. Þá eru þeir væntanlega farfuglar sem villst hafa af leið eða borist afvega með sterkum vindum haustlægða. Þeir eru taldir yfirgefa landið á vorin og hafa því ekki teljandi áhrif á stofnstærðina hér á landi.

Karlfugl tætir í sig rósanýpur að vetri til. Hann stendur á jörðinni við þessa iðju sína. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Karlfugl tætir í sig rósanýpur að vetri til. Hann stendur á jörðinni við þessa iðju sína. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Heimkynni

Svartþröstur er varpfugl í Evrópu, N-Afríku og á dálitlu belti vestast í Asíu. Auk þess verpa innfluttir stofnar víða í Eyjaálfu.

Landnám hans á Íslandi minnir nokkuð á varpsögu starans, sem hóf varp á Innnesjum á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu árið 1960 og hefur breiðst út þaðan eins og við lýstum í pistli um þann fagra fugl. Útbreiðslumynstrið er svipað en svartþrösturinn hefur þó verið mun fljótari að nema land en starinn (Snæbjörn 2017). Hann tók upp fasta búsetu í Reykjavík á árunum 1985 til 1991 og varp hans hefur verið árvisst frá 1991 en ekki tókst að staðfesta það öll árin þar á milli (Einar 2019).

Hann breiddist út bæði í austur og norður. Nú er svo komið að hann verpir um nánast allt land þar sem tré eða skógarreiti er að finna nálægt þéttbýli. Síðast nam hann land á Austur- og Suðausturlandi og er enn fágætur á þeim slóðum. Má segja að þar sé hann enn að þreifa fyrir sér (Snæbjörn 2017). Einar Þorleifsson (2025) kannaði málið fyrir okkur með því að senda fyrirspurn á nokkra fræga fuglamenn. Hann segir að frá Húsavík og til Suðurlands að Markarfljóti úr austri megi segja að varpið sé enn nokkuð óreglulegt. Má segja að á því svæði séu stór göt í útbreiðslunni enda er það varp ekki allsstaðar árvisst á þeim slóðum nema helst á Héraði. Þar hefur fuglinn komið sér vel fyrir.

Svartþröstur gæðir sér á berjum reyniviðar, Sorbus aucuparia. Viðurnefni trjátegundarinnar vísar í að fuglar éta berin. Eins og sjá má stenst það ágætlega. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Svartþröstur gæðir sér á berjum reyniviðar, Sorbus aucuparia. Viðurnefni trjátegundarinnar vísar í að fuglar éta berin. Eins og sjá má stenst það ágætlega. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Á Bretlandseyjum eru svartþrestir algerir staðfuglar. Þar er talið að þeir séu einkvænisfuglar og að parið haldi saman uns dauðinn aðskilur. Þar sem farflug á sér stað, svo sem á Norðurlöndum, virðist fjölkvæni ríkja. Það gæti einfaldlega stafað af skorti á karlfuglum. Að sögn Guðmundar Páls (2005) gæti skýringin verið sú að kvenfuglarnir séu meiri farfuglar á meðan karlarnir séu staðbundnari. Hann segir að þess vegna séu kvenfuglarnir algengari á Íslandi en karlfuglar og þekkt sé að einn og sami karlinn hafi þurft að sinna og þjóna þremur verpandi kvenfuglum. Ef við gefum okkur að það sé rétt sem Guðmundur Páll skrifaði árið 2005 (það er engin ástæða til að efast) virðist að minnsta kosti hluti stofnsins hafa stundað farflug á þeim tíma. Önnur ástæða kann að eiga þátt í þessum kynjahalla. Hugsanlega eru karlarnir færri en kerlurnar því þær eru í betri felulitum og láta almennt minna á sér bera yfir varptímann. Því er líklegt að fleiri karlfuglar en kvenfuglar lendi í klóm katta. Það kann að leiða til skekkju í kynjahlutföllum sem gæti stuðlað að fjölkvæni.

Eins og segir hér ofar kom stór ganga af svartþröstum hingað til lands vorið 2000 og renndi nokkuð styrkum stoðum undir landnámið. Ef til vill voru þetta fuglar sem komu með rásfari frá Bretlandseyjum, því þessir fuglar virðast hafa ákveðið að vera um kyrrt. Fuglar sem koma hingað nær árlega á haustin og dvelja hér yfir veturinn, eru greinilega farfuglar og geta því varla verið breskir. Ef þessi ganga vorið 2000 hefði komið frá Norðurlöndunum er líklegt að þeir hefðu farið af landi brott um haustið. Það gerðu þeir ekki, sem betur fer. Það er líka möguleiki á að hingað hafi borist borgarfuglar frá Norðurlöndum. Sumir þeirra hafa alveg látið af farflugi rétt eins og sumir skógarþrestir á Íslandi. Nánar um það í kaflanum um borgarfugla.

Útbreiðsla svartþrasta samkvæmt bók Sigurðar Ægissonar (2020).
Útbreiðsla svartþrasta samkvæmt bók Sigurðar Ægissonar (2020).

Þann 30. ágúst 2023 þurfti karlinn á fyrri myndinni að kljást við fyrstu djúpu haustlægðina það árið. Það er eins og mesti sjarmurinn fari af honum við blásturinn. Seinni myndin sýnir karlfugl í snjókomu 29. janúar 2023. Myndir: Elma Benediktsdóttir.


Vist

Þrestir tilheyra spörfuglum, Passeriformes, sem er langstærsti ættbálkur fugla. Um 60% af fuglategundum heimsins tilheyra þessum ættbálki. Þeir þekkjast meðal annars á fótunum sem henta mjög vel til að grípa utan um trjágreinar. Með aukinni skógrækt hefur spörfuglum fjölgað hérlendis hin síðari ár (Snæbjörn 2017). Svartþrösturinn nýtur góðs af auknum skógi.

Í Evrópu telst svartþröstur til skógarfugla. Fyrr á öldum hélt hann sig eingöngu í skógum, skógarjöðrum og rjóðrum. Hann var vinsæll meðal alþýðu manna bæði vegna þess hvað hann syngur fallega en einnig vegna þess að hann var veiddur til matar. Enn er hann stundum veiddur í þeim tilgangi en nú er bannað að selja hann á mörkuðum eins og algengt var áður fyrr (Einar 2019). Á vorum dögum sækir hann mikið í garða þar sem tré er að finna eða þar sem honum er gefið. Þetta fór að gerast þegar almenningsgarðar voru stofnaðir og garðar í kringum hús urðu það stórir að farið var að rækta í þeim tré og berjarunna. Þá bauðst ný vist sem svartþrestir lögðu undir sig. Eftir að veiðar á svartþröstum og öðrum smáfuglum lögðust að mestu af og almenningur tók upp á því að fóðra þá er svartþrösturinn orðinn miklu spakari en áður. Nú er hann með spakari garðfuglum (Einar 2019).

Hér á landi er hann fyrst og fremst að finna sem garðfugl eða í litlum trjáreitum við sumarhús og nálægt þéttbýli. Yfir veturinn leitar hann uppi staði þar sem honum er gefið.

Ungur svartþröstur með gulan augnhring en alveg svart nef. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Ungur svartþröstur með gulan augnhring en alveg svart nef. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Borgarfugl

Árið 2019 skrifaði Einar Þorleifsson fróðlega grein um svartþresti í Skógræktarritið. Þar fjallar hann um það hvernig fuglinn nam borgarumhverfi. Hann segir að um og upp úr 1820 hafi svartþrestir farið að nema land í Brussel í Belgíu og Normandí í Frakklandi. Þetta háttarlag breiddist hratt út, meðal annars til borga í Rínardalnum. Sólrún Harðardóttir (án ártals) skrifaði um svartþresti og fleiri borgarfugla á þessari síðu. Hún segir að fuglarnir hafi numið sjálfa Róm árið 1828. Það er væntanlega elsta dæmið um landnám svartþrasta í borgum Suður-Evrópu. Ef satt er tók svartþresti aðeins innan við áratug að færa sig úr Rínardalnum, yfir Alpana og inn í borgir við Miðjarðarhafið, jafnvel þótt í sumum þeirra sé ekki mikinn trjágróður að finna. Þar sem svartþrestir fara að verpa strax á öðru ári eru komnar æði margar kynslóðir síðan landnám svartþrasta í borgum hófst fyrir um tveimur öldum. Það hefur leitt til þess að þróun hefur orðið vart meðal þeirra. Sólrún (án ártals) segir frá því að ólík þróun hafi átt sér stað í mismunandi borgum. Sumt hefur þó breyst á svipaðan hátt í þeim öllum að hennar sögn.

Fyrir það fyrsta má nefna að goggurinn hefur minnkað. Sennilega stafar það af auðveldari fæðuöflun þegar þeim er gefið í borgum. Þeir þurfa því ekki lengur að standa í því að brjóta hnetur og fræ. Í öðru lagi hefja þeir söng fyrr á morgnana í borgum en skógum. Það er mikilvægt því söngurinn drukknar í hávaða þegar morgunumferðin hefst. Í skóglendi þurfa þeir ekki að hafa áhyggjur af þessu og geta sofið ögn lengur. Í þriðja lagi þurfa borgarfuglar ekki að færa sig um set eftir árstíðum. Fæðan er oftast á svipuðum slóðum. Því geta þeir dregið úr farflugi sínu. Það gerir lífið þægilegra og stuðlar að aukinni viðkomu stofnsins. Borgarfuglarnir hefja varp fyrr en fuglar sem stunda farflug. Þess vegna geta þeir verpt oftar á hverju sumri. Einar Þorleifsson (2019) segir að borgarfuglar hefji varp allt að þremur vikum fyrr en fuglar til sveita.

Einar (2019) nefnir í sinni grein að dregið hafi úr farflugi svartþrasta eftir að þeir hófu að nema borgarumhverfi, rétt eins og Sólrún telur. Það á líka við á Norðurlöndum þótt þar teljist svartþrestir til farfugla. Hann bætir við einu atriði sem sjálfsagt skiptir miklu máli um miðhluta og norðanverða Evrópu. Borgarumhverfið er að jafnaði hlýrra en skógar og berangur. Jörð getur haldist lengur ófrosin sem auðveldar fæðuöflun og orkuþörfin er minni í hlýrra umhverfi. Að auki er auðvelt að tína upp orma og snigla í vel hirtum blómabeðum. Stundum má sjá svartþresti róta í grasi og mold með fram upphituðum gangstígum. Þar finnur hann æti þegar jarðbönn eru annars vegna frosta. Skammdegið verður því ekki eins takmarkandi þáttur við fæðuöflun. Þrestirnir geta hafið fæðuöflun fyrr á morgnana og hætt seinna á kvöldin. Af hverju ættu þá svartþrestir borganna að leggja á sig hættulegt farflug tvisvar á ári? Að öllu þessu samanlögðu, auk fleiri þátta sem Einar Þorleifsson nefnir í sinni grein, hefur landnám svartþrasta í borgum Evrópu orðið til þess að þeim hefur fjölgað gríðarlega. Nú er svo komið að þeir eru víða algengari í borgum og bæjum en í skógum. Því má segja um svartþröstinn að hann sé skógarfugl sem lagt hefur borgina undir sig (Einar 2019).

Borgarfuglar treysta því að þeim sé gefið að éta. Hér er svartþrastarkarl að gæða sér á vínberi og epli. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Borgarfuglar treysta því að þeim sé gefið að éta. Hér er svartþrastarkarl að gæða sér á vínberi og epli. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Ætisleit

Svartþrösturinn á það sameiginlegt með frænda sínum skógarþresti að taka fjölbreytta fæðu. Hann étur gjarnan ber en þau eru ekki til reiðu allt árið. Því kemur sér vel að hann étur einnig alls konar hryggleysingja, svo sem orma, áttfætlur og skordýr af ýmsum toga. Hann étur einnig bæði snigla (sem vissulega eru hryggleysingjar) og sniglaegg.

Þessi kvenfugl hefur það fyrir satt að þótt farið sé að snjóa sé engin ástæða til að örvænta meðan svona mikið er enn að finna af berjum á greinum trjánna. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Þessi kvenfugl hefur það fyrir satt að þótt farið sé að snjóa sé engin ástæða til að örvænta meðan svona mikið er enn að finna af berjum á greinum trjánna. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Algengt er að sjá svartþröstinn hoppa um á jörðinni í leit að æti. Þá veltir hann við visnuðu laufi og rótar í moldinni í leit að ormum og pöddum. Á jörðinni tínir hann líka upp ber sem fallið hafa til jarðar.

Þegar fylgst er með svartþresti á jörðu niðri mætti halda að hann sé nokkuð óöruggur með sig. Það er eins og hann sé viðbúinn því að ógn steðji að og ef til vill er það mikilvægt fyrir hann. Það er aldrei að vita hvar næsti köttur leynist. Vængirnir lafa nokkuð með síðunni en stélið er jafnan sperrt. Verði hann fyrir styggð skýst hann hratt í felur. Þá varar hann félaga sína við og gefur frá sér áberandi, klingjandi viðvörunarkall. Stundum er eins og stressið sé aðeins of mikið. Þá gefur hann frá sér viðvörunarkall án sýnilegrar ástæðu (Guðmundur Páll 2005). Eins og við vitum eru skógarþrestir gjarnan í trjám. Hjá svartþrestinum virðist vera næstum fullt eins algengt að sjá fugla á jörðu niðri eða neðarlega í trjám nema þegar karlfuglarnir hreykja sér hátt til að tilkynna um yfirráð sín á óðalinu.

Svartþrastarkarl á fyrsta ári tínir upp í sig ber á jörðu niðri. Hann á það til að róta í laufi og lággróðri í leit að ormum og öðrum hryggleysingjum en hér eru það reyniber sem heilla. Mynd: Sig.A.
Svartþrastarkarl á fyrsta ári tínir upp í sig ber á jörðu niðri. Hann á það til að róta í laufi og lággróðri í leit að ormum og öðrum hryggleysingjum en hér eru það reyniber sem heilla. Mynd: Sig.A.

Atferli svartþrasta á jörðu niðri hefur vakið athygli margra. Meðal annars hefur Hannes Sigfússon ort um það ljóð. Í ljóðinu kemur einnig fram að lífsbarátta þessa spörfugls getur verið býsna hörð á vetrum en það verður gleymt þegar vorar á ný.


Svartþröstur


Bælir sig að jörð og hlerar niður

í hlykkjótt moldargöngin undir frosnum þekjum

þar sem skriðljós ánamaðksins

iða sem hrævareldar í myrkri

hugans. Dýpra

dylst hið fagurbleika sumaragn


Felur sólgult nefið undir væng

og veit að þessi fölu strá má nota

til að flétta ný hreiður

í nýjabrumi vorsins – ef það sprettur

þá einhverntíma undan bláum nöglum

þessara nístandi frosta.

Karlfugl með moldugt nef eftir að hafa stungið því í svörðinn til að ná í ánamaðk. Mynd: Sig.A.
Karlfugl með moldugt nef eftir að hafa stungið því í svörðinn til að ná í ánamaðk. Mynd: Sig.A.

Á veturna sækir fuglinn mikið á staði þar sem honum er gefið fóður. Þá verður hann gjarnan heimaríkur og rekur aðra fugla svo sem skógarþröst af veisluborðinu ef hann getur. Þriðji þrösturinn, gráþrösturinn, lætur aftur á móti ekki undan, enda er hann álíka stór, jafnvel ögn stærri en svartþrösturinn. Þrátt fyrir þetta ofríki stóru þrastanna gegn skógarþröstum er ekki að sjá að það hafi neikvæð áhrif á stofnstærð litla frænda. Þvert á móti hefur skógarþröstum fjölgað hér á veturna ef marka má talningar. Því er engin ástæða til annars en að taka vel á móti bæði svart- og gráþröstum. Líkleg ástæða fyrir þessari fjölgun allra þrastanna er aukin trjárækt á Íslandi ásamt hnattrænni hlýnun og fóðurgjöfum að vetri til. Búsvæði þrasta og fleiri spörfugla virðist fara stækkandi.

Víða tíðkast að gefa fuglum yfir veturinn. Svartþrestir eru sérstaklega hrifnir af eplum og svo virðist sem margir þeirra éti helst ekkert annað en epli yfir veturinn. Annars éta þeir einnig brauðmola, rúsínur, vínber, kjöthakk og fleira sem til fellur. Þeir éta meira að segja sólblómafræ, þótt þrestir teljist almennt ekki til frææta. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Víða tíðkast að gefa fuglum yfir veturinn. Svartþrestir eru sérstaklega hrifnir af eplum og svo virðist sem margir þeirra éti helst ekkert annað en epli yfir veturinn. Annars éta þeir einnig brauðmola, rúsínur, vínber, kjöthakk og fleira sem til fellur. Þeir éta meira að segja sólblómafræ, þótt þrestir teljist almennt ekki til frææta. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Tilhugalíf

Tilhugalífið hefst að vetri til og karlfuglinn helgar sér þá óðal. Hrein unun er að heyra hann syngja til að tilkynna yfirráð sín. Þar sem stofn varpfugla er ekki mjög stór er ólíklegt að til átaka komi meðal karlfugla um óðul. Í þau fáu skipti sem það gerist upphefjast mikil læti þegar óðalsherrann reynir að losna við hinn óboðna gest. Söngurinn hefst við sólarupprás og mestur er söngurinn á morgnana en fyrir sólarupprás þar sem vænta má umferðarhávaða. Hér aðeins neðar segjum við nánar frá söngnum. Snæbjörn (2017) segir að fuglar í makaleit syngi meira en þeir sem eiga maka og eru eingöngu auglýsa óðal sitt.

Svartþrestir hafa óvenjulangt stél miðað við aðra þresti. Það er um að gera að sýna það ef það gæti hjálpað til við að laða að kvenfugla. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Svartþrestir hafa óvenjulangt stél miðað við aðra þresti. Það er um að gera að sýna það ef það gæti hjálpað til við að laða að kvenfugla. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Talið er að söngur karlfuglanna, ásamt gljáa á svörtum fjöðrum sem gerir heiðgult nefið enn meira áberandi, hjálpi kvenfuglum að meta atgervi karlanna áður en varp hefst. Kvenfuglar hafa engan áhuga á svartþrastakörlum sem syngja máttleysislega eða hafa mattar fjaðrir (Attenborough 1999).


Ómótstæðilegir karlfuglar hafa glansandi svartan búning sem gerir gulan gogginn enn meira áberandi. Myndir: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Varp

Varptíminn er nokkuð langur hjá svartþröstum. Þeir fara að láta í sér heyra í febrúar og helga sér þá óðul. Þeir fyrstu verpa í lok mars. Algengast er að verpt sé frá byrjun maí og fram í miðjan júní en stundum sjást nýklaktir ungar jafnvel í september. Svartþrösturinn getur verpt allt að fjórum sinnum á sumri en algengara er að hann verpi tvisvar eða þrisvar. Hreiðrið er áþekkt skógarþrastarhreiðri en þó ívið stærra enda er fuglinn stærri. Hreiðurefnið er gjarnan greinar, gras, strá og lauf. Oft byggir þrösturinn nýtt hreiður fyrir hvert varp en á því eru undantekningar.

Hér liggur kvenfugl á hreiðri á sama tíma og karlfuglinn fóðrar ungana. Þessa skemmtilegu fjölskyldumynd tók Sigurður Ægisson.
Hér liggur kvenfugl á hreiðri á sama tíma og karlfuglinn fóðrar ungana. Þessa skemmtilegu fjölskyldumynd tók Sigurður Ægisson.

Þegar hreiðrið er tilbúið verpir kerlingin einu eggi á dag þar til þau eru orðin þrjú til fimm. Þá leggst hún á. Það kemur þó ekki í veg fyrir að stundum er nokkuð mikill munur á stærð unganna. Kvenfuglinn sér einn um áleguna og útungun tekur um tvær vikur. Báðir fuglarnir sjá um að færa björg í bú og uppeldi í hreiðri tekur álíka langan tíma og álegan. Fullorðnir þrestir éta bæði jurtafæðu, eins og ber, og hryggleysingja. Aftur á móti mata þeir unga sína eingöngu á dýrafóðri enda er próteinið þeim mikilvægt svo þeir vaxi hratt. Ungfuglar eiga erfitt með að forðast hættu og mikil afföll verða á svartþröstum á fyrsta ári. Lifi þeir fyrsta árið af geta þeir náð allt að 20 ára aldri og þeir hefja varp strax á öðru ári. Helsta hættan sem pasturslitlir ungarnir standa frammi fyrir er að þeir kunna ekki að forðast hættu. Þeir eru auðveld bráð fyrir til dæmis ketti, hrafna og sílamáv (Einar 2019).


Svartþrastarkarl að mata unga sína. Hreiðrið er í grenitré eins og sjá má. Mynd: Sigurður Ægisson.
Svartþrastarkarl að mata unga sína. Hreiðrið er í grenitré eins og sjá má. Mynd: Sigurður Ægisson.

Söngur

Söngur svartþrasta hefst þegar þeir fara að huga að varpi á vorin. Stundum fara þeir að syngja í lok febrúar og þá gjarnan löngu fyrir birtingu enda er dagurinn þá stuttur. Það hefur vakið athygli að mest virðast þeir syngja í dumbungsveðri og hlýindum (Snæbjörn 2017).

Fáir fuglar syngja jafnglæsilega og svartþrösturinn. Að einhverju leyti ráða þar erfðir en þeir læra líka sönginn af foreldrum sínum. Það hefur leitt til þess að nokkurn mismun má greina á söng svartþrasta eftir svæðum. Því hefur til dæmis verið haldið fram að söngur þeirra á Íslandi sé ekki jafn fjölbreyttur og sunnar í Evrópu. Ekki leggjum við mat á það. Í bók eftir sjálfan Attenborough (1999) segir frá því að á nítjándu öld hafi svartþrestir verið fluttir frá Englandi til Ástralíu til að gleðja eyru landnema. Nú er svo komið að svartþrestir á þessum slóðum syngja með greinilegum áströlskum hreim.

Bústinn kvenfugl í grenitré að vetri til. Ef til vill er þar næga fæðu að finna þótt hver sitkalús hafi lítið að segja þegar fuglarnir eru svona stórir. Svo má ef til vill éta fræ ef ekkert annað er í boði. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Bústinn kvenfugl í grenitré að vetri til. Ef til vill er þar næga fæðu að finna þótt hver sitkalús hafi lítið að segja þegar fuglarnir eru svona stórir. Svo má ef til vill éta fræ ef ekkert annað er í boði. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Bítlarnir

Við getum varla fjallað um svartþröst án þess að nefna Bítlalagið Blacbird, en svo heitir svartþröstur á ensku. Fuglinn fær meira að segja að láta í sér heyra þegar líður á þetta fræga lag sem hlusta má á hér. Sá sem þetta ritar þykist oft hafa heyrt svartþresti leggja út af upphafstónunum í laginu.

Hér fyrir neðan má sjá texta lagsins.


Blackbird singing in the dead of night

Take these broken wings and learn to fly

All your life

You were only waiting for this moment to arise

Blackbird singing in the dead of night

Take these sunken eyes and learn to see

All your life

You were only waiting for this moment to be free

Blackbird fly blackbird fly Into the light of the dark black night (x2)

Blackbird singing in the dead of night

Take these broken wings and learn to fly

All your life

You were only waiting for this moment to arise (x3)

(Lennon og McCartney)

Næga fæðu er að finna fyrir svartþresti í skógum landsins yfir sumarið og langt fram á haust, en veturnir geta reynst þeim erfiðir. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Næga fæðu er að finna fyrir svartþresti í skógum landsins yfir sumarið og langt fram á haust, en veturnir geta reynst þeim erfiðir. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Árið 2017 gáfu þau Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring út stórskemmtilega bók um fugla. Rán veitti okkur góðfúslegt leyfi til að endurbirta hér teikningu úr bókinni þar sem upphafshendingarnar úr Bítlalaginu eru túlkaðar. Hún meira að segja sendi okkur teikninguna í formi sem hentar betur fyrir texta á netinu en sjá má í bókinni. Hafi hún okkar bestu þakkir fyrir liðlegheitin.

Það þarf ekki mikla þekkingu á nótnaskrift til að átta sig á hvaða lag þarna er túlkað svona skemmtilega. Teikninguna gerði Rán Flygenring.
Það þarf ekki mikla þekkingu á nótnaskrift til að átta sig á hvaða lag þarna er túlkað svona skemmtilega. Teikninguna gerði Rán Flygenring.

Framtíð svartþrasta á Íslandi

Ekkert bendir til annars en framtíð þessa skemmtilega söngfugls sé trygg á Íslandi. Að minnsta kosti meðan enn er til fólk sem fóðrar þá á vetrum.Áður en eiginlegt landnám þeirra tókst höfðu þeir reynt varp af og til. Þeir voru meðal annars í náttúrulegum birkiskógum í Skaftafelli, Svínafelli og Núpsstaðaskógi á 20. öld. Það varp lagðist af (Einar 2019). Það sýnir samt ákveðinn vilja til að setjast að í skógum.Þegar landnámið loksins tókst voru að verki fuglar sem gerðust borgarfuglar frekar en skógarfuglar. Til að byrja með héldu þeir sig í stórum trjálundum í höfuðborginni, svo sem í Fossvogi. Eftir því sem þeim hefur fjölgað hafa þeir fært sig í ræktaða skógarreiti við þéttbýli. Þeir eru nú algengir í Heiðmörk, við Hvaleyrarvatn, við Mógilsá og víðar í græna treflinum utan um Stór-Hafnarfjarðarsvæðið (Einar 2019).


Ungir sem aldnir svartþrestir af báðum kynjum gleðjast mjög yfir eplum sem þeim eru færð yfir veturinn. Á hverjum vetri má ganga að svartþröstum vísum í Lystigarðinum á Akureyri, þar sem þeim er gefið. Myndir: Sigurður H. Ringsted.


Með aukinni trjárækt í og við þéttbýli á Íslandi má gera ráð fyrir að svartþröstum haldi áfram að fjölga. Þó mun væntanlega renna upp sú tíð að sú vist verði fullsetin. Þá gæti komist einhvers konar hvikult jafnvægi á stofnstærðina. Það mun þá takmarkast af fæðuframboði á vetrum og því kjörlendi sem við sköpum tegundinni.

Ef svartþröstur heldur samt áfram að auka útbreiðslu sína hér á landi mun hann sjálfsagt, fyrr eða síðar, leggja skóga undir sig í meira mæli en hann gerir nú. Það er þó háð því að hann finni þar nægilegt æti yfir veturinn. Ef honum tekst það ekki verður hann að taka litla frænda sinn, skógarþröstinn, sér til fyrirmyndar og taka upp farflug. Þannig hafa flestir svartþrestir það á Norðurlöndum. Vel má ímynda sér að sú komi tíð að hér verði til staðbundnir stofnar svartþrasta í borgum og bæjum og farfuglar í skógum. Það yrði þá ekki ósvipað og hjá skógarþrestinum. Þá gæti stofnstærð svartþrasta margfaldast frá því sem nú er, því eins og Einar Þorleifsson (2019) bendir á, þurfa farfuglar ekki að treysta á fóðurgjafir á vetrum.

Um gagnsemi svartþrasta þarf vart að efast. Þeir eru duglegir við að éta lirfur skordýra sem éta af trjám í görðum og skógum. Þeir éta til dæmis helling af lirfum haustfeta. Að auki éta þeir mikið af sniglum. Þeir éta bæði dýrin og eggin og eru einu garðfuglarnir sem vinna á lyngbobbum í görðum. Þar sem fuglum er gefið reglulega eru því snigla- og skordýraplágur miklu fátíðari en þar sem minna er um svartþröst og aðra garðfugla (Einar 2025).

Ungfugl að hausti í Lystigarðinum. Allt lauf er fallið af trjánum og búið er að setja upp ljósaseríur. Þetta er nokkuð seint fyrir svona ungan fugl. Mynd Emma Hulda Steinarsdóttir.
Ungfugl að hausti í Lystigarðinum. Allt lauf er fallið af trjánum og búið er að setja upp ljósaseríur. Þetta er nokkuð seint fyrir svona ungan fugl. Mynd Emma Hulda Steinarsdóttir.

Þakkir

Svona pistill yrði lítils virði ef ekki væri fyrir myndirnar sem fylgja. Höfundar þeirra eiga fullt eins mikið í þessum pistli og sá sem skráður er fyrir honum. Þess vegna viljum við færa þeim öllum okkar bestu þakkir. Þeir nafnar og ljósmyndarar Sigurður Ægisson og Sigurður H. Ringsted leystu einnig hratt og vel úr þeim fyrirspurnum sem skráður höfundur sendi þeim. Í pistlinum eru tvær myndir úr bókum. Sigurður Ægisson veitti okkur góðfúslegt leyfi til að birta kort úr sinni bók frá 2020 og Rán Flygenring sagði það velkomið að birta teikningu eftir hana úr bók hennar og Hjörleifs Hjartarsonar frá 2017. Það sýnir einstakt hugarþel þeirra Sigurðar og Ránar að þeim þótti sjálfsagt að senda okkur myndirnar í tölvutæku formi til að auðvelda okkur verkið. Fyrir það erum við þakklát. Náttúrufræðingurinn Einar Þorleifsson las yfir handrit í vinnslu og benti á atriði sem betur máttu fara. Einar er alltaf tilbúinn að hjálpa okkur þegar eftir því er leitað. Hann hefur einnig, í samtölum við höfund, veitt ýmsar upplýsingar sem hafa ratað í þennan pistil og fleiri fuglapistla án þess að þess sé endilega getið hvaðan upplýsingarnar komu. Einari sendum við okkar bestu þakkir. Að lokum þökkum við Pétri Halldórssyni fyrir vandaðan yfirlestur prófarkar, þarfar ábendingar og aðstoð.

Þessi þröstur virðist vera alveg steinhissa á að berjaveislunni sé lokið. Nema hann sé svona hissa á því að pistillinn er ekki lengri. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Þessi þröstur virðist vera alveg steinhissa á að berjaveislunni sé lokið. Nema hann sé svona hissa á því að pistillinn er ekki lengri. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Heimildir og frekari lestur



Aldís Erna Pálsdóttir og Borgný Katrínardóttir (2025): Svartþröstur (Turdus merula). Á vef Náttúrufræðistofnunar frá mars 2025. Sótt 29. júlí 2025. Sjá: Svartþröstur (Turdus merula) | Náttúrufræðistofnun Íslands


Attenborough, David (1999): Lífshættir fugla. Þýðing: Atli Magnússon og Örnólfur Thorlacius. Bókaútgáfan Skjaldborg hf, Reykjavík.


Einar Þorleifsson (2019): Svartþröstur (Turdus merula), skógarfuglinn sem nam borgirnar.  Í: Skógræktarritið 2019, 1. tbl. bls. 98-112. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík. Einar Þorleifsson (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla í ágúst 2025.


Guðmundur Páll Ólafsson (2005): Fuglar í náttúru Íslands. Mál og menning.


Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring (2017): Fuglar. Angústúra.


Jóhann Óli Hilmarsson (án ártals): Fuglavefurinn: Svartþröstur. Sótt 29.07. 2025. Sjá: Fuglavefur- Svartþröstur.


Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage (2016): Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf.


Skarphéðinn G. Þórisson (1981): Landnám, útbreiðsla og stofnstærð stara á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 51: 145-163.


Sigurður Ægisson (2020): Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar.


Snæbjörn Guðmundson (2017): Svartþröstur. Birt á vef Náttúruminjasafns Íslands 2. desember 2017. Sótt 29. júlí 2025. Sjá: Svartþröstur | Náttúruminjasafn Íslands.


Sólrún Harðardóttir (án ártals): Skógarfuglar og borgarfuglar. Á vef um náttúru Reykjavíkur. Sjá: Skógarfuglar og borgarfuglar - Náttúra Reykjavíkur. Sótt 10. ágúst 2025.


Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page