top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Stari

Einn af þeim fuglum sem í heiminum er upphaflega talinn til skógarfugla hefur víða um heim lagt undir sig borgir og bæi. Eftir endurteknar tilraunir til landnáms á Íslandi tókst honum að setjast að í borgarumhverfi á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu, nánar tiltekið í höfuðborginni. Landnámið tókst eftir stóra göngu haustið 1959. Síðan hefur hann breitt úr sér um nánast allt land.

Fugl mánaðarins er stari, Sturnus vulgaris.

Starinn er fallegur fugl. Hér situr hann í lerkitré, sem er fallegt tré. Þarna starir fuglinn eitthvað út í bláinn. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Starinn er fallegur fugl. Hér situr hann í lerkitré, sem er fallegt tré. Þarna starir fuglinn eitthvað út í bláinn. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Lýsing

Stari er auðþekkjanlegur, dökkur og bústinn fugl en töluverður litamunur er á sumar- og vetrarbúningi. Á haustin og á veturna er fuglinn svartur en alsettur ljósari dílum. Doppurnar eru ljósir fjaðurendar. Á bringu eru þær nær hvítir en á baki ljósbrúnar. Er líður að vori hverfa dílarnir og fuglinn fer í varpbúning. Þá fær hann á sig grænbláa slikju eða einskonar málmgljáa. Gljái þessi er sterkari á karlfuglum en kvenfuglum. Liturinn minnir þann er þetta ritar dálítið á olíubrák sem stundum sést á pollum nálægt gömlum bíldruslum.

Starapar í tilhugalífinu. Karlinn er til vinstri, kerlan til hægri. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Starapar í tilhugalífinu. Karlinn er til vinstri, kerlan til hægri. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Þegar fuglinn fer í varpbúning skiptir nefið einnig um lit. Á vetrum er það svart en það gulnar á varpfuglum. Þekkja má kynin á sumrin á því að nefrótin hjá karlfuglunum er blágrá en hjá kvenfuglinum er hún ljós. Annars er nefnið fremur langt og oddhvast. Ungfuglar eru grábrúnir að lit og á fyrsta vetri halda þeir brúna litnum nema hvað bringan verður eins og hjá fullorðnu fuglunum (Guðmundur Páll 2005, Jóhann Óli 2011). Þetta má sjá á nokkrum myndum í þessum pistli. Þær sýna að fuglinn er ekki bara svartur og rytjulegur, heldur skrautlegur og litríkur. Stari og hinn vel þekkti skógarþröstur eru svipaðir að stærð. Starinn er þó örlítið minni en mun frakkari þannig að skógarþrösturinn lætur undan síga ef þeir þurfa að takast á.

Ungur stari nælir sér í reyniber að hausti. Hann hefur enn hinn brúna lit ungana nema hvað bringan hefur tekið á sig lit vetrarbúnings fullorðins fugls. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Ungur stari nælir sér í reyniber að hausti. Hann hefur enn hinn brúna lit ungana nema hvað bringan hefur tekið á sig lit vetrarbúnings fullorðins fugls. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Litasjón

Eins og margir aðrir spörfuglar hafa starar meiri og breiðari litasjón en við mannfólkið. Margir fuglar sjá ljós á útfjólubláa rófinu, en það getur mannfólkið ekki. Þetta er talin ein helsta ástæða þess að berjaætur í hópi fugla geyma sér stundum ber ákveðinna reynitrjáa. Þótt við höldum að enginn munur sé á lit berjanna sjá þrestir og starar muninn á þeim. Berin verða rauð þegar þroskinn er langt komin en enn betri verða þau þegar þau verða útfjólublá. Fuglarnir sjá muninn, en ekki við.

Annað sem rétt er að nefna í þessu sambandi er málmgljáinn á svarbláum fjöðrum stara yfir varptímann. Við sjáum fuglana sem svarta með grænbláum gljáa en starinn sér mjög skrautlega fugla þar sem útfjólubláir litir eru aðalskrautið. Þessi skrautlegi fjaðrahamur er okkur að mestu hulinn.

Frá vinstri til hægri: 1) Stari eins og við sjáum hann í vetrarbúningi. 2) Mynd sem sýnir útfjólublátt ljós. 3) Stari eins og líklegt er að margir spörfuglar sjái hann. Myndina fengum við héðan.
Frá vinstri til hægri: 1) Stari eins og við sjáum hann í vetrarbúningi. 2) Mynd sem sýnir útfjólublátt ljós. 3) Stari eins og líklegt er að margir spörfuglar sjái hann. Myndina fengum við héðan.

Kjörlendi og varpstaðir

Sagan af samspili starans og þeirrar tegundar sem kallar sig vitiborna er nokkuð löng og flókin. Talið er víst að stari sé upphaflega skógarfugl í Evrópu og vestanverðri Asíu. Lengst af var hann hrifnastur af gömlum trjám þar sem finna mátti glufur og holur þar sem hann gat verpt. Gömul tré eins og eikur og hlynir eru einna vinsælust til hreiðurgerðar því í þeim má oft finna holur sem spætur, íkornar og fleiri skógardýr hafa gert og mótað.

Helst hefur starann verið að finna á mörkum skóga og rjóðra eða graslendis. Þetta er landslag sem virðist einnig heilla mannfólkið og sjá má þess dæmi í almenningsgörðum um alla Evrópu, Norður-Ameríku og sjálfsagt víðar.

Stari, kominn í haust- og vetrarbúning, fitar sig á gómsætum reyniberjum. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Stari, kominn í haust- og vetrarbúning, fitar sig á gómsætum reyniberjum. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Saga tengsla mannsins og starans nær örugglega mjög langt aftur. Ef til vill nær hún allt aftur til bronsaldar. Þegar athafnir manna urðu til þess að skógar drógust saman lærði fuglinn að nýta sér hina nýju vist sem þá bauðst á mörkum skóga og ræktaðs lands. Keltar, Rómverjar og Germanir breyttu skógum á láglendi Evrópu með beit, ræktun og skógarhöggi í land sem hentaði þessum fuglum ágætlega. Síðan hefur þróun þessara tengsla haldið óslitið áfram (Einar 2025).

Stari fóðrar stálpaðan unga. Myndin tekin 1. júní 2025. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Stari fóðrar stálpaðan unga. Myndin tekin 1. júní 2025. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Smám saman urðu til þéttbýlisstaðir í Evrópu og þá lítur út fyrir að fuglinn hafi séð þar tækifæri. Sérstaklega við garða og akra þar sem gömul tré voru í nágrenninu. Enn verpir stari í gömul tré í Evrópu en hann hefur líka lært að hagnýta sér allskonar byggingar undir hreiður sín. Fyrst hefur hann sjálfsagt fundið álitlegar holur í kastalaveggjum og gömlum rústum. Einar Ó. Þorleifsson (2025) telur að fuglinn hafi ekki farið að verpa að ráði í önnur hús fyrr en á 19. öld.

Nú er svo komið að stari verpir víða um heim, til dæmis bæði í Norður-Ameríku og Ástralíu enda hefur mannfólkið flutt hann með sér frá upphaflegum heimkynnum (Sigurður 2020).

Einar (2025) hefur bent á að svona sambýli fugla við okkar dýrategund sé ekki bundið við starann eingöngu. Hann nefnir landsvölu, bæjarsvölu, maríuerlu og fleiri fugla sem dæmi. Áður fyrr fyllti steindepill líka þennan hóp, að sögn Einars.

Starinn er tækifærissinni. Hann má stundum sjá í fjörum landsins þar sem næga fæðu er að finna. Varpbúningurinn verður ekki glæsilegri. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Starinn er tækifærissinni. Hann má stundum sjá í fjörum landsins þar sem næga fæðu er að finna. Varpbúningurinn verður ekki glæsilegri. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Nafnið

Það er kunnara en frá þurfi að segja að fyrir landnám var Ísland skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Með ósjálfbærri landnýtingu tókst undraskjótt að eyða nær öllum skógum landsins. Þar var húsdýrabeit drýgst, því hún kemur í veg fyrir að hin skammlífu birkitré geti endurnýjað sig.

Eitt er alveg óvíst, hvað þessa sögu varðar. Við vitum ekki hvaða fuglar voru í íslenskum skógum fyrir landnám. Fuglabein varðveitast mjög illa og steingervingar þeirra hafa ekki fundist hér á landi. Þrátt fyrir að við vitum ekki hvort stari hafi haldið til í íslenskum skógum fyrir landnám, þá vitum við að heiti hans þekktist hér á 13. öld. Það kemur fyrir í fuglatali Snorra-Eddu (Sigurður 2025). Sama heiti er líka að finna í ýmsum öðrum tungumálum með smávægilegum breytingum á stafsetningu og framburði. Sigurður Ægisson (2025) sendi okkur upplýsingarnar sem eru að finna í töflunni hér að neðan. Það er alls ekki hægt að útiloka að þetta heiti hafi borist hingað með fólki sem þekkti fuglinn þótt hann hafi ekki verið hér við landnám. Það verður að teljast líklegra en að skógareyðing hafi hrakið hann af landinu. Þó er ekki hægt að útiloka að hann hafi verið hér í gömlum trjám fyrir landnám.

Orðið stari á nokkrum skyldum tungumálum samkvæmt upplýsingum Sigurðar Ægissonar (2025). Í sumum tungumálum, til dæmis nýnorsku, eru fleiri heiti notuð yfir þennan fugl.
Orðið stari á nokkrum skyldum tungumálum samkvæmt upplýsingum Sigurðar Ægissonar (2025). Í sumum tungumálum, til dæmis nýnorsku, eru fleiri heiti notuð yfir þennan fugl.

Uppruni heitisins

Ýmsar kenningar eru á lofti um uppruna þessa heitis. Siguður Ægisson (2025) sagði okkur frá nokkrum tilgátum sem við endursegjum hér.

Ungur stari starir á umhverfið. Mynd. Emma Hulda Steinarsdóttir.
Ungur stari starir á umhverfið. Mynd. Emma Hulda Steinarsdóttir.

Hljóð fuglsins

Algengt er að nöfn fugla megi rekja til hljóðanna sem þeir gefa frá sér. Frægasta dæmið hér á landi er væntanlega kría, en væntanlega hafa bæði nöfnin hrafn og krummi verið mynduð á þennan hátt og er þó aðeins fátt eitt nefnt. Ef þetta á við um starann gæti heiti hans merkt eitthvað í líkingu vfuglinn sem gargar: sta-a-a-r eða eitthvað í þeim dúr.

Enn einn ungfuglinn að áliðnu hausti. Reyniber hjálpa mörgum spörfuglum áður en vetur gengur í garð. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Enn einn ungfuglinn að áliðnu hausti. Reyniber hjálpa mörgum spörfuglum áður en vetur gengur í garð. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Stjörnulögun á flugi

Sumir hafa nefnt að þegar fuglinn er á flugi þá lítur hann út eins og stjarna. Hann flýgur bæði hratt og beint með öru vængjablaki. Hann gæti líka minnt á stjörnuhrap er hann flýgur í átt að jörðu ofan úr trjám eða þegar hann stundar sitt áberandi renniflug. Upphaflega gæti hann þá hafa borið hið langa nafn fuglinn sem er eins og stjarna í laginu þegar hann flýgur. Svo hafi þetta heiti smám saman orðið styttra þar til það varð að því sem það er á okkar tímum og merkingin þá stjörnufugl eða stjarni.

Stari hefur sig til flugs. Mynd: Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Stari hefur sig til flugs. Mynd: Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Áhorf á stjörnuhimininn

Það er eftirtektarvert hvernig stari á náttstað horfir upp til himinsins. Það er eins og hann sé að virða fyrir sér stjörnuhimininn. Þetta gæti líka verið vísun í sögnina að stara. Stari gæti því verið stytting á fuglinn sem starir til himins.

Stari svipast um í víðirunna. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Stari svipast um í víðirunna. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Hamurinn

Í réttri birtu stirnir á fjaðraham starans. Hann er dökkur að lit og á sumrin slær blágrænni slikju á fjaðrahaminn en á veturna er hann mjög doppóttur.

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér stjörnubjartan himinn þegar hann er skoðaður í návígi, hvort heldur sem er á sumrin eða á vetrum en þó einkanlega á vetrum. Stari gæti því upphaflega verið: Fuglinn sem er eins og stjörnuhiminn.

Stari í varpbúningi í Höfðaskógi við Hafnarfjörð. Hamurinn minnir á næturhimininn. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Stari í varpbúningi í Höfðaskógi við Hafnarfjörð. Hamurinn minnir á næturhimininn. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Lýsingarorð

Það kann að vera að heiti fuglsins sé dregið af hinu forna lýsingarorði starr. Það getur merkt stífur, ósveigjanlegur eða þrár (t.d. Árni 1978). Á norsku getur starre merkt árásargjarn og er uppruninn væntanlega sá sami. Vel má vera að upphaflega hafi starinn þótt sérlega stífur eða þrár fugl. Hjálmar (1986) bendir á að starinn sé harðari af sér og jafnvel frekari en skógarþrestir. Ef þeir þurfa að keppa um fæðustað eða náttból, þá hefur starinn yfirhöndina og þrösturinn þarf að færa sig. Hjálmar segir að þrátt fyrir þennan yfirgang bendi ekkert til að stari valdi fækkun hjá skógarþröstum.

Stari að ybba gogg, nema hann sé að syngja eitthvað stórkostlegt. Hvort heldur sem er, þá er hann fallegur á litinn. Mynd: Friðrik Hreinsson.
Stari að ybba gogg, nema hann sé að syngja eitthvað stórkostlegt. Hvort heldur sem er, þá er hann fallegur á litinn. Mynd: Friðrik Hreinsson.

Nafnorð

Skylt þessu lýsingarorði sem að ofan er nefnt er hið úrelta nafnorð starr sem merkt getur þræta eða rifrildi (Mörður 2005). Ef til vill merkti stari sá sem ekki verður beygður eða sá ósveigjanlegi og harði. Þeir, þær og þau sem séð hafa stara rífast um fæðu þar sem þeir eru fóðraðir yfir veturinn geta vel skilið þessa tilgátu. Rétt er að geta þess að ekki eru allir sammála því að star og starr sé sami stofn. Vel má vera að hið norræna lýsingarorð eigi bara við um mannsnafnið Starra en hafi ekkert með fuglsheitið að gera.

Þessi fugl er ekki til í að hleypa hverjum sem er að reyniberjunum. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Þessi fugl er ekki til í að hleypa hverjum sem er að reyniberjunum. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Sérnafn

Sum fuglsheiti hafa orðið að mannanöfnum á Íslandi. Við þorum ekki að fullyrða hvort mannanafnið Starri sé hið sama og fuglsheitið stari, en það verður að teljast líklegt, enda er fuglsheitið stundum skrifað sem starri og samkvæmt Merði Árnasyni (2005) var sérnafnið forðum skráð sem Stari. Í orðabókum er ekki annað að sjá en orðin stari og starri séu jafnrétthá (t.d. Árni 1978 og Mörður 2005). Merkingin á nafninu þarf ekki að vísa til fuglsins. Upphaflega merkingin gæti vísað til þeirra tveggja síðastnefndu tilgátna sem nefndar eru hér að ofan.

Starinn er sérstaklega fallegur fugl. Mynd: Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Starinn er sérstaklega fallegur fugl. Mynd: Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Í bókinni Nöfn Íslendinga (1991, bls. 508-509) er eftirfarandi fróðleikur um mannsnafnið Starri:  Nafnið kemur fyrir að fornu, m.a. í Laxdælu og Grettis sögu, en virðist ekki hafa verið mikið notað. Það kemur fyrir í nafnatali séra Odds á Reynivöllum frá 1646. Samkvæmt manntali 1703 voru fjórir karlar skráðir með þessu nafni, einn í Snæf. og þrír í Skaft. Næstu tvær aldir kemur nafnið ekki fram í manntölum. Af skrám Hagstofunnar má ráða að einn karl fékk nafnið sem síðara af tveimur um 1920 en síðan er það ekki notað sem eiginnafn fyrr en á sjöunda áratug aldarinnar. Árið 1989 voru tíu karlar skráðir svo, þar af sex að síðara nafni af tveimur. (Guðrún og Sigurður 1991). Hér með þökkum við Sigurði Ægissyni (2025) fyrir að segja okkur frá þessu. Samkvæmt þjóðskrá þann 1. janúar 2023 báru 19 Íslendingar nafnið Starri sem fyrsta eiginnafn og jafnmargir sem annað eiginnafn. Enginn Íslendingur ber eiginnafnið Stari með einu erri.

Hver sem er ætti að geta verið stoltur af því að bera sama eðs skylt nafn og þessi fagri fugl. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Hver sem er ætti að geta verið stoltur af því að bera sama eðs skylt nafn og þessi fagri fugl. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Landnám

Fuglinn var tíður flækingur á fyrri hluta 20. aldar og reyndi þá landnám af og til hér og þar um landið (Guðmundur Páll 2005, Skarphéðinn 1981, Sigurður 2020). Sumir telja að fyrsta hreiðrið hafi uppgötvast árið 1912, en það er málum blandið. Fyrsta hreiðrið í Reykjavík fannst 1935 en í það komu engin egg. Upp frá því bárust frekari fréttir af stara í Reykjavík um tíma (Sigurður 2020).

Það er vel þekkt að stari verpti í klettum í eyjum á Skarðsfirði við Hornafjörð í nokkur ár um 1940 en það leið undir lok af ókunnum ástæðum. Í Náttúrufræðingnum árið 1981 er sagt að varpið við Hornafjörð hafi jafnvel hafist 1937 en fyrsti staðfesti fundur hreiðurs með eggjum hafi verið árið 1941. Á þessum tíma reyndi starinn aldrei varp við eða í mannabústöðum í Hornafirði, heldur hélt sig við eyjarnar (Skarphéðinn 1981). Þar virðist hann hafa fundið hentugar glufur og holur fyrir hreiður sín.

Þessa glæsilegu mynd tók Veronika Bjarnardóttir.
Þessa glæsilegu mynd tók Veronika Bjarnardóttir.

Í grein Skarphéðins er sagt frá fleiri landnámstilraunum fuglsins, meðal annars voru nokkrar tilraunir í Eyjafirði frá árinu 1954 og svo annað veifið uns landnám tókst. Skarphéðinn færir rök fyrir því í greininni að þeir starar, sem hingað bárust á síðustu öld, hafi verið í farflugi frá Norðurlöndunum til Bretlands. Haustið 1959 barst hingað óvenjustór ganga og í kjölfarið hóf fuglinn varp í Reykjavík vorið 1960 (Einar og Jóhann Óli 2002, Skarphéðinn 1981, Sigurður 2020). Það má segja að þá hafi hann loksins fengið ríkisborgararétt á Íslandi en önnur stór ganga kom árið 1961 og renndi frekari stoðum undir landnámið. Fyrir þann tíma höfðu starar sést nær árlega um nokkurt skeið í höfuðborginni sem flækingar (Skarphéðinn 1981).

Eftir varanlegt landnám í Reykjavík í upphafi sjöunda áratugsins var stofninn fremur lítill til að byrja með. Upp úr miðjum áratugnum jókst varpið jafnt og þétt og svo fór að upp úr 1970 fór fuglinn að breiðast meira um landið og nú er hann kominn út um allt land. Íslenski starinn stundar ekki farflug. Hér á landi er hann fyrst og fremst staðfugl en á sömu breiddargráðum í Evrópu er hann farfugl.

Þrír starar í vetrarbúningi. Runnarnir eru enn óútsprungnir eins og sjá má. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Þrír starar í vetrarbúningi. Runnarnir eru enn óútsprungnir eins og sjá má. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Kjörlendi á Íslandi

Þegar fuglinn náði að nema land á Íslandi var hér ekki mikið til af gömlum trjám með holrýmum sem hentuðu honum. Aftur á móti gat hann víða fundið heppileg hreiðurstæði í byggingum og í klettum. Hér á landi er stari fyrst og fremst borgarfugl þar sem æti er að finna og þá helst í trjám. Hann má einnig að finna til sveita og í klettum. Þannig hafði fuglinn það þegar hann reyndi varp um nokkurn tíma í Skarðsfirði við Höfn í Hornafirði og nálægt síðustu aldamótum byrjaði starinn að nema slíka vist á Suðvesturlandi. Einar (2025) segir að það sé að verða nokkuð algengt hér á landi en er óvíða getið í erlendum heimildum.

Starinn er sums staðar í skógarreitum og almenningsgörðum. Það sem helst hindrar hann í að nema land í skógum eru heppileg hreiðurstæði. Þegar hann er svo heppinn að finna byggingar í og við skóglendi þá nýtir hann þær en einnig hreiðurkassa sem stundum má finna við sumarbústaði og í skógarreitum. Í framtíðinni munu trúlega skapast heppileg hreiðurstæði í öldnum trjám, rétt eins og finna má sunnar í álfunni. Það gerist þegar einstök tré ná því að verða gömul og virðuleg.

Ungur stari undirbýr sig fyrir sinn fyrsta vetur með því að háma í sig reyniber. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Ungur stari undirbýr sig fyrir sinn fyrsta vetur með því að háma í sig reyniber. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Kjörlendi starans ræðst meðal annars af fæðuframboði. Hann lifir á fjölbreyttri fæðu að sögn Jóhanns Óla (2011). Hann tekur kóngulær og ýmis skordýr og fóðrar unga sína á þeim. Stundum leitar hann í fjörur eftir skordýrum sem þar er að finna. Einnig étur fuglinn allskonar ber og laðast að trjám í görðum sem mynda ber. Þeir sækja í staði þar sem fuglum er gefið. Þar taka þeir nánast allt sem sett er út fyrir þá en láta kornið vera ef annað, svo sem ber og ávextir, er í boði.

Eins og svo margar tegundir spörfugla, þá eiga starar það til að rífast. Það er ekki allir sem ráða við að taka svona skarpar myndir af fuglum í þessum ham. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Eins og svo margar tegundir spörfugla, þá eiga starar það til að rífast. Það er ekki allir sem ráða við að taka svona skarpar myndir af fuglum í þessum ham. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Varp

Varp hefst á vorin þegar fæðuframboð er orðið nægilegt til að koma ungum á legg. Þá býr karlfuglinn til fremur óvandað hreiður, ef mið er tekið af öðrum spörfuglum. Hreiðrið er fyrst og fremst úr stráum en honum þykir gaman að skreyta það með einhverju sem stingur í stúf. Hann er ekki eini dökki spörfuglinn sem hagar sér svona. Sama atferli er vel þekkt hjá stærsta spörfugla landsins, hrafninum. Eitthvað sem glansar eða hefur allt annan lit, er gjarnan flutt í hreiðrið. Má nefna að naglar eru nokkuð vinsælir. Hreiðuróðal starans er fremur lítið (Guðmundur Páll 2005). Við þetta má bæta að gjarnan finnast fjaðrir og allskonar tágar og drasl í hreiðrunum (Jóhann Óli 2011). Hreiðrin eru helst í glufum, sprungum eða öðru holrými. Holur undir þakskeggi eru sérstaklega vinsælar en annars getur þetta verið nokkuð fjölbreytt. Hreiðurkassar og jafnvel vinnuvélar, sem ekki eru í notkun á vorin, henta prýðilega (Jóhann Óli 2011).

Starahjónin deila með sér útungun. Að sögn Guðmundar Páls (2005) er algengara að kvenfuglar liggi á yfir daginn en karlfuglar á nóttinni. Eggin eru að jafnaði 5 - 7. Eftir að ungarnir skríða úr eggi er algengara að kvenfuglinn sjái um ungana en það getur þó verið breytilegt. Sennilega taka karlarnir þátt í þessu en stundum stunda þeir tvíkvæni eða fjölkvæni og þurfa þá að deila kröftum sínum á fleiri hreiður. Talið er að starinn verpi að jafnaði tvisvar á sumri.

Stari með girnilegan málsverð í nefinu. Mynd: Bryndís Víglundsdóttir.
Stari með girnilegan málsverð í nefinu. Mynd: Bryndís Víglundsdóttir.

Flóin og fuglinn

Starinn byggir hreiður sín gjarnan í allskonar glufum eins og nefnt hefur verið. Fuglarnir eru harðánægðir með hreiðurkassa sem festa má á tré eða hús. Svo gera þeir sér gjarnan hreiður í mannabústöðum þar sem þeir geta komist inn um einhver op. Margur Íslendingurinn leggur fæð á fuglinn vegna þessa. Honum getur fylgt fuglafló sem stundum er nefnd starafló, Ceratophyllus gallinae. Flóin  ásækir starann og fleiri fugla, einkum spörfugla en einnig dúfur, hænur og fleiri fugla. Flærnar verpa eggjum í hreiðrið sem verða að lirfum sem verða fullvaxnar og púpa sig er líður á sumarið. Um haustið skríða flærnar úr púpunum og bíða til næsta vors í hreiðrinu inni í silkivefnum sem var um púpuna. Þá þurfa flærnar ekki annað en að slappa af þar til að nýir fuglar mæta á staðinn til að þær geti nært sig. Það gera flærnar með því að sjúga blóð úr fuglunum.

Vandinn verður þegar fuglinn kemur ekki aftur til dæmis ef starinn hefur verpt innan við glufu á húsvegg eða við loftræsisstokk og aðrir íbúar hússins hafa gert við smuguna sem fuglinn nýtti sér árið áður en ekki fjarlægt hreiðrið. Þá geta soltnar lýs farið á flakk og leita þá að einhverjum dýrum með heitt blóð. Helst vilja þær fugla en finnist þeir ekki verða aðrir íbúar hússins gjarnan fyrir valinu. Því er mikilvægt að hreinsa út gömul hreiður ef til stendur að koma í veg fyrir varp í húsaskjóli. Nú orðið er vírnet gjarnan sett fyrir loftræstiop. Þá er hægt að njóta samvista við þennan mannelska fugl. Sigurður Ægisson (2020) greinir frá því í sinni bók að víða í Evrópu er návist starans vel tekið. Annars staðar er fólk ekki hrifið af honum en það er ekki vegna flóarinnar, enda fylgir hún ýmsum fuglum, heldur vegna þjóðsagna sem honum tengjast.

Þessi stari, sem býr á Akureyri, vill mótmæla því alveg sérstaklega að hann sé einhve lúsablesi. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Þessi stari, sem býr á Akureyri, vill mótmæla því alveg sérstaklega að hann sé einhve lúsablesi. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Stofnstærð

Guðmundur Páll (2005) segir að heildarstofnstærð stara sé gífurlega mikil. Hann er jafnvel talinn skipta tugum ef ekki hundruðum milljóna fugla. Því telst hann vera ein af algengari fuglategundum í heiminum. Sigurður Ægisson (2020) segir að í Bandaríkjunum einum sé talið að séu um 200 milljónir fugla.

Nú er svo komið að þessi fuglastofn er líka mjög öflugur á Íslandi. Árið 1986 sagði Hjálmar R. Bárðarson í sinni bók að í Reykjavík og nágrenni væru um 3.000-4000 staðfuglar. Um aldamótin var giskað á að íslenski varpstofninn væri um 3.000−4.000 pör. Þar sem seinni talan er fjöldi para má ætla að fjöldinn hafi tvöfaldast á þessum skamma tíma. Sennilega hefur það verið vanmat og þar að auki hefur fuglunum fjölgað síðan þá og þeir breiðst út um landið. Kristinn Haukur Skarphéðinsson og félagar (2016) fullyrtu fyrir tæpum áratug að það væru að minnsta kosti 10.000 varppör á landinu. Ekkert bendir til að þeim hafi fækkað síðan þá.

Hér má sjá stara sem safnað hefur fæðu í stafafuru. Mynd: Vitor Gonçalves.
Hér má sjá stara sem safnað hefur fæðu í stafafuru. Mynd: Vitor Gonçalves.

Heimsborgari

Þótt íslenski starinn sé talinn eindreginn staðfugl er hann það ekki allsstaðar í heiminum. Í norðurhluta Evrópu og Asíu er hann farfugl en sunnar í Evrópu telst hann staðfugl eða vetrargestur. Nyrst í Afríku, norðan Sahara, er hann að finna sem farfugla frá Evrópu.

Þessi frakki fugl hefur verið fluttur, viljandi eða óviljandi, víða um heim frá upprunalegum heimkynnum sínum í Evrópu og Asíu. Þannig hefur hann breiðst út í nokkrum bylgjum um heimsbyggðina. Nú er hann að finna í Norður-Ameríku og bæði í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Í bók sinni um lífshætti fugla segir David Attenborough (1999) að flutningur stara til Ástralíu og Ameríku hafi fyrst og fremst verið til að slá á skordýraplágur. Hann bendir jafnframt á að það hafi að sjálfsögðu ekki virkað. Þótt starinn fúlsi ekki við lirfum og pöddum er hann enn hrifnari af berjum og ávöxtum.

Skarphéðinn Þórisson sagði frá því í grein árið 1981 að fuglinum hafi tekið að fjölga á 20. öld víða um heiminn og að landnám hans á Íslandi sé partur af þeirri útbreiðslu.

Kort sem Sigurður Ægisson lánaði okkur úr bók sinni um íslenska fugla og þjóðtrú. Inn á kortið eru merktir þeir staðir þar sem talið er að starinn hafi komið sér af eigin rammleik. Ekki eru merktir þeir staðir þar sem fuglinn hefur verið fluttur af mönnum þótt hann sé þar í milljónatali.
Kort sem Sigurður Ægisson lánaði okkur úr bók sinni um íslenska fugla og þjóðtrú. Inn á kortið eru merktir þeir staðir þar sem talið er að starinn hafi komið sér af eigin rammleik. Ekki eru merktir þeir staðir þar sem fuglinn hefur verið fluttur af mönnum þótt hann sé þar í milljónatali.

Atferli

Almennt er starinn talinn félagslyndur fugl þegar kemur að eigin tegund en hann er frekur gagnvart öðrum tegundum smáfugla. Svo kemur það fyrir að stakir fuglar taka upp á því að verja bletti fyrir öðrum fuglum sömu tegundar. Oft er það til dæmis afmarkað garðshorn sem hann eignar sér. Að sögn Guðmundar Páls (2005) getur farið mjög mikill tími hjá slíkum fuglum í að verja óðal sitt. Hópfuglarnir hafa þetta ekki svona. Þeir verja um 90% tíma síns í át en 10% á gægjum. Ef styggð kemur að einum fugli fljúga þeir allir upp. Verndun einstaklingsins er þá fólgin í þéttleika hópsins og samstilltum gjörðum ( Guðmundur Páll 2005).

Á haustin leggst starinn gjarnan í flakk og myndar þá stundum stóra hópa. Frægt er hvernig slíkir hópar stara stunda ótrúlega samhæft hópflug á síðkvöldum. Slíkt flug sést stundum allan veturinn. Ekki liggur fyrir hvaða tilgangi þetta hópflug þjónar. Attenborough (1999) nefnir að hugsanlega geti fuglarnir metið næringarástandið á hver öðrum á þessum tíma með þessu samhæfða flugi. Þá geta þeir að morgni elt þá fugla sem best eru haldnir til að fá næga fæðu fyrir veturinn.

Rúmlega 1000 starar í hópflugi yfir Selfossi þann 8. febrúar 2025. Mynd: Örn Óskarsson.
Rúmlega 1000 starar í hópflugi yfir Selfossi þann 8. febrúar 2025. Mynd: Örn Óskarsson.

Fuglinn er þekktur fyrir að hópa sig á náttstaði utan varptíma. Á slíkum stöðum er eilífur kliður, jafnvel langt fram á nótt. Þessir staðir geta hvort heldur sem er verið í skógræktarreitum eða í heppilegum byggingum (Guðmundur Páll 2005).

Sá sem þetta ritar vann sem unglingur hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Fossvogi á 9. áratug síðustu aldar. Þá náttuðu stórir hópar sig í grenilundum á staðnum. Í grein sinni frá 1981 segir Skarphéðinn Þórisson frá talningu í Fossvogi nokkrum árum áður og skiptu þá fuglarnir hundruðum og jafnvel þúsundum á þessum stað. Á sama tíma náttuðu aðrir starar sig meðal annars í yfirbyggingu á stúku Laugardalsvallar og á norðurvegg Háskólabíós. Mest er þetta áberandi seinni part sumars og á haustin þegar stofninn er stærstur.

Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Söngrödd

Líkt og frændi hans hrafninn getur starinn verið heilmikil hermikráka. Hann syngur þó mun meira en hrafninn. Fuglinn hefur fjölbreytt hljóð og er síkvakandi og flautandi. Hann á það til að herma eftir öðrum fuglum og þannig hefur hann til dæmis verið staðinn að lóusöng um miðjan vetur. Eitthvað virðist honum samt hafa farið aftur í þessum efnum, því að sögn Sigurðar Ægissonar (2020) kvaðst rómverski náttúrufræðingurinn Pliníus eldri, sem uppi var á fyrstu öld e. Kr., hafa vitað um einn stara sem talaði bæði grísku og latínu. Sigurður segir líka frá því að sagnir séu til um að Mozart hafi kennt stara að flauta laglínur úr tónverkum sínum.

Til eru dæmi þess að staraungar hafi verið handsamaðir og geymdir í búrum eins og páfagaukar. Þar hafa þeir lært að herma eftir allskonar hljóðum.

Það mætti halda að þessi stari sé að stjórna kórsöng félaga sinna. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Það mætti halda að þessi stari sé að stjórna kórsöng félaga sinna. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Spáfugl

Í Evrópu og Asíu þekkist sums staðar sú þjóðtrú að starinn sé spáfugl og sumir spádómarnir tengjast rödd hans. Ef hann syngur mikið og tístir er sólskin í vændum, ef marka má spádóma í Mið-Evrópu. Aðrir spádómar tengjast flugi starans. Til forna lásu Rómverjar í flug starans eins og reyndar fleiri fugla til að rýna í framtíðina. Sums staðar í Evrópu er enn spáð í hópflug stara. Stærð hópa á að geta sagt fyrir um hvers konar veður er í uppsiglingu. Í Færeyjum spáir hann fyrir hellirigningu ef margir fuglar taka sig allt í einu á loft og fljúga burt og á meginlandinu getur hópamyndun þeirra boðað óveður. Á meðal Ainu-fólksins í Japan þekkist sú trú að starinn geti kallað fram rigningu með söng sínum. Svo getur skipt máli hvar starinn syngur. Ef starinn syngur á húsþaki í Belgíu boðar það feigð íbúa fjölskyldunnar sem í húsinu býr (Sigurður 2020).

Þessi stari spáir í lífið og tilveruna. Mest spáir hann samt í reyniviðinn. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Þessi stari spáir í lífið og tilveruna. Mest spáir hann samt í reyniviðinn. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Samantekt

Starinn er óumdeilanlega fallegur og fjörugur fugl en var um skeið óvinsæll meðal margra húseiganda vegna flóarinnar sem fylgir honum og mörgum öðrum fuglum. Hann er nýlegur landnemi á Íslandi eftir að hafa margreynt að nema hér land. Fuglinum hefur fjölgað mikið og er nú að finna um allt land. Hann heldur sig gjarnan í manngerðu umhverfi þar sem finna má tré. Má segja að hann sé skógarfugl sem numið hefur borgarumhvefi.

Starinn leitar sér skordýra í reynivið þann 9. júlí 2024. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Starinn leitar sér skordýra í reynivið þann 9. júlí 2024. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Þakkir

Okkar bestu þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir þarfan og vandaðan yfirlestur prófarkar. Sérstakar þakkir fá Sigurður H. Ringsted, Emma Hulda Steinarsdóttir, Sigurður Ægisson og Einar Ó. Þorleifsson fyrir þolinmæðina sem þau hafa sýnt kvabbi höfundar og fyrir ómetanlegar upplýsingar og aðstoð. Þau eiga ekkert minna í þessum pistli en sá sem skráður er fyrir honum. Kærar þakkir fá öll þau er lánuðu okkur myndir sem hér eru birtar. Án þeirra væri lítið varið í pistilinn.

Þessi stari var staðinn að fimleikaæfingum. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Þessi stari var staðinn að fimleikaæfingum. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Heimildir

Árni Böðvarsson, ritstj. (1978): Íslenzk orðabók handa skólum og almenningi. 5. prentun 1978. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.


Attenborough, David (1999): Lífshættir fugla. Þýðing: Atli Magnússon og Örnólfur Thorlacius. Bókaútgáfan Skjaldborg hf, Reykjavík.


Einar Ó. Þorleifsson (2025) Munnlegar upplýsingar og upplýsingar í gegnum samskiptamiðla á góunni 2025.


Einar Ó. Þorleifsson og Jóhann Óli Hilmarsson (2002): Íslenskir skógarfuglar. Í: Skógræktarritið 2002 1. tbl. bls. 67-76. Skógræktarfélag Ísland, Reykjavík.


Guðmundur Páll Ólafsson (2005) Fuglar í náttúru Íslands. bls. 248-249. Mál og menning.


Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni (1991): Nöfn Íslendinga. Bls. 508-509. Heimskringla.


Hjálmar R. Bárðarson(1986): Fuglar Íslands. Hjálmar R. Bárðarson, Reykjavík.


Jóhann Óli Hilmarsson (2011): Íslenskur Fuglavísir. 3. útgáfa. Mál og menning.


Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage (2016). Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf.

Mörður Árnason, ritstj. (2005): Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Edda.

Sigurður Ægisson (2025): Fjölbreyttar upplýsingar í gegnum samskiptamiðla í janúar 2025.


Sigurður Ægisson (2020): Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bls. 350-352. Bókaútgáfan Hólar.


Skarphéðinn G. Þórisson (1981): Landnám, útbreiðsla og stofnstærð stara á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 51: 145–163.




Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page