Hin einmana eik eyðimerkurinnar
- Sigurður Arnarson
- Oct 8
- 10 min read
Í hinum stóra heimi eru til allskonar tré. Sum eru algeng en önnur eru fágætari. Má sem dæmi nefna að birki verður að teljast algengt, íslenskt tré þótt tegundin þeki aðeins um 1,5% landsins, eða þar um bil. Aftur á móti er blæösp sjaldgæft, íslenskt tré. Hún er samt hreint ekkert sjaldgæf í hinum stóra heimi. Svona er allt afstætt.
Við höfum stundum fjallað um tré sem eru sjaldgæf í heiminum. Má nefna sem dæmi pistla um tré sem telja má lifandi steingervinga og finnast aðeins villt á fáeinum stöðum.
Tréð sem við fjöllum um í dag er eitt af þessum fágætu trjám. Sumir segja að það sé aðeins til eitt eintak af tré vikunnar, en það er sennilega ofmælt - nema það sé vanmælt - því trén eru fleiri. Hér segir að tréð hafi fundist á þremur stöðum. Það er líklega nærri lagi. Þetta er blendingstegund sem á fræðimálinu kallast Quercus × munzii J.M.Tucker. Þetta „x“ í fræðiheitinu vísar til þess að um blending sé að ræða. Tréð finnst villt í miðri eyðimörk og tilvist þess hefur valdið mörgum grasafræðingum andvökunóttum. Tréð á sér ekkert viðurkennt íslenskt heiti en í þessum pistil köllum við það eyðimerkureik án þess að það sé tegundarheiti.
Þetta einmana eikartré er tré vikunnar.

Quercus × munzii vex í eyðimerkursandi eins og hér má sjá. Myndirnar sem finna má á netinu af þessari tegund eru nær allar af þessu tiltekna tré. Því er ekki að undra að sumir telji þetta tré hið eina sinnar tegundar í heiminum. Þessa mynd tók Pablo Nahuel Miraglia og birti á Facebooksíðunni Big Tree Seekers.
Staðsetning
Fyrir nokkrum misserum fjölluðum við um tré sem á ensku gengur undir nafninu The Joshua Tree. Það var full ástæða til þess, enda var þetta heiti notað á fimmtu breiðskífu írsku rokkhljómsveitarinnar U2. Það tré, sem í íðorðabanka Árnastofnunar er kallað jósúajukka, vex í eyðimörk sem kallast Mojave. Hún nær yfir stórt svæði í Kaliforníu, Arisóna, Júta og Nevada í Bandaríkjunum og teygir sig einnig yfir til norðurhluta Mexíkó. En þetta er ekki eina tréð, ef kalla má tegundina tré, sem vex í eyðimörkinni. Sjaldgæfasta tréð í allri þessari eyðimörk er eikartré. Eins og áður er nefnt segja heimildir að í allri þessari eyðimörk séu varla til nema þrjú tré af þessari tegund en eitt þeirra er stærst og þekktast. Það verður þó að fylgja sögunni að til eru örfá, minni tré sem trúlega eiga sama uppruna og þetta fræga eikartré sem sést hér að ofan. Hugsanlegt er að þeim hafi verið plantað og séu afkomendur eyðimerkureikarinnar einmana.
Til að reyna að koma í veg fyrir að þetta gamla tré verði skemmt er það ekki auglýst sem eitt af undrum svæðisins. Það er þó vel þekkt hvar það er að finna. Þetta eina, fræga tré er á 34°N og 116,1°V. Það stendur í sandi í skjóli við klett í litlu dalverpi í um 1350 m hæð og er 9 metra hátt með fallega, hvelda og kúlulaga krónu. Þarna stendur það og lítur út eins og hvert annað eikartré í skógum sem vaxa í allt öðru loftslagi, nema hvað laufblöðin eru fremur smá miðað við stór eikartré og þessi eik stendur ekki í skógi. Þetta eina tré stingur í stúf við allan annan gróður á svæðinu.
Hvernig stendur á þessari einmana eyðimerkureik?
Runnakenndar eyðimerkureikur
Það má ekki gleymast að segja frá því að í þjóðgarðinum sem þarna er og kallast Joshua Tree National Park sem merkir Jósúajúkkuþjóðgarður, vex eikartegund ein sem telst þar nokkuð algeng. Hún myndar þó ekki tré, heldur runna. Kallast hún Quercus turbinella á fræðimálinu en hefur ekki hlotið íslenskt heiti. Hún er sígrænn runni sem á bestu stöðum getur náð um 7,5 metra hæð en er oftast lægri. Tegundin myndar gjarnan þykkni af mörgum stofnum sem verða 2 til 5 m á hæð. Laufin eru leðurkennd og aðeins um 1,3 cm á lengd (OSU 2024 a). Þessi litlu lauf eru sjálfsagt aðlögun að eyðimerkurlífi.
Allar líkur eru á því að hér sé komið annað foreldri hinnar einmana eyðimerkureikur. Væntanlega er þetta móðirin. En hver er faðirinn og hvar er hann?

Hinar runnakenndu eikur eyðimerkurinnar, Quercus turbinella, eru mjög hærðar og gráar að lit. Blendingurinn hefur erft þessa hæringu. Myndin er fengin héðan þar sem sjá má fleiri myndir og upplýsingar um tegundina.
Faðernismál
Þar sem aðeins ein eikartegund (fyrir utan þennan blending) vex á svæðinu þarf að leita nokkuð langt til að finna meintan föður. Eyðimerkureikin þarf þá að hafa einhver einkenni sem gætu komið frá því tré. Sú tegund sem helst þykir koma til greina heitir Quercus lobata á fræðimálinu en dalseik á íslensku ef marka má íðorðabanka Árnastofnunar. Það er sumargrænt lauftré sem getur sem best orðið meira en 25 metrar á hæð. Greinar þess eru oftast nokkuð óreglulegar og stofninn er að jafnaði stuttur undir stórri krónu. Börkurinn er ljósgrár og springur með aldrinum. Laufin eru 5-10 cm löng og breiðust framan við miðju. Akornin eru grönn og nokkuð löng (OSU 2024 b).
Dalseik vex ekki villt í eyðimörkum. Næsti fundarstaður hennar er í 150 mílna fjarlægð frá fundarstað okkar trés, samkvæmt upplýsingum úr Jósúajúkkuþjóðgarðinum. Það eru rúmlega 240 kílómetrar. Til samanburðar er fjarlægðin milli Kjarnaskógar á Akureyri og Heiðmerkur á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu 245 km eins og fuglinn flýgur í beinni loftlínu, samkvæmt þessari síðu.

Dalseik, Quercus lobata, er talinn líklegur faðir blendingsins. Myndin er fengin héðan þar sem sjá má fleiri myndir og nánari lýsingu á tegundinni.
Lýsing
Tré vikunnar er 9 metra hátt með fallega, vel lagaða, hvelda krónu. Ólíkt eyðimerkurrunnunum af ættkvísl eikartrjáa, sem þarna vaxa, er tréð ekki sígrænt, ef marka má myndir sem finna má á netinu. Þetta er sumargrænt tré. Að vísu má segja að þarna sé alltaf sumar, en tréð fellir laufin í mestu þurrkum. Það er miklu algengara að eikur, sem vaxa svona sunnarlega, séu sígrænar. Það er ekki fyrr en norðar dregur að eikur fella lauf á vetrum. Þessi blendingur fellir laufin og það hlýtur að gefa einhverja hugmynd um faðernið. Til fróðleiks má geta þess að sígrænar eikur eru algengari í heiminum en sumargrænar eikur.

Þessi mynd var tekin af eikinni án laufa árið 2019 af Dean Wm. Taylor. Myndin birtist hér. Meintur faðir er sumargrænt tré á meðan meint móðir er sígrænn runni.
Tréð ber ættarsvip beggja foreldranna. Börkurinn er grófur og grábrúnn á litinn. Hann er líka þykkur og svipmikill. Það gæti hjálpað trénu að verjast sandstormum sem skaðað gætu viðkvæmari börk.
Laufin á þessari eik eru dæmigerð eikarlauf. Þau eru stærri en á runnaeikinni sem vex í nágrenninu en minni en á dalseikinni. Akornin eru nokkuð löng og draga mjög mikinn keim af akornum föðurins. Runnarnir í kring hafa styttri akorn.
Myndir sem Pablo Nahuel Miraglia tók og birti á Facebooksíðunni Big Tree Seekers. Önnur þeirra sýnir þessi löngu akorn og fremur lítil laufblöð en hin sýnir grófan börk.

Við leituðum töluvert að upplýsingum um hvort akornin væru frjó. Sums staðar er fjallað um hugsanlega afkomendur trésins en það gengur ekki nema blendingurinn myndi frjótt fræ. Þannig er það ekki alltaf með blendingstegundir. Tegundirnar tvær, sem taldar eru foreldrar trésins eru nokkuð skyldar og eykur það líkurnar á að eikin geti myndað heilbrigt fræ.
Við fundum staðfestingu á því að blendingurinn getur myndað frjótt fræ á óvæntri síðu. Það er þessi síða en á henni er fjallað um bonsai-tré. Þar segir síðuhafi að hann hafi tekið akorn af þessari frægu eik og birtir mynd af ungri plöntu. Því miður er myndin í lélegri upplausn en hana má sjá hér til hliðar.
Hæring
Nánast allt tréð er dálítið hært. Lauf, greinar og sprotar eru þakin pínulitlum hárum sem sjást ekki nema þegar vel er að gáð en gefur trénu gráleitt yfirbragð. Svona smágerð hæring er nokkuð algeng meðal eyðimerkurplantna. Í raun búa þær til eins konar míkróklíma eða nærloftslag þétt við plöntuna sem er annað en loftslagið í kringum hana. Hárin geta dregið aðeins úr styrk sólarljóssins svo blöð og greinar hitni ekki um of. Loftið næst blöðunum helst þar. Það hitnar minna á daginn en heldur hitanum að laufunum á næturna þegar lofthitinn hríðfellur. Að auki koma hárin í veg fyrir of mikið vatnstap þegar tréð ljóstillífar. Rakinn fer ekki allur í burtu heldur helst nærri blöðunum.
Svona hæring þekkist einnig á norðlægari tegundum trjáa. Má nefna silfurlind, Tilia tomentosa, sem dæmi. Viðurnafnið tomentosa vísar einmitt í svona hæringu og má finna í mörgum fræðiheitum plantna.

Þetta er vissulega glæsilegt tré, þarna í miðri eyðimörk. Myndin fengin af síðu Kew Gardens um tréð. Sjá má að tréð er gráleitt vegna hæringar.
Nafnið
Á fjórða áratug síðustu aldar vann grasafræðingur að nafni Philip A. Munz á þessum slóðum og rannsakaði þar plöntur. Hann varð meðal annars fyrstur manna til að lýsa tveimur afbrigðum af stjörnublöðkum, sem stundum eru nefndar levísur upp á útlensku, sem vaxa í Kaliforníu. Önnur þeirra er Lewisia rediviva var. minor, sem hann lýsti árið 1935 og hin er L. cotyledon var. heckneri sem hann lýsti árið 1938. Sú síðarnefnda hefur verið ræktuð í íslenskum görðum með góðum árangri.

Í Lystigarðinum á Akureyri er þetta fræga stjörnublöðkubeð. Grasafræðingurinn P. A. Munz, sem eikin er nefnd eftir á fræðimálinu, hafði mikinn áhuga á þessari ættkvísl. Ef til vill er Lewisia cotyledon var. heckneri í beðinu. Það var einmitt Munz sem fyrstur lýsti henni. Mynd: Sig.A.
Munz skoðaði margar fleiri plöntutegundir. Meðal annars gerði hann töluverðar rannsóknir á belgjurtum á þessum slóðum. Einkum skoðaði hann lykkjutegundir eða Astragalus spp. Sennilega er það þess vegna sem ein lúpínutegund er nefnd eftir honum en lúpínur og lykkjur tilheyra sömu plöntuætt. Lúpínan kallast Lupinus munzii. Önnur lúpína ber heitið L. munzianus og má vel vera að hún sé einnig nefnd honum til heiðurs.
Þótt Munz þessi hafi fyrst og fremst skoðað blómplöntur hafði hann mikinn áhuga á þessari tiltekna eik og vissi að hún var ekki eins og aðrar, þekktar eikur á þessum slóðum. Þá kom til sögunnar maður að nafni John Maurice Tucker. Hann var líka grasafræðingur og varði stórum hluta starfsævinnar í að skoða og rannsaka eikartré. Má sem dæmi nefna þessa grein sem hann skrifaði árið 1990 um eikur sem myndað hafa blendinga í Kaliforníu. Samkvæmt WFO (2024) var það árið 1968 sem hann lýsti þessu tiltekna tré af grasafræðilegri nákvæmni og kvað upp úr með það hverjir væru líklegir foreldrar. Þá gaf hann tegundablendingnum nafn og nefndi hann eftir grasafræðingum Munz sem áður hafði skoðað þetta tré. Síðan heitir tréð Quercus x munzii á alþjóðlega fræðimálinu. Það má einnig skrifa heitið sem Q. lobata × Q. turbinella til að minna á fjölskyldutengslin.

Laufblöðin eru örlítið hærð á efra borði eins og hér má sjá á litnum en hæringin er meiri á neðra borði. Myndina fengum við af síðu Kew Gardens um tréð.
Blendingurinn
Þegar J. M. Tucker nefndi þessa tegund eftir kollega sínum í Kaliforníu hafði hann skoðað alla helstu möguleikana á því hvaða foreldrar kæmu til greina. Hann bar saman blöð, akorn, greinar, stofna og önnur einkenni og þótti eftir það næsta víst hverjir foreldrarnir væru. Þá átti eftir að finna út hvernig á því stendur að tréð vex þarna.

Sýnishorn sem J. M. Tucker tók af laufum Q. x munzii (í miðið) og bar saman við laufblöð af Q. lobata (efsta röðin) og Q. turbinella (neðsta röðin). Eins og sjá má eru blöðin á tré vikunnar nánast mitt á milli hinna. Þau eru örlítið tennt eins og blöð runnanna en lag þeirra minnir meira á dalseikina. Þó eru blöðin ekki eins breið framan við miðju eins og sjá má. Hæringuna hefur okkar eik frá runnunum. Kvarðinn er í sentimetrum. Myndina fengum við héðan.
Ef við göngum út frá því að grasafræðingarnir hafi rétt fyrir sér um foreldrana vaknar sú spurning hvernig á þessari blöndun stendur. Það eru rúmlega 240 km á milli foreldranna. Getur tré í Kjarnaskógi frjóvgað tré í Heiðmörk? Þrjár tilgátur eða kenningar eru uppi um uppruna þessa fágæta blendings. Þeir félagar, Clapp og Crowson (2024), segja frá þessum tilgátum í sínum stórskemmtilega hlaðvarpsþætti Completely Arbortrary. Þetta finnst þeim allt svo ótrúlegt að þeir haga sér eins og þeir séu að leika í X-files þáttunum, sem margir kannast við, á meðan þeir segja frá þessu. Að minnast á þessa gömlu þætti er líka skemmtileg vísun í að um blending sé að ræða, því fræðiheiti blendinga hafa alltaf x í nafninu. Aðrar heimildir staðfesta að þessar tilgátur eru uppi. Á þessari síðu, sem Joshua Tree National Park heldur úti, er sagt frá tveimur þeirra.

Það má hæla þessari eyðimerkureik fyrir æði margt. Glæsilegir haustlitir eru ekki þar á meðal. Myndina tók John Reiss en við fengum hana héðan.
Í fyrsta lagi er ekki hægt að útiloka að frjó hafi fokið þessa 240 km eða jafnvel enn lengri leið, lifað ferðina af og lent á fræni þessara eikarrunna sem eru í eyðimörkinni. Líkurnar á því virðast hverfandi en það að þessi blendingseik er til rennir stoðum undir að það sé hægt. Á Íslandi hafa birkifrjókorn komið í frjókornagildrur á vorin áður en birki myndar frjó á Íslandi. Því vitum við að frjókorn geta ferðast langar leiðir. Til að frjóvgun geti átt sér stað þurfa báðar tegundirnar að blómstra á sama tíma og vindátt og veður að vera sérstaklega hagstæð. Geislar sólar geta vel skemmt frjó á skemmri tíma en tekur að ferðast 240 km. Það dregur mjög úr líkum á svona samruna, því ekki skortir sólargeisla í eyðimörkinni. Samkvæmt þessari síðu er líklegt að þetta hafi getað gerst fyrir miðja 17. öld.
Í öðru lagi getur þessi blendingur verið vísbending um fornar loftslagsbreytingar. Ef til vill var áður styttra á milli þessara tegunda. Þá gætu blendingar hafa verið algengari. Þessi eina, gamla eik í þjóðgarðinum gæti verið leifar frá þeim tíma. Gallinn við þá tilgátu er sá að ef svo hefði verið mætti gera ráð fyrir að um töluverðan fjölda blendinga væri að ræða. Reyndar hafa þeir fundist en það eru ungar plöntur sem vel geta verið afkomendur þessarar einu, frægu eikar. Því er þetta fremur ósennilegt. Þriðja hugmyndin er sú að einhverjir hafi flutt með sér akorn eða litla eik og plantað fyrir löngu. Þar beinast spjótin að frumbyggjunum sem vitað er að nýttu akorn dalseikur til átu. Þetta plantaða tré gæti hafa vaxið og myndað frjó áður en eyðimörkin gerði útaf við það. Það er þá löngu horfið og það vekur furðu að það hafi aðeins myndað einn blending sem enn lifir. Það er þó ekki hægt að útiloka það.
Við vitum auðvitað ekkert um hver þessara þriggja tilgáta er sú rétta eða hvort upprunninn er einhver allt annar. Úr því færst varla skorið. Við vitum bara að þarna stendur ein eik sem er allt öðruvísi en öll önnur tré í eyðimörkinni.
Heimildir
OSU. Oregon State University (2024 a). Landscape Plants: Quercus turbinella. Sjá: Quercus turbinella | Landscape Plants | Oregon State University. Sótt 17. október 2024.
OSU. Oregon State University (2024 b). Landscape Plants: Quercus lobata Sjá: Quercus lobata | Landscape Plants | Oregon State University. Sótt 17. október 2024.
NPS. National Park Service (2024): Hybrid Oak (Quercus x munzii). Vistað á síðu Joshua Tree National Park Exhibit. Sjá: People of the Desert: Joshua Tree National Park Exhibit (nps.gov).
Casey Clapp & Alex Crowson (2024): THE 𝘹 FILES (MUNZ OAK). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni: Completely Arbortrary frá 10. október 2024. Sjá: THE 𝘹 FILES (MUNZ OAK) — Completely Arbortrary (arbortrarypod.com).
John M. Tucker (1990): Hybridization in California Oakes. Sjá: Intl Oaks #3 - pp.4-14 - Hybridization in California Oaks.pdf (internationaloaksociety.org). Sótt 18. október 2024.
Bestu þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir yfirlestur prófarkar.









Comments