top of page

The Joshua Tree

Updated: Oct 26, 2023

Samkvæmt hlutlægu mati formanns aðdáendaklúbbs írsku rokkhljómsveitarinnar U2 í Kjarnaskógi er U2 besta popphljómsveit í heimi. Árið 1987 gaf hljómsveitin út sína fimmtu breiðskífu. Það er stórvirkið The Joshua Tree. Á meðal laga þar eru meistarastykkin Where the Streets Have No Name, I Still Haven't Found What I'm Looking For og With or Without You. Reyndar eru þetta fyrstu þrjú lög plötunnar. Auðvitað er full ástæða til að fjalla nánar um þessa plötu, en hvaða nafn er þetta á henni og hvaðan kemur það?



Ættfræði

Í júlí síðastliðnum var þessi pistill settur inn á heimasíðu SE. Þar sést að ekki er endilega alveg víst hvernig skilgreina skal tré. Í ágúst í fyrra var þessi pistill settur inn. Þar er fjallað um þróun gróðurs. Þar er meðal annars sagt frá muninum á einkímblöðungum og tvíkímblöðungum. Samkvæmt þeim pistli geta einkímblöðungar ekki myndað eiginlegan við. Því er ekki alveg öruggt að allir fallist á að þeir geti myndað eiginleg tré. Tré vikunnar að þessu sinni er einmitt einkímblöðungur.

Á latínu heitir tréð Yucca brevifolia. Eins og glöggir lesendur geta áttað sig á er tréð, eða ekki-tréð, af ættkvísl sem kallast oftast jukkur eða júkkur á íslensku. Í Íðorðabanka Árnastofnunar kallast þær júkkur og tré vikunnar jósúajúkka. Oftast nær reynir sá sem þetta ritar að nota þau íðorð sem gefin eru upp í bankanum en í þessum pistli verður það ekki gert. Hver vill hlusta á plötu með U2 sem heitir Jósúajúkkan?

Jukkur (Yucca) eru af spergilsætt (Asparagaceae). Af sömu ætt eru meðal annars spergill (Asparagus) og svo skrautplöntur sem þrífast á Íslandi eins og brúskur (Hosta), goðaliljur eða hýasintur (Hyaxinthus), perluliljur (Muscari) og stjörnuliljur (Scilla). Er þó aðeins fátt eitt talið því samkvæmt Wikipediu eru 114 ættkvíslir í ættinni og þekktar tegundir um 2900. Áður fyrr töldust allar þessar plöntur til liljuættarinnar (Liliaceae) enda eru ættirnar skyldar.

Jukkur eru risarnir í ættinni.


Mynd: Yucca brevifolia í Joshua Tree National Park í Kaliforníu. Sjá má blóm á trjánum. Myndina tók Bernard Gagnon.


Jukkur (Yucca)

Til eru um 40 til 50 tegundir af jukkum. Allar teljast þær sígrænar og finnast viltar í Ameríku. Þær vaxa allar í heitu og þurru loftslagi og sumar þeirra henta prýðilega sem stofuplöntur. Einkum er það stofujukkan Yucca gigantea sem ræktuð er í heimahúsum. Í hlýrri löndum er algengt að sjá sumar þeirra sem skrautplöntur í görðum. Flestar jukkur eru þekktar fyrir sín þykku, hrjúfu, stóru og sverðlaga blöð. Oftast hafa þær hvít eða mjög ljósleit blóm á stórum stilkum.


Orðið Yucca er talið komið úr máli sem talað var á karabísku eyjunum fyrir komu hvíta mannsins þangað. Tungumál þetta var kallað taínó og er nú útdautt. Orðið mun hafa verið notað yfir einhverjar plöntur en ekki endilega plöntur af þessari ættkvísl. Áður en tungumálið dó út skilaði það fjölmörgum orðum inn í spænsku og ensku. Má þar nefna ensk orð eins og barbecue, hurricane, potato og tobacco.

Til að fá tilfinningu fyrir þessari ættkvísl má skoða nokkrar myndir frá Wikipediu.



Yucca brevifolia Engelm.

Tré vikunnar er Yucca brevifolia. Það er ekki seinna vænna en að snúa sér að því. Plantan er einkímblöðungur sem nær trjástærð.

Hún vex aðeins í Mojave eyðimörkinni sem nær yfir stórt svæði í Bandaríkjunum. Hún er í ríkjunum Kaliforníu, Arisóna, Júta og Nevada. Eyðimörkin nær einnig til norðurhluta Mexíkó og þar vex tré vikunnar líka. Á öllu þessu svæði vex plantan í 400 til 1.800m hæð yfir sjávarmáli.

Plantan getur vaxið um 7 til 8 cm á ári fyrstu 10 árin eða svo. Það þykir bara nokkuð mikið miðað við eyðimerkurplöntur. Eftir það dregur úr vexti og þá bætir hún vart við sig nema 2-4 cm á ári. Hæsta tré sem mælt hefur verið af þessari tegund er 15 metra hátt.


Fyrsti grasafræðingurinn til að lýsa trénu var þýsk-Bandaríski grasafræðingurinn George Engelmann Hann fæddist í Þýskalandi 2. febrúar 1809 og lést í Bandaríkjunum 4. febrúar 1884. (Sá sem þetta skrifar fæddist 3. febrúar, án þess að það komi málinu við.) Engelmann vann þrekvirki við að skrá og lýsa flórunni í vestanverðri Norður-Ameríku.

Má vera að nafnið Engelmann hringi einhverjum bjöllum hjá lesendum, því blágreni ber nafn hans og kallast Picea engelmanni á latínu. Strangt til tekið á að skrá nafn þess (sem oft er stytt) sem fyrst lýsti viðkomandi tegund aftan við fræðiheitið. Mjög oft er því sleppt en sjálfsagt að virða þann sið þegar höfundarins er getið. Því er það gert að þessu sinni í fyrirsögninni.


Samkvæmt Peatti (sjá heimildaskrá) var Engelmann samt ekki fyrstur til að skrifa um þessi tré á enskri tungu. Það mun hafa verið John C. Frémont (1813-1890).

Engelmann og Frémont voru uppi á sama tíma. Vel má vera að í bandarískum bókmenntum þyki ástæða til að halda nafni þess síðarnefnda meira á lofti einkum ef Engelmann hefur skrifað meira á móðurmáli sínu, sem var þýska. Svo má vel vera að hann hafi skrifað sínar lýsingar á latínu. Þegar þessir heiðursmenn voru uppi var ekki tekið mikið mark á grasafræðingum nema þeir skrifuðu lýsingar sínar á latínu. En semsagt Frémont skrifaði á ensku. Honum þótti þessar plöntur alveg sérlega ljótar. Hann sagði um þessu frægu tré að stíft og smekklaust form þeirra væri það mest fráhrindandi í öllu jurtaríkinu. „Their stiff and ungraceful forms. . . the most repulsive tree in the vegetable kingdom.“ (bls. 314)


Blöðin

Þessar plöntur, hvort sem þær teljast til trjáa eða ekki, hafa mjög sérstakt útlit. Það er eins og hnífakastarar hafi dundað sér við að henda grágrænum sverðum í tréð þannig að þau myndi brúska hér og þar. Þessi sverð eru blöð plöntunnar sem frumbyggjar svæðisins nýttu forðum til að vefa mottur og körfur.

Blöðin eru sverðlaga, ydd í endann og með tennta jaðra. Við elstu hluta hverrar plöntu má oftast sjá dauð og visin lauf sem minna á laufblöð pálmatrjáa. Þau eru mjög trefjarík sem gerir þau hentug til vefnaðar.


Laufblöð á Yucca brevifolia. Mynd: Jean Hall


Blóm og aldin

Á hverju vori blómgast nokkur tré. Svo gerist það á fárra ára fresti að öll trén á tilteknu svæði blómstra á sama tíma. Hvað það er sem veldur þessari samræmdu blómgun er óþekkt með öllu. Þó er vitað að blómgun verður ekki nema fryst hafi áður á vaxtarstað og síðan rignt. Blómin eru óregluleg og minna á liljublóm enda er liljuættin náskyld spergilættinni. Blómin eru alltaf efst á sprotum plöntunnar. Eftir blómgun deyr ekki aðeins blómið, heldur allur sprotinn og nýir sprotar taka við. Þetta gefur plöntunni þetta sérkennilega vaxtarlag sem það er frægt fyrir.

Aldinið er nokkuð stórt eða á stærð við strútsegg en samt mjög létt þegar það nær fullum þroska. Fullþroska aldin fellur skjótt af trénu og bíður eftir því að vindurinn feyki því um eyðimörkina. Við það falla fræin úr aldininu hér og þar á meðan á ferðalaginu stendur.



Rætur

Ræturnar vaxa vítt og breitt í leit að raka en verða vart nema blýantsþykkar hið mesta. Sumar vaxa lóðbeint niður en aðrar dreifa sér lárétt. Þessar láréttu rætur eiga það til að ná yfirborðinu og þá vex upp nýr stofn. Lóðréttu ræturnar geta farið mjög djúpt eftir vatni og næringu. Vitað er að þær geta náð að minnsta kosti 11 metra niður í jörðina. Ungar rætur innihalda rautt litarefni og frumbyggjar svæðisins nýttu þær forðum til litunar á körfum sínum sem unnar voru úr blöðum trjánna.


Mynd: Rætur trjánna eru ekki þykkar frekar en á öðrum einkímblöðungum.


Aldur

Þessar plöntur mynda ekki árhringi frekar en aðrir einkímblöðungar. Því er ekki vel þekkt hversu gamlar þær geta orðið. Þó er vitað að þær geta orði mörg hundruð ára. Sumir segja að þau geti orðið nokkur þúsund ára gamlar en það er hvorki hægt að sanna það né afsanna. Þó er hægt að sjá á útliti plantnanna hvort þær eru gamlar eða ungar. Það er einfaldlega gert með því að telja greinarnar. Eftir því sem þær eru stærri og fleiri, þeim mun eldri er tréð.



Vaxtarstaðir

Þar sem trén vaxa mynda þau oftast stóra lundi þar sem nokkuð langt er á milli trjáa. Það þekkist líka að stök tré finnist hér og þar eins og vænta má þegar frædreifingin er höfð í huga. Stundum eru samt margir tugir kílómetra á milli vaxtarstaða. Það gæti bent til þess að trén hafi áður verið útbreiddari en þau eru í dag. Þau vaxa í eyðimörkum en þó ekki þar sem þær eru þurrastar. Bestum þroska ná trén þar sem þau vaxa nærri fjallsrótum eða neðst í hlíðum hárra fjalla. Þau eru sum hver það stór að í þau snjóar á vetrum. Á vorin, þegar snjóa leysir, nýta þessar plöntur vatnið sér til vaxtar. Hvergi verða þessar plöntur stærri en á svona stöðum. Að auki er það aðeins á svona stöðum sem þessar jukkur ná að mynda eins konar skóga. Að vísu ná þær sjaldan að standa það þétt að þær uppfylli þau skilyrði sem sett eru í alþjóðasamþykktum um skóga.

Með hnattrænni hlýnun gætu vaxtarstaðir þeirra dregist saman, sérstaklega ef dregur úr snjókomu í fjöllunum. Enn er ekki komið að því og verður vonandi ekki.


Mynd: U2 aðdáendur fara sumir í pílagrímsferð í leit að þessu tré. Það stendur nálægt vegi númer 190 við bæinn Darwin í Kaliforníu.


Sess í vistkerfi

Á stóru svæði eru þessar plöntur þær einu sem gætu gert tilkall til þess að teljast tré. Því þarf það ekki að koma á óvart að þau gegna mikilvægu hlutverki í þeim vistkerfum sem þær er að finna. Margar tegundir dýra eru meira og minna háðar þeim. Sem dæmi má nefna ákveðna tegund af spætum sem býr til holur í trén til að verpa í. Eftir útungun yfirgefa þær og ungarnir hreiðurholuna. Þá nýta aðrir fuglar holurnar. Þar eru ungar og egg í betra skjóli fyrir afræningjum og sterkri sól. Sagt er að 25 tegundir fugla nýti trén sem hreiðurstæði.

Hinar löngu trefjar laufblaðanna nýtast einnig í hreiðurgerð. Að auki eru til nagdýr á þessum slóðum sem klæða jarðholur sínar með laufunum. Til þess eiga þau það til að klifra upp í trén eftir þeim. Þess vegna kallast þær trjárottur. Eitt dýr er ónefnt sem sjaldan yfirgefur skjólið sem Joshua Tree veitir þeim. Það er lítil eyðimerkureðla af ættkvíslinni Xantusia. Hún heldur sig gjarnan í skjóli undir dauðum laufblöðum eða í skorum á berki og stofni sem myndast þegar tréð missir greinar. Komið hefur í ljós að þessar eðlur má finna í fjórða eða fimmta hverju tré að jafnaði og í hverju tré eru um ein til fjórar eðlur. Þar sem engin tré af þessari tegund vaxa finnast þær einfaldlega ekki. Þær virðast algerlega háðar Joshua Tree. Fundist hafa steingerðar leifar spendýrs sem virðist hafa verið álíka háð þessum trjám og eðlurnar. Það er nú útdautt. Þessi tegund er letidýr og leifar þess fundust fyrst árið 1930. Vísindamenn telja að stærstur hluti fæðu þess hafi verið lauf af þessari jukku. Leifar þessara dýra hafa einnig fundist þar sem engar jukkur vaxa í dag. Má líta á það sem eina af vísbendingum þess að tréð hafi áður vaxið víðar en það gerir nú.

Frægust þeirra dýra sem háð eru þessum trjám er mölflugutegund sem kallast Tegeticula synthetica. Flugurnar verpa einu eða fleiri eggjum í eggleg blómsins og frjóvga þau um leið. Ungar lirfur lifa í óþroskuðum fræjunum en eyðileggja sjaldan öll fræin sem móðir þeirra hefur frjóvgað. Mölflugutegundin er algerlega háð þessum trjám og sama má segja um trén. Ekki er vitað til þess að nein önnur skordýr frjóvgi blóm þeirra. Hvorugt getur því án hins verið.



Mormónar og tréð

Árið 1847 leiddi Brigham Young félaga sína úr söfnuði sem kallast Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu í gegnum eyðimörk til að stofna nýja borg. Borgin heitir Salt Lake City og er í dag höfuðstaður Jútaríkis. Young og félagar hans fóru yfir Cajon skarð í átt að Mojavaá. Þá komu þeir af einum sérkennilegasta skógi Bandaríkjanna. Í allar áttir, svo langt sem augað eygði, mátti sjá þessi sérkennilegu tré á stangli. Úr fjarlægð líkjast þau ef til vill meira einskonar trjábeinagrindum en hefðbundum trjám, enda eru þau ekki hefðbundin tré. Greinar trjánna beygjast upp á við eins og þær hafi olnboga. Mormónunum, en svo eru meðlimir safnaðarins gjarnan nefndir, þóttu sem trén væru að veifa til sín eða hefja „hendur“ sínar upp í eins konar bænastellingu eins og lýst er í Gamla testamentinu. Hin einkennilegu lauf minntu þau á skeggjaða spámenn úr sama riti. Þeim þótti sem þetta væru fyrirboðar þess að þeir væru á réttri leið og rifjuðu upp með sér lýsingu á Jósúa 8:18-26. þar sem hann leiðir menn sína til sigurs í eyðimörkinni með spjót á lofti í uppréttri hönd sinni. Þar er lýst einu af fjölmörgum fjöldamorðum sem eru Guði þóknanleg í Gamla testamentinu. Samtals, segir í hinni helgu bók, voru 12000 manns af báðum kynjum tekin af lífi þennan dag.

Síðan mormónarnir fóru þarna um hefur tréð verið kallað Joshua tree á enskri tungu.


Hljómplatan

Eins og fram kemur í inngangi þessa pistils gaf U2 út plötuna The Joshua Tree árið 1987. Þegar unnið var að plötunni leituðu meðlimir mjög í ræturnar. Þær liggja í írskri alþýðutónlist og áhrif bandarískrar tónlistar eru einnig áberandi á plötunni. Þeir voru reyndar mjög við hugann við Bandaríkin á þessum tíma og vinnuheiti plötunnar var um tíma The two Americas. Annað einkenni á plötunni eru tengingar við andleg efni. Hámarki ná þær pælingar í laginu I Still Haven't Found What I'm Looking For. Einhverra hluta vegna vildu piltarnir fá forsíðumynd á plötuna úr amerískri eyðimörk. Þeir fengu hollenskan ljósmyndara að nafni Anton Corbijn til að finna hentugan stað til myndatöku og fóru með honum í ferð um eyðimörkina. Það var hann sem sagði þeim frá þessari trjátegund. Þeim, sérstaklega söngvaranum Bono, þótti tréð glimrandi gott tákn fyrir allt það sem platan átti að standa fyrir. Að auki fannst þeim írsku félögum alveg óborganlega fyndið að Hollendingurinn skyldi bera nafn plöntunnar fram með J-hljóði í byrjun en ekki D-hljóði eins og enskumælandi mönnum er tamt. Allar smáskífurnar sem gefnar voru út af þessari plötu voru skreyttar myndum úr þessari ferð félaganna.



Heimildir

Vísað er í helstu netheimildir í texta þegar það á víð.

Annars er að mestu byggt á bókinni A Natural Historu of North American Trees eftir Donald Culross Peatti bls. 313-318. Gefin út í San Antonio, Texas

árið 2007.


169 views

Recent Posts

See All
bottom of page