top of page

Lífið í skógarmoldinni

Updated: Feb 29

Jarðvegurinn er undirstaða alls sem vex á jörðinni. Því kann það að vekja nokkra furðu hvað við í raun vitum lítið um hann og það sem í honum er að finna. Við vitum ótrúlega lítið um vistkerfið undir fótum okkar. Við vitum þó að moldin er stórfenglegur lífheimur. Ólafur Arnalds (2023), sem er fremsti jarðvegsfræðingur landsins, segir að því hafi verið haldið fram að „fjöldi þeirra tegunda sem á eftir að lýsa og greina í jarðvegi séu fleiri en allar þær tegundir sem þrífast ofanjarðar.“ Ætti þetta að gefa nokkra hugmynd um auðgi þeirra tegunda sem lifa undir fótum okkar. Í þessari grein segjum við frá þeim öllum - eða ekki. Þessi umfjöllun er mjög langt frá því að vera tæmandi eins og gefur að skilja.


Birki við jökulsorfnar klappir á Akureyri. Takið eftir gróskunni við tréð. Þar kemur meðal annars til að sambýlisörverur trésins hafa áhrif á frjósemina. Mynd: Sig.A.


Í skógum getur allt að helmingur lífmassans verið neðanjarðar með öllum sínum smásæju lífverum sem við þekkjum varla í sjón. Þær eru drifkraftur næringarhringrásanna. Megnið af lífinu í moldinni er svo smátt að við sjáum það hreint ekki með berum augum. Sagt er að í handfylli af mold megi ætla að fjöldi lífvera sé meiri en sem nemur fjölda fólks á jörðinni. Í hverju grammi jarðvegs eru hundruðir milljóna af allskonar lífverum sem allar hafa sitt hlutverk í hringrásum lífsins. Hver teskeið af jarðvegi getur innihaldið marga kílómetra að sveppþráðum. En við sjáum þetta ekki.


Þetta hulda líf er það sem gefur jarðveginum frjósemi sína. Flest tré gætu lifað ágætu lífi þótt nánast öll dýr sem við þekkjum hyrfu af yfirborði jarðar, nema hvað sum ættu í vandræðum með að mynda fræ og dreifa þeim. Ef lífið í moldinni hyrfi dræpist allur gróður og allt sem á honum þrífst þar með. Jarðvegurinn og það líf sem þar er að finna er undirstaðan.


Þessi skógarþrastarungi reynir að fela sig í birkitré. Honum gengur það ekki eins vel og mörgum lífverum sem lifa ofan í jörðinni og eru ástæða þess að tréð vex og þrösturinn fær að éta. Mynd: Sig.A.


Frummyndun jarðvegs

Í upphafi var jörðin auð og tóm, eins og segir í 1. kafla Mósebókar. Lífið hófst ekki á þurru landi, heldur í vatni. Hugsanlega í sjónum, fjörupollum eða háhitasvæðum.


Leirhver í Krýsuvík. Ef til vill varð lífið til við svona hveri á hafsbotni eða í fjörupollum. Mynd: Sig.A.


Lengi var lífið fyrst og fremst í sjónum. Jörðin var nakin og líflaus. Það var enginn jarðvegur. Smám saman breyttist það og líf nam land. Þá gat jarðvegur farið að myndast og um síðir gátu tré vaxið þar.

Jörðin hefur gengið í gegnum ótal breytingar frá því að þurrlendi varð til. Á Íslandi gekk yfir ísöld, eða réttara sagt ísaldir, með hlýskeiðum á milli. Á hlýskeiðum klæddist landið gróðri en á kuldaskeiðum stækkuðu jöklarnir og jörðin var ísum kafin. Skriðjöklar mótuðu landið, bruddu grjót og eyddu lífi.


Jökulsorfin klöpp, svokallað hvalbak, í miðnætursól þann 22. júní 2018. Hvalbök sýna í hvaða átt skriðjöklarnir skriðu á ísöld sem leið. Eins og vænta má runnu jöklarnir út fjörðinn, enda grófu þeir hann. Mynd: Sig.A.


Til fjalla má fá tilfinningu fyrir því hvernig landið leit út í lok ísaldar. Mynd: Erna Þórey Jónasdóttir.


Svo kom að því að síðasta jökulskeið leið undir lok. Nema við séum bara stödd á hlýskeiði á undan næsta jökulskeiði, sem er þá ókomið. Við höfum sagt frá því áður að kenningar eru uppi um að allt líf á Íslandi hafi horfið, en aðrir telja að það kunni að hafa þraukað á jökulskerjum og öðrum íslausum svæðum. Hvort heldur sem er var landið nakið og ófrjótt þegar jöklar hopuðu og líf nam land. Lífið kom í formi gerla, sveppa og plantna. Lífverurnar uxu, áttu sitt æviskeið og drápust. Rotverun tókst að brjóta efni þeirra í agnarsmáar, lífrænar sameindir sem ensím brutu niður í enn smærri efni. Úr þessari lífrænu súpu tókst lífverunum smám saman að búa til jarðveg. Þannig urðu til lífræn efni sem fóstrað gátu sífellt flóknari vistkerfi. Á þúsundum ára varð til jarðvegur sem fóstrað gat skóga. Skógarnir vernduðu jarðveginn, vörðu hann fyrir áföllum af völdum vondra veðra, vatnavaxta og öskufalls. Þegar fyrstu landnemarnir komu til Íslands var landið skógi vaxið og jarðvegur frjór.


Grímstorfa í Fellum gefur ákveðna hugmynd um hvernig landið leit út við landnám. Þangað er fullfrískum mönnum vel fært. Árið 1979 skráði Eyþór Einarsson 66 tegundir háplantna í torfunni. Samt eru klettar ekki kjörlendi fyrir plöntur eða tré. Mynd: Sig.A.


Það verður seint of oft nefnt að þessi þróun er hæg. Mjög hæg. Hún gekk samt vel, enda voru ekki neinir stórir grasbítar á landinu sem gátu hægt á ferlinu. Það breyttist með tilkomu mannsins. Ekkert hefur haft meiri áhrif á þróun gróðurs á landinu en tilkoma mannsins ásamt þeirri ósjálfbæru landnýtingu sem fylgdi honum og húsdýrum hans. Jarðvegseyðing hófst þegar skógarnir hurfu. Eftir urðu stór svæði af örfoka landi. Land, þar sem allur jarðvegur hafði horfið.


Það getur verið ákaflega fallegt að sjá mikið ryk í andrúmsloftinu. Sólarlagið er sjaldan jafn glæsilegt og eftir góðan fokdag. Mynd: Sig.A.


Þetta skiptir máli, því enn eru svæði á Íslandi þar sem jarðvegur er að fjúka í burtu og hverfa á haf út. Jarðvegur sem myndast hefur á þúsundum ára hverfur í sjóinn. Þetta má sjá og finna á þurrum, vindasömum dögum þegar andrúmsloftið fyllist ryki eins og á myndinni hér að ofan. Þetta má líka sjá þegar vatnavextir verða í stórrigningum. Þá verða lækir og ár brún af dýrmætum jarðvegi sem hverfur á haf út. Þá getur jarðvegur jafnvel sópast niður fjallshlíðar í skriðuföllum. Þetta má líka sjá í virkum rofabörðum á góðviðrisdögum. Þá sést í hina lífrænu mold undir börðunum sem lífverur hafa búið til í þúsundir ára. Þar bíður hún þess að vatn og vindar taki hana með sér. Gróður, einkanlega skógar, draga úr öllum þessum áhrifum.

Rofin fjallshlíð ofan við Vaglaskóg. Sjá má á moldinni að rofið er virkt. Þrátt fyrir að hlíðin sé svona illa farin er hún nýtt til matvælaframleiðslu. Þar er sauðfé á beit. Mynd: Sig.A.



Lífverur í jarðvegi

Jarðvegur heldur samt áfram að myndast, einkum þar sem ekki er gengið of nærri gróðri. Stórar og litlar lífverur halda áfram að eiga sitt æviskeið. Smásæ dýr gera sér fæðu úr þessum lífrænu leifum og sundrendur í jarðveginum, svo sem sveppir og gerlar, breyta þeim í næringu. Í moldinni eru allskonar ormar, bjöllur, mítlar, mordýr og fleiri dýr sem öll vinna að því að gera moldina frjósama á einn eða annan hátt. Það gera þau með því að stuðla að hringrás næringarefna. Fjölmörg þessara jarðvegsdýra á þó enn eftir að leiða í ljós, ef svo má segja. Við þekkjum þau ekki öll. Við getum nefnt sem dæmi að Wohllenben (2016) segir okkur að í Evrópu einni séu þekktar um 1.400 ranabjöllutegundir. Flestar eru minni en 5 mm og þær eru allar jurtaætur. Þá eru öll önnur skordýr og öll önnur smádýr ótalin.


Birki í Krossanesborgum við Eyjafjörð seint að hausti. Greinilegt að landið er frjórra þar sem jarðvegslífverur í tengslum við birkið eru til staðar. Á steinunum má sjá fléttur sem einnig taka þátt í jarðvegsmyndun þótt það gerist mjög hægt. Mynd: Sig.A.



Aðeins lítill hluti þessara dýra getur ferðast yfir langan veg. Þau þróuðust ekki þannig að langferðir yrðu á verkefnalistanum. Litlar pöddur og ánamaðkar fara ekki yfir auðnir þar sem ekkert er að hafa. Enn smærri lífverur eiga vitanlega líka í vandræðum með slík ferðalög. Þetta getur leitt til þess að á Íslandi getur tekið langan tíma að skapa skógarvistkerfi þar sem skógar eru á annað borð horfnir. Sérstaklega ef á milli þeirra svæða er örfoka land. Þeim mun dýrmætari eru þau skógarvistkerfi sem okkur hefur tekist að vernda og koma upp.

Víðirani, Dorytomus taeniatus, er ein af um 1.400 ranabjöllutegundum sem til eru í Evrópu. Hann er um allt láglendi Íslands. Þið megið giska þrisvar á af hverju ranabjöllur bera þetta nafn. Mynd: Stefán Sigurkarlsson.


Við vitum ekki fyrir víst hvernig smáar lífverur geta borist á milli skógarlunda sem leiðir til aukinnar frjósemi. Hér á landi hafa ánamaðkar í lúpínubreiðum verið skoðaðir sérstaklega. Þeir komast ekki á milli lúpínubreiða. Í þeim breiðum þar sem öflugir ánamaðkar búa gengur niðurbrot lífrænna efna hraðar fyrir sig og þar með verður meiri og betri jarðvegsmyndun með frjórri mold en þar sem skortur er á möðkum. Talið er líklegt að fuglar, sem gjarnan fá sér moldarbað, geti óafvitandi flutt með sér smávaxin dýr á milli vistkerfa og þannig aukið frjósemi þeirra. Sum dýr geta sjálfsagt borist með skósólum gesta og jafnvel með vindum ef svo ber undir.


Stærstu ánamaðkar á Íslandi eru stóránar, Lumbricus terrestris. Þeir geta orðið um 20 cm langur. Stóránar geta grafið lóðrétt göng sem verða allt að 3 metrar á dýpt ef aðstæður leyfa. Eins og aðrir ánamaðkar auka þeir mjög á frjósemi jarðar. Myndin er fengin af vef og hana tók Erlíng Ólafsson.


Áhrif á vöxt

Geysilegur fjöldi lífvera lifir í moldinni. Þær hafa áhrif á vistkerfin á margvíslegan hátt. Sumir hópar lífvera hafa áhrif á næringarbúskap gróðurs. Má skipta þeim í tvo flokka. Í fyrri flokknum eru sundrendur eða rotverur (í sumum bókum nefndar grotverur). Þær sundra lífrænum efnum og gera þau aðgengileg fyrir gróður þannig að hann geti vaxið og myndað nýja vefi sem nema orku úr sólarljósinu. Í seinni flokknum eru samlífisörverur sem mynda sambýli með trjám. Þær vinna ákveðin efni úr umhverfinu sem trén geta nýtt sér og fá í staðinn sykrur og amínósýrur sem trén mynda með ljóstillífun. Verður nú stuttlega sagt frá báðum hópum.


Rannsóknarstöð skógræktar við Mógilsá. Lúpína að dreifa sér á rofið og illa farið land ofan við skóginn. Skógarkerfill hefur lagt undir sig lúpínubreiður sem voru neðar í landinu. Þar er land mjög frjótt og fróðlegt verður að fylgjast með þróuninni á næstu áratugum. Mynd: Sig.A.


Sundrendur

Fjölbreyttur hópur lífvera lifir, beint eða óbeint, á því að sundra þeim lífrænu leifum sem falla til á hverjum stað. Þetta er mjög fjölskrúðugur hópur örvera og smádýra. Þar má nefna þráðorma, áttfætlur, skordýr og ánamaðka. Þessi dýr hafa áhrif á hringrás næringarefna og jarðvegsgerð. Má sem dæmi nefna að ánamaðkar losa um moldina með því að skríða um hana og mynda göng sem bæði vatn og súrefni geta farið eftir ofan í jörðina. Rannsóknir hafa sýnt að eftir þessum göngum vaxa gjarnan rætur þeirra planta sem eru á svæðinu.


Efst til vinstri eru rætur (brúnar) tengdar með þráðum svepprótar en hvítar skellur eru geislasveppir. Þar fyrir neðan sjást smásæir gerlar á rótarhárum. Þráðormurinn, sem einkum lifir á bakteríum og öðrum smásæjum örverum, er afar illúðlegur undir smásjánni. Köngulóin er einnig óárennileg og með augu á stilkum. Hún lifir á öðrum smádýrum við yfirborðið. Þetta fjölbreytta lífríki er mjög mikilvægt fyrir upptöku og endurvinnslu næringarefna. Mörg smádýr eru afar mikilvæg á fyrri stigum niðurbrots lífrænna efna. Síðan taka æ smærri lífverur við í fæðukeðjunni uns plöntur geta tekið upp næringarefnin. Myndir fengnar úr ritinu: Að lesa og lækna landið og eru merktar USDA/NRCS.



Veirur og gerlar eru í hópi sundrenda. Fjöldi þeirra í jarðvegi er gríðarlegur. Talið er að fjöldinn í hverju grammi geti verið um 40.000. Fæstum þeirra hefur verið lýst. Þessar lífverur sjá um eitt stig endurvinnslunnar og þær fóðra að auki aðrar lífverur. Stundum með því að framleiða efni sem þær þurfa og stundum með því að verða étin (Ólafur 2023).

Jarðvegsgerlar. Gerlar eru án frumukjarna og enn minni en frumdýrin sem koma hér á eftir. Þeir eru þó risar í samanbuði við veirurnar. Myndin fengin héðan.


Frumdýr eru einfrumungar og til í ótrúlega fjölbreyttum formum. Þau eru að jafnaði á bilinu 10-50 μm. Aðeins hefur verið lýst um 2000 tegundum en þá tölu má líklega margfalda með tíu til að fá heildarfjölda tegunda í jarðvegi. Þau lifa fyrst og fremst á gerlum og skipta miklu máli í næringarhringrásum (Ólafur 2023).

Frumdýr eru fjölbreytt að gerð og lögun og skipta miklu máli í jarðvegi. Teiknuð mynd fengin héðan.


Rafeindasmásjármyndir af frumdýrum af sömu síðu og myndin hér að ofan.

Sambýlisörverur

Til eru lífverur sem sérhæft hafa sig í sambýli við æðri plöntur. Þessar lífverur geta orðið afar umfangsmiklar og má jafnvel halda því fram að stærsta lífvera jarðar sé sambýlissveppur af tegundinni Armillaria ostoyae sem er svokallaður hunangssveppur og þekur tæplega 1000 ha lands. Sambýlið við þennan svepp er þó ekki trjánum mjög hagstætt. Guðríður Gyða (2024) hefur frætt okkur á því að sveppurinn á það til að drepa rótarkerfi trjánna.

Um hagstæðara sambýli má meðal annars lesa í ágætri bók þeirra félaga Guðmundar Halldórssonar og Halldórs Sverrissonar frá 1997 og í endurbættri útgáfu bókarinnar frá 2014. Þennan flokk fylla meðal annars sveppir sem sumir mynda útræna svepprót. Hún umlykur rótina og vex inni á milli frumna í ytri hluta rótarinnar og eykur þannig það yfirborð sem snertir moldina, svona rétt eins og rótarhár sumra plantna gera. Aðrir sveppir mynda innræna svepprót sem merkir að sveppþæðirnir smjúga inn í rætur sambýlinga sinna með því að troða sér í gegn um frumuvegg rótarfrumu og klessa sér á frumuhimnuna. Það verða að teljast mjög náin tengsl á milli lífvera. Sum tré geta nýtt sér báðar gerðirnar en aðrar treysta aðeins á aðra þeirra. Sú fyrrnefnda er mun algengari.

Í þessu sambandi má nefna að öll tré af rósaætt mynda innræna svepprót en ekki útræna. Skortur á útrænni svepprót kann að eiga sinn þátt í því að ekkert tré af rósaætt myndar samfellda skóga. Einn fremsti sérfræðingum heims í svepprótargreiningum með DNA heitir dr. Christine Palmer. Hún vann nokkrar greiningar hér á landi fyrir fáum árum og komast að þeirri niðurstöðu að hér væri mikil fjölbreytileiki í svepprótum og reyndar fleiri lífverum. Við Íslendingar erum svo heppnir að hún er nýráðin forstöðumaður School of International Training (SIT) og hefur aðsetur í Háskólasetri Vestfjarða. Hún heldur vonandi áfram að skoða svepprætur í jarðvegi hér á landi. Hér á Akureyri höfum við Kristin P. Magnússon (2024) á Akureyrarsetri NÍ. Hann hefur meðal annars skoðað og greint erfðaefni örvera í jarðvegi á Skeiðarársandi. Í þeim rannsóknum kom fram að örveruflóran (ef nota má það orðið „flóra“ yfir eitthvað annað en plöntur) er gjörólík á því svæði þar sem birki hefur numið land í samanburði við sandinn þar sem ekkert birki er að finna. Með þeim aðferðum sem Kristinn beitti í sínum rannsóknum mátti nýta erfðaefni í jarðvegi til að greina lífverurnar til fylkinga, ætta, ættkvísla og jafnvel tegunda í sumum tilfellum. Full ástæða er til að fjalla nánar um þessar örverur í sérstökum pistli.

Hér nyrðra höfum við einnig ritara Skógræktarfélagsins sem er enginn annar en sveppafræðingurinn Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. Hún býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á öllu sem tengist sveppum og heldur úti sérstakri Facebooksíðu um þá.

Svepprótin sem vex með þessu greni í fjölpotta bökkum kom vel í ljós þegar bakkarnir voru teknir upp að vori. Svepprótin hafði vaxið niður úr bökkunum og sést sem hvítar skellur á jörðinni. Rætur grenitrjánna vaxa ekki á veturna. Þegar svona vel smitaðar plöntur verða gróðursettar má búast við að þær taki fyrr og betur við sér en greniplöntur sem eru ekki svona heppnar. Mynd: Sig.A.


Annar hópur sambýlisörvera eru gerlar sem nýtt geta sér nitur úr andrúmsloftinu og gert það aðgengilegt sem næringarefni fyrir plönturnar. Höfum við áður fjallað um það í pistli um belgjurtir og í pistli um nitur í vistkerfum. Þriðji hópinn mynda svo vaxtarörvandi örverur. Það eru rótarhvelsgerlar sem örvað geta vöxt róta. Athygli vísindamanna hefur beinst að þessum lífverum hin síðari ár en enn er margt á huldu. Talið er að stærsti hluti skýringarinnar sé sá að þessir gerlar bægja frá sjúkdómsvaldandi örverum og örverum sem keppa um vatn og næringu við plönturæturnar.


Ungar lerkiplöntur í ræktun í Sólskógum í Kjarnaskógi sem komnar eru með svepprót á fyrsta hausti eftir sáningu. Myndirnar eru úr verðlaunaritgerð sem Álfsól Lind Benjamínsdóttir skrifaði. Hún hefur skoðað hvernig best sé að tryggja svepprótasmit í uppeldi skógarplantna. Svepprótin eykur lifun og vöxt hinna nýplöntuðu skógarplantna.

Við þetta má bæta blágrænþörungum eða blágerlum sem gegna miklu hlutverki í upphafi gróðurframvindu í margskonar vist. Þeir geta unnið nitur beint úr andrúmslofti sem nýtist öðrum gróðri.


Sjálfsánar sitkagreniplöntur í möl milli bygginga á Reykjalundi. Mosi og blágrænir þörungar í jarðvegsskáninni gera landnámið mögulegt. Mynd: Sig.A.


Plöntuskaðvaldar

Ljóst er að margar þær lífverur sem lifa í moldinni geta verið skaðvaldar í heimi plantna. Má nefna skordýr, sveppi, gerla og veirur sem dæmi. Önnur dýr verja plöntur fyrir þessum skaðvöldum, til dæmis með því að éta þá. Einnig getur öflug svepprót varið plöntur fyrir áti skordýralirfa, svo dæmi sé tekið. Aðrir sveppir geta sníkt á skordýrum og dregið þannig úr skaða þeirra.


Víðifeti, Hydriomena furcata, í Kiðafelli í Kjós. Almennt er víðifeti ekki talinn til jarðvegsdýra. Samt púpar hann sig undir laufi á jörðinni. Fjöldi skordýra lifir hluta lífsferilsins í jörðinni. Mynd: Björn Hjaltason.

Ef - og þegar - nýir skaðvaldar berast til landsins geta þeir valdið miklu tjóni, einkum ef hér eru engir náttúrulegir óvinir. Þeir geta til dæmis borist hingað með jarðvegi undir skósólum eða innfluttum pottaplöntum (Ólafur 2023). Öflug vistkerfi eru líklegri til að standast slíka ásókn en ofnýtt vistkerfi.


Hélukeppur eða letikeppur, Otiorhynchus nodosus, er algeng ranabjalla á Íslandi. Lirfurnar lifa ofan í jörðu og naga rætur fjölmargra plöntutegunda og geta valdið miklu tjóni, einkum hjá nýgróðursettum skógarplöntum. Mynd: Björn Hjaltason.


Skógvist

Rannsóknir hafa sýnt að með aukinni skógrækt fjölgar sveppum og jarðvegsdýrum (Edda 2014). Þessar sömu rannsóknir sýna að ekki eru allar þær sömu lífverur í skógum og í mólendi. Aftur á móti er ekki mikill munur á gerð lífvera þótt skógarnir séu mismunandi. Það kann þó að breytast smám saman eftir því sem skógarnir eldast.

Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur 11 reiti í sinni umsjá. Viljum við nú nefna þrjá þeirra sem eru sérstaklega mikilvægir í þessu sambandi.

Fyrst nefnum við Leyningshóla. Margt bendir til að birkiskógarnir þar séu þeir sömu og voru þar við landnám. Litlu hefur samt mátt muna á sínum tíma að þeim yrðu gjöreytt. Það má meðal annars sjá á lestri Jarðabókarinnar frá upphafi 18. aldar. Þar stendur um jörðina Leyning: Skógur til kolagjörðar er að kalla eyddur, en til tróðs og eldiviðar enn þá bjarglegur.“ (Árni og Páll 1712; bls. 252). Þetta er verri lýsing en á sumum skógum í héraðinu sem þó hurfu með öllu.


Utanverðir Leyningshólar í nóvember 1960. Mynd úr safni SE.


Líklegt verður að teljast að þarna hafi varðveist jarðvegslíf sem minnir á það sem var á Íslandi við landnám, þegar landið var skógi vaxið milli fjalls og fjöru.


Haustmynd á blautum degi í Leyningshólum. Mynd: Sig.A.



Svo viljum við nefna Garðsárreit. Í Garðsárgili eru gamlar birkileifar. Með því að girða af landspildu á gilbarminum tókst birkinu að sá sér innan girðingar. Forsenda fyrir því að þetta var hægt var friðun fyrir sauðfjárbeit. Það að svona vel tókst til má án efa að hluta til rekja til þess jarðvegslífs sem finna mátti í gilskorningum og gat borist í reitinn.


Garðsárreitur árið 1956. Þá er birkið farið að sá sér upp úr gilinu eftir að reiturinn var girtur af árið 1931. Mynd úr safni SE.


Nú er þarna gróskumikill skógur. Myndir: Sig.A.



Þriðji staðurinn er Vaðlaskógur. Þar var skóglaust land fyrir 90 árum. Með þrautseigju og ómældri sjálfboðavinnu er þar vaxinn upp yndisreitur með fjölbreyttum gróðri og frjórri mold. Það er ekki hlaupið að því að búa til slíka reiti, heldur tekur það langan tíma og mikla vinnu. Því er mikilvægt að fórna ekki ávinningnum á altari stundargróða og græðgi. Skógurinn er verðmæti í sjálfu sér sem ber að verja og viðhalda svo almenningur fái notið hans. Það er mikilvægt fyrir lýðheilsu íbúa Eyjafjarðar.

Við vitum ekki fyrir víst hvernig jarðvegslífið hefur breyst og þróast á þeim tæpu níu tugum ára sem liðin eru frá því skógræktarfélagið hóf að rækta þar skóg en breytingarnar hljóta að hafa verið miklar. Sjálfsagt hefur það hjálpað mikið til að á upphafsárum skógræktar var náð í villtar birkiplöntur í Vaglaskóg. Með þeim hafa án efa borist jarðvegslífverur sem eiga sinn þátt í uppgangi skógarins.


Rauðgreni sem plantað hefur verið í skjól birkitrjáa frá Vaglaskógi. Grenið nýtur skjóls af birkinu og getur nýtt sér jarðvegslífverurnar sem með því bárust til að ná góðum vexti. Rauðgreninu var plantað árið 1948 og myndin var tekin ellefu árum síðar. Mynd úr safni Skógræktarfélags Eyfirðinga.



Rétt að hafa í huga að skógurinn er ekki nema tæplega 90 ára. Samkvæmt Wohllenben (2016) er það hreint ekki nægur tími til að búa til skógarvistkerfi. Fróðlegt verður að fylgjast með skóginum næstu níu áratugina til að sjá hvernig skógurinn þróast og lífinu fer fram.


 Meginhluti þess birkis sem vex í Vaðlaskógi á ættir sínar að rekja til Vaglaskógar. Því fylgdi án efa jarðvegslíf sem hjálpar skóginum enn í dag. Mynd: Sig.A.


Heimildir


Árni Magnússon og Páll Vídalin (1712): Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalins. 10. bindi, Eyjafjarðarsýsla. Gefin út af Hinu íslenska fræðafjelagi í Kaupmannahöfn með styrk úr ríkissjóði Íslands árið 1943. Kaupmannahöfn.


Edda Sigurdís Oddsdóttir (2014) Skógarvistkerfið. Í: Heilbrigði trjágróðurs. Skaðvaldar og varnir gegn þeim. Iðunn, Rey


Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson (2014) Heilbrigði trjágróðurs. Skaðvaldar og varnir gegn þeim. Iðunn, Reykjavík.


Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson (1997) Heilbrigði trjágróðurs. Skaðvaldar og varnir gegn þeim. Iðunn, Reykjavík.


Kristin P. Magnússon (2024): Óbirt gögn.


Ólafur Arnalds og Ása L. Aradóttir (2015): Að lesa og lækna landið. Bók um ástand lands og vistheimt. Útgefendur: Landvernd, Landgræðsla ríkisins og Landbúnaðarháskóli Íslands. Sjá: https://www.moldin.net/uploads/3/9/3/3/39332633/ad_lesa_og_l%C3%A6kna_landi.pdf


Ólafur Gestur Arnalds (2023): Mold ert þú. Jarðvegur og íslensk náttúra. Iðnú útgáfa, Reykjavík.


Peter Wohllenben (2016): The Hidden Life of Trees. What They Feel, How they Communicate. 15. kafli. David Suzuku Institute. Greystone Books. Vancouver, BC, Canada.



Hreinn Óskarsson og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir lásu pistilinn yfir í handriti og bentu á atriði sem máttu betur fara. Eru þeim hér með færðar okkar bestu þakkir fyrir. Ef einhverjar villur finnast í textanum eru þær samt alfarið á ábyrgð höfundar.

Við þökkum einnig öllum þeim sem lánuðu okkur myndir.


Sigurður Arnarson.


962 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page