top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Sýprus

Við erum stödd í Toskana á Ítalíu. Við göngum eftir trjágöngum og stefnum á villuna við enda þeirra. Við gætum líka verið í Suður-Frakklandi og þá kallast svona göng „allè“. Það orð hefur ratað í fjölmörg tungumál. Í höllinni bíður okkar rauðvín og pizza með parmaskinku. Við dáumst að útsýninu í góða veðrinu. Trjágöngin eða „allè“ eru þannig að tvær og aðeins tvær raðir af trjám mynda göngin. Þannig á það að vera. Trén eru öll af sömu tegund og nær alveg eins. Áður en við förum í veisluna verðum við að fá svar við einni spurningu. Hvaða grönnu, teinréttu og sígrænu tré eru þetta sem mynda trjágöngin?

Tré vikunnar. Myndin fengin af þessari auglýsingasíðu fyrir vín.


Við gætum líka farið aftur í tímann og heimsótt rómverskan herragarð. Þar sjáum við vínvið eða ólífutré í brekkunum en einnig þessi einkennandi tré. Hvaða tré eru það sem eru svona áberandi á þessum slóðum á tímum Rómarveldis?

Annar möguleiki er að ferðast í huganum til einhvers borgríkis Grikklands hins forna. Hvítklæddir öldungar ráfa um götur og torg og ræða heimspeki. Að baki þeim eru nokkur tré sem hvert og eitt er eins og risastór blýantur. Ef til vill gefur það Grikkjunum tækifæri til að rökræða um fegurðina. Eru þetta eitthvað kunnugleg tré? Sama spurning gæti vaknað ef við gætum ferðast í huganum til Austurlanda nær og skoðað hvernig þar var umhorfs fyrir nokkrum öldum.

Málverk af hinni fornu Róm. Hvaða tré eru á myndinni? Myndin fengin héðan.


Ef við nennum ekki í ferðalög í huganum gætum við skoðað eitthvert málverk eða auglýsingamyndir sem sýna landslag við Miðjarðarhafið. Þá vaknar álíka spurning: Hvaða fögru tré eru þetta sem setja svona einkennandi svip á landslag við Miðjarðarhafið?

Hveitiakur og sýprustré eftir Vincent van Gogh. Hann málaði fjölmargar myndir af svona trjám. Myndin fengin frá WikiArt.


Trén, sem sjást á svo mörgum landslagsmálverkum og auglýsingaljósmyndum frá þessum slóðum tilheyra sýprusum eða Cupressus sempervirens L. Þau eru sígræn, oftast mjókeilulaga og beinvaxin. Þannig taka þau ekki mikið pláss en bæta samt allt umhverfið. Villt tré af þessari tegund þurfa ekki að vera svona mjóslegin, þótt það gerist stundum. Til eru skógarlundir af þessari sömu tegund sem hafa allt annað útlit.

Tuscany Cypress Trees eða Sýprus í Toskana eftir Janet King. Enn er verið að mála myndir af sýprusum. Myndin fengin héðan.


Heimkynni

Tré af þessari tegund vaxa villt í Norður-Afríku og við norðaustanvert Miðjarðarhafið og allt til Íran í austri. Þeim hefur verið plantað á stórum svæðum við Miðjarðarhafið og tegundin telst víða vera ílendur slæðingur. Ræktun trjánna hefur staðið svo lengi yfir að grasafræðingar eru hreint ekki vissir um hvar við norðanvert Miðjarðarhafið tegundin telst villt og hvar hún er slæðingur. Ef til vill skiptir það engu máli. Þar sem tré þrífast og bæta umhverfið eru þau oftast velkomin.

Sýprusar mynda oft opna skóga í fjallshlíðum og hæðum, stundum með eini, Juniperus spp. eða furum, Pinus spp. Stundum eru þeir í þéttari skógum og algengastir eru þeir í fremur kalkríkum jarðvegi.

Blandskógur við bæinn Piran í Slóveníu. Þarna sker sýprusinn sig vel úr. Líklegt er að þessi tré hafi sáð sér úr ræktun, því villt tré hafa sjaldan þetta útlit. Myndin fengin héðan.


Vaxtarstaðir

Algengast er sýprusinn vaxi nálægt sjó í 150 til 1200 metra hæð en hann finnst allt upp í 2000 metra hæð og nokkuð langt inni í landi ef skilyrði eru heppileg. Hin mjóu tré af þessari tegund eru mest ræktuð og þau eru eitthvert þekktasta kennileiti gróðurs við Miðjarðarhafið. Þannig tré eru víða ræktuð til skrauts í grafreitum og görðum en einnig til skjóls á opnum svæðum. Ótrúlegur fjöldi málverka frægra málara sýna einmitt slík tré.

 Í kirkjugörðum og öðrum grafreitum, allt í kringum Miðjarðarhafið, má sjá sígræna sýprusa sem benda til himins. Sjá meira um þann sið hér neðar. Þessi kirkjugarður er í Faro í Portúgal og þar eru sýprusarnir nokkuð mismunandi í útliti. Mynd: Sig.A.


Tegundin er ekki kræsin á jarðveg. Hún vex oft á þurrum, sólbökuðum stöðum þar sem fá önnur tré þrífast. Í mjög blautum jarðvegi þrífst hún ekki. Svo virðist sem þannig hafi það verið býsna lengi. Má í því sambandi nefna að steingervingar myndast og geymast mikið frekar í vel rökum jarðvegi eða í gljúpum leirjarðvegi en í þurrara umhverfi. Fyrir ísöld, þegar hlýrra var í Evrópu, má ætla að tegundin, eða náskyldar tegundir, hafi lifað víða um álfuna. Samt er það svo að furðulítið hefur fundist af steingervingum af sýprusum í Evrópu. Ástæðan er líklega sú að tegundir af þessari ættkvísl uxu fyrst og fremst á fremur þurrum stöðum. Því eru steingervingar tegundarinnar sérlega strjálir. Má nefna sem dæmi að í Þýskalandi hefur aðeins fundist einn steingervingur af köngli ættkvíslarinnar frá Miosen tímanum. Það er allt og sumt (Eckenwalder 2009). Þar eru samt allskonar steingervingar grafnir upp á hverju ári.

Könglar á sýprusum eru töluvert stærri en á til dæmis alaskasýprus. Þess vegna telja sumir að alaskasýprus tilheyri annarri ættkvísl. Um það eru fræðingarnir ekki endilega sammála eins og sjá má í þessari umfjöllun okkar. Myndirnar teknar í Albufera í Portúgal. Myndir: Sig.A.

Inni í þessum sama köngli og sést hér að ofan reyndust vera fjölmörg fræ. Mynd: Sig.A.


Lýsing

Almennt má segja um ættkvísl sýprusa, Cupressus L., að innan hennar eru sígræn barrtré eða stórir sígrænir runnar. Sumar tegundir hafa marga stofna, aðrar einn leiðandi stofn. Á stofnunum er börkur sem flagnar í langar næfrar. Tegund vikunnar, Cupressus sempervirens, hefur að jafnaði aðeins einn stofn.

Fáar tegundir trjáa geta vaxið á svona þurrum stöðum, en það getur sýprusinn. Þessi er töluvert frábrugðinn þeim sem mest eru ræktaðir. Myndin er fengin héðan en hana tók Iva Vagnerova.

 

Fjölmörg yrki eru til af þessum sýprus frá löndunum við Miðjarðarhaf. Flest eru þau þétt og mjókeilulaga. Sum yrkin hafa hangandi smágreinar og mismunandi litir þekkjast á barri. Má þar nefna blágrænt, grængult og tvílitt barr.

Yrki með bláleitt barr og hið vinsæla mjókeilulaga vaxtarlag. Myndin fengin héðan.


Þessi trjátegund getur orðið allt að 25 m há og til eru einstaklingar sem náð hafa allt að 40 metra hæð. Stofninn getur orðið 2 til 4 metra þykkur á villtum trjám.

Krónulagið getur verið ákaflega mismunandi. Allt frá því að vera alveg sérstaklega grannt og súlulaga yfir í það að verða næstum jafn breitt og þau eru há.

Greinar eru uppréttar eða útsveigðar. Smágreinar geta vaxið í allar áttir út frá greinunum en eru ekki flatar eins og á alaskasýprus, svo dæmi sé tekið.

Einstök tré geta sem best orðið um 500 ára gömul ef ekkert óvænt hendir og til eru heimildir um allt að 2000 ára gömul tré (Eckenwalder 2009).

 Gamall sýprus með breiða og stóra krónu. Svona sýprusar eru miklu sjaldgæfari í ræktun en keilulaga yrki nema þar sem nægt pláss er að finna. Aftur á móti eru villtir sýprusar oft svona eða líkir þessum. Myndin er fengin héðan.

Gamall og virðulegur stofn á sýprus í Faro í Portúgal. Mynd: Sig.A.


Ræktun í þúsundir ára

Þessi tegund hefur verið í ræktun við Miðjarðarhafið frá tímum Forn-Grikkja. Þá þegar tóku fyrirmenni eftir því að sum trén í sýprusskógum voru mjóslegin en ekki breið og fyrirferðarmikil. Þessi tré komust í tísku og urðu vinsæl. Fólk tók af þeim fræ og sumir afkomendurnir höfðu sama eða svipað vaxtarlag. Þannig hefur mannshöndin hjálpað til við að velja úr þá eiginleika sem falla best að fegurðarsmekk herragarðseiganda öldum og árþúsundum saman. Nú er þessi tré víða að finna og enn eru mjóu, uppréttu trén vinsælust. Þau hafa einnig verið flutt út um allan heim til staða þar sem loftslag hentar.

Dæmigerð mynd af landslagi við Miðjarðarhaf. Þessi hæð er í Portúgal. Við húsið má sjá teinréttan sýprus. Mynd: Sig.A.


Stundum eru þessi blýantslaga tré skráð sem eitt og sama yrkið. Er það þá kallað 'Fastigata'. Það getur samt ekki staðist að öll þessi tré teljist eitt yrki, því innbyrðis geta þau verið allólík og hafa greinilega mismunandi erfðaefni. Þetta eru því mörg yrki. Því er réttara að kalla þetta tilbrigði eða form (forma; f.). Þá er orðið ekki haft innan einfaldra gæsalappa í virtum grasafræðiskrifum. Það er aðeins gert fyrir tiltekin yrki. Þess í stað ætti að skrifa Cupressus sempervirens f. fastigata. Þetta er sambærilegt við það þegar ræktuð eru sérstök litartilbrigði blóma. Má nefna ýmis hvítblómstrandi tilbrigði. Þá eru þau gjarnan merkt sem f. albiflora eða eitthvað álíka.

Þessi mynd sýnir vel að ekki er um eitt yrki að ræða af nánast blýantslaga sýprusum. Þetta vaxtarlag er gjarnan nefnd fastigata en það er ekki ákveðið yrkisheiti, því vaxtarlagið kemur víða við sögu. Myndin fengin héðan.


Svona mjóslegnum trjám er miklu meira plantað en upprunalegu, villtu trjánum sem hafa útbreiddara vaxtarlag, enda taka þau miklu minna pláss og hafa einkennandi og einstakt útlit. Hin umfangsmiklu tré eru þó gjarnan ræktuð þar sem það hentar. Þau má finna allt í kringum Miðjarðarhafið og víðar þar sem þau geta vaxið. Þau henta samt ekki í litla garða. Þá er gripið til fastigata tilbrigðisins.

Enn eru til skógar þar sem hin „venjulegu“ tré vaxa. Við höfum lýsingarorðið innan gæsalappa, því svo lengi hefur verið sóst eftir títtnefndu vaxtarlagi að víðast hvar er það talið hið venjulega form.

Í Algarve í Portúgal er gróðurinn með framandi blæ í augum Mörlandans. Sýprusinn er auðþekkjanlegur en nokkuð fjölbreyttur. Við gerum ráð fyrir að lesendur sjái tvö sýprustré á myndinni. Mynd: Sig.A.


Munurinn á þessum tilbrigðum er fyrst og fremst sá að á skógartrjánum vaxa greinarnar meira og minna lárétt út frá stofninum en hin ræktuðu tré eru valin vegna þess að greinarnar eru uppréttar og vaxa nánast lóðbeint upp. Þarna suður frá er einnig til ösp af tegundinni svartösp, Populus nigra, sem hefur þetta sama vaxtarlag. Hér á Íslandi ræktum við stundum súlublæösp af tegundinni Populus tremula sem einnig hefur þetta vaxtarlag. Þó er sá munur á að aspir eru ekki sígrænar og bæði súlublæöspin og súlusvartöspin eru ræktaðar sem klónar. Þar með er erfðaefnið alltaf það sama. Upprétti sýprusinn er ekki þannig.

Þegar ræktun þessara sýprustrjáa hófst höfðu menn ekki þekkingu eða tækni til að fjölga barrtrjám kynlaust. Þess í stað var þeim fjölgað með fræjum og réttu trén valin úr. Nú orðið er trjánum oft fjölgað kynlaust og fjölmargir klónar eru í ræktun sem flestir hafa svipað vaxtarlag. Hver klónn er þá sérstakt yrki.

Horft af borgarmúrnum yfir bæinn Piran við Adríahafið. Þráðbein sýprustré í forgrunni. Myndin fengin héðan.


Tilgangur ræktunar

Þegar tré voru tekin til ræktunar fyrr á öldum þurftu þau vitanlega að hafa einhvern praktískan tilgang. Á þessum slóðum eru ræktuð ólífutré og önnur ávaxtatré, vínviður og ýmsir runnar sem framleiða ber. Sýprusinn gerir ekkert slíkt. Þetta minnir þann er þetta ritar á ummæli ágæts bónda í Skriðdal sem vildi reka rollur sínar inn í nýskógrækt nágranna sinna og sagði: „Til hvers að rækta ef ekki á að éta?“ Svona getur hugsunarhátturinn verið fjölbreyttur í heiminum en samt tekið mið af magamáli.

Kaffibollar með landslagsmyndum frá Miðjarðarhafslöndum. Sjá má sýprus á öllum bollunum. Mynd: Sig.A.


Þarna má líka rækta hraðvaxta tré til að búa til timbur og eldivið. Sýprusinn vex mun hægar en slík tré og er ekki ræktaður í þeim tilgangi.

Í steikjandi sólinni getur verið gott að rækta krónumikil tré sem varpa kærkomnum skugga. Blýantslaga tré gera það ekki þegar sólin skín lóðbeint á hvirfilinn.

Sýprusinn var og er fyrst og fremst ræktaður vegna þess að hann er fallegur. Og hann lyktar vel. Þess vegna hafa þessi tré verið algengari hjá stórbændum en smábændum í gegnum aldirnar og svo er enn. Þeir sem eiga lítið land og þurfa að draga fram lífið á því sem það litla land gefur, eru ólíklegri til að rækta þessi tré en hinir sem minna þurfa að hafa fyrir lífinu.

Yrki með gulgrænu barri. Svona barr er iðulega sagt vera gyllt. Myndin fengin héðan.


Sýprusum hefur mjög oft verið plantað nálægt bænahúsum og í kirkjugörðum og öðrum grafreitum. Þá eru það helst mjóslegnu yrkin sem eru notuð. Hið sígræna barr á að minna á eilífðina og ef tréð verður fellt þá endurnýjar það sig ekki eins og sum önnur tré geta gert. Þannig minnir það einnig á hin óumflýjanlegu endalok. Að auki er eins og trén bendi til himins og getur það líka talist táknrænt (Wells 2010).

Wells (2010) segir líka frá því að í görðum Miðausturlanda hefur sýprusum verið plantað í margar aldir. Þar áttu trén ekki bara að auka fegurð heldur einnig að auðvelda íhugun. Trén mátti líta á sem fjölbreytileg tákn og þegar þeim var plantað með ávaxtatrjám, til dæmis appelsínum, táknuðu þau saman líf og dauða.

Appelsínutré og uppréttur sýprus í Albufeira í Portúgal. Óvíst er hvort það hefur átt að tákna eitthvað sérstakt á þessum slóðum, þótt það hafi gert það í Miðausturlöndum. Mynd: Sig.A.

Vel má vera að þessi tenging við grafreiti og dauða eigi sinn þátt í því að í íðorðabanka Árnastofnunar er heitið grátviður gefið upp sem samheiti. Þar gæti reyndar gríska goðsagan, sem sagt er frá hér á eftir, einnig skipt máli.

Tvö tré af sömu tegund, með ólíkt vaxtarlag, hlið við hlið í kirkjugarði. Mynd: Sig.A.

Ungar plöntur af sýprusum með útrétt vaxtarlag. Bak við þær má sjá eina eldri blýantslaga plöntu. Mynd: Sig.A.


Erkitýpa og lykiltegund

Hér að ofan er þess getið hversu áberandi þessi tré eru víða í landslaginu við Miðjarðarhaf. Má jafnvel kalla þau lykiltré eða erkitré fyrir landslagið á þeim slóðum. En þetta hugtak (sem við efumst um að finnist í orðabókum) nær einnig yfir stöðu þess í flokkunarfræði líffræðinnar.

Linnæus hinn sænski sá á fyrri hluta 18. aldar að í hverju landi voru grasafræðingar með sitt eigið kerfi til að flokka lífverur. Á milli landa var ekki nokkur leið að skilja hvað menn voru að tala um. Sumir notuðu móðurmál sitt, en þó var algengara að nota latínu, sem var mál vísinda á þessum tíma. Gallinn var sá að hvert tré gat hlotið fjölmörg heiti sem áttu að lýsa trénu. Þar með misstu allir yfirsýnina. Allt eðlilegt fólk átti í hinu mesta basli með að skilja þetta og samræmi var ekkert.

Sýprus í Portúgal. Myndin fengin héðan.


Það var í þessu umhverfi sem Linnæus gaf út sitt merka rit Systema Naturæ árið 1735. Þetta rit var algert grundvallarrit á sínum tíma. Í því lýsti hann því tvínafnakerfi sem enn er notað. Það nær ekki bara yfir tvínefnin sem notuð eru á allar lífverur í heimi, heldur yfir flokkunarkerfið í heild. Við höfum sagt nánar frá því í sérstökum pistli.

Í öðru merku riti, Species Plantarum sem út kom árið 1752, lýsti Linnæus tegundinni sem pistillinn er um og gaf henni fræðiheiti. Þess vegna stendur bókstafurinn L. (fyrir Linnæus) aftan við nafnið þegar það birtist fyrst í pistlinum. Hann lýsti líka ættkvíslinni út frá þessu tré. Þetta er því erkitýpa eða lykiltré þessarar ættkvíslar.

Í litlum görðum er alveg skiljanlegt að frekar séu ræktuð grannvaxin tré. Handan við vegginn er ekki mikið pláss fyrir annan gróður en þennan eina sýprus. Mynd: Sig.A.


Ef ný trjátegund finnst og einhverjum dettur í hug að kalla hana sýprus þarf fyrst að bera hana saman við þessa tegund. Reyndar er það svo að öll ættkvíslin hefur verið margstokkuð upp síðan Linnæus setti fram sitt kerfi. Sum tré hafa verið klofin frá ættkvíslinni og sett í nýjar ættkvíslir. Þeim hefur svo aftur verið skipt upp eða sameinaðar þannig að enginn getur lengur fullyrt of mikið um hvað tilheyrir þessari ættkvísl og hvað einhverri annarri. Eitt er þó alltaf á hreinu. Sýprus heitir alltaf Cupressus sempervirens L. Svo mun verða á meðan tvínafnakerfið er notað.

Í pistli okkar um alaskasýprus komum við inn á þetta. Lengi hafa grasa- og flokkunarfræðingar deilt um hvort hann sé nægilega skyldur þessum sýprus frá Miðjarðarhafslöndunum til að kalla megi hann sýprus (Cupressus) eða hvort setja eigi hann í aðra ættkvísl.

Dæmigerð mynd frá Toskana á Ítalíu. Myndin fengin héðan.


Eins og lesendur geta gengið úr skugga um hafa aðrar tegundir af sýprusum alltaf eitthvert forskeyti. Má nefna áðurnefndan alaskasýprus, Cupressus nootkatensis, en einnig ilmsýprus, C. goveniana og mexíkósýprus, C. lusitanica sem dæmi. Svona forskeyti þarf ekki á tré vikunnar. Þetta er aðal tegundin sem allar aðrar sýprustegundir taka mið af. Hún kallast því sýprus en ekki evrópusýprus, miðjarðarhafssýprus, grikklandssýprus eða eitthvað álíka. Slík heiti eru bara nýtt ef hætta er á ruglingi eða til áréttingar.

En þetta er ekki allt. Hver ætt plantna hefur sitt fræðiheiti. Það fræðiheiti er gjarnan byggt á erkiættkvísl innan ættarinnar. Þar er Cupressus sempervirens lykiltegund. Þess vegna kallast ættin Cupressaceae meðal fræðimanna. Á Íslandi hefur ekki alltaf verið reynt að eltast við að beinþýða heiti ætta. Ef svo væri héti ættin sýprusætt á íslensku og það nafn hefur vissulega sést. Algengara er þó að kalla ættina einisætt, enda má líta á eini sem erkitýpu eða lykiltré ættarinnar á Íslandi. Elsta heiti ættarinnar á íslensku er þó sýprisætt og það er ekkert rangt við að nota það.

Þess finnast dæmi að sýprusar séu klipptir á annan hátt en hefðin mælir fyrir um. Þessi er dálítið spes og minnir á hvernig hefðin mælir með að sum tré af ættkvíslinni Podocarpus séu klippt. Myndin fengin héðan en hana tók Christopher Mullard.


Fræðiheiti ættkvíslarinnar

Cupressus er hið gamla latneska heiti yfir sýprusa við Miðjarðarhafið. Það gæti upphaflega hafa komið frá Grikkjum en hið forna heiti þeirra yfir tegundina er kyparissos. Sumir telja að nafnið á eyjunni Kýpur sé upphaflega dregið af þessari tegund sem hefur verið ræktuð víða við Miðjarðarhafið í nokkrar þúsaldir (Eckenwalder 2009).

Við þessar upplýsingar bætir Wells (2010) þeirri sögu að gríski guðinn Appolló (sem kom töluvert við sögu í pistli okkar um lárvið) lagði jafnt ást á unga drengi sem ungar stúlkur. Hann var alveg sérstaklega hrifinn af ungum dreng sem hét Kyparissos. Eitt sinn gaf guðinn Appolló drengnum Kyparissosi krónhjört að gjöf svo hann gæti haldið gæludýr. Því miður fór það svo að fyrir slysni drap Kyparissos hjörtinn. Við það varð hann svo sorgmæddur að engin leið var til að hugga hann. Þá grátbað hann Appolló um að hann fengi að syrgja krónhjörtinn um aldir alda. Appalló varð við því á sinn hátt og breytti drengnum í tré. Þar var kominn fyrsti sýprusinn sem nefndur var kyparissos eftir drengnum. Þetta gæti sem best tengst samheitinu grátviður sem áður er nefnt. Sýprus má líta á sem sérstakt sorgartré.

Í svona skógum vex villtur sýprus. Þarna sjást ekki tré sem líkjast þeim sem mest eru ræktuð. Myndin fengin héðan.


Viðurnefnið

Linnæus gaf tegundinni nafnið C. sempervirens sem getur merkt eilífur + grænn. Þetta gerði hann til að minna á að tegundin er að eilífu græn eða sígræn eins og við köllum það. Heitið merkir því: Hinn sígræni sýprus. Þetta gætu mörgum þótt merkilegt í ljósi þess að allar tegundir sýprusættkvíslarinnar eru sígrænar. Því er þetta ekkert sérstaklega lýsandi heiti. Þetta á sér skýringu. Linnæus hafði í huga að tegundin Taxodium distichum, sem hefðin mælir með að sé kölluð sýprus, fellir barrið en er ekki sígræn. Þegar Linnæus gaf tegundinni nafn var Taxodium talin hluti af Cupressus ættkvíslinni. Þess vegna voru ekki allar tegundir ættkvíslarinnar sígrænar á þeim tíma.

Áður en við förum að gera lítið úr þessari nafngift hins sænska Linnæusar er rétt að hafa í huga að hann gaf tegundinni þetta nafn árið 1752 í sínu fræga ritverki Species Plantarum sem var algert grundvallarrit á sínum tíma. Það var ekki fyrr en árið 1810 sem Louis Richard sýndi fram á að hin barrfellandi Taxodium átti ekki heima í ættkvíslinni. Því mun sýprusinn áfram bera þetta nafn þótt það sé ekki mjög upplýsandi.

Rétt er að nefna tvö önnur atriði sem gætu hafa hjálpað Linnæusi að velja þetta nafn. Þau tengjast því að orðið sempervirens hefur stundum verið notað yfir eitthvað sem varir að eilífu, þótt það sé ekki endilega grænt. Hið fyrra er að tegundinni er oft plantað í kirkjugarða eins og að ofan greinir og getur þar verið tákn fyrir sorg eða eilíft líf. Hið síðara er að viður trjánna er alveg sérlega endingargóður. Wells (2010) segir frá því að kistur faraóa í hinu forna Egyptalandi hafi iðulega verið smíðaðar úr sýprusviði og þær eru enn heillegar að sjá í söfnum víða um heiminn. Ef til vill eru þær eilífar. Hún segir líka að hurðin í aðaldyrum Péturskirkjunnar í Róm hafi upphaflega verið úr sýprusviði og hafi staðið þar í þúsund ár áður en hún var endurnýjuð.

 Sýprus í Toskana. Myndin fengin héðan.


Sýprus eða kýprus

Jafnvel þótt uppruni fræðiheitisins sé að líkindum kominn úr grísku er orðið Cupressus komið úr latínu eins og svo algengt er með fræðiheiti. Í því ágæta tungumáli var (og er) bókstafurinn K ekki til. Þess í stað var notast við C. Aftur á móti var til S. Í ítölsku dagsins í dag er C gjarnan notað fyrir hljóð sem er nánast mitt á milli S og K. Á íslensku virðist hending ein ráða því hvorum megin hryggjar orð lenda sem innihalda C í latínu. Í sumum tilfellum verða þau að S-hljóði en í öðrum að K-hljóði. Þekktasta dæmið er sjálfsagt Julius Cesar. Eftirmenn hans tóku upp ættarnafnið sem virðingarheiti og varð það að orðinu keisari í mörgum tungumálum, meðal annars íslensku. Aftur á móti er hann að jafnaði kallaður Sesar á íslensku en ekki Kesar. Þarna lenti bókstafurinn C beggja vegna hryggjar og er þar enn.

Fjölmörg dæmi eru til um sambærilega rithætti. Þess vegna finnast dæmi þess að sýprusar séu nefndir kýprusar á íslensku. Það er fullgilt. Þetta skýrir líka af hverju orðið sýprus er sama orðið og nafnið á eyjunni Kýpur.

Í langflestum tungumálum er þetta heiti notað yfir tegundina en það er til í ýmsum afbrigðum og útgáfum, rétt eins og önnur latínuorð sem byrja á þessum bókstaf.


Árnastofnun heldur úti íðorðabanka og þar eru gefin upp fleiri nöfn á þessari tegund. Auk nafnsins sýprus eru gefin upp nöfnin sýprusviður og grátviður.

Á vef Lands og skóga er tegundin kölluð sýpris en ekki sýprus og ættin er þar kölluð sýprisætt. Það er heitið sem Stefán Stefánsson (1863-1921) gaf ættkvíslinni í bókinni Flóra Íslands árið 1901. Því má færa fyrir því rök að það sé rétta nafnið á íslensku, því það er það elsta sem sést hefur á prenti. Hér förum við að dæmi Árnastofnunar.

Sýprusskógur að vetri til. Myndin fengin héðan.


Nánustu ættingjar

Ættkvíslin er með næstflestar tegundir allra ættkvísla innan ættarinnar Cupressaceae. Hún er samt með langtum færri tegundir en stærsta ættkvíslin, sem er einisættkvíslin, Juniperus. Þessar ættkvíslir eru náskyldar en auðgreindar á barrinu. Barrið á eininum stingur á meðan barrið á sýprusum er mjúkt viðkomu.

Aðrar náskyldar ættkvíslir eru meðal annars Chamaecyparis og Xanthocyparis. Hér má sjá lista yfir ættkvíslir ættarinnar. Endalaust er verið að færa plöntur á milli þessara ættkvísla og þær eru oft vandgreindar hver frá annarri.

Oft er nokkuð langt á milli vaxtarstaða ákveðinna hópa innan ættkvíslarinnar og því getur verið mikill munur milli kvæma og afbrigða. Þess vegna telja sumar heimildir að tegundirnar séu mun fleiri en nú er almennt talið.

Dæmigert landslag þar sem sýprusar skipta öllu máli. Myndin er tekin í Grikklandi og fengin héðan þar sem sjá má margar landslagsmyndir með sýprusum. Myndina tók Bob Gibbons.


Meginafbrigði

Nú er tegundinni gjarnan skipt í þrjú afbrigði sem áður voru greindar sem sérstakar tegundir. Í þessum pistli förum við eftir hugmyndum Eckenwalder (2009) en því fer fjærri að allir séu þessu sammála. Á vefsíðunni World Flora Online er þessu hafnað og hóparnir greindir sem sérstakar tegundir. Er það hvorki fyrsta né síðasta dæmið um rugling innan þessarar ættar og ættkvíslar.

Einangraðir stofnar (eða sérstakar tegundir) sem vaxa annars vegar í Atlasfjöllum í vestanverðri Norður-Afríku og hins vegar í Sahara eru mjög áberandi í sínum heimahögum. Þeir vaxa nokkuð langt frá öðrum sýprusum og hafa auðgreind einkenni. Samkvæmt Eckenwalder (2009) hafa erfðavísindin sýnt fram á að þetta séu aðeins afbrigði sem þarna hafa þróast. Þetta minnir okkur á umfjöllun okkar um þróun stafafurunnar sem við sögðum frá í þessum pistli. Darwin hefði ekki kippt sér upp við það þótt fræðimenn séu ósammála um hvort þessir hópar séu taldir til sérstakra tegunda eða ekki. Þetta eru plöntuhópar sem eru á þeirri vegferð að verða að nýjum tegundum. Í sjálfu sér skiptir ekki máli hvenær því markmiði er náð, enda stefna trén ekkert sérstaklega að því. Þar er mannfólkið sem flokkar tré í tegundir. Ekki þau sjálf.

Geitur uppi í sýprustré í Marokkó. Mynd: Valeria Squillante.


Tilvist þessara einangruðu hópa er ógnað. Trén eru gjarnan höggvin niður í eldivið og trjáklifrandi geitur drepa svona tré á hverju ári.

Afbrigðin þrjú eru kölluð atlassýprus Cupressus sempervirens var. atlantica, saharasýprus eða alsýrssýprus C. sempervirens var. dupreziana og svo einfaldlega sýprus eða miðjarðarhafssýprus, C. sempervirens var. sempervirens. Ef við tölum um sýprus án þess að hafa forskeyti með er gjarnan átt við þetta afbrigði eða öll afbrigðin.

Atlassýprus hét áður C. atlantica eða C. dupreziana var. atlantica. Hann er frábrugðin aðaltegundinni á þann hátt að oftast nær vaxa nálarnar í tveimur röðum en ekki í allar áttir eins og á megintegundinni. Nálarnar eru blágrænar og vaxbornar. Tréð vex hátt uppi í Atlasfjöllum í Suður-Marokkó.

Atlassýprus nálægt Marrakech í Marokkó. Myndin fengin á Flickrsíðu og er eftir © Philippe de Spoelberch.


Saharasýprusinn, sem stundum er kenndur við Alsír, er einnig oftast bara með tvær raðir af barri en það er dökkgrænt og alveg laust við blámann og vaxið sem sjá má í Atlasfjöllum. Hann vex í Tamrit Plateau í Suðaustur Alsír.

Megintegundin, miðjarðarhafstegundin, er nær alltaf með barrnálar í um fjórar áttir þótt á því séu stundum undantekningar. Barrið er dökkgrænt og ekki vaxborið. Þetta afbrigði vex einnig í Afríku. Það finnst meðal annars í Líbýu og jafnvel einnig í Túnis. Einu sinni voru þessar plöntur í Afríku kallaðar C. sempervirens var. indica en nú hefur verið horfið frá því, enda enginn sérstakur munur á þeim trjám og þeim sem vaxa handan við Miðjarðarhafið.

 Saharasýprusinn er í yfirvofandi útrýmingarhættu. Ekki bætir hnattræn hlýnun lífslíkur hans. Myndin fengin héðan.


Heimildir

Casey Clapp & Alex Crowson (2023): The Other Wood Talk (Alaska Yellow-Cedar). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni: Completely Arbortrary frá 12. júní 2023. Sjá: https://podcasts.apple.com/us/podcast/the-other-wood-talk-alaska-yellow-cedar/id1545536782?i=1000616696933


Casey Clapp & Alex Crowson (2022): Umwelt (Italian Cypress). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni: Completely Arbortrary frá 10. mars 2022. Sjá: https://podcasts.apple.com/us/podcast/umwelt-italian-cypress/id1545536782?i=1000553528824


James E. Eckenwalder (2009): Conifers of the World. The Complete Reference. Timber Press, Inc. Portland & London.


Aljos Farjon (2008): A Natural History of Conifers. Timber Press, Inc. Portland, Oregon, USA.

 

Diana Wells (2010): Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.

 

Undir myndum er sagt hvaðan þær komu, en þeirra heimilda er ekki getið sérstaklega í heimildaskrá.


Þakkir fær Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir vandaðan yfirlestur og þarfar ábendingar. Allar villur, sem kunna að vera í textanum, eru þó á ábyrgð höfundar.

Sigurður Arnarson

 

 

 

 

 

 

 

Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page