Skógrækt og fæðuöryggi
- Pétur Halldórsson
- Jul 2
- 5 min read
Úlfur Óskarsson, Aðalsteinn Sigurgeirsson og Pétur Halldórsson
Landi og skógi
Ísland er sannkölluð matarkista og magn þeirra matvæla sem héðan er flutt er margfalt meira og verðmætara en það sem er flutt inn (Hagstofan 2025; Erla Sturludóttir o.fl. 2021). En þrátt fyrir að matvælaútflutningurinn sé mjög arðbær, er hann einhæfur og samanstendur nær eingöngu af sjávarafurðum. Og ein þjóð nærist ekki á fiski eingöngu. Þess vegna þarf að flytja hingað úrval annarra matvæla, mest kornmeti, grænmeti og ávexti. Kjöt- og mjólkurframleiðsla innanlands er líka að stórum hluta byggð á innfluttu fóðri (Erla Sturludóttir o.fl. 2021).

Stór hluti Íslands er nýttur til sauðfjárbeitar, þar á meðal hálendið. Nýting láglendissvæða er einnig að stórum hluta til beitar og þar bætast við hestar og nautgripir. Ræktuð tún og akrar þekja um 1% af flatarmáli landsins (Erla Sturludóttir o.fl. 2021). Samantekið þýðir þetta að nær allt tiltækt land á Íslandi er nýtt til matvælaframleiðslu, þótt yfirleitt sé framleiðni landsins lítil.
Vegna þeirra takmarkana sem loftslagið á Íslandi setur og vegna smæðar markaðarins, mun framleiðsla innanlands ekki nema að hluta til geta keppt við innfluttar vörur. Innflutningurinn verður því um fyrirsjáanlega framtíð mjög mikilvægur fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar.
Skógar á Íslandi þekja í heildina um 2% landsins. Þar af þekja náttúrulegir birkiskógar og -kjarr 1,5%. og áform eru uppi um að rækta skóga til viðbótar á 0,6% landsins fyrir árið 2040 (Matvælaráðuneytið 2022). Á sama tíma er áformað að hefja vinnu við aukna útbreiðslu birkiskóga þannig að þeir þeki um 5% landsins á næstu áratugum. Er aukin skógrækt þar með ógn við matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar? Eða mun aukin skógrækt skapa tækifæri til aukinnar kornræktar, garðræktar o.fl. og vera jafnvel forsenda fæðuöryggis þjóðarinnar til langs tíma?
Megnið af flatarmáli Íslands hentar illa til matvælaframleiðslu og meira að segja illa til sauðfjárbeitar. Um 40% Íslands eru auðnir og nær öll önnur svæði eru rofin að einhverju leyti eða illa gróin. Þau svæði sem á hverju ári eru tekin til skógræktar voru áður að stærstum hluta nýtt til sauðfjárbeitar. Ætli nokkrum detti í hug að andmæla skógrækt á gömlu beitilandi í nafni fæðuöryggis? Færa má rök fyrir því að það sé ekki skortur á landrými sem standi sauðfjárrækt fyrir þrifum heldur skipti landgæði, beitarstjórn og skipulag landnýtingar meira máli. Vandamál sauðfjárræktar er lítil framleiðni og lítill arður, þannig að hún er varla stunduð nema með háum ríkisstyrkjum eða sem áhugamál, nema hvort tveggja sé (Stjórnarráðið e.d.; Merida o.fl. 2024). Styrkirnir eru leið stjórnvalda til að bæta rekstrarskilyrði og stuðla að fæðuöryggi. Þessi rekstrarskilyrði má líka bæta með því að auka landgæði, til dæmis með ræktun skóga og skjólbelta. Skógar þola stýrða beit mjög vel þegar þeir hafa náð ákveðnum aldri og eins og vikið er að hér á eftir bæta skjólbelti staðviðri og um leið skilyrði fyrir allan gróður, þar með líka beitargróður. Ræktun skóga og skjólbelta getur því stuðlað að því að á heimalöndum bænda verði til gjöful beitilönd sem gefa færi á því að stytta þann tíma sem fé er haft á fjalli eða jafnvel losna alveg við uppreksturinn á vorin og smölun á haustin. Bæti þetta rekstrarskilyrði sauðfjárræktar hlýtur það að vera liður í því að auka fæðuöryggi um leið og það eflir gróðurauðlindir landsins.

Gróinn úthagi getur hentað vel til beitar, en til akuryrkju henta eingöngu slétt, steinlaus svæði. Akuryrkju- og túnræktarsvæði á Íslandi eru yfirleitt framræstar mýrar, gamalt mólendi eða sandar. Skógrækt gengur best í brekkum og fjallsrótum, þar sem er nægt framboð af vatni og hagstætt nærviðri, þó flest annað land komi til greina, þ.m.t. rofið, illa gróið eða örfoka land ellegar grýtt og jarðgrunnt, óplógtækt land. Flatlendi getur nýst ágætlega til skóg- og skjólbeltaræktar sé undirbúningur landsins nægur. Flatarmál virks ræktunarlands hefur dregist mikið saman undanfarna áratugi (Erla Sturludóttir o.fl. 2021). Ef ráðist verður í átak til að auka kornrækt í landinu mætti endurrækta aflagt ræktunarland og brjóta nýtt land á einhverjum af þeim víðfeðmu láglendissvæðum sem lítið sem ekkert eru nýtt í dag.
Ísland er eitt vindasamasta land í heimi og hvergi meiri þörf á skjóli til akuryrkju og garðyrkju. Vel mætti rækta skjólbelti, skjólskóga eða skógarteiga innan um akurlendi án þess að rýra heildarfæðuframleiðni landsins, vegna þeirrar aukningar framleiðslu og ræktunaröryggis sem verður vegna skjólsins og hagstæðs nærviðris. Akuryrkja eykur losun kolefnis úr jarðvegi en þá losun mætti kolefnisjafna með skógrækt umhverfis akrana. Jákvæð áhrif skjólsins til aukningar framleiðni dregur einnig úr landþörf undir akra miðað við tiltekið framleiðslumagn. Skógar og skógarskjól dregur úr jarðvegsrofi á ökrum, bæði af völdum vatns og vinds. Skógar bæta vatnsbúskap svæða og auka vatnsgæði, en einnig loftgæði með því að hreinsa ryk og óhreinindi úr lofti. Vegna aukningar á líffjölbreytni geta skógar mögulega dregið úr skaða vegna meindýra á ræktarlandinu. Reynslan sýnir líka að ásókn gæsa og álfta minnkar þegar akurlendi eru umlukin skógi eða skjólbeltum.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) álítur hag landbúnaðar órjúfanlega tengdan hag skóga (Walkner 2023). FAO kortleggur og fylgist með því sem er að gerast í skógum heimsins og hefur rannsakað í áratugi hvernig þeir stuðla að því að tryggja og efla fæðuöryggi heimsins. Skógi vaxin vatnasvið og votlendi sjá mannkyni fyrir um 75% af aðgengilegu ferskvatni heimsins. Eru skógarnir nauðsynlegir til þess að tryggja gæði drykkjarvatns og til ræktunar með áveitum. Þeir vernda jarðveginn fyrir rofi, veita náttúrulega vörn gegn flóðum og veita búpeningi skjól og fóður.

Að mati FAO er það mögulegt fyrir landbúnað að vinna í sátt við náttúruna með sjálfbærum búskaparháttum og sjálfbærri skógrækt. Þetta getur verið mikilvægt framlag til þeirrar viðleitni að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal að binda enda á fátækt og hungur í heiminum fyrir árið 2030 og vernda líf á landi.
Fæðuöryggi okkar snýst fyrst og síðast um aðgang að „réttum mat“ og það felur í sér blöndu af innanlandsframleiðslu, fiskveiðum og vöruinnflutningi. Ólíkt mörgum öðrum þjóðum höfum við mikið landflæmi sem hentar bæði til matvælaframleiðslu og skógræktar. Hvorugt útilokar hitt. Þvert á móti bíða okkar tækifæri til að flétta saman skógrækt og matvælaframleiðslu og ná þannig meiri ávinningi en næst með því að halda þessu aðskildu.
Heimildir
Erla Sturludóttir, Guðni Þorvaldsson, Guðríður Helgadóttir, Ingólfur Guðnason, Jóhannes Sveinbjörnsson, Ólafur Ingi Sigurgeirsson og Þóroddur Sveinsson 2021. Fæðuöryggi á Íslandi, skýrsla unnin fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Ritstjórar: Erla Sturludóttir og Jóhannes Sveinbjörnsson. Rit LbhÍ nr. 139, 56s.
Hagstofa Íslands, 2025, sótt á vef 12. júní 2025. Vöruviðskipti óhagstæð um 63,4 milljarða í maí. https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/utanrikisverslun/voruvidskipti-i-mai-2025-bradabirgdatolur/
Matvælaráðuneytið 2022. Land og líf, Landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt. Stefna og framtíðarsýn í landgræðslu og skógrækt til ársins 2031. https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/MAR/Fylgiskjol/Landoglif_Stefna2031%20-%20Copy%20(1).pdf
Merida VE, Cook D, Ögmundarson Ó, Davíðsdóttir D, 2024. An environmental cost-benefit analysis of organic and non-organic sheep farming in Iceland. Journal of Agriculture and Food Research 18. https://doi.org/10.1016/j.jafr.2024.101472
Stjórnarráðið e.d., sótt á vef 12. júní 2025. Styrktarflokkar til framleiðenda í sauðfjárrækt. https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/landbunadur/buvorusamningar/saudfjarraekt/
Walkner G. 2023. We Must Value the Role of Forests in the Global Food System, sótt á vef 16.6.2025. https://sdg.iisd.org/commentary/guest-articles/we-must-value-the-role-of-forests-in-the-global-food-system/
Comentarios