top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Einu sinni voru þrjár ungar, síðhærðar og fallegar stúlkur á hlaupum upp fjallshlíð í Kanada. Af óljósum ástæðum breyttust þær allar í tré og utan um þær óx grár börkur. Hið fagra hár þeirra er enn innan við börkinn. Það er jafn mjúkt og langt sem forðum og nota má það til að vefa hinar fegurstu körfur (Clapp & Crowson 2023).

Þannig lýstu frumbyggjar í vesturhluta Kanada því hvernig þessi tré urðu til. Það er að vísu misjafnt milli sagna hvaða erindi þær áttu upp fjallið og hvað varð til þess að þær breyttust í tré. Það skiptir máli að stúlkurnar hlupu upp fjallshlíðina, því enn er það þannig, á þessum slóðum, að þessi tré vaxa helst til fjalla.

Tré vikunnar að þessu sinni er alaskasýprus eða Cupressus nootkatensis D.Don eins og nú tíðkast að kalla tegundina á fræðimálinu. Sjálfsagt reyta einhverjir lesendur hár sitt og skegg yfir þessu fræðiheiti, því lengst af hefur heitið Chamaecyparis nootkatensis verið notað hér á landi. Við komum að þessu nafnahringli síðar í pistlinum.

Alaskasýprus í Vaðlaskógi. Mynd: Helgi Þórsson.


Heimkynni

Eins og svo mörg önnur tré, sem ræktuð eru á Íslandi, er þetta tré ættað frá vesturströnd Norður-Ameríku. Það vex við Norður-Kyrrahafið í Norður-Ameríku frá Prince Williams sundi í Alaska, suður með vesturströnd Kanada og allt suður til norðvesturhluta Kaliforníu. Sennilega er það algengast í Bresku Kólumbíu í Kanada (Clapp & Crowson 2023). Stundum er tréð að finna í sérstökum lundum en oftar í bland við aðra berfrævinga eins og þallir, Tsuga heterophylla og T. mertensiana og fleiri tegundir. Tegundin vex í allskonar jarðvegi, stundum í grýttu og þurru landi en einnig á rökum svæðum og í mýrarjöðrum (Eckenwalder 2009). Hér á landi er tréð ekki svona harðgert og við mælum með því að rækta það í frjóum og hæfilega rökum jarðvegi.

Alaskasýprus má finna frá sjávarmáli og upp í 2.300 metra hæð yfir sjó. Eftir því sem norðar dregur, þeim mun nær sjávarmáli þrífast trén. Sunnar er þau fyrst og fremst að finna til fjalla. Jafnvel strax í Kanada er tréð einkum að finna hátt yfir sjávarmáli. Sunnan landamæranna vex tréð hvergi við sjávarmál eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

Útbreiðsla alaskasýprus samkvæmt USDA eða  U.S. Department of Agriculture. Sjá má að þegar komið er suður fyrir Kanada vex hann eingöngu til fjalla. Samkvæmt kortinu er útbreiðslan slitrótt við suðurströnd Alaska en í suðaustur hluta ríkisins er tegundin útbreidd.


Alaskasýprus í Alaska

Þar sem tegundin er gjarnan kennd við Alaska þykir okkur rétt að skoða hvernig tegundinni vegnar þar. Til að komast að því skoðum við hina merku bók Alaska Trees and Shrubs frá árinu 1972. Lengi vel var sú bók á náttborðum margra skógræktarmanna og margt í henni stenst vel tímans tönn. Ætla má að lýsingarnar þar geti farið nærri um hvernig þessi tré geti vaxið á Íslandi í fyllingu tímans. Í þessari bók er tegundin kölluð Chamaecyparis nootkatensis og æ síðan hefur það nafn verið mest notað á Íslandi. Alaskasýprusinn er þar sagður geta orðið 12-24 m á hæð með stofnþvermál upp á 30-60 cm. Stöku tré, segir í bókinni, geta orðið enn stærri. Allt að 30 m á hæð með 1,2 m þykkan stofn. Krónan er grönn með örlítið slútandi greinar.

Í Alaska vex tegundin nálægt ströndinni í suðaustur hluta og í suðurhluta ríkisins, allt vestur að Prince Williams sundi, ef marka má bókina. Samkvæmt kortinu hér að ofan vantar tréð við suðurströndina nema við áðurnefnt sund. Tréð vex frá sjávarmáli og allt að trjálínu en bestum þroska nær það í um 140 til 365 metra hæð. Þarna vex tréð innan um þallir eða í litlum lundum í sitkagreniskógum. Tréð vex hægt í Alaska þannig að ef tré hefur vaxið það mikið að stofnþvermálið sé orðið um 40 til 50 cm í þvermál, megi gera ráð fyrir að tréð sé 200-300 ára gamalt (Leslie & Little 1972). Þrátt fyrir þennan hæga vöxt er tréð nýtt til timburframleiðslu og skiptir efnahag ríkisins töluverðu máli.

Sólsetur við Prince Williams sund í Alaska. Í þessum greniskógum eru ystu mörk alaskasýpruss í heiminum. Myndin er fengin héðan þar sem hægt er að kaupa myndina í betri upplausn.


Almenn lýsing

Í Norður-Ameríku myndar alaskasýprus tré sem geta orðið 40 til 50 metra há og með stofnþvermál upp á 2-3,7 m. (Eckenwalder 2009). Vitað er um tré sem náð hefur 61 metra hæð ef marka má Clapp & Crowson (2023). Þetta er töluvert meira en norður í Alaska. Við trjámörk til fjalla verður tegundin dvergvaxin.

Tréð hefur ekki verið það lengi í ræktun á Íslandi að hægt sé að spá neinu um hversu hátt það gæti orðið hér á landi. Hér er það ennþá bara lágvaxið tré og stundum líkara runna fyrstu árin. Þó eru til mjög efnileg tré sem sjálfsagt verða mjög há með tímanum. Til eru eldri tré sem greinilega hafa orðið fyrir endurteknu kali, en yngri tré, sem vaxa í sæmilegu skjóli, vaxa oftast áfallalaust og sum þeirra sýna góðan vöxt. Endurtekið kal getur leitt til þess að vöxturinn verður æði frjálslegur og tréð á erfitt með að mynda einn, leiðandi topp. Myndir af slíkum trjám má sjá seinna í pistlinum.

Tvö tré í Ölfusi. Óli Valur Hansson ræktaði plönturnar upp af fræi frá Ceder Bay í Alaska, en það er ekki langt frá ystu mörkum tegundarinnar. Árið 1992 gaf hann Aðalsteini Sigurgeirssyni plönturnar sem þá plantaði þeim við sumarbústað sinn að Bugum. Myndirnar eru teknar í síðdegisbirtu þann 27. október árið 2024. Myndir og upplýsingar: Aðalsteinn Sigurgeirsson.


Börkur er grábrúnn og oft með djúpum sprungum á eldri trjám. Börkurinn flagnar auðveldlega af í löngum næfrum. Yngri tré hafa aðeins rauðari börk en gömul tré.

Gömul tré af þessari tegund fá gráan börk. Elstu tré þessarar tegundar á Ísland hafa enn rauðan börk eins og sjá má á þessu veglega tré sem stendur í bakgarði í Kringlumýri á Akureyri. Aftar í pistlinum eru fleiri myndir af þessu tré. Einnig má í pistlinum finna myndir af gömlum trjám í útlöndum sem hafa gráan stofn. Mynd: Sig.A.


Krónan er létt og oft fremur gisin, keilulaga eða egglaga. Sérstaklega á það við ef tréð er í skugga. Í meiri sól verður krónan þéttari. Eldri tré fá stundum flatari krónu og oft hafa trén hangandi greinar. Annars er algengt að aðeins smágreinarnar hangi og gefi trénu sérkennilegt og einkennandi vaxtarlag. Oftast eru smágreinar og toppurinn áberandi drjúpandi.

Þar sem tréð vex í snjóþungum fjöllum án mikils skjóls hleðst ís stundum á greinarnar og hann, ásamt miklum vindi, brýtur þá jafnvel mjög stórar greinar. Á slíkum stöðum á krónan það til að aflagast töluvert og þá eiga ofangreindar lýsingar illa við um tréð. Í góðu skjóli og á snjóléttari stöðum er þetta ekki vandamál (Peattie 2007).

Vetrarmynd frá Kristnesi í Eyjafirði. Sígræna tréð er alaskasýprus. Mynd: Helgi Þórsson.


Greinar og barr

Smágreinar eru nokkuð flatar og aðeins um 1-1,5 mm þykkar. Út frá þeim vaxa laufgreinar með sígrænu barri í tvær áttir og slúta gjarnan í endann. Leiðandi greinar slúta oft mjög mikið. Peattie (2007) lýsir því svo að það sé eins og að greinarnar séu alltaf að sligast undan snjó. Þetta á jafnt við á veturna þegar snjór er yfir öllu, sem á sumrin þegar engan snjó er að finna. Vel kann að vera að þetta vaxtarlag sé einmitt aðlögun að snjóþyngslum, enda er víða snjóþungt á þeirra heimaslóðum.

Barrið eða laufið myndar einskonar skeljar eða hreistur sem verður 1,5 – 3 mm langt og er grænt, blágrænt eða gulgrænt á litinn. Endi hverrar nálar, ef kalla má þær það, er þríhyrningslaga og sveigist örlítið upp á við í bláendann. Má nota það einkenni til að greina þennan sýprus frá lífviðum sem hafa líkt barr. Nálarnar skarast svo hvergi sér í greinarnar undir þeim og ekki er að sjá á þeim neinar ljósari rákir með loftaugum eins og algengt er hjá barrtrjám. Aftur á móti má stundum greina ljósari lit á milli barrnálanna. Á hliðum greinanna er aðeins pláss fyrir tvær raðir af þessu smágerða barri. Stærri greinar vaxa stundum næstum lárétt út frá stofni og sveigjast oft upp í endann, öfugt við smágreinarnar sem gjarnan hanga (Peattie 2007 og Leslie & Little 1972).

Alaskasýprus er víða ræktaður. Á þessum myndum, sem eru teknar við Balmoral kastala í Skotlandi, sést hvernig greinarnar vísa upp á við í um 45° horni en smágreinar og greinaendar hanga niður. Hér sést líka að ef tréð er ekki í skugga þá klæðir það sig svona ljómandi vel. Myndir: Sig.A.


Ungar plöntur af sumum yrkjum lífviða geta verið glettilega líkar ungum alaskasýprusum. Þegar trén eldast vaxa þau á ólíkan hátt. Þangað til er hægt að þekkja tegundirnar í sundur á barrinu ef vel er að gáð. Rétt er að geta þess að margar tegundir sýprusa eru í vextinum mun líkari lífviðum en alaskasýprus. Á það eflaust sinn þátt í því að sumir vilja setja alaskasýprus í aðra ættkvísl en flesta, aðra sýprusa.

Sumir telja það helsta galla tegundarinnar að lyktin af barrinu sé ekki nægilega góð (t.d. Peattie 2007).

Við birtum þessar nákvæmu lýsingar til að auðvelda fólki að greina tegundina frá líkum tegundum, eins og lífviðum og öðrum sýprusum. Oft þarf að vita eftir hverju þarf að leita til að greina tegundir í sundur.

Mynd úr pistli okkar um ættkvísl lífviða. Lífviður til vinstri, sýprus til hægri. Þetta sést ekki nema með stækkun, nema sjón athugenda sé þeim mun betri. Mynd: Sig.A.


Könglar og fræ

Karlkönglar (sem við stundum köllum karlblóm) eru ekki nema 2-5 mm langir og allt að 2 mm breiðir. Þegar grannt er skoðað má sjá 5-6 pör af köngulhreistri á þeim.

Þessi mynd sýnir báðar gerðir köngla, bæði karlkyns og kvenkyns, á sama trénu. Í þessu tilfelli vaxa þeir á yrkinu 'Pendula' sem er mikið ræktað í útlöndum. Myndin er fengin héðan.


Kvenkönglar eru smáir en samt stærri en karlkynið. Þeir verða 6-13 mm langir og dreifast um tréð og eru á mjög stuttum stilk. Fyrst þegar þeir birtast eru þeir ljósgrænir og vaxbornir en þegar þeir þroskast verða þeir dökkrauðir eða fjólubláir. Stundum eru þeir þó öskugráir að lit en þá oftast með bláleita vaxhúð. Stærð þeirra og litur minnir stundum dálítið á bláber. Hreisturskeljarnar eru ekki nema fjórar til sex á hverjum köngli. Oftast tekur að minnsta kosti tvö ár fyrir könglana að þroskast að fullu en það getur tekið lengri tíma. Í hverjum köngli eru vanalega eitt til fimm fræ, 2-5 mm löng, vængjuð og ljósbrún að lit við þroskun. Vængir eru álíka breiðir og fræin. Svona lítil fræ með litla vængi berast sjaldan langt frá móðurtrénu (Eckenwalder 2009, Leslie & Little 1972).

Könglar á alaskasýprus eru mjög litlir og miklu minni en á þeim sýprus sem vex villtur við Miðjarðarhafið, Cupressus sempervirens. Báðar gerðir hafa þó áberandi odd á köngulskeljunum. Fyrri myndina tók Helgi Þórsson. Hún sýnir köngla í Vaglaskógi sem eru að taka upp hinn bláa lit. Til samanburðar er mynd af köngli sýprusar sem vex í Portúgal. Hana tók Sig.A. árið 2024.


Alaskasýprus getur þroskað fræ á Íslandi. Fyrri myndin er af könglum og fræi af tré sem vex í Kristnesi. Myndin var tekin árið 2003. Helgi Þórsson sáði fræinu og eins og sjá má á seinni myndinni þá spíraði það. Upp spretta angar sem seinna verða tré. Myndir: Helgi Þórsson.


Ræktun í útlöndum

Hið granna vaxtarlag með drjúpandi greinum hefur gert tréð vinsælt í garðrækt um allan heim þar sem tegundin þrífst á annað borð. Það er almennt talið þolið í hverskyns jarðvegi, þarf litla umhirðu og er skuggþolið.

 Í ræktun hefur tegundin aftur og aftur myndað blendinga með öðrum tegundum innan Cupressus ættkvíslarinnar. Þekktastir slíkra blendinga er blendingur við C. macrocarpa. Slíkir blendingar myndast reglulega þar sem útbreiðsla tegundanna skarast. Svo algengir eru þeir að þeir ganga undir sérstöku nafni og kallast C. x leylandii. Sá blendingur er talinn harðgerður í norðlægum löndum og þolir að vaxa í mikilli bleytu. Hann hefur mikinn blendingsþrótt og vex mun hraðar en báðir foreldrarnir. Sums staðar er hann í miklum metum. Aftur á móti er rótarkerfi blendingsins oft frekar vanþroskað.

Í garðrækt í útlöndum þekkjast ýmiss yrki af alaskasýprus. Oft eru það yrki sem hafa óvenju slútandi greinar eða óvenjulega liti á barri.

Sums staðar er alaskasýprus nýttur til viðarframleiðslu en hér á landi þekkist það ekki. Það breytist varla í fyrirsjáanlegri framtíð nema í algerum undantekningum.

Mynd af alaskasýprus úr trjásafni Karls konungs við Balmoralkastala í Skotlandi. Mynd: Sig.A.


Ræktun á Íslandi

Tréð vex hægt í æsku sinni og tekur ekki mikið pláss. Með auknum aldri eykst vaxtarhraðinn og hugsanlega getur það orðið mjög stórt með tíð og tíma. Það er þó ekkert vitað um það ennþá. Ef til vill má reikna með að tréð verði innan við 10 metra hátt hér á landi á bestu stöðum. Í mörgum tilfellum getur það verið kostur ef tré vaxa ekki of hratt. Þá þarf ekki að klippa þau til eða stífa þau á einn eða annan hátt. Aftur á móti þolir tegundin klippingu mjög vel og hægt er að stjórna vextinum ef þörf er á. Ef tegundin þrífst á annað borð er hún ákaflega falleg og þokkafull. Hún er fremur skuggþolin og langlíf. Eldri tré geta orðið umfangsmikil.

Alaskasýprus fyrir miðri mynd í skógarskjóli í Vaðlaskógi. Mynd: Helgi Þórsson.

Hægt er að rækta alaskasýprus í skjólgóðum görðum eða í skógarskjóli á góðum stöðum. Allra best er að hann sé undir trjáskermi í æsku sinni og best er að bjóða honum frjósaman jarðveg. Annars þrífst hann í allri venjulegri garðamold og í frjóum skógarjarðvegi. Alaskasýprus getur verið mjög fallegur framan við önnur tré og í beðum eða þyrpingum með öðrum sígrænum runnum og trjám. Litur hans er ljósari en þeirra tegunda barrtrjáa sem mest eru ræktaðar.

Tilgangur ræktunar á Íslandi er fyrst og fremst fagurfræðilegur.

Alaskasýprus í hafnfirskum garði. Myndin fengin frá gróðrarstöðinni Þöll sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar rekur. Sjá má fleiri myndir undir tenglinum.


Nytjar

Viður þessara trjáa er eftirsóttur, en eins og áður segir vex tréð mjög hægt. Einkum á það við um ung tré en vaxtarhraðinn eykst með auknum aldri. Trjánum er sjaldan plantað til viðarframleiðslu en þau eru nýtt þar sem auðvelt er að komast að villtum trjám. Það getur tekið allt að tvær aldir fyrir trén að ná þeirri stærð að hentugt þyki að vinna viðinn. Þess vegna er það svo að stærstu trén af þessari tegund eru gjarnan að finna á óaðgengilegum stöðum. Viðurinn er mjög harður eins og títt er um sum tré sem vaxa hægt en ekki mjög þungur. Viðurinn er jafn, lyktar vel (þótt sumum líki illa við lyktina af barrinu) og stenst vel ásókn fúasveppa. Reyndar segir í sumum heimildum að af öllum viðum þeirra trjáa sem vaxa í norðvestur hluta Ameríku sé það viður þessara trjáa sem þoli allra viða best ásókn rotsveppa. Stundum hafa skógarhöggsmenn fundið stofna af trjám sem fallið hafa fyrir mörgum árum án þess að sveppir hafi náð að vinna á viðnum (Clapp & Crowson 2023). Auðvitað rotnar viður þessara trjáa fyrir rest. Rotsveppir eru þolinmóðar lífverur.

Þetta hús er klætt með alaskasýprus. Myndin fengin af þessari sölusíðu.


Algengt er að nýta viðinn til húsgagnasmíði, bátasmíði og í ýmsa aðra vinnu. Leslie & Little (1972) nefna sérstaklega gluggakarma, útidyr, bátasmíði og skylda hluti. Þeir hæla líka viðnum fyrir fegurð og hversu auðvelt sé að vinna hann.

Stofn á veglegum alaskasýprus við Balmoralkastala í Skotlandi. Mynd: Sig.A.

Frumbyggjar Norður-Ameríku nýttu að sjálfsögðu þessi tré. Hér fyrr var sagt frá því að trefjarnar undir berkinum væru nýttar til að hnýta körfur og því um líkt. Enginn viður þótti betri í árar en af þessu tré að mati Nútkaþjóðarinnar og fleiri frumbyggjaþjóða.  Viðurinn var einnig nýttur í kistur, diska, allskonar graftól og handföng á hitt og þetta. Sumar frumbyggjaþjóðir nýttu þessi tré einnig til að skera út sérstakar grímur sem nýttar voru við trúarathafnir. Grímur þessar voru gjarnan málaðar í áberandi litum og skreyttar með skeljum og kopar. Viðurinn var einnig nýttur í bogasmíði og voru þeir svo vinsælir að þeir voru nýttir sem verslunarvara, langt út fyrir heimkynni trjátegundarinnar.

Greinaendar og lítt þroskaðir, grænir könglar voru nýttir til lækninga

(Kaflinn að mestu byggður á Earle, 2024 og Peattie, 2007).


Þetta glæsilega tré er í trjásafninu á Stálpastöðum í Skorradal. Myndina tók Samson Bjarnar Harðarson þann 26. september 2024.


Inngangur að nafnasúpa með ábót

Þegar kemur að nöfnum tegunda getur verið gott að þekkja örlítið til fræðiheitanna. Sá sem þetta skrifar hefur oft gluggað í erlend rit og rekist á torkennileg heiti tegunda á fjölmörgum tungumálum án þess að hafa hugmynd um hvaða tegund er um að ræða. Þá kemur sér vel að fræðiheitið fylgir oftast með í vönduðum ritum. Oft dugar það til að þekkja tegundina eða að minnsta kosti ættkvíslina. Ef ekki, þá má nota leitarvélar alnetsins sér til hjálpar. Þá er oftast betra að nota fræðiheitið, því almenn heiti geta verið mjög mismunandi og misvísandi, en fræðiheitin eiga að haldast nokkuð óbreytt milli ára og heimilda. Á því eru þó undantekningar og tegund vikunnar er einmitt ein af þeim. Clapp og Crowson (2023) segja að  skipt hafi verið tólf sinnum um fræðiheiti á um það bil tveimur áratugum. Ef það er rétt hefur verið farið í marga hringi með nöfnin og heimildum okkar ber alls ekki saman um fræðiheitið eins og sjá má hér neðar.

Í bakgarði við Kringlumýri 20 á Akureyri vex þessi stæðilegi alaskasýprus. Sennilega er þetta stærsti alaskasýprusinn á Akureyri og þótt víðar væri leitað. Mynd: Sig.A.


Sama tré, annað sjónarhorn. Þessa mynd tók Helgi Þórsson.


Sennilega er bara best að halda sig við íslenska heitið. Tegundin kallast alaskasýprus. Og þó. Íðorðabanki Árnastofnunar gefur upp nokkur samheiti, þannig að málið er ekki einfalt. Svo má til gamans skoða ensku nöfnin en það er eins og þau hafi verið valin af hreinu handahófi.

Haustmynd af alaskasýprus. Myndin er fengin héðan.


Ensk heiti

Þar sem tegund þessi kemur frá Norður-Ameríku eins og að ofan greinir má skoða hvað heimamenn á þeim slóðum kalla tréð. Samkvæmt bæði Eckenwalder (2009) og Clapp & Crowson (2023) er algengast að kalla tréð Alaska yellow-cedar. Það er afleitt nafn. Tréð er á engan hátt sérstaklega gult á litinn. Mörg tré hafa gula slikju á viðnum og það getur átt við um alaskasýprusinn. Hjá honum er sá litur ekkert meira áberandi en hjá öðrum trjám.

Alaskasýprus í fjalllendi. Myndin er úr þessari grein. Þar er því haldið fram að nafnið Alaska yellow-cedar sé tilkomið vegna þess að þar sem tréð vex innan um sitkagreni, þallir og aðra dökka barrviði í fjöllunum, þá sé tréð allt ljósara yfirlitum.


Eins og sjá má er tegundin kennd við Alaska á máli heimamanna, rétt eins og gert er á íslensku. Það er mjög heppilegt hér á landi, enda kemur tegundin þaðan til Íslands. Aftur á móti er það á engan hátt lýsandi eða heppilegt á heimaslóðum trésins. Það vex á mjög stóru svæði í álfunni en aðeins syðst í Alaska. Samkvæmt Clapp & Crowson (2023) er tréð að líkindum algengast í Bresku Kólumbíu. Það fylki er í Kanada og því þykir sjálfsagt mörgum Bandaríkjamönnum best að kenna tréð við Alaska. Annars yrðu þeir að kenna það við Kanada og það er ekki vel séð. Hvoru tveggja er „einhvers staðar fyrir norðan“.

Mynd frá National Geographic af dauðum og deyjandi alaskasýprus. Myndin er fengin úr grein þar sem sagt er frá því að hnattræn hlýnun ógni þeim. Mynd: Laursen E. Oakes. Ef til vill rennur upp sú tíð að hægt verði að bjarga þessari tegund með því að planta henni á Íslandi.


Þá er bara síðasti hluti heitisins eftir. Cedar merkir sedrusviður en um hann fjölluðum við í janúar 2022. Vandinn er að alaskasýprus er sýprus en ekki sedrus. Það má þó segja mönnum þar vestra til afsökunar að þetta heiti er oft notað yfir ýmsar tegundir af einisætt eða Cupressaceae. Að vísu er sedrusviður ekkert af þeirri ætt, heldur af þallarætt eða Pinaceae þannig að nafnið er í meiralagi óheppilegt. Á ensku kallast sýprusinn cypress og það nafn er stundum notað á tré vikunnar og verður að teljast eðlilegra heiti. Áður en við hristum hausinn yfir þessum nafnaruglingi má minna á að íslenskan geymir svipaða vitleysu. Má nefna mýrasóley, Parnassia palustris, sem dæmi. Hana er fyrst og fremst að finna í graslendi og móum en ekki mýrum og hún er ekki af sóleyjarætt. Því er nafnið mjög óhentugt.

Önnur heiti sem notuð hafa verið á ensku eru meðal annars Alaska cedar, yellow-cedar og yellow cypress eftir því hvernig vindar blása um nafnaheiminn. Einnig þekkjast Nootka cypress og Nootka falsecypress, Cypress er sama orðið og sýprus og hentar ágætlega. Falsecypress er notað af sumum sem ekki vilja hafa tegundina innan Cupress ættkvíslarinnar.

Tvær myndir af sama alaskasýprusnum í sumarhúsalandi að Bugum í Ölfusi. Fyrri myndin tekin í gulri haustbirtu þann 27. október 2024. Halda mætti að þarna væri komið tilefni til að kenna tréð við hinn gula lit, en gallinn við þá tilhugsun er að barrtrén, sem sjást í bakgrunni, eru líka gul í þessari birtu. Seinni myndin var tekin að vori þann 8. apríl 2023. Þessu tré var plantað um 1980 og kom úr Fossvogsstöðinni. Fræið hafði Ólafur Sturla Njálsson pantað frá Noregi en móðurtréð óx á Sitka á Baronofeyju. Tréð hefur vaxið áfallalaust frá fyrstu tíð. Myndir og upplýsingar: Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Nútka

Frumbyggjar í Kanada og syðst í Alaska eru margir hverjir af þjóð sem kallast Nútka (eða Nootka) og sum ensku heitin hér að ofan vísa í það eða í þá staðreynd að tréð vex við Nútkasund og á Nútkaeyju. Hvoru tveggja er nefnt eftir þessari sömu þjóð. Þetta er sama heiti og sjá má í fræðiheitinu. Það er gaman að segja frá því að þetta viðurnefni finnst á annarri plöntu sem vex ljómandi vel á Íslandi. Reyndar vex hún svo vel að mörgum óar við á meðan aðrir gleðjast alveg sérstaklega. Þetta er að sjálfsögðu alaskalúpína sem ber fræðiheitið Lupinus nootkatensis.

 Horft frá Nútkaeyju yfir Nútkasund. Í forgrunni er óvenjugulur alaskasýprus sem á fræðimálinu er kenndur við sundið og kallast nootkatensis. Myndin fengin héðan.


Flækjusaga á latínu

Við Balmoral kastala, sem er sumardvalarstað bresku konungsfjölskyldunnar, er álitlegt trjásafn. Þar á meðal er alaskasýprus. Kóngafólkið merkti hann svona þegar höfundur kom þangað í heimsókn árið 2020. Mynd: Sig.A.

Það er víðar en í ensku sem nöfn þessa trés hafa verið milli tannanna á fólki.

Það var sjálfur Carl Linnæus sem gaf þessari ættkvísl fræðiheiti. Það gerði hann þegar hann lýsti hinum evrópska sýprus, Cupressus sempervirens, sem vex víða nálægt Miðjarðarhafi. Það var árið 1753 og síðan hefur sú tegund verið einskonar erkitýpa fyrir alla sýprusa. Um miðja 18. öld var ekki til sú tækni sem við höfum í dag til að bera saman skyldleika tegunda út frá erfðaefni. Þess í stað þurfti eitthvað annað. Linnæus treysti mest á gerð æxlunarfæra. Síðan hefur komið í ljós að í sumum tilfellum er það óheppilegt viðmið, þótt í öðrum tilfellum virki það vel.


Myndarlegur, tvístofna alaskasýprus í bakgarði við Espilund 1 á Akureyri. Mynd: Sig.A.


Svo var það löngu seinna að alaskasýprusinn uppgötvaðist. Sumum þótti hann nægilega líkur sýprusum við Miðjarðarhafið til að setja hann í sömu ættkvísl. Samkvæmt því ætti fræðiheitið að vera Cupressus nootkatensis. Síðan hafa verið teknir hinir ótrúlegustu snúningar á fræðiheitinu. Sennilega er ekkert annað barrtré með jafn hátt flækjustig hvað það varðar og heimildum ber alls ekki saman. Sem dæmi má nefna að WFO (2024) tiltekur 22 fræðiheiti sem notuð hafa verið á alaskasýprus. Þann lista má sjá hér.

Þetta byrjaði með því að fólk áttaði sig á því að könglarnir eru töluvert frábrugðnir og miklu minni þarna við Nútkasund en við Miðjarðarhaf. Að auki eru könglarnir við Miðjarðarhafið fullir af fræi, en hinir litlu könglar hafa aðeins örfá fræ í hverjum köngli. Myndir af þessum könglum má sjá hér ofar í greininni.

Tveir efnilegir alaskasýprusar framan við síberíuþin í Vaðlaskógi. Myndirnar teknar á misjöfnum árstíma og við misjafna birtu. Sú fyrsta var tekin 22. júní 2019, miðmyndin þann 23. okt. 2021 og lokamyndin 22. maí 2023. Myndir: Sig.A.


Fáum árum áður en Linnæus lýsti sýprusum við Miðjarðarhafið setti hann fram tillögu að tvínafnakerfinu sem enn er notað. Það var árið 1735. Árið 1824 var alaskasýprus lýst í fyrsta skipti og þá settur í sömu ættkvísl og evrópska tegundin. Það gerði maður að nafni David Don. Þar sem æxlunarfæri plantna voru lengi vel aðal greiningatækið í kerfi Linnæusar, þótti mörgum einboðið að setja tegund vikunnar í aðra ættkvísl. Það var fyrst gert árið 1841. Þar með var hringekjan farin af stað. Síðan hefur verið endalaust hringl með fræðiheitið. Nöfn eins og Callitropsis nootkatensis voru notuð um tíma en, Chamaecyparis nootkatensis hefur lengst af notið mestra vinsælda. Helsta ástæða þess er sú að innan þeirrar ættkvíslar eru könglarnir nánast allir eins. Könglar alaskasýprussins passa vel við þær lýsingar. Meðal tegunda sem taldar hafa verið til ættkvíslarinnar má nefna Chamaecyparis lawsoniana sem stundum fæst í garðyrkjustöðvum á Íslandi og er meðal annars að finna í Lystigarðinum. Í byrjun þessarar aldar fundu menn tegund í Víetnam sem kölluð hefur verið Xanthocyparis vietnamensis. Hún reyndist náskyld okkar plöntu og því voru þær settar saman í sérstaka ættkvísl. Þá hét alaskasýprusinn Xanthocyparis nootkatensis.

Teikning eftir Matt Strieby frá árinu 2016 af alaskasýprus. Myndin er fengin af vef The Gymnosperm Database en þar er tegundin flokkuð sem Callitropsis nootkatensis.


Svo fóru grasafræðingar að átta sig á því að alaskasýprus átti mjög auðvelt með að mynda blendinga með nokkrum tegundum af sýprusum og er minnst á það hér aðeins ofar. Það er mjög óalgengt að tré myndi blendinga á milli ættkvísla. Sérstaklega á það við um barrtré. Innan sumra ætta, svo sem rósaættarinnar, þekkist þetta en innan hennar eru engin barrtré. Þá fóru að vakna grunsemdir um að ef til vill væri þetta sýprus þótt könglarnir væru ólíkir frændum sínum á erkitýpunni í Evrópu. Eckenwalder (2009) segir að erfðafræðirannsóknir renni frekari stoðum undir þennan skyldleika, enda þurfa tegundir að vera skyldar til að mynda blendinga. Því er Eckenwalder nú í hópi þeirra grasafræðinga sem vilja hafa alaskasýprusinn í sömu ættkvísl og aðra sýprusa.

Svona hafa vísindamenn hrist þetta fram og til baka og heimildum ber alls ekki saman. Þær helstu heimildir sem við leitum til og teljum traustar eru ótrúlega ósammála eins og sjá má á meðfylgjandi töflu. Ef lesendum rennur til rifja að þeir séu engu nær um þennan nafnarugling eftir lestur kaflans er það í fullkomnu samræmi við hugarástand flokkunarfræðinga sem skoðað hafa tegundina.

 Tafla með okkar helstu heimildum um fræðiheiti tegunda. Fyrstu þrjár eru úr bókum, hinar af vefsíðum. Vefsíðan The Plant List hefur verið lögð niður en í hennar stað kom The World Flora Online eða WFO. Allar heimildirnar eru sammála um viðurnafnið nootkatensis. Það er huggun harmi gegn.


Nafnaruglingur á Norðurlöndum

Þetta tré er ræktað til skrauts í skógum víðs vegar um Norðurlöndin. Þess vegna hefur það ratað í flestar af þeim stóru flórubókum sem gefnar hafa verið út af frændum okkar. Sá sem þetta ritar þáði heimboð grasafræðingsins Ágústs H. Bjarnasonar á dögunum og fékk að skoða hans veglega bókasafn ásamt því að þiggja ljómandi góðar veitingar. Sennilega eru ekki margir einstaklingar sem eiga eins gott safn bóka um grasafræði og Ágúst H. Bjarnason. Í þremur hnausþykkum bókum um flórur Norðurlanda má lesa um þetta tré. Í þeim eru gefin upp þrjú mismunandi fræðiheiti sem öll finnast í töflunni hér að ofan.


Flora Nordica frá árinu 2000 gefur okkur Chamaecyparis nootkatensis.

Nordens Flora frá árinu 2018 gefur okkur Cupressus nootkatensis.

Norsk Flora frá árinu 2022 gefur okkur Xanthocyparis nootkatensis.


Þetta sýnir okkur, enn og aftur, að það er hreint engin sátt um hvaða fræðiheiti ber að nota á þessa tegund.


Ljómandi laglegur alaskasýprus. Sennilega er honum alveg slétt sama þótt grasa- og flokkunarfræðingar missi svefn yfir fræðiheitinu. Myndin er héðan.


Hvað kom fyrst?

Eðlilegt má heita að elsta heitið sé talið það eina rétta. Á því eru þó undantekningar. Þegar nýjar upplýsingar koma í ljós er stundum þörf á að færa tegundir á milli ættkvísla. Til að komast að því hvert hið upphaflega heiti er má skoða hvaða höfundarnafn fylgir fræðiheitinu. Þegar tegundir eru færðar á milli ættkvísla, án þess að lýsing tegundanna breytist, fylgir nafn þess er fyrst lýsti tegundinni í sviga. Þá fáum við þennan lista.

Cupressus nootkatensis D.Don (1824)

Chamaecyparis nootkatensis (D.Don) Spach (1841)

Callitropsis nootkatensis (D.Don) Oerst (1864)

Xanthocyparis nootkatensis (D.Don) Farjon & D.K.Harder (2002)

(WFO 2024, IPNI 2024)


Við sleppum því í þessum lista að segja frá því að eitt af þessum nöfnum á sér annan höfund frá árinu 1927. Það er ekki alltaf sem ártölin sjást á flórulistum en í báðum heimildunum sem við notuðum sjást þau. Ef þessi ártöl væru ekki til staðar þá mætti samt sjá að ættkvíslarheitið Cupressus var fyrst notuð. Það sést á því að heitið D.Don er þar ekki í sviga. D.Don er skammstöfun fyrir David Don (1799-1841). Það var einmitt hann sem fyrstur lýsti tegundinni af grasafræðilegri nákvæmni. Sú lýsing stenst tímans tönn þótt sumir vilji hringla með nöfnin. David Don var skoskur grasafræðingur sem er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á barrtrjám nálægt vesturströnd Norður-Ameríku. Nú er að sjá sem það sé býsna algengt að þær tegundir, sem hann lýsti, hafi verið fluttar í aðrar ættkvíslir. Því má oft sjá skammstöfunina D.Don í sviga á eftir fræðiheitum hina ýmsu barrtrjáa frá þessum slóðum. Það er gert þegar ný nöfn eru gefin tegundum en lýsing þeirra stendur.

Rétt er að taka það fram að þótt grasafræðingar séu ekki sammála um í hvaða ættkvísl skipa skuli alaskasýprus þarf það ekki að merkja að ein skoðun sé réttari en önnur. Ef svo væri þyrfti ekki að ræða þetta frekar. Þetta merkir bara að mismunandi forsendur leiða til ólíkra niðurstaðna. Sennilega hafa allir þessir fræðingar rétt fyrir sér, hver á sinn hátt.


Ung planta af alaskasýprus frá Sólskógum bíður þess að verða plantað. Mynd: Sig.A.


Hvað er vinsælast?

Það er hafið yfir allan vafa að hér á landi er algengast að setja tréð í Chamaecyparis ættkvíslina. Þannig hefur það verið býsna lengi. Til að skoða hvaða heiti er vinsælast í heiminum gerðum við einfalda könnun á veraldarvefnum. Við prufuðum einfaldlega að leita með aðstoð algengrar leitarvélar á þráðum alnetsins. Niðurstöðuna má sjá í meðfylgjandi töflu.

Samkvæmt leit á þráðum alnetsins er heitið Chamaecyparis nootatensis algengasta heitið á alaskasýprus. Það segir samt ekkert um hvort það er réttast.

Eitt af vinsælu yrkjunum í útlöndum heitir 'Glauca Pendula' og hefur þennan ljómandi laglega, bláa lit. Myndin fengin af þessari sölusíðu.


Íslensk heiti

Við köllum þessa tegund alaskasýprus. Á vef Lands og skógar (áður Skógræktin, þar áður Skógrækt ríkisins) er þessi tegund kölluð alaskasýpris en það er bitamunur en ekki fjár hvort við köllum tegundina sýprus eða sýpris.

Íðorðabanki Árnastofnunar notar sama orð og við en gefur upp nokkur samheiti. Þar á meðal er alaskasedrusviður sem er sama merki brenndur og enska nafnið. Þetta tré er hreint ekki sedrusviður. Önnur nöfn sem þar eru gefin upp eru nútkasýpris, nútkakýprusviður og nútkaviður. Frekari leit í orðabankanum gefur okkur fleiri heiti yfir sýprusa, svona almennt. Þar er að finna sýprusvið, grátvið, kýprusvið og sýprus.

Það er gaman að segja frá því að þegar ástæða þykir til að flytja tegundir milli ættkvísla vaknar alltaf upp spurningin hvort rugga beri bátnum og breyta íslenska heitinu í samræmi við fræðiheitið. Þá er ekki alltaf rúmt um úrræði. Þegar heitið alaskasýprus var fyrst notað þótti líklegast að tegundin væri einhvers konar sýprus. Svo hófst hringlið. Sem betur fer má það ekki svo til ganga að breyta þurfi íslenska heitinu til samræmis í hvert skipti sem vísindamönnum dettur í hug að setja tegundina í nýja ættkvísl. Nú hefur tegundin aftur ratað í sýprusættkvíslina að mati margra og því óþarfi að hafa frekari áhyggjur af íslenska nafninu.

Við höldum okkur við heitið alaskasýprus.

Alaskasýprus getur orðið ákaflega voldugur í heimkynnum sínum. Svona gömul tré hafa gráan börk en ekki rauðan. Myndin er fengin af vef The Gymnosperm Database. Á síðunni má frá frekari upplýsingar um tréð. Mynd: C.J. Earle.


Frekari ættfræði

Þótt allar okkar helstu heimildir séu ósammála um hvaða ættkvísl alaskasýprusinn tilheyrir verður að geta þess að allar nefndar ættkvíslir tilheyra sömu ættinni. Kallast hún Cupressaceae á fræðimálin. Hefur hún fjölmörg heiti á íslensku en sennilega er algengast að tala um einisætt, enda er einir, Juniperus communis, eina tegund ættarinnar sem vex villt á Íslandi. Aftur á móti er ættin kennd við sýprusa, Cupressus á latínu. Því er það alveg rökrétt að fjalla um sýprusætt, ef einhver vill það alveg endilega. Þessi ætt er ein af eldri plöntuættum í heiminum og er ákaflega fjölbreytt. Kann það að eiga stóran þátt í þeim vandamálum sem lýst var hér að ofan við greiningu til ættkvísla innan ættarinnar. Tegundirnar hafa haft svo drjúgan tíma til þróunar.

Þótt erfitt geti verið að greina tré til tegunda ættu flest að geta greint í sundur þallarætt, Pinaceae og einisætt (eða hvað menn vilja kalla hana), Cupressaceae. Fremst er grein af alaskasýprus en fjær er síberíuþinur. Barrið er gjörólíkt. Mynd: Sig.A.


Vegna ósamræmis milli heimilda getum við ekkert fullyrt um hversu margar tegundir eru nú taldar innan sýprusættkvíslarinnar. Eckenwalder (2009) segir að tegundir séu 17 og þær megi finna í vesturhluta Norður-Ameríku allt frá Alaska og suður til Guatemala. Þær vaxa einnig við Miðjarðarhafið og í Himalajafjöllum allt til Suður-Kína.

Yrkið 'Van den Akker' er sérlega mjóslegið eins og sjá má. Myndina fengum við héðan.


Á heimasíðu The Gymnosperm Database eru tegundirnar sagðar níu og okkar tegund er ekki talin með, enda er hún sett í aðra ættkvísl á þeirri síðu.

Hvort tegundirnar séu níu, sautján eða eitthvað annað, þá vitum við að flestar þær ættkvíslir sem hér hafa verið nefndar eru náskyldar. Þess vegna hefur komið upp sú hugmynd að sameina allan pakkann og skipta tegundunum svo niður í undirættkvíslir eða hópa. Það virðist ekki hafa fengið mikinn hljómgrunn. Eckenwalder (2009) segir að stundum séu þessum 17 tegundum, sem hann segir að séu í ættkvíslinni, skipt í þrjá hópa eftir skyldleika. Þá lenda tegundirnar C. vietnamensis (sem af sumum er talin mynda sérstaka ættkvísl með alaskasýprus) og C. finebris í hóp með C. nootkatensis ásamt fjórum öðrum náskyldum tegundum. Tegundin C. finebris er ein af þeim tegundum sem myndar mjög auðveldlega blendinga með okkar tegund. Áður en við flækjum málið enn frekar er rétt að láta hér staðar numið í umfjöllun um alaskasýprusinn. Þetta sýnir okkur að því fer fjarri að öll kurl séu komin til grafar. Ef til vill á eftir að stokka þetta allt saman upp og þannig gera þessa grein algerlega úrelta.


Að lokum viljum við færa Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur okkar bestu þakkir fyrir vandaðan yfirlestur. Við viljum einnig þakka öllum þeim sem góðfúslega veittu okkur leyfi til að birta myndir, gáfu okkur upplýsingar eða leyfðu okkur að skoða garða sína. Helga Þórssyni viljum við þakka sérstaklega fyrir margvíslega aðstoð og samkaffidykkju.

 Alaskasýprus er víða ræktaður. Þetta tré stendur í Austurríki og myndin er héðan af síðu austurrískra trjávina.


 

Heimildir og frekari lestur


Aðalsteinn Sigurgeirsson (2024): Munnleg heimild þann 27. október 2024.


Casey Clapp & Alex Crowson (2023): The Other Wood Talk (Alaska Yellow-Cedar). Hlaðvarpsþáttur úr þáttaröðinni: Completely Arbortrary frá 12. júní 2023. Sjá: https://podcasts.apple.com/us/podcast/the-other-wood-talk-alaska-yellow-cedar/id1545536782?i=1000616696933.


Christopher J. Earle (2024): Callitropsis nootkatensis. Vistað hjá The Gymnosperm Database. Sjá: Callitropsis nootkatensis (Alaska yellow-cedar) description. Sótt 22. maí 2024.

 

James E. Eckenwalder (2009) Conifers of the World. The Complete Reference. Timber Press, Portland & London.


Reidar Elven, Charlotte S. Bjorå, Eli Fremstad, Hanne Hegre, Heidi Solstad (2022): Norsk Flora. 8. útgáfa. Norsk Botanisk Forening. Osló.


Aljos Farjon (2008): A Natural History of Conifers. Timber Press, Inc. Portland, Oregon, USA.


A. S. Harris (án ártals): Chamaecyparis nootkatensis (D. Don) Spach. Hjá USDA,  U.S. Department of Agriculture. Sjá: Chamaecyparis nootkatensis (D (usda.gov).


Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (2024): Íðorðabankinn. Sjá: Íðorðabankinn (arnastofnun.is).


IPNI, International Plant Names Index (2024): Cupressus nootkatensis D.Don. Sjá: Cupressus nootkatensis | International Plant Names Index (ipni.org). Sótt 20. október 2024.


Bengt Jonsell (ritst.) 2000: Flora Nordica 1. bindi. Bergius Foundation. Stokkhólmur.

  

Land og skógur (áður Skógræktin) (án ártals): Alaskasýpris. Sjá: Alaskasýpris | Skógræktin (skogur.is). Sótt 22.maí 2024.


Bo Mossberg og Lennart Stenberg (2018): Nordisk Flora. Bonnier fakta. Stokkhólmur.


Donald Culross Peattie (2007): A Natural History of North American Trees. Trinity University Press, San Antonio, Texas.


Leslie A. Viereck & Elbert L. Little, Jr. (1972): Alaska Trees and Shrubs. Agriculture Handbook No. 410. Forest Service. United States Department of Agriculture. Washingron D.C.


WFO, The World Flora Online (2024): Callitropsis nootkatensis (D.Don) Oerst. Sjá: Callitropsis nootkatensis (D.Don) Oerst. (worldfloraonline.org) Sótt: 27. júlí 2024.







 


 


 

 

 

 



 

 

 

 

 

92 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page