Trjávernd
- Sigurður Arnarson
- Jul 16
- 7 min read
Updated: Jul 18
Jóna tannlæknir leit á sófann í stofunni sinni og sá að hann var ljótur og passaði ekki lengur með öðrum húsgögnum. Hún á margar góðar minningar um þennan sófa og hefur átt í honum ótalmargar góðar stundir. Var það ekki í þessum sófa sem Jóna tannlæknir og Jónatan læknir kysstust í fyrsta skipti? Nú er sófinn bara fyrir. Hann er ljótur, slitinn og óþægilegur. Þess vegna ætlar hún að henda honum og fá sér nýjan.
Jónatan læknir leit á tréð í garðinum sínum og sá að það var ljótt og passaði ekki lengur við annan gróður. Hann á margar góðar minningar um þetta tré sem eitt sinn var fagurt. Hann minnist allra góðu stundanna undir því. Var það ekki undir þessu tré sem Jónatan læknir og Jóna tannlæknir áttu sinn fyrsta ástarfund? Nú er það orðið ljótt og úr sér sprottið. Það er fyrir í garðinum. Þess vegna hendir hann því og fær sér nýtt. Eða sleppir því að fá sér nýtt.
Það er ekki mikill munur á þessum tveimur sögum. Bæði Jónatan læknir og Jóna tannlæknir eru í fullum rétti til að breyta umhverfi sínu á þennan hátt. Í raun kemur það engum við, eða er ekki svo?
Í þessum stutta pistli veltum við því fyrir okkur hvort alltaf sé eðlilegt að fjarlægja tré úr görðum. Við skiptum okkur ekkert af sófanum en notum hann til samanburðar.

Regluverk
Hvert sveitarfélag á Íslandi getur sett sér almennar reglur um trjáfellingar. Sem dæmi má nefna að í Reykjavík gilda þær reglur að sækja þarf um leyfi til að fella tré ef þau eru yfir 8 metrar á hæð eða eldri en 60 ára. Oftast eru slík leyfi auðfengin en þó ekki alltaf. Ef um er að ræða sérstök tré sem setja mikinn svip á umhverfi sitt og hafa áhrif á götumyndina er ekki víst að leyfið fáist. Sama á við ef tréð þykir einstaklega merkilegt, einhverra hluta vegna. Sum tiltekin tré skipa stóran sess í ræktunarsögu Íslendinga og sorglegt er að fórna þeim arfi án veigamikilla ástæðna. Í slíkum tilfellum er ekkert óeðlilegt við að reynt sé að telja garðeigendum hughvarf.
Sambærilegar reglur giltu í eina tíð á Akureyri en nú eru engar reglur í gildi um trjáfellingar í bænum. Hverjum og einum er í sjálfsvald sett hvort hann, burt séð frá kyni, fellir eða lætur fella tré í sínum garði. Það stendur þó vonandi til bóta með gerð sérstakrar trjáverndarstefnu.
Hver kom fyrst?
Stundum kann að vera rétt að staldra aðeins við og íhuga aðra möguleika, því trjáfelling er varanleg aðgerð. Skulu hér tilnefnd fáein atriði sem kunna að skipta máli.
Gott er að hafa í huga að tré geta orðið gamlar lífverur. Það tekur ekki langan tíma að fella tré, sem veitt hefur allskonar vistþjónustu, jafnvel í marga áratugi. Var tréð þarna þegar íbúar hússins fluttu í það? Er það búið að vera lengur á þessum stað en íbúarnir? Kom það nýjum íbúum á óvart að tréð var þarna? Ef svarið er já við þessum spurningum kann að vera rétt að velta fyrir sér hvort aðrar leiðir séu færar og ef til vill heppilegri. Þetta á einkum við um gömul og virðuleg tré, sem í sumum tilfellum eiga sér merka sögu. Þau geta sem best verið hluti af mikilvægum arfi viðkomandi sveitarfélags. Ef til vill er þetta elsta eða stærsta tré sinnar tegundar í bænum. Skiptir það ekki máli? Ef til vill er þetta eina tré sinnar tegundar í bænum, eða formóðir margra afkomenda, jafnvel um land allt. Skiptir það máli?

Árið 2005 gaf Skógræktarfélag Eyfirðinga út bækling um merk tré á Akureyri í tilefni 75 ára afmæli félagsins. Því miður hafa mörgum þeirra verið fórnað. Nú heldur félagið úti vefsjá um merk tré í bænum. Hana má skoða hér. Við höfum stundum skrifað pistla um einstök, falleg og merkileg tré á Akureyri og birt á heimasíðunni okkar. Má nefna sem dæmi þennan pistil um ösp, pistil um eikina í Dalsgerði, hið fágæta degli við Bjarmastíg og pistil um eitt glæsilegasta lerkið í bænum. Öll þessi tré eru nú horfin. Ýmsar ástæður geta legið að baki þessum trjáfellingum. Má nefna sem dæmi að eitt þeirra skyggði á sólpallinn hjá nágrönnum trésins. Þeir vissu þó vel af trénu þegar pallurinn var byggður. Í öðru tilfelli var skyndiákvörðun að fella gamalt tré svo auðveldara væri að mála húsið. Rétt er þó að minna á að í öllum tilfellum voru íbúar í lagalegum rétti til að fella sín tré, enda eru engar reglur til á Akureyri sem vernda gömul, falleg og virðuleg tré.

Sjálfsagt mál
Rétt er að geta þess að auðvitað geta komið upp aðstæður þar sem það þykir fullkomlega eðlilegt að fjarlægja tré. Bæði birki og reynir, sem eru algeng garðtré, verða tiltölulega skammlíf af trjám að vera. Þegar þau fara að feyskjast og fúna er eðlilegt að fella þau. Sama á við þegar trjám, til dæmis alaskaöspum, hefur verið plantað allt of þétt. Þá er í fyllsta máta eðlilegt að grisja. Einnig getur verið gott að fjarlægja tré sem aflaga vöxt annarra trjáa. Í stað þeirra má ef til vill planta fögrum runnum. Tré, sem eru svo skökk að hætta er á að þau falli í vindi, eða tré sem standa þannig að umferð stafar hætta af, getur þurft að fjarlægja til að draga úr slysahættu. Svona má áfram telja.

Vistþjónusta
Tré veita mikilvæga vistþjónustu. Einkum á það við um stór tré. Því vakna ákveðnar spurningar um almannarétt þegar tré á einkalóðum eru felld. Þegar tré eru felld getur það haft afleiðingar og áhrif langt út fyrir viðkomandi garð. Þar skilur á milli trésins í garðinum sem Jónatan læknir ætlaði að fella og sófans sem Jóna tannlæknir ákvað að henda. Verða hér nefnd fáein dæmi.
Á meðan tré vaxa binda þau kolefni og geyma það í rótum, greinum og stofni. Um leið og tréð er fellt fara ræturnar að rotna og losa kolefni. Sé viður trésins nýttur geymist kolefnið á meðan smíðisgripurinn er til. Efnið, sem er fleygt, losar kolefni og eykur á hamfarahlýnun jarðar. Ef öðrum trjám er plantað í stað þess er fellt var dregur mjög úr þessu tjóni, því þau binda kolefni. Sá sem fellir stórt og mikið tré í garðinum hjá sér til að auðveldara sé að mála húsvegg hugsar ekki hnattrænt.
Vistþjónusta trjáa er býsna fjölþætt í hverju hverfi fyrir sig. Þau eru svo mikilvæg að því hefur verið haldið fram að stór og falleg tré í næstu görðum hafi áhrif til hækkunar á íbúðaverði. Að auki hafa rannsóknir sýnt að trjágróður getur haft góð áhrif á sálarheill. Um það var meðal annars rætt í þessum pistli.

Ég á þetta = ég má þetta
Tré, einkum stór tré, draga úr vindi á stórum svæðum, bæta veðurskilyrði og draga úr kostnaði við húshitun. Er alveg eðlilegt að athafnir eins garðeiganda verði til þess að auka vind og þar með vindkælingu í mörgum görðum í nágrenninu? Ber trjáeigandinn einhverja siðferðilega ábyrgð ef trampólín í næsta garði leggur í langferð?
Tré bæta hljóðvist. Hefur hvaða garðeigandi sem er siðferðilegan rétt á því að auka til dæmis umferðarhávaða í hverfinu með því að fella tré? Tré laða að fugla. Er alveg eðlilegt að hver sem er geti upp á sitt eindæmi tekið ákvörðun um að fækka smáfuglum í hverfinu með því að fækka hreiðurstæðum og draga úr fæðuframboði?
Tré bæta loftgæði. Þau binda ryk og framleiða súrefni. Ber garðeigandi sem fellir stórt tré einhverja ábyrgð á astmakasti íbúa í hverfinu, næst þegar svifryk fer yfir hættumörk í bænum? Er óhætt fyrir nágranna að lofa barni sínu að sofa úti í vagni þegar tréð er farið? Skipta svona lífsgæði einhverju máli?

Að lokum
Jóna tannlæknir þurfti ekki að velta svona spurningum fyrir sér þegar hún henti sófanum. Hann var einfaldlega fyrir. Þar sem Jónatan læknir er meðvitaður um samfélagslega ábyrgð sína, þá veltir hann svona hlutum fyrir sér áður en hann fellir tré í garðinum sínum. Við hjá Skógræktarfélaginu getum auðvitað hvorki bannað einum né neinum að fella tré í sínum garði, enda geta verið fyrir því góð og gild rök að tré þurfi að víkja. Aftur á móti þykir okkur engan vegin sjálfsagt að fara í óafturkræfar aðgerðir án þess svo mikið sem öðrum möguleikum sé velt upp. Því skorum við á þig, ágæti lesandi, að hugsa þig vel um áður en þú fellir tré í gerði þínum. Að lokum þökkum við Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur fyrir gagnlegan yfirlestur og þarfar ábendingar.

Sigurður Arnarson






Comments