top of page

Degli við Bjarmastíg

Updated: Jul 30, 2023

Degli við Bjarmastíg á Akureyri er #trévikunnarSE. Þetta er einstakt tré á Akureyri og eiginlega á landinu öllu. Tegundin hefur líka verið kölluð douglasgreni og döglingsviður. Fræðiheitið er Pseudotsuga menziesii. Almenningur kannast líklega betur við heitið á timbrinu úr þessari tegund, Oregon pine. Það er sérlega góður smíðaviður, endingargóður og heldur sér vel, vinst lítið og því tilvalinn í t.d. glugga. Degli er ættingi lerkis og þrífst vel í jarðvegi sem lerki hefur auðgað með sambýli sínu við sveppi. Því gengur hins vegar illa að vaxa upp á berangri og þarf skjól af eldri trjám í æsku sinni til að verjast haust- og vorfrostum, vindi og hreggviðrum. Því er upplagt að nota grisjaða lerkiskóga til að koma upp degliskógum. Í sumum lerkireitum eru léleg lerkikvæmi sem ólíklegt er að gefi nokkurn tíma verðmætt timbur. En þar hefur lerkið samt auðgað jarðveginn og þar mætti gróðursetja degli. Benda þarf á merkileg tré í þéttbýli og brýna fyrir fólki að vega gildi þeirra vel og vandlega áður en ákveðið er að fella þau. Mér finnst koma til greina að tré sem þykja mikilvæg í bæjarumhverfinu megi friða og þá verði komið til móts við húseigendur ef þeir telja sig hafa einhvern ama af viðkomandi trjám. Ég tek fram að ég hef enga hugmynd um annað en að deglið í Bjarmastíg eigi sér bjarta framtíð. Eigendur þess virðast hlúa vel að því og það fer vel við virðulegt húsið. Vissulega breytir tréð útsýni úr suðurgluggum en tréð sjálft er fallegt útsýni ásamt fiðruðu gestunum sem þar tylla sér til að nærast og syngja. Frekari upplýsingar um degli má finna hér.





64 views

Recent Posts

See All
bottom of page