top of page

Eikurnar á Akureyri

Updated: Oct 3, 2023

Í heiminum eru um 600 eikartegundir. Flestar tegundirnar vaxa í N-Ameríku og Kína. Tvær nauðalíkar tegundir eru upprunnar í Evrópu. Það eru sumareik Quercus robur og vetrareik Quercus petraea #TrévikunnarSE. Það má þekkja tegundirnar sundur á einhverjum grasfræðilegum smáatriðum auk þess sem ungar vetrareikur fella ekki sölnað laufið að hausti heldur vorið eftir, á meðan sumareikin fellir laufið á haustin eins og eðlileg lauftré gera. Þessar eikartegundir geta orðið stórkostlega mikil tré og orðið mörghundruð ára gamlar og til eru dæmi um tré sem eru vel yfir 1000 ára gömul.


Það hefur löngum verið áhugamál flest allra sem áhuga hafa á trjárækt að reyna að rækta eikur. Margir hafa safnað akörnum á ferðum sínum erlendis og sáð við heimkomuna. Mörg hafa spírað og upp hefur sprottið græðlingur en ákaflega fáar af þessum eikum hafa náð einhverjum þroska og náð að verða tré. Sem betur fer eru á þessu undantekningar og á Akureyri eru tvær eikur sem hafa náð ágætum þroska og stefnir flest í að þær verði eigendum sína til sóma í mörghundruð ár. Ekki er vitað til að smámunasamur grasafræðingur hafi greint þessi tré en telja verður líklegt að hér sé um sumareikur að ræða, Quercus robur. Þó hér séu nefndar tvær þekktustu og stærstu eikur Akureyrar má vafalaust finna í görðum og skógum eikur sem eiga eftir að stækka og dafna.


Eikin í Dalsgerði 2a

Uppruni eikurinnar er eitthvað á huldu en sagnir segja að Jóhann Pálsson sem var forstöðumaður lystigarðsins á Akureyri hafi komið með fræið frá Svíþjóð. Einnig eru sagnir um að hún hafi áður staðið sunnan við húsið en hafi á einhverjum tímapunkti verið flutt vestur fyrir húsið þar sem hún stendur fremur berskjölduð fyrir veðri og vindum. Því vekur það nokkra furðu hvað tréð hefur vaxið áfalla lítið og er fallegt og krónumikið. Tréð ætti ekki að fara framhjá neinum sem gengur inn Dalsgerðið og það myndast sérstaklega vel þar sem ekkert skyggir á það. Þetta tré var hæðar mælt 2010 og var þá 4,7 m hátt, núna er það 6,1 m.

Eikin í Hafnarstræti 63

Það er ekkert á huldu um upprunann á þessari eik því fræinu var safnað í Hanover í Þýskalandi árið 1978 og er því um 40 ára gamalt. Þetta tré stendur í skjólsælli lægð sunnan við húsið en sést ágætlega neðan frá götu. Þetta tré er með allt annað vaxtarlag en eikin í Dalsgerði því þessi er fremur mjóslegin og er ekki farin að mynda stóra krónu. Síðasti vetur sem lék mörg tré á Akureyri grátt braut nokkar greinar ofarlega á stofninum og því sér aðeins á trénu. Tréð heldur þó áfram að vaxa og svona smá skemmdir hætta að sjást að nokkrum árum liðnum. Þetta tré vex vel og er núna 6,3 m hátt og er því líklegur kandídat í að vera ein hæsta eik landins.Myndir og texti: Bergsveinn Þórsson.


164 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page