top of page

Lerkið við Aðalstræti 19

Updated: Jul 6, 2023

Í síðustu viku fjölluðum við um hið fræga lerki sem stendur við Aðalstræti 52. Sjá hér. Um það tré hafa verið skrifaðar lærðar greinar. Nú fjöllum við um nágranna þess af sömu tegund sem er þó ekki eins frægur en fullt eins glæsilegur. Þessi tvö tré eru töluvert ólík. Eins og við sáum í síðustu viku er tréð við Aðalstræti 52 mikið um sig og hefur oft orðið fyrir kali í uppvexti sínum. Tréð við Aðalstræti 19 er miklu mun mjórra um sig og hefur vaxið hærra. Það er nú 16,8 metrar að hæð samkvæmt mælingu Bergsveins Þórssonar. Tréð er grannt og tígullegt og setur mikinn svip á götumyndina.



Tegundin

Bæði eru trén af sömu tegund. Kallast hún í dag síberíulerki (Larix sibirica) en var áður nefnd rússalerki (L. sukaczewii). Þetta tré er miklu yngra en tréð sem við fjölluðum um í síðustu viku en samt einum og hálfum metra hærra. Því má draga þá ályktun að það sé betur aðlagað íslensku veðurfari og þar með að öllum líkindum af norðlægari uppruna.


Tæplega 17 metra hátt lerkitré.

Síberíulerki er langmest ræktaða lerkitegundin á Íslandi. Hefur svo verið árum og áratugum saman. Hingað til hefur það vaxið mun betur en aðrar lerkitegundir nema hvað hinn ný til komni blendingur ´Hrymur´ vex enn betur. Samt sem áður er síberíulerkið enn það mest ræktaða á landinu. Ræðst það af því að enn er ekki til mikið fræ af Hrym. Almennt hefur þó lerkiræktun dregist saman hin síðari ár vegna þess að erfitt er að nálgast heppilegt fræ.

Nánar má fræðast almennt um lerkiættkvíslina og helstu tegundir hér.



Ólíkir einstaklingar

Þegar lerki er ræktað í skógrækt og markmiðið er að fá nýtilegan við er sóst eftir þessu vaxtarlagi sem sjá má í Aðalstræti 19. Beinvaxið og hávaxið tré gefur besta viðinn. Fróðlegt getur verið fyrir áhugasama að bera þessi tvö tré saman. Skoða þau á sumrin þegar bæði eru græn og falleg en annað breitt og mikið en hitt hátt og grannvaxið. Skoða þau í haust þegar annað fer í haustliti en hitt stendur áfram grænt. Skoða þau í vetur þegar auðvelt er að bera saman greinabygginguna án þess að barrið skyggi á. Skoða þau aftur í vor þegar þau laufgast með um 10 daga millibili. Samt eru þau svona nærri hvort öðru. Það er því ekki veðurfarið sem ræður þessum mun sem sjá má allan ársins hring heldur uppruni trjánna.


Svona greinabygging gleður margan skógræktarmanninn.


Myndir og texti: Sigurður Arnarson.

163 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page