Árið 1899 hófust framkvæmdir við fyrstu trjáræktarstöðina á Akureyri. Hún var þar sem nú er Minjasafnsgarðurinn. Til að hafa umsjón með framkvæmdum þurfti að fá einhvern sem hafði þekkingu og reynslu. Það var auðsótt því maður að nafni Jón Chr. Stephánsson (1829-1910) hafði hafið ræktun trjáa í garði við hús sitt nokkrum árum áður. Jón þessi bjó í húsinu sem stendur við Aðalstræti 52. Ekki eru til neinar ritaðar heimildir um ræktun Jóns í garði sínum. En til er mynd úr garðinum frá árinu 1912. Þar sjást nokkur lerkitré sem eru á að giska rúmir 2 metrar á hæð. Líklegt er að þau hafi verið hluti af þeim trjám sem Jón Chr. hafði plantað áður en trjáræktarstöðin var stofnuð. Enn standa tvö stór og myndarleg tré í garðinum við Aðalstræti 52 sem að líkindum eru tvö þessara trjáa. Vel má vera að þetta séu elstu lerkitré á Íslandi og hafi verið plantað seint á 19. öld. Annað þeirra er mikið um sig og sérlega glæsilegt. Hitt er þó enn hærra.
Á myndinni sjást bæði lerkitrén við Aðalstræti 52. Tréð til vinstri er hærra en tréð framan við húsið er allt meira um sig.
Tré ársins
Árlega velur Skógræktarfélag Íslands tré ársins. Árið 1997 varð þetta stóra lerkitré fyrir valinu. Í tilefni þess ritaði Hallgrímur Indriðason, sem þá var framkvæmdarstjóri SE, litla grein í Ársrit Skógræktarfélags Íslands um tréð og er það aðal heimild þessa pistils.
Samkvæmt grein Hallgríms var stærra tréð um 16 m á hæð.
Hærra tréð í garðinum. Að auki sést í gaflinn á Nonnahúsi.
Lægra tréð hefur miklu meiri stofn og reyndist hann vera með þvermál upp á eina 190 cm í brjósthæð þegar Hallgrímur skrifaði greinina.
Veglegt er það!
Samkvæmt þessu hafði hærra tréð hækkað um hátt í 14 metra á þeim 85 árum sem liðin voru frá ljósmyndinni. Það merkir að meðaltalsvöxtur hefur verið rúmir 16 cm á ári. Hitt tréð er þó miklu meira um sig og það er tréð sem við veljum sem #TrévikunnarSE.
Merk tré
Árið 2005 hélt SE upp á 75 ára afmæli sitt með því að gefa út bækling um merk tré á Akureyri. Þar er sagt frá 32 trjám í bænum og að sjálfsögðu er þetta tré eitt af þeim. Þegar bæklingurinn var gefinn út voru öll trén í honum mæld. Reyndist þetta tré þá vera 13,8 metrar á hæð.
Bergsveinn Þórsson mældi þetta tré í vikunni og reyndist það vera 15,3 metrar á hæð. Það hefur því ekki hækkað um nema 1,5 m frá 2005.
Nærmynd af berki lerkisins.
Uppruni
Samkvæmt áðurnefndri grein Hallgríms Indriðasonar er allt á huldu um uppruna þessa lerkitrés enda engar heimildir til. Kvæmið virðist þó vera suðlægt og sést það meðal annars á því að tréð stendur nokkuð lengi grænt á haustin. Það er enn hvanngrænt þegar það lerki sem nú er mest ræktað er að jafnaði komið í haustliti. Að auki laufgast það um það bil 10 dögum fyrr en annað lerki. Þessi suðlægi uppruni gerir það að verkum að tréð hefur endurtekið orðið fyrir kali í uppvexti sínum. Það hefur leitt til þess að tréð er með óvenju breiða og volduga krónu.
Krónan ber þess merki að tréð hefur oft orðið fyrir kali.
Tegundin
Áður hefur verið fjallað um lerkiættkvíslina sem #TrévikunnarSE. Þar segir frá því að það lerki sem grasafræðingar kalla í dag síberíulerki (Larix siberica) var áður skipt í síberíulerki og rússalerki (L. sukaczewii) eftir því hvoru megin Úralfjalla þau vaxa. Því er það svo að í grein Hallgríms er sagt frá því að lerkið sé rússalerki. Allar líkur eru á því að það hafi verið rétt. Þau tíðindi hafa gerst síðan sú grein var skrifuð að grasafræðingar hafa sameinað rússalerkið og síberíulerkið og þess vegna segjum við núna að þetta lerki sé síberíulerki. Þannig er það líka titlað í áðurnefndum bæklingi.
Hærra tréð er ákaflega frjálslega vaxið. Myndirnar voru teknar í vikunni af höfundi.
Comentarios