top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Landnám skógarfugla**

Skógrækt hefur verið stunduð á Íslandi í meira en heila öld með þeim árangri að nú eru um 2% landsins vaxin skógi. Þar af er um 1,5% vaxið birkiskógi og -kjarri en plantaðir skógar þekja um hálft prósent landsins. Sums staðar hefur þetta gengið hraðar fyrir sig en annars staðar hægar. Eyjafjörður er í fyrrnefnda hópnum og nú lætur nærri að 5% lands í firðinum sé vaxið skógi. Reyndar verður að geta þess að þetta eru íslensk viðmið. Ef notuð eru erlend viðmið, til dæmis viðmið UNICE, sem er efnahagsráð FAO, er skógarþekjan aðeins 0,6%. Þar er miðað við að skógar séu að lágmarki hálfur hektari að stærð þar sem trjáþekjan er að minnsta kosti 10% og trén séu að lágmarki fimm metrar á hæð eða líkleg til að ná þeirri hæð.

Þótt skógar séu enn fremur fágætir á landinu er árangurinn vel sjáanlegur. Hann sést meðal annars á því að skógarfuglum hefur fjölgað og nýjar tegundir hafa reynt að nema hér land. Framtíð sumra þeirra er trygg en aðrar eru enn að reyna fyrir sér. Sjálfsagt tekst varanlegt landnám hjá einhverjum þeirra með tíð, tíma og auknum skógum.

Auðnutittlingur, skógarþröstur og músarrindill eru meðal hefðbundinna skógarfugla á Íslandi sem hafa verið hér öldum og árþúsundum saman. Ef til vill voru hér fleiri tegundir skógarfugla við landnám sem hurfu með skógunum. Um það er ekkert hægt að fullyrða. Fyrstu myndina tók Sigurður H. Ringsted en hinar tvær tók Emma Hulda Steinarsdóttir.


Sem dæmi um mikilvægi skóga fyrir íslenska fugla má nefna að auðnutittlingar urðu ekki áberandi á Suðurlandi fyrr en eftir 1970 því þá uxu upp skógarlundir og trjágróður í þéttbýli sem þeir sóttu í. Fyrir þann tíma voru þeir sjaldséðir (Örn 2025). Svipaðar sögur má sjá í pistli okkar um fuglinn. Ef til vill munaði ekki miklu að sá fugl hyrfi alveg af landinu með skógunum. Fyrst við erum á Suðurlandi má nefna að skógarþrestir urðu að láta sér nægja að verpa á jörðu niðri á sömu slóðum þar til nógu stæðileg tré uxu upp til að bera hreiðurkörfur þeirra. Líklega áttu kettir þátt í að fæla þá upp í tré. Nú verpa skógarþrestir að sjálfsögðu í trjám í skógum og þéttbýli á Suðurlandi eins og annars staðar þar sem tré er að finna á landinu (Örn 2025). Er það í takt við nafn hans.

Í nágrannalöndum okkar lifir fjöldi fuglategunda í skógum en aðeins lítill hluti þeirra finnst að jafnaði í íslenskum skógum. Aukin skógrækt gæti hugnast mörgum þeirra ef þeir á annað borð bærust til landsins.

Í þessum pistli veltum við fyrir okkur hvað til þarf svo að fleiri fuglategundir geti numið land í íslenskum skógum.

Ein af þeim fuglategundum sem reynt hafa hér landnám á undanförnum árum er gráþröstur. Á myndinni þarf hann að hafa sig allan við að ná í reyniber. Gráþröstur er hér algengur vetrargestur. Á Bretlandseyjum er hann einnig vetrargestur og lifir þar mestmegnis á berjum. Með aukinni ræktun berjarunna og -trjáa aukast líkurnar á að hann setjist varanlega að hér land. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Ein af þeim fuglategundum sem reynt hafa hér landnám á undanförnum árum er gráþröstur. Á myndinni þarf hann að hafa sig allan við að ná í reyniber. Gráþröstur er hér algengur vetrargestur. Á Bretlandseyjum er hann einnig vetrargestur og lifir þar mestmegnis á berjum. Með aukinni ræktun berjarunna og -trjáa aukast líkurnar á að hann setjist varanlega að hér land. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Íslensk fuglafána

Fána íslenskra fugla er nokkuð óvenjuleg miðað við það sem við þekkjum í löndunum í kringum okkur. Þegar litið er til fjölda tegunda eru sjófuglar, endur og vaðfuglar áberandi en spörfuglar fremur fáir (Einar og Jóhann Óli 2002, Náttúrufræðistofnun 2024). Samt er talið að spörfuglar séu um 60% af þeim rúmlega 11.000 tegundum fugla sem þekktar eru í heiminum. Á vef Náttúrufræðistofnunar segir að hér á landi hafi 110 tegundir fugla verpt svo vitað sé og að þar af verpi 75 tegundir hér að staðaldri. Að auki eru sjö fuglategundir sem teljast á mörkum þess að nema hér land samkvæmt sömu heimild.

Frá lokum 19. aldar hafa bæst við þó nokkrar tegundir en flestar þeirra eru andfuglar og máfar. Því miður hafa tvær tegundir fugla hætt varpi á tímabilinu. Það eru keldusvín og haftyrðill. Sú þriðja, geirfuglinn, er útdauður (Einar og Jóhann 2002). Síðustu fuglar þeirrar tegundar voru veiddur í Eldey árið 1844. Í nýbirtri skýrslu Náttúrufræðistofnunar (2026) er þriðju tegundinni yfir þær sem hætt hafa varpi á Íslandi bætt við. Það er gráspör en hann reyndi hér ekki varp, svo vitað sé, fyrr en á 20. öldinni. Fyrsta hreiðrið fanst árið 1959. Síðan hefur hann oft reynt varp og verpti árlega á Íslandi um nokkurt skeið. Því varpi lauk um 2015 en síðan hefur hann verið hér nær árlegur flækingur.

Allmargar fuglategundir hafa reynt hér varp frá því að farið var að stunda skógrækt á landinu. Að minnsta kosti þremur tegundum, glókolli, stara og svartþresti, hefur tekist að nema hér land og fáeinar eru mjög nálægt því ef þeim hefur ekki tekist það nú þegar. Við höfum skrifað sérstaka pistla um þessa þrjá nýju landnema sem nefndir eru hér að ofan og má sjá pistlana með því að opna krækju sem er undir nöfnum þeirra.

Með aukinni trjá- og skógrækt vænkast hagur spörfugla eins og svartþrastarins sem numið hefur land á Íslandi. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Með aukinni trjá- og skógrækt vænkast hagur spörfugla eins og svartþrastarins sem numið hefur land á Íslandi. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Áhrif skógræktar

Aukin skógrækt hefur áhrif á fuglafánu landsins. Þegar skógar vaxa upp gleðjast hefðbundnir skógarfuglar eins og skógarþröstur, auðnutittlingur og músarrindill. Sumir fuglar kjósa frekar opna móa eins og spói og lóa, eða mýrlendi eins og jaðrakan og stelkur. Við landnám, þegar landið var skógi vaxið milli fjalls og fjöru, hafa þessir fuglar sjálfsagt verið hér. Mófuglarnir voru þá vafalítið á hálendinu sem þá var betur gróið en einnig í skógarjöðrum og skóglausum svæðum á láglendi. Ef til vill er það hið náttúrulega ástand íslenskra vistkerfa. Um samspil votlendis og skóga höfum við skrifað sérstakan pistil. Fyrir landnám hafa votlendisfuglar látið sér duga votlendi þótt skógar væru í nágrenninu og sumir fuglar, eins og til dæmis hrossagaukur, sækja gjarnan í slíka vist.

Skógar og votlendi geta laðað að sér allskonar fugla og fara vel saman. Myndirnar tók Sig.A. en þær birtust áður í þessum pistli.


Í kjölfar skógræktar geta búsvæði sumra mó- og votlendisfugla dregist saman en skógarfuglum getur fjölgað. Með réttri skipulagningu þarf þetta ekki að verða vandamál fyrir mófuglana og ef búfjárbeit yrði hætt á hálendinu mætti þar búast við aukinni grósku og í kjölfarið gætu skapst kjöraðstæður fyrir fleiri fugla. Samkvæmt válista fugla 2025 (Náttúrufræðistofnun 2026) eru nú fjórar tegundir í bráðri útrýmingarhættu á Íslandi. Það eru fjöruspói, lundi, skúmur og svartbakur. Ekki verður séð að skógrækt geti átt þar hlut að máli. Auk þess eru tíu tegundir taldar í hættu, 25 tegundir í nokkurri hættu og 19 tegundir eru taldar í yfirvofandi hættu. Fram kemur að nú séu 43 tegundir metnar í hættu af 91 tegund sem metin var. Að vísu sjáum við ekki hvernig sú tala er fengin en listann má sjá hér.

Eins og fram kemur í inngangi er flatarmál ræktaðra skóga á Íslandi mjög takmarkað. Því er erfitt að trúa því að ræktun þeirra hafi haft stórkostlegar afleiðingar í för með sér fyrir mófugla en auðvitað ber að fara með gát í þessum efnum. Má nefna sem dæmi að mó- og votlendisfuglar eru algengari á flatlendi en í brekkum. Brekkur henta aftur á móti oftast betur til skógræktar en flatlendi vegna minni hættu á frosti á vaxtartíma. Skógrækt getur því farið ágætlega saman með mófuglum ef allrar sanngirni er gætt.

Rétt er líka að nefna að það er alveg óþarfi að þurrka upp mýrar í tengslum við skógrækt. Mýrar eiga það sameiginlegt með skógum að skipta miklu máli fyrir miðlun vatns. Þær draga úr hættu á flóðum og minnka áhrif þurrka. Sjálfsagt er að halda þeim, enda geyma þær gnótt kolefnis, eru búsvæði margra lífvera og auka útivistargildi og fjölbreytni landsins. Skógræktarfélag Akureyrar hefur umsjón með skógræktinni í Naustaborgum. Þar er fuglaskoðunarhús við mýrlendi og er ekki annað að sjá en sambúðin gangi vel. Þannig á það að vera.

Í Naustaborgum má sjá fuglaskoðunarhús (til hægri á myndinni). Þaðan má skoða fugla sem hafast við í mýrinni á miðri mynd og í skóginum. Skógar og votlendi geta farið vel saman og skapað fjölbreytta vist fyrir fugla. Mynd: Sig.A.
Í Naustaborgum má sjá fuglaskoðunarhús (til hægri á myndinni). Þaðan má skoða fugla sem hafast við í mýrinni á miðri mynd og í skóginum. Skógar og votlendi geta farið vel saman og skapað fjölbreytta vist fyrir fugla. Mynd: Sig.A.

Margar fuglategundir, til dæmis rjúpa, kunna vel við að hafa aðgang að skógum. Sumir fuglar vilja þétta, samfellda skóga en rjúpan sækir einkum í rjóður, jaðra og kjarr en sést þó víðar. Á veturna treystir rjúpan á víði- og birkibrum sér til lífsviðurværis og að auki leitar hún gjarnan skjóls í skógum. Má nefna sem dæmi að sá sem þetta ritar sá aldrei rjúpur á Skeiðum fyrr en farið var að rækta tré við sumarhús. Aðrir fuglar, til dæmis hrossagaukur, eru í miklum fjölda þar sem víði- og birkikjarr er að finna. Sérstaklega ef mýrar eru í nágrenninu. Þetta eru dæmi um tegundir sem sjálfsagt tækju því vel ef meiri skógar væru á landinu.

Tvær myndir af rjúpum í skógi sem Einar Gunnarsson tók í desember 2025.


Erlendir fuglategundir, sem oft flækjast hingað, gætu numið hér land í kjölfar skógræktar. Reyndar hafa sumir gert það nú þegar (Aðalsteinn og Jón 1992) og aðrar eru á mörkum þess. Líffræðingurinn Örn Óskarsson (2025) benti okkur á að segja má að með hækkandi hitastigi í heiminum sé allt lífríkið að færast norður á bóginn á norðurhveli jarðar. Hann segir að þetta sé áberandi meðal fugla því þeir eigi auðveldara með að færa sig hraðar norður en til dæmis gróðurinn. Með gróðursetningu trjáa og runna getur maðurinn hjálpað til og þannig búið nýbúum úr heimi fugla og smádýra betra og lífvænlegra umhverfi á tímum loftslagsbreytinga. Þetta er ágætt dæmi um þá líffjölbreytni sem fylgt getur nýskógrækt enda er hástig líffjölbreytni jafnan að finna í skógum eins og þekkt er.

Rjúpa í toppi grenitrés. Rjúpur leita oft skjóls í skógum og á vetrum éta þær brum lauftrjáa, einkum þegar jarðbönn eru og allt er á kafi í snjó. Mynd: Rafn Svanbergsson.
Rjúpa í toppi grenitrés. Rjúpur leita oft skjóls í skógum og á vetrum éta þær brum lauftrjáa, einkum þegar jarðbönn eru og allt er á kafi í snjó. Mynd: Rafn Svanbergsson.

Greniskógar og aðrir barrskógar

Í sinni stóru bók, Fuglar í náttúru Íslands (bls. 350-351), víkur Guðmundur Páll Ólafsson (2005) nokkrum orðum að skógrækt á Íslandi. Hann geldur varhug við mikilli skógrækt og segir hana umdeilda. Hann segir jafnframt að ljóst sé að í framtíðinni muni helsti vaxtarbroddur varpfugla verða í hópi skógarfugla. Svo segir hann að langflest hreiður sjaldgæfra skógarfugla á Íslandi hafa fundist í grenitrjám. Nefnir hann nokkrar fuglategundir sem dæmi og segir einnig frá því að gamlar tegundir, eins og skógarþröstur og auðnutittlingur, velja gjarnan sitkagreni undir hreiður sín. Einnig hafa hrafnar og músarrindlar hafa verpt í slíkri vist (Guðmundur Páll 2005). Hin síðari ár er nokkuð algengt að sjá maríuerlu verpa í grenitrjám. Ef til vill mun hún teljast til skógarfugla í framtíðinni.

Maríuerlur eru árvissir varpfuglar í grenitrjám á Suðurlandi og sjálfsagt víðar. Nokkur pör verpa árlega í sitkagreni í Hellisskógi og á Selfossi. Ef til vill er rétt að telja þær til skógarfugla. Að minnsta kosti er ólíklegt að þær hafi hænst að mannabústöðum fyrr en eftir landnám. Mynd: Örn Óskarsson.
Maríuerlur eru árvissir varpfuglar í grenitrjám á Suðurlandi og sjálfsagt víðar. Nokkur pör verpa árlega í sitkagreni í Hellisskógi og á Selfossi. Ef til vill er rétt að telja þær til skógarfugla. Að minnsta kosti er ólíklegt að þær hafi hænst að mannabústöðum fyrr en eftir landnám. Mynd: Örn Óskarsson.

Dvergsnípa (fyrri mynd) og skógarsnípa (seinni mynd) sjást oft á Íslandi. Báðir eru fuglarnir af snípuætt eins og hrossagaukurinn sem stundum er nefndur mýrisnípa. Dvergsnípan vill helst vera í laufskógum á meðan skógarsnípan, sem nú er talin með íslenskum varpfuglum, vill þétta greniskóga. Um þessa fugla má lesa hér. Myndir: Björn Hjaltason.


Við þetta má bæta að við höfum nú þegar birt pistil um hinn skemmtilega og smávaxna glókoll sem er skilgetið afkvæmi íslenskra greniskóga. Krossnefur, silkitoppa og fleiri skógarfuglar treysta nær alfarið á norræna barrskóga sér til lífsviðurværis og ef til vill verða þeir algengir í íslenskum skógum í framtíðinni. Hugsanlega má segja að krossnefurinn sé þegar búinn að nema hér land en vandi er um slíkt að fullyrða. Jóhann Óli (2025) segir að hér á landi séu nú um 100 til 500 pör varpfugla. Það merkir að kynþroska fuglar af þessari tegund eru varla fleiri en 1.000 svo lítið má út af bera.

Glókollur í sinni uppáhaldsvist. Hann hefði ekki getað sest hér að nema vegna þess að hér vaxa grenitré og á þeim lifa sitkalýs. Þær eru meginfæða glókolls yfir veturinn þegar lítið annað er að hafa. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Glókollur í sinni uppáhaldsvist. Hann hefði ekki getað sest hér að nema vegna þess að hér vaxa grenitré og á þeim lifa sitkalýs. Þær eru meginfæða glókolls yfir veturinn þegar lítið annað er að hafa. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Laufskógar

Í gróðursettum skógum er sérstaklega mikilvægt að planta tegundum sem mynda fæðu fyrir fugla til að auðvelda þeim lífið. Gott getur verið að planta margvíslegum runnum og trjám sem mynda ber. Það getur skipt miklu máli á haustin og fram eftir vetri eins og hér er greint frá.

Sumir fuglar, til dæmis hrossagaukur og auðnutittlingur, vilja gjarnan leita sér fæðu í laufskógum. Það á bæði við um birkiskóga, sem við viljum vitanlega sjá sem víðast, og aðra laufskóga þar sem heppilega fæðu er að finna. Laufskógar eru að jafnaði bjartari en barrskógarnir og sumir fuglar kunna vel að meta það á meðan aðrir fuglar kjósa barrskóga. Þess vegna er mikilvægt fyrir fuglafánuna að hafa bæði laufskóga og barrskóga.

Við teljum því óhætt að fullyrða að skógar, einkum blandskógar þar sem greni skipar stóran sess og rjóður og votlendi er að finna, geti áfram aukið á fjölbreytni íslenskra vistkerfa og aukið þannig á líffjölbreytni landsins í heild. Það á einnig við um fuglafánu landsins. Í slíkum skógum er gott að hafa nokkuð stór svæði þar sem fyrst og fremst er að finna lauftré og berjarunnar eru mikilvægir. Við skipulagningu skóga má þetta ekki gleymast.

Síðsumars árið 2018 ráku eigendur sumarbústaðar nærri Apavatni upp stór augu og klóruðu sér í hausnum þegar þeir sáu göt á trjástofnum eins og hér má sjá. Myndirnar sýna einnig sökudólginn. Þetta er sjaldgæfur flækingur sem kom hingað til lands frá Norður-Ameríku og heitir safaspæta. Hún gerir svona göt og lepur trjásafann. Þennan safa má einnig nýta sem ídýfu því geitungar sækja í hann og teljast lostæti meðal þessarar fuglategundar eins og sjá má. Myndi og upplýsingar: Sveinn Jónsson.


Fuglakomur

Ótrúlegur fjöldi fugla kemur til landsins á hverju ári. Þar eru fyrst og fremst um farfugla að ræða sem verpa hér á landi. Svo má ekki gleyma umferðafuglum sem koma hingað vor og haust á leið sinni til og frá varpstöðvum á norðlægari slóðum.

Þriðja hópinn skipa svo flækingsfuglar. Þeir geta flækst hingað á ýmsum tímum og sumir þeirra gætu numið land í íslenskum skógum. Sumir skógarfuglar hafa gert það nú þegar. Aðrir eru farnir að verpa hér nokkuð reglulega og bara spurning hvenær við gefum þeim íslenskan ríkisborgararétt.

Bókfinka er flækingsfugl á Íslandi. Myndina tók Emma Hulda Steianrsdóttir í janúar 2025.
Bókfinka er flækingsfugl á Íslandi. Myndina tók Emma Hulda Steianrsdóttir í janúar 2025.

Flækingar

Fyrir flugi flækingsfugla til Íslands geta verið allskonar ástæður. Sennilega má þó segja að tvær ástæður séu algengastar. Önnur er sú að fuglar á farleiðum geta hrakist hingað undan veðrum. Sennilega er þetta algengasta ástæðan. Þetta eru gjarnan fuglar sem fljúga milli Skandinavíu og Bretlandseyja. Þeir geta sem best lent í kröppum lægðum og hrakist af leið. Einkum gerist þetta á vorin og á haustin er þessir fuglar stunda sitt árlega farflug (Aðalsteinn og Jón 1992). Eðli þeirra er að stunda áfram farflug og þá er óvíst að þeir komi endilega til Íslands aftur.

Gráþrestir eru meðal þeirra fugla sem geta borist hingað með kröppum lægðum er þeir eru á farleið sinni milli Skandinavíu og Bretlandseyja. Þessi var í Lystigarðinum á Akureyri 8. mars 2025 þegar Emma Hulda Steinarsdóttir myndaði hann.
Gráþrestir eru meðal þeirra fugla sem geta borist hingað með kröppum lægðum er þeir eru á farleið sinni milli Skandinavíu og Bretlandseyja. Þessi var í Lystigarðinum á Akureyri 8. mars 2025 þegar Emma Hulda Steinarsdóttir myndaði hann.

Hin ástæðan fyrir komu flækingsfugla til landsins kann að vera líklegri til að stuðla að því að þeir setjist hér að. Hún byggir á því að stundum taka stórir hópar fugla af sömu tegund sig upp og flakka út fyrir heimkynni sín. Kallast þetta fyrirbæri rásfar (e. irruptions) og er nokkuð algengt. Oftast eru þetta fuglar úr hópi frææta sem taka upp þetta háttarlag í lélegum fræárum eða vegna þess að þeim hefur fjölgað svo mikið að ekki er til fæða handa þeim öllum. Þá flýja þessir fuglar hungrið í stórum hópum í von um betra líf. Þeir fuglar sem hingað hafa borist með rásfari eru meðal annars krossnefur, silkitoppa, barrfinka og fjallafinka. Með nokkra ára millibili koma þessir fuglar hingað í stórum hópum (Aðalsteinn og Jón 1992, Einar og Jóhann Óli 2002).

Fjallafinka í Kjarnaskógi. Hún er ein þeirra tegunda sem hingað geta borist með rásfari. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Fjallafinka í Kjarnaskógi. Hún er ein þeirra tegunda sem hingað geta borist með rásfari. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Að minnsta kosti tvær tegundir fugla hafa að öllum líkindum fest sig í sessi eftir svona rásfar að hausti. Eru það stari og glókollur (Einar og Jóhann Óli 2002). Hvorug tegundin stundar farflug til og frá Íslandi þrátt fyrir að báðar tegundirnar geri það á svipuðum breiddargráðum í Evrópu. Ef við föllumst á að krossnefurinn sé íslenskur varpfugl þá fyllir hann líka þennan flokk sem komið hefur með rásfari og numið hér land (Örn 2010). Hann verpir hér árlega en landnámið er enn í hættu, því hann er svo fáliðaður á landinu.

Aðrir telja að sumir þessara fugla hafi borist hingað í farflugi sem flækingar með kröppum lægðum frekar en með rásfari og lagt af langt farflug í kjölfarið. Glókollur er oft nefndur sem dæmi um tegund sem þetta gæti átt við um.

Starar í vetrarbúningi. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Starar í vetrarbúningi. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Þótt margir þessara fugla, sem hingað berast fyrir duttlunga náttúrunnar, eigi það til að verpa og jafnvel koma upp ungum þá er það alger undantekning að þeir ílengist hér á landi. Stundum hafa fuglar komið upp tímabundnu varpi en síðan horfið eftir fáein ár. Þannig var því til dæmis háttað með gráspör sem er algengur í nágrannalöndunum. Hann hætti varpi á Íslandi árið 2025 eða þar um bil. Þess vegna er of snemmt að segja að fuglategundir eins og gráþröstur tilheyri íslenskum fuglum. Sennilega kemur þó að því að hann verður hér fullgildur þegn.

Til þess að nema hér land þurfa ákveðnar forsendur að vera til staðar. Í næstu tveimur köflum förum við yfir sumt af því sem til þarf.

Seint í janúar árið 2023 gæddi þessi silkitoppa sér á berjum í Lystigarðinum á Akureyri. Með aukinni ræktun berjarunna og -trjáa aukast líkurnar á að fuglar eins og silkitoppa geti sest hér að. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Seint í janúar árið 2023 gæddi þessi silkitoppa sér á berjum í Lystigarðinum á Akureyri. Með aukinni ræktun berjarunna og -trjáa aukast líkurnar á að fuglar eins og silkitoppa geti sest hér að. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Forsendur á landi

Í grein sinni frá 1992 um fugla og skógrækt nefna þeir Aðalsteinn Örn Snæþórsson og Jón Geir Pétursson fjóra þætti sem mikilvægir eru til að fuglar geti verpt hér á landi og numið land.


  1. Bæði kyn tegundarinnar þurfa að berast hingað að vori svo varp geti hafist.

  2. Rétt fæða þarf að vera til staðar. Ólíkar fuglategundir geta þurft á mismunandi fæðu að halda.

  3. Búsvæði þurfa að vera sambærileg við þau búsvæði sem tegundin þrífst í á heimaslóðum. Þarna skiptir skógræktin miklu máli. Eftir því sem skógarnir eldast og stækka aukast líkurnar á landnámi því búsvæðin verða fjölbreyttari.

  4. Fuglinn þarf að geta lifað við það loftslag sem hér ríkir.


Nokkrar tegundir fugla eru líklegar til að uppfylla þessi skilyrði og hafa borist hingað án þess að ná að nema hér land. Því kunna að ráða ytri aðstæður sem fjallað er um í næsta kafla.

Blaðlýs, Aphis spp. fá sér í svanginn á Kiðafelli í Kjós. Margar tegundir fugla nærast á þeim. Þá dregur úr því tjóni sem lýsnar geta valdið. Það er reyndar sjaldan mjög mikið. Við gætum gert fuglum mikinn greiða með því að gróðursetja tré og runna sem blaðlýs og maðkar sækja í. Þannig aukum við fæðu þeirra. Mynd: Björn Hjaltason.
Blaðlýs, Aphis spp. fá sér í svanginn á Kiðafelli í Kjós. Margar tegundir fugla nærast á þeim. Þá dregur úr því tjóni sem lýsnar geta valdið. Það er reyndar sjaldan mjög mikið. Við gætum gert fuglum mikinn greiða með því að gróðursetja tré og runna sem blaðlýs og maðkar sækja í. Þannig aukum við fæðu þeirra. Mynd: Björn Hjaltason.

Ytri forsendur

Þeir Einar Ó. Þorleifsson og Jóhann Óli Hilmarsson skrifuðu grein um íslenska skógarfugla í Skógræktarritið árið 2002. Líta má á þá grein sem framhald greinar þeirra Aðalsteins Arnar og Jóns Geirs (1992) sem nefnd er hér að ofan. Í greininni bættu þeir við atriðum sem kunna að hafa áhrif á landnám fugla. Líta má á þá þætti sem ytri forsendur á meðan Aðalsteinn og Jón fjölluðu um forsendur á tilvonandi landnámsstað.

29. desember 2021 var Ljósafellið á veiðum fyrir austan land. Þá birtist þessi landsvala og hvíldi sig um borð. Mynd: Þorgeir Baldursson.
29. desember 2021 var Ljósafellið á veiðum fyrir austan land. Þá birtist þessi landsvala og hvíldi sig um borð. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Einar og Jóhann Óli (2002) vöktu athygli á hinni erfiðu farleið til landsins. Þeir gera ráð fyrir að það sé einn helsti þátturinn sem hindrar eða takmarkar líkur á landnámi nýrra fugla og reyndar margra annarra dýra ef út í það er farið. Stysta flugleiðin til Íslands frá Skotlandi er um átta hundruð kílómetrar. Á þeirri leið geta orðið mikil afföll smávaxinna fugla. Einkum á það við ef þeir geta ekki tyllt sér á hafið þegar þreytan sækir að. Flestir þeir farfuglar sem hafa numið hér land á undanförnum áratugum geta tyllt sér á sjóinn og kunna að synda. Þetta eru fuglar eins og helsingi, skúfönd, hettumáfur, sílamáfur og síðan brandönd nálægt aldamótum (Einar og Jóhann 2002). Eini landfuglinn sem fellur ekki undir þessa skilgreiningu er branduglan. Hún er hér fremur fágætur farfugl en getur ekki tyllt sér á haföldurnar. Ef til vill er þetta meginástæða þess að hringdúfan, sem við fjöllum um hér á eftir, hefur ekki enn þann sess að teljast til varanlegra varpfugla á Íslandi. Ef til vill er farflugið heldur of langt fyrir hana. Sama getur átt við um marga aðra fugla.

Brandugla með sín gulu augu í Þistilfirði þann 23. apríl 2022. Branduglan er algengasta uglan á Íslandi. Hún er farfugl sem getur ekki tyllt sér á öldurnar í hinu langa flugi yfir opið Atlantshaf. Mynd: Björn Hjaltason.
Brandugla með sín gulu augu í Þistilfirði þann 23. apríl 2022. Branduglan er algengasta uglan á Íslandi. Hún er farfugl sem getur ekki tyllt sér á öldurnar í hinu langa flugi yfir opið Atlantshaf. Mynd: Björn Hjaltason.

Svo eru til fuglar sem virðast hafa látið af farflugi þegar hingað var komið. Sumir þeirra hafa náð að setjast hér að og teljast nú til íslenskra varpfugla þótt veturinn reynist þeim oft erfiður. Þeir spörfuglar, sem námu hér land á síðustu öld, hafa gerst staðfuglar. Það á meira að segja við þótt að minnsta kosti sumir þeirra séu farfuglar á norðlægum slóðum í Evrópu. Svartþröstur, stari og glókollur fylla þennan flokk ásamt fleiri fuglum sem reynt hafa hér landnám og eru nálægt því að teljast til íslenskra varpfugla. Í þeim hópi er meðal annars gráþröstur.

Bókfinka (fyrri mynd) og fjallafinka (seinni mynd) eru meðal þeirra flækingsfugla sem stundum sjást í Lystigarðinum á Akureyri. Myndir: Sigurður H. Ringsted.

Fæða

Að ofan er nefnt að rétt fæða þarf að vera til staðar fyrir fugla ef þeir eiga að geta numið hér land. Margir fuglar, sem hér eru vetrargestir, treysta á að mannfólkið gefi þeim eitthvað í gogginn. Sérstaklega þegar jarðbönn ríkja. Við getum sem best aukið líkurnar á því að fuglar nemi land í skógum með því að gróðursetja tré og runna sem gefa af sér heppilega fæðu. Um það fjölluðum við töluvert í þessum pistli og það er óþarfi að rifja það allt saman upp. Þess í stað minnum við á að aukin fjölbreytni gagnast fuglalífinu vel. Við viljum líka árétta að ef ekkert étur af trjánum þínum, hvort sem þau eru í garði eða skógi, teljast þau tæplega hluti af vistkerfinu.

Krossnefur gleðst yfir þeirri fæðu sem honum eru gefin á vetrum. Til vinstri er karlfugl en kvenfugl til hægri. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Krossnefur gleðst yfir þeirri fæðu sem honum eru gefin á vetrum. Til vinstri er karlfugl en kvenfugl til hægri. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Víðifeti, Hydriomena furcata, í Kiðafelli í Kjós. Þetta er ein af þeim lirfum sem étur lauf trjáa okkur til mæðu en fuglum til gleði. Mynd: Björn Hjaltason.
Víðifeti, Hydriomena furcata, í Kiðafelli í Kjós. Þetta er ein af þeim lirfum sem étur lauf trjáa okkur til mæðu en fuglum til gleði. Mynd: Björn Hjaltason.

Landnámsfuglar á síðasta aldarfjórðungi

Árið 1992 skrifuðu Aðalsteinn Örn Snæþórsson og Jón Geir Pétursson skemmtilega grein í Skógræktarritið sem áður er nefnd. Þar sögðu þeir frá því hvaða fuglar þeim þætti líklegt að gætu numið hér land á næstu árum. Þeir nefna sérstaklega skógarsnípu, svartþröst, gráþröst, bókfinku, krossnef og fjallafinku. Hver þessara sex fugla fékk sérstakan kafla í greininni. Þegar greinin var skrifuð hafði stari nýlega numið hér land og því var hann ekki hafður með. Að auki nefna þeir fleiri tegundir sem þeir töldu líklega landnema. Þeir nefna silkitoppu, glóbrysting, nokkrar tegundir söngvara, svo sem garðsöngvara, gransöngvara, laufsöngvara og hettusöngvara og að lokum glókoll og barrfinku.

Karlkyns barrfinka á Suðurlandi. Örn Óskarsson (2025) telur líklegt að tegundin hafi verpt árlega á Suðurlandi frá því upp úr aldamótum. Samkvæmt Náttúrufræðistonun (2026) telst hann til íslenskra varpfugla. Mynd: Örn Óskarsson.
Karlkyns barrfinka á Suðurlandi. Örn Óskarsson (2025) telur líklegt að tegundin hafi verpt árlega á Suðurlandi frá því upp úr aldamótum. Samkvæmt Náttúrufræðistonun (2026) telst hann til íslenskra varpfugla. Mynd: Örn Óskarsson.

Óhætt er að hæla þeim Aðalsteini Erni og Jóni Geir fyrir spádómsgáfuna. Síðan þeir skrifuðu greinina hafa svartþröstur og glókollur náð að festa sig vel í sessi á Íslandi. Að auki nefna þeir skógarsnípu, gráþröst og krossnef. Það eru tegundir sem eru alveg við það að nema hér land ef þeir hafa ekki gert það nú þegar. Við komum að þeim aftur hér aðeins neðar. Þá eru bara finkurnar tvær, bókfinka og fjallafinka, sem ekki hafa numið hér land af þeim sex tegundum sem þeir töldu líklegastar til að nema landið. Þær koma hingað oft og ef til vill mun þeirra tími koma.

Úr hinum hópnum hefur glókollur komið sér tryggilega fyrir en hinir eru hér flækingar nema hvað barrfinka telst nú til íslanskra fugla í nokkurri hættu samkvæmt nýju riti Náttúrufræðistofnunar (2026). Silkitoppa hefur verpt hér og komið upp ungum en kemur sjaldan eða aldrei á sömu slóðir að ári. Því virðist hún enn eiga nokkuð langt í land þótt hún sé hér nokkuð algengur vetrargestur.

Fjallafinka í Hálsaskógi í Hörgársveit 28. júní 2024. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Fjallafinka í Hálsaskógi í Hörgársveit 28. júní 2024. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Varp á landinu

Á vorin fara flestir gráþrestir af landi brott en í sumum tilfellum dveljast þeir hér áfram og stöku fuglar virðast vera hér allt árið. Þegar bæði kynin eru hér á sama tíma yfir sumarið er líklegt að þeir verpi og komi upp ungum. Það virðist ganga vandræðalaust fyrir sig en þó án þess að fuglunum virðist fjölga að ráði á milli ára. Þannig hefur þetta verið lengi en fjöldinn er þó heldur á uppleið. En ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Gaukur Hjartarson (2025) fræddi okkur á því að gráþrestir hefðu verpt í nokkur ár á sjötta áratug síðustu aldar á Akureyri en það varp lognaðist út af. Við bindum þó vonir við að núverandi varp sé komið til að vera, en lítið má út af bregða. Enginn skógarfugl hefur numið hér land varanlega án þess að þeir félagar Aðalsteinn Örn og Jóni Geir (1993) hafi nefnt hann á nafn nema ef vera skyldi ein dúfutegund, hringdúfa, sem er mjög líkleg til þess að festa sig varanlega í sessi og svo eyrugla. Sennilega verpir hún orðið árlega í íslenskum skógum. Samkvæmt riti Náttúrufræðistofnunar (2026) er hún í nokkurri hættu á Íslandi. Aukin skógrækt gæti þó vissulega hjálpað henni.

Eyrugla í Hellisskógi við Selfoss er með stærri „eyru“ en frænka hannar branduglan og er auðgreind á þeim. Að auki er hún með rauðgul augu en ekki gul. Mynd: Örn Óskarsson.
Eyrugla í Hellisskógi við Selfoss er með stærri „eyru“ en frænka hannar branduglan og er auðgreind á þeim. Að auki er hún með rauðgul augu en ekki gul. Mynd: Örn Óskarsson.

Líklegt verður að telja að fleiri fuglar feti í fótspor landnemanna í náinni framtíð ef áform um aukna skógrækt ganga eftir. Fuglaáhugamaðurinn Gaukur Hjartarson (2025) hefur frætt okkur um stöðuna á helstu nýbúunum sem eru við það að nema hér land. Eins og áður segir eru það krossnefur, skógarsnípa og gráþröstur. Hann segir að krossnefurinn virðist orðinn nokkuð öruggur varpfugl, en útbreiðsla hans og einstaklingsfjöldi er hins vegar takmarkaður. Krossnefurinn verðskuldar sérstakan pistil sem nú er í smíðum. Í honum kemur fram að tvær aðrar náskyldar tegundir, páfnefur og víxlnefur, hafa einnig sést hér á landi (Örn 2025).

Krossnefur þekkist á undarlegu nefinu sem er sérhæft til að opna köngla barrtrjáa. Myndin sýnir karlfugl en kvenfuglinn er grængulur. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Krossnefur þekkist á undarlegu nefinu sem er sérhæft til að opna köngla barrtrjáa. Myndin sýnir karlfugl en kvenfuglinn er grængulur. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Hér má sjá bæði kyn krossnefsins á furu í Grímsnesinu. Karlinn til vinstri, kerlan til hægri. Þar sem stafafura myndar árlega fræ á Íslandi virðist landnám þessa fugls vera tryggt. Mynd: Örn Óskarsson.
Hér má sjá bæði kyn krossnefsins á furu í Grímsnesinu. Karlinn til vinstri, kerlan til hægri. Þar sem stafafura myndar árlega fræ á Íslandi virðist landnám þessa fugls vera tryggt. Mynd: Örn Óskarsson.

Framtíð tveggja, gráþrastarins og skógarsnípunnar, er ekki talin örugg ennþá. Gráþrösturinn verpir í skógum og kjarrlendi í Norður-Evrópu og Asíu og hér hefur hann oft reynt varp en við vitum ekki hvort enn sé rétt að telja hann til íslenskra varpfugla en líklega er það bara tímaspursmál. Hann er ekki á lista Náttúrufræðistofnunar (2026) yfir varpfugla. Hann er algengur haust- og vetrargestur og heldur sig þá mest í görðum þar sem fuglum er gefið. Hann er til dæmis nær árlegur gestur í Lystigarðinum á Akureyri. Svo virðist flestir fuglar yfirgefa landið, en stöku fuglar sjást hér allt árið. Hér er að finna stuttan pistil um tegundina.

Skógarsnípa hefur smám saman verið að festa sig hér í sessi og Jóhann Óli Hilmarsson telur hana með íslenskum skógarfuglum í Íslenskum fuglavísi árið 2011. Gaukur (2025) telur hana einnig með íslenskum varpfuglum þótt stofninn sé enn fremur fáliðaður. Um skógarsnípuna fjölluðum við í pistli um snípur í skógi.

Eyruglan telst með íslenskum varpfuglum nú um stundir þótt stofninn sé ekki stór og því er stofninn í nokkurri hættu á að deyja út. Líkurnar á því minnka þó með hverju ári eftir því sem skógarnir eldast, þroskast og stækka. Við þessa upptalningu má bæta finkutegundum eins og fjallafinku, barrfinku og bókfinku sem verpa hér óreglulega en af þeim er aðeins barrfinkan á lista Náttúrufræðistofnunar (2026). Einnig hafa hringdúfa og tyrkjadúfa reynt hér varp í skógum en þær hlutu ekki náð fyrir augum Aðalsteins Arnar og Jóns Geirs (1992) og er ekki að finna á lista Náttúrufræðistofnunar yfir varpfugla Íslands.

Enn eru ónefndar nokkrar fleiri tegundir skógarfugla sem finnast í nágrannalöndunum. Sumar eru líklegri en aðrar til að nema hér land.

Tyrkjadúfa. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Tyrkjadúfa. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Hugsanlegir landnemar

Við viljum nefna nokkrar af þessum nágrannategundum okkar og velta örstutt fyrir okkur möguleikum sumra þeirra til að nema hér land. Umfjöllunin er að mestu byggð á grein efir Aðalstein Örn og Jón Geir (1992) sem áður er nefnd.

Silkitoppa berst hingað oft á haustin og stundum í miklum fjölda. Það munu vera fuglar í rásfari. Silkitoppan lifir í norðlægum greniskógum og blandskógum og er mikið fyrir hvers kyns berjaát. Hún heldur gjarnan til við vötn og læki þar sem hún hirðir skordýr á flugi. Það sem helst kemur í veg fyrir landnám hennar er skortur á fjölbreyttum berjarunnum sem geta myndað ber á mismunandi tímum. Á meðan berjaframboðið er ekki meira yrði fuglinn sennilega að treysta á fæðugjafir á vetrum ef hann ætti að geta sest hér að eins og til dæmis svartþrösturinn hefur lengi gert (Aðalstein Örn og Jón Geir 1992).

Silkitoppa í Lystigarðinum á Akureyri. Í smíðum er sérstakur pistill um hana. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Silkitoppa í Lystigarðinum á Akureyri. Í smíðum er sérstakur pistill um hana. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Glóbrystingur er algengur flækingur bæði vor og haust en sennilega er ekki nægilega hlýtt á Íslandi fyrir þennan litla, fagra fugl. Hann virðist hvergi hafa fest sig í sessi nema þar sem meðalhiti júlímánaðar er yfir 12°C. Fuglinn verpir í Færeyjum þar sem meðalhitinn er við lægri mörk þess sem talið er nauðsynlegt til að varanlegt varp takist. Samt er vitað til þess að hér hefur hann reynt varp og örfá staðfest dæmi eru um að hann hafi komið upp ungum. Almennt er glóbrystingur talinn fremur harðgerður fugl sem ekki virðist eiga í vandræðum með að lifa íslenska veturinn af að sögn Gauks Hjartarsonar ef hann finnur nægilegt æti (2025). Ef til vill mun hans tími koma. Sérstaklega ef meðalhiti heldur áfram að hækka í heiminum og breyting á hafstraumum valda ekki kólnun á hér á landi.

Glóbrystingur við Aberlady Bay nálægt Edinborg í desember 2020. Í Skotlandi er fuglinn algengur og gæfur á veturna. Mynd: Sig.A.
Glóbrystingur við Aberlady Bay nálægt Edinborg í desember 2020. Í Skotlandi er fuglinn algengur og gæfur á veturna. Mynd: Sig.A.

Nokkrar tegundir söngvara, svo sem garðsöngvari, gransöngvari, laufsöngvari og hettusöngvari, hafa allir sést hér á landi. Ef þeir bærust hingað í nægilegu magni má gera ráð fyrir að einhverjir þeirra geti átt hér farsæla framtíð. Gaukur Hjartarson (2025) segir að vitað sé um fáeinar varptilraunir hjá gransöngvurum en færri sögum fer af árangri. Flestir söngvararnir eiga það sameiginlegt að íslenski veturinn reynist þeim erfiður og fæstir þeirra lifa af vetursetu á Íslandi. Landnám þeirra yrði því líklegast háð farflugi sem gæti orðið sumum þeirra óyfirstíganleg hindrun vegna langrar farleiða yfir hafið. Hettusöngvari er tíðastur þeirra söngvara sem flækjast hingað og jafnframt eina tegund þeirra sem virðist eiga möguleika á að lifa af vetursetu á Íslandi. Hann kemur hingað sem flækingsfugl og dvelst hér yfir veturinn svo tugum skiptir á nær hverju ári. Þar sem hettusöngvari er fyrst og fremst pödduæta tekur hann ekki alltaf fæðu þar sem fuglum er gefið, en þess þekkjast þó dæmi (Gaukur 2025).

Hettusöngvari í æti á Kiðafelli í Kjós þann 12. 11. 2022. Af þeim söngvurum sem berast hingað reglulega eru hettusöngvarar líklegastir til að setjast hér að. Mynd: Björn Hjaltason.
Hettusöngvari í æti á Kiðafelli í Kjós þann 12. 11. 2022. Af þeim söngvurum sem berast hingað reglulega eru hettusöngvarar líklegastir til að setjast hér að. Mynd: Björn Hjaltason.

Barrfinka er hér algengur flækingur og hefur reynt hér varp og telst nú vara íslenskur varpfugl samkvæm Náttúrufræðistofnun (2026). Hún hefur einnig verpt í barrskógarreitum í Færeyjum. Hún treystir töluvert á árstíðabundið fræ og lifir á allskonar fræi þótt hún sé kennd við barrtré. Á vorin og framan af sumri treystir hún helst á rauðgrenifræ. Hér á landi gæti fræ sitkagrenis komið þess í stað. Þegar líður á sumarið treystir hún meira á birkifræ og stundum má éta það langt fram eftir vetri. Annars sækir barrfinkan töluvert í elrifræ á vetrum. Ef einhver þessara fæðuuppspretta bregst á barrfinka það til leggjast í rásfar og flakka í stórum hópum. Fleiri finkutegundir, svo sem fjallafinka og bókfinka, hafa líka reynt hér varp og vel má vera að þeirra tími komi en veturinn hefur reynist þeim erfiður. Þær tegundir er ekki að finna á nýjasta lista Náttúrufræðistofnunar (2026) yfir varpfugla á Íslandi.

Bókfinka á Möðruvöllum í Hörgársveit 31. janúar 2025. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Bókfinka á Möðruvöllum í Hörgársveit 31. janúar 2025. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Fuglar eins og meisur, sem lifa í nágrannalöndum okkar eiga minni möguleika á að nema hér land vegna þess hversu lítið þær flakka um. Þær eru eindregnir staðfuglar. Því er ólíklegt að þær berist hingað í nægilega stórum hópum til að landnám gæti tekist. Gaukur Hjartarson (2025) segir þó að fuglar eins og flotmeisa og blámeisa gætu hæglega lifað af veturna í íslenskum skógum ef þær bærust hingað. Sama má segja um fleiri staðfugla í skógum Skandinavíu svo sem hnotigðju og er þá aðeins fátt eitt nefnt. Ef þeir ættu að geta numið hér land yrði það vegna einhverra óvæntra atburða sem leiddi til þess að þeir myndu óvart berast hingað í nægu magni. Þá gætu þeir vel sest hér að í þroskuðustu skógunum. Talið er að svona staðfuglar geti til dæmis borist hingað sem laumufarþegar með skipum er þeir verða innlyksa á þeim. Vel má vera að fuglar eins og tyrkjadúfur, gráspörvar og jafnvel flotmeisur hafi borist hingað á þennan hátt. Síðastnefnda tegundin, flotmeisan, hefur sést í nokkur skipti á Íslandi en ekki náð að nema hér land (Gaukur 2025).

Klifurskríkja á grenigrein í íslenskum skógi á Vesturlandi 2. júlí 2021. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Klifurskríkja á grenigrein í íslenskum skógi á Vesturlandi 2. júlí 2021. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Dúfur

Tvær tegundir dúfna, sem báðar teljast til skógarfugla, gætu numið hér land á næstu árum.

Við nefnum hér hringdúfu, Columba palumbus, sem dæmi um fugl sem stendur á mörkum þess að nema hér land og byggjum kaflann að mestu á upplýsingum frá Gauki Hjartarsyni (2025) og Jóhanni Óla Hilmarssyni (án ártals). Hringdúfur eru fremur tíðir vorflækingar hér á landi og er jafnvel talið að á hverju ári verpi þær einhvers staðar á landinu að sögn Gauks. Í grein sem Jóhann Óli Hilmarsson skrifaði á vef Náttúruminjasafns Íslands kemur fram að hringdúfur hafa orpið hér af og til í hálfa öld. Þær verptu í Múlakoti í Fljótshlíð árið 1962 og síðan í Öræfum árin 1963 og 1964. Voru þetta fyrstu, staðfestu dæmin um varp hringdúfna. Hreiður og ungar hafa meðal annars fundist í Fnjóskadal og austur-, suður- og vesturum til Reykjavíkur. Meðal annars verpti hún í Grasagarðinum í Laugardal árið 1973. Nefna má fleiri dæmi um varp hringdúfnu. Fyrir mörgum árum verpti par í sitkagrenitré á Selfossi að sögn Arnar Óskarssonar (2025) og kom upp unga. Síðan hefur hún ekki sést þar en hún getur þetta! Tvö pör komu upp ungum á Húsavík fyrir fáum árum en komu ekki árið eftir. Aftur á móti hafa ítrekað borist fréttir af vel heppnuðu varpi hringdúfna í Eyjafirði (Gaukur 2025). Samt er það svo að varp þeirra er hvergi tryggt. Sennilega er varpið hvað vænlegast í nágrenni við Hornafjörð á suðausturhluta landsins. Þar er jafnvel talið að líta megi á hringdúfur sem árlegan farfugl en það hefur ekki verið viðurkennt formlega enda óvíst hvenær telja beri að landnám hafi fyllilega tekist (Gaukur 2025).

Annar staður þar sem talið er að hringdúfur hafi komið sér vel fyrir með árlegu varpi er á Völlum á Héraði. Meðal annars er nokkuð öruggt varp á Höfða þar sem Þröstur Eysteinsson hefur ræktað upp fjölbreytta skóga. Að sögn Þrastar (2025) hefur hringdúfan skilað ungum í að minnsta kosti þrjú ár í röð. Þriðji staðurinn þar sem varp er nokkuð algengt er að Tumastöðum í Fljótshlíð. Sennilega eru litlir stofnar þessara fugla á þessum þremur stöðum og hugsanlega víðar.

Þótt hringdúfur séu fyrst og fremst skógarfuglar þá sækja þær gjarnan fæðu á jörðu niðri. Því kann það að hjálpa hringdúfum, að sögn Jóhanns Óla (án ártals), að kornrækt hefur aukist á Íslandi.

Hér ýfir hringdúfa sig svo mikið að hinn áberandi, hvíti hálfhringur á hálsi, sem gefur henni nafn, sést varla. Mynd: Sig.A.
Hér ýfir hringdúfa sig svo mikið að hinn áberandi, hvíti hálfhringur á hálsi, sem gefur henni nafn, sést varla. Mynd: Sig.A.

Nefna má fleiri dæmi um varp en ofantalið sýnir að svo virðist sem hringdúfur séu á mörkum þess að teljast til íslenskra varpfugla og þá fyrst og fremst í trjám og skógum nálægt ræktarlandi (Gaukur 2025). Þær er samt ekki enn að finna á listum Náttúrufræðistofnunar (2026) yfir varpfugla á Íslandi. Þar er aðeins að finna eina dúfutegund, bjargdúfu, sem ekki er skógarfugl. Hinar ræktuðu dúfur, sem finna má á Íslandi, eru af þeirri tegund.

Hin dúfan sem við nefnum sem líklegan landnema kallast tyrkjadúfa. Hún er ein þeirra tegunda sem hefur verið að banka upp á. Hún er sennilega í varpi á Suðurnesjum og hefur verið í nokkur ár en ekki hefur tekist að staðfesta það. Stök tyrkjadúfa hefur haldið sig á Höfn í Hornafirði í örfá ár en svo urðu þær allt í einu fjórar. Því verður varp þar að teljast nokkuð líklegt. Undanfarin ár hefur tyrkjadúfum á Íslandi fjölgað ár frá ári (Gaukur 2025) þótt þær séu ekki enn á lista Náttúrufræðistofnunar (2026).

Það er ekki víst að telja beri tyrkjadúfur til skógarfugla. Þær tengjast ekkert síður mannabústöðum en skógum en ef þær nema hér land í einhverjum mæli gætu þær sjálfsagt sótt í skóga (Gaukur Hjartarson 2025) eins og þær gera til dæmis í Skotlandi.

Þegar þetta er ritar dvelst höfundur í litlum bæ í Skotlandi þar sem skógar eru allt um kring. Þar eru báðar þessar dúfutegundir að finna og tyrkjadúfan hefur reynt varp á svölunum við hús hans en annars er hún áberandi í trjánum við bæinn. Yfir veturinn hefur þeim báðum fækkað en einhverjar eru við bæinn allan veturinn og strax í janúar hefst auðkennandi mökunarkall tyrkjadúfunnar.

Við sleppum umfjöllun um bjargdúfur enda teljast þær ekki til skógarfugla.

Tyrkjadúfa á svalahandriði í Skotlandi. Mynd: Sig.A.

Að lokum

Flest eru sammála um að aukin skógrækt og hlýnandi loftslag muni óhjákvæmilega hafa breytingar í för með sér á fuglafánu landsins. Hugsanlega eru þessi áhrif neikvæð á mófugla svo sem lóu og spóa en þeir fuglar voru örugglega hér á landi fyrir landnám þrátt fyrir að þá hafi landið verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Það verður engu að síður að hafa framtíð þessara fugla í huga þegar hugað er að skógrækt enda teljast þær báðar í nokkurri hættu samkvæmt mati Náttúrufræðistofnunar (2026). Þeim hefur fækkað að undanförnu en varla er eingöngu hægt að kenna skógrækt um það, frekar en fækkun sumra þeirra sjófugla sem verpa á landinu. Til þess er það land, sem tekið er til skógræktar, einfaldlega of lítið. Aftur á móti kann skógrækt að leggjast á sveif með öðrum þáttum eins og breytingu á veðurfari og öðru sem skerða kann vist þessara fugla bæði hér á landi og á vetrarstöðvum þeirra.

Nokkrar tegundir skógarfugla hafa sest hér að í kjölfar aukinnar skógræktar og eru þær kærkomin viðbót við fábreytta fuglafánu Íslands. Fuglar gera skógana fjölbreyttari og skemmtilegri til útivistar og náttúruupplifunar. Hægt er að hafa þarfir fuglanna í huga þegar skógar eru skipulagðir. Á það jafnt við um skógarreiti við sumarbústaði, skógarreiti skógræktarfélaga og stærri skógræktarverkefni. Einnig getur verið gott að huga að þörfum fugla þegar plantað er í húsagarða.

Við vonumst til að þessi skrif verði til þess að sem flestir hugi að skógarfuglum. Lesendur geta skipulagt skógarreiti sína með þarfir fuglanna í huga og almennir gestir í skógum geta bæði svipast um eftir algengum fuglum en einnig hinum fátíðari.

Við viljum þakka öllum þeim sem lánuðu okkur myndir í þennan pistil og veittu okkur upplýsingar. Einnig ber að þakka þeim sem lásu yfir pistilinn í hluta eða heild og bentu á það sem betur mátti fara. Sérstaklega á það við um Pétur Halldórsson/Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur sem las yfir próförk. Einnig lásu Gaukur Hjartarson, Örn Óskarsson og Einar Þorleifsson yfir pistilinn í vinnslu og veittu okkur ýmsar, gagnlegar upplýsingar.

Við endum þennan pistil á mynd af gráþresti. Lítið, staðbundið varp gæti verið að festa sig í sessi á Akureyri. Mynd: Sigurður Ringsted.
Við endum þennan pistil á mynd af gráþresti. Lítið, staðbundið varp gæti verið að festa sig í sessi á Akureyri. Mynd: Sigurður Ringsted.

Heimildir

Aðalsteinn Örn Snæþórsson og Jón Geir Pétursson (1992): Fuglar og skógrækt. Skógræktarritið 1992 bls. 99-108. Skógræktarfélags Ísland, Reykjavík.


Björn Hjaltason (2025): Flickr-síða. Ótrúlega fallegar náttúrumyndir og upplýsingar með hverri og einni. Sjá: Bjorn Hjaltason | Flickr.


Einar Ó. Þorleifsson og Jóhann Óli Hilmarsson (2002): Íslenskir skógarfuglar. Skógræktarritið 2002 1. tbl. bls. 67-76. Skógræktarfélags Ísland, Reykjavík.


Gaukur Hjartarson (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla í janúar og febrúar 2025.


Guðmundur Páll Ólafsson (2005) Fuglar í náttúru Íslands. Mál og menning.


Jóhann Óli Hilmarsson (2025): Krossnefur, Fuglavefurinn. Sjá: Fuglavefur- Krossnefur. Sótt 5. desember 2025.


Jóhann Óli Hilmarsson (án ártals): Hringdúfa (Columba palumbus). Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. sjá: Hringdúfa | Náttúruminjasafn Íslands. Sótt 03.02. 2025.


Ní, Náttúrufræðistofnun Íslands (2024): Varpfuglar. Sjá: Varpfuglar | Náttúrufræðistofnun Íslands. Sótt 18.12. 2024.


Náttúrufræðistofnun (2026): Válisti fugla 2025. Sjá: Válisti fugla 2025 | Náttúrufræðistofnun Íslands. Sótt 8. janúar 2026.


Jóhann Óli Hilmarsson (2011): Íslenskur Fuglavísir. 3. útgáfa. Mál og menning.


Þröstur Eysteinsson (2025): Munnlegar upplýsingar 5. október 2025.


Örn Óskarsson (2010): Hreiður krossnefs finnst á Snæfoksstöðum í Grímsnesi. Fuglar 7: 12-15.


Örn Óskarsson (2025): Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla í janúar og desember 2025.


 














Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page