top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Vorboðinn ljúfi

Skógarþröstur, Turdus iliacus, hefur löngum verið með vinsælustu fuglum landsins. Um það vitnar meðal annars fjöldi ljóða og vísa þar sem hann kemur fyrir. Í sumum þessara ljóða skipar fuglinn stóran sess en í öðrum er hann nefndur eins og í framhjáhlaupi. Í þessum pistli segjum við frá því helsta sem tengist fuglinum en við reynum að gera það sem mest frá sjónarhorni skálda.

Það er við hæfi að fyrsta mynd þessa pistils sýni skógarþröst að hefja sig til flugs þótt óvíst sé að pistillinn nái nokkru flugi. Fuglinn  flýgur af árssprota stafafuru 9. júní 2025. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Það er við hæfi að fyrsta mynd þessa pistils sýni skógarþröst að hefja sig til flugs þótt óvíst sé að pistillinn nái nokkru flugi. Fuglinn flýgur af árssprota stafafuru 9. júní 2025. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Vorboðinn ljúfi

Sennilega er ljóð Jónasar Hallgrímssonar þekktast allra ljóða um skógarþröstinn. Því er rétt að byrja á því.


Ég bið að heilsa


Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.

Á sjónum allar bárur smáar rísa

og flykkjast heim að fögru landi Ísa,

að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.


Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum

um hæð og sund í drottins ást og friði.

Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.

Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.


Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr sem fer,

með fjaðrabliki háa vegaleysu

í sumardal að kveða kvæðin þín,


Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber

engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.

Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.


Svo orti Jónas Hallgrímsson vorið 1844 og mun þetta vera fyrsta sonnettan sem ort er á íslensku. Löngu seinna samdi Ingi T. Lárusson lag við þetta fagra ljóð sem flestir þekkja. Til er uppkast að þessu kvæði sem sjá má hér. Þar stendur ekki Vorboðinn ljúfi“ heldur „Söngvarinn ljúfi“. Vissulega er skógarþrösturinn ljúfur söngvari en hvílík breyting á ljóði! Svona gera bara stórskáld. Rétt er að geta þess að Jónas nefnir skógarþresti víðar en í þessu kvæði. Alþekkt vísa eftir hann er hér neðar og í kvæðinu Gunnarshólma segir hann: Blikar í lofti birkiþrastasveimur“. Meðan einu skógar landsins voru birkiskógar breytti ekki miklu hvort talað var um skógarþresti eða birkiþresti.

Ljúfur vorboði í birkitré sem er við það að verða fulllaufgað. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Ljúfur vorboði í birkitré sem er við það að verða fulllaufgað. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Vegna þessa ljóðs Jónasar hefur skógarþrösturinn verið nefndur vorboðinn ljúfi, allt frá miðri 19. öld. Einhverra hluta vegna vilja sumir, sumar og sumt krýna lóuna með þessum titli en skáldin eru því ósammála, þótt hún eigi vissulega sinn stað í hjarta þjóðarsálarinnar. Páll Ólafsson fagnaði komu hennar og sagði:

Hún hefir sagt mér til syndanna minna,

ég sofi of mikið og vinni ekki hót.

Hún hefir sagt mér að vaka og vinna

vonglaður taka nú sumrinu mót.


Hvernig nútíma Íslendingi getur dottið í hug að kalla svona skipandi fugl vorboðann ljúfa er mikið undur. Vorboðinn ljúfi er skógarþröstur en ekki hin fagra lóa sem vill koma í veg fyrir að við sofum. Það er ekkert ljúft við það. Þetta er ekki eina dæmið um tilraun lóunnar til að yfirtaka sess skógarþrastarins. Þótt furðulegt sé hefur hún líka, ef marka má uppskrift ljóða, reynt að stela af honum tungumálinu. Meira um það hér neðar. Rétt er þó að geta þess, lóum og skáldum til varnar, að þegar rétt er farið með er lóan blásaklaus af þessum meintu glæpum. Það er almannarómur sem drýgir þá.

Fleiri skáld en Jónas vita að þrösturinn er vorboði. Þannig orti Guðjón Sveinsson, skáld og skógræktarmaður á Austurlandi, ljóð sem kallast Vorkoma. Það hefst á orðunum: Þrestirnir eru komnir/þreyttir að sjá.

Skógarþröstur í berjaveislu í reynitré 20. október 2024. Þrestir hafa öðruvísi litasjón en við. Þeir greina útfjólublátt ljós sem við gerum ekki. Þeim líkar hreint ekki við rauð eyniber en þeim mun betur kunna þeir að meta þegar þau taka á sig útfjólubláan lit. Þann lit sjáum við ekki og höldum því að berin séu enn þá bara rauð. Þetta mun vera meginástæða þess að þrestir velja sum tré á undan öðrum. Berin hafa annan lit en við greinum hann ekki. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Skógarþröstur í berjaveislu í reynitré 20. október 2024. Þrestir hafa öðruvísi litasjón en við. Þeir greina útfjólublátt ljós sem við gerum ekki. Þeim líkar hreint ekki við rauð eyniber en þeim mun betur kunna þeir að meta þegar þau taka á sig útfjólubláan lit. Þann lit sjáum við ekki og höldum því að berin séu enn þá bara rauð. Þetta mun vera meginástæða þess að þrestir velja sum tré á undan öðrum. Berin hafa annan lit en við greinum hann ekki. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Vorkoma

Þrestirnir eru komnir þreyttir að sjá

híma hljóðir á vetrarfrassans

veðruðu grindverkum.


Greini samt

fjarlægt blik

í tinnudökkum augum.


Brýna brátt gogg

albúnir að taka til

óspilltra mála

frá í fyrra.


Guðjón Sveinsson


Tinnudökk augu í skógarþresti í maí 2016. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Tinnudökk augu í skógarþresti í maí 2016. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Sigmundur Benediktsson setti saman nokkrar vel gerðar stökur um vorið og birti í bók sinni Meðan stakan mótast létt. Þar á meðal er þessi:

Fagna þrestir, fjörgast blóð, fegurð sést og skrýðir. Syngja bestu sólskinsljóð sumargestir fríðir.


Þjóðlegur skógarþröstur í þjóðlegu birkitré. Þar getur hann sungið sín sólskinsljóð. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Þjóðlegur skógarþröstur í þjóðlegu birkitré. Þar getur hann sungið sín sólskinsljóð. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Kveðjur þrastarins

Jónas Hallgrímsson er ekki eina skáld okkar þjóðar sem hefur beðið skógarþröst fyrir kveðju. Sagan segir að Jónas hafi snemma vors, eða um mánaðarmótin mars apríl, séð þröst í Danmörku sem hann taldi líklegt að væri á leiðinni til Íslands og það hafi orðið kveikjan að ljóðinu sem skipar hér heiðursess fremst í pistlinum. Þetta passar ágætlega því samkvæmt kortinu sem finna má hér neðar verpir þrösturinn ekki í Danmörku þótt hann hafi þar gjarnan vetursetu.

Ljóð Jónasar hefur staðið mörgum Íslendingnum nærri hjarta. Einkum ef þeir dvelja erlendis og sakna heimahaganna á meðan farfuglar, blærinn og bárurnar stefna heim.

Þrösturinn, sem kenndur er við skóga, hefur ekki einungis verið beðinn um kveðju til fósturjarðarinnar. Í næsta ljóði ber hann kveðju um torsóttari veg en sjálft Atlantshafið. Þar kemur einnig fram að hann hefur spádómsgáfu.

Lítill þröstur sagði mér


Það lítill þröstur sagði mér,

ungur maður næstur fer,

annað hlutverk honum ætlað er

á æðri stað í heimi hér.


Með sálu hans mun ég brátt svífa

eigi ber þó neins að kvíða,

því skapari vor mun hans bíða

og kalli meistarans ber að hlýða.


Ég hváði og spurði hver það er

sem kalli hans næstur hlýða ber?

Best er að vita eigi hver næstur fer

þá þrösturinn litli svaraði mér.


Og nú ert það þú sem ert allur!

Þó eigi lífsdaga saddur,

brátt varstu frá okkur kvaddur,

ég veit þó hvar þú ert staddur.


Sárt mun mér það svíða

að þröstur varð með sál þína að svífa

bróður minn ljúfa, fagra, blíða.

Þú á betri stað munt okkar bíða.


Nú söknuð ber að og einsemd.

Ég bið þig þröstur með vinsemd,

að ástar kveðja verði honum send.

Kærleikur og gleði verður við Kristján kennd.


Þakka þér bróðir hin ljúfustu kynni.

Minning þín mun aldrei líða mér úr minni.

Sæl vorum við í návist þinni,

ég kveð þig í hinsta sinni.


Þröstur litli taktu við kveðju minni . . .


Dúfa


Þarna situr þröstur að vorlagi á grein á fúnum birkistofni. Fætur allra spörfugla, þar með talið þrasta, eru með þrjár tær sem snúa fram og eina sem snýr aftur. Með þessum tám eiga spörfuglar auðvelt með að grípa um alls konar greinar. Á skógarþröstum eru fæturnir brúnir. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Þarna situr þröstur að vorlagi á grein á fúnum birkistofni. Fætur allra spörfugla, þar með talið þrasta, eru með þrjár tær sem snúa fram og eina sem snýr aftur. Með þessum tám eiga spörfuglar auðvelt með að grípa um alls konar greinar. Á skógarþröstum eru fæturnir brúnir. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Lýsing

Líta má á skógarþröst sem einn af einkennisfuglum íslenskra birkiskóga ásamt auðnutittlingi og músarrindli sem er þeirra sjaldgæfastur. Lengi vel var þröstinn fyrst og fremst að finna í birkiskógum og -kjarri en hin síðari ár hefur hann jafnframt orðið algengur í görðum í þéttbýli. Hann er svo vel þekktur að sennilega er óþarfi að lýsa honum mjög náið. Til vonar og vara segjum við þó frá því að hann er meðalstór spörfugl en minni en hinar tvær þrastategundirnar sem finna má á landinu og kallast svartþröstur og gráþröstur. Hann á því erfiðara með að taka stór ber en hinir þrestirnir. Má sem dæmi nefna að ber á úlfareyni reynast honum nokkuð erfið en bæði svartþröstur og gráþröstur gleypa þau í einum bita.

Þegar skógarþrestir eru á jörðinni hoppa þeir um eins og aðrir þrestir. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Þegar skógarþrestir eru á jörðinni hoppa þeir um eins og aðrir þrestir. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Alfreð Guðmundsson lýsti skógarþresti svona í bók sinni Fuglar á Fróni.

Sældarlegur sest á grein,

sönghæfni í lundum beitir.

Er með brúnan augastein,

ánamaðks og fræja neytir.


Dökkmóbrúnn að ofan er,

algengur í landsins fjörðum. Röskur tínir reyniber,

ráfar um í húsagörðum.


Í ljóðinu kemur fram að þrösturinn er dökkmóbrúnn að ofan. Hann er það á höfði, baki, vængjum og stéli en að neðan er hann ljósgulur eða hvítur og bringa hans er alsett þéttum, dökkum blettum eða langrákum. Síðan er rauðbrún og greinir hann frá öðrum þröstum (Jóhann Óli 2025). Áberandi er kremhvít rák ofan við augun. Goggurinn er gulleitur nema hvað broddurinn er dökkur og ofan á honum er dökk rönd. Ekki er nokkur leið fyrir okkur mannfólkið að greina kynin í sundur á útlitinu, en það er aðeins karlfuglinn sem syngur. Ást fuglsins á reyniberjum, sem Alfreð nefnir í ljóðinu, má sjá á mörgum myndum í þessum pistli.

Í þessari litlu, dýru ferskeytlu má greina eðli þrasta.

Eiga drjúga ást til nytja

ekki ljúga um von og þrá.

Þrestir fljúga, þrestir sitja

þrestir smjúga loftin blá.  


Svarri.


Ryðrauði liturinn á síðunni sést á neðri hluta vængjanna. Hann sést vel á þessum fugli sem blakar vængjunum í Lystigarðinum á Akureyri. Hann sést einnig þegar þrösturinn er á flugi. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Ryðrauði liturinn á síðunni sést á neðri hluta vængjanna. Hann sést vel á þessum fugli sem blakar vængjunum í Lystigarðinum á Akureyri. Hann sést einnig þegar þrösturinn er á flugi. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Heimkynni

Skógarþrösturinn er norðlægur fugl. Hann lifir um norðanverða Evrópu og Asíu næstum alveg austur að Kyrrahafi. Auðvitað hefur fuglinn vakið athygli skálda á öllu þessu svæði. Þannig orti samíska skáldið Paulus Utsi kvæði sem heitir: Um sumardag. Þar er þessi vísa, í þýðingu Einars Braga:


Syngdu mér þröstur

um sumar til fjalla,

er suðandi flugurnar

sóleyjum dilla.


Paulus Utsi


Þröstur blakar vængjunum á birkigrein 29. ágúst 2024. Myndir: Elma Benediktsdóttir.
Þröstur blakar vængjunum á birkigrein 29. ágúst 2024. Myndir: Elma Benediktsdóttir.

Sem dæmi um hversu norðlægur skógarþrösturinn telst vera má nefna að hann verpir dálítið í norðurhluta Skotlands en nánast ekkert þegar komið er suður til Englands. Aftur á móti er mikill fjöldi vetrargesta frá Norðurlöndunum á Bretlandseyjum. Má því segja að þar sé hann ekki ljúfur vorboði, heldur vetrarboði. Annars vísum við í kortið hér neðar frá Sigurði Ægissyni (2020) sem sýnir útbreiðslu fuglsins. Yfir veturinn fer hann jafnvel yfir Miðjarðarhafið og hefst við í Norður-Afríku í vetrarfríinu.


Þröstur í feluleik. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Þröstur í feluleik. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Farflug

Eins og sjá má á ljóðunum vita skáldin að skógarþröstur telst til farfugla. Á haustin, þegar myrkrið víkur ljósinu á braut, fer stærstur hluti skógarþrasta af landi brott, spikfeitir af berjaáti. Það er mikilvægt, því langflugið til annarra landa kostar mikla orku. Ferðalaginu er heitið til Vestur-Evrópu á haustin, mest til Bretlands, Írlands, Frakklands og Pýrenneaskaga. Talið er að jafnvel nokkur þúsund fuglar verði eftir á landinu og eru þeir dreifðir mjög ójafnt um landið. Þeir sem eftir verða leita gjarnan til þéttbýlisins og dvelja í görðum en eiga það einnig til að fljúga til grýttra fjara og leita þar að æti.

Hver grefillinn! Hvar eru berin sem voru hér í gær? Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Hver grefillinn! Hvar eru berin sem voru hér í gær? Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Skógarþrösturinn stundar nær alls staðar farflug á útbreiðslusvæði sínu. Á kortinu, sem hér fylgir er hvergi merkt að hann sé staðfugl. Hér á Íslandi var hann lengst af alger farfugl en nú orðið er hluti stofnsins hér allt árið. Með aukinni skógrækt ásamt trjárækt í görðum og matargjöfum á vetrum hefur skógarþröstum fjölgað yfir veturinn á landinu.

Kort úr bókinni Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin eftir Sigurð Ægisson (2020) sýnir útbreiðslu skógarþrastarins. Hann er hvergi talinn alger staðfugl.
Kort úr bókinni Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin eftir Sigurð Ægisson (2020) sýnir útbreiðslu skógarþrastarins. Hann er hvergi talinn alger staðfugl.
Sunnlenskur skógarþröstur situr á brumi grenitrés 3. júní 2017. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Sunnlenskur skógarþröstur situr á brumi grenitrés 3. júní 2017. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Það er við hæfi að birta hér ljóð eftir Gylfa Ægisson. Hann var bróðir Sigurðar sem lánaði okkur útbreiðslukortið hér að ofan. Sagan segir að lag og texti hafi orðið til í Lystigarðinum á Akureyri.

Í sól og sumaryl


Í sól og sumaryl, ég sat einn fagran dag.

Í sól og sumaryl, ég samdi þetta lag.

Fuglarnir sungu og lítil falleg hjón,

flugu um loftin blá, hve það var fögur sjón.

Í sól og sumaryl sér léku lítil börn,

ljúft við litla tjörn.


Í sól og sumaryl, ég sat og horfði á,

hreykna þrastamóður mata unga sína smá.

Faðirinn stoltur, hann stóð þar sperrtur hjá,

og fagurt söng svo fyllti hjartað frið.

Í sól og sumaryl sér léku lítil börn,

ljúft við litla tjörn.


Í sól og sumaryl, ég samdi þetta lag,

hve fagurt var þann dag.


Gylfi Ægisson


Skógarþröstur nærir sig á hvítum berjum í Lystigarðinum. Lengi vel litu íslenskir skógarþrestir ekki við hvítum berjum af tegundum eins og koparreyni og kasmírreyni. Þeir litu ekki á þau sem fuglamat. Smám saman hafa þeir lært að éta þau og þau eru nú ekkert minna étin en önnur ber. Ef einhver hvít ber voru í Lystigarðinum þegar Gylfi samdi sitt fræga lag, sem gefið var út árið 1972, hafa þau án efa fengið að hanga á runnunum langt fram á vetur. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir í Lystigarðinum á Akureyri 6. október 2023.
Skógarþröstur nærir sig á hvítum berjum í Lystigarðinum. Lengi vel litu íslenskir skógarþrestir ekki við hvítum berjum af tegundum eins og koparreyni og kasmírreyni. Þeir litu ekki á þau sem fuglamat. Smám saman hafa þeir lært að éta þau og þau eru nú ekkert minna étin en önnur ber. Ef einhver hvít ber voru í Lystigarðinum þegar Gylfi samdi sitt fræga lag, sem gefið var út árið 1972, hafa þau án efa fengið að hanga á runnunum langt fram á vetur. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir í Lystigarðinum á Akureyri 6. október 2023.

Haust og vetur

Það er alveg óþarfi að kvíða haustinu á miðju sumri. Á það jafnt við fugla og fólk. Þess vegna hefjum við þennan kafla á ljóði sem við fyrstu sýn virðist hafa lent í röngum kafla.

Sumar 2011


Skógarþröstur fagurfleygur

fer um Selfossbæ

leitar fræja otureygur

Órafjarri er haustsins geigur

blíðum sumars blæ.


Laufguð tré og blómabreiður

brosa í sumarkyrrð.

Yfir vakir himinn heiður.

Haustsins fölva rökkurseiður

býr í blárri firrð.


Ragnar Böðvarsson


Skógarþröstur í lúpínu 23. júní 2021. Þá er enn þá langt í haustið. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Skógarþröstur í lúpínu 23. júní 2021. Þá er enn þá langt í haustið. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Nú orðið eru alltaf fleiri og fleiri þrestir sem dvelja hér á landi yfir veturinn.

Líklegt verður að telja að þeir hafi aldrei lagt í að þreyja þorrann og góuna á Íslandi ef ekki væri fyrir berin sem finna má á trjám á haustin og langt fram eftir vetri. Á vetrum eiga þeir það einnig til að fara í fjörur og sækja í það æti sem þar er að finna. Svo er alltaf hópur þrasta sem treystir á að þeim sé gefið yfir veturinn og fara hvergi. Má líta á þá sem sérstaka borgarfugla. Á haustin slíta fuglarnir hjúskap sumarsins, hvort sem þeir verða hér yfir veturinn eða leita til heitari landa.


Nú haustar að


Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir

að tína reyniber af trjánum

áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið,

en það eru ekki þeir sem koma með haustið

það gera lítil börn með skólatöskur.


Vilborg Dagbjartsdóttir


Hvorki skógarþrestir né aðrir spörfuglar eru svo heppnir að hafa úr berjum að velja allan veturinn nema í undantekningartilfellum. Á fyrri myndinni kemur snjórinn upp um að um vetrarmynd er að ræða en á þeirri seinni, sem tekin er 19. febrúar 2022 eru berin orðin skorpin eftir tíð frost. Samt lætur þrösturinn sér þau vel líka. Myndir: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Ekki er að undra að þrestir gleðjist þegar þeim er boðið upp á perur og epli. Án efa eiga svona gjafir drjúgan þátt í að sumir þrestir hafa hætt farflugi. Báðar myndirnar eru teknar í Lystigarðinum á Akureyri. Sú fyrri í apríl 2023 en sú seinni í mars 2022. Myndir: Emma Hulda Steinarsdóttir.


Árið 1945 þýddi skáldkonan Erla, sem réttu nafni hét Guðfinna Þorsteinsdóttir (1891-1972), ljóðið To Drosler sad på Bøgeqvist eftir danska ljóðskáldið Christians Winther. Í þessu ljóði er glæsilegt dæmi um persónugervingu skógarþrasta í skáldskap. Höfundurinn veltir fyrir sér þeim söknuði sem hlýtur að hrjá þrastahjón er leiðir þeirra skilur á haustin. Ef til vill á sá söknuður samt frekar við í mannheimum.


Tveir þrestir


Tveir þrestir byggðu birkigrein,

þá batt með tryggðum ástin hrein.

En hjörtu þeirra harmur skar,

að hljóta að skilja sárast var.

Þeir hófu dapran sorgarsöng,

er sendi hljóm um skógargöng.

 

Þá söng hinn fyrri: „Sjafninn minn,

ég sáran harm við skilnað finn!

Ég sakna þess er sæll ég naut

en sorgin fylgir mér á braut.

Þó sjáumst aldrei, ástin mín,

ég allar stundir minnist þín.“


Þá klökkum rómi kvakar hinn:

„Nú kveðjumst við í hinsta sinn.“

Þeir héldu sinn í hvora átt

og hurfu út í fjarskann brátt.

En kveðja leið um himins hvel

í hinsta sinn: Far vel! – Far vel!


Hulda


Þessi þröstur sýnir í sér tunguna um leið og hann reynir að gleypa þetta stóra reyniber. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Þessi þröstur sýnir í sér tunguna um leið og hann reynir að gleypa þetta stóra reyniber. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Tilhugalíf

Hjá þeim skógarþröstum sem eru staðfuglar er talið að tilhugalíf hefjist mjög snemma á vorin. Það hefst jafnvel áður en söngur vorboðans ljúfa hefst. Farfuglarnir hefja væntanlega sitt tilhugalíf um leið og þeir mæta á varpstöðvar sínar. Áður en við segjum nánar frá tilhugalífi þrastanna má nefna að skógarþrestir í birkikjarri geta líka tengst tilhugalífi mannfólksins.


Einu sinni á ágústkvöldi


Einu sinni á ágústkvöldi

austur í Þingvallasveit

gerðist í dulitlu dragi

dulítið sem enginn veit,

nema við og nokkrir þrestir

og kjarrið græna inn í Bolabás

og Ármannsfellið fagurblátt

og fannir Skjaldbreiðar

og hraunið fyrir sunnan Eyktarás.


Þó að æviárin hverfi

út á tímans gráa, rökkur-veg,

við saman munum geyma þetta

ljúfa leyndarmál,

landið okkar góða, þú og ég.


Jónas Árnason


Skógarþröstur syngur hástöfum í reynitré 3. júní 2021. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Skógarþröstur syngur hástöfum í reynit3. júní 2021. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Þrestirnir eru þó ekki alltaf fagnaðarefni þegar kemur að ástum mannfólksins. Þeir geta skemmt fagra drauma um heita kossa. Síðasta erindið af Draumi hjarðsveinsins eftir Steingrím Thorsteinsson hljóðar svo:

En rétt þegar nálgaðist munnur að munn

að meynni var faðmur minn snúinn,

þá flaug hjá mér þröstur, svo þaut við í runn,

og þar með var draumurinn búinn.

Karlfuglinn helgar sér óðal og velur sér góðan söngstað til að tilkynna um yfirráð sín. Þótt skógarþrestir teljist almennt félagslyndir hleypa karlfuglarnir engum óboðnum skógarþröstum inn í óðalið. Karlinn gerir öllum heyrinkunnugt að hans sé ríkið, mátturinn og dýrðin. Mest syngur hann á morgnana og litlu minna á kvöldin. Hann er mikill söngfugl en ekki sérlega fjölhæfur í söng sínum. Hann þylur gjarnan stef sín aftur og aftur. Hann syngur alltaf þetta sama dírri-dí.

Þetta heyrði Örn Arnarson, en það er skáldanafn Magnúsar Stefánssonar (18841942). Sigfús Halldórsson samdi lag við ljóðið og er varla hægt að fara með það án þess að heyra lagið.


Lítill fugl


Lítill fugl á laufgum teigi

losar blund á mosasæng,

heilsar glaður heitum degi,

hristir silfurdögg af væng.


Flýgur upp í himinheiðið,

hefur geislastraum í fang,

siglir morgunsvala leiðið,

sest á háan klettadrang.


Þykist öðrum þröstum meiri,

þenur brjóst og sperrir stél,

vill að allur heimur heyri

hvað hann syngur listavel.


Skín úr augum skáldsins gleði.

Skelfur rödd við ljóðin ný,

þó að allir þrestir kveði

þetta sama dírri-dí


Litli fuglinn ljóða vildi

listabrag um vor og ást.

Undarlegt að enginn skyldi

að því snilldarverki dást.


Örn Arnarson


Skógarþröstur í Mývatnssveit „sest á háan klettadrang“. Myndina tók Emma Hulda Steinarsdóttir 26. júlí 2021.
Skógarþröstur í Mývatnssveit sest á háan klettadrang“. Myndina tók Emma Hulda Steinarsdóttir 26. júlí 2021.

Um tungumál fugla

Hið snjalla skáld, Örn Arnarson, lýsir hér að ofan tungumáli þrasta með orðinu dírri-dí. Því miður hafa ekki allir farið rétt með þetta fuglahljóð. Með leit á þráðum alnetsins má oft sjá misritunina dirrindí og stundum er það meira að segja sungið þannig. Eins og öllum ætti að vera ljóst hljóma dírri-dí og dirrindí ekki eins enda er hið síðarnefnda ekki þrastamál heldur lóumál. Mætti halda að lóan væri í sérstöku menningarstríði við skógarþresti. Það er ekki nóg með að hún vilji stela titlinum vorboðinn ljúfi heldur virðist henni orðið verulega ágengt með að leggja undir sig tungumál þrasta.

Það hefur vakið athygli að söngur skógarþrasta er líkur með fuglum á sama svæði en mjög mikill mállýskumunur er á milli svæða. Hann er svo mikill að það má meira að segja greina ólíkar mállýskur í mismunandi hverfum í borgum og bæjum. Þetta gerist jafnvel þótt engin augljós landfræðileg skil séu á milli hópanna. Þetta hefur meðal annars komið fram í rannsóknum íslenskra líffræðinema. Hlusta má á mismunandi mállýskur íslenskra skógarþrasta í þriðja þætti Fuglafits sem var á dagskrá Ríkisútvarpsins 9. maí 2024. Í þættinum kemur fram að söng skógarþrastarins megi skipta í tvo þætti. Annars vegar er stuttur inngangur, upphafsstef eða forspil og hins vegar lengri og flóknari kafli sem getur verið nokkuð mismunandi milli einstaklinga. Sá hluti er lágværari og ef til vill djassaðari en hið fastmótaða dírri-dí. Það er í inngangskaflanum sem heyra má mállýskumun, samkvæmt þættinum. Skógarþrestir búa í eins konar samfélögum þar sem hvert samfélag hefur sinn eigin inngangskafla sem getur verið gjörólíkur inngangskaflanum í næsta samfélagi. Ekki er vitað hvernig á þessu stendur eða hvaða kostir geta fylgt þessu. í þættinum eru settar fram nokkrar tilgátur sem heyra má með því að hlusta á hann. Af hlustun á þáttinn að dæma virðist sem mállýskur skógarþrasta séu algengari og fjölbreyttari en meðal annarra fugla. Á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu er sagt að til séu um 30 mállýskur (Hlynur 2024).

Skógarþröstur í baði. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Skógarþröstur í baði. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Guðmundur Páll (2005) segir að í Noregi sé fullyrt að skógarþrestir sem búa á jaðarsvæðum tali tvær mállýskur og í þættinum, sem vísað er í hér að ofan (Hlynur 2024), er tekið undir þetta og sagt að einmitt þannig sé þetta á Íslandi.

Bjarni E. Guðleifsson (2005) birti líka sögu um mállýskur skógarþrasta í Noregi. Þar kemur fram að það er ekki aðeins í upphafsstefi þrasta sem finna má mállýskumun. Bjarni segir frá því að í Noregi geta þrestir valdið töluverðum vanda í berjarækt, eins og vænta má. Því datt þarlendum í hug að taka upp viðvörunarhljóð skógarþrasta og spila þau við berjarunnana með jöfnu millibili. Það virkaði ljómandi vel og þrestirnir flugu á brott svo framarlega sem hættuhljóðið var úr goggi þrasta úr sama landshluta. Ef hljóðið var annars staðar frá hræddust þrestirnir það ekki.

Sunnlenskur, pattaralegur skógarþröstur syngur ekki eins og þrestir fyrir norðan. En hann leggur ekkert minna á sig þótt hann sé aðeins lítill fugl á laufgum teigi. Reyndar virðist þessi ekki vera neitt sérstaklega lítill. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Sunnlenskur, pattaralegur skógarþröstur syngur ekki eins og þrestir fyrir norðan. En hann leggur ekkert minna á sig þótt hann sé aðeins lítill fugl á laufgum teigi. Reyndar virðist þessi ekki vera neitt sérstaklega lítill. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Fjölmörg skáld hafa ort um þrastasönginn. Sumum þykir hann vera alveg sérlega þjóðlegur eins og sjá má í næsta ljóði. Það er úr óútgefnu ljóðahandriti eftir Jón Þ. Björnsson (1936-2008). Það var sonur skáldsins, Björn Jónsson, sem sagði okkur frá ljóðinu.

Sautjándinn


Þröstur á grein,

þjóðsöngur hans

er þjóðsöngur minn.


Syngjandi um frelsi

svífur hann glaður

í sumarið inn.


Þjóð mín,

þjóð mín,

það er fuglinn þinn.


Jón Þ. Björnsson


Skógarþröstur á grenigrein 13. júní 2021 í Garðsárreit í Eyjafirði. Brum grenisins eru rétt að opnast. Þar sem greni er að finna geta þrestir verpt fyrr en í lauflausu birki. Því verpa þeir oftar á hverju sumri í blönduðum skógum en í hreinum birkiskógum. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Skógarþröstur á grenigrein 13. júní 2021 í Garðsárreit í Eyjafirði. Brum grenisins eru rétt að opnast. Þar sem greni er að finna geta þrestir verpt fyrr en í lauflausu birki. Því verpa þeir oftar á hverju sumri í blönduðum skógum en í hreinum birkiskógum. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Varp

Þegar varpið er komið í gang lætur þrösturinn illa ef aðrir fuglar, fólk eða aðrar skepnur nálgast hreiðrið hans. Hann á það beinlínis til að ráðast á höfuð fólks til að hræða það í burtu, rétt eins og krían gerir. Enginn annar alíslenskur spörfugl hagar sér þannig (Guðmundur Páll 2005).

Á síðustu öld breytti fuglinn varphegðun sinni töluvert. Áður fyrr forðaðist hann þéttbýli. Þegar straumur fólks úr dreifbýli til þéttbýlis var hvað stríðastur um 1940 fetaði fuglinn í fótspor manna og settist í auknum mæli að í þéttbýli um land allt (Guðmundur Páll 2005). Í kvæði sem ber nafnið Vorkvöld í Reykjavík dregur Sigurður Þórarinsson upp margar fallegar myndir úr borgarumhverfinu. Þar segir meðal annars:


Hjúfra sig á bekkjunum halir og fljóð,

hlustar skáldið Jónas á þrastanna ljóð.


Þarna er greinilega verið að lýsa borgarfugli fremur en skógarfugli. Hann hætti samt ekkert að verpa í skógum og skógarkjarri og því telst það enn þá réttnefni að kenna hann við skóga. Í birkikjarri verpir þrösturinn gjarnan á jörðinni eða mjög lágt í runnunum. Í þéttbýli og hávaxnari skógum verpir hann í trjám (Guðmundur Páll 2005).

Það eru ekki bara halir og fljóð sem hjúfra sig og ekki bara skáldið Jónas sem hlustar. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Það eru ekki bara halir og fljóð sem hjúfra sig og ekki bara skáldið Jónas sem hlustar. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Varp skógarþrasta er oft nokkuð þétt, enda telst hann félagslyndur fugl. Stundum eru þeir fjórir saman á greinum eða kvistum ef marka má Jón Sigurðsson.


Fjórir kátir þrestir


Fjórir kátir þrestir sátu saman á kvist

vorljóðin sín sungu af lyst.

Bæði söng um ást og unað, yndi og ró

bú sitt í björtum skóg.


Ef þú kemur hér þegar kvölda fer

muntu heyra þann sönginn sem ég ann.

Tra,la, la, la, la, la, la, la, la, la,

fyrir þig kveða þeir vísurnar sínar vorkvöldin löng.

Tra,la, la, la, la, la, la, la, la, la,

harmarnir flýja ef hlustarðu á þeirra söng.


Fjórir kátir þrestir sátu saman á grein

hægt færðist nær haustið í leyn'

Litlir fuglar urðu fleygir unaður nóg,

ljúft var í laufgum skóg.


Ef þú kemur hér þegar kvölda fer

muntu heyra þann sönginn sem ég ann.

Tra,la, la, la, la, la, la, la, la, la,

fyrir þig kveða þeir vísurnar sínar vorkvöldin löng.

Tra,la, la, la, la, la, la, la, la, la,

harmarnir flýja ef hlustarðu á þeirra söng.


Jón Sigurðsson samdi þetta ljóð við erlent þjóðlag.


Það hefur alveg gleymst að kenna þessum þresti að leika sér ekki með matinn. Hann var að grípa ber í Lögmannshlíð 22. september 2021. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Það hefur alveg gleymst að kenna þessum þresti að leika sér ekki með matinn. Hann var að grípa ber í Lögmannshlíð 22. september 2021. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Mjög drjúgur tíma þrastanna fer í varp á sumrin. Þess þekkjast jafnvel dæmi að hann verpi allt að fjórum sinnum á sumri. Stundum verpir hann áður en trjágróður fer að laufgast á vorin. Það gerir hann þó aðeins ef hann getur verpt í skjóli sígrænna barrtrjáa. Kvenfuglinn verpir um 4-6 eggjum í hvert skipti. Eggin eru blágræn að lit og alsett ryðrauðum dílum. Foreldrarnir skiptast á að liggja á eggjum og taka sameiginlega ábyrgð á ungaeldinu og ungar úr fyrra varpi hjálpa til við uppeldi nýrra kynslóða. Stálpaðir ungar úr fyrra varpi aðstoða foreldra sína við fæðuöflun fyrir næstu kynslóð (Guðmundur Páll 2005). Því getur móðirin jafnvel farið að undirbúa næsta varp á meðan ungar eru enn í hreiðri.

Við gætum reynt að lýsa hreiðurgerðinni og undrast hvernig þessir litlu fuglar geta ofið svona fallegt heimili án tilsagnar en Margrét Jónsdóttir gerir það miklu betur en við.


Þrastarhreiðrið


Ég veit um lítið leyndarmál

Í lágu, fögru tré.

Í gegnum ljósgrænt limið þess

ég lítinn bústað sé.


Ég á mér ljúfan, lítinn vin

er ljóð um ástir söng.

Við gluggann minn hann kvað oft kátt

um kvöldin björt og löng.


Með hagleik sá ég húsið reist

og hoppað grein af grein

og stráin fest þar eitt og eitt

en aldrei mistök nein.


Það varð að hafa hraðan á,

í húfi mikið var.

Og bólið þurfti að vanda vel

allt vott um kærleik bar.


Svo komu eggin ofursmá,

þau urðu að lokum sex.

Og móðurástin annast þau

hún eykst og stöðugt vex.


Þótt úti vorið andi svalt

sinn yl hún gefur þeim,

sem kominn er um langa leið

til landsins kalda heim.


Ég gægist út um gluggann minn

það gleður hug og sál

að horfa á grænt og gróið tré

sem geymir leyndarmál.


Margrét Jónsdóttir


Gómsætur og næringarríkur biti handa ungunum. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Gómsætur og næringarríkur biti handa ungunum. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Nýklaktir ungar eru aðeins um 3 g að þyngd en vaxa og þroskast hratt eins og svo títt er hjá smáfuglum. Fullorðnir fuglar verða um 50-75 g að þyngd. (Guðmundur Páll 2005). Síðsumars eru ungfuglarnir ljósari en foreldrarnir.

Í ljóði sínu Dátt er blessað lognið lýsir Jónas Árnason svefnstöðum dýra og ber þá saman við svefnstaði blessaðra mannabarna. Ljóðið er samtals fimm erindi og í miðjuerindinu kemur fram að þrestir sofa í skógi. Það er svona:


Dátt er blessað lognið (brot)


Í fjalli sefur örninn

á efstu brún.

Í hólma sefur æður

í æðardún.

Í skógi sefur þröstur

með þreyttan væng.

Og heima sefur barnið

með hlýja sæng.


Jónas Árnason


Við truflum helst ekki fugla á hreiðri. Þess í stað sýnum við þessar ungamyndir. Sú fyrri minnir á að fuglar eru afkomendur risaeðla. Seinni myndin sýnir fóðrun unga á jörðu niðri. Myndir: Sig.A.


Ungfuglar eru mun ljósari en þeir fullorðnu og með ljósa fjaðurenda á vængjum. Þessi skoðar lífið úr setstað í stafafuru. Hann er svo ungur að ryðrauði bletturinn er enn ekki kominn. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Ungfuglar eru mun ljósari en þeir fullorðnu og með ljósa fjaðurenda á vængjum. Þessi skoðar lífið úr setstað í stafafuru. Hann er svo ungur að ryðrauði bletturinn er enn ekki kominn. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Hóphegðun

Skógarþrestir eru félagslyndir fuglar og sjást oft í allstórum hópum. Algengt er að ungfuglar fylgist að. Guðmundur Páll (2005) lýsir því í sinni bók að á næturnar ferðast skógarþrestir saman og tísta þá sérkennilega á flugi. Talið er að tístið auðveldi þeim að halda hópinn þegar dimmir. Þar kann að vera skýringin á mismunandi mállýskum. Ef til vill þekkja þeir sinn hóp af hljóðunum í rökkrinu. Staðfuglar flakka mikið á haustin og þeir þrestir sem ekki yfirgefa landið halda þá í þéttbýli í smáum hópum. Erjur innan hópsins eru þá nær látlausar um þá fæðu sem þar er að finna. Talið er að hagkvæmni í fæðuleit sé grundvöllur hópamyndunar. Jónas Hallgrímsson segir frá hópsöng þrasta í þessum vel þekktu vísum og kallar hann kvikan þrastasöng.


Vorvísur


Vorið góða, grænt og hlýtt,

græðir fjör um dalinn,

allt er nú sem orðið nýtt,

ærnar, kýr og smalinn.


Kveður í runni, kvakar í mó

kvikur þrastasöngur;

eins mig fýsir alltaf þó:

aftur að fara’ í göngur.


Jónas Hallgrímsson


Þessi fagri fugl kveður í lauflausum runni 24. apríl 2022 í Hálsaskógi í Hörgársveit. Að baki sér í sígræna furu. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Þessi fagri fugl kveður í lauflausum runni 24. apríl 2022 í Hálsaskógi í Hörgársveit. Að baki sér í sígræna furu. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Fæða

Skógarþrastarungar eru að jafnaði fóðraðir á bjöllum, ánamöðkum, lirfum, áttfætlum og fleiri pöddum. Þetta er líka helsta fæða fullorðinna fugla á vorin og fram á haust. Þegar ber þroskast, hvort heldur sem er á lyngi eða trjám, þá njóta þeir ávaxtanna.

Skógarþröstur krækir sér í flugu 3. júní 2017. Ekki er á allra færi að ná svona myndum en það getur Elma Benediktsdóttir.
Skógarþröstur krækir sér í flugu 3. júní 2017. Ekki er á allra færi að ná svona myndum en það getur Elma Benediktsdóttir.

Tré þrastanna

Limfagurt reynitré

með gullinn börk

við gluggann minn

vaggar í andvara

þröstum á greinum sínum

gefur þeim rauð

sætuþrungin ber

uns þeir verða góðglaðir

loks aðsópsmiklir

þenja út bringuna

syngja dýr sólskinsljóð

á öndverðum

ýli.


Guðjón Sveinsson


Þröstur í reynitré í Eyjafirði 12. september 2024. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Þröstur í reynitré í Eyjafirði 12. september 2024. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Fjöldi

Hið tíða varp skógarþrasta hefur skilað mjög stórum stofni þrasta á Íslandi. Þar hjálpar líka til að samkvæmt Guðmundi Páli (2005) geta fuglarnir orðið allt að 18 ára gamlir. Búast má við að hér á landi séu um 100-200 þúsund pör. Stofnstærðin á Íslandi sveiflast nokkuð frá ári til árs eins og sjá má dæmi um á meðfylgjandi línuriti en í heildina fjölgar skógarþröstum á Íslandi (Náttúrustofa Norðausturlands 2025).


Meðalfjöldi skógarþrasta á talningarpunktum í Þingeyjarsýslum árin 2014-2023 með staðalskekkju. Myndina fengum við af vef Náttúrustofu Norðausturlands. Þar kemur fram að mynstrið er svipað í öðrum landshlutum.
Meðalfjöldi skógarþrasta á talningarpunktum í Þingeyjarsýslum árin 2014-2023 með staðalskekkju. Myndina fengum við af vef Náttúrustofu Norðausturlands. Þar kemur fram að mynstrið er svipað í öðrum landshlutum.

Það leynir sér ekki að aukin skógrækt og aukin trjá- og runnarækt í görðum hefur gagnast skógarþrestinum eins og öðrum spörfuglum á Íslandi. Sennilega dettur engum lengur í hug að yrkja um þresti í túni. Nú eru þeir í skógum eða trjám. Á 19. öld orti Jón Thoroddsen (1818-1868) vel þekkta vorvísu þar sem þessar hendingar koma fyrir:


syngur í runni og senn kemur lóa,

svanur á tjarnir og þröstur á tún.


Kristján frá Djúpalæk vissi betur er hann orti ljóðið Draumur um tré. Annað erindið af þremur er svohljóðandi:


Draumur um tré (brot)


-Að gróðursetja græðling, haust þó sé,

er gæti rætur fest og orðið tré

sem hörku frosts og hríða standi gegn

og höfugt angi þegar drýpur regn.

Og kátur þröstur gæti athvarf átt

í ungri krónu þess og sungið dátt.


Kristján frá Djúpalæk


Þröstur syngur af öllum lífs- og sálarkröftum í ólaufguðu birkitré í apríl. Þannig tilkynnir hann um óðal sitt. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Þröstur syngur af öllum lífs- og sálarkröftum í ólaufguðu birkitré í apríl. Þannig tilkynnir hann um óðal sitt. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Okkur þykir við hæfi að þetta erindi Kristjáns frá Djúpalæk sé lokaerindi í þessum pistli. Ljóðið er ákall á frekari gróðursetningu trjáa og að sjálfsögðu er fugl í björkinni.


Þakkir

Þessi pistill hefði aldrei orðið að því sem hann er nema vegna þess að fólk var viljugt að vísa okkur á kvæði og erindi þar sem skógarþrösturinn kemur fyrir. Öllu þessu fólki færum við okkar bestu þakkir og eru þau nefnd í heimildaskrá. Einnig færum við því góða fólki Elmu Benediktsdóttur, Emmu Huldu Steinarsdóttur og Sigurði H. Ringsted þakkir fyrir góðfúslegt lán á myndum. Pétur Halldórsson fær þakkir fyrir þarfan og vandaðan lestur á próförk sem kom í veg fyrir að höfundur yrði sér til skammar með klaufavillum.


Haustlitasinfónía frá 24. október 2022 með tilheyrandi söng. Mynd: Elma Benediktsdóttir.
Haustlitasinfónía frá 24. október 2022 með tilheyrandi söng. Mynd: Elma Benediktsdóttir.

Heimildir:


Ljóð lifa svo sjálfstæðu lífi að við hirðum ekki um að geta sérstaklega um hvar þau er að finna. Vitanlega er þó hvert ljóð í textanum merkt sínum höfundi.


Bjarni E. Guðleifsson (2005): Náttúruskoðarinn I. Úr dýraríkinu. Bókaútgáfan Hólar, Akureyri.

Guðmundur Páll Ólafsson (2005): Fuglar í náttúru Íslands. Bls. 244-245. Mál og menning.

Hlynur Steinsson (2024): Fuglafit. Þáttur í Ríkisútvarpinu í ritstjórn Gígju Hólmgeirsdóttur frá 9. maí 2024. Sjá: Fuglafit - Spilari RÚV


Jóhann Óli Hilmarsson (2025): Skógarþröstur. Grein á fuglavefnum. Sjá: Fuglavefur- Skógarþröstur.


Náttúrustofa Norðausturlands (2025): Skógarþrestir gera það gott. Sjá: Skógarþrestir gera það gott | Náttúrustofa Norðausturlands


Sigurður Ægisson (2020): Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar. Þakkir fá Ásgeir Þór Ásgeirsson, Björn Jónsson, Helga Guðlaugsdóttir, Ingólfur Jóhannsson, Jón Gunnar Axelsson, Sigríður Jóhannsdóttir, Una Þórey Sigurðardóttir og Örn Arnarson fyrir að nefna við okkur nokkur þrastaljóð sem hér má finna.

Skógarþröstur að háma í sig hvít reyniber 25. október 2025. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Skógarþröstur að háma í sig hvít reyniber 25. október 2025. Mynd: Sigurður H. Ringsted.


















Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page