top of page

Fræ eru ferðalangar

Updated: Apr 9, 2023

Flest vitum við að tré stunda ekki göngutúra. Hvert og eitt á í vandræðum með að færa sig úr stað, enda eru tré rótföst. Samt er það svo að þau geta ferðast. Bæði í tíma og rúmi. Til þess mynda tré fræ. Það eru oftast þau sem sjá um að ferðast. Sum ferðast ekki langar vegalengdir en tryggja að næsta kynslóð kemst á legg eða öllu heldur stofn. Þannig ferðast fræin í tíma. Önnur fara lengri vegalengdir. Þau ferðast í rúmi. Tré eru ekkert öðruvísi en aðrar lífverur með það að þau vilja fjölga sér þannig að æ fleiri einstaklingar verði til sem aukið geta útbreiðslu tegundarinnar.


Svartþröstur í þjónustu reynis. Hann fær greitt í aldinkjöti. Mynd: Sig.A.


Til hvers að ferðast?

Ekkert í veröldinni varir að eilífu án breytinga. Jarðskorpuflekarnir færast og loftslag breytist. Tré sem vex ljómandi vel er sennilega rétt staðsett miðað við þarfir þess. Hæfilegur raki, hvorki of heitt né of kalt, nægileg birta og aðgengi að heppilegum næringarefnum eru meðal þeirra þátta sem lætur trjám líða vel. Ekkert af þessu er óbreytanlegt. Nú, á tímum hamfarahlýnunnar, er þetta beinlínis vandamál sem tré þurfa að yfirstíga. Því hafa þau lagt af stað í tvær áttir. Norður og upp. Eftir því sem hærra kemur í fjöllin verður loftslag svalara, rétt eins og þegar haldið er í norður. Að vísu á það síðarnefnda ekki við um þann helming jarðarinnar sem er sunnan við miðbaug. Á okkar tímaskala gengur þessi langferð ekkert sérstaklega hratt fyrir sig, en trén kunna þetta. Þau hafa gert þetta áður.

Birkifræ liggur í snjónum í janúar 2013. Fræ margra tegunda getur fokið langar leiðir á hjarni eða borist með leysingarvatni. Mynd: Sig.A.


Til að þessi ferðalög í tíma og rúmi gangi upp þurfa fræin að hafa forðanæringu sem gagnast getur ungplöntum og einhverja leið til að færa sig úr stað. Það getur orðið vandamál að halda jafnvægi á milli þessara hluta. Stór fræ hafa að jafnaði meiri forða en lítil fræ en erfiðara getur verið fyrir þau að ferðast langar vegalengdir.


Sitkagreni á Campbelleyju. Hún tilheyrir Nýja-Sjálandi en er um 600 km sunnan við stóru eyjarnar tvær. Sitkagreni er upprunið frá vesturströnd Norður-Ameríku. Sennilega er ekkert tré í heiminum jafn langt frá öðrum trjám. Heimildin er héðan. Aðeins ein tegund dýra getur hjálpað trjám að ferðast svona langt. Lesendur tilheyra henni.


Eldri ferðalög

Trén eru alltaf á ferðalagi og ferðast misjafnlega hratt. Vel þekkt staðreynd er að gróðurfar í okkar heimshluta lét nokkuð á sjá á því jarðsögutímabili sem kallað er ísöld. Smám saman kólnaði og allur gróður, þar með talin tré, lét undan. Á ísöld dóu mörg tré út á Íslandi því þau gátu ekki gerst „flóttatré“. Þau höfðu engan stað til að flýja á.


Áður en Atlantshafið varð svona breitt er talið að landbrú hafi verið frá Grænlandi til Skotlands yfir það svæði sem nú er Ísland. Sjá má leifar hans á kortinu. Á þeim tíma var loftslag og gróðurfar allt annað en nú er. Eftir að ísa leysti var þessi leið ófær. Myndin fengin héðan.


Fróðlegt er að skoða samanburð á fjölda tegunda í Evrópu og Norður-Ameríku. Tegundafjölbreytnin er miklu meiri fyrir vestan. Meginástæða þess er sú að helstu fjallgarðar Ameríku snúa norður-suður en ekki vestur-austur eins og í Evrópu. Trén áttu því greiðari flóttaleið undan ísöldinni suður álfuna og norður aftur þegar henni lauk. Mun færri tegundir dóu út á ísöld í Ameríku en Evrópu.

Horft yfir Alpana frá Schafalm í Zalzburgarlandi í Austurríki. Myndin tekin í 1800 metra hæð. Þar vex barrskógur. Ofar eru fjöllin nakin. Þetta hefur verið erfiður farartálmi gróðurs á flótta undan ísöld. Mynd: Sig.A.


Sem dæmi má nefna að á heimasíðu Skógræktarinnar, skogur.is, er fjallað um helstu trjátegundir sem hér eru ræktaðar. Þar eru nefndar sjö tegundir af greni. Sex frá Norður-Ameríku en aðeins ein evrópsk.


Þrjár tegundir af greni í skóginum að Miðhálsstöðum. Fremst er rauðgreni frá Evrópu en aftar má sjá blágreni og sitkagreni frá Ameríku. Fjærst má sjá lerki frá Rússlandi. Mynd: Sig.A.


Útbúnaður til ferðalaga

Mjög er misjafnt hvernig tré útbúa þessa ferðalanga sína til ferðalaga. Sum fræ, eins og fræ af víði og ösp, eru ótrúlega létt. Þau geta borist með vindi langar leiðir. Þau eru mjög góðir ferðalangar í rúmi en lifa sjaldnast mjög lengi og eru því ekki eins heppilegir í tímaflakki og mörg önnur fræ.


Fjallavíðir að losa fræ úr reklum sínum. Þessi hvítu hár bíða eftir golu sem feykt getur fræinu langar leiðir. Þar sem fjallavíðirinn er jarðlægur er tryggara að hafa reklana upprétta. Þá eru meiri möguleikar á að vindurinn grípi fræið. Mynd: Sig.A.

Önnur fræ sem við þekkjum eru þyngri og berast ekki jafn langt. Fræ af birki, hlyni og barrtrjám, svo dæmi séu tekin, eru þyngri. Sum þeirra eru útbúin dreifingabúnaði eins og vængjum sem hjálpa þeim að berast lengra. Svo eru það þau sem hafa tekið dýr í sína þjónustu. Mjög er misjafnt hvernig tré fara að þessu. Sum nota mútur eða blekkingar, sum nýta mátt auglýsinga með því að skarta áberandi litum og svo mætti áfram telja. Mörg tré af rósaætt, eins og reynitré, geyma fræ sín í berjum og treysta á að fuglar éti þau. Ef réttir fuglar þiggja þetta boð fara fræin heil í gegnum meltingarveginn og fara út með hæfilegum áburðaskammti þegar fuglinn þarf að drita. Nánar verður fjallað um rósaættina hér neðar.


Beðið eftir sendiboðanum og launin auglýst með áberandi lit. Mynd Sig.A.


Önnur tré treysta á ýmiss spendýr til að fara með fræ sín á heppilega staði. Á norðurslóðum eru það einkum nagdýr sem safna þeim á haustin til að geyma í forðabúrum. Sumir fuglar safna líka fræjum í forðabúr. Þessi dýr eiga það til að safna meira af fræjum en þau hafa þörf fyrir. Stundum gleyma þau líka hluta fræjanna sem þá nær ef til vill að spíra. Svo gerist það einnig að safnararnir drepast og þá skapast rými fyrir fræin að spíra. Má nefna eikur og lindifurur sem dæmi um slíkt. Sunnar í heiminum má meðal annars nefna leðurblökur, apa og lemúra sem gegna því hlutverki að dreifa fræjum. Þeirra er gjarnan freistað með lykt. Við þekkjum vel hvað ávextir geta ilmað. Stórir grasbítar á sléttum Afríku dreifa líka fræjum. Hestar og elgir gera það einnig og er þó aðeins lítill hluti dýra nefndur sem hjálpar til við að dreifa fræjum. Auðvitað má ekki heldur gleyma þeirri dýrategund sem allir lesendur þessa pistils tilheyra. Maðurinn hefur flutt, bæði viljandi og óviljandi, ótrúlegan fjölda trjátegunda og annarra plantna milli svæða. Engar líkur eru á að það breytist í bráð. Verða nú tekin nokkur dæmi um ferðatilhögun trjáa.

Ein aðferð til að dreifa stafafuru er að taka greinar með könglum og koma þeim fyrir á rýru landi. Svo sér náttúran um afganginn. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.


Beyki (Fagus)

Í um þriggja milljón ára gömlum jarðlögum, sem til urðu fyrir ísöld, má sjá að í Evrópu uxu þá að minnsta kosti tvær tegundir af beykitrjám Fagus. Önnur þeirra er sú sama og enn er víða í Evrópu Fagus sylvatica og er stundum ræktuð á Íslandi. Hin hafði stærri lauf. Svo virðist sem beykið sem enn er í álfunni hafi tekist að komast til Suður-Evrópu þegar kólna tók í norðrinu, en ekki hinni tegundinni. Hún komst aldrei yfir Alpana. Örlög hennar voru að deyja út í Evrópu. Hún hvarf þó ekki alveg úr heiminum. Sama tegund lifði nefnilega vestan Atlantsála, austanvert um norðurhluta Ameríku. Þar voru ekki sömu farartálmar og í Evrópu og enn má finna beykitegund í Ameríku sem kallast á latínu Fagus grandifolia. Grandis merkir stór og folia er laufblað.

Ferðalag beykisins gengur frekar hægt fyrir sig. Það myndar mikið fræ en er ekki útbúið mikilli dreifingatækni. Fyrir kemur að fuglar eins og skrækskaði safni fræjum hans og færi til en það er fremur sjaldgæft. Beykið er ekkert að flýta sér. Því er alveg sama þótt það sé ekki fyrst á vettvang og dreifing fræjanna staðfestir það. Beyki er mjög skuggþolið og kann því þess vegna ágætlega að mæta á svæðið þegar önnur tré hafa komið sér fyrir og skapað skjól. Sama háttinn nota mörg önnur skuggþolin tré. Þau hafa tímann fyrir sér (sjá umfjöllun um þin hér á eftir).

Allt bendir til að beykið sé enn að færa sig norðar. Það finnst nánast um alla Evrópu frá Sikiley til Suður-Svíþjóðar. Þessir staðir eiga fátt sameiginlegt nema að þeir byrja báðir á S. Af því má sjá að beyki er aðlagað alls konar veðri, en það þolir ekki frost á vaxtartíma. Tilraunir sýna að það getur vel lifað norðan við núverandi náttúrulegt útbreiðslusvæði. Beykitré verða trúlega algengari á Íslandi í lok þessarar aldar en þau voru við lok þeirrar síðustu. Þau geta ekki ferðast hingað sjálf, en við getum hjálpað þeim og tekið vel á móti þeim.


Danskættað beykitré í Hellisgerði gróðursett um 1930. Í þann tíð mátti reikna með hörðum frostum í byrjun september ár hvert. Þá fraus laufið grænt endasprotar kólu árvisst. Þess vegna er vaxtarlagið dálítið öðruvísi en í dönskum beykiskógum.

Nú er öldin önnur og haustfrostin koma síðar. Ef beyki er gróðursett í dag, mætti búast við að þau næðu mun fyrr þroska sem hávaxin, beinvaxin og hraðvaxin beykitré en þessi tré gefa til kynna. Einkum ef þau kvæmi eru heppileg. Vel má reyna kvæmi frá frönsku eða svissnesku Ölpunum. Mynd: Sig.A.


Víðiætt (Salicaceae)

Víðir, Salix, og ösp, Populus, eru af sömu ætt og kallast hún víðiætt. Tegundirnar nota svipaðar aðferðir við að dreifa fræjum sínum. Þau geta bæði borist með vatni og vindum en missa spírunarhæfni sína fremur fljótt. Vel má vera að einhverjar víðitegundir hafi lifað af ísöldina á Íslandi. Það er nánast alveg víst með grasvíðinn sem áður hefur verið fjallað um hér. Gulvíðir, loðvíðir og fjallavíðir (grávíðir) hafa sennilega einnig lifað af ísöldina á íslausum skerjum. Teljast þetta hinar íslensku víðitegundir.


Fræreklar á brekkuvíði. Fræ þeirra eru mjög létt og geta borist langt. Mynd: Sig.A.

Síðan ísöld lauk hefur það alveg örugglega gerst nokkuð oft að fræ af evrópskum víðitegundum hefur borist til landsins. Það er þó ekki þar með sagt að þær hafi náð að nema hér land, þrátt fyrir að lengst af hafi stórir grasbítar (sem margir hverjir eru sólgnir í víði) ekki verið á landinu. Ástæðurnar geta meðal annars verið þær að fræin þurfa að hitta á heppilegan stað og ná að spíra og vaxa upp. Á þeim rúmlega 10 þúsöldum sem liðu áður en maðurinn kom verður að telja það líklegt að það hafi stundum tekist. En þá kemur upp annað vandamál. Hvert tré af víði ber annað hvort karlkyns eða kvenkyns æxlunarfæri. Sjá hér. Ef aðeins annað kynið berst hingað og nær að spíra er alveg óvíst að það nái að koma erfðaefni sínu til næstu kynslóðar. Þetta dregur mjög úr líkum þess að viðkomandi tegund nemi hér land. Það er að vísu þekkt að víðir getur myndað kynblendinga með öðrum víðitegundum en það er sjaldgæfara í óröskuðum vistkerfum (eins og voru hér fyrir landnám) en röskuðum og áhrifin dvína smám saman í næstu kynslóðum, ef blendingurinn er frjór. Aspir nota svipaðar aðferðir og víðirinn við dreifingu fræja. Á Norðurlöndum er talið að blæösp, Populus tremula, hafi verið ein af alfyrstu trjátegundum til að nema land eftir að ísöld lauk.

Til eru fáeinir staðir á landinu þar sem finna má íslenska blæösp. Líklegast er að hún hafi sjálf komist hingað eftir ísöld. Það sem hún hefur fram yfir víðitegundirnar er að hún treystir ekki eingöngu á fræmyndun, heldur setur mikil rótarskot. Þannig getur hún ferðast í tíma þótt hún ferðist mjög hægt í rúmi. Ef eitt, lítið blæasparfræ nær að spíra og vaxa upp þarf ekki hitt kynið til að hún geti bætt við veldi sitt. Reyndar er það svo að það hefur aldrei verið staðfest að blæösp á Íslandi myndi frjótt fræ og sái sér út.


Blæaspir á Íslandi, eins og þessi í Grundarreit, ferðast frekar um með rótarskotum en fræjum. Mynd: Sig.A.


Í Vaðlareit, neðan við þjóðveginn, má finna blæösp í landi Halllands. Engar heimildir eru um að henni hafi verið plantað og má vera að hún hafi lengi verið þarna, þótt fáir hafi tekið eftir henni fyrr en reiturinn var girtur af til skógræktar árið 1936. Að auki má geta þess að sumarið 1962 sagðist Ingólfur Daðason hafa séð blæösp í Garðsárgili (Helgi Hallgrímsson 2017) en síðan hefur ekkert spurst til hennar.

Líklegt má telja að blæösp hafi verið algengari á Íslandi fyrir landnám en síðar varð. Nokkur örnefni gætu sem best bent til blæaspar. Má þar nefna Espihól í Eyjafirði, Asparvík á Ströndum (gæti þó alveg eins vísað í rekavið) og hugsanlega Dynskógar í Vestur-Skaftafellssýsla.


Alaskaösp myndar auðveldlega fræ á Íslandi og sáir sér sjálf. Frænka hennar, blæöspin, gerir það ekki. Mynd: Sig.A.


Birkiætt (Betulaceae)

Birki og fjalldrapi eru af sömu ættkvísl, Betula, sem er innan birkiættarinnar. Vísindamenn telja líklegt að þær hafi báðar þraukað af ísöldina á Íslandi. Þau mynda frjóa blendinga sín á milli og kann það að vera ástæða þess hvernig stór hluti af íslenska birkinu lítur út. Sjá hér.


Karlblóm á birki. Frjóið sem þau framleiða getur ferðast mun lengra en fræið. Mynd: Sig.A.

Ef marka má hin svokölluðu birkilög í íslenskum mýrum var birkið stórvaxnara fyrir landnám en við eigum almennt að venjast á okkar tímum. Birki myndar mikið fræ. Fræið er fremur létt, þótt ekki sé það eins létt og á víði og ösp. Það er útbúið vængjum og er smátt þannig að það getur borist nokkuð langar leiðir. Ólíklegt er þó að það berist hingað frá útlöndum. Aftur á móti getur frjó birkis borist hingað annars staðar frá. Það má vel vera að það hafi einhver áhrif á af hverju birki um austanvert landið er almennt hærra en um það vestanvert.


Fræreklar á birki. Mynd: Sig.A.

Þar sem birki myndar mikið fræ sem berst auðveldlega nokkuð langt hefur margt verið því hliðhollt á Íslandi fyrir landnám. Raskanir á landi, t.d. í kjölfar eldgosa, skriðufalla og vatnavaxta, hafa skapað kjöraðstæður til að fræið geti spírað. Aftur á móti treystir íslenskt birki fyrst og fremst á endurnýjun frá teinungi til að endurnýja birkiskóga í þroskuðum og óröskuðum vistkerfum.


Hér sjást báðar aðferðirnar sem birki notar til ferðalaga. Annarsveger með teinungi (3 eða 4 klónar fyrir miðri mynd) hins vegar með fræi eins og sjá má fremst á myndinni. Þá aðferð notar birkið til að nema ný lönd. Mynd: Sig.A.

Á meðan ekkert var til að hindra endurvöxt birkisins eftir náttúruleg áföll hefur það náð undrafljótt að nema mjög stóran hluta landsins. Nú er talið víst að það hafi þakið um 25-40% landsins við landnám.

Hreinn Óskarsson safnar fræi af gráelri í Kjarnaskógi. Elri, Alnus, er af birkiætt og fræin ferðast á sama hátt en fræið á elrinu er í einskonar smákönglum.


Rósaættin (Rosaceae)

Rósaættin er mjög stór og mikið ræktuð. Bæði til fegurðarauka og nytja. Allar ættkvíslir tegundarinnar mynda fræ sem geymt er í aldinum. Ef heppileg dýr, á Íslandi oftast heppilegir fuglar, éta þessi aldin ganga fræin ómelt í gegnum meltingarveginn og fara út með fugladritinu. Dritið nýtist þá sem áburður fyrir fræin. Sumar ættkvíslirnar mynda svo stór aldin að spendýr leggja þau sér til munns með sama árangri. Má nefna eplin sem dæmi en um þau er fjallað hér. Á meðal annarra ættkvísla innan ættarinnar má nefna reyni, rósir og kirsuber og er þá aðeins fáeinar ættkvíslir nefndar.


Ber á kasmírreyni. Sumir evrópskir fuglar hafa ekki enn áttað sig á að hvít ber eru æt. Mynd: Sig.A.

Margir fuglar éta ber af trjám af þessari ætt. Sumir þeirra eru fræætur. Þeir gagnast ættinni frekar lítið eða ekki neitt. Þeir plokka gjarnan fræin út úr berjunum, éta þau og melta. Aðrir fuglar, svo sem þrestir, éta berin í heilu lagi og melta bara aldinkjötið. Það er samvinnan sem trén leita eftir. Oftast er það samt svo að fuglarnir fara ekkert mjög langt til að drita. En stöku sinnum fljúga þeir langar vegalengdir áður en þeir losa sig við fræin. Þá er markmiðinu náð.

Nagdýr, eins og mýs, eiga það til að safna berjum í forðabúr sín og geta þannig hjálpað mörgum trjátegundum af rósaætt. Einkum og sér í lagi ef þær steingleyma hvar forðabúrið er.


Regnblaut ber. Rósaættin myndar ber sem við stundum köllum ávexti. Mynd: Sig.A.


Belgjurtir (Fabaceae)

Belgjurtaætt eða ertublómaætt er þriðja stærsta plöntuætt í heimi. Um gagnsemi hennar fyrir skógrækt hefur áður verið fjallað. Eitt megineinkenni ættarinnar er að fræin þroskast í belgjum. Þegar fræin eru þroskuð verða belgirnir dökkir að lit og þorna. Þegar sólin skín á þá hitnar sú hliðin sem snýr að sólu meira en sú sem er í skugganum. Þetta veldur spennu í belgnum sem verður að lokum til þess að hann rifnar eftir endilöngu. Við það þeytast fræin í burtu. Þetta þekkja margir sem gengið hafa um lúpínubreiður síðsumars þegar belgirnir byrja að „poppa“ og þeyta fræjunum í allar áttir með tilheyrandi smellum. Sömu aðferð nota sópar, kergi og gullregn sem eru tré og runnar af belgjurtaætt sem þrífast á Íslandi. Hvert fræ kemst ekki mjög langt á þennan hátt en til að belgjurtirnar þrífist þurfa réttar rótarhnýðisbakteríur að fylgja. Þær hjálpa til við að vinna áburðarefnið nitur úr andrúmsloftinu. Því er gagnlítið að koma fræjunum mjög langt nema hægt sé að tryggja að bakteríurnar berist líka. Þannig hefur t.d. lúpínum aldrei tekist að komast yfir Beringssundið til að nema land í Asíu. Ekki vegna þess að fræin geti ekki borist þangað með öldum sjávar, heldur vegna þess að réttar bakteríur berast ekki á sama hátt.

Rétt er þó að geta þess að til eru belgjurtir sem vaxa gjarnan nærri sjó. Í og við fjörur er sjaldan skortur á nitri svo þær eru ekki eins háðar réttum bakteríum. Þær plöntur nota gjarnan sjóinn til að dreifa fræjum. Má þar nefna íslenska baunagrasið (sem þarf samt réttar bakteríur) og sæbaunir sem eru tré sem finna má mjög víða í hitabeltinu.


Fullþroskaður fræbelgur á kergi, Caragana arborescens, bíður eftir tækifæri til að þeyta fræinu út í bláinn.


Hlynur (Acer)

Garðahlynur, Acer pseudoplatanus, vex ágætlega í görðum á Íslandi. Hann, eins og aðrir hlynir nota sérkennilega aðferð við að koma fræjum sínum í burtu frá móðurtrénu og því verðskuldar ættkvíslin sérstaka umfjöllun. Fræin eru nokkuð stór og þung sem getur komið ungplöntunum vel, nái þau að spíra. Hjá flestum tegundum myndast fræin tvö og tvö saman og hvert fræ hefur einn væng. Hornið á milli vængjanna er stundum notað til að greina í sundur skyldar tegundir. Hlutföllin milli fræþyngdar og lengdar á væng hvers fræs eru mjög nákvæm. Það veldur því að þau snúast á leið sinni til jarðar og minnsta vindhviða getur borið þau með sér alveg ótrúlega langar vegalengdir. Mörgum þykir skemmtilegt að henda upp þroskuðu hlynfræi og sjá það fljúga eins og þyrla, hægt og rólega til jarðar. Ef fræið er ekki að fullu þroskað er hlutfallið milli fræþyngdar og vænglengdar ekki rétt. Þá fellur fræið eins og steinn til jarðar.


Fræ á hlyntré á Svalbarðseyri. Þetta fræ er ekki að fullu þroskað. Mynd: Sig.A.


Acer griseum í grasagarðinum í Edinborg er ættaður frá Mið-Kína. Eins og sjá má er allt annað horn milli vængja og fræs en í hlyninum hér ofar. Mynd: Sig.A.


Þallarætt (Pinaceae)

Áður hefur þallarætt verið kynnt hér til sögunnar. Fræ allra ættkvíslanna innan ættarinnar er geymt í könglum til að verja þau fyrir afræningjum. Þegar þeirra tími kemur opnast könglarnir og fræin losna úr þeim. Flest þeirra eru með litla vængi. Þeir duga samt ekkert sérstaklega vel til að flytja fræin langar leiðir. Björk Kristjánsdóttir gerði athugun á dreifingu stafafurufræja í einum skógi á Íslandi. 18 frægildrur voru settar upp í mismunandi fjarlægð frá stafafurulundi til að sjá hversu langt fræin berast. Sjá glærur hér. Í heilt ár voru gildrurnar vaktaðar. Tvo metra utan við skógarjaðarinn fannst fræ í 2 af 6 gildrum og 23 m utan við skógarjaðra var bara ein gildra af sex með fræjum. Samt er þetta aðal ferðatilhögun trjánna. Hér er grein frá Skógræktinni um í hvers konar land stafafuran getur sáð sér. Til stendur að rannsaka þetta betur eins og sjá má hér.


Könglar á broddfuru. Augljóst er af hverju hún ber þetta nafn. Ungir könglar eru lokaðir en eldir köngull, neðar á greininni, er opinn og fræin farin.

Aðrar furur, einkum svokallaðar fimm nála furur, nota annað vinsælt bragð. Þær framleiða mikið magn af fræjum sem freistar margra dýra, bæði nagdýra og fugla. Í Ölpunum treystir lindifura á sérhæfða fuglategund sem étur mikið af fræjunum og grefur restina á heppilega staði svo hún geti étið þau síðar. Blessaður fuglinn er reyndar ekki neitt sérstaklega minnisgóður og talið er að hann finni aðeins um fjórðung þeirra fræja sem hann grefur. Hin eru komin á heppilega staði, vaxa og verða að trjám. Á þennan hátt hafa þær fært sig sífellt ofar í Alpana eftir að hlýnun jarðar gerði þau svæði heppilegri fyrir fururnar.


Undir Dachstein-jökli í Austurríki er trjágróður að fikra sig ofar. Evrópulerki myndar þar tré ef það á annað borð þrífst en fura og elri myndar unna. Þegar komið er neðar í fjöllin má sjá greni og þin. Lauftré eru enn neðar. Mynd: Sig.A.

Þegar rauðgreni og skógarfura fluttu sig norður, í kjölfar hopandi jökla, varð fyrir þeim slæmur farartálmi áður en til Norðurlanda var komið. Norðursjór. Að minnsta kosti komst grenið ekki yfir þetta hafsvæði. Þess í stað flutti það sig norður austan við Helsingjabotn og síðan suður eftir Skandinavíuskaganum. Landnám rauðgrenis varð því fyrst og fremst frá austri og síðan norðri. Því er það svo að rauðgreni í suðurhluta Svíþjóðar er í raun af miklu norðlægari uppruna en rauðgreni handan Eystrasalts. Þegar fræ af trjám frá Eystrasaltslöndunum og Hvíta-Rússlandi hafa verið flutt til Svíþjóðar vaxa þau tré mun betur en heimatrén. Það er vegna þess að í raun eru þau betur aðlöguð loftslaginu þar en þau sem komu upphaflega að norðan.

Myndin sýnir hversu langt er síðan frjó rauðgrenis fór yfir 5% af frjóum á hverjum stað. Ef minna er um frjó má gera ráð fyrir að það hafi komið lengra að eða frá mjög fáum og illa aðlöguðum trjám. Því gefur myndin nokkuð glögga mynd af því hvenær rauðgrenið nam land. Myndin sýnir að rauðgreni kom að austan og fluttist suður með hraða sem er um 300 metrar á áratug. Myndin er fengin héðan. Rétt er að geta þess að sumir þykjast sjá bresti í þessari kenningu.


Svo virðist vera sem greni, furur og lerki noti svipaðar aðferðir við að dreifa fræjum sínum. Í tíma fara þau oftast álíka hratt yfir. Fræ þintrjáa berist að jafnaði ekki eins langt frá móðurtrénu að öllu jöfnu. Því ferðast þau hægar í tíma en ættingjarnir. Þinfræ hafa minni vængi og svífa mun styttra en aðrar tegundir af þallarætt. Það gerir ef til vill ekki mikið til því þeim líður betur í skjóli ættingja sinna. Því er ágætt að fylgja bara rólega á eftir. Þetta sést ágætlega í Evrópu. Furur og greni virðist fara hraðar í norðurátt en evrópuþinurinn Abies alba. Náttúruleg útbreiðsla þintrjáa í Evrópu hefur ekki náð lengra norður en að Harz-fjöllum í Þýskalandi. Þegar honum er plantað norðan við náttúrulega útbreiðslu sína þrífst hann prýðilega. Hverju breytir það svo sem fyrir eina tegund þótt hún ferðist nokkur hundruð árum hægar en önnur tré?


Kort af útbreiðslu evrópuþins fengið hjá Wikipedia. Sjá má náttúrulega útbreiðslu sem og þau svæði þar sem þininum hefur verið plantað og getur sáð sér út.


Ferðalag í tíma

Fræ geta bæði ferðast um tíma og rúm. Hér að ofan hafa verið nefnd allmörg dæmi um ferðalög í rúmi. Sum fræ geta geymst nokkuð lengi. Þau ferðalög eru því meira í tíma en rúmi. Oftast bara til að næsta kynslóð geti vaxið upp en sum tímaferðalög eru lengri en önnur.

Sum tré, t.d. innlandskvæmi stafafuru, opna köngla sína við mikinn hita. Helst þarf skógarelda til að opna þá. Í kjölfar þeirra er lítil samkeppni við annan gróður og stafafuran spírar ágætlega í öskunni sem sólin vermir upp. Þar sem skógareldar eru tíðir eru margar tegundir sem nota þessa aðferð við að ferðast í tíma.

Sum tré eru þekkt fyrir að fræ þeirra geta geymst nokkuð lengi í náttúrunni. Þekkt er að fræ sumra trjáa af akasíuættkvíslinni í hitabeltinu geymast stundum áratugum saman í jarðvegi, þar til aðstæður eru heppilegar. Þekkt eru dæmi um sextíu ára gömul fræ sem taka upp á því að spíra. Sumar akasíur, einkum í Ástralíu, eru háðar skógereldum. Án þeirra spíra fræin ekki. Sama á við um sumar tegundir tröllatrjáa (Eucalyptus) á þeim slóðum.


Endurnýjun eftir skógarelda. Myndin fengin héðan. Sum fræ hafa beðið árum saman eftir rétta tækifærinu.


Löng tímaferðalög

Fjölmargar bíómyndir fjalla um einhvers konar tímaferðalög manna. Trjám hefur gengið mun betur í að ferðast í gegnum tíma en að vísu bara í aðra áttina.

Verða nú nefnd tvö fræg dæmi um ákaflega löng tímaferðalög.

Fyrra dæmið er úr sögu sem David Attenborough nefnir í bók sinni Einkalíf plantna. Bókin er byggð á samnefndum sjónvarpsþáttum frá því seint á síðustu öld. Attenborough segir frá því að árið 1982 hafi í Japan verið grafin upp forn byggð. Talið er að hún hafi verið um 2000 ára gömul. Þar höfðu bændur safnað uppskerunni í litlar gryfjur. Í botni þeirra fundust nokkur dauð hrísgrjón. Á meðal þeirra var eitt fræ sem var frábrugðið hinum. Það var lifandi. Það var gróðursett og vökvað og upp spratt ljómandi laglegt magnolíutré. Þegar það fór að blómstra kom í ljós að blómin á magnolíum voru öðruvísi fyrir 2000 árum en á þeim magnolíum sem enn vaxa á sama stað.

Annað dæmi um ferðalag í tíma hefur áður verið nefnt á þessum síðum. Í júní árið 2019 settum við á Facebook frásögn af döðlupálma sem varð útdauður í heiminum nálægt árinu 500 eftir Krist. Fornleifafræðingar fundu nokkrar döðlur af þessum pálma í forni leirkrukku. Hún er talin álíka gömul og gryfjurnar í Japan eða um 2000 ára. Nokkrum árum síðar datt einhverjum í hug að sá döðlunum og kanna hvort þær getu spírað. Eitt fræ spíraði. Þannig var hægt að rækta tré af þessari tegund sem ekki nokkur maður hafði augum litið í meira en 1500 ár! Má vera að það sé mest einmana (eða eintrjá) tré í heimi. Það er það eina sinnar tegundar í öllum heiminum. Það er einkynja (karlkyn) og getur því ekki myndað fræ. Það getur því hvorki ferðast í tíma né rúmi. Þetta er síðasta tré sinnar tegundar. Það er komið á endastöð eftir sitt langa tímaferðalag.


Döðlupálmi sem gerir tilkall til einhvers lengsta tímaferðalags sem um getur. Myndin er fengin héðan.


Helstu heimildir

Helgi Hallgrímsson(2017) Vallarstjörnur. Einkennisplöntur Austurlands. Bls. 104-130. Útgáfufélag Glettings.

Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.


Í netheimildir er vísað með krækju í texta þegar við á.




Recent Posts

See All

Comments


bottom of page