top of page

Kynlíf

Updated: Jul 9, 2023

Það gildir það sama fyrir tré og annan gróður að þau hafa tilhneigingu til að fjölga sér. Hvernig sú fjölgun fer fram er æði misjafnt. Þó má í grófum dráttum (ef nota má þau orð undir þessari fyrirsögn) skipta henni í tvo hópa. Annars vegar kynlausa æxlun og hins vegar kynæxlun. Þessi pistill er um hið síðarnefnda eins og fyrirsögnin bendir til. Seinna munum við segja frá kynlausri æxlun í pistli um #TrévikunnarSE.


Býflugan og blómið

Kynlíf trjáa fer þannig fram að fyrst mynda þau einhverskonar blóm eða ígildi þeirra. Síðan þarf frjó að berast frá frjóhnappi frævilsins (karlblómsins) yfir á fræni frævunar (kvenblómsins). Kallast það frævun. Ef hún tekst þarf sáðkjarni úr frjóinu að berast niður í eggfumu í egglegi blómsins þannig að samruni verði. Kallast það frjóvgun og getur af sér fræ. Á Íslandi berst frjóið á milli blóma annað hvort með vindi eða skordýrum. Úti í hinum stóra heimi geta stundum fuglar eða spendýr gengt þessu hlutverki en það verður að teljast fátítt á Íslandi.

Æði misjafnt er hvernig blómum er fyrir komið. Tré geta annað hvort verið með sérbýli sem merkir að hver einstaklingur er annað hvort karlkyns eða kvenkyns, eða sambýli, sem merkir að hver einstaklingur er bæði karl og kona. Ef síðari leiðin hefur orðið ofan á má aftur skipta þeim trjám í tvo hópa. Annað hvort er hvert blóm bæði með kvenkyns- og karlkyns æxlunarfæri (frævur og fræfla) eða plantan ber tvennskonar blóm. Flest tré reyna síðan, á einn eða annan hátt, að koma í veg fyrir sjálffrjóvgun en leggja áherslu á víxlfrjóvgun. Með víxlfrjóvgun er hægt að stokka upp erfðaefnið sem auðveldar næstu kynslóð að takast á við þær breytingar sem kunna að verða á umhverfinu. Á þessu eru þó margar undantekningar. Sem dæmi má nefna að flest öll yrki kirsuberja sem nú eru ræktuð eru sjálffrjóvgandi. Það skiptir reyndar ákaflega litlu máli fyrir næstu kynslóð því yrkin eru ræktuð til að framleiða ber til manneldis.


Verður nú reynt að fara yfir þessar þrjár gerðir sem fyrr voru nefndar.


Sérbýli

Mörg tré eru annað hvort karlkyns eða kvenkyns. Karlkyns plöntur bera frjóhnappa sem mynda fræfla sem mynda frjó. Kvenkyns plöntur hafa frævur með fræni. Aðeins kvenkynið getur myndað fræ en það gerist ekki nema frjóvgun eigi sér stað. Meðal þeirra trjáa sem þennan háttinn hafa á eru aspir og víðir. Sumum þykir mikil óprýði af fræjum alaskaaspa og víðis. Lausnin gæti verið sú að rækta karlkyns plöntur. Ef lesendur vilja skoða muninn á karl- og kvenblómum víðiplantna má fræðast um hann með því að lesa þennan pistil og skoða myndirnar.

Fræ víðiplantna eru æði létt og bera svifhár. Því geta þau borist langar leiðir með vindi. Í nágrannalöndum okkar eru til ýmsar villtar víðitegundir sem ekki hafa numið hér land. Líklegt verður þó að telja að fræ þeirra hafi oft borist hingað í gegnum aldirnar og að líkindum stöku sinnum náð að spíra og vaxa. En til að landnám þessara plantna takist þurfa bæði kynin að berast. Annars deyr tegundin út með þessari einu plöntu þegar hennar tími er kominn. Þetta er líklegasta ástæða þess að ekki vaxa fleiri villtar víðitegundir á Íslandi en raun ber vitni.


Karlblóm á viðju.


Tvíkynja blóm (hermaphroditic)

Margar plöntur, þar með talin tré, hafa tvíkynja blóm. Slík tré tilheyra báðum kynjum sem og blómin. Slíkt þekkist einnig í dýraríkinu. Þannig eru t.d. bæði sniglar og ánamaðkar tvíkynja. Dæmigerð „pikköpp lína“ meðal slíkra dýra gæti verið: „Ef ég má verða pabbi barna þinna mátt þú verða pabbi barna minna“. Tvíkynja blóm bera bæði fræfla og frævur. Þau tré sem þannig eru geta beitt býsna flóknum aðferðum til að draga úr líkum á því að sjálfsfrjóvgun eigi sér stað en það tekst þó ekki alltaf. Þessi háttur er meðal annars hafður á hjá gjörvallri rósaættinni. Innan hennar eru t.d. eplatré, reynitré og mörg fleiri tré. Til að eplatré beri ávöxt þarf tvö til. Bæði trén eru af báðum kynjum og geta því bæði borið epli ef þau blómgast á sama tíma. Það er ekki svo að það þurfi bæði karltré og kventré því öll eplatré eru bæði kvenkyns og karlkyns. Sum eplayrki þykja reyndar betri frjógjafar en aðrir. Má þar nefna ´Transparente Blanche´ sem gott dæmi.


Margar tegundir reynitrjáa hafa gefist upp á þessu og mynda fræ án frjóvgunar. Um slíka hegðun fjöllum við síðar í öðrum pistli.


Blóm eplatrés bera bæði fræfla og frævur.


Einkynja blóm (monoexious)

Þriðji hópurinn eru tré sem eru af báðum kynjum en bera tvær gerðir af blómum. Annars vegar karlkyns og hins vegar kvenkyns. Þessi háttur er hafður á hjá öllum trjám af þallarættinni en um hana má lesa hér.


Köngull á broddfuru. Allt í kring um hana má sjá karlblóm.


Þjóðartré Íslendinga; birkið, hefur þetta einnig svona. Það sama á við um frænur birkisins; elrið. Um blómgun gráelris má lesa hér. Einnig má lesa þennan pistil um frjókorn elris. Til að draga úr líkum á sjálfsfrjóvgun hafa birkið og elrið þann háttinn á að hvert tré myndar fyrst karlblóm og síðan kvenblóm. Blómgunartíminn á hverju tré má helst ekki skarast að ráði en þarf að gera það á milli trjáa ef allt á að ganga upp. Karlblóm birkisins bera frjókorn sem sumir hafa ofnæmi fyrir. Ofnæmi fyrir birkifræjum er aftur á móti algerlega óþekkt. Birkitrén mynda fyrst glæsilega rekla með frjóum en losar sig einfaldlega við þá þegar þeirra er ekki þörf. Lík tilþrif eru vissulega til hjá dýrategund einni sem kallar sig vitiborna en um það verður ekkert fjallað hér. Kvenblómin fá aftur á móti að þroskast áfram á trénu ef frjóvgun hefur átt sér stað. Þá myndar tréð fræ sem falla af um haustið.


Auðnutittlingur gæðir sér á birkifræi að vetri til.


Myndir og texti: Sigurður Arnarson.

342 views

Recent Posts

See All
bottom of page