top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Blóm gráelris

Updated: Oct 12, 2023

Gráelri eða gráölur er lauftré af birkiætt (Betulaceae) og líkist birkinu nokkuð. Einn helsti kostir elriættkvíslarinnar (Alnus) sem gráelrið tilheyrir er að plönturnar lifa í sambýli við örverur af ættkvíslinni Frankia sem vinna nitur beint úr andrúmsloftinu. Því hefur elrið jákvæð áhrif á frjósemi þess vistkerfis sem það lifir í. Það er sjálfri sér nægt um nitur og miðlar því til svarðnauta sinna. Elri er #TrévikunnarSE.


Elrið, líkt og frænkur þess bjarkirnar (Betula), er tvíkynja. Báðar ættkvíslirnar mynda bæði kven- og karlblóm á sömu trjánum. Almennt má segja að heppilegt sé fyrir tegundir að stokka upp erfðaefnið með því að stunda kynæxlun. Því er mikilvægt fyrir þær að reyna á einhvern hátt að koma í veg fyrir sjálffrjóvgun. Það gerir gráelrið með því að hver planta myndar fyrst karlblóm en kvenblómin eitthvað síðar. Því er það svo að það frjó sem nú er að puðrast út í loftið frá elrinu á litla möguleika á að hitta fyrir kvenblóm. Þau tré sem nú eru farin að mynda karlblóm mynda síðar kvenblóm. Þá verða vonandi önnur tré, sem enn bæra ekki á sér, farin að mynda karlblóm. Að öðrum kosti myndast ekkert fræ. Mörgum þykir mikil prýði af þessum reklum en þegar þeir hafa gegnt hlutverki sínu hendir elrið þeim einfaldlega. Kvenblómin, sem fljótlega verða áberandi, ummyndast síðan í einskonar köngla sem geta verið til mikillar prýði eftir lauffall. Ef grannt er skoðað má sjá kvenblóm á elrinu en þau eru ekki að fullu þroskuð ennþá, eins og áður greinir.


Kosturinn fyrir tré að mynda blóm fyrir laufgun er að vindar (og í sumum tilfellum skordýr, eins og hjá víði) eiga auðveldara með að leika um blómin og dreifa frjóum yfir kvenblómin. Gallinn er aftur á móti sá að ef þetta gerist of snemma er hætt við að frost grandi blómunum. Reyndar er það svo að gráelri myndar mjög sjaldan fræ á Íslandi. Stafar það af því hversu snemma það blómstrar. Blómin verða langoftast frosti að bráð og ekkert verður úr fræmyndun. Samt getur verið gaman að sjá lífið vakna svona snemma og elrið skarta svona flottum reklum.




265 views0 comments

Comments


bottom of page