Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands, ni.is, kemur fram að byrjað er að mæla frjókorn á Akureyri þetta vorið. Daglegar niðurstöður verða birtar frá og með 1. maí. Einkum eru það súrur, grös og birki sem framleiða frjókorn sem valda ofnæmi hjá Íslendingum. Frjókorn eru farin að mælast á Akureyri og eru það frjókorn elritrjáa og -runna. Elri er af sömu ætt og birki en annarri ættkvísl (Alnus á fræðimáli) og hér á landi er tæpur tugur ræktaður af Alnusættkvíslinni. Algengasta elrið, eða ölurinn, sem finnst á Akureyri er gráölur en einnig má m.a. finna sitkaöl og fleiri tegundir. Gráelrið myndar tré en sitkaölurinn stóran runna. Frjókorn elrisins hafa sömu ofnæmisvaka og birkifrjó. Því getur fólk með birkiofnæmi fundið fyrir sömu einkennum ef mikið er af frjói elris.
Karlreklar elris eru langir og setja mikinn svip á plönturnar. Við þroskun verða þeir brúnir og gulir að lit. Það eru þeir sem framleiða frjóið sem veldur ofnæmisviðbrögðum. Þeir sjást aðeins snemma á vorin og síðan losar plantan sig við þá en kvenblómin mynda einskonar köngla sem stundum eru nýttir í skreytingar. Hvorki fræ birkis né elris valda ofnæmi.
Löngu reklarnir eru karlblóm sem mynda frjó. Þar fyrir ofan eru ný kvenblóm. Till hægri eru kvenreklar frá fyrra ári. Í þeim myndast fræin. Myndin tekin í maí 2015.
Elri eru með fyrstu trjám á vorin til að blómstra og því er kjörið að velja það sem #TrévikunnarSE að þessu sinni.
コメント