top of page

Skógarbeyki

Updated: Jun 11, 2023

Þessa vikuna er #TrévikunnarSE skógarbeyki í vetrarbúningi. Beyki er ekki algengt í ræktun á Íslandi en má þó finna í görðum og sumarhúsalóðum á fáeinum stöðum, einkum í góðu skjóli. Það sem einkennir beyki á vetrum er að það heldur í laufin. Einkum á það við um lægri greinar þess. Stór beykitré í útlöndum missa þó oft laufin á efri greinunum yfir veturinn þegar vindar blása. Hér á landi hefur sá er þetta pikkar ekki séð neitt beyki sem er svo stórt að efstu greinarnar missi laufin nema helst í Hellisgerði í Hafnarfirði. Íslensk vetrarveður eru reyndar þannig að beykið heldur ekki alltaf í allt laufið á Íslandi eins og það á til í útlöndum.


Þrjár vetrarmyndir af beyki í bænum Delkeith í Skotlandi. Fyrsta myndin sýnir tré sem heldur neðri laufunum. Miðmyndin sýnir stakt, ungt tré en í skugganum að baki er hekk úr beyki. Þriðja myndin sýnir beykilimgerði og stórt beykitré. Sagt er að við kynþroska hætti trén að halda laufum sínum. Limgerðin verða það aldrei og halda því alltaf laufum sínum á vetrum.Þrjár myndir af skógarbeyki í skoskum skógum. Á þeirri fyrstu má sjá tré sem sagað hefur verið niður en tréð neitar að drepast. Lokamyndin sýnir ung tré sem sá sér í skógarbotn. Smám saman munu þau taka yfir.Fyrsta myndin sýnir tré í Hveragerði. Miðmyndin er haustmynd úr Hellisgerði í Hafnarfirði en lokamyndin sýnir beykilauf um miðjan vetur.Auðþekkjanlegt að vetri

Í erlendum skógum og görðum er það mjög auðþekkjanlegt á vetrum. Ef þið eigið leið um evrópskar borgir eða skóga að vetri til þá er gaman að líta eftir beykitrjám. Það reynist oft mun víðar heldur en maður gæti trúað þegar allt er í sumarskrúða. Beyki er gjarnan nýtt í þétt limgerði í borgum álfunnar en er varla nógu harðgert á Íslandi til slíks brúks. Einn af kostunum er einmitt sá að limgerðið lokar mjög vel allt árið. Kemur þar þessi eiginleiki tegundarinnar sér mjög vel.


Við munum sjálfsagt segja meira frá beykitrjám síðar.


Texti og myndir: Sigurður Arnarson.

112 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page