Að þessu sinni er tré vikunnar alls ekki íslenskt og engar líkur á því að það geti vaxið hér utandyra. Okkur þykir þetta hinsvegar ákaflega merkilegt tré með merkilega sögu. #TrévikunnarSE er döðlupálmi frá Júdeu sem á fræðimáli kallast Phoenix dactylifera. Þetta var algengt tré (ef pálmatré teljast til trjáa) í Mið-Austurlöndum fyrir þúsundum ára eða þar til Rómverjar lögðu undir sig Jerúsalem og nálæg landsvæði um árið 70.
Plantan var ákaflega mikilvæg. Döðlurnar voru partur af daglegri fæðu og laufið veitti kærkominn skugga auk þess sem tegundin var meðal annars brúkuð til lækninga. Tréð þótti það merkilegt að samkvæmt Gamla testamentinu nefndi Davíð konungur dóttur sína á hebresku eftir döðlum pálmans; Tamar. Í Nýja testamentinu er svo sagt frá því þegar Jesús frá Nasaret reið inn í Jerúsalem á asna og fylgendur hans lögðu pálmablöð fyrir fætur hans. Enn þan dag í dag halda kristnir menn upp á þann atburð á pálmasunnudag.
Um árið 500 hvarf þessi tegund og varð útdauð. Heimildin sem hér er notuð greinir frá því að það megi rekja til þess að Rómverjar hafi vísvitandi viljað útrýma tegundinni því hún var svo mikilvæg fyrir heimamenn. Aðrir segja að menn hafi einfaldlega hætt að rækta hana vegna þess að aðrar plöntur voru gjöfulli.
Áður en tegundinni var útrýmt hafði einhver fyrir því að safna döðlufræjum í leirkrukku. Fornleifafræðingar fundu leirkrukkuna á sjöunda áratug síðustu aldar og kolefnisgreining gaf þá niðurstöðu að fræið hafi verið um 2000 ára gamalt.
Þegar fræin höfðu legið rykfallin í safni í áratugi datt einhverjum í hug að reyna að fá grasafræðing til að rækta upp plöntu af fræunum ef hægt væri. Fyrir valinu varð Elaine Solowey sem reyndar hafði litla trú á verkefninu. En hún lét vaða og sáði fræjunum árið 2005. Hið ótrúlega gerðist. Eitt fræjanna spíraði! Ekki er vitað um eldri trjáfræ sem spírað hafa í heiminum. Þetta tré er enn lifandi og hefur vaxið vel og myndað frjó. Það merkir að þessi einmanna pálmi er karlkyns og getur því aldrei borið ávöxt. Eins og vænta mátti hlaut svona merkilegt tré sérnafn og gengur nú undir nafninu Methuselah. Nú eru vísindamenn að reyna að fá annað fræ úr þessari fornu leirkrús til að spíra en áður hefur verið reynt að nota frjó af þessu einmanna döðlupálma til að frjóvga skyldar tegundir. Þær tilraunir hafa sýnt fram á að tréð er frjótt.
Árið 2015 var döðlupálminn Methuselah orðinn rúmir þrír metrar á hæð og enn vex hann.
Comments