Einangrun landsins hefur komið í veg fyrir að allskonar trjágróður, sem að jafnaði þrífst við svipuð veðurfarsskilyrði og hér eru, hafi numið hér land. Halda má því fram að sérstæða íslenskrar flóru sé tegundafábreytni og skortur á fjölbreytni. Samt er það svo að víða um heim eru til afskekktar eyjar sem eru umvafðar fjölbreyttum gróðri. Því dugar einangrunin ekki ein og sér til að útskýra þessa tegundafátækt. Ástæða fátæktarinnar er sú að gróðurfarið á Íslandi er mótað af ísöld sem útrýmdi nánast öllum gróðri landsins. Hann hefur því ekki fengið að þroskast og þróast í nema um tíu þúsund ár eða rúmlega það. Suðlægari eyjar þurftu ekki að ganga í gegnum slíkar hörmungar. Sumar þeirra búa því yfir gróðri sem hefur þróast á eigin forsendum í mörg hundruð árþúsund en ekki bara þessi tíu. Slíkar eyjar hafa allskonar gróður sem er einlendur. Það merkir að hann finnst aðeins þar og hvergi annars staðar. Þessi grein fjallar um trjátegund sem var, eða stefndi í þá átt að verða, einlend á Íslandi. Svo kom ísöld og skemmdi allt saman.
Fræ á garðahlyn, Acer pseudoplatanus, í garði í Síðuhverfi í nóvember 2022. Haustvindarnir hafa rifið dálítið í vængina en fræin hanga enn á trénu. Þessi tegund vex villt í Mið-Evrópu. Mynd: Sig.A.
Ísöld
Fyrir ísöld var hér allt annað veður og mun fjölbreyttari flóra en nú er. Áður hefur verið um það fjallað á þessum síðum í fáeinum pistlum og fleiri eru væntanlegir. Í þeim kemur fram að gróður hafði fengið að þróast hér í margar milljónir ára áður en ísöld skall á. Hún er talin hafa hafist fyrir um 2,6 milljónum ára. Hér, í pistli um landnám blæaspa, er aðeins fjallað um gróður á ísöld. Þessi pistill fjallar um birki fyrir ísöld og skyldleika þess við birki sem nú er ræktað í landinu og hér er pistill um gróður fyrir ísöld. Væntanlegir eru pistlar um beyki sem eitt sinn óx á Íslandi og um fenjavið sem nú er löngu horfinn. Ef til vill kemur meira síðar.
Krossanesborgir norðan við Akureyri í desember 2019. Þar má sjá jökulsorfnar klappir eftir ísaldarjöklana. Mynd: Sig.A.
Ísöldin var ekki eitt samfellt kuldaskeið. Þá skiptust á hlýskeið og kuldaskeið. Á hlýskeiðum tókst þeim gróðri sem tórði af kuldaskeiðin að breiðast út en hopaði síðan aftur í næsta kuldaskeiði. Smám saman fækkaði tegundunum en nú er almennt talið að samt sem áður hafi allmargar tegundir lifað af öll kuldaskeiðin. Aðrir telja að allur gróður hafi horfið á ísöld og það jafnvel oftar en einu sinni. Um það má lesa í áðurnefndum pistli um blæaspir. Ein af þeim tegundum sem hvarf á ísöld, eða jafnvel áður en hún skall á, er tré vikunnar: Vænghlynur eða Acer askelssonii.
Plöntusteingervingar vænghlyns úr setlögum á Íslandi. A–b = aldin með stórt fræhús. C–d = blöð og blaðhlutar. Mælikvarðinn er 5 cm. Myndin fengin úr þessari skýrslu bls. 23.
Nafnið
Á íslensku heitir þetta horfna tré vænghlynur. Ástæða þess er sú að vængurinn á fræinu er óvenju stór. Reyndar er það svo að samkvæmt grein Friðgeirs Grímssonar og félaga (2005) hefur óvenjumikið fundist af stórvöxnum fræjum og aldinum í setlögum á Vestfjörðum og Vesturlandi frá síðari hluta tertíer. Auk fræja af hlyni hafa stór fræ af vænghnotu og álmi einnig fundist. Þessi tré uxu hér fyrir um 12 til 6 milljón árum. Ef ísöld hefði ekki skollið á verður að telja líklegt að þessi tré væru hér enn. Ef þróunin hefði haldið hér áfram væru þessi tré sennilega hvergi annars staðar í heiminum. Þá hefðum við einlend tré hér á landi.
Jóhannes Áskelsson, jarðfræðingur, í vettvangsferð með nemendum sínum. Myndin er fengin héðan en hana tók Sigurður Steinþórsson.
Latínuheitið er Acer askelssonii. Acer er gamalt heiti á ættkvísl hlyntrjáa en seinna nafnið er mjög áhugavert. Askelssonii er til heiðurs hinum virta, norðlenska jarðfræðingi Jóhannesi Áskelssyni (1902-1961). Samkvæmt Wikipediu fæddist hann í Fnjóskadal en foreldrar hans bjuggu lengi á Skuggabjörgum í Dalsmynni. Sérgrein hans innan jarðfræðinnar var einmitt rannsókn steingervinga.
Plöntusteingervingar úr Surtarbrandsgili við Brjánslæk sem Jóhannes Áskelsson safnaði og greindi.
Myndin fengin héðan en hana tók Margrét Hallsdóttir.
Aldur
Menjar um vænghlyn hafa ekki fundist í elstu setlagasyrpum Íslands. Það þarf þó ekki að merkja að tegundin hafi ekki verið hér til staðar, heldur einfaldlega að engar vísbendingar eru um þessi tré í þeim. Menjar um vænghlyn finnast í fjórum setlagasyrpum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Leifar tegundarinnar eru bæði aldin og laufblöð og eru allalgeng í setlögum frá seinni hluta tertíer. Þær hafa fundist í setlögum sem eru 12–6 milljón ára gömul eða frá seinni hluta míósen, sem er tímabilið fyrir um 24-5,2 milljónum ára. Engin sýni hafa enn fundist frá plíósen tímabilinu sem þá tók við (nánar um þessi tímabil tertíer má lesa hér) og stóð fram að ísöld sem hófst fyrir um 2,6 milljón árum. Það er nokkrum tilviljunum háð hvort menjar um tré varðveitist í jarðlögum. Því vitum við ekki fyrir víst hvort hlynurinn var hér á plíósen og dó út á ísöld, eða hvort hann dó út á plíósen. Myndin hér að neðan sýnir nöfn og aldur þessara jarðlaga.
Yfirlit yfir setlög með plöntusteingervingum, aldur þeirra og staðsetningu. Hlynurinn finnst ekki í elstu lögunum heldur aðeins í jarðlögum frá seinni hluta míósen.
Myndin fengin er úr aðalheimild þessa pistils og má sjá hér á bls. 16.
Aldin
Aldin hlyntrjáa eru vængjuð, með fræi í festingarenda og aflöngum væng sem teygir sig út frá fræinu. Þessi lýsing á við um aldin hlyntrjáa almennt.
Garðahlynur í Síðuhverfi, þakinn fræjum haustið 2022. Lýsing þeirra er sú sama og hér að ofan en vængirnir og fræhúsin eru miklu minni en á vænghlyn. Mynd: Sig.A.
Sama tré og hér að ofan. Svona lítur það út með laufum. Mynd: Sig.A.
Eins og flest í þessum pistli eru lýsingar á laufum og aldinum úr þessari skýrslu. Lýsingin hefst á bls. 22. Við byrjum á lýsingu á aldinum, því þau eru óvenjuleg og mun stærri en önnur aldin á hlyntrjám. Á það bæði við um fræhúsið og vænginn. Það eru þau sem eru algerlega einkennandi fyrir hina útdauðu tegund. Lýsingin er tegundalýsing og byggir á fjölda eintaka sem rannsökuð hafa verið og eru til í söfnum. Lýsingin er nánast orðrétt úr skýrslunni en aðeins stytt.
Til eru mjög margar tegundir af hlyntrjám í heiminum. Myndin sýnir blöð og aldin tegundar sem ættuð er frá Japan og heitir Acer maximowiczianum. Myndin tekin í Arnold arboratum í Boston 2. október 2012. Mynd: Sig.A.
Vængaldin vænghlyns eru allt að 90 mm að lengd og hlutfallið milli lengdar fræhúss og vængs er nálægt því að vera 1:2. Fræhúsið er breiðlensulaga 13–35 mm langt og 10–20 mm breitt. Fræoddurinn er ávalur og bakhlið fræhússins er í beinu framhaldi af vængnum eða rís aðeins upp fyrir vængbrúnina. Mjög fínlegar og samhliða langrákir eru á yfirborði fræhússins og eru för eftir æðastrengi. Fræhúsið er einnig markað litlum rákum eftir hár sem liggja hornrétt á langrákirnar. Miðás fræhúss myndar 145°–165° horn við miðás vængsins (hornið sem vængurinn myndar við fræhús er oft notað til að greina í sundur tegundir). Vængurinn er með frekar beint bak upp við fræhúsið, þó er stundum skerðing sjáanleg við mót vængs og fræhúss. Skerðing þessi er grunn og gleið. Á neðri hlið aldinsins, við mörk vængs og fræhúss, má oft sjá annaðhvort litla og grunna eða stóra og djúpa skerðingu. Vængurinn er með marga æðastrengi og mynda oft þéttofið strengjamynstur (Friðgeir og félagar 2005 bls. 22).
Mynd úr skýrslu Friðgeirs og félaga frá 2005 þar sem bent er á helstu hugtök sem tengjast lýsingu á aldinum vænghlyns.
Hlynur að þroska fræ í austurrísku Ölpunum. Mynd: Sig.A.
Þegar aldin vænghlyns, A. askelssonii, er borið saman við núlifandi tegundir er erfitt að finna aldin með jafn stór fræhús. Fræhús vænghlyns er mun stærra og hlutfallið milli lengdar þess og vængs er hærra en hjá öllum, þekktum núlifandi tegundum. Þó ber að nefna að aldin silfurhlyns, A. saccharinum (sem ekki má rugla saman við sykurhlyn A. saccharum) , hefur stóra vængi. Silfurhlynur vex nú í suðausturhluta Norður-Ameríku en talið er að á þessum tíma hafi loftslag á Íslandi verið svipað og nú er á þeim slóðum. Hlutfallið milli lengdar fræhúss og vængs hjá silfurhlyn er um 1:3 sem er mun lægra en hjá vænghlyn. Auk þess eru önnur einkenni ólík, svo sem festiör og önnur smáatriði.
Tafla úr áðurnefndri skýrslu Friðgeirs og félaga frá 2005 sem sýnir einkenni aldina núlifandi og útdauðra hlyntegunda sem líkjast íslenska vænghlyninum.
Ef litið er til stærðarinnar eru aldin hins útdauða hvítfuglahlyns, A. whitebirdense, einu aldinin sem eru sambærileg við aldin vænghlyns samkvæmt títtnefndri skýrslu (Friðgeir og félagar 2005). Um þann hlyn má fræðast á þessari Wikipedíusíðu. Leifar þessarar hlyntegundar hafa fundist í jarðlögum í norðvesturhluta Norður-Ameríku, einkum í ríkjunum Idaho, Oregon og Washington. Vekur það nokkra furðu ef tegund frá þeim slóðum reynist náskyld þessari íslensku tegund. Fræhús hvítfuglahlyns er svipað að stærð og hjá vænghlyn og lögun vængsins er einnig mjög lík. Samkvæmt Friðgeir og félögum er það sem helst aðskilur tegundirnar lögun fræhússins og ýmis einkenni á yfirborði fræhúss og vængs. Er þetta tilgreint í töflunni hér að ofan.
Fræ af garðahlyni úr garði Sigurðar G. Tómassonar í Sveinseyri við Varmá í Mosfellsbæ. Mynd: Sig.A.
Blöð
Almennt má segja að flest hlynblöð eru auðþekkt frá blöðum flestra annarra ættkvísla trjáa. Samt er nokkur munur á þeim innbyrðis og sá munur er notaður til að greina í sundur tegundir. Stöku hlyntegundir hafa þó alltöðruvísi laufblöð en þá koma fræin upp um tegundirnar. Dæmi um slíka tegund má sjá hér að neðan.
Kínverska hlyntegundin Acer davidii hefur ekki mjög dæmigerð hlynblöð en fræin koma upp um fjölskyldutengslin. Myndin tekin í Grasagarðinum í Edinborg í ágúst árið 2019. Mynd: Sig.A.
Alls konar laufblöð, mest af ýmsum hlyntegundum, að hausti í grasagarði í Boston. Mynd: Sig.A.
Varðveittir steingervingar af hlynblöðum á Íslandi eru mismunandi af stærð. Stafar það líklega af aldri blaðanna. Yngri blöð eru minni en eldri blöð. Hin steingerðu blöð eru öll með fleiri en einn aðalstreng og áberandi sepa. Fjöldi sepa er samt mismunandi eftir sýnum. Lögun blaðanna, strengjakerfið og blaðröndin eru einkennandi fyrir blöð sem tilheyra vænghlyn.
Eins og vænta má er hér byggt á sömu skýrslu og áður þegar lýsing blaðanna er tekin upp. Aftur er lýsingin nánast orðrétt, en dálítið stytt. Þeim sem vilja nánari lýsingu er bent á skýrsluna.
Steingervingar af vænghlyn. 1. Hlynblað frá Þrimilsdal við Hreðavatn.
2. Blaðbrot frá Þrimilsdal við Hreðavatn. 3. Blaðbrot frá Brekkuá við Hreðavatn. Myndin fengin úr þessari ritgerð eftir Margréti Theódóru Jónsdóttur bls. 26.
Blöðin eru fjölstrengja og handsepótt með (3) 5 eða 7 sepa. Heildarlengd blöðkunnar frá blaðbotni og fram í blaðodd miðsepans er 20–140 mm. Blöðin eru tiltölulega breið. Breidd blöðkunnar á milli blaðodda efri hliðar sepanna er 20–190 mm. Blaðoddar sepanna eru aflangir og oddhvassir. Efri hliðarseparnir eru næstum jafnstórir og miðsepinn. Neðri hliðarseparnir eru hins vegar nokkru minni. Allir separnir hafa aflangan og hvassan odd. Blöðin eru með stilk sem er 24–55 mm langur og 1–3,5 mm breiður. Aðalstrengjakerfið er fjölstrengja með 3-9 aðalstrengi sem koma frá miðjum blaðbotni. Hliðarstrengir eru margir eða 6-11 pör (Friðgeir og félagar 2005: bls. 24-25).
Fáni Kanada er með stílfærða mynd af rauðu laufi sykurhlyns. Hann er þjóðartré Kanada. Sumir segja reyndar að fánin sýni stílfært laufblað af hlyntré burtséð frá því hvaða tegund það á að vera.
Þeir Friðgeir og félagar (2005) láta ekki hjá líða að bera blaðlögunina saman við aðrar útdauðar tegundir, sem og lifandi tegunda. Besta samsvörunin við útdauðar hlyntegundir er sama tegund og líkust er aldinum, eða hvítfuglahlynur, A. whitebirdense. Blöðin eru lík en þó ekki nákvæmlega eins.
Laufblað sykurhlyns, Acer saccharum, í Boston í Bandaríkjunum árið 2012. Blaðið er gult en byrjað að roðna. Mynd: Sig.A.
Haustlauf broddhlyns, A. platanoides, að Mógilsá í Kollafirði. Mynd: Sig.A.
Af núlifandi tegundum líkjast blöðin helst hinum ameríska sykurhlyn, A. saccharum, og hinum evrópska og asíska broddhlyn, A. platanoides. Sá síðarnefndi hefur verið ræktaður á Íslandi en ekki reynst eins harðgerður og garðahlynur, A pseudoplatanus, en lifir þó víða.
Ljósmyndari myndar laufblöð broddhlyns, A. platanoides, í grasagarði í Boston. Mynd: Sig.A.
Steingerð blöð vænghlyns eru lík blöðum sykurhlyns og broddhlyns. Þó eru frávik það mikil, að sögn Friðgeirs og félaga, að ekki er hægt að telja vænghlyn til þessara tegunda.
Sykurhlynur í Arnold Arboratum í Boston að byrja að fara í haustliti.
Mynd: Sig.A.
Ályktun
Sykurhlynur og broddhlynur eru í flestum flórubókum taldar náskyldar tegundir. Líklegast eiga þær sér sameiginlegan forföður sem nýtti sér landbrúna sem lá um Ísland á tertíer milli Norður-Ameríku og Evrópu. Vænta má þess að um tíma hafi ekki verið hægt að aðgreina þessar tegundir. Svo rofnaði landbrúin. Þá tóku þessir aðskildu hópar að þróast hvor í sína áttina og teljast nú til sitt hvorrar tegundarinnar. Þær eru því mismunandi greinar af meiði sameiginlegs forföður, ef svo má segja. Ein grein þess erfðatrés varð eftir á Íslandi og myndaði sérstaka tegund. Hún var frábrugðin frændum sínum í austri og vestri á þann hátt að aldinin, bæði fræhús og vængir, urðu hér stærri en handan stækkandi Atlantsála. Hér þróaðist þetta tré sem einlent tré en varð að lokum að láta í minni pokann. Líklegast er að það hafi gerst þegar hér tók að kólna. Þróunin hefur gengið of hægt fyrir sig og að lokum dó tréð út. Frændur þeirra eru þó enn lifandi og að minnsta kosti annan þeirra er hægt að rækta á Íslandi, ef vilji er fyrir hendi. Hinum má flagga.
Sumar hlyntegundir hafa virkilega fallega haustliti. Mynd: Sig.A.
Heimildir
Friðgeir Grímsson, Leifur A. Símonarson og Walter L. Friedrich (2005): Kynlega stór aldin úr síðtertíerum setlögum á Íslandi. Í Náttúrufræðingurinn, 73. árg. 1.-2. hefti 2005. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. Sjá:https://www.researchgate.net/publication/273762005_Kynlega_stor_aldin_ur_sidtertierum_setlogum_a_Islandi_Unusually_large_samaras_from_late_Miocene_sediments_in_Iceland/link/550aee690cf265693ceecf73/download
Margrét Theódóra Jónsdóttir (2009): Skyldleiki íslensku tertíerflórunnar við núlifandi flóru í Norður-Ameríku. BS ritgerð, jarðvísindadeild, Háskóli Íslands, Reykjavík. Sjá: https://skemman.is/bitstream/1946/4296/1/BSfinale_MargretJonsd_fixed1.pdf?fbclid=IwAR1Zhj-x1RAHSjLqUYJA-2JTdeAATjULjdg-MvzptIDFbIMltUsIrfofy1s
Rafrænna heimilda er getið þar sem til þeirra er vitnað.
Þakkir fyrir ábendingar fær Ari Egilsson.
Comments