top of page

Sérfræðingar með sérþarfir

Updated: Feb 24

Tré eru sérfræðingar. Hver tegund býr yfir sérþekkingu og sérþörfum sem eru aðrar en hjá næstu tegund. Á þessari sérfræðiþekkingu er samkeppni þeirra um ljós, vatn, næringu og annað sem trén þurfa grundvölluð. Ef til væri sérstakt himnaríki fyrir trjátegundir má gera ráð fyrir að þar sé hæfilegur raki, fullt af aðgengilegum næringarefnum, hlýtt og bjart en þó ekki um of, fullt af sambýlisörverum sem hjálpa til en lítið um sveppi sem leggjast á lifandi vefi og enn minna um plöntuétandi afræningja. Svona staðir eru vandfundnir í henni veröld.


Birki getur þrifist þótt skilyrðin séu ekki til fyrirmyndar. Þarna vex það í klettaeyju í Jökulsá á Dal en sauðfjárbeit kemur í veg fyrir að það vaxi beggja vegna árinnar. Þar gæti það þó náð mun meiri þroska af það fengi að vaxa. Mynd: Sig.A.


Ýmiss tré geta vaxið við mjög sérhæfð og í sumum tilfellum ákaflega erfið skilyrði. Þau lifa ekki af nema skilyrðin henti þeim betur en öðrum trjám sem annars gætu vaxið á sama stað. Þannig kemur sérfræðikunnáttan fram.


Landnám

Tré hafa lítið um það að segja hvar fræ þeirra lenda. Þau treysta gjarnan annað hvort á vind eða dýr til að dreifa fræjunum. Um það hefur áður verið fjallað, t.d. í þessum pistli.

Fræin geta flækst heilmikið um, bæði í tíma og rúmi. En þegar það loks spírar á nýjum stað má segja að teningunum sé kastað. Eftir það getur það truðla fært sig úr stað, nema ef við teljum rótarskot og sveiggræðslu til ferðalaga. Svo má vel vera að spendýrategundin sem telur sig viti borna geti flutt trén, en það er önnur saga. Eftir að fræið spírar, eða trjáplöntu er plantað verður ekki aftur snúið. Tréð verður að gera sitt besta til að lifa við þær aðstæður sem því er skaffað af duttlungum náttúrunnar. Fyrir ung tré getur þetta verið heilmikil áskorun. Það er öldungis óvíst að staðsetningin henti þörfum trjánna. Þá reynir á sérfræðiþekkinguna. Þegar þau vaxa upp er eins og þau hafi sameinast um slagorðið: „Rétt tré á réttum stað“.


Þetta birki vex upp úr malbiki. Það er samt ekki heppilegasti vaxtarstaðurinn en sýnir vel hvað birki getur vaxið við slæm skilyrði. Þarna tókst bleksveppnum ullserk, Coprinus comatus, að sprengja sig upp í gegnum malbikið og það dugði birkinu. Mynd: Sig.A.


Þessi víðir lifir og vex. Þetta er samt ekki heppilegasti staðurinn til vaxtar. Veggir þessa eyðibýlis voru einangraðir með torfi og það dugar víðinum. Mynd: Sig.A.


Áður en við segjum skilið við fræin má nefna sérfræðiþekkingu stafafurunnar, Pinus contorta. Hér á landi eru ræktuð strandkvæmi hennar og innlandskvæmi. Útlitsmunur þeirra er töluverður þegar vel er að gáð og kvæmin hafa þróast til að nýta sér mismunandi aðstæður. Skógareldar eru miklu algengari í meginlandsloftslagi en í röku strandloftslagi. Þetta hefur orðið til þess að innlandskvæmin dreifa fræjum sínum helst í kjölfar skógarelda. Þá eru bestu tækifærin til að fræin geti orðið að trjám. Þess vegna opnast könglarnir ekki nema við mikinn hita. Skógareldarnir opna þá! Ef við viljum ná fræi úr meginlandskvæmum stafafurunnar er einfaldast að setja þá í bakaraofn. Strandkvæmin haga sér ekki svona en opna köngla sína án þess að mikinn hita þurfi til enda skógareldar fátíðir í rakanum.

Stafafuran þarf ekki mikið og getur verið ljómandi góð landgræðsluplanta. Ef vel er að gáð má sjá margar, sjálfsánar furur á myndinni Þarna hefur ekki þurft skógarelda til að opna könglana. Mynd: Sig.A.


Þarfir trjáa

Hvert tré þarf hæfilegt magn af birtu, hæfilegan raka, skjól við hæfi, heppileg næringarefni, hita við hæfi og svo mætti lengi telja. Þarfir og kröfur tegunda geta verið mismunandi. Ekki nóg með það. Þarfir mismunandi kvæma innan tegunda geta einnig verið mismunandi. Mismunandi eiginleikar kvæma og tegunda ráðast af þeim umhverfisþáttum sem þau hafa þróast við. Verður nú lítillega fjallað um suma þessara þátta og sérfræðingar skilgreindir í hverjum flokki.


Stafafurur eru sérfræðingar í að vaxa við ótrúlega erfið skilyrði. Þessi vex út úr berginu við þjóðveginn skammt frá göngunum í gegnum Vaðlaheiði.

Mynd: Sig.A.

Steinar veita gott skjól sem plöntur geta nýtt sér. Að auki geta steinar gefið fólki skjól sem þarf að hlýða kalli náttúrunnar. Það getur líka hjálpað gróðrinum. Mynd: Þráinn Gíslason.

Birta

Mjög er misjafnt hvaða kröfur tré gera til birtu. Sum eru ljóselsk, önnur skuggþolin. Svo eru sum sem geta verið skuggþolin framan af ævinni, eins og t.d. reynir, en þurfa meiri birtu með auknum aldri.


Fullt af reynitrjám í skuggsælum greniskógi. Með auknum aldri eykst birtuþörf þeirra. Mynd: Sig.A.


Almennt má segja að svokölluð frumbýlistré, svo sem birki, Betula spp., elri, Alnus spp. og víðir, Salix spp. séu ljóselskar tegundir. Þær vaxa gjarnan fremur hratt í æsku. Aðrar tegundir þurfa minni birtu en þiggja skjólið sem frumbýlistrén veita. Má þar nefna þin, Abies spp. og þallir, Tsuga spp. Skuggþolnu síðframvindutrén vaxa oft hægar en frumbýlingarnir, enda liggur þeim ekkert á. Þeirra tími mun koma.


Ung fjallaþöll, Tsuga mertensiana, við Balmoral kastala í Skotlandi. Þallir geta orðið mjög stór tré en vaxa fremur hægt, enda liggur þeim ekki á. Þær eru sérfræðingar í ljósleysi en vilja gott skjól. Þallir þekkjast meðal annars á toppvextinum. Mynd: Sig.A.Sumir segja að ungum beykitrjám sé beinlínis fremur illa við mikla sól, enda hafa þau þróast í dimmum laufskógum. Sjálf kasta fullorðin beykitré miklum skugga. Þau hleypa mjög litlu ljósmagni í gegnum krónuna og til jarðar. Það hentar afkvæmum þeirra vel. Að auki er í beykiskógum feikigott skjól fyrir öllum vindum. Þetta eru kjöraðstæður fyrir ungar beykiplöntur en einnig fyrir ývið. Því má gjarnan finna stöku ýviðartré í beykiskógum. Við þessar aðstæður getur það tekið heila öld fyrir ýviðinn að ná um tíu metra hæð. Það gerir ekkert til. Ýviðurinn er ekkert að flýta sér. Margt getur hent tré í uppvexti sem vaxa svona hægt. Ef til vill kemur hjartardýr og étur af því eins og einn áratug af greinum. Eða eitt beykitréð fellur og kremur ýviðinn undir sér. Við þessu hefur tegundin brugðist með því að leggja óvenju hátt hlutfall kolefnisbindingar sinnar í ræturnar. Ef eitthvert áfall hendir tréð búa ræturnar yfir varaforða sem nýtist trénu ljómandi vel til að bæta fyrir skaðann.

Fallinn Ýviður í skóglendi við bæinn Dalkeith í Skotlandi. Hann gefst ekki upp. Sumar greinarnar ákváðu einfaldlega að gerast stofnar. Hvernig ætli þetta tré líti út eftir fimm hundruð ár? Mynd: Sig.A.Af þessum sökum er ýviður æði oft margstofna í skógum Evrópu. Meginstofninn hefur mátt þola margt en tréð gefst ekki upp. Þar sem ýviðurinn getur orðið miklu, miklu eldri en beykið er nokkuð öruggt að það mun lifa flest beykitrén í skóginum. Þolinmæði er dyggð.


Myndir úr bókinni Elements of Ecology. Sú fyrri sýnir magn ljóss sem berst í gegnum skóga. Tré sem vaxa upp í þéttum skógi þurfa að komast af með lítið ljós. Seinni myndin sýnir dæmigerðan laufskóg og magn þeirrar ljósorku sem kemst niður í skóginn. Það er breytilegt eftir árstíðum og kemur þar bæði til laufmagn og sólarhæð. Rétthafi ©: Pearson Education, Inc.Aðgengi að vatni

Rétt eins og hjá okkur mannfólkinu geta tré haft mismikinn áhuga á drykkju. Sum tré þrífast prýðilega í þurru landi og ræturnar beinlínis drukkna í of miklum raka. Önnur eru aldrei glaðari en í hálfgerðri bleytu en veslast upp í þurrki. Þau vilja aldrei láta renna af sér. Mjög fáar trjátegundir eru samt þannig úr garði gerðar að þær kjósi að standa í bleytu. Við slíkar aðstæður geta ræturnar beinlínis drukknað og þar með drepst tréð. Of mikil drykkja er engum holl.

Þessi mynd úr Krossanesborgum sýnir okkur að birkinu þykir gott að drekka en vill ekki vera blautt í fæturna. Það raðar sér meðfram mýrinni en þrífast ekki ef of blautt er. Þar sem þurrara er ber ekki mikið á birkinu. Mynd: Sig.A.


Í hinum stóra heimi eru þó ýmiss fenjatré þekkt. Slík tré hafa sérstakar loftrætur sem standa upp úr vatni og sjá til þess að trén drukkni ekki. Á því jarðsögutímabili sem kallast tertíer uxu slík tré á Íslandi. Þegar kólna tók dugði sérfræðingsþekking þeirra ekki til og þau dóu út. Þau gátu ekki aðlagast kaldari tíð. Hér er nánar sagt frá þeim.

Sérfræðingar í að vaxa í vatni. Mynd úr bókinni Elements of Ecology.

Rétthafi ©: Pearson Education, Inc.


Plöntur geta nýtt sér allskonar brögð til að lifa af í vatnsmettuðum jarðvegi (og þar með súrefnissnauðum). Sumar plöntur mynda og safna ethylene í ræturnar. Það örvar frumur til sjálfseyðingar og myndar þannig loftfyllt hólf í plöntunum (Smith & Smith 2015).

Af núverandi trjám sem ræktuð eru á Íslandi má nefna ýmsar víðitegundir, Salix spp., sem þrífast ágætlega í fremur blautum jarðvegi. Selja, Salix caprea, er ein þeirra sem telst til sérfræðinga á þessu sviði. Sumar gerðir af elri, Alnus spp., eru einnig vel aðlagaðar fremur blautum jarðvegi. Má þar nafna Alnus glutinosa sem ýmist er kallað svartelri eða rauðelri á íslensku. Það hefur einskonar loftrásir sem geta fært súrefni til rótanna þótt þær standi í vatnsmettuðum jarðvegi. Þetta minnir einna helst á kafara sem tengdir eru með loftslöngu við andrúmsloftið. Á neðsta hluta stofnsins eru sérstakar korkfrumur sem hleypa lofti inn. Ef vatnsyfirborðið hækkar svo mikið að þessar sérhæfðu frumur fara í kaf er framtíð þessara trjáa ansi svört. Þess vegna getur svartelri ekki vaxið í djúpu vatni en þrífast vel í vatnsósa jarðvegi. Svipaða sögu má segja af vætuelrinu, A. rugosa, sem er á grafinu hér að neðan.

Mynd úr bókinni Elements of Ecology sem sýnir samband milli ljóstillífunar (photosynhtesis) og safaspennu í laufum (water potential). Nánar má lesa um vatnsþörf í þessum pistli. Elrið, Alnus, ljóstillífar mest ef rakinn er nægur. Eikin, Quercus, getur ljóstillífað við mun minni vatnsþrýsting. Askurinn, Fraxinus, er þar mitt á milli. Rétthafi ©: Pearson Education, Inc.

Þennan hæfileika hafa elritré í mismiklu magni. Satt best að segja á þetta hreint ekki við um sumar tegundir þess. Þær geta alls ekki vaxið í mýrum eða öðrum vatnsfylltum jarðvegi. Sérstaklega ef vatnið er ekki á hreyfingu og því súrefnissnautt. Þannig hefur gráelri, Alnus incana, oft verið plantað í mýrarjaðra án þess að það nái neinum þroska. Standi það á lækjarbakka gegnir öðru máli. Þar er gnægð af súrefnisríku vatni en ekki -snauðu eins og í mýrunum. Því er líka sama þótt vatnavextir á vorin setji það tímabundið á kaf. Í þeim aðstæðum er það sérfræðingur.


Gerð jarðvegs getur ráðið miklu um rakaheldni hans. Þessi mynd sýnir að þurrkáhrifa getur gætt í sendnum jarðvegi (súlan lengst til vinstri). Myndin er úr bókinni Elements of Ecology. Regnvatn rennur ofan í jarðveginn þegar það fellur til jarðar. Hvað um vatnið verður ræðst m.a. af holrýminu sem er á milli jarðvegskorna. Jarðvegur er vatnsmettaður = Saturation: Þegar það er meira vatn í honum en holurýmið getur tekið við (grænt á mynd).

Wilting point kallast visnunarmörk. Þegar þeim er náð geta plöntur ekki lengur dregið vatn úr jarðveginum. Field capacity eru sigmörk þá fyllir vatn holrýmið og efnakraftar halda því þar.

Niðurstaðan er því sú að það magn af vatni sem er í boði fyrir plöntur hverju sinni er magnið á milli sigmarka og visnunarmarka. Það er blátt á myndinni. Ef lífrænum efnum er komið í sendinn jarðveg verður auðveldara fyrir gróðurinn að ná í tiltækt vatn. Að auki miðlar gróðurinn sjálfur vatninu svo það renni ekki í burtu. Rétthafi ©: Pearson Education, Inc.

Næringarefni

Eftir því sem jarðvegurinn er ríkari af næringarefnum má búast við meiri vexti. Sum tré gera þó meiri kröfur en önnur og sum eru sérfræðingar í að komast af í næringarsnauðum jarðvegi. Sumir sérfræðingarnir hafa meira að segja brugðið á það ráð að ráða sér aðstoðarmenn (sem eru oftast frekar aðstoðargerlar eða -sveppir en -menn) til að ná í næringarefni sem öðrum trjám eru ekki aðgengileg. Það gefur þeim heilmikið forskot í snauðum jarðvegi. Þessi aðstoð getur verið svo rausnarleg að aðrar kröfuharðari tegundir geta nýtt sér hana með tíð og tíma. Frumbýlingar af ættkvíslum elris, Alnus spp., hafþyrnis, Hippophae spp. og fleiri tegunda hafa ráðið til sín gerla af ættkvíslinni Frankia spp. sem lifa á rótum tegundanna og vinna nitur eða köfnunarefni beint úr andrúmsloftinu. Tegundir af ætt belgjurta gera þetta líka, en eru í sambýli við aðrar örverur. Um þær má lesa hér. Svipað ferli á sér stað þegar tré ráða sér aðstoðarsveppi.

Lerki getur komist af og sýnt ágætan vöxt við erfið skilyrði. Þessi sérfræðingur vex á Hólasandi og hefur ráðið rauðsmára (sem er belgjurt) sér til aðstoðar. Mynd: Sig.A.


Það að hafa svona örverur í starfsliði sínu er samt ekki ókeypis. Það krefst mikillar orku. Hún kemur frá sólinni enda eru nánast allar plöntur sérfræðingar í að nýta hana til ljóstillífunar. Þess vegna er það svo að nánast undantekningalaust eru þær plöntur sem tekið hafa upp samband við niturbindandi örverur ákaflega ljóselskar. Þær þrífast ekki ef birtu skortir. Þá hafa þær ekki næga orku til að fóðra starfsliðið sitt. Af þessu getum við lært. Enginn ætti að ráða sér starfsfólk sem ekki getur greitt því fyrir hjálpina.

Sitkaölur , Alnus sinuata, og blæölur, A. tenuifolia, á Þorlákshafnarsandi, tíu árum eftir gróðursetningu í örfoka, sandorpið helluhraun. Ölurinn (eða elrið) kann vel við sig í nánast hreinum sandi. Engin samkeppni við annan gróður sem truflar hann. Ölurinn bindur töluvert nitur með aðstoð Frankia. Þess vegna er það svona grænt á litinn. Smám saman myndast frjótt vistkerfi sem líklegt er til að standa af sér hverskyns áföll.

Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.Til eru trjátegundir eins og gullregn, Laburnum spp. (sem einmitt er belgjurt), sem er ekkert sérstaklega vel við að vaxa í of frjóu og röku landi. Þá vaxa greinarnar stundum of mikið og verða teygðar. Jafnvel svo mjög að þær standa varla undir sér. Slíkum trjám er hættara við að brotna undan vindi eða snjóþyngslum. Það kýs frekar sendinn, fremur þurran jarðveg. Þá nýtist sérfræðiþekkingin (tengsl við gerla á rótum) best.


Gullregn ber nafn með rentu. Mynd: Sig.A.Kröfur um hita

Hitakröfur trjáa eru ákaflega ólíkar og geta ráðist af fleiri þáttum, svo sem aðgengi að vatni. Eftir því sem hitinn hækkar eykst vatnsþörfin (Smith & Smith 2015, Tudge 2005). Rétt eins og hjá okkur mannfólkinu er það svo að sum tré þurfa mun meira vatn ef hitinn er mikill. Önnur eru sérfræðingar í að komast af í öfgakenndum hitaveðrum. Sum hafa aðlagast því að vaxa þar sem frost ríkir hluta ársins á meðan aðrar tegundir þola það alls ekki. Sumar tegundir þola töluvert frost yfir vetrartímann en þurfa mikinn hita yfir sumarið. Þannig háttar einmitt til inn til landsins á stórum meginlöndum. Nær hafinu getur sjórinn dregið úr kuldanum á vetrum en einnig úr hitanum á sumrin. Þannig er það mun oftar skortur á hita á sumrin frekar en kuldi vetrarins sem setur plöntum takmarkanir á Íslandi. Má nefna sem dæmi ýmiss yrki af eplatrjám sem ekki ná að þroska epli hér á landi því sumarið er ekki nægilega hlýtt eða einfaldlega of stutt. Samt sem áður þola þau miklu meira frost í heimkynnum sínum en þau þurfa að þola hér á landi.

Mynd úr bókinni Elements of Ecology sem sýnir sérfræðiþekkingu trjáa. Rétthafi ©: Pearson Education, Inc.

Önnur tré eru sérfræðingar í að lifa í miklum þurrkum og steikjandi hita. Slík tré finnast helst í jöðrum á stórum eyðimörkum. Svoleiðis tré þrífast ekki á Íslandi, en við höfum fjallað um sum þeirra. Má nefna sem dæmi þetta tré og þennan runna. Við erum með sérstakan hlekk á síðunni okkar fyrir framandi tré. Þar má lesa um tré með sérþarfir sem gera það að verkum að þau þrífast ekki hér á landi.

Svo má geta þess að meyjarósin ´Eos´, sem vex meðal annars í Lystigarðinum, er betur aðlöguð aðstæðum á Akureyri en víðast hvar í Evrópu. Ef sumrin eru of heit myndar hún engar nýpur og þar með engin fræ. Í erlendum rósabókum er sagt frá því að hún myndi engar nýpur. En við vitum betur. Sumarhitinn á Akureyri hentar henni alveg prýðilega og hér myndar hún árlega nýpur. Um hana má lesa hér.

Rósin ´Eos´ myndar aldin á Íslandi en ekki þar sem sumrin eru of heit. Sérþarfir hennar gera hana að sérfræðingi á Íslandi. Mynd: Sig.A.


Mismunandi áskoranir

Oftast er það þannig að eftir því sem skilyrði til trjáræktar eru almennt betri, þeim mun fleiri tegundir geta vaxið. Eftir því sem skilyrðin versna reynir meira á sérfræðiþekkinguna. Í hitabeltisregnskógum heimsins eru alveg prýðileg skilyrði fyrir allskonar líf. Þar eru líka mun fleiri tegundir trjáa en eftir því sem nær dregur eyðimörkum eða köldum heimsskautasvæðum. Þar vaxa færri tegundir og sumar geta orðið nær einráðar á stórum svæðum. Það á t.d. við um sum barrtré, einkum greni, Picea spp. í barrskógabeltinu. Þau eru sérfræðingar í stuttum sumrum og miklu frosti. Er það efni í sér pistil.

Á heitum, þurrum gresjum má finna marga sérfræðinga eins og nefnt er hér ofar. Þekktastir þeirra eru tegundir af ættkvísl akasíutrjáa. Ekki dugar minna en þrír pistlar um þær til að segja frá þeim mögnuðu trjám. Þá má finna hér, hér og hér. Í regnskógum hitabeltisins er vandinn allt annar. Hann er sá að skilyrðin eru svo yfirgengilega góð. Það er margt sem getur fylgt þannig lúxusvandamálum sem erfitt er að ráða við.

Í Washington myndar silfurþinur, Abies amabilis, skóga eins og þennan þar sem aðstæður henta. Myndin fengin héðan en hana tók Ed Book.


Vandamál hinna vel stæðu

Í regnskógum hitabeltisins eru allt önnur vandamál. Hvergi er líffjölbreytni á þurru landi meiri. Á það jafnt við um allar gerðir lífvera. Þegar fjölmargar trjátegundir vaxa á hverjum hektara getur verið býsna langt á milli einstaklinga af sömu tegund. Það kallar á nýja gerð af sérfræðiþekkingu, sem er að koma frjói á milli einstaklinga sem langt er á milli. Ótrúleg hugkvæmni (reyndar má sennilega frekar tala um tilviljanir og þróun) hefur orðið til í þessum tilgangi. Má þar nefna hina stóru ættkvísl fíkjutrjáa, Ficus spp.

Stór fíkjutré í Havana á Kúpu. Myndin fengin héðan en hana tók Ian Parker.

Annað vandamál er það að það sem hentar flestum trjám vel getur einnig hentað ýmsum öðrum lífverum. Mikill líffjölbreytileiki regnskóganna nær einnig yfir allskonar sjúkdóma og amadýr. Sem dæmi má nefna að margar tegundir sveppa kunna alveg sérstaklega vel við sig í miklum hita og raka. Svo eru það líka þannig að allskonar dýr, sem vilja éta plöntur, eru miklu fjölbreyttari á svona stöðum. Sem betur fer á það líka við um rándýrin. Því er það svo að beit veldur sjaldan teljandi skaða í regnskógum. Það á jafnt við um stóra grasbíta, smávaxnar pöddur og allt þar á milli. Svo eru það hinir fjölbrettu sjúkdómar sem leggjast á tré. Þeir eru ákaflega breytilegir en eiga sér ekki endilega náttúrulega óvini eins og grasbýtarnir. Margir þeirra búa yfir mikilli sérfræðiþekkingu og leggjast helst eingöngu á tilteknar ættir, ættkvíslir eða jafnvel einstakar tegundir. Það gæti verið ástæða þess að í slíkum skógum er náttúruleg einræktun býsna sjaldgæf. Ef tré af ákveðinni tegund standa mörg saman er miklu líklegra að sjúkdómar geti breiðst hratt út og náð til allra einstaklinganna og valdið miklu tjóni. Ef langt er á milli trjáa af sömu tegund minnka líkurnar umtalsvert.

Það er ekki þrautalaust að lifa við svona góð skilyrði. Ef til vill þekkjum við sambærileg lúsusvandamál í mannheimum. Sumir telja að vont sé að eiga enga peninga á meðan aðrir benda á að erfitt er að eiga peninga á Íslandi.

Regnskógur á Balí. Ótrúlega fjölbreytt vistkerfi finnast í regnskógum. Myndin fengin héðan en þar eru skógarnir auglýstir.


Mynd úr barrskógabeltinu. Hér er það skógur í Altaifjöllum í Kína.

Myndin fengin úr myndbandi sem má skoða hér. Þótt í þessum skógi sé mikil fjölbreyttni á hann ekki roð í hitabeltisskógana.Staðan á Íslandi

Hér á landi þarf trjágróður að takast á við allskonar aðstæður. Þegar grannt er skoðað geta þó fjölmargar tegundir vaxið hér. Með því að búa í haginn má fjölga þeim tegundum verulega sem hér vaxa. Skjólgóðir garðar bjóða upp á skilyrði sem ekki finnast á víðavangi. Því geta tegundir vaxið í görðum sem ekki þrífast á berangri án skjóls. Það getur verið mjög heppilegt að kynna sér þarfir trjátegunda til að skapa hverju tré sem heppilegastar aðstæður og setja rétt tré á rétta staði. Þannig má búa til fallegri og fjölbreyttari skóga og skóga sem binda sem mest af kolefni svo dæmi séu tekin.

Vel skipulagður skógur austur í Skriðdal. Mynd og gróðursetning: Sig.A.

Þegar skógræktaráætlanir eru gerðar fyrir skógarbændur er einmitt tekið tillit til þessara þátta. Þá er skógræktin skipulögð út frá því hvaða tré eru talin þrífast best á hverju svæði og hvaða tré þrífast vel saman.

Full ástæða er til að fjalla sérstaklega um það í öðrum pistli við tækifæri.


Landgræðsluskógur ofan við Melgerðismela í Eyjafirði. Þrjár tegundir frumbýlistrjáa sjást á myndinni: Lerki, birki og fura. Nú veita þær skjól og hafa bætt jarðveginn. Nú væri hægt að fjölga tegundunum. Mynd: Sig. A.Heimildir


Thomas M. Smith & Robert Leo Smith (2015) Elements of Ecology kaflar 4 og 6. Person Education Limited. Edinburgh Gate, Exis, England.


Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.316 views0 comments

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page