top of page

Mannarunni

Updated: Oct 25, 2023

Hin litla ættkvísl Alhagi vex á heitum, þurrum svæðum í Norður-Afríku og austan við Miðjarðarhafið allt austur til Indlands og Mongólíu. Hún mun því væntanlega seint verða brúkuð á Íslandi en samt er ástæða til að fjalla aðeins um hana. Samkvæmt heimildum eru tegundir innan ættkvíslarinnar þrjár til sex og allar hver annarri líkar. Þetta eru belgjurtir af ættbálknum Hedysareae og er náskyld lykkjubaunum (Hedysarum) sem ræktaðar eru á Íslandi og þrífast hér vel. Bæði lykkjubaunir og þessi litla Alhagi-ættkvísl binda nitur úr andrúmsloftinu sem nýst getur vistkerfinu sem þær lifa í.


Mannarunni í þurru graslendi í Tyrklandi.


Pílagrímaplöntur

Nafn ættkvíslarinnar er úr arabísku en Al-Haggi, Al-Hajji eða Alhaju mun merkja pílagrímur á því víðfeðma máli og er ritað svona: الحاج


Vel mætti því nefna ættkvíslina pílagrímaplöntur á íslensku ef þörf er á að gefa henni sérstakt, íslenskt heiti.


Tegundir ættkvíslarinnar lifa allar á þurrum svæðum, jafnvel eyðimörkum og hafa verið nýttar til landgræðslu á slíkum stöðum, rétt eins og frænkur þeirra; lykkjubaunirnar.


Blóm mannarunna eru dæmigerð fyrir ertublómaættina.


Mannarunni

Ein planta af þessari ættkvísl, A. graecorum er runni sem gefur stundum frá sér sætt, hvítleitt, gúmmíkennt efni í gegnum greinarnar sem hægt er að nýta til matar. Þegar það myndast lítur það nánast út eins og héla í eyðimörkinni. Þar er komin hin merkilega fæða „manna“ sem Guð var svo elskulegur að gefa Ísraelsmönnum til að bjarga þeim frá hungri á hinni löngu eyðimerkurgöngu þeirra sem sagt er frá í 16. kafla annarrar Mósebókar Gamla testamentisins. Það er auðvitað einboðið að kalla þessa tegund mannarunna á íslensku.

Frásögnin er með dálitlum ævintýrablæ en vel má ímynda sér að það sé einhver kjarni í henni sem við getum tekið mark á. Hver og einn verður svo að ákveða hver sá kjarni er.


Þeir sem líta á Gamla testamentið sem gamlar þjóðsögur geta sagt: „Þetta sýnir að sagan segir ekki frá kraftaverki heldur náttúrufyrirbæri.“

Þeir sem trúa vilja því sem stendur í Gamla testamentinu geta sagt: „Þetta rennir stoðum undir frásögnina um kraftaverk Guðs.“


Mannarunni í Ísrael.


Frásögnin í annarri Mósebók

Hér verða birtar glefsur úr þessari frægu sögu en allan kaflann má finna hér.


„13 Um kvöldið komu lynghænsn og þöktu búðirnar en morguninn eftir hafði dögg fallið umhverfis búðirnar. 14 Þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt yfir eyðimörkinni líkt og héla. 15 Þegar Ísraelsmenn sáu það spurðu þeir hver annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. Þá sagði Móse við þá: „Þetta er brauð sem Drottinn hefur gefið ykkur til matar.“"

Er þessi lýsing eitthvað kunnugleg (þá er ekki átt við lynghænurnar)?


„ 31 Ísraelsmenn nefndu þetta manna. Það var hvítt eins og kóríanderfræ og eins og hunangskaka á bragðið.“


Sá sem þetta pikkar verður að játa að hann hefur ekki hugmynd um hvernig þessar útfellingar á mannarunnum bragðast né hvort það væri leiðinlegt að borða þær í hvert mál í langan tíma. Vonandi hefur Ísraelsmönnum til forna ekki þótt það. „35 Ísraelsmenn átu manna í fjörutíu ár, þar til þeir komu í byggt land. Þeir átu manna þar til þeir komu að landamærum Kanaanslands.“


Heimildaskrá

Myndirnar eru fengnar af síðunni: Plants of the World Online sem Kew Gardens sér um. Sjá:

Aðrar heimildir eru:

Höfundur ókunnur: Önnur Mósebók 16. Kafli. Sjá; https://biblian.is/biblian/onnur-mosebok-16-kafli/ Sigurður Arnarson 2014; Belgjurtabókin. Sumarhúsið og Garðurinn.

Lewis, Gwilym o,fl. (ritstjórn) 2005; Legumes of the World. Bls. 492. Royal Botanic Gardens, Kew. 576 blaðsíður.

190 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page