top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Akasíutegundir

Updated: Apr 9, 2023

Í fyrri pistli um akasíur voru fáeinar tegundir af akasíum nefndar. Við munum nú segja lítillega frá örfáum tegundum svona til að varpa ljósi á fjölbreytni ættkvíslarinnar og mikilvægi. Eins og fram kom í pistlinum, sem birtist 2. nóvember 2022, er ættkvíslin mjög stór. Heimildir eru ekki alveg sammála um fjöldann en tölur frá 1300 til 1450 hafa heyrst nefndar. Ógjörningur er að segja frá þeim öllum og verður það ekki reynt. Þess í stað nefnum við nokkrar áhugaverðar tegundir sem fulltrúa ættkvíslarinnar. Aðeins fáar þeirra hafa fengið íslenskt heiti og oft eru tegundirnar vandgreindar hver frá annarri og geta sumar blandast saman.

Þetta er annar pistillinn af þremur um akasíur. Í þeim fyrsta var sagt frá því að þótt við þekkjum akasíur einkum úr náttúrulífsmyndum BBC frá Afríku eru flestar tegundirnar í Ástralíu. Annars finnast þær í öllum heimsálfum nema Antarktíku. Þriðji pistillinn kemur síðar og fjallar um varnir akasíutrjáa. Hér á eftir er sagt frá nokkrum einkennistegundum. Þeim er raðað eftir stafrófsröð fræðiheita.


Svona myndir þekkja flestir frá sléttum Afríku. Pirraðir og skapstórir fílar eiga það reyndar til að ryðja niður akasíutrjám. Þannig viðhalda þeir gresjum sem þeim líkar betur við en skóga. Myndin er fengin héðan.


Acacia catechu

Á Indlandi eru taldar vaxa einar 18 tegundir innlendra akasíutrjáa og -runna. Sem dæmi um tegund þaðan nefnum við þennan runna. Hann vex um nánast allt landið. Tegundin getur orðið um 15 metra há með nokkuð þykkan börk sem flagnar af í ræmum. Nánari lýsing er hér. Áður fyrr þóttu afurðir runnans mikilvæg útflutningsvara. Þær voru sendar til Kína, Persíu og Arabíu strax á 17. öld. Helst voru unnin efni úr tegundinni til sútunar og litunar. Síðar var farið að flytja tegundina til Japans og Japanir fóru að flytja afurðir til Evrópu á 18. öld. Þess vegna er tegundin stundum kennd við Japan á evrópumálum, en þar vex hún ekki villt. Í Asíu er tegundin einnig nýtt sem náttúrulyf. Varla er til það mein sem hún á ekki að geta lappað upp á ef marka má þessa vefsíðu. Hvort það stenst allt saman veit sá er þetta pikkar ekki. Aftur á móti liggur fyrir að tegundin er enn nýtt í hóstamixtúrur í Evrópu. Sjá t.d. hér.


Sérkennilegur börkurinn á A. catechu sést vel á þessari mynd. Myndin er fengin héðan.

Acacia cornigera

Þetta er tegund frá Mið-Ameríku og er einkum þekkt fyrir sýna stóru, holu þyrna sem vaxa alltaf tveir og tveir saman við blaðfótinn og minna í útliti á horn á nautgripum. Því er tegundin nefnd bullhorn acacia á enskri tungu eða nautahornsakasía. Að vísu eru þyrnarnir minni en nautshorn. Því eru þau kölluð cachito á máli heimamanna í Panama. Það merkir smáhorn. Í þessum holu þyrnum eiga maurar heima sem verja tréð fyrir allskonar ófögnuði sem herjar á það. Til að verðlauna maurana enn frekar framleiða trén prótínríka olíudropa sem maurarnir éta með þökkum.

Þessi tegund af akasíum er ein af þeim sem lifa ekki í þurru loftslagi eins og finna má á sléttum Afríku. Þvert á móti. Þær lifa í regnskógum.


Myndin fengin af Pinterst og sýnir maura og þyrna sem minna á nautshorn. Eigandi myndar er University of Colorado Museum of Natural History.



Silfurakasía, Acacia dealbata

Hér er komin ein af þeim fáu tegundum sem hafa íslenskt heiti. Tegundin er áströlsk og sígræn. Oftast er hún ræktuð sem runni en hún getur þó náð allt að 30 metra hæð. Silfurakasíur eru ræktaðar víða um heim þar sem aðstæður henta. Hún þarf heittemprað loftslag en þolir væg næturfrost, enda gera stundum frost á heiðskírum nóttum á hennar heimaslóðum. Hún stendur sig svo vel að Konunglega breska ræktunarfélagið, Royal Horticultural Society, RHS, hefur verðlaunað hana sem úrvalstegund.

Reyndar verður að segja eins og er að sumum þykir um of hvað silfurakasíur eru duglegar. Þær eiga nefnilega til að sá sér út frá ræktun. Nú má finna sjálfsánar silfurakasíur víða í heittempraða beltinu. Má nefna staði eins og Sochi við Svartahaf sem dæmi.


Silfurakasíur eru ræktaðar vegna hinna fögru blóma sem stundum eru nýtt í blómvendi. Laufin eru silfurblá á litin og ber hún af því nafn sitt. Myndirnar eru héðan.


Acacia eriloba

Þetta er tegund sem bar á góma í síðasta pistli. Það sem hún er þekkt fyrir er að geta lifað í mjög miklum þurrkum. Jafnvel í eyðimörkum. Ástæða þess er sú hversu djúpt rótarkerfi hún hefur. Rætur hennar geta farið niður í allt að 12 metra dýpi. Þar má stundum finna nægilegt vatn þótt allt sé að skrælna við yfirborðið. Annað sem svona djúpt rótarkerfi gerir er að ná í uppleyst næringarefni sem kunna að vera svona djúpt niðri og flytja þau upp í tréð. Þannig nær A. eriloba að nýta næringarefni sem ekki eru öðrum trjám tiltæk og koma þeim í lífhringrásina. Þannig gagnast hún öllu vistkerfinu. Tréð vex hægt en getur með tíð og tíma náð allt að 20 metra hæð. Sumir vilja skilja þessa tegund frá akasíum og setja hana í aðra ættkvísl. Sjá hér. Myndirnar þrjár eru frá sömu síðu. Þær eru teknar í Kalaharíeyðimörkinni í Namibíu.


Ilmakasía, Acacia farnesiana

Ein af þeim fáu tegundum akasíutrjáa og -runna sem fengið hafa íslenskt heiti er ilmakasía. Þessi tegund er lítið tré eða stór runni sem ber nafn með rentu. Ilmakasía er ein af þessum akasíum sem víða eru ræktaðar. Ástæða þess eru hin vellyktandi blóm. Ilmakasía er ættuð úr miðhluta Ameríku. Hún vex allt frá norðurhluta Síle og norður til Texas og Arizona. Aftur á móti er hún ræktuð miklu víðar. Í raun í öllu heittempraða beltinu. Alls staðar þar sem hún vex þrífst hún á þurrum stöðum og sáir sér víðast hvar út ef aðstæður henta. Má þar nefna Flórída og Hawaii sem dæmi. Á þeim eyjum líta reyndar margir á hana sem hálfgert illgresi. Að vísu er það alveg sérlega vel ilmandi illgresi.

Árið 1611 voru fyrstu plönturnar fluttar frá Mið-Ameríku til Miðjarðarhafslanda af spænskum kristniboðum. Fyrst mun ilmakasía hafa verið ræktuð í garði kardínála að nafni Odoardo Farnese. Viðurnefnið í latínuheitinu er einmitt dregið af nafni hans. Strax vöktu blóm tegundarinnar verðskuldaða athygli. Önnur eins blómalykt þekktist ekki! Því miður skortir tungumálið orð til að lýsa svona merkilegri lykt. Nema hvað Frakkar áttuðu sig á því að þarna væri viðskiptatækifæri og hófu að rækta tegundina í Frakklandi árið 1625. Á 17. og 18. öld þótti einboðið að bæta lykt í frönskum kirkjum með ilmi þessara blóma og allt meiri háttar fólk í Frakklandi reyndi að rækta tegundina í görðum sínum. Þar kom að Frakkar fóru að rækta ilmakasíur á suðurhluta Frakklands. Í ljós kom að á frönsku Riveunni hentar loftslag prýðilega fyrir tegundina. Þar er tegundin enn ræktuð og kölluð cassie af heimamönnum. Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að átta sig á hvaðan það nafn er runnið. Úr blómunum er stundum unnin olía sem seld er undir sama heiti.

Blóm ilmakasíu eru mikilvægt hráefni í ilmvatnsgerð Frakka enn þann dag í dag. Það hjálpar til að tegundin blómstrar tvisvar á ári svo uppskerutíminn er nokkuð langur. Blómin eru alltaf tínd á morgnana þegar þau eru upp á sitt besta, en lyktin minnkar þegar sólin er hátt á lofti. Svo er tínt tvisvar eða þrisvar í viku.


Vestur í Texas eru þessi tré á heimavelli og talin mikilvæg. Samt er þar ekki teljandi ilmvatnsframleiðsla. Aftur á móti eru á sama svæði ræktaðar býflugur. Þar gengur plantan undir nafninu Huisache. Annars gengur þessi fræga tegund vanalega undir heitinu sweet acacia á ensku. Þar vísar lýsingarorðið sweet í sætan ilminn. Býflugur sækja mjög í blóm tegundarinnar. Kemur sér þá vel að plantan blómstrar tvisvar á ári eins og áður er frá greint. Sérstaklega þykir heppilegt að hún blómstrar á þessum slóðum í janúar og febrúar þegar lítið er um önnur blóm. Það gerir tegundina mjög mikilvæga fyrir hunangsframleiðslu í Texas.


Það má vel ímynda sér að í þessum þurra garði sé mikil lykt af ilmakasíunni. Myndina tók Robert Perry og er hún fengin héðan.


Acacia greggii

Þess er rétt að geta að í Norður-Ameríku er önnur akasíutegund einnig ræktuð vegna býflugna. Kallast hún A. greggii og hefur hroðalega þyrna sem nánar verður sagt frá í næsta akasíupistli. Hún hefur blómgun í apríl og tekur því við af ilmakasíunum sem mikilvæg fæðuuppspretta býflugna. Það er einmitt sá tími sem býflugur í Texas eru mest á ferðinni. Hunang sem býflugur vinna úr þessum trjám gengur undir nafninu Uvalde hunang.

A. greggii framleiðir að auki æt fræ sem menn geta nýtt sér ef þeir passa sig á þyrnunum. Viður tegundarinnar er svo harður að forðum var hann nýttur í nagla. Opinberlega hefur þessi tegund ekkert íslenskt heiti en er á sumum málum kennd við klær katta.



Blóm á A. greggii. Þau eru misjafnlega mikið þroskuð. Myndin fengin héðan.


Hornkastanía, Acacia horrida

Hornkastanía er oftast stór runni en breytist stundum í tré með tímanum. Það sem helst einkennir tegundina eru alveg svakalegir þyrnar. Bæði íslenska og latneska heitið vísar í það. Hryllingsakasía hefði jafnvel hæft henni betur. Þyrnarnir verða allt að 8 cm á lengd. Þar sem tegundin finnst, í Afríku, Asíu, Indlandi og Suður-Ameríku, eru greinarnar gjarnan notaðar til að girða af húsdýr. Fáar skepnur hætta sér í gegnum slíkar girðingar. Annars er viðurinn einnig nýttur til smíða og börkurinn til sútunar svo dæmi séu nefnd.

Værir þú til í að fara í gegnum þessa girðingu? Myndin fengin héðan.

Hornakasíur og stór spendýr sem éta lauf hafa þróast saman lengi og háð samfellt þróunarstríð. Þrátt fyrir þessa löngu gadda éta gíraffar, kameldýr og geitur lauf af greinunum. Þessi dýr hafa þróað með sér langa tungu sem dýrin geta beitt af þvílíkri snilld að broddarnir stingast ekki í þær. Þess vegna halda þessi dýr áfram að éta lauf af hornakasíum, þrátt fyrir lagvopnin.


Það verður að teljast magnað að dýr skuli leggja það á sig að éta lauf af svona runnum, þrátt fyrir þyrnana. Myndin fengin héðan.


Acacia mangium

Þessi ástralska tegund er ef til vill mest ræktaða tegundin sem til er af þessari stóru ættkvísl. Ástæðan er fyrst og fremst timbrið en tegundin er einnig ræktuð sem hjálparplanta í blandaðri ræktun. Hún bindur nitur og varpar heppilegum skugga til að auðvelda ræktun á öðrum, verðmætum trjám. Hún vex fremur hratt og hefur beinan stofn.


Blóm og blöð á A. mangium. Myndin fengin frá Forestowlet.


Þessi tegund er ræktuð í heimalandi sínu en í enn meira mæli á Indlandi. Viðurinn er mjög harður, brúnn að lit með aðeins gulleitum gljáa og mjúka áferð. Þessi harði og mjög svo þungi viður er ákaflega sterkur og ólíklegur til að verpast eða springa við þurrkun. Hann er gjarnan nýttur í húsgögn, dyr, glugga og sem gólffjalir svo dæmi séu tekin. Hin mjúka, glansandi áferð gerir viðinn einnig vinsælan í hvers kyns rennismíði og listmunasmíði.

Nánar má lesa um þetta tré hér.


Ung plantekra af A. mangium. Myndin fengin héðan. Þar er þess getið hvað gott er að nýta tegundina sem undanfara í skógrækt. Bætir jarðveg með kolefnis- og niturbindingu ásamt því að vaxa hratt.


Acacia melanoceras

Hér er nefnd til sögunnar tegund frá Mið-Ameríku. Hún hefur tekið upp mjög náið sambýli við maura. Greint verður frá þessu sambýli í næsta pistli sem fjallar um varnir akasíutrjáa. Við getum samt ekki stillt okkur um að hafa hana með hérna til að minna á sérstaka þyrna hennar. Þeir eru stórir en holir að innan. Þá nýta maurarnir sem híbýli en veita trénu allskonar þjónustu í staðinn.


Maurar af ættkvíslinni Pseudomyrmex á þyrnum akasíu. Þyrnarnir eru holir að innan og nýtast sem húsaskjól.

Myndin er fengin héðan og er í eigu Alex Wild.


Acacia melanoxylon og A. auriculiformis

Þessar tvær tegundir eru teknar hér saman enda nýttar á sama hátt. Báðar eru þær ástralskar og þola mikla þurrka. Þær eru báðar háðar gerlum sem lifa á rótunum og vinna nitur beint úr andrúmslofti eins og svo algengt er með belgjurtir. Það hjálpar þeim að lifa í mjög næringarsnauðu landi. Þess vegna eru báðar tegundirnar gjarnan notaðar til uppgræðslu. Sú síðarnefnda þrífst jafnvel í menguðum jarðvegi og er nýtt til að græða upp yfirgefin námusvæði. Að auki eru báðar tegundirnar nýttar til viðarframleiðslu. Notkun þeirra er svipuð og hjá A. mangium sem nefnd er hér að framan.


A. auriculiformis tilbúnar til gróðursetningar. Myndin er fengin héðan.


Acacia nigrescens

Hér er komin ein af akasíunum frá savanasléttum Afríku. Þetta er þurrkþolin tegund sem verður 5-18 metrar á hæð og með stofn sem verður að minnsta kosti 50 cm í þvermál. Tegundin er eftirsótt til átu af ýmsum sléttudýrum. Á ensku og tungumálum frumbyggja er tegundin gjarnan kölluð eitthvað í líkingu við hnúðþyrnir (enska: Knob Thorn). Ástæða þess eru áberandi hnúðar á bol og greinum plöntunnar. Út úr þeim vaxa þyrnar. Þess vegna er það ekkert sérstaklega vinsælt að klifra í þessum trjám. Annars hefur þetta tré einnig þyrna við blaðfótinn á laufunum, tvo og tvo saman, eins og svo algengt er. Þetta tré myndar tannín eða sútunarsýru í laufum sínum og í enn meira mæli í blómunum. Þrátt fyrir það sækja gíraffar í blómin. Þeir narta dálítið í þau áður en þau færa sig að næsta tré og gera það sama þar. Vísindamenn fullyrða að með því frjóvgi þau blóm tegundarinnar. Verður það að teljast óvenjulegur frjóberi. Hér má lesa sitthvað meira um þetta tré og myndirnar eru af sömu síðu.


Tréð, hnúðar á stofni og fræbelgir af A. nigrescens.


Acacia pycnantha

Árið 1988 völdu Ástralar sér þjóðarblóm. Fyrir valinu varð þessi runni sem getur orðið alveg þakin gulum, vellyktandi blómum. Hann getur orðið um 8 metra hár og vex oftast sem undirgróður í tröllatrjáaskógum (Eucalyptus) í Ástralíu, einkum sunnan til. Blómgun stendur lengi yfir. Hún hefst síðla vetrar og stendur fram á fyrri part sumars. Hjá andfætlingum okkar er þetta tímabil frá júlí og fram í nóvember.

Þjóðarblóm Ástrala, Golden Wattle, A. pycnantha. Myndin fengin héðan.


Þar sem loftslag hentar hefur tegundin gjarnan verið ræktuð sem skrautrunni víða í heiminum. Það er ekkert undarlegt þegar horft er til fegurðar og hins langa blómgunartíma. Ástralir kunna að meta þessa tegund og hefur hún ratað á mörg frímerki og stílfærð mynd af blóminu er notað sem hermerki þar í landi. Það hefur jafnvel verið stungið upp á stílfærði mynd á nýjan þjóðfána.



Acacia tortilis

Hér er komin tegund sem margir þekkja af myndum. Hún hefur þetta dæmigerða regnhlífarútlit, eða ætti maður frekar að segja sólhlífarútlit. Hún vex nefnilega á þurrum svæðum á Afríku. Hún er talin þola allt frá 0-50°C og þar sem það hitastig, ásamt þurrki, er nokkuð útbreitt í Afríku má finna tegundina víða í þeirri álfu. Í æsku er þessi tegund oft runni en verður með tímanum að einstofna tré sem getur náð yfir 20 metra hæð. Vaxtarlagið á þessari tegund og hornakastaníu, A. horrida, sem nefnd er hér að ofan er líkt og má sjá þær í fjölda náttúrulífsmynda frá Afríku.

Dæmigert útlit akasíutrjáa á sléttum Afríku Nálægt trénu má sjá runna sem vel gætu verið sama tegund. Tegundin myndar ekki tré fyrr en síðar. Myndin fengin frá Wikipediu en hana á Robur.q


Á Wikipediasíðu um þetta tré er sagt að búið sé að taka þessa tegund úr akasíuættkvíslinni og setja hana í nýja ættkvísl. Kallast tegundin þá Vachellia tortilis. Eitthvað er bogið við þessa ættfræðslu því bæði heitin eru talin fullgild á vef yfir plöntuheiti sem haldið er úti af Kew Gardens og kallast World Flora Online (WFO). Þarna er komið upp vandamál sem hvorki verður leyst af stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga né starfsmönnum félagsins.


Sebrahestar leita í skuggann af A. tortilis. Myndin fengin héðan.


Acacia tumida

Upprunalega vex þessi stóri runni í eyðimörkum Norður-Ástralíu. Hann verður um 5-15 metra hár og kann vel við sig í sandi. Aftur á móti verður hann ekki mjög langlífur. Sjaldan meira en 10 ára gamall og er þá búinn að mynda heilan helling af fræjum, ef allt fer samkvæmt áætlun. Heimamenn nota viðinn gjarnan sem eldivið og fræin eru ljúffeng. Að auki má búa til búmerang úr viðnum.

A. tumida í fullum blóma. Myndin fengin héðan.


Vegna kosta sinna hefur þessi runni verið ræktaður í eyðimörkum í Norður-Afríku. Einkum í Senegal og Niger. Þar er hann nýttur til að hefta sand, styðja við aðra ræktun og svo sem eldiviður. Að auki hafa þarlendir lært að meta fræin til matar. Sjá nánar hér.

Önnur tegund, A. colei er frá sömu slóðum og nýtt á sama hátt. Hún er lægri runni. Oftast bara 2-4 metrar á hæð. Stundum þó eitthvað hærri. Einnig er A. torulosa frá Ástralíu nýtt á sama hátt. Hér má sjá athyglisverða glærusýningu eftir Peter Cunningham um mikilvægi þessara tegunda á Sahil-svæðinu.


Glærur úr glærusafni Peter Cunningham um akasíur í Niger sem nefnt er hér ofar.


Acacia xanthophloea

Þessi tegund var nefnd í síðasta pistli. Hún er þekkt fyrir mikið vistfræðilegt þanþol. Hún getur vel vaxið í þurru loftslagi eins og svo margar aðrar akasíur en hún þolir einnig að standa tímabundið í vatni. Jafnvel árlega. Þannig aðstæður; flæðilönd, er víða að finna við stórár í heiminum. Þær flæða reglulega yfir land og færa allt í kaf. Sá gróður sem þar þrífst þarf þá að þola að standa stundum á kafi í vatni og stundum í þurru landi. Þetta kann þessi tegund alveg ljómandi vel við. Stundum má einnig finna þessa tegund við mýrar og annarsstaðar þar sem vatnsstaða er almennt hærri en í eyðimörkum.


A. xanthophloea við árbakka í Mósambík. Ef til vill ekki það sem manni dettur í hug sem vaxtarstað fyrir akasíur. Myndin fengin héðan.


Fleiri merkar tegundir

Í bókinni Lives of the Trees eftir Diana Wells (2010) segir frá því að á ritunartíma Biblíunnar hafi stærstu trén á Sínaiskaga verið akasíur. Haft er fyrir satt að sáttmálsörkin, sem getið er um í Gamla testamentinu, sé einmitt smíðuð úr við úr akasíum. Á hebresku kallast akasíur shittim og getur bæði átt við um tegundina A. nilotica (kennd við ána Níl) og A. seyal (kennd við arabíska orð yfir straum). Báðar þessar tegundir eru nefndar í fyrri pistli. Að auki vex ofangreind tegund A. tortilis, einnig á skaganum. Á þessum tveimur fyrrnefndu tegundum vex hin merkilegasta sníkjujurt. Heitir hún Loranthus acaciae. Viðurnefnið vísar einmitt í það að hún vex á akasíum. Sú planta sníkir á ungum akasíum og myndar blóm sem fljótt á litið minna á eldtungur. Í fyrrnefndri bók er sagt frá því að sumir telji að hér sé komin skýringin á eldtungunum sem Móses gamli sá í runnanum forðum og greint er frá í Opinberunarbókinni. Aðrir vilja meina að ekki þurfi að finna grasafræðilegar skýringar á þeirri sögu. Lokamyndin sýnir ekki akasíu, heldur þessa sníkjujurt sem á henni lifir.


Vel má ímynda sér þessa sníkjuplöntu sem eld í runna. Hér má skoða myndband sem sýnir þetta betur.


Heimildir

David Attenborough (1995: Einkalíf plantna. Þýðing: Óskar Ingimarsson. Bókaútgáfan Skjaldborg hf, Reykjavík.


Donald Culross Peatti (2007): A Natural Historu of North American Trees. Trinity University Press, San Antonio, Texas.


Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.


Diana Wells (2010): Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.


Sigurður Arnarson (2014): Belgjurtabókin. Sumarhúsið og Garðurinn.




133 views0 comments

Recent Posts

See All

Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page