top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Hinar mikilvægu akasíur

Updated: Apr 9, 2023

Flest okkar þekkja akasíur þótt við vitum ekki endilega af því. Varla er til sá náttúrulífsþáttur sem sýnir okkur lífríki úr hitabeltinu þar sem þær sjást ekki. Aftur á móti eru það aðeins sum okkar sem borið hafa þær augum, enda vaxa þær ekki á norðlægum slóðum. Best þekkjum við þær af gresjum Afríku og öðrum heitum gresjum. Þar mynda þær skugga og fæðu fyrir stóran hóp dýra. Gíraffar, fílar, kameldýr, antilópur og húsdýr eins og geitur og nautgripir eru mjög háðar akasíum. Önnur dýr leita svo svalan skuggann. Hér birtist fyrsti pistillinn af þremur um akasíur.

Morgunflug fugla í Serengeti í Tansaníu. Svona myndir af akasíum eru vel þekktar. Mynd: Jeff Mauritzen.


Ættfræði

Akasíur eru gríðarstór ættkvísl innan belgjurtaættarinnar og kallast Acacia á latínu. Belgjurtaættin er þriðja stærsta plöntuætt í heimi og er henni gjarnan skipt upp í þrjár undirættir. Undirættin sem akasíur tilheyra er þá kölluð Mimosoideae í fræðiritum. Sumir grasafræðingar vilja ganga lengra og skilja þessa undirætt frá aðalættinni enda eru blómin nokkuð frábrugðin öðrum blómum í belgjurtaættinni. Þeir sem hallast að þessu kalla hina nýju ætt Mimosaceae. Í báðum tilfellum er ættin, eða undirættin, kennd við mímósur sem eru stundum ræktuð sem stofublóm á Íslandi. Þessi undirætt á enga ættingja utan dyra á Íslandi, enda vaxa allar tegundirnar í heitum löndum. Sjálf ættkvíslin (Acacia) er talin innihalda um 1300 til 1450 mismunandi tegundir trjáa og runna í öllum heimsálfum nema Suðurskautslandinu. Það gerir akasíur að næststærstu ættkvísl belgjurta í heiminum. Af þeim hafa aðeins 10 til 13 fengið íslenskt heiti sem ratað hefur í orðabanka. Til eru þeir grasafræðingar sem vilja skipta ættkvíslinni upp. Jafnvel í fimm eða fleiri ættkvíslir. Samt eru ákveðin atriði sem eru sameiginleg öllum akasíum. Má sem dæmi nefna að grunnlitningafjöldinn er alltaf 13. Til eru tvílitna tegundir með 26 litninga (13x2=26) og fjöllitna tegundir með allt að 208 litninga (13x16=208). Talið er að í sumum tilfellum hafi akasíur, einhverra hluta vegna, einfaldlega tvöfaldað litningatölu sína og síðan jafnvel tvöfaldast aftur. Í öðrum tilfellum eru tví- og fjöllitna plöntur komnar til vegna kynblöndunar ólíkra tegunda. Sumir af þeim geta verið frjóir og myndað fræ með kynæxlun við sambærilega blendinga. Má þá líta á þær sem nýjar tegundir.

Svo eru til akasíur sem gefist hafa upp á kynæxlun. Þær mynda einfaldlega fræ án frjóvgunar (apomixis) eins og við þekkjum hjá sumum reyni- tegundum. Aðrar treysta meira á rótarskot eins og blæaspirnar okkar.

Annað einkenni ættarinnar eru þyrnarnir. Þeir geta verið nokkuð mismunandi en eru oftast bæði stórir og áberandi. Nær alltaf eru þeir tveir og tveir saman. Fleira mætti telja til en þetta dugar í bili.


Fjölbreyttastar eru akasíur í Ástralíu. Hér er runni í fullum blóma sem heitir Acacia pycnantha. Myndin fengin héðan en hana tók Bruce Maslin. Þessi tegund myndar þjóðarblóm Ástrala.

Dreifing um heiminn

Vel má vera að akasíuættkvíslin sé sú mikilvægasta af öllum trjáættum hitabeltisins, bæði efnahagslega og vistfræðilega. Þess vegna höfum við ákveðið að pistlarnir um þessi merku tré verði þrír! Tegundirnar finnast um nær allt hitabeltið og heittempraða beltið. Þótt við þekkjum akasíur helst úr dýralífsmyndum af sléttum Austur-Afríku vaxa þær mun víðar. Algengastar eru þær í Ástralíu. Meira en 950 tegundir finnast þar og eru kallaðar wattles eða mímósur (sem er allt önnur planta af sömu undirætt) af heimamönnum. Blöðin á þeim minna vissulega á mímósur sem margir kannast við. Nokkrar tegundir frá Ástralíu hafa verið ræktaðar í görðum í Evrópu og má stundum finna umfjöllun um þær í erlendum garðyrkjubókum. Þær eru þó tæplega nægilega harðgerðar til að þrífast utandyra á Íslandi.

Um það bil 230 aðrar tegundir vaxa í nýja heiminum og þar eru þær algengastar í Mexíkó. Um 135 tegundir eru í Afríku, einkum á gresjunum austanvert í álfunni. Þar eru þær oft eini möguleiki gresjudýra til að komast í kærkominn skugga í steikjandi sólarbreyskjunni. Það eru þessar tegundir sem við könnumst best við úr dýralífsþáttum.

18 tegundir vaxa á Indlandi og fáeinar aðrar víðar í Suðaustur-Asíu. Ofangreindar tölur eru fengnar úr bókinni The Tree (Tudge 2005).


Fræbelgir á indverskri akasíu, Acacia catechu. Myndin fengin héðan.


Vaxtarstaðir

Þar sem við þekkjum akasíur einna helst úr náttúrulífsmyndum frá sléttum Afríku kann það að koma á óvart að sumar akasíur vaxa á fremur rökum svæðum. Sérstaklega á það við um nokkrar amerískar tegundir. Þær finnast meira að segja í regnskógum. Það er jafnvel þekkt að sumar, eins og A. xanthophloea kunna því ágætlega að vaxa á flæðilöndum.


Blöð, blóm og þyrnar á A. xanthophloea. Myndin fengin héðan.


Miklu algengara er samt að finna akasíur á þurrum stöðum. Sumar eru meira að segja aðlagaðar mjög miklum þurrkum. Nokkrar, eins og afríska tegundin A. eriloba, hafa mjög öflugt rótarkerfi sem nær niður á allt að 12 metra dýpi. Aðrar hafa þróað með sér lítil laufblöð sem eru jafnvel bara eins og litlir blaðstilkar eða smáþyrnar. Á þennan hátt tekst þeim að tempra vatnstap. Margar akasíur ganga jafnvel lengra og losa sig við laufin í þurrkatíð. Sumar losa sig við öll laufin í einu en aðrar losa sig aðeins við hluta laufanna þannig að á hverjum tíma hafa þær aðeins nægilegan fjölda laufa til að stunda ljóstillífun án þess að tapa of miklu vatni. Svo eru til eins konar eyðimerkurtegundir sem laufgast um leið og fyrstu vatnsdroparnir falla. Það kunna antilópur, kameldýr og gíraffar vel að meta, því ekkert annað er þá í boði. Sama á við um heimamenn sem þá safna nýjum laufum fyrir aðframkomin húsdýr sín.

Sumar akasíur eru býsna þolnar á umhverfisbreytingar. Má nefna tegundina A. seyal sem dæmi. Viðurnefnið seyal kemur úr arabísku og mun merkja eitthvað í líkingu við straumur. Það vísar í vaxtarstaði þessara akasíutrjáa. Þær eiga það til að vaxa í árfarvegum sem standa lengst af alveg skraufþurrir. Svo þegar loksins rignir breytast þeir í stóreflis straumfljót sem engu eira, nema akasíunum. Þær kunna þessu bara ágætlega og standa styrkum rótum í farvegunum og fá nóg að drekka. Sú sælutíð stendur þó jafnan stutt.


Acacia auriculiformis hefur verið nýtt til landgræðslu. Myndin fengin héðan.


Almennt má segja að akasíur vaxi vel í rýrum eða röskuðum jarðvegi. Þær eru því prýðilegar frumherjaplöntur. Sem dæmi má nefna áströlsku tegundirnar A. melanoxylon og A. auriculiformis. Sú síðarnefnda er einnig þekkt fyrir að þola mengaðan og mjög basískan jarðveg. Hún er gjarnan notuð hjá andfætlingum okkar til að græða upp eftir námugröft. Fáar tegundir gagnast betur við slíkt.

Margar akasíur eru háðar skógar- eða kjarreldum. Á þetta hefur áður verið minnst á þessum síðum í þessum pistli. Í þeim pistli segir einnig frá því að til eru akasíufræ sem bíða í allt að 60 ár eftir því að rétt skilyrði skapist til spírunnar. Það að akasíur séu á einn eða annan hátt háðar eldum er mest áberandi meðal ástralska tegunda. Þótt þær séu margar háðar skógareldum er ferlið hreint ekki það sama hjá þeim öllum. Í sumum tilfellum virðist sem eldurinn komi að stað ferli sem hrindir blómgun að stað og síðan fræmyndun. Þetta getur verið ágætis bragð til að samstilla blómgun svo hún þjóni tilgangi. Algengara er þó að fræin myndist áður og bíði spennt eftir eldunum og spíri ekki nema eftir skógarelda. Í öðrum tilfellum brenna trén en rótin lifir og upp vaxa rótarskot. Sama ferli er einnig þekkt hjá akasíum í Afríku og við þekkjum þetta hérna á Íslandi hjá birki.


Acacia alata vex upp eftir minniháttar skógarelda nærri Perth í Ástralíu.


Sambýli

Eins og svo algengt er meðal belgjurta hafa akasíur tekið upp samband við gerla sem hjálpa þeim að vinna nitur úr andrúmsloftinu. Það er auðvitað meginástæða þess hversu vel þeim vegnar í rýrum jarðvegi. Reyndar hafa rannsóknir sýnt að sumar akasíur hafa ekki þetta sambýli. Samt sem áður skiptir þetta sambýli mjög miklu máli þegar á heildina er litið. Það eykur magn niturs í lífríkinu sem nýtist á fjölbreyttan hátt.

Nitrið nota plöntur meðal annars til að búa til prótín sem er mikilvægt byggingarefni frumna. Þaðfinnst í hvötum, erfðaefni og blaðgrænu. Prótín eru byggð upp af amínósýrum sem eru úr kolefni, vetni, súrefni og nitri. Plantan fær öll efnin í amínósýrurnar með ljóstillífun, nema nitrið. Það tekur hún úr jarðvegi sem nítratjónir. Því ræðst prótíninnihald plantna einna helst af því hversu mikið nitur plantan nær að taka upp. Þar skipta þessir rótargerlar miklu máli. Dýr þarfnast þessara efna. Því er það svo að alla jafna eru prótínríkar plöntur eftirsóttar til beitar. Það á svo sannarlega við um akasíurnar. Víða á vaxtarstöðum sínum eru akasíur mjög mikilvæg fæðuuppspretta fyrir fjölmörg spendýr. Allt frá antilópum til fíla nýta lauf og greinar til átu. Sama á við um húsdýr. Einnig eru til tegundir fugla sem nærast mikið á bæði fræjum og laufi akasíutrjáa.


Gíraffi fær sér að éta akasíulauf. Myndin fengin héðan.


Akasíur hafa einnig sambýli við sveppi. Þeir mynda svokallaða svepprót eins og fjallað er um hér. Sveppræturnar hjálpa trénu við að taka upp vatn og næringarefni og eru akasíum mjög mikilvægar. Annað sambýli akasía er þó frægara. Það er sambýlið við maura. Svo er að sjá sem slíkt samband hafi verið tekið upp aftur og aftur, samkvæmt Tudge (2005). Sambýlið getur því verið allólíkt, bæði eftir tegundum trjáa og maura.


Maurar á akasíuþyrni. Myndin fengin héðan.

Verður hér nefnt sem dæmi að tegundin A. melanoceros í Mið-Ameríku hýsir maura af ættkvíslinni Pseudomyrmex á meðan afríska tegundin A. seyal hefur ráðið til sín maura af ættkvíslinni Crematogaster. Þessar ættkvíslir maura eru lítt skyldar og sýnir vel að þetta sambýli hefur verið tekið upp oftar en einu sinni í gegnum þróunarsöguna.

Nánar verður fjallað um það undir „Varnir akasíutrjáa“ en sá pistill birtist síðar og verður þriðji pistillinn um akasíur.

Þar fyrir utan hafa akasíur sambýli við ýmsar tegundir til að koma frjói á milli blóma. Alls konar skordýr (sjaldan hörgull af þeim í hitabeltinu) hjálpa til við frævun blómanna. Má þar nefna flugur, bjöllur og í meira mæli býflugur. Einnig eru til tegundir sem nýta sér fugla í þessum tilgangi. Afríska tegundin A. nigrescens hefur meira að segja tekið gíraffa í sína þjónustu. Það er vel til fundið, því þeir ræna hvort eð er laufum af trjánum. Þá er heppilegt að nýta þá í leiðinni sem sendiboða með frjó.

Eftir að fræ hafa myndast grípa sumar tegundir akasía einnig til þjónustu dýra við að dreifa fræjunum. Sumar hafa aldin með skærum litum til að laða að fugla. Aðrar koma fræjunum fyrir við brumin. Stærri dýr, svo sem antilópur og fílar, sækja í brumin og éta fræin í leiðinni. Þau ganga svo heil niður af dýrunum þegar þar að kemur og hjá sumum tegundum eru þau beinlínis háð því að fara í gegnum meltingarvegi dýra.


Fíll undir akasíutré. Myndin fengin héðan.


Fræin og fræbelgir á sumum akasíum í Afríku eru sérlega eftirsótt af ýmsum dýrum. Til eru bjöllutegundir sem sækja mjög í að verpa í næringarrík fræin. Bjöllurnar eru svo duglegar að þær ná að verpa í nánast öll fræin. Í þeim vex upp lirfa sem nærist á fræinu. Þau fræ spíra aldrei. Stór dýr eins og fílar og gíraffar eru sólgin í þessi sömu fræ. Eitthvað af fræinu verður á milli tannanna á þessum stóru dýrum og þau eiga ekki möguleika á að lifa. Alltaf er samt eitthvað sem fer ómarið niður meltingarveginn. Þau fræ lenda í sýrubaði í maga dýranna. Sýran veikir skurn fræsins sem auðveldar spírun. Ekki nóg með það. Sýran virkar eins og ljómandi fínt skordýraeitur og steindrepur bjöllulirfurnar sem í fræunum kunna að vera Attenborough (1995). Þess vegna er það svo að þótt stóru spendýrin éti og skemmi akasíur geta trén ekki án þeirra verið þegar kemur að fjölgun.


Að ofansögðu má sjá að akasíur gegna ákaflega mikilvægu hlutverki í þeim vistkerfum sem þær vaxa í. Þau eru nánast eins og hótel fyrir fjölbreyttar tegundir dýra af öllum stærðum og gerðum og auðga lífríkið á fjölbreyttan hátt.


Fræ og fræbelgir af akasíu. Myndin fengin héðan.


Efnahagur

Margar akasíutegundir hafa verið fluttar á milli landa vegna mikilvægi þeirra í ræktun. Sem dæmi má nefna að ástralska timburtréð A. mangium. Það er ræktað sem slíkt í Ástralíu en í enn meira magni á Indlandi. Stundum hafa flutningar akasíutrjáa milli landa leitt til vandræða. Má nefna að afríska tegundin A. nilotica hefur verið flutt til Ástralíu. Þar fer hún ekki minna í taugarnar á sumum heimamönnum en lúpínan á Íslandi. Þær eiga það líka sameiginlegt að aðrir eru mjög ánægðir með þær á nýjum slóðum. Ástæðan er sú sama og hér á landi. Hún, eins og margar aðrar tegundir belgjurta, eru dugleg að leggja undir sig rýrt og raskað land. En sumum finnast þær deilast helst til víða.


Acacia nilotica getur myndað mikið fræ. Fræbelgirnir frábrugðnir öðrum akasíum og vilja sumir setja hana í sérstaka ættkvísl. Myndin fengin héðan.


Margar tegundir akasíutrjáa eru ræktaðar til timburframleiðslu. Þekktastar þeirra eru A. mangium sem áður er nefnt og tegundirnar A. auriculiformis og A. melanoxylon. Þær eru þó ekki þekktari en svo að engin þeirra hefur fengið íslenskt heiti. Sú síðastnefnda er áströlsk og verður um 30 m á hæð. Það vex villt í Queensland og Nýja suður Weils í þeirri álfu. Ef til vill finnst okkur að 30 metra há tré vera talsvert há en allt er afstætt. Á þessum slóðum vex A. melanoxylon sem undirgróður í tröllatrjáaskógum (Eucalyptus spp.) Þau verða meira en þrisvar sinnum hærri en undirgróðurinn. Viðurinn á þessum akasíum er dökkur og kallast Australian blackwood á máli heimamanna. Hann er mjög verðmætur og nýttur í allt frá bátum til billjardborða.


Húsgögn úr akasíuvið.


Það er ekki nóg með að sumar áströlsku tegundirnar þyki verðmætar. Aðrar hafa verið fluttar langar leiðir vegna fegurðar. Margar tegundir hafa verið fluttar þaðan til Afríku, Portúgal og Síle, svo dæmi séu tekin. Önnur áströlsk ættkvísl, tröllatré eða Eucalyptus, hefur þó verið fluttar í miklu meiri mæli til útlanda.


Plantekra með ungum akasíutrjám. Myndin fengin héðan.


Margar aðrar akasíutegundir eru ræktaðar til margra nota. Algengt er að nota þær í ræktun til að varpa skugga og bæta jarðveg, t.d. í ræktun á sandelviði. Um hann hefur áður verið fjallað. Að auki framleiða sumar akasíur fræ sem eru mjög næringarrík. Tegundirnar A. colei og A. tumida voru báðar fluttar á Sahel svæðið sunnan Sahara. Meiningin var að útvega fljótsprottinn eldivið og bæta ræktunarskilyrði. Sem aukabúbót er að fræin eru eftirsótt til matar af heimamönnum. Í Ástralíu og í Mexíkó vaxa líka margar tegundir sem hafa æt fræ og eru töluvert nýttar af heimamönnum. Rétt er samt einnig að geta þess að sumar akasíur eru eitraðar. Á það bæði við um lauf og fræ. Það er því ekki boðlegt að borða fræ af hvaða akasíutegund sem er.


Acacia tumida. Myndin fengin héðan.


Einnig er rétt að nefna að sumar akasíur eru ræktaðar vegna trjákvoðu sinnar. Þær framleiða einskonar gúmmí (Nánar um gúmmítré hér) og efni til lyfjagerðar. Trjákvoða úr akasíum í Miðausturlöndum hefur verið kölluð arabíugúmmí. Það hefur lengi verið notað, meðal annars sem lím og til lækninga. Lengi vel var það meðal annars notað sem lím á frímerki. Það varð virkt þegar það var bleytt, t.d. með því að sleikja það. Sjálfsagt hafa því fleiri smakkað arabíugúmmí en menn gera sér almennt grein fyrir. Nú orðið eru oftast notuð einhver tilbúin og ódýrari efni í þess stað.

Í Ástralíu eru margar áhugaverðar tegundir sem nýttar eru á fjölbreyttan hátt. Viðurinn þykir góður eins og áður segir. Greinar voru áður fyrr nýttar í girðingar (þökk sé þyrnunum), börkurinn þykir ágætur til sútunar og svo eru þau auðvitað falleg. Eins og kunnugt er eru sauðfjárbú ansi stór í Eyjaálfu. Þykir við hæfi að bæta bithaga sauðfjár á þeim slóðum. Er það meðal annars gert með því að planta akasíum. Tryggja þarf að ungar plöntur séu ekki étnar en fullorðin tré laufgast ofan við hausa sauðfjárins og verður því ekki meint af. Aftur á móti skýla þau fyrir steikjandi sólinni og bæta bithagana með áburðaráhrifum sínum. Stafa þau bæði af svepprót trjánna og niturbindingu gerla sem lifa á rótunum. Meðal þeirra akasíutrjáa sem svona eru nýtt má nefna A. pycnantha. Hún blómstrar mikið og fallega. Hefur blóm hennar verið útnefnt sem þjóðarblóm Ástrala. Stílfærð teikning af þessari tegund er notuð sem merki fyrir hermenn þar í landi.


Þjóðarblóm Ástrala. Myndin fengin héðan.

Í næsta pistli um akasíur verður fjallað um nokkrar tegundir af þessari stóru ættkvísl en lokakaflinn verður um fjölbreyttar varnir sem akasíur hafa tekið upp í þróun sinni með stórum og smáum afræningjum.

Í bókinni Legumes of the World er bætt við nokkrum atriðum um notkun belgjurta sem enn hafa ekki verið nefnd. Lauf, greinar, börkur, fræbelgir og jafnvel viður af sumum tegundum eru nýttar sem húsdýrafóður. Viðurinn er einnig víða nýttur sem eldiviður og til kolagerðar auk hvers kyns smíða. Viðurinn er harðviður og er því lengi að brenna og hefur hátt orkugildi. Sumar tegundir eru nýttar til lyfjagerðar og olía úr blómum er einnig nýtt (sjá nánar í næsta pistli) og er þó aðeins fátt eitt nefnt.


Akasíur má einnig rækta sem bonsai-tré eins og hér er gert. Myndin fengin héðan.


Heimildir


Attenborough, David (1995): Einkalíf plantna. Þýðing: Óskar Ingimarsson. Bókaútgáfan Skjaldborg hf, Reykjavík.


Lewis, Gwilym o,fl. (ritstj.) (2005): Legumes of the World. bls. 188-191. Royal Botanic Gardens, Kew.


Peatti, Donald Culross (2007): A Natural Historu of North American Trees. Trinity University Press, San Antonio, Texas.


Sigurður Arnarson (2014): Belgjurtabókin. Sumarhúsið og Garðurinn.


Tudge, Colin (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.


Í netheimildir er vísað beint í texta.







189 views0 comments

Recent Posts

See All

Kommentare


bottom of page