Ein af stóru plöntuættunum kallast mjólkurjurtaætt eða Euphorbiaceae. Innan ættarinnar eru fjölmargar ættkvíslir sem ýmist innihalda fjölæringa eða tré og runna. Margir fjölæringar eru ræktaðir í görðum, meðal annars hér á Íslandi. Þekktastar þeirra eru Euphorbia sem er höfuðættkvísl ættarinnar og kallast einfaldlega mjólkurjurtir á íslensku. Þær þrífast prýðilega í görðum. Þegar stöngull þeirra er brotinn veltur út safi sem minnir á mjólk. Þar af er nafnið dregið. Af þessari ættkvísl er líka hin vel kunna jólastjarna, Euphorbia pulcherrima, sem er víða ræktuð í heimahúsum, einkum fyrir jól. Ekki stendur þó til að ræða hér um þessar jurtir heldur tré af þessari ætt, jafnvel þótt blómplönturnar séu allrar athygli verðar.
Mjólkurjurtir, Euphorbia sp. eru algengar í görðum á Íslandi.
Mjólkursafinn
Allar plöntur innan ættarinnar, bæði blóm og tré, mynda einhverskonar kvoðu, safa, olíu eða einskonar „latex“ sem oftast er mjólkurlitað. Eru sum þessara efna nýtt til manneldis eða iðnaðar.
Kvoðuna mynda trén ef stofn þeirra skaðast. Sennilegast á kvoða þessi að loka sárinu eða hindra að sjúkdómar berist í sárin nema hvort tveggja sé. Rétt er þó að geta þess að grasafræðingar hafa lengi klórað sér fast í hausnum yfir þessari framleiðslu og raunverulegum tilgangi hennar fyrir tréð. Ekki eru enn öll kurl komin til grafar hvað tilganginn varðar. Miðað við það magn af kvoðu sem trén framleiða má gera ráð fyrir að þetta skipti miklu máli.
Allmörg tré innan fleiri ætta gera þetta. Hefur því jafnvel verið haldið fram að allt að eitt af hverjum 10 trjám myndi einhverskonar trjákvoðu eða mjólkursafa eins og gúmmítré gera. Hafa sum þeirra verið nýtt til gúmmíframleiðslu þótt þau tilheyri ýmsum ættkvíslum og jafnvel öðrum ættum. Í Rússlandi hafa menn framleitt gúmmí úr tré af ættkvíslinni Guayule og frægur er sá hryllingur sem fylgdi því þegar Leopold II Belgíukonungur, sem persónulega „átti“ nýlenduna Kongó, lét smala íbúum þess lands, þúsundum saman, til að tappa kvoðu af Landophia (sem er af allt annarri ætt) sem nýta mætti til gúmmíframleiðslu. Tókst honum á valdatíma sínum að framleiða um 60.000 tonn af gúmmíi og hefur verið reiknað út, samkvæmt Tudge (sjá heimild), að hver fjögur kíló hafi kostað eitt mannslíf. Tölur um mannfall á nýlendutímanum í Kongó eru þó mjög á reiki.
Teikning frá 1906 sem sýna á illa meðferð Belgiukonungs á íbúum Kongó. Myndin fengin héðan
Í árdaga gúmmísöfnunar fyrir okkur vesturlandabúa var ekkert einsdæmi að frumbyggjar yrðu látnir gjalda fyrir framleiðsluna dýru verði, en mannvonskan var hvergi meiri en í Kongó. Um þann hrylling sem þar fór fram á þessum tíma má meðal annars fræðast í þætti Veru Illugadóttur; Í ljósi sögunnar. Þar kemur meðal annars fram að til að auka persónulegar tekjur sínar setti kóngurinn á sérstakan gúmmískatt. Hverju þorpi var skylt að sila svo og svo miklu magni af gúmmíi til stjórnvalda í Belgíu. Ef það var ekki gert voru refsingarnar hryllilegar.
Það var þó ekki af mannúðarsjónarmiðum sem draga tók úr gúmmíræktuninni í Kongó. Heldur hitt að tré sem framleiða meiri trjákvoðu vaxa í Suður-Ameríku og þegar framleiðslan jókst þar varð ræktunin í Afríku ekki lengur eins arðbær. Það eru einmitt þau tré sem eru af mjólkurjurtaætt og er aðal efni þessa pistils.
Paragúmmítré, Hevea brasiliensis í Amazon skógi. Mynd fengin af Flikr síðu Sergejf.
Paragúmmítré
Ættkvíslin Hevea er það gúmmítré sem framleiðir lang mest. Nokkrar tegundir tilheyra ættkvíslinni og finnast þær allar villtar í frumskógum Suður-Ameríku. Sum þeirra ná rúmlega 40 metra hæð og geta lifað öldum saman og framleiða allar þessa gúmmíkvoðu ef börkurinn er særður. Í ræktun verða þau ekki svona há. Stafar það af því að það kostar tréð töluverða fyrirhöfn að framleiða gúmmíkvoðu sem jafn óðum er tappað af trénu. Þau vaxa því minna en villt tré. Að auki eru þau felld áður en hámarkshæð er náð.
Þýsk mynd sem sýnir helstu einkenni paragúmmítrés. Sjá nánar á Wikipedia.
Gúmmítré eða paragúmmítré Hevea brasiliensis er án efa verðmætasta og þekktasta tré sinnar ættar. Þetta er þó ekki eina tréð sem framleiða þessa ljósleitu kvoðu sem kallast hrágúmmí. Eins og ráða má af kaflanum hér að framan eru til fleiri tegundur af þessari ættkvísl meira að segja alveg óskyld tré. Þess vegna er rétt að tala um paragúmmítré til að forðast misskilning þegar rætt er um Hevea brasiliensis. Þeir sem vilja átta sig betur á muninum á ættum og ættkvíslum geta lesið um það hér.
Hið eiginlega paragúmmítré er ættað frá Brasilíu og kennt við það á fræðimálinu (brasiliensis). Nú er það ræktað allvíða um heiminn í heitum löndum Asíu og Afríku. Mest er þó ræktun þess í Malasíu.
Paragúmmíplantekra í Guatemala. Sjá nánar hér
Uppruni gúmmíframleiðslu
Evrópumenn komust að því á 18. öld að frumbyggjar Ameríku töppuðu þessu efni af trjánum. Enski efnafræðingurinn Joseph Priestley komst að því að með svona gúmmíboltum mátti stroka út blýjantsstrik. Er gúmmí síðan nefnt „rubber“ á ensku sem merkir „A thing to rub out mistakes with“ eins og Priestley orðaði það á sinni tíð.
Vinsælt varð efnið ekki fyrr en um miðja nítjándu öld. Með aukinni tækni varð gúmmíið mun mikilvægara en til að stroka út mistök. Árið 1839 fann Bandaríkjamaðurinn Charles Goodyer upp aðferð til að herða gúmmíið með því að blanda við það brennisteini. Hann fékk einkaleyfi á hugmyndinni árið 1844. Á heimssýningunni í London 1851 var mikið látið með þetta nýja efni. Á sýningunni var búin til einskonar íbúð úr efninu þar sem veggir og loft voru úr gúmmíi sem og öll húsgögn. Það er haft fyrir satt að Albert prins hafi hrifist mjög af þessu nýja efni.
Hjólbarðar
Rúmum þremur ártatugum síðar var það írski dýralæknirinn John Dunlop sem bjó til hjólbarða úr efninu fyrir reiðhjól. Þá var runnið upp árið 1888. Hann mun ekki hafa verið sá fyrsti sem bjó til dekk úr gúmmíi en einhverra hluta vegna sló hugmyndin ekki í gegn fyrr en þarna. Einkum voru það írskir hjólreiðakappar sem gerðu dekkin vinsæl og unnu hverja alþjóðlegu keppnina á fætur annarri á gúmmídekkjum. Í kjölfarið jókst eftirspurn eftir gúmmí snarlega og þar með fór verðið á hrágúmmí upp. Það var þá sem Leopold II fór að safna gúmmíi í Kongó eins og að framan greinir. Um svipað leyti var bílaöld að hefjast og þegar Henry Ford fór að fjöldaframleiða bíla sem allir höfðu gúmmíhjólbarða rauk verðið á upp. Enn eru nöfn þeirra Goodyers og Dunlop þekkt vegna fyrirtækja sem bera nöfn þeirra og framleiða hjólbarða og gúmmídekk.
Algengast er að gúmmídekk séu svört að lit. Andrés Önd keyrir þó vanalega um á hvítum dekkjum. Sennilega eru þau úr óunnu hrágúmmíi. Eigandi myndar: Disney
Framleiðslan í Suður-Ameríku
Á árdögum gúmmídekkja högnuðust Brasilíumenn mjög á gúmmíframleiðslunni og má segja að hún hafi verið grunndvöllur efnahagsuppbyggingar í landinu á sínum tíma. Gúmmí var á þeim tíma einnig töluvert framleitt í Perú og skipti efnahag þess ríkis mjög miklu máli. Um tíma voru þetta tvö helstu hrágúmmíframleiðendur í heimi. Borg ein í miðjum Amasonskóginum var miðstöð framleiðslunnar í Brasilíu. Heitir hún Manaus. Þar búa nú ríflega tvær milljónir manna. Blómatími borgarinnar var á fyrstu áratugum 20. aldar. Þegar Henry Ford fór að fjöldaframleiða T-Model af Ford bílum var uppgangurinn svo mikill að arðurinn af gúmmísölunni var nýttur til að byggja stórar og glæsilegar byggingar sem enn standa í Manaus. Frægast þeirra er sérlega glæsilegt óperuhús þarna í miðjum frumskóginum. Sjálfur Caruso tróð þar einu sinni upp. Ekki er vitað hvort hann, eða aðrar stórstjörnur sem tróðu upp í borginni í frumskóginum, hafi haft hugmynd um þann hrylling sem innfæddir verkamenn urðu að þola til að framleiðslan gengi upp. Þó var það eitthvað skárra heldur en í Kongó. Sá viðbjóður verður seint toppaður. Samt voru pyndingar, þrælahald og morð látin viðgangast til að halda uppi framleiðslunni í Amazon skóginum svo að gúmmíhjól atvinnulífsins gætu snúist og yfirstéttin horft á stórsöngvara í frumskóginum.
Paragúmmítréð leggur land undir fót (eða rót)
Árið 1876 höfðu hinir frægu grasafræðingar í Kew í London smyglað fræjum af gúmmítrjám til London og ræktað þau í gróðurhúsum í Kew gardens. Þegar þarna var komið við sögu komust þeir að því að Hevea ættkvíslin var best til gúmmíframleiðslunnar fallin og af allri ættkvíslinni stóð H. brasiliensis upp úr. Þegar þetta lá fyrir voru plöntur sendar til Ceylon (sem nú heitir Sri Lanka) og Malasíu. Smátt og smátt tóku asísku plantekrurnar við sem aðal gúmmíframleiðslusvæðin. Enn í dag er mest framleitt af hrágúmmí í Malasíu með trjám sem ættuð eru frá Brasilíu.
Í seinni heimsstyrjöldinni lögðu Japanir undir sig helstu framleiðslulöndin í Asíu og varð þá skortur af efninu. Ekki varð það þó til að bæta hag framleiðanda. Þvert á móti. Þar að auki varð það dálítið högg fyrir framleiðsluna, svona þegar til lengdar er litið, að bandarískum efnafræðingum tókst í þessum hremmingum að framleiða gervigúmmí fyrir hernað sinn. Á okkar dögum eru paragúmmítré á um 3,6 milljón hekturum. Skammt á eftir kemur Tæland með 3,1 milljón hektara. Saman framleiða þessi tvö lönd um helming alls hrágúmmís í heiminum. Þessar upplýsingar eru fengnar héðan sem og myndin sem fylgir.
Plantekra af paragúmmítrjám í Asíu.
Framleiðsla hrágúmmís
Gúmmívinnslan fer þannig fram að börkur trjánna er særður og lekur þá mjólkurlit, límkennd og seigfljótandi kvoðan út. Hún er látin leka í einskonar bolla sem síðan er tekin og tæmdur. Mjög misjafnt er milli einstaklinga hversu mikil framleiðslan er. Því er það svo að bestu trjánum er gjarnan fjölgað kynlaust og geta þá heilu akrarnir verið af einum og sama klóninum til að hámarka framleiðsluna.
Árið 1980 var svo komið að náttúrugúmmí aðeins um 30% heimsframleiðslunnar en gervigúmmí 70%. Síðan hefur framleiðsla á náttúrugúmmíi aukist að nýju. Árið 2002 var framleiðslan orðin 40% af heimsframleiðslunni. Í sumum tilfellum tekur það iðnaðargúmíinu langt fram og er m.a. notað í hjólbarða á stórum flugvélum sem og í smokka.
Hrágúmmíi tappað af paragúmmítré. Sjá nánar hér.
Framleiðslan í Brasilíu er nú miklu minni en í Malasíu. Fyrir því eru sjálfsagt margar ástæður en ein þeirra er sú að í heimalandinu hefur skæður sveppasjúkdómur stórskaðað framleiðsluna. Hann hefur ekki borist til Asíu. Samt sem áður er gúmmíframleiðslan í Brasilíu ennþá talin mikilvægur þáttur í efnahag landsins og verkamenn sem tappa kvoðunni af trjánum hafa myndað mikilvirk samtök þar í landi.
Á plantekrum með gúmmítrjám fara trén að gefa almennilega af sér við sjö ára aldur. Mest gefa þau af sér um 15 ára og eru vanalega höggvin niður þegar þau eru 30 ára. Þá er byrjað upp á nýtt. Á þessum 30 árum eru þau orðin um 20 metrar á hæð. Áður fyrr voru akrarnir einfaldlega brenndir og nýjum trjám plantað í öskuna. Nú er viðurinn nýttur, enda sterkur og góður harðviður. Stærstu útflytjendur viðar af paragúmmítrénu eru Malajar og Tælendingar. Í Suð-austur-Asíu eru framleiddir um 6,5 milljón rúmmetra af þessum við á hverju ári. Það er næstum sama magn og allur timburiðnaður Mið-Ameríku til samans. Viðurinn er meðal annars nýttur í húsgögn, eldhúsáhöld, leikföng og fínni vinnu innan dyra. Hann er almennt ekki talinn heppilegur fyrir hluti utan dyra.
Ræktun á Íslandi
Þegar framandi tré eru skoðuð viljum við gjarnan vita hvort einhver möguleiki sé á að rækta þau hér á landi. Með paragúmmítré er því fljótsvarað. Nei, það gengur ekki. Þau lifa eingöngu í hitabeltinu, þola alls ekki frost og þurfa um 1200 mm ársúrkomu til að gefa vel af sér.
Helsta heimild:
Colin Tudge 2007: The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter.
Upplýsingar um myndir má sjá við hverja og eina.
Kommentare