top of page

Líf án kynlífs

Updated: Oct 22, 2023

Mörg tré geta fjölgað sér án kynæxlunar. Kallast það kynlaus æxlun. Hægt er að stunda kynlausa æxlun á nokkra vegu og að auki getur mannfólkið fjölgað trjám kynlaust. Þegar kynlaus æxlun er stunduð verða allir afkomendurnir eins og hafa sama erfðaefnið. Ef einhver munur er á einstaklingum stafar það af umhverfisþáttum. Flestar trjátegundir, sem stunda kynlausa æxlun, stunda einnig kynæxlun. Þetta er bara svona aukabragð til að viðhalda tegundinni og getur verið mjög gagnlegt við erfiðar aðstæður þar sem kynæxlun getur misfarist. Svo eru til tegundir sem treysta eingöngu á kynlausa æxlun.


Aldur lífvera og kynlaus æxlun

Þegar kynlaus æxlun er stunduð getur orðið ákveðið vandamál að ákvarða aldur einstaklinga. Sem dæmi má nefna að stofn birkitrjáa getur orðið um það bil 60 -120 ára gamall. Þar sem birki á það til að fjölga sér kynlaust, eins og nánar verður vikið að síðar, getur rótin undir hverju tré verið miklu, miklu eldri. En hún endurnýjar sig stöðugt. Því er alveg óvíst að aldur hvers rótarhluta sé jafn gamall rótinni. Eftir stendur því spurningin um hvernig beri að meta aldur slíkra lífvera. Á að miða við elsta hluta rótarinnar, elsta stofninn eða þann tíma þegar fræið spíraði?

Hér má sjá þrjá eða fjóra klóna af birki sem viðheldur sér með teinungi. Stofnarnir eru mismunandi, sem og stærð, haustlitir og laufgunartími. Fremst má sjá sjálfsáið birki sem hefur orðið til við kynæxlun.


Rótarskot

Sum tré eiga það til að setja út svokölluð rótarskot. Þá spretta einfaldlega nýir einstaklingar upp af rótinni. Stundum meira að segja töluvert langt frá móðurtrénu. Blæaspir eru gott dæmi um þetta. Reyndar er það svo að hinar fáu villtu blæaspir á Íslandi virðast eingöngu fjölga sér kynlaust. Ekki eru þekkt nein dæmi um sjálfsánar blæaspir hér á landi. Ef það er rétt eru allar villtar blæaspir á Íslandi enn af fyrstu kynslóð. Engin uppstokkun erfðaefnis hefur átt sér stað. Teljast þær þó án efa vera íslenskar.


Mynd úr Egilsstaðaskógi fyrir laufgun. Dökku trén eru birki en ljósu trén eru blæaspir sem fjölga sér eingöngu með rótarskotum.

Teinungar

Önnur aðferð, en þó skyld, er að mynda svokallaða teinunga. Birki myndar oft á tíðum mikið fræ. Getur það nýst vel til að nema land, einkum á röskuðu og lítt grónu landi. Slíka framvindu má meðal annars sjá á Skeiðarársandi þessi misserin. Gallinn við þetta kerfi er sá að birkifræin innihalda fremur litla næringu og eiga litla möguleika til að vaxa úr grasi ef grasið er hátt. Þá verður það einfaldlega undir í samkeppninni. Þá er gott að hafa plan Bé. Það er aðferðin sem birki notar til að endurnýja sig í gróskumiklu landi. Þá vaxa einfaldlega upp sprotar frá rótarhálsinum. Þeir kallast teinungar. Á meðan þeir vaxa fá þeir næringu frá rót móðurtrésins og eru því ekki háð forðanum í fræinu eins og sáðplönturnar. Því standa þeir betur að vígi en sáðplönturnar. Svo taka þessir teinungar við þegar stofn trjánna drepst. Það gæti t.d. gerst vegna aldurs eða einhverrar plágu sem herjar á tréð þegar það er gamalt og fúið. Þegar gamlir stofnar drepast skapast tækifæri fyrir teinunginn að taka við. Sama ferli notar birki eftir skógarelda. Þá spretta upp teinungar frá rótinni og endurnýja skóginn. Til að drepa birkiskóga er því hvorki nóg að höggva niður tré eða brenna heilu skógana. Birkiskógar lifa slíka meðferð af ef þeir fá tækifæri til. Til að drepa birkiskóg þarf fyrst og fremst að koma í veg fyrir að þeir endurnýi sig með teinungi. Hér á landi hefur okkur tekist ákaflega vel til með það ferli í gegnum tíðina og er það svo vel þekkt að óþarfi er að nefna það.


Birki myndar teinunga.


Margendurtekin endurnýjun með teinungum hefur átt sér stað í gömlum, þroskuðum birkiskógum eins og við þekkjum svo vel úr Leyningshólum. Þá geta í gegnum aldirnar myndast klónar sem ná yfir nokkra fermetra. Þar eru öll trén áþekk að stærð, hafa sama barkarlit, laufgast á sama tíma á vorin og fara á sama tíma í haustliti sem eru eins á hverjum klón en mismunandi milli klóna. Fyrsta myndin í þessum pistli um #Trévikunnar sýnir einmitt svona fyrirbæri.

Sveiggræðsla

Skylt þessu er svokölluð sveiggræðsla. Hún fer þannig fram að greinar, sem leggjast á jörðina, skjóta rótum. Þetta er nokkuð algengt hjá ýmsum blómplöntum svo sem hnoðrum en einnig runnum eins og hélurifsi og kirtilrifsi. Reyndar má nota aðferðina til að fjölga rifstegundum og ýmsum öðrum runnum. Þá eru grinar einfaldlega þvingaðar niður að jörðu þar sem þær skjóta rótum. Þegar plantan er orðin nægilega kröftug má slíta á tengslin við móðurplöntuna.

Til eru stór og mikil tré sem hafa sama háttinn á. Best er aðferðin þekkt hjá nokkrum tegundum grenitrjáa. Hvítgreni vex nyrst allra grenitrjáa í Ameríku. Sums staðar vex það við svo óblíð kjör að það nær sjaldan að mynda heppilegt fræ. Þá treystir það nær eingöngu á sveiggræðslu. Heilu skógarlundirnir eru þá í raun myndaðir af einu og sama trénu. Þetta er algengara á Íslandi en margur gæti ætlað. Margir hafa þó skoðað blágreni í Mörkinni á Hallormsstað sem einmitt hefur bætt við veldi sitt á þennan hátt. Meðfylgjandi mynd er af rauðgreni í Hánefsstaðareit sem hefur tekið upp á þessu eins og sjá má. Ýmiss lauftré geta gert þetta líka ef greinarnar leggjast á jörðina, t.d. í brattlendi.


Rauðgreni getur fjölgað sér með sveiggræðslu eins og hér má sjá.


Græðlingar

Sú aðferð að taka vetrargræðlinga af víði og ösp og stinga þeim niður í mold er vel þekkt. Þá er í raun verið að líkja eftir náttúrunni. Þessar tegundir vaxa oft við ár og læki sem eiga það til að bólgna í vorleysingum. Þá er hætta á því að greinar og jafnvel heilu trén brotna og berast með leysingavatninu. Ef greinar stingast í árbakkann geta þær skotið þar rótum og upp vaxa nýjar plöntur. Þessi aðferð getur því verið heppileg til að nema nýjar lendur neðar með stórám. Aftur á móti hentar hún verr til að fara upp með ánum. Þá verður að treysta á hefðbundna fræmyndun.


Allur brekkuvíðir er einn og sami klónninn sem fjölgað er kynlaust með græðlingum. Hann er kvenkyns eins og sjá má á þessum reklum. Hann myndar mikið fræ með kynæxlun sem getur spírað. Þá er það einhver víðiblendingur sem verður til, en ekki brekkuvíðir.


Fræ án undangenginnar frjóvgunar (Apomict)

Allar ofangreindar aðferðir virka þannig að tengslin við móðurtrén eru augljós. Hitt er e.t.v. merkilegra að sumar plöntur, þar með talin tré, mynda fræ án kynæxlunar. Hin almenna skilgreining á hugtakinu tegund er að það séu einstaklingar sem geta myndað frjó afkvæmi saman. Þess vegna teljast t.d. asnar og hestar ekki til sömu tegundar þótt þeir geti eignast saman afkvæmi, því afkvæmi þeirra; múlasnar og múldýr, eru ófrjó. Þessi skilgreining hentar reyndar ekkert sérstaklega vel fyrir gróðurríkið en hvernig á að flokka saman lífverur sem mynda nýja einstaklinga án frjóvgunar?


Margar tegundir reynitrjáa hafa þennan háttinn á en einnig sumar tegundir blóma. Þeirra þekktastir eru túnfíflar. Þar sem engin frjóvgun á sér stað verður engin uppstokkun erfðaefnis. Allir afkomendurnir eru því nákvæm eftirmynd foreldranna. Því verður að telja hvern og einn klón sem séstaka tegund. Þannig geta mismunandi tegundir skyldra reynitegunda verið mun líkari en einstaklingar einnar tegundar sem stundar kynæxlun. Þess vegna verður seint hægt að segja með nokkurri vissu hversu margar reynitegundir eru í raun til. Verði stökkbreyting á erfðaefni í fræi sem erfist til næstu kynslóða má færa fyrir því rök að þá hafi myndast ný tegund. Meðal þeirra reynitegunda sem svona haga sér eru bæði koparreynir og kasmírreynir sem eru mikið ræktaðar í görðum. Íslenski reynirinn stundar aftur á móti hefðbundna kynæxlun.


Koparreynir þakinn hvítum berjum. Þau innihalda fræ sem orðið hafa til án kynæxlunar. Því verða allir afkomendurnir eins og móðurplantan.

Allur koparreynir í Evrópu er eins og fyrsti koparreynirinn sem barst til álfunnar. Hann er í grasagarðinum í Kaupmannahöfn og er formóðir allra koparreyniplantna í álfunni.

308 views

Recent Posts

See All

تعليقات


bottom of page