top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Greni

Updated: Oct 15, 2023

Við tökum nú upp eldri þráð og höldum áfram að fjalla um ættkvíslir þallarættarinnar. Nú er komið að grenitrjám (Picea). Talið er að tegundirnar séu um 35 innan ættkvíslarinnar en í sumum eldri heimildum eru þær taldar allt að 80. Þessi misvísun stafar af því að mikill breytileiki getur verið innan sumra tegundanna og skil milli tegunda eru ekki alltaf ljós.


Greni vex um gjörvallt barrskógabeltið og myndar oft samfellda skóga sem hleypa fáum öðrum trjám að. Sunnar vex greni til fjalla og þá gjarnan innan og saman við önnur tré. Engin grenitegund vex villt sunnan við miðbaug.


Þrjár af helstu grenitegundum landsins. Fremst er rauðgreni, síðan blágreni og aftast og stærst er sitkagreni.


Jólatré

Þessi fjölskylda valdi sér greni sem jólatré á Þelamörk árið 2018.

Einkenni

Eitt af einkennum grenitrjáa eru fremur hrjúfar smágreinar. Nálarnar eru alltaf stakar og standa á smá nöbbum sem verða eftir ef nálarnar falla. Á þessu einkenni má t.d. alltaf þekkja greni frá þin. Viður grenitrjáa er mjög léttur og er það eiginleiki sem hentar í margskonar smíðagripi. Sem dæmi má nefna að í síðari heimsstyrjöldinni voru hinar bandarísku Mosquito sprengiflugvélar að mestu smíðaðar úr þessum létta viði. Víða eru grenitré grundvöllur fyrir víðtækum viðarnytjum en of langt mál yrði að fara að telja það allt saman upp.

Atlæti

Best vaxa grenitegundir í frjórri skógarmold og í góðu skjóli. Almennt má segja að rýrt mólendi hentar greni illa og á það við um allar tegundir. Þó er það svo að sumar tegundir grenis geta vaxið ótrúlega vel í rýru landi sem ekki telst til mólendis, s.s. grýttu og lítt grónu. Einkum á þetta við ef það hefur réttar hjálparplöntur með sér. Má þar nefna lúpínu eða lerki. Aðrar grenitegundir eru kröfuharðari og oft verða greniplöntur kyrkingslegar í rýru landi og minna grænar ef nitur skortir.


Þær grenitegundir sem mest eru ræktaðar á Íslandi koma annars vegar frá Evrópu og hins vegar frá Norður-Ameríku. Að auki eru til margar tegundir í Austur-Asíu en þær eru lítt reyndar hér. Í Evrópu hefur lítil lús þróast með grenitegundum og veldur fremur litlum skaða. Hinar amerísku tegundir þekkja ekkert til þessarar lúsar og því er það svo að sitkalúsin, en svo heitir kvikindið, getur valdið töluverðu tjóni á amerískum grenitegundum en mun síður á hinu evrópska rauðgreni.


Helstu tegundir á Íslandi

Nú verður sagt lítillega frá helstu tegundum sem eru í ræktun en listinn er ekki tæmandi.


Rauðgreni (P. abies) myndar stærstu villtu tré Evrópu og hér á landi má gera ráð fyrir að það nái að minnsta kosti 25 metra hæð. Það vex þó mun hægar og er nettara á allan hátt heldur en sitkagreni. Áður hefur verið fjallað sérstaklega um rauðgreni sem #TrévikunnarSE og má finna þá umfjöllun hér. Því verður ekki meira um það fjallað nú.


Rauðgreni í Leyningshólum.


Annað evrópskt greni hefur lítillega verið ræktað á Íslandi. Það kallast kákasusgreni (P. oriantalis). Það vex í samnefndum fjallgarði við austurströnd Svartahafs. Það hefur styttri nálar en aðrar grenitegundir en aðrar tegundir geta haft stutt barr í ófrjóu landi, svo einkennið er ekki alveg öruggt.

Í Bosníu og Serbíu vex serbagreni (P. omorica) og hefur það einnig verið reynt á Íslandi. Greinarnar á því eru fremur stuttar þannig að tréð verður mjókeilulaga í vexti. Næstu tegundir sem nefndar eru allar amerískar. Í þeirri álfu eru mun fjölbreyttari grenitegundir en í Evrópu.

Hvítgreni (P. glauca) er það tré í Norður-Ameríku sem vex lengst til norðurs. Hér á landi mun það örugglega ná 20 metra hæð og líklega um 25 metrum. Það vex mun hægar en næsta tegund og því er minna ræktað af því í skógrækt. Það getur þó hentað vel í garða og víðar, enda krónan mjórri en á sitkagreni. Það getur einnig þrifist betur á rýru og fremur þurru landi en sitkagrenið, einkum með hjálpartegundum eins og birki, lúpínu, elri og lerki. Þó ber að varast að planta því í rýra lyngmóa. Það er sambýli sem hentar hvítgreni (og reyndar einnig sumum öðrum grenitegundum) fremur illa. Hvítgreni er frostþolnara en sitkagreni. Eflaust má fá viðunandi vöxt í hvítgreni og blágreni nær skógarmörkum í innsveitum en sitkagreni því þær tegundir geta komist af með heldur styttra vaxtarskeið.

Þar sem útbreiðsla hvítgrenis skarast við útbreiðslu svartgrenis, sitkagrenis og blágrenis verða auðveldlega til blendingar þessara tegunda.

Hér má sjá kort af útbreiðslu hvítgrenis


Til er sérstakt yrki af hvítgreni; dverghvítgrenið ´Conica´ sem hefur fengið titilinn #TrévikunnarSE. Þá umfjöllun má finna hér.


Hvítgreni í fremur rýru landi.

Sitkagreni (P. sitchensis) er stórvaxnasta grenitegund landsins. Hún ætti að geta náð að minnsta kosti 40 metra hæð og er án efa ein af mikilvægustu skógartrjánum okkar. Það er einstofna og með breiða, keilulaga krónu. Barrið dálítið bláleitt og stingur. Það er vind- og saltþolið enda vex það allt niður að sjávarmáli í heimkynnum sínum um vesturhluta Norður-Ameríku. Þar vex það hvergi fjær ströndinni en 50 km en þá taka aðrar tegundir við á þeim slóðum, s.s. hvítgreni. Hér má sjá kort af útbreiðslu tegundarinnar í Ameríku.


Varast ber að planta sitkagreni í frostpolla. Ungplöntur eiga það til að kala illa í snemmbúnum haustfrostum.

Sitkagreni sýnir hér mun meiri vöxt en blágrenið í forgrunni. Einnig er rússalerki á myndinni.


Sitkabastarður (P. x lutzii) Þar sem ofangreindar tvær tegundir; hvítgreni og sitkagreni, mætast myndar það auðveldlega blendinga sem eru frjóir. Þessir blendingar kallast sitkabastarður eða hvítsitkagreni og hefur einkenni beggja foreldra. Það er ekki alltaf auðvelt að þekkja sitkabastarðinn frá hreinu sitkagreni enda getur bastarðurinn bakvíxlast við sitkagrenið. Því hefur Skógræktarfélag Íslands hætt að greina á milli þessara tegunda í skýrslum sínum. Reyndar getur verið mjög mikill breytileiki í sitkabastarði og einstaklingarnir geta verið allt frá því að vera eins og hreint sitkagreni yfir í hreint hvítgreni.

Sitkabastarðurinn vex heldur minna en sitkagrenið og sést það strax á bakkaplöntum. Við getum þó gert ráð fyrir að hann nái um 25 metra hæð. Erfðaefni hvítgrenisins gera það að verkum að það virðist þola snemmbúin haustfrost betur en sitkagrenið.


Þessi sitkabastarður er mjög líkur sitkagreni.

Blágreni (P. engelmanni) Vaxtarhraði blá- og rauðgrenis er nokkuð áþekkur og getum við gert ráð fyrir að báðar tegundir geti náð um 25 metra hæð. Hæsta blágreni á Íslandi náði 20 metra hæð á tæplega 100 árum. Það stendur sitkagreni langt að baki sem skógartré með tilliti til vaxtarhraða í æsku, en getur hentað vel í garða og við sumarhús. Einnig til að auka fjölbreytni í ræktuðum skógum. Blágreni er að jafnaði einstofna tré með bláleitt barr. Sérstaklega geta nýir árssprotar verið fallegir á litinn. Það er að jafnaði með mjórri krónu en sitkagrenið og með meira frostþol en minna saltþol.

Hér má sjá kort sem sýnir útbreiðslu blágrenis.


Blágreni í Skriðdal. Fjær má sjá lerki og sitkagreni sem vex betur.


Svartgreni (P. mariana) Þetta er til muna hægvaxnari tegund en þær sem áður hafa verið nefndar. Því hefur miklu minna verið ræktað af því á Íslandi en áðurnefndum tegundum. Það getur þó verið harðgert og getur hentað sem garðtré. Það verður varla meira en 15 metrar á hæð hér á landi. Svo er að sjá sem kvæmi úr Klettafjöllunum vaxi hraðar en kvæmi frá Alaska en það hefur ekki verið staðfest með kvæmatilraunum.

Könglar svartgrenis eru einstakir meðal þeirra grenitrjáa sem eru ræktuð á Íslandi. Allar grenitegundir þroska fræ sitt í könglum. Og allar losa þær sig við fræin á haustin, nema svartgreni. Fræið getur setið árum saman í könglunum svartgrenis og oft er eins og það þurfi annað hvort þurrka eða skógarelda til að opna þá. Að auki eru könglar svartgrenis þeir minnstu á greni sem hér er ræktað.

Hér má sjá kort af útbreiðslu svartgrenis.


Svartgreni í Hánefsstaðaskógi.


Broddgreni (P. pungens)

Þetta er fremur hægvaxta grenitegund sem gæti þó náð um 20 metra hæð með tíð og tíma. Það er með bláleitt barr og sums staðar í Evrópu eru ræktuð afbrigði af því sem eru óvenju bláleit. Reyndar er það þetta tré sem á mörgum öðrum tungumálum er kennt við bláa litinn. Hér á landi tökum við þó mið af latínuheitinu en pungens merkir stingandi eða eitthvað álíka. Ef broddgreni þrífst á annað borð verður það að jafnaði einstofna og með breiða krónu en vöxtur er alltaf hægur. Sennilega er íslenska sumarið í styttra og kaldara lagi til að broddgreni þrífist með ágætum í skóglendi. Það getur þó hentað sem garðtré enda staðviðri í görðum oft með ágætum.


Hér er kort af útbreiðslu þess. Eins og sjá má er það suðlægara en aðrar amerískar grenitegundir sem hér eru ræktaðar.


Broddgreni í Hánefsstaðaskógi.


Það er ekkert furðulegt við það að broddgreni skuli á mörgum tungumálum vera kennt við hinn bláa lit. Þetta tré er í Austurríki.


Að lokum skulu nefndar tvær asískar tegundir sem hér geta vel þrifist en eru lítið ræktaðar.

Fyrst má nefna skrápgreni (P. asperata) frá fjalllendi í Kína. Nafnið er dregið af því einkenni að börkurinn er mjög grófur. Það er einnig stundum kennt við Kína og kallað kínagreni og er skylt rauðgreni.

Hin tegundin sem við nefnum er glitgreni (P. glehnii) frá fjöllum Japans og Sakhalin. Það er auðþekkt á súkkulaðibrúnum berki og rauðleitum, stuttum greinum.


Texti og myndir: Sigurður Arnarson.

856 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page