top of page

Sandelviður

Updated: Apr 10, 2023

Á Íslandi vaxa alls konar plöntur eins og þekkt er. Sumar eru tré, aðrar eru háðar trjám á einn eða annan hátt og sumar vilja ekkert af þeim vita. Áður hefur verið fjallað hér í tveimur pistlum um ásætur á trjám. Þá má finna hér og hér. Að auki höfum við fjallað um samhjálp í skóginum og um eina ættkvísl sem oft beinlínis drepur þau tré sem fóstruðu þau í æsku.

Tré vikunnar að þessu sinni flokkast undir það sem kallað hefur verið hálfsníkjujurt. Það eru plöntur sem stunda ljóstillífun eins og aðrar plöntur en lætur það ekki duga, heldur nær sér í vatn eða næringu frá öðrum jurtum án þess að láta neitt í staðinn. Á Íslandi þekkjum við slíkar jurtir í flórunni, svo sem lokasjóð og augnfró en hér vaxa engin tré sem haga sér þannig. Þess vegna förum við til útlanda til að skoða slík tré.


Sandelviður, Santalum album, Myndin fengin héðan.


Lýsing

Sandelviður eða sandeltré, Santalum album, er lítið sígrænt lauftré sem vex í hitabeltinu. Oftast nær verður hæð þess ekki nema svona 5-10 metrar á hæð. Það vex hægt en getur orðið allt að 100 ára gamalt. Það hefur alltaf líf sitt sem hálfsníkjuplanta. Það er vel fært um ljóstillífun og stundar hana meira að segja allt árið. Það treystir samt ekki eingöngu á það heldur tengist rótarkerfi annarra trjáa og stelur af þeim næringu og vatni. Frá rótum trjánna vaxa einskonar spírallaga angar sem tengjast rótarkerfi annarra trjáa og runna. Einkum á þetta við um yngri sandelstré en eldri tré virðast ekki eins háð þessu sníkjulífi. Nánar verður fjallað um sníkjulífið í næsta kafla. Ung tré eiga það til að setja rótarskot, einkum ef nægar plöntur eru til staðar til að sníkja á. Þannig tekst þeim stundum að mynda litla lundi innan um önnur tré.


Ber. Myndin fengin af síðu Kew Gardens.


Sandelstré bera lítil svarfjólublá ber sem fuglar eru sólgnir í. Fræin lifa af ferðalagið í gegnum meltingarveg þeirra svo fuglar gegna lykilhlutverki við að dreifa fræjum. Tréð fer að blómstra frá fimm til sjö ára aldri. Blómin eru fallega rauð

Laufin eru leðurkennd, stundum örlítið hærð á neðra borði og sitja tvö og tvö saman, gagnstætt á greinunum.


Myndin af laufunum er fengin að láni frá Wikipediu.


Í elstu skráðu heimildum um menningarsamfélög var skófatnaður sá sem almennt gengur undir nafninu sandalar tákn um ákveðna velmegun. Hinir fátækari voru berfættir. Fyrstu sandalarnir voru væntanlega einhverjir tréplattar sem festir voru við fótinn með einhvers konar reimum yfir ristina. Í sjálfum sér skipti ekki öllu máli hvaða viður var notaður og alveg óvíst hverjir tóku fyrst upp á þessu. Orðið er komið frá Persum. Grikkir tóku það snemma upp og kalla þennan skóbúnað Sandalon. Tréð kalla þeir hins vegar Santalon. Þar er ekki mikill munur á. Á flestum tungumálum er svipað orð notað yfir tré vikunnar. Sem dæmi má nefna að á ensku heitir tréð sandalwood. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að tengja tré vikunnar við þennan skófatnað enda er því haldið fram í sumum heimildum. En ekki er allt sem sýnist. Þetta tré kemur skófatnaði ekkert við. Við verðum því að bíða aðeins með að skrifa pistil um skó og skóg. Þó má ekki útiloka að ef einhver þjáist af óvenju slæmri táfýlu gæti þetta tré hentað sem skófatnaður.


Sníkjulíf

Eins og áður segir er tegundin svokölluð hálfsníkjuplanta. Meðal fórnarlamba eru akasíur og fleiri tré af belgjurtaætt, bambus, tröllatré (Eucalyptus spp.), strikníntré (Strychnos nux-vomica) og runnar af ættkvíslinni Lantana spp. svo fátt eitt sé nefnt af þeim um það bil 300 tegundum sem staðfest er að þær sníki á. Þessi runni, Lantana, var fluttur inn til Indlands af Bretum frá Suður-Ameríku, á sínum tíma. Þar kann hann vel við sig eg er af sumum talinn bæði framandi og ágengur. Í bókinni The Tree (sjá heimildaskrá) er sagt frá merkilegri sögu um tengsl þessara innfluttu tegunda á Indlandi.

Skógfræðingurinn Dr. Sas Biswas fann einu sinni sandelstré á Norður-Indlandi þar sem þau uxu í beinni röð í einskis manns landi, langt frá öðrum trjám. Hann fór að velta því fyrir sér hvernig á þessu gæti staðið. Hver hafði eiginlega plantað þeim í svona beina röð og síðan yfirgefið þau? Svarið við því kemur ef til vill á óvart. Enginn hafði plantað þeim. Aftur á móti hafði verið þarna garður fyrir langa löngu. Í kringum garðinn var girðing og við hana hafði verið ræktaður þessi innflutti runni Lantana. Fuglar höfðu komið í garðinn og dreift fræjum Sandelviðarins í garðinn. Þau hófu sníkjulíf sitt á þessum runnum og uxu því í beinni röð, rétt eins og runnarnir. Nú er langt síðan eigendur garðsins fóru. Garðurinn fór í órækt og plöntur sem þurftu umhirðu á þessum stað hurfu smám saman. Þar með talið þessir runnar, sem háðir eru hærri raka en þarna er í boði. Ekkert er eftir sem minnir á garðinn nema trén sem áður lifðu sníkjulífi á runnunum. Nú standa þau þarna í beinni röð án tengsla við önnur tré og runna sem minjar um horfinn garð.


Þessi mynd er úr grein um hvernig sandelviður nær í næringarefni, einkum nitur, frá hýslum sínum. Greinina og myndina má sjá hér.


Eins og vænta má af hálfsníkjujurtum geta þau valdið öðrum trjám skaða. Það má vel vera að í dæminu hér að ofan hafi sníkjulífið átt þátt í að runnarnir drápust. Oftast nær er þó ekki að sjá að þessi hálfsníkjujurt valdi hýslum sínum miklu tjóni. Eftir því hefur verið tekið hversu algengt er að þessi tré sníkja á akasíum og fleiri trjám og runnum af belgjurtaætt. Það minnir okkur á hversu algengt það er að sjá hálfsníkjujurtina augnfró sníkja á jurtkenndum belgjurtum á Íslandi. Sem dæmi má nefna að augnfró vex mjög gjarnan í hvítsmára og verður þar ákaflega gróskumikill. Einnig herjar hann á innfluttar belgjurtir eins og seljahnútu. Nú er það svo að þegar til stendur að planta sandelstrjám í nýja akra eða plantekrur er gjarnan byrjað á að planta akasíum. Þær auðga landið af nitri og svo er sníkjujurtin látin taka við. Akasíunum er síðan fórnað þegar sníkjujurtirnar þurfa ekki lengur á þeim að halda.


Á Íslandi er algengt að sjá augnfró sníkja á hvítsmára. Mynd: Sig.A.


Mestum skaða eru þessi sníkjutré sagðar valda tröllatrjám (Eucalyptus spp.). Þær þróuðust ekki samanan þannig að ef plönturnar finnast á svæðum þar sem annað hvort önnur eða báðar eru innfluttar geta orðið vandamál. Þannig valda sandelstré í Ástralíu töluverðu tjóni í skógum tröllatrjáa og það þarf að fjarlægja sandelstré úr plantekrum tröllatrjáa á Indlandi. Samt eru sandelstré nýtt í báðum þessum löndum.


Nafnið

Ættkvísl þessara trjáa heitir Santalum á heimsmálinu. Heiti ættkvíslarinnar merkir hreint ekki sandalar þótt það hljómi þannig. Það er komið úr sanskrít þar sem chandana merkir ilmandi. Viður trjánna ilmar ótrúlega vel. Mest ræktaða tré ættkvíslarinnar er Santalum album. Það er eina tré ættkvíslarinnar sem getið er í Orðabanka Árnastofnunar. Þar hafa menn og konur ekki fallið í þá gryfju að kenna tréð við skófatnað sem er þar að auki almennt frekar óheppilegur á Íslandi. Þess vegna heitir tréð sandelviður en ekki sandalaviður eða sandalviður á íslensku. Vel gert, orðabankafólk!

Aftur á móti er það svo að ef vörur úr sandelviði eru seldar á Íslandi er án undantekninga talað um enska heitið: Sandalwood.

Ekki vel gert, innflytjendur.

Viður trjánna er ljósgulur eða hvítur og stundum með rauðum æðum. Myndin er fengin héðan.

Seinni hluti orðsins, album, er úr latínu og merkir hvítur. Þess vegna er þetta tré ýmist kallað hvítur sandelviður eða bara sandelviður eða sandelstré. Nafnið hvítur sandelviður er einnig notað til að ruglast ekki á þessum viði og því sem kallað er rauður sandelviður. Það er viður af tré sem heitir Pterocarpus santalinus á latínu. Það er önnur ættkvísl og verður ekki meira um það tré fjallað.

Viðurnefnið albus á að vísa í litinn á við tegundarinnar. Sumar tegundir trjáa, sem hafa áberandi hæringu á laufum, fá stundum viðurnefnið album eða alba, en það á ekki við um þetta tré. Laufin eru græn og án áberandi hvítra hára. Það eru að vísu smá, hvít hár á neðra borði blaðanna en nafnið vísar ekki í það.

Akur með Sandelviði. Myndin fengin héðan.

Uppruni og útbreiðsla

Talið er að Sandelviður sé upphaflega einlendur á eyjunni Timor í Indónesíu og nokkrum smærri nágrannaeyjum. Talið er að fyrir um 2000 árum hafi tré af þessari tegund verið flutt til Indlands og komið sér vel fyrir. Þar sá fuglar henni nokkuð víða enda bera trén ber sem fuglar eru sólgnir í. Ekki er þó hægt að útiloka að sandelviður hafi einfaldlega borist með fuglum til Indlands en ekki mönnum. Tegundarinnar er getið gömlum indverskum ritum svo sem í Pali Milanda panha (um 150 f.Kr.) og í hinum fornu Mahabharata ritum. Fyrst tréð hefur vaxið svona lengi á Indlandi er ekkert furðulegt að sumar heimildir segja að tréð sé upprunalega frá Indlandi. Til eru hópar manna sem vilja vernda villta stofna trjánna, einkum í suðurhluta þess stóra lands. Því miður er það svo að víða er gengið nokkuð nærri villtum sandelstrjám af duglegum skógarhöggsmönnum vegna þess hve verðmæt þau eru sem verslunarvara. Trén eru sums staðar í útrýmingarhættu en verndarsinnum hefur orðið vel ágengt. Nú orðið hafa stjórnvöld í Indlandi lagt blátt bann við að almenningur felli þessi tré og útflutningur þeirra frá Indlandi er bannaður nema undir ströngu eftirliti.


Plantekra með sandeltrjám í Ástralíu. Myndin er fengin héðan. Fyrirsögn greinarinnar er: This Sandalwood Plantation Is About to Make Its Owners a Lot of Money.


Viður þessara trjáa hefur árhundruðum saman verið fluttur til annarra landa, einkum til Kína. Ræktun trjánna er enn mest á Indlandi en nú á tímum eru þau víða ræktað í austurálfum. Plantekrur má finna á Sri Lanka, Ástralíu, Kína, Indónesíu, Malasíu, Filippseyjum og nokkrum kyrrahafseyjum.

Best þrífst tréð í heitu og fremur þurru loftslagi.

Notkun

Þessi tegund myndar kjörvið sem var mikið notaður í alls konar skrautmuni og húsgögn áður en gengið var of nærri villtum stofnum. Hann er þungur, þéttur en samt mjúkur viðkomu. Hann er talinn auðunninn en erfitt er að kljúfa hann. Viðurinn er ljósgulur með rauðleitum eða alveg hárauðum æðum. Stundum er sagt að hann hafi sama lit og fjörusandur. Þá er ekki átt við íslenskan basaltsand. Það sem mest einkennir þó viðinn er hversu vel og lengi hann ilmar.


Útskorin bókarkápa úr ilmandi, ljósum sandelviði.

Aldalöng hefð er fyrir því að nota sandelvið í trúarhátíðum. Á það jafnt við um hindúasið og Búddadóm. Bæði er það ilmurinn og smíðaviðurinn sem var nýttur og að auki er hefð fyrir notkuninni við líksmurningu innan trúarbragðanna. Mjög algengt er að súlur í hofum þessara trúarbragða séu úr sandelviði. Þær eru bæði fagrar og vel lyktandi. Svo er að sjá að skordýrum sé ekki eins vel við ilminn og okkur mönnunum. Því hefur viðurinn gjarnan verið nýttur til að smíða kassa sem verja eiga fyrir ásókn skordýra.


Ung planta af Sandelvið. Myndin fengin að láni frá Britannicu.



Ilmolíur eru einnig framleiddar úr þessum við eins og við er að búast. Það verður þó að teljast óvenjulegt að olían er ekki unnin úr berki trjánna heldur úr harðviðnum í kjarna þess, sem og rótum. Indverjar eru sagðir hafa notað þá aðferð að fella trén og leyfa svo maurum og öðrum rotverum að vinna á trénu þar til í kjarnviðinn var komið. Ilmolíuframleiðsla trjánna er sára lítil, ef nokkur, fyrsta aldarfjórðunginn eða svo í lífi trjánna. Því eru aðeins felld tré til vinnslu sem náð hafa 25 til 30 ára aldri. Því er það svo að plantekrur með sandelviði verða nokkuð gamlar áður en notkun hefst.

Hér á landi virðast vörur úr sandelviði fyrst og fremst tengjast ilmolíum og ilmkertum. Eru þær gjarnan seldar undir enska heitinu Sandalwood oil. Olíuna má einnig finna hér á landi í raksápu og nuddolíu svo dæmi séu nefnd.


Skyldar tegundir

Samkvæmt vefnum The World Flora on Line eru rúmlega tugur tegunda taldar innan ættkvíslarinnar. Sumir telja þær fleiri. Allar eru þær hálfsníkjujurtir eins og planta vikunnar. Heimkynni þeirra allra eru í Suðaustur-Asíu og í Ástralíu sem og á eyjum í suðurhluta Kyrrahafsins.

Saga einnar þeirra er nokkuð dæmigerð fyrir verslunarhætti sem lengi hafa verið stundaðir.

Rétt fyrir miðja nítjándu öld uppgötvuðu Evrópubúar aðra tegund af ilmandi sandelviði. Sú heitir S. spicatum og er hálfgert eyðimerkurtré. Það vex á nokkrum eyjum norðan við meginland Ástralíu og um vestanvert fastalandið. Innfæddir voru alveg til í að skipta á bolum af þessum trjám fyrir járn og tóbak. Sem fyrr var Kína aðalmarkaðurinn enda var sandelviður vinsæll þar um slóðir. Um tíma var mest af því tei sem drukkið var á Bretlandseyjum og í Ástralíu fengið í skiptum í Kína fyrir þennan sandelvið.


Útflutningur á áströlskum sandelvið, santalum spicatum, árið 1905 frá vesturströnd Ástralíu.

Það væri voða gaman að geta sagt að allir hafi grætt á þessum viðskiptum en því miður var það ekki svo. Sandelviðarkaupmenn áttuðu sig fljótt á því að einfaldara var að stela viðnum en borga fyrir hann. Innfæddir voru ekki hrifnir af þeirri nýbreytni. Þessum iðnaði fylgdi að lokum fjöldamorð á frumbyggjum. Einhverra hluta vegna tóku eyjaskeggjar því ekki þegjandi að vera brytjaðir niður fyrir trjástofna og því varð þetta að ákveðnu vandamáli. Á eyjunum lauk þeim átökum ekki fyrr en Bretar fóru sjálfir að rækta sandelvið á Indlandi og Seylon (sem nú heitir Sri Lanka). Frá fasta landinu hélt útflutningur áfram ásamt því að byggðir hvíta mannsins stækkuðu og raddir frumbyggjanna þögnuðu.


Santalum spicatum. Myndina tók Brian Myers.


Nú orðið eru það þessar tvær tegundir sem notaðar eru til að framleiða olíu sem seld er undir heitinu Sandalwood oil víða um heim og mörgum þykir mikil heilsuvara.


Helstu heimildir

Tudge, Colin (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.


Wells, Diana (2010): Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.

Í netheimildir er vísað beint í texta.






207 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page