top of page

Hvað er svona merkilegt við greni?

Updated: Feb 24

Á stórum svæðum barrskógabeltisins eru grenitegundir nær algerlega ríkjandi. Hvernig stendur á því? Hvað veldur því að ein tegund verður ríkjandi á ákveðnum svæðum en aðrar tegundir skógarins sjást varla nema sem einhverjir undanfarar eða þau fá að vaxa í skjóli trjánna eins og fyrir einhverja miskunn? Af hverju er greni ríkjandi frekar en aðrar tegundir?

Hér verður fjallað um þarfir grenitrjáa og gerð tilraun til að útskýra hversu mikilvæg tegundin er þar sem hún vex.

Víða um heim eru ýmsar grenitegundir ræktaðar utan sinna náttúrulegu heimkynna, enda er mikið gagn af þeim í hvers kyns skógrækt. Myndin tekin í hálöndum Skotlands þar sem rauðgreni og sitkagreni vaxa með ágætum. Mynd: Sig.A.


Almennt um þarfir

Þarfir trjáa eru mjög mismunandi. Sum tré gera miklar kröfur til hita, birtu, skjóls og næringarefna á meðan önnur geta komist af á stöðum þar sem hörgull getur verið af einhverju af þessu. Sum svæði eru þannig staðsett að sumarið er allt of stutt fyrir flestar tegundir trjáa. Í köldustu mánuðunum getur jafnvel fryst og þá þarf stór hluti líffélagsins að taka sér einhvers konar pásu þar til betur viðrar með hækkandi sól. Almennt má segja að frost takmarka mjög hvaða tegundir geta vaxið. Hér á landi er þó skortur á sumarhita jafnvel enn meira takmarkandi.

Sitkagreni vex upp á Hafnarsandi ásamt alaskaösp og jörfavíði. Hér var áður ber sandur. Frábær vöxtur í greni þar sem lúpínan hefur numið land. Framar á myndinni er sitkagreni sem fær ekki enn hjálp frá lúpínunni. Tiltölulega fáar trjátegundir í heiminum þola svona vist. Sem dæmi má nefna að á þessum söndum þrífst birki mjög illa. Mynd: Sig.A.


Ísland er einmitt á einum af þessum stöðum þar sem margt getur hamlað vexti trjáa. Stutt sumar og kaldur vetur er ekki endilega óskastaðan fyrir margar trjátegundir. Samt eru mjög stór svæði í heiminum sem eru einmitt þannig. Þau má finna um allan norðanverðan hnöttinn, norðan við laufskógabeltið en einnig í háfjöllum sunnar. Reynslan hefur kennt okkur að vel má rækta ýmsar tegundir trjáa á svona stöðum en þeir villtu skógar sem á slíkum stöðum vaxa standa langoftast saman af tiltölulega fáum tegundum þar sem barrtré skipa heiðurssess. Þetta köllum við barrskógabeltið. Ein ættkvísl trjáa er áberandi algengust í barrskógabeltinu. Það er ættkvísl grenitrjáa eða Picea eins og ættkvíslin kallast á útdauðu heimstungunni. Við höfum áður fjallað um þessa ættkvísl en nú skoðum við ættkvíslina frá öðru sjónarhorni og veltum fyrir okkur hvernig á velgengninni stendur.

Þessi mynd er frá Your Northwest Forests sem Skógarþjónusta Bandaríkjanna (USDA Forest Servise) heldur úti. Hún er fengin héðan.


Þar sem grenið skipar stærsta sessinn í svona vistkerfum skoðum við það sérstaklega. Samt er það þannig að sumt af því sem í þessum pistli er sagt á við um fleiri tegundir barrtrjáa. Annað á fyrst og fremst við um grenið.

Einn mesti grenisérfræðingur Íslands segir frá serbíugreni, P. omorika, í Laugatungu í Kópavogi á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands árið 2019. Mynd: Sig.A.


Vaxtarstaðir

Greni getur vaxið alls staðar í heiminum þar sem sumrin eru stutt og veturnir kaldir. Það vex í nyrstu skógum heimsins og í fjalllendi í Evrópu, Ameríku og Asíu þar sem aðstæður fyrir margar aðrar ættkvíslir trjáa eru óheppilegar (Kole 2007). Greni vex mjög oft nærri skógarmörkum en sums staðar fara aðrar tegundir þó hærra eða norðar.


Sígræn barrtré. Myndin fengin af síðu um sígræn tré.


Margar tegundir grenitrjáa geta vaxið við betri skilyrði en þar er samkeppnin við önnur tré að jafnaði meiri. Í sumum tilfellum líkar greni stórvel að vaxa upp með öðrum trjám. Þau eru þó ekki til skaða bundin af þakklæti enda ná þau oft og tíðum að verða algerlega einráð. Á Íslandi sjáum við vel að greni getur vaxið ljómandi vel í blandskógum með ýmsum trjám, bæði öðrum barrtrjám og lauftrjám. Líkast til verður þó grenið að endingu ofan á, ef mannshöndin skiptir sér ekkert að málum.


Barrskógur, mest greni. Myndin fengin af þýskri síðu WWF um barrskógabeltið.

Þar sem greniskógar vaxa á stórum, samfelldum svæðum geta aðstæður verið mjög misjafnar þegar horft er til þátta eins og næringarástands, raka eða jarðvegsgerðar. Því geta verið misjafnlega stór svæði þar sem aðrar tegundir eru meira áberandi (Heinrich án ártals).


Horft yfir blandskóg í Kjarnaskógi. Margar tegundir grenis vaxa prýðilega í íslenskum blandskógum. Merkilegt að sjá hvað yfirhæð trjánna er svipuð. Mynd: Sig.A.


Þegar sunnar dregur er þessu ekki þannig háttað. Þegar greni og til dæmis beyki vex saman á láglendi Evrópu kemur að því, fyrr eða síðar, að beykið sigrar í hinni eilífu samkeppni. Það er betur aðlagað slíkum aðstæðum og því hæfari til að lifa af. Nú er svo komið í heimssögunni að barrtré, sem fyrir óralöngu lifðu um allan heim, hafa víðast hvar látið undan fyrir lauftrjám nema þar sem aðstæður eru hvað erfiðastar. Í Síberíu, Alaska, Kanada og á Norðurlöndunum er vaxtatímabilið stutt. Þar nær beykið tæplega að laufgast, ljóstillífa og ljúka vexti á svona stuttum tíma. Að auki geta síðbúin vorfrost eða snemmbúin haustfrost skemmt vaxtarvefina. Þar er grenið í essinu sínu. Sama á við um fjöll þegar sunnar dregur.

Þýskt kort sem ætlað er að sýna barrskógabeltið. Á öllu þessu svæði eru grenitré algengust. Veðurfarslega tilheyrir Ísland þessu belti en fyrir tilviljun voru einirunnar einu barrtrén á landinu við landnám. Sunnar á hnettinum vex greni fyrst og fremst til fjalla. Myndin fengin héðan.


Sunnan við hið eiginlega barrskógabelti vaxa barrtré fyrst og fremst til fjalla eins og hér í Ölpunum. Mynd: Sig.A.


Uppruni og skyldleiki

Í bók um erfðamengi ýmissa trjátegunda (Kole 2007) er að sjálfsögðu fjallað um greni. Þar segir frá því að elstu þekktu steingervingar grenis séu um 45 milljón ára gamlir. Þar segir líka að líkindi bendi til þess að ættkvíslin sé upprunnin í Austur-Asía og hafi dreifst þaðan um allt norðurhvelið. Einnig kemur fram að vísindamenn hafi komist að því að erfðabreytileiki ættkvíslarinnar sé ekki mjög mikill ef miðað er við aðrar stórar ættkvíslir barrtrjáa. Mun meiri breytileiki er t.d. að finna í ættkvísl furutrjáa, Pinus spp. Það segir okkur að það er ekkert óeðlilegt við það að eiga auðveldara með að þekkja mismunandi tegundir eða hópa furutrjáa en grenitrjáa. Vel má vera að ástæða þessarar tiltölulega litla breytileika sé einfaldlega sú hversu vel grenitrjám hefur tekist að halda við veldi sínu í margar milljónir ára. Það er eitthvað spes við þessi tré. Til hvers að breyta því sem virkar vel?


Þessi glæsilega mynd er fengin frá þessum ljósmyndara. Ari Egilsson segir að myndin sýni hæsta fjall kanadísku Klettafjallanna. Það heitir Mt. Robson, er 3.954 m hátt og er í Bresku Kólumbíu. Í forgrunni er hvítgreni með fremur mjóa krónu. Eins og títt er má sjá lauftré eða -runna í jöðrum skógarins.



Þótt genasúpa ættkvíslarinnar sé talin fremur lítil miðað við margar ættkvíslir er það ekki endilega svo innan hverrar tegundar. Kemur þar til að sumar tegundir vaxa á mjög stóru svæði. Má sem dæmi nefna að erfðamengi hvítgrenis, Picea glauca, er nokkuð fjölbreytt, enda vex það á mjög stóru svæði (Kole 2007).


Útbreiðsla hvítgrenis í Ameríku.

Kortið er fengið héðan og er frá The Gymnosperm Database.


Til að varpa ljósi á skyldleikann má nefna að blendingar milli tegunda eru harla algengir og nær alltaf frjóir. Kole (2007) nefnir nokkur dæmi. Í suðurhluta Bresku Kolumbíu blandast saman tegundirnar hvítgreni og blágreni, P. engelmanni, og er blendingurinn algengur á þeim slóðum. Nálægt norðanverðri strönd sama ríkis blandast hvítgrenið við sitkagreni, P. sitchensis.


Erfðaflæði milli hvítgrenis og sitkagrenis virðist vera mjög algengt og kallast blendingurinn sitkabastarður eða hvítsitkagreni, P. x lutzii, á íslensku og er ræktaður hér á landi. Skógræktarfélag Íslands heldur utan um upplýsingar um fjölda gróðursettra trjáa á Íslandi. Þar á bæ hafa menn (af hvaða kyni sem þeir eru) hætt að gera upp á milli sitkagrenis og sitkabastarðs, enda ekki alltaf auðvelt að greina þarna á milli.


Þetta greni var gróðursett sem sitkabastarður en er mjög líkt sitkagreni. Á myndinni má einnig sjá fleiri tegundir. Mynd: Sig.A.

Blendingar hvítgrenis og svartgrenis, P. mariana, eru einnig þekktir í Kanada.


Vaxtarsvæði svartgrenis og brúngrenis, P. rubens, skarast í austur Kanada og norðaustur héruðum Bandaríkjanna. Þar eru blendingar þessarar tegundar algengir (Kole 2007).


Í Evrópu þekkjum við blendinga síberíugrenis, P. obovata, og rauðgrenis, P. abies (Kole 2007). Þessar tegundir eru taldar það skyldar að sumir telja að síberíugreni sé undirtegund rauðgrenis. Ef það er rétt er síberíugrenið skráð sem P. abies var. obovata.


Myndir af síberíugreni hafa ratað á rússnesk frímerki.


Greni myndar beina og kvistlitla stofna sem henta vel í hverskyns trjáiðnaði. Myndin er af rauðgreni í Austurríki. Mynd: Sig.A.

Frost- og snjóvarnir

Greni, eins og fleiri tré af þallarætt, framleiða ilmkjarnaolíur í nálum sínum og berki. Þessi olía virkar eins og frostlögur. Því þarf grenið ekki að losa sig við barrið yfir vetrarmánuðina eins og lerki og flest lauftré. Barrið stendur á trjánum allt árið. Um leið og hlýnar á vorin og safaspennan eykst í trjánum geta nálarnar hafið sýna ljóstillífun. Þetta gefur sígrænum barrtrjám ágætt forskot þar sem sumrin eru stutt. Jafnvel á svæðum þar sem vaxtartíminn er mjög stuttur geta ýmsar grenitegundir haldið velli og bætt við sig örlitlum vexti á hverju ári (Wohlleben 2016 bls. 75).


Hrímaðar barrnálar í Kjarnaskógi. Þær láta þetta ekkert á sig fá en bíða eftir sumrinu. Mynd: Sig.A.


Samt er það svo að það felst töluverð áhætta í því að halda í nálarnar allt árið. Snjór hleðst mikið frekar á greinar sem eru þaktar barrnálum en á naktar og lauflausar greinar. Þetta veldur miklu álagi og getur í verstu tilfellum brotið greinar og toppa af greninu. Grenið hefur fundið ráð til að draga úr þessari hættu. Í fyrsta lagi stefnir tréð alltaf að því að hafa einn, beinan stofn. Kræklótt tré brotna mikið frekar undan snjó en beinvaxin. Þetta kemur sér ákaflega vel fyrir allan trjáiðnað í heiminum.


Allskonar sígræn barrtré í grasagarðinum í Edinborg. Hvernig ætli þau færu í almennilegum, íslenskum snjóavetri? Mynd: Sig.A.


Að auki býr tréð yfir öðru bragði. Á sumrin, þegar tréð ljóstillífar, standa greinarnar oftast beint út til að fanga sólarljósið. Þegar snjór hleðst á þær gefa þær eftir og sveigjast nær stofninum. Þá taka þær mun minni snjó á sig en ef þær væru í útréttri stöðu. Þær raðast saman ekki ósvipað og þakskífur á húsþökum. Skarast og styðja við hverja aðra sem og stofninn. Þannig þreyja trén þorrann og góuna uns aftur fer að hlýna (Wohlleben 2016).


Grenilundur í Ölfusi nálægt Varmá. Greinarnar nokkuð uppsperrtar.

Mynd: Sig.A.


Sami lundur eftir snjóbyl. Greinarnar hafa sveigst niður á við. Meiri snjór merkir að greinarnar sveigjast meira. Þetta hjálpar til að verjast snjóþyngslum. Mynd: Sig.A.


Bent hefur verið á að eftir því sem greni vex norðar eða hærra upp í fjöllum ber meira á þessu. Þar má jafnvel finna kvæmi sem hafa hangandi vaxtarlag yfir sumarið. Það er ekki alveg öruggt að það vaxtarlag hafi haft betur í hinni eilífu samkeppni vegna snjóþunga. Annað gæti spilað alveg jafn stóra rullu. Eftir því sem komið er norðar er sólin lægra á lofti. Því geta hangandi greinar hjálpað til við ljóstillífun. Barrnálarnar liggja betur við geislum sólar ef þær standa ekki beinstífar út í loftið, heldur hanga niður. Þessi tilgáta mun vera ættuð frá Aljos Forjan sem manna mest hefur skrifað um barrtré. Hvort sem þetta vaxtarlag hefur þróast til að takast á við snjóþyngsli eða hjálpa til við ljóstillífun skiptir sennilega ekki öllu máli. Má vera að bæði atriðin spili þarna inn í. Hver sem hvatinn er þá hjálpar þetta alveg örugglega grenitrjám að standast snjóþunga vetur.


Greni í garði á Akureyri í ísbrynju eftir aðventuhretið 2019. Mynd: Sig.A.


Rauðgreni í fjöllum Austurríkis með hangandi smágreinar. Mynd: Sig.A.


Þriðja atriðið hafa sum tré tekið upp til að minnka líkur á snjóbroti. Sum kvæmi barrtrjáa (bæði greni og þinur) eiga það til að þróa með sér mjög mjóa krónu. Hliðargreinarnar verða stuttar. Þessi þróun er miklu algengari á snjóþungum svæðum. Drifkraftur þeirrar þróunar er án efa snjóþyngslin.


Mynd úr barrskógabeltinu í Alaska. Takið eftir hversu mjóar krónurnar eru. Svona tré taka ekki mikinn snjó á sig. Myndin fengin héðan og er eftir andrekosslick.


Enn er ónefnt áhættuatriði sem fylgir því að halda barrnálunum allan veturinn. Það er ekki bara hættan á snjóbroti, heldur taka greinarnar á sig mun meiri vind þegar nálarnar hanga á trénu. Því kemur það ekki á óvart að eftir því sem vindálagið er meira, þeim mun minni er vöxturinn. Gott skjól gefur góðan vöxt. Í stórum, samfelldum skógum skýla grenitrén hvert öðru og yfirhæðin er áþekk á öllum trjánum á stórum svæðum. Um það má meðal annars lesa í pistli um siðareglur skógartrjáa. Sama á við um flestar tegundir trjáa.


Þroskaður barrskógur. Yfirhæð trjánna er svipuð. Mjó króna segir okkur að þetta er á snjóþungum stað. Myndin fengin héðan.


Þéttur en uppkvistaður greniskógur í Guðmundarlundi í Kópavogi. Á þessu stigi kemst lítið ljós í skógarbotninn svo annar gróður á ekki mikla möguleika. Smám saman mun ljósið aukast og þá birtir í skógarbotninum og aðrar plöntur fara að vaxa. Myrkir skógarbotnar draga úr samkeppni. Sjá má að grenistofnarnir eru beinir eins og vera ber. Mynd: Sig.A.


Fjölgun

Við getum ekki sleppt því að nefna tvö atriði til viðbótar sem hjálpar mörgum grenitrjám að verða nær einráð á kostnað flestra annarra trjáa. Það fyrra er að þótt greni teljist gjarnan til síðframvindugróðurs (eins og t.d. þöll og þinur) þá getur það vel numið land um leið og frumherjarnir (eins og t.d. birki, fura og víðir). Það gefur greninu aukið forskot.


Þrjár myndir af ungum sitkagreniplöntum sem sjálfar hafa sáð sér í nær hreina möl milli bygginga á Reykjalundi. Myndirnar teknar 2. desember 2022. Hin lífræna þekja mosategunda hjálpar eflaust mikið til við landnámið. Myndir: Sig.A.


Hitt atriðið skiptir einnig mjög miklu máli þar sem það á við. Það er sú staðreynd að þótt greni kjósi helst að fjölga sér með fræjum eins og vera ber hefur það annað bragð sem það grípur stundum til. Á svæðum þar sem sumrin eru of stutt og köld til að mynda fræ geta margar grenitegundir fjölgað sér með svokallaðri sveiggræðslu. Þá slá neðstu greinarnar rótum þar sem þær vaxa og snerta jörðu. Upp sprettur nýr stofn þar fyrir ofan. Þannig geta trén endurnýjað sig öldum saman án fræmyndunar. Stórir samfelldir greniskógar eru til þar sem öll trén eru í raun einn og sami einstaklingurinn.


Hér hafa greinar rauðgrenis í Hánefsstaðaskógi skotið rótum eins og sjá má. Þannig þarf grenið ekki eingöngu að treysta á fræ við fjölgun. Mynd: Sig.A.


Ekki nóg með það. Í Dölunum í Svíþjóð vex býsna frægt tré. Það er ekkert sérlega glæsilegt enda vex það við fremur slæm skilyrði hátt uppi í fjöllunum og á enga orku afgangs til að mynda fræ. Ekki ber á öðru en þetta rauðgrenitré hafi endurnýjað sig með sveiggræðslu í ótrúlega langan tíma. Hversu gamalt er þá þetta tré og hvernig mælum við aldur trjáa? Hver stofn er ekki talinn vera neitt sérstaklega gamall, en rótin er þeim mun eldri. Reynt hefur verið að rannsaka aldur rótarinnar með svokallaðri C-14 kolefnisgreiningu. C-14 er geislavirk samsæta kolefnis (C í lotukerfinu) í andrúmsloftinu sem alltaf verður til í litlu magni. Eins og önnur geislavirk efni á það sinn helmingunartíma. Helmingunartími er sá tími sem tekur helming af tilteknu, geislavirku efni að breytast í eitthvað annað. Vel má finna út hversu hátt hlutfall C-14 kolefnis er í lífrænum efnum (til dæmis trjávið). Fyrst helmingunartími samsætunnar er þekktur Þá er hægt að reikna aftur á bak og komast að því hvenær kolefnið var fangað úr andrúmsloftinu og finna þannig út aldur efnisins.


Samkvæmt sænskum rannsóknum, sem stjórnað var af Leif Kullman, prófessor við háskólann í Umeå, var kolefnið í rótum þessa öldungs fangað úr andrúmsloftinu fyrir um 9.550 árum (Wohlleben 2016, bls. 81 og Wikman 16.04.2008). Það eru því hátt í 10 þúsund ár síðan fræið spíraði þarna í fjöllunum og þar hefur rótin verið æ síðan. Má vel vera að þetta tré geti gert tilkall til þess að teljast elsta tré í heimi.


Myndir af þessu fræga greni eru fengnar af þessari síðu. Fyrstu myndina á Petter Rybäck, miðmyndina á sjálfur Leif Kullman sem staðið hefur fyrir þessum rannsóknum. Vetrarmyndina á IBL/Rex Feature.


Barrskógar Rússlands

Skógar á norðurslóðum eiga margt sameiginlegt, hvar sem þeir vaxa. Þess vegna höfum við valið barrskóga á einum stað sem dæmi um þessa vistgerð. Fyrir valinu urðu barrskógar Rússlands. Seinna verða birtar tvær greinar um skóga Alaska.


Olga V. Smirnova (2017) skrifaði bók ásamt félögum sínum um rússneska skóga Evrópu allt austur til Úralfjalla. Þar í landi er barrskógabeltið gjarnan kallað taiga. Þar fyrir sunnan eru blandskógar barr- og lauftrjáa (höfuðborgin Moskva er í því belti). Enn sunnar taka laufskógar við og loks gresjur þegar of þurrt verður fyrir samfellda skóga. Samtals eru barr- og blandskógar taldir vera um 1.700.000 km2 í Evrópuhluta Rússlands. 77% þeirra eru tilheyra norðrinu. Svipaðir skógar ná svo yfir allar Síberíu. Í þessum norðlægu barrskógum Evrópuhluta Rússlands vaxa fyrst og fremst greni, Picea spp. og í minna mæli síberíuþinur, Abis sibirica. Inn á milli eru eikur, Quercus robur og linditré, Tilia cordata (bls. 690). Mun minna er af rússalerki, Larix siberica og þá helst austast á svæðinu. Ef þessir skógar raskast koma aðrar tegundir inn sem aðeins finnast í mjög litlum mæli í dimmu barrskógunum.


Rússneskur barrskógur með greni sem ríkjandi tegund. Myndin fengin héðan.


Samkvæmt sömu heimild eru grenitegundirnar ríkjandi í þroskuðum skógum eins og sést á myndinni hér að ofan. Samt er það svo að dæmigerðir barrskógar norðursins (taiga) eru aðeins um 37% vaxnir þéttum greniskógum. Á öllu þessu svæði má líta á greniskóga sem einskonar hástig gróðurframvindunnar, með eða án síberíuþins. Vestan til á svæðinu vex rauðgreni, P. abis, en austast er síberíugreni, P. obovata. Á milli þeirra má finna blendingstegundina P. x fennica. Við höfum aðeins komið inn á þetta í gömlum pistli um rauðgreni. Þar segir að austurmörk rauðgrenis séu ekki vel skilgreind vegna þessarar blöndunar við síberíugreni.


Dimmur barrskógur. Myndin fengin héðan. Þar eru margar glæsilegar myndir.


Hvað vex þá á hinum 63% barrskógabeltisins? Því svarar Olga vinkona okkar í bókinni sem nefnd er hér að ofan. Um 63% skóganna eru nú fyrst og fremst vaxnir frumherjategundum, einkum birki, Betula spp. og blæösp, Populus tremula. Þriðjungur þessa svæðis er svo vaxinn skógarfurum, Pinus sylvestris, sem vissulega eru barrtré. Þetta háa hlutfall skóga sem ekki eru fyrst og fremst vaxnir greni bendir til endurtekinna hamfara (út frá sjónarhóli grenitrjánna) á svæðinu. Má þar nefna skógarelda, storma, flóð og auðvitað skógarhögg. Þótt smærri svæði verði vaxin öðrum tegundum mun stærsti hluti þessara skóga smám saman breytast í dimma greniskóga með tíð og tíma. Það á við þar til eitthvað verður til þess að raska skógunum og hringrásin hefst á ný. Þannig er það víðar á barrskógabeltinu. Tegundirnar mynda eins konar síbreytilega mósaíkmynd.


Blandskógar í rússneska barrskógabeltinu með greni og nokkrum öðrum tegundum sem numið hafa land eftir röskun. Myndin fengin héðan.


Í blandskógunum, sunnan við þetta belti, má oft finna hreina, samfellda skógarteiga af greni þótt stundum séu þintré eða önnur tré með þeim. Bendir það til að blandskógarnir verði að einhverju leyti til vegna áhrifa manna á vistkerfið. Sennilega ætti barrskógabeltið að vera enn stærra en það er ef marka má Olgu.


Þessi lýsing rússnesku skóganna er höfð hér vegna þess að staðan er í raun mjög svipuð í öllu barrskógabeltinu. Það er bara mismunandi hvaða grenitegund er ríkjandi og hversu stór hluti skóganna hefur raskast af einhverjum völdum. Grenitrén eru að jafnaði ríkjandi tegundir á þessum svæðum. Vel má vera að við birtum síðar pistla um barrskógana í Alaska, enda höfum við fengið mikið af trjám þaðan.

Mynd úr rússneskum barrskógi.

Myndin fengin héðan en hana á Natalya Erofeeva |


Meira um mikilvægi

Í bók um erfðamengi trjáa í ritstjórn Chittaranjan Kole (2007) er fjallað sérstaklega um fjórar tegundirnar innan ættkvíslarinnar sem höfundar telja mikilvægastar af þeim 35 tegundum sem eru til innan hennar. Allar þessar fjórar tegundir þrífast á Íslandi og þrjár þeirra þrífast mjög vel. Það eru hvítgreni, P. glauca, sitkagreni, P. sitchensis og rauðgreni, P. abis. Sú fjórða, svartgreni, P. mariana, þrífst ekki eins vel.


Hér verður drepið á hversu mikilvæg þessi tré eru í sínum vistkerfum samkvæmt bókinni. Mikilvægi þeirra mun einnig aukast á Íslandi með vaxandi ræktun.


Þrjár grenitegundir ásamt lerki á Miðhálsstöðum sumarið 2022. Fremst er rauðgreni, síðan blágreni, þar á eftir sést í lerki en efst í skóginum er sitkagreni. Litamunur tegundanna sést vel. Mynd: Sig.A.



Hvítgreni er sagt vera næstmikilvægasta barrtegundin í endurreisn skóga í Kanada. Þar er plantað um 100 milljónum hvítgrenitrjáa á hverju ári.


Sitkagrenið er sagt vera mikilvægasta timburtréð í Alaska. Sem dæmi um það nefna höfundar að árið 1995 kom 70% af öllum við af sitkagreni sem framleiddur var í Ameríku frá suðaustur hluta Alaska. Utan náttúrulegs útbreiðslusvæðis síns skiptir sitkagrenið einnig miklu máli. Á það einkum við um norðurhluta Evrópu. Miklar tekjur eru af sitkagreniskógum á Bretlandseyjum (sem hefur verið ræktað það allt frá því árið 1831), Írlandi, Danmörku, Frakklandi og Þýskalandi. Árið 1997 var hlutdeild sitkagrenigróðursetninga á Bretlandseyjum komin upp í nær 70% af gróðursettum barrtrjám. Aðalsteinn Sigurgeirsson hefur bent á að nýrri heimild sé sagt frá því að árið 2022 var sitkagreni 80% árlegrar gróðursetningar í Írlandi. 90% af þeim viði sem þar fellur til er af þeirri tegund. Í Skotlandi er hlutfall sitkagrenis nú um 60% af árlega gróðursettum trjám.


Rauðgrenið er mikilvægasta barrtré Evrópu ef horft er til efnahags og á sér mjög langa ræktunarsögu. Það verður allra trjáa hæst í náttúrulegum, evrópskum skógum þótt það standi sitkagreni að baki. Rétt er að nefna að til eru þeir sem vilja frekar rækta rauðgreni í Evrópu en sitkagreni, því rauðgrenið er evrópskt. Sem dæmi um þetta má nefna Facebookhópana Sitkagranas venner sem hafa, þegar þetta er ritað, 539 meðlimi og Nei til sitkagran i norsk natur með 124 fylgjendur.


Könglar á rauðgreni í Hánefsstaðareit. Eldri könglar eru brúnir. Mynd: Sig.A.



Svartgrenið er í þessari ágætu bók sagt vera mikilvægasta trjátegundin í norðlægustu skógum Norður-Ameríku. Það skiptir efnahag íbúa miklu máli í New Brunswick, Nova Scotia og Quebec.


Svartgreni úr ræktun Ólafs Njálssonar í Nátthaga nýtur skjóls af furum.

Myndin tekin í janúar 2023. Mynd: Sig.A.


Í áðurnefndri heimild (Kole 2007) er áréttað að þótt í bókinni sé kastljósinu helst beint að efnahagsþáttunum þá má ekki gleyma því að grenitegundir skipta allt líffélagið (og þar með vistkerfið) miklu máli. Grenitegundir eru þau tré sem mestu máli skipta þar sem veðurfar er eitthvað svipað því sem finna má á Íslandi.


Af ofansögðu má ljóst vera hversu miklu máli ræktun grenis skiptir hin norðlægu lönd. Með aukinni skógrækt á Íslandi munu grenitegundir skipta mjög miklu máli, rétt eins og annars staðar í heiminum. Því ber að fagna, enda eru grenitré frábær.


Mjór er mikils vísir. Mynd: Sig.A.



Heimildir


Bernd Heinrich (án ártals): The Trees in my Forest. HarperCollins e-books


Chittaranjan Kole ritstj.(2007): Genome Mapping and Molecular Breeding in Plants (sjöunda bindi). Forest Trees. Springar Verlag Berlín, Heidelberg.


Olga v. Smirnova, Maxim V Bobrovsky og Larisa G. Khanina (2017): European Russian Forests. Their Current State and Features of Their History. 15. bókin í bókaflokknum Plant and Vegetation. Springer, Dordrecht, Hollandi.


Karin Wikman (16.04.2008): World’s oldest living tree discovered in Sweden. Sótt 05.02.2023 https://www.umu.se/en/news/worlds-oldest-living-tree-discovered-in-sweden_5838747/

Peter Wohlleben (2016): The Hidden Life of Trees. What They Feel, How they Communicate. Þriðji kafli. David Suzuku Institute. Greystone Books. Vancouver, BC, Canada.


Í netheimildir í tengslum við myndir er vísað beint í texta.

337 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page