top of page

Siðareglur skógartrjáa

Updated: Jun 12, 2023

Skógartré í sérhverjum skógi virðast hafa sammælst um ákveðnar, óskrifaðar siðareglur sem öllum trjám ber að fara eftir. Ef þær væru samdar af Tornbjörn Egner væri fyrsta reglan þessi: „Öll trén í skóginum eiga að vera vinir“. Reglurnar ná yfir viðeigandi hegðun, vöxt, vaxtarhraða og umfang trjáa í þroskuðum skógarvistkerfum, sem og hvar hver tegund skal halda sig.

Alpafegurð Austurríkis. Þarna eru glæsilegir skógar. Mynd: Sig.A.

Því verður samt ekki á móti mælt að alltaf eru til einstaklingar sem brjóta siðareglur. Sérstaklega óskráðar siðareglur. Gildir það jafnt um menn og tré. Stundum eru reglurnar brotnar vegna sjúkleika þeirra sem brjóta þær, í eiginhagsmunaskyni eða vegna þess að gott tækifæri býðst.

Í þessum litla skógarlundi fylgja trén helstu reglum. Trén eru verðlaunuð með þessum fína regnboga. Mynd: Sig.A.


Siðareglur um vöxt

Í vel þroskuðum skógum gildir eftirfarandi regla: Tré skal hafa einn beinan stofn sem heldur uppi krónu. Krónan skal sjá um ljóstillífun án þess að draga um of úr möguleikum annarra trjáa til ljóstillífunar. Trjástofninn skal innihalda árhringi sem eru nokkuð reglulegir. Hann skal líka hafa æðar sem flytja vatn og uppleyst steinefni frá rótum upp í laufkrónuna og afurðir ljóstillífunar (sykrur) um allt tréð. Hvert tré í skóginum skal vera svipað á hæð og næstu tré. Rótin skal vaxa ofan í jörðina og halda trénu föstu ásamt því að afla vatns og næringarefna.

Mikilvægt er fyrir tré að muna að ræturnar eiga að vera neðanjarðar. Myndin sýnir sitkagreni við Reykjalund í Mosfellsbæ. Mynd: Sig.A.


Í hinum virta Konunglega Grasagarði Edinborgar er afgirt svæði þar sem almenningur fær að fylgjast með þróuninni þegar dautt kastaníutré fær að rotna og skila næringarefnunum aftur inn í hringrásina. Af jörðu er það komið, af jörðu skal það aftur verða. Um dauð tré í skógi hefur áður verið fjallað á þessum síðum. Sjá hér. Mynd: Sig.A.

Skógar eru ekki skrúðgarðar. Þess vegna er eðlilegt að greinar og stofnar fái að fúna á skógarbotninum. Það eykur líffjölbreytileikann og kemur næringarefnum aftur inn í hringrásir skógarins. Myndin er úr Leyningshólum. Mynd: Sig.A.

Tré sem fara eftir ofangreindum siðareglum um vöxt geta orðið mjög gömul og glæsileg. Það er þó óvíst að trén hafi sett sér þessar reglur til að passa inn í fegurðarmat okkar mannfólksins. Aftur á móti standast þau að jafnaði hvers kyns ásókn sjúkdóma og óveðra. Það er það sem skiptir skóginn máli.

Jafnvel himininn gleðst yfir skógum þar sem trén fylgja siðareglum skógartrjáa eins og hér í Kjarnaskógi. Mynd: Sig.A.


Brot á siðareglum

Brot á siðareglum skógartrjáa geta varðað allskyns sektum. Fara sektirnar eftir eðli brotanna hverju sinni og þeim náttúruöflum sem ráða ríkjum á hverjum stað og hverjum tíma. Það þýðir t.d. lítið að hóta trjám í Amazon skaða af völdum snjóbylja. Aftur á móti er það furðu algengt að refsingin kemur stundum mörgum árum eftir að brotin eru framin og sekt er sönnuð - eða ekki sönnuð. Hafa stjórnvöld margra ríkja tekið mið af skógum hvað þetta varðar. Verða nú nefnd nokkur dæmi um brot á siðareglum og refsingum við þeim.


Þessi fjallaþinur er vissulega dálítið spes. Hætt er þó við að honum verði fyrr eða síðar refsað fyrir þetta vaxtarlag. Mynd: Sig.A.


Ef tré tekur upp á því að vaxa meira en önnur tré og verða umtalsvert hærra má búast við að önnur tré neiti að skýla því í vondum veðrum. Gildir þá einu hvert veðrið er. Þannig tré tekur miklu meiri vind á sig í roki og að auki hleðst meiri snjór á það ef þannig viðrar. Því eru miklu meiri líkur á að það brotni og skemmist en hin trén. Þar með er refsingunni ekki lokið. Stór sár, sem af skemmdunum stafa, eru lengi að lokast þannig að ýmsir rotsveppir eiga greiðari leið í viðinn. Því getur verið um langtímarefsingu að ræða.

Þyrping af risafurum, Sequoiadendron giganteum, frá vesturströnd Norður-Ameríku vex vel í Edinborg. Þær hjálpast að og fara eftir sínum eigin reglum. Reglurnar eru ekki endilega þær sömu og hjá evrópskum trjám. Ef þarna væri bara ein risafura má velta því fyrir sér hvort henni liði jafn vel og þyrpingunni. Mynd: Sig.A.


Fyrst við erum að tala um sveppasýkingar má nefna að stundum er að sjá sem sum tré gleymi að fara eftir reglunum um að græða sár, jafnvel þótt sárin séu ekki mjög stór. Refsingin getur verið slæm sveppasýking sem jafnvel fer þá að herja á tré sem hafa staðið vel við sinn hluta reglnanna um að loka sárum eins fljótt og auðið er. Þessi refsing getur því náð langt út fyrir hinn meinta sökudólg.

Reyniáta getur verið bannvæn. Mynd: Sig.A.


Stundum taka tré upp á því að neita að vaxa upp. Slík tré eiga ekki mikinn séns í skóglendi en við, mannfólkið, notum þau stundum í garðrækt. Furðulegt að við skulum vilja rækta svona vanskapnað! Í þessu tilfelli er það þöll, Tsuga canadensins ´Pendula´. Mynd: Sig.A.


Fyrir kemur að sum tré steingleyma að vaxa beint upp í loftið. Þess í stað fara þau að vaxa út og suður eða jafnvel norður og niður. Þetta brot á siðareglum má sjá í mörgum skógum á Íslandi, bæði náttúrulegum birkiskógum og plöntuðum skógum. Svo mikið ber á þessu í birkiskógum að halda má því fram að til að mæla stærð birkitrjáa geti verið eðlilegra að mæla lengd þeirra en hæð. Hvað sem því líður: Niðurstaðan á þessu refsiverða broti á siðareglum er sú að snjórinn fær skipun um að hlaðast á greinar og áttavillta stofna þannig að trjánum er hætt við snjóbroti. Sama á við um aðra skóga þegar einstök tré vaxa í ranga átt.

Skoskur skógur þar sem trén fylgja siðareglum. Mynd: Sig.A.


Annar skoskur skógur þar sem í gildi eru siðareglur. Mynd: Sig.A.


Skoskur blandskógur í ljómandi góðu jafnvægi. Mynd: Sig.A.


Önnur refsing bíður einnig þeirra trjáa sem ekki kunna að vaxa beint upp. Nefnist sú refsing aðdráttarafl. Sumir telja að hún sé Newton að kenna. Vaxi tré ekki beint upp, heldur til hliðar og svo upp, tekur Newton til sinna ráða. Þyngd krónu og greina er ekki jafnt dreift á stofninn þannig að hann getur, hvenær sem er, látið undan. Einkum ef aðrar refsingar taka þátt í leiknum, svo sem vindur, snjór og ís. Getur þá stofninn látið undan þegar síst skyldi. Stundum neitar þó stofninn að gefa eftir en óvíst er að það bjargi trénu frá yfirvofandi hættu. Svona misjafn þungi getur einnig leitt til þess að ræturnar gefa eftir og tréð fjúki um koll.

Birkitré í Leyningshólum sem ekki fór eftir siðareglum og var refsað.

Mynd: Sig.A.

Vaglaskógur að hausti. Takið eftir hvað skógartrén eru svipuð að hæð.

Mynd: Sig.A.


Þegar þær siðareglur sem gilda um vöxt árhringja eru brotnar tengist það vanalega brotum á öðrum reglum. Misjafn vöxtur árhringja getur verið af tvennum toga. Annars vegar vegna þess að veðurguðirnir eru misjafnlega örlátir á hentugt veður til trjávaxtar. Breiðir árhringir myndast frekar þegar veður er hagstætt, en minni árhringir ef vöxturinn er minni. Þetta ætti ekki að koma á óvart og engar refsingar liggja við því. Hins vegar geta árhringir verið mismunandi í laginu ef álag er af stofninum. Getur þetta álag stafað af of litlu skjóli eða því að tréð vex í bratta sem jafnvel er á hægri hreyfingu. Slíkar aðstæður geta aflagað árhringina og þar með vöxt trjánna.

Þetta tré hefur þverbrotið siðareglurnar. Óhætt er að spá illa fyrir því. Árhringirnir eru væntanlega mjög spes. Mynd: Sig.A.


Aðventurassían

Ein mesta rassía veðurguðanna í seinni tíð var haldin 10. og 11. desember 2019. Þá er eins og veðurguðirnir hafi ákveðið að gerast siðferðislögregla og refsa öllum trjám í norðlenskum skógum sem grunuð voru um að hafa ekki farið eftir siðareglum. Það gerðu þeir með því að útbúa fordæmalausa slyddustórhríð sem hefur verið kölluð aðventuhretið. Hlóðu guðirnir snjó á nánast öll tré norðan heiða og neituðu að taka hann burt fyrr en undir páska. Ótrúlegur fjöldi trjáa þurfti að láta undan síga í þessu veðri og brotnuðu. Eins og títt er um stórfelldar rassíur voru það ekki bara þeir seku sem urðu fyrir refsingunni. Sum tré, sem ekkert höfðu af sér gert, brotnuðu líka. Aftur á móti má segja að öll þau tré sem brotið höfðu siðareglurnar og vaxið eitthvað skakkt, brotnuðu. Þeim var nær.

Kjarnaskógur eftir aðventuhretið. Skemmdirnar komu svo smám saman fram.

Mynd: Sig.A.

Önnur mynd tekin eftir aðventuhretið. Grenið á myndinni þolir snjóinn betur en birkikjarrið til hægri. Upplýsingarnar á skiltinu eru vandlesnar.

Mynd: Sig.A.

Rangar fyrirmyndir

Rétt eins og hjá mannfólkinu eiga tré það til að velja sér kolrangar fyrirmyndir. Oft eru það fyrirmyndir sem ekki lifa lífinu eins og meirihlutinn telur heppilegt. Gott dæmi um slíkt er þegar tré taka sér banana sem fyrirmyndir í vexti. Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir banana að vaxa eins og þeir gera. Annars gætu þeir ekki passað inn í hýðið. Aftur á móti hentar slíkt vaxtarform ekki fyrir tré. Þá vaxa trén ekki beint upp heldur aðeins til hliðar, einkum neðst, og síðan upp. Rétt eins og þegar ungmenni taka sér rangar fyrirmyndir er það þannig með trén að heilu hóparnir gera þetta. Oftast með þeim árangri að vöxturinn aflagast meira og meira þannig að hætt er við að stofnarnir láti undan. Ástæður fyrir þessari röngu fyrirmynd geta verið nokkrar. Stundum hleðst snjór á tré í skógarjöðrum og beygir þau öll. Þá er eins og trén haldi að þau séu að breytast í banana og halla öll eins. Eins og vænta má, þegar um slæmar fyrirmyndir er að ræða, fara unglingarnir oftast verst út úr þessu. Ung tré bogna að vísu en geta rétt úr sér aftur. Ef trén eru nægilega stór og sterk þola þau ákomuna. En unglingarnir, sem eru að reyna að verða fullorðnir, bogna eins og börn en ná ekki að rétta úr sér aftur. Sama á við ef vindálag er mikið úr einni átt.

Tré á Akureyri sem hallar undir flatt. Fyrr eða síðar mun Newton ná að fella það. Mynd: Sig.A.

Sambærilegt fyrirbæri sést stundum hjá trjám sem vaxa í bratta sem ekki hefur sérlega stabílan og traustan jarðveg. Þá geta trén farið að halla undan brekkunni með vel fyrirsjáanlegum afleiðingum. Slík tré brjóta einnig siðareglur um einslaga árhringi.

Tvö lerkitré á Miðhálsstöðum sem halda að þau fái að vaxa eins og þeim sýnist. Vindurinn er eitthvað að reyna að temja þau. Mynd: Sig.A.

Hin síðari ár hafa heilu skógarnir tekið upp á þessu í útlöndum. Einkum norðlægir skógar sem vaxa þar sem sífreri er í jörðu eða hefur nýlega verið í jörðu en er nú horfinn. Með hnattrænni hamfarahlýnun hefur sífrerinn tekið upp á því að þiðna. Við það er grundvöllur skóganna, í orðsins fyllstu merkingu, orðinn óstöðugur og trén fara að halla í hinar og þessar áttir. Engu er líkara en slíkir skógar hafi lent á miklu og langvarandi fylleríi. Það er ekki gott, sérstaklega ekki fyrir ungviðið. Ef þið viljið skoða myndir af svona skógum er hægt að slá inn leitarorðin. „Drunken forests“ í leitarvélar.

Drukkinn skógur í Alaska. Myndin fengin héðan af síðu Amusing Planet.

Þegar mannfólkið brýtur reglurnar

Sum tré hafa brotið reglur um rótarvöxt. Oftast er það þó ekki sök trjánna heldur utan að komandi afla. Má nefna tré sem standa nærri steyptum veggjum sem mannfólk hefur komið fyrir án samráðs við skógana. Sem betur fer er almennt frekar lítið um þá í skógum heimsins, því þeir hindra rótarvöxt. Refsingin er sú að hvenær sem er má vænta þess að vindurinn, sem er þá refsivöndur siðareglanna, feyki þeim um koll.


Á þessu þaki á húsi í Austurríki er að myndast einskonar skógur. Hann á hvorki bjarta framtíð fyrir höndum né greinum. Siðareglur um vaxtarstaði banna svona vöxt.

Mynd: Sig.A.


Stundum eru það verkamenn skógræktarfélaga sem eiga sinn þátt í að brjóta jafnvægið milli undir- og yfirvaxtar. Það gerist til dæmis ef skógar eru grisjaðir of seint og of mikið. Í fáein ár á eftir getur slíkur skógur verið mjög viðkvæmur fyrir vindsköðum. Þekkt dæmi um þetta hér í Eyjafirði má sjá í Vaðlaskógi. Að öllu jöfnu er þriðji febrúar mikill hamingjudagur. Þriðji febrúar 2001 var samt undantekning frá því. Þá gerði mikið rok um allt land og olli víða tjóni. Í Vaðlaskógi hafði lerkiteigur þá nýlega verið grisjaður. Vindskaði varð töluverður í skóginum en áberandi mestur í hinum nýgrisjaða lerkilundi. Varð það til þess að starfsmenn félagsins fengu upplagt tækifæri til að gróðursetja ýmsar fágætar tegundir í hinn ofgrisjaða lerkilund. Þar nutu þau góðs af skógarskjólinu og má þar nú finna glæsileg eintök af síberíuþin, hvítþin, garðahlyn, álmi, aski og fleiri tegundum. Svona geta refsingar almættisins haft jákvæð áhrif, þegar öllu er á botninn hvolft.

Tré sem þakka pent fyrir óveðrið þann 3. febrúar 2001.

Myndin tekin 23. október 2021. Mynd: Sig.A.



Mannfólkið hefur fleira á samviskunni. Til eru dæmi þess að fólk rjúfi hringrásarhagkerfi skóganna með því að hreinsa ákveðin svæði af barri, laufi, greinum eða stofnum sem trén hafa af samviskusemi skilað aftur til jarðarinnar samkvæmt siðareglunum. Þar með rofnar hringrás næringarefnanna og refsingin er minni vöxtur og veiklulegri tré. Rétt er að hafa í huga að skógur er ekki það sama og skrúðgarður. Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við hugum að viðhaldi skóga.

Vel hirtur lerkiteigur í Vaðlaskógi. Mynd: Sig.A.


Þátttaka okkar í siðareglum

Við, sem höfum yndi af skógum, þurfum að þekkja til þessara siðareglna. Ef við gerum það getum við hjálpað ungum trjám að temja sér þær. Við getum klippt tvítoppa tré, grisjað þegar þörf er á og hirt um skóga á þann hátt að hvert tré skógarins njóti þess að vaxa þar. Stoltasta eikin í skóginum er ekki einhver visinn kalviður. Höfum þetta í huga.

Mikið grisjaður skógur í Austurríki. Eftirstandandi tré veita ungviðinu skjól. Mynd: Sig.A.

Uppvaxandi blandskógur í Skriðdal þar sem fljótvaxin tré skýla þeim hægvaxnari. Mynd: Sig.A.


Heimild:

Peter Wohlleben (2016): The Hidden Life of Trees. What They Feel, How they Communicate. Sjöundi kafli. David Suzuku Institute. Greystone Books. Vacouver, BC, Canada.



558 views

Recent Posts

See All
bottom of page