top of page

Varnir akasíutrjáa

Updated: Apr 9, 2023

Í lífríkinu er eilíf barátta milli afræningja og bráðar. Það er einn af drifkröftum þróunar. Bráðin reynir sífellt að finna upp betri varnarviðbrögð. Hjá dýrum eru þau oftast fólgin í því að dyljast eða komast sem hraðast í burtu frá rándýrinu. Tré eru oftast áberandi í umhverfinu og eiga mun erfiðara með skipulagt undanhald en flest dýr. Þau verða því að grípa til annarra hernaðaraðgerðar í baráttu sinni.


Akasíur (Acacia spp.) hafa tekið upp margs konar varnir gegn afræningjum. Í fyrri pistlum hefur verið fjallað almennt um akasíur og um ýmsar tegundir ættkvíslarinnar. Þær hafa þróað með sér og tekið upp efnavopn, lagvopn og fótgönguliða. Að auki halda þær úti boðliðasveitum og fjarskiptatækni sem telst mikilvægt í öllum stríðum. Þar fyrir utan hafa þær sérstakar sveitir sem sjá um aðföng. Um þetta síðasttalda var fjallað í fyrsta pistli um akasíur. Þar var sagt frá svepprót og gerlum sem hjálpa akasíum að fá það sem þær þurfa til að vaxa og vopnast.


Nú skoðum við hernaðaráætlun akasíutrjáa.


Friðsæl akasía í kvöldhúminu. Myndin fengin héðan


Efnavopn

Akasíur eiga það sameiginlegt með mörgum öðrum plöntum og trjám að stunda efnavopnaframleiðslu. Það gera þau til að verjast dýrum sem éta lauf þeirra. Efnavopnin gera laufin annaðhvort eitruð eða bragðvond. Framleiðsla efnavopna er orkufrekt ferli. Þess vegna getur verið heppilegt að draga úr framleiðslunni nema þegar sérstök ástæða er til.


Akasíur á sléttum Austur-Afríku eru gríðarlega mikilvægar fyrir vistkerfin þar. Fjölmörg dýr sækja í næringarrík lauf, brum og fræ þeirra á meðan önnur láta sér nægja að dvelja í skugganum. Þetta veldur auðvitað töluverðu álagi á trén. Samt framleiða þær fæstar efnavopn nema stundum.

Komi gíraffi eða laufkroppari (sem er fuglategund sem flögrar um í stórum hópum) til að fá sér máltíð af akasíulaufum fer í gang merkilegt ferli. Trén fara að framleiða beiskjuefni sem gera laufblöðin bragðvond. Þessi bragðvondu beiskjuefni eru búin til úr nitursamböndum. Af þeim eiga akasíur nægar birgðir, enda í sambýli við örverur á rótunum sem vinna nitur beint úr andrúmsloftinu eins og lýst var í fyrsta akasíupistlinum okkar. Birgðaflutningarnir eru í góðu lagi.


Páfagaukur étur fræ af akasíutré. Sumir fuglar eru hrifnari af laufunum. Myndin fengin úr Youtubemyndbandi.


Vegna þessara bragðvondu nitursambanda stoppa afræningjarnir sjaldnast lengi við hvert tré. Of mikið af þessum beiskjuefnum geta beinlínis valdið laufætunum tjóni. Á það jafnt við um fugla, skordýr og spendýr.


Fjarskipti

Hverskyns eiturefni eru ekki einu efnin sem akasíur framleiða í baráttu sinni gegn afræningum. Trén framleiða nefnilega líka sérstök boðefni sem við köllum etýlen. Þessum boðefnum er sleppt út í gegnum loftaugun. Þau gegna hlutverki sendiboða og láta trén í næsta nágrenni vita af hættunni. Aðrar akasíur örvast af þessum efnum og fara einnig að framleiða bragðvondu varnarefnin. Þess vegna dugar hvorki fyrir gíraffa né laufkroppara að fara að næsta tré. Þeir þurfa að fara nægilega langt til þess að boðefni um yfirvofandi árás hafi ekki borist. Þannig sér náttúran um að hvert tré verður ekki fyrir of miklu tjóni. Boðefnin sem trén framleiða berast með golunni milli trjáa og þau fara þá að framleiða beiskjuefni sem verja blöðin fyrir afráni. Enn hafa trén ekki fundið leið til að koma þessum boðefnum á móti vindi. Því er það svo að ef gíraffi fer á móti golunni þarf hann að ganga mun styttra en ef hann ferðast undan vindi til að finna almennileg lauf.

Hvernig trén nema og vinna úr þessum boðefnum er ekki alveg ljóst. En þetta virkar.


Gíraffi teygir sig í akasíulauf. Tréð bregst við með varnarefnum og lætur akasíur í nágrenninu vita.

Myndin er fengin héðan en hana tók Michaël Theys.


Á undanförnum árum hefur dýralíf í Afríku átt undir högg að sækja. Eitt af því sem gert hefur verið þeim til hjálpar er að færa gíraffa á svæði þar sem þeir hafa aldrei áður verið. Þar vaxa auðvitað akasíur. Sumar þeirra tegunda hafa þróast án gíraffa og þær eiga nú í vandræðum. Talið er að það sé vegna þess að þær akasíur framleiða hvorki eiturefni né boðefni um frekari eiturefnahernað þegar gíraffarnir éta laufin.

Þarna stöndum við frammi fyrir slæmum kostum. Eigum við að fórna trjátegundum til að bjarga stóru dýrunum? Er réttlætanlegt að fórna einni tegund til að bjarga annarri? Samkvæmt Tudge (2005) er þetta ein af mörgum ástæðum þess að minnsta kosti 35 tegundir akasíutrjáa eru taldar í útrýmingarhættu í heiminum.


Vefarafuglar gera sér gjarnan hreiður í akasíum. Þar eru þau nokkuð örugg. Myndin fengin héðan.


Misjafnt er hversu langt akasíur ganga í eiturefnahernaði sínum og hvar eitrinu er komið fyrir. Til eru akasíur sem verja fræ sín fyrir afræningjum með eitri og sumar framleiða eitruð laufblöð. Engin framleiðir samt svo eitruð laufblöð að einhverri dýrategund hafi ekki tekist að brjótast fram hjá þeim vörnum og éta þau með glöðu geði.


Lagvopn

Eitt helsta einkenni á akasíutrjám og -runnum eru þyrnarnir. Nafnið á ættkvíslinni er dregið af gríska orðinu akis sem merkir eitthvað í líkindum við oddhvass og vísar í þyrnana. Nær allar akasíur mynda áberandi þyrna. Oftast nær vaxa þeir út við grunninn á blaðstilkunum og eru algengastir í pörum. Þeim er ætlað að draga úr því að grasbítar geti étið öll laufin, eða að minnsta kosti hægt á sókn grasbítanna. Þegar myndir eru skoðaðar af gíröffum að snæðingi mætti ætla að þetta herbragð hafi ekki heppnast alveg nægilega vel. En þetta hægir á átinu og ver laufstilkinn. Ef laufstilkurinn verður ekki fyrir skaða á tréð auðveldara með að láta ný lauf vaxa.


Gíraffi étur akasíulauf, þrátt fyrir vígalega þyrna. Þyrnarnir hægja þó á átinu svo meiri tími gefst til efnavopnahernaðaraðgerða. Myndin tekin í Serengetiþjóðgarðinum.


Þyrnar akasíutrjáa geta verið mismunandi í laginu. Sumir krókbognir, aðrir sléttir. Allir eru þeir oddhvassir.


Í suðurhluta Norður-Ameríku vex runni af ættkvísl akasíutrjáa sem heitir Acacia greggii. Var hennar getið í fyrri pistli vegna mikilvægis síns fyrir hunangsframleiðslu á þeim slóðum, einkum í Texas. Annars vex tegundin líka í norðurhluta Mexíkó og í syðstu ríkjum Bandaríkjanna. Þessi tegund hefur sérlega öflug lagvopn. Á ensku er tegundin kölluð Catclaw og á spænsku Una de Gato. Bæði nöfnin vísa í þessa þyrna sem minna í lögun á klær stórra kattardýra. Þeir eru bæði langir og krókbognir. Þyrnarnir fara létt með stingast í gegnum almennan klæðnað manna af öllum kynjum og djúpt í hold þeirra. Þeir vaxa út úr nánast öllum greinum og geta valdið ljótum sárum.


Krókbognar kattaklær á akasíu.

Myndin fengin frá Pinterest og er eftir Bamafan93.

Þyrnar á akasíutrjám geta orðið nokkuð langir og fer lengdin eftir tegundum. Á þurrkatímum, þegar sumar tegundir fella laufin, á vindurinn það til að hvína í lauflausum trjánum. Þar skipta þyrnarnir öllu máli þannig að mjög mikið hvín í þeim. Þetta hefur orðið til þess að í sumum tungumálum eru akasíur kölluð flautu- eða blísturtré.


Í löngum, hvössum þyrnum hvín hátt í vindi.

Myndin er fengin héðan og er í eigu bow'tai'ed.


Fótgöngulið

Í öllum hernaði eru fótgönguliðar ákaflega mikilvægir. Sumar akasíur hafa ráðið málaliða í fótgöngulið sitt. Er það skipað maurum. Til að halda úti almennilegu fótgönguliði þarf að útvega einhvern mála og það hafa akasíurnar gert. Að auki útvega sumar heppilegt húsnæði.


Maur og bjalla á akasíu í Perth í Ástralíu. Myndina tók Mark Brundrett.

Í Mið-Ameríku mynda sumar tegundir þyrna sem eru holir að innan. Tegundin A. melanoceras hagar sér einmitt svona. Maurar mynda nýlendur sínar inni í þessum holu þyrnum. Sama má segja um fleiri tegundir í Ameríku. Verður það að teljast nokkuð vel gert hjá trjám að útvega herliði sínu heppilegt húsnæði. Í Afríku eru líka til maurar sem nýta sér þyrna sem híbýli, en þeir þurfa oftast að hafa fyrir því sjálfir að hola þá að innan.


Maur af tegundinni Pseudomyrmex spinicola lítur út úr þyrni á A. collinsii. Myndin fengin héðan. © Enrique Baumgarten.

Húsnæðið, eitt og sér, dugar þó ekki til sem borgun. Því bjóða akasíur einnig upp á próteinríka fæðu. Eins og aðrar belgjurtir nýta akasíur sér gerla á rótunum til að vinna nitur úr andrúmsloftinu. Nitur er einmitt mikilvægt í próteinframleiðslu. Þess vegna hafa akasíur efni á því að miðla hluta þess til mauranna sem mála fyrir veitta þjónustu. Þær framleiða því sérstakar sykrur sem maurarnir éta með mestu þökkum.


Sumar akasíur framleiða fæðu fyrir maura til að borga þeim fyrir veitta þjónustu. Myndin fengin héðan. Í þessu tilfelli er það A. collinsii.


Hlutverk mauranna í þessu sambýli er að losa tréð við afræningja sem sækja á plönturnar. Þau tré sem hafa maura í sinni þjónustu þurfa litlar áhyggjur að hafa á að skordýr leggist á laufin. Þá kemur hersveit maura og étur þau. Ekki nóg með það. Þeir hjálpa líka til í baráttunni við stóra grasbíta. Þegar stórir grasbítar eins og gíraffar eru of lengi að kroppa lauf af trjánum birtast maurarnir og hefja sínar árásir. Það má vel ímynda sér að það sé ekkert sérstaklega þægilegt að fá herskáa maura í snoppuna og þá er sennilega orðið tímabært að færa sig. Hér má lesa frétt frá BBC um hvernig maurar hjálpa akasíum að verjast fílum! Samkvæmt fréttinni finna fílarnir lykt af maurunum og vita að það er alveg sérstaklega óþægilegt að éta lauf og greinar af akasíum ef maurarnir fylgja með. Því leita þeir annað.


Ýmsar sníkjujurtir og ásætur eru einnig étnar af maurunum. Bæði á trjánum sjálfum og jafnvel í næsta nágrenni við þær.


Mynd af A. cornigera sem Pierson Hill setti á flickr. Þessi tegund af akasíum treystir svo mjög á maura sína í holum þyrnum að hún framleiðir engin beiskjuefni í laufunum til að verja þau afráni. Aftur á móti framleiðir hún próteinríka olíudropa fyrir hersveitir sínar.Ef vel er að gáð þá má alveg halda því fram að enn stærri dýr séu í liði með akasíum. Þau verja þær fyrir ásókn laufétandi spendýra. Þetta eru hin stóru kattardýr á gresjum Afríku. Þau halda sig gjarnan í skugganum af trjánum þar sem er ögn svalara en á bersvæði. Af augljósum ástæðum velja laufétandi antilópur og gíraffar ekki þær akasíur til átu þar sem ljónafjölskyldur gera sig heimakomnar. Ef til vill má segja að kattardýrin myndi einhvers konar skriðdreka- eða stórskotaliðssveit akasíutrjáa.


Sennilega er hyggilegast fyrir flest dýr að skoða hvort aðara akasíur en þessi séu ekki heppilegri til átu. Takið eftir stóru fræbelgjunum. Þeir koma upp um ættina. Akasíur tilheyra belgjurtum. Myndin er fengin héðan af Flickr síðu og er eftir Mark Eichmann.


Heimildir


Attenborough, David (1995): Einkalíf plantna. Þýðing: Óskar Ingimarsson. Bókaútgáfan Skjaldborg hf, Reykjavík.


Culross Peatti, Donald (2007): A Natural Historu of North American Trees. Trinity University Press, San Antonio, Texas.

Lewis, Gwilym o,fl. (ritstj.) (2005): Legumes of the World. bls. 188-191. Royal Botanic Gardens, Kew.


Sigurður Arnarson 2014; Belgjurtabókin. Sumarhúsið og Garðurinn.


Tudge, Colin (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.


120 views

Recent Posts

See All

Nitur

bottom of page