top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Einkennisbarrtré suðurhvelsins

Veðurfarslega tilheyrir Ísland hinu vel þekkta barrskógabelti norðursins. Öll önnur gróðurbelti heimsins speglast á bæði hvel jarðarinnar en þar sem barrskógabeltið ætti að vera á suðurhveli eru ekki nægilega stór landsvæði til að hægt sé að tala um hið suðlæga barrskógabelti. Það merkir samt ekki að engin barrtré vaxi á suðurhveli jarðar. Það er þekkt á báðum hvelum jarðarinnar að barrtré geta vaxið víðar en í barrskógabeltinu.

Af þeim barrtrjám, sem vaxa á suðurhveli jarðar, er ein ætt mest áberandi. Samkvæmt Orðabanka Íslenskrar málstöðvar heitir hún gagnviðarætt. Fræðiheiti hennar er Podocarpaceae. Samkvæmt Tudge (2005) og Farjon (2008) eru 18 ættkvíslir innan ættarinnar og frægust þeirra er sjálf gagnviðiaættkvíslin eða Podocarpus. Innan ættarinnar í heild hefur orðið mikil og merkileg þróun. Meðal annars hefur þróunin gert ýmsar tilraunir með einkennilega köngla. Nú er svo komið að þeir geta verið býsna fjölbreyttir í útliti innan ættarinnar. Ef lesendur vilja rifja upp muninn á ættkvíslum og ættum geta þeir glöggvað sig með því að lesa þennan pistil frá 2021 og til frekari glöggvunar má lesa þennan pistil. Þar er farið dýpra í þessi fræði.

Mjög algengt er að nota köngla til að skipta tegundum barrtrjáa í ættkvíslir og þessi fjölbreytileiki innann gagnviðarættarinnar hefur leitt til þess að ekki er alltaf auðvelt að ákveða hvaða tegundir tilheyra hvaða ættkvísl innan þessarar ættar. Á norðurhveli jarðar er það fyrst og fremst gerð köngla sem ræður því í hvaða ættkvísl barrtrjáategundum er skipað og skapar það miklu minni vanda en á suðurhveli. Við komum nánar að þessum könglum hér neðar.

Þar sem þessi pistill fjallar fyrst og fremst um ættkvísl gagnviða en ekki gagnviðarættina sleppum við því í bili að segja frá ýmsum furðum innan ættarinnar. Seinna segjum við frá furðutrjám innan hennar, en nú skoðum við hina stóru ættkvísl gagnviða.

Það kann að valda ruglingi þegar bæði er talað um gagnviðarætt og gagnviðarættkvísl. Það þarf samt ekki að vera þannig. Þegar talað er um gagnviði er átt við ættkvíslina, rétt eins og þegar talað er um víði þá er talað um víðiættkvíslina, Salix, en ekki víðiættina, Salicaceae. Sama á við þegar talað er um rósir. Þá er átt við tegundir innan rósaættkvíslarinnar, Rosa, en ekki ættarinnar, Rosaceae, í heild.

Podocarpus elatus er algengt tré í regnskógum í Nýja-Suður-Veils og Queensland í Ástralíu. Tréð vex einnig á Papúa Nýju-Gíneu. Tréð ber æta ávexti sem þroskast í mars til júlí. Að auki myndar tegundin ágætis timbur. Mynd og upplýsingar eru af þessari síðu.
Podocarpus elatus er algengt tré í regnskógum í Nýja-Suður-Veils og Queensland í Ástralíu. Tréð vex einnig á Papúa Nýju-Gíneu. Tréð ber æta ávexti sem þroskast í mars til júlí. Að auki myndar tegundin ágætis timbur. Mynd og upplýsingar eru af þessari síðu.

Stórar ættkvíslir barrtrjáa

Af öllum barrtrjám eru furur, Pinus spp. taldar mynda flestar tegundir samkvæmt flestum heimildum en næst í röðinni koma gagnviðir eða Podocarpus spp.

Þessar ættkvíslir bera höfuð og herðar (eða greinar og krónu) yfir aðrar ættkvíslir og nánast jafnmargar tegundir eru taldar tilheyra þeim. Samt er það svo að á meðal flestra íbúa landsins þekkjum við, íbúar á norðurhveli, bara aðra ættkvíslina.

Innan gagnviðarættkvíslarinnar þekkist margs konar vaxtarlag. Trén geta myndað allt frá jarðlægum runnum upp í stórvaxin, einstofna tré. Má nefna að hvorutveggja finnst á Nýja-Sjálandi. Annars vegar er þar að finna P. nivalis, sem vex þar til fjalla og getur við bestu skilyrði orðið um 40 cm á hæð. Hins vegar vex þar einnig P. totara sem oftast er um 20 til 25 metra hátt tré (Farjon 2008). Aðrar heimildir segja að það tré geti orðið enn hærra.

Podocarpus nivalis í konunglega grasagarðinum í Edinborg. Myndin tekin í desember árið 2018. Vel má vera að þessi tegund geti þrifist á Íslandi því á heimaslóðunum þrífst hún ofan  skógarmarka. Mynd: Sig.A.
Podocarpus nivalis í konunglega grasagarðinum í Edinborg. Myndin tekin í desember árið 2018. Vel má vera að þessi tegund geti þrifist á Íslandi því á heimaslóðunum þrífst hún ofan skógarmarka. Mynd: Sig.A.

Colin Tudge (2005) segir frá því að Maórar, sem voru frumbyggjar bæði á Suðurey og Norðurey, sem eru megineyjar Nýja-Sjálands, kölluðu þessa tegund totara og hefur það heiti ratað inn í fræðiheitið. Reyndar notuðu þeir það heiti einnig á P. cunninghamii sem vex á sömu eyjum en hærra til fjalla og verður ekki eins hávaxin. Tudge segir að P. totara geti náð allt að 40 metra hæð og að stofnarnir geti haft tveggja metra þvermál í brjósthæð. Maórar dáðu þetta tré. Það var ekki bara vegna mikils vaxtar heldur einnig vegna hins rauða litar sem er á timbrinu. Rautt litu þeir á sem konunglegan lit. Þeir áttu það til að höggva niður svona stóra stofna og hola þá að innan og nota sem eintrjáninga sem borið gátu allt að 100 ræðara (Tudge 2005).

Podocarpus totara 'Pendula' er ekki líkt neinum barrtrjám sem vaxa villt á norðurhveli. Myndin er fengin af þessari síðu. Af sumum algengum tegundum gagnviða þekkjast fjölmörg yrki.
Podocarpus totara 'Pendula' er ekki líkt neinum barrtrjám sem vaxa villt á norðurhveli. Myndin er fengin af þessari síðu. Af sumum algengum tegundum gagnviða þekkjast fjölmörg yrki.

Barr eða lauf?

Flest vitum við að lauftré hafa lauf en barrtré hafa barr. Ef málið væri alltaf svona einfalt væri þessi kafli alveg óþarfur. Í rauninni má segja að öll venjuleg tré hafi lauf. Laufið á barrtrjánum (eða berfrævingum, ef við viljum ekki lenda í þessu veseni með heitin) köllum við barr. Í flestum tilfellum eru slík tré sígræn, en á því eru undantekningar. Á Íslandi vaxa nokkrar tegundir af lerkitrjám sem allar eiga það sameiginlegt að fella barrið á haustin eða snemma vetrar. Þegar hlýnar á vorin laufgast þau aftur. Engum dettur í hug að segja að þau barrist. Þau laufgast. Þarna geymir tungumálið ágætan vitnisburð um að í raun og veru er barrið lauf.

Sumar tegundir berfrævinga (sem við gjarnan köllum barrtré) sem lifa á suðurhveli jarðar bera „barr“ sem er miklu líkara hefðbundnu laufi en því barri sem við þekkjum á trjám sem vaxa á Íslandi. Sumar tegundir gagnviða fylla þann hóp. Í sumum tilfellum er barrið – eða laufið – svona mitt á milli þess að vera barr og lauf. Í mörgum tilfellum getur það minnt meira á laufblöð en barr í útliti eins og sjá má á myndum í þessum pistli. Má jafnvel segja að sumir gagnviðir séu barrtré með sígræn lauf í stað barrs.

Mynd af Podocarpus henkelii. Þetta telst vera barrtré þótt ætla mætti annað. Myndin fengin héðan.
Mynd af Podocarpus henkelii. Þetta telst vera barrtré þótt ætla mætti annað. Myndin fengin héðan.

Barr gagnviða

Það er full ástæða til að skoða þetta barr aðeins betur. Innan ættkvíslar gagnviða má finna tegundir sem bera stærra og lengra barr en allar tegundir barrtrjáa á norðurhveli jarðar. Reyndar er barr sumra tegundanna ólíkt barri allra annarra tegunda barrtrjáa sem við þekkjum. Í sumum tilfellum minnir það á lauf sumra víðitegunda eins og lensuvíðis og körfuvíðis. Má segja að barrið sé ekki nállaga eins og við þekkjum, heldur sverð- eða rýtingslaga.

Hjá þessari ættkvísl raðast laufin eða barrið í eins konar spírala á greinarnar en stundum er það ekki mjög áberandi. Það sést þó þegar grannt er skoðað.

Rétt er að taka fram að lauf eða barr fleiri tegunda berfrævinga á suðurhveli jarðar er gjörólíkt barri norrænna barrtrjáa. Má nefna apahrelli, Araucaria auracana, sem dæmi en um hann höfum við áður fjallað. Það sama má segja um Wollemia nobilis sem einnig hefur borið á góma hjá okkur.

Barrið á Podocarpus salignus minnir meira á lauf margra víðitegunda en hefðbundið barr. Myndina tók Tom Christian en hana fengum við af síðunni Trees and Shrubs Online þar sem fjallað er um tegundina.
Barrið á Podocarpus salignus minnir meira á lauf margra víðitegunda en hefðbundið barr. Myndina tók Tom Christian en hana fengum við af síðunni Trees and Shrubs Online þar sem fjallað er um tegundina.

Uppruni gagnviða

Talið er að einu sinni hafi allt fast land verið tengt saman í eina stóra heimsálfu sem kölluð hefur verið Pangea. Síðar rofnaði hún í tvær risaheimsálfur. Sú í norðrinu hefur verið kölluð Lárasía en sú syðri Gondvana. Almennt er talið að klofningurinn hafi hafist um miðbik júratímabilsins.

Eftir að Pangea klofnaði höfðu allar lífverur býsna langan tíma til að þróast án þess að erfðaefni bærist á milli Lárasíu og Gondvana. Því er ekki að furða að líf á suðurhveli skuli hafa þróast á annan hátt en á norðurhveli. Má nefna að á Gondvana urðu pokadýr ríkjandi spendýr þegar þau tóku við af risaeðlunum á meðan fylgjudýr urðu ríkjandi spendýr á Lárasíu.

Talið er gagnviðarættin hafi orðið til á Gondvana. Enn er það svo að allar ættkvíslir ættarinnar eru til á suðurhveli jarðar en um helmingur þeirra hefur náð að nema land á norðurhvelinu.

Kort sem sýna líklega færslu meginlandanna um heiminn. Myndirnar fengnar héðan þar sem Peter Copeland við háskólann í Houston fjallar um málið.
Kort sem sýna líklega færslu meginlandanna um heiminn. Myndirnar fengnar héðan þar sem Peter Copeland við háskólann í Houston fjallar um málið.

Fundist hafa um 140 til 145 milljóna ára gamlir steingervingar af þessari ætt frá suðurhveli jarðar. Þá var júratímabilið enn í fullum gangi svo risaeðlurnar á Gondvana hafa haft þessi tré fyrir augunum (Tudge 2005, Eckenwalder 2009). Ættkvísl gagnviða er nú að finna í öllum helstu hlutum heimsins sem áður mynduðu Gondvana, nema á Suðurskautslandinu. Þar hafa ekki einu sinni fundist steingervingar sem gætu tilheyrt ættkvíslinni. Reyndar hafa ekki fundist margir steingervingar þar yfir höfuð, enda ekki auðvelt að leita þeirra. Helstu hlutar hins gamla Gondvana eru þau landsvæði sem við nú köllum Suður-Ameríku, Tasmaníu, Nýja-Sjáland, Ástralíu, Afríku, Indland, Nýju-Kaledóníu, Fidjíeyjar, og Nýju-Gíneu. Engin önnur ættkvísl barrtrjáa vex á öllum þessum stöðum samkvæmt Farjon (2008). Þess vegna má fullyrða að gagnviðir séu einkennisbarrtré suðurhvelsins.

Tegundir ættkvíslarinnar náðu um síðir að nema land á sumum hlutum Lárasíu. Myndirnar sýna steingervinga frá Plíósen tímabilinu sem greindir hafa verið sem Podocarpus pliomacrophyllus. Allir eru þeir frá Yunnan í Kína. Kvarðinn er 1 cm. Myndirnar eru fengnar héðan.
Tegundir ættkvíslarinnar náðu um síðir að nema land á sumum hlutum Lárasíu. Myndirnar sýna steingervinga frá Plíósen tímabilinu sem greindir hafa verið sem Podocarpus pliomacrophyllus. Allir eru þeir frá Yunnan í Kína. Kvarðinn er 1 cm. Myndirnar eru fengnar héðan.

Eins og kunnugt er hafa hlutar þessara fornu ofurmeginlanda klofnað og rekið hist og her um heiminn. Ekki sér fyrir endann á þeirri þróun og Ísland liggur á mörkum heimsálfa sem rekur í sundur. Sums staðar hefur hluta álfanna rekið saman. Þess vegna hafa gagnviðir náð að nema land á norðurhveli. Þá má meðal annars finna í Andesfjöllum, í Mið-Ameríku og á hálendi Venesúela. Talið er að tegundirnar séu algengari í Malasíu, Indónesíu og í heittempruðum skógum í Kína og allt norður til Japans. Eins og sjá má af myndunum hér að ofan er mjög langt síðan gagnviðum tókst að nema land í Kína.

Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvar á norðurhveli þessi ættkvísl er algengust. Samkvæmt Tudge (2005) er mikið verk óunnið í greiningu tegunda. Nefnir hann sérstaklega hálendi Venesúela sem dæmi. Ef til vill eru þar margar tegundir sem enn er eftir að lýsa og nefna.

ree

Podocarpus salignus í Frakklandi. Myndina tók Tom Christian en hana fengum við af síðunni Trees and Shrubs Online þar sem fjallað er um tegundina. Þótt gagnviðir séu ræktaðir víða í Evrópu eru engin villt tré í þeirri álfu sem tilheyra ættkvíslinni.


Vaxtarstaðir

Ættkvísl gagnviða eða Podocarpus er fyrst og fremst að finna í hitabeltinu sunnan við miðbaug. Ættkvíslin teygir sig yfir til heittempraðra svæða á norðurhveli og til tempraða beltisins á suðurhveli (Farjon 2008). Eins og áður segir finnast tegundirnar nú á öllum meginlöndum suðurhvelsins þar sem tré vaxa á annað borð. Að auki finnast þær á nær öllum stóru eyjunum í suðrinu og mörgum minni.

Á hinni risastóru eyju Nýju-Gíneu er vitað um 36 tegundir barrtrjáa og -runna. Þar af eru 30 af gagnviðarætt og af þeim tilheyra 14 eða 15 tegundir gagnviðarættkvíslinni. Restin skiptist á einar fimm ættkvíslir. Svipaða sögu er að segja frá Borneó. Þar eru þekktar 35 tegundir barrtrjáa, 29 þeirra tilheyra gagnviðarætt og af þeim eru 12 sem tilheyra þessari ættkvísl. Fyrrnefnda eyjan er næststærsta eyja í heimi á eftir Grænlandi en sú seinni fylgir skammt á eftir og er þriðja stærsta eyja í heimi. Enn er mikið órannsakað á þessum eyjum en það liggur fyrir að gagnviðirnir eru taldir mikilvægastir og algengastir barrtrjáa þar.

ree

Podocarpus neriifolius er einn þeirra gagnviða sem vaxa á Nýju-Gíneu. Þetta tré vex einnig á nokkrum nálægum eyjum og getur orðið um 24 metra hátt samkvæmt The Gymnosperm Database. Myndin er fengin héðan en hana tók Tony Rodd.


Á eyríkinu Nýju-Kaledóníu er að finna átta (sumar heimildir segja tíu) tegundir ættkvíslarinnar og margar fleiri sem tilheyra sömu ætt. Þessar átta eða tíu tegundir þekja stóran hluta eyjanna og eru af öllum stærðum og gerðum. Sumar eru lágvaxnir runnar en aðrar mynda hávaxin tré. Að auki vaxa tegundirnar í öllum þeim jarðvegsgerðum sem eyjarnar bjóða upp á (Farjon 2008).

ree

Til fjalla í Nýju-Kaledóníu vex Podocarpus gnidioides. Sú tegund er fremst á myndinni. Í skógum nær sjávarmáli vaxa stór og mikil tré af sömu ættkvísl. Myndin er fengin frá The Gymnosperm Database en þar á bæ segja fræðingarnir að tegundirnar séu tíu á þessum eyjum. Mynd: © Gildas Gâteblé.


Á öllu meginlandi Afríku vaxa aðeins fjórar tegundir af ættkvísl gagnviða en sú heimsálfa hýsir færri barrtré en allar aðrar heimsálfur að Suðurskautslandinu frátöldu. Í Afríku vaxa tegundirnar dreift í regnskógum í háfjöllum þar sem engin þurrkatímabil er að finna og hitinn er ekki óbærilegur fyrir trén.

ree

Podocarpus milanjianus vex í klettum í Angóla. Myndin er tekin í rúmlega 2200 m hæð yfir sjávarmáli. Við betri skilyrði getur tréð orðið um 30 m hátt. Myndin og upplýsingar eru fengnar frá InaturalistGT en eigandinn er © fmop lages.


Hin stóra eyja Madagaskar tilheyrir strangt til tekið Afríku en lífríkið þar er einstakt og ólíkt því sem finna má á meginlandinu. Þar vaxa einar fimm eða sex tegundir gagnviða. Allar eru þær fremur fáliðaðar. Madagaskar klofnaði frá restinni af Afríku á júratímabilinu og hefur þróast sjálfstætt allar götur síðan. Vesturhluti eyjanna er þurrari en austurhlutinn og þar vaxa engar tegundir gagnviða og reyndar ekki heldur nein önnur barrtré (Farjon 2008).

Eftir að Ástralía klofnaði frá Afríku og fór í ferðalag gekk hún í gegnum ýmsar veðurfarsbreytingar. Sennilega komu tegundirnar frá Afríku eða Suðurskautslandinu til Ástralíu meðan álfurnar héngu saman. Þær hafa ekki aðlagast þurru loftslagi Ástralíu nægilega vel. Finnast tegundirnar fyrst og fremst á rökum stöðum í Tasmaníu og við austurströndina. Gagnviðir vaxa þar helst sem undirgróður með gífurviðum af tegundinni Eucalyptus marginata (Farjon 2008). Samkvæmt kortinu hér að neðan finnast gagnviðir þó víðar í álfunni þótt þeir séu ekki algengir nema á fremur rökum stöðum. Svo eru þarna stór svæði þar sem gagnviðir finnast alls ekki vegna þurrka.

ree

Mynd frá World Flora Online sem sýnir þau fylki, ríki og lönd þar sem gagnviðir vaxa. Stundum eru heilu löndin, eins og Madagaskar, merkt inn á kortin þótt tegundirnar finnist ekki allstaðar á svæðinu. Það sama má segja um Vestur-Ástralíu. Þar er víðast hvar of þurrt fyrir gagnviði. Því lítur út fyrir að tegundirnar sé víðar að finna en raunin segir til um. Brúnu litirnir sýna hvar tegundin er slæðingur en sá græni merkir villtar tegundir.


Vist

Þótt gagnviðir finnist fyrst og fremst í hitabeltinu er rétt að hafa í huga að þar geta verið býsna fjölbreytt vistkerfi. Farjon (2008) gefur upp eftirfarandi dæmi um vist þar sem finna má þessi tré. Þau finnast til fjalla á suðurhveli jarðar, bæði í runnalendi og þar sem barrtré geta myndað skóga. Þau finnast einnig í sumum regnskógum, bæði á eyjum í Kyrrahafinu og á meginlöndum. Þau vaxa í sígrænum tempruðum skógum og í hitabeltisfrumskógum þar sem lauffallandi lauftré mynda meirihluta trjáa. Þau vaxa einnig í regnskógum til fjalla en ekki í dæmigerðum láglendisregnskógum stóru meginlandanna. Í slíkum skógum finnast engin barrtré.

ree

Podocarpus totara undir miklu vindálagi á Nýja-Sjálandi. Myndin fengin frá InaturalistGT en á © kjc001.


Gagnviðir þurfa töluverðan raka og finnast því ekki í eyðimörkum eða á þurrum staktrjáasléttum. Þeir vaxa ekki heldur á svæðum þar sem grunnvatnsstaða er mjög há. Tegundirnar geta ekki vaxið í mýrlendi eða á sambærilegum stöðum. Önnur tré eru þó til innan sömu ættar sem geta gert það (Farjon 2008). Við segjum frá því í pistli um furðutré innan ættarinnar.

Þar sem þessar tegundir er að finna mynda sumar þeirra hávaxna skóga en aðrar vaxa sem undirgróður í laufskógunum. Þar sem tegundirnar finnast hátt til fjalla vaxa þær stundum sem lágvaxnir runnar og stundum jafnvel vel ofan við skógarmörk. Það er hugsanlegt að slíkar tegundir gætu þrifist til skrauts í íslenskum görðum. Margar tegundir þrífast í rýrum jarðvegi á meðan aðrar þrífast best í frjósömum og hæfilega rökum jarðvegi (Tudge 2005, Farjon 2008).

ree

Á þessari mynd má sjá tvær tegundir gagnviða. Í forgrunni er P. nivalis (mynd númer 2 í pistlinum er nærmynd af sömu tegund) en að baki runnans er P. salignus. Myndin er tekin í Benmore Botanic Garden árið 2003. Hana tók Tom Christian og við fengum hana héðan.


Ættir og met

Hér að ofan segir frá því að ættkvísl gagnviða sé næsttegundaríkasta ættkvísl barrtrjáa í heiminum á eftir furuættkvíslinni. Ef við skoðum ættir barrtrjáa blasir við svipuð mynd, nema hvað einisættin, Cupressaceae, tekur þátt í keppninni. Hér notum við rithátt ættarinnar eins og hann er í Íðorðabanka Árnastofnunar, en sennielga er algengara að skrifa einiætt en einisætt. Einiættkvíslin, Juniperus, er talin þriðja stærsta ættkvísl barrtrjáa í heiminum en er langt á eftir ættkvíslum fura, Pinus, og gagnviða, Podocarpus. Meðfylgjandi tafla er byggð á töflu á bls. 35 í bók eftir Farjon (2008). Setja verður þá fyrirvara að alltaf verða einhverjar breytingar samfara aukinni þekkingaröflun og grasa- og flokkunarfræðingar eru ekkert endilega alltaf sammála. Samkvæmt töflunni hefur einisættin flestar ættkvíslir allra barrtrjáa eða 30. Í öðru sæti er gagnviðarættin með 18 og þallarættin með 11. Þallarættin hefur aftur á móti flestar tegundirnar eða 228 samkvæmt Farjon. Þar er gagnviðarættin í öðru sæti með 186 tegundir en einisættin með 133. Það sem skýrir þennan mun milli fjölda ættkvísla annars vegar og tegunda hins vegar er að innan einisættarinnar eru 17 ættkvíslir sem aðeins hafa eina tegund hver eins og sjá má í töflunni.

 Tafla sem byggð er á töflu eftir Farjon (2008) og sýnir fjölda ættkvísla og tegunda í þremur stærstu ættum barrtrjáa í heiminum. Taflan sýnir mismunandi fjölda tegunda innan ættkvísla. Aðeins þessar þrjár ættir barrtrjáa tilheyra ættkvíslir með fleiri en 20 tegundir hver. Í öllum öðrum ættum barrtrjáa eru aðeins fáar ættkvíslir í hverri og innan við 50 tegundir í hverri. Aðrar heimildir eru ekki endilega með nákvæmlega sömu tölu og stundum munar dálítið miklu. Heildarmyndin er þó svipuð.
 Tafla sem byggð er á töflu eftir Farjon (2008) og sýnir fjölda ættkvísla og tegunda í þremur stærstu ættum barrtrjáa í heiminum. Taflan sýnir mismunandi fjölda tegunda innan ættkvísla. Aðeins þessar þrjár ættir barrtrjáa tilheyra ættkvíslir með fleiri en 20 tegundir hver. Í öllum öðrum ættum barrtrjáa eru aðeins fáar ættkvíslir í hverri og innan við 50 tegundir í hverri. Aðrar heimildir eru ekki endilega með nákvæmlega sömu tölu og stundum munar dálítið miklu. Heildarmyndin er þó svipuð.

Fyrir þá lesendur sem ekki eru enn búnir að fá leið á tölum um fjölda tegunda viljum við benda á að í lok þessa pistils er sérstakur aukakafli um efnið. Hann er ætlaður allra mestu plöntunerðunum en við þreytum ekki almenna lesendur með slíku talnastagli.


Erfðabreytileiki

Farjon (2008) segir að erfðabreytileikinn sé talinn mun meiri meðal furuættkvíslarinnar en gagnviðarættkvíslarinnar, enda telja sumir vísindamenn að réttast væri að skipta henni í fleiri ættkvíslir. Þar sem ættkvísl gagnviða er miklu minna rannsökuð hafa slíkar hugmyndir ekki verið nefndar um þá ættkvísl síðan upp úr miðri síðustu öld. Eckenwalder (2009) bendir á að þá voru plöntur teknar úr Podocarpus-ættkvíslinni og settar í ættkvíslina Dacrydium. Eckenwalder er ósammála Farjon um að erfðabreytileikinn sé meiri innan furuættkvíslarinnar. Hann segir að innan ættkvíslar gagnviða sé mikla fjölbreytni að finna og að ef til vill sé þörf á frekari uppstokkun innan hennar. Hann nefnir að finna megi grunnlitningafjölda upp á X = 10, 11, 17, 18 og 19 innan hennar. Til samanburðar er grunnlitningafjöldi hjá öllum furum alltaf sá sami eða x = 12.

Þarna er komið efni í ritdeilur hjá þessum mestu barrtrjáafræðingum heimsins. Þeir virðast hafa einstakt lag á að vera ósammála. Ef til vill tilheyra þeir þeim hópi manna sem aldrei velja frið ef ófriður er í boði.


Lýsing

Innan ættkvíslarinnar er að finna 80 til rúmlega 100 tegundir eins og greint er frá í aukakaflanum aftast í pistlinum. Allar eiga tegundirnar sitthvað sameiginlegt. Til eru aðrar tegundir sem eiga sumt sameiginlegt en ekki allt sem hér er nefnt. Þær plöntur fá ekki að tilheyra ættkvíslinni Podocarpus en eru innan sömu ættar, Podocaroaceae. Allar tegundirnar hafa ílöng endabrum og örlítið snúnar, flatar og ílangar barrnálar, ef þannig má taka til orða, með einum miðstreng. Þær eru frekar sverðlaga, eins og Eckenwalder (2009) orðar það, en nálalaga en orðið barrsverð er ekki til. Því notum við áfram orðið barrnál, þótt það eigi tæpast við eins og sagt er frá hér ofar. Að auki vaxa á öllum tegundum könglar sem hafa ummyndast eins og reynt er að lýsa í næsta kafla. Annars má fullyrða að í útliti geti tegundir ættkvíslarinnar orðið æði fjölbreyttar. Það geta meira að segja þeir félagar Farjon og Eckenwalder verið sammála um þótt ýmsar lýsingar þeirra stangist á.

Sumar tegundirnar mynda nánast jarðlæga runna á meðan aðrar mynda hávaxin, beinstofna tré (Farjon 2008). Algengara er þó, samkvæmt Eckenwalder (2009), að stofnarnir verði gaffallaga eða snúnir og skældir. Krónan getur orðið umfangsmikil og gjarnan nokkuð hringlaga.

Börkurinn flagnar oftast af í löngum, mjóum næfrum.

ree

Víða um heim, einkum í Asíu, tíðkast að klippa gagnviði á þennan hátt. Myndin er fengin héðan.


Könglar

Könglar gagnviða eru einkar forvitnilegir. Þegar þeir þroskast myndast eins konar ber og upp úr því ýtist fræið. Ofan á þessum furðuköngli situr fræið eitt og oftast nakið, eins og vera ber hjá berfrævingum. Þó eru til dæmi þess að fræin séu tvö. Þessi meintu ber eru litsterk og í raun ummyndaðar hreisturblöðkur sem mynda eins konar grunn fyrir fræið. Þótt „berin“ hjá gagnviðum séu einstök í útliti má einnig sjá einskonar ber hjá fleiri barrtrjám, meðal annars hjá eini og ývið. Við setjum orðið í gæsalappir, því þetta eru ekki eiginleg ber, heldur ummyndaðir könglar. Sá munur er á þessum meintu berjum á norður- og suðurhveli að fræin eru inni í aldinum ýviða og einiberja. Þótt einiber séu líka ummyndaðir könglar eru þau ekki eins skrautleg á litinn og hjá gagnviðum og ýviðum. Litirnir hjá ummynduðum könglum gagnviða geta verið í ýmsum áberandi tónum og þeir eru mismunandi í laginu.

ree

Kynhirslur eða karlkönglar á gagnviðum eru ólíkir öðrum könglum og kynhirslum. Myndin fengin héðan og er af P. macrophyllus í Japan.


Þar sem fuglar hafa góða litasjón er talið víst að það séu fyrst og fremst þeir sem dreifa fræjum gagnviða. Þeir þurfa þá að gleypa þessa ummynduðu köngla í einum bita svo fræið geti gengið ómelt niður af þeim á heppilegum stað.

ree

Ummyndaður köngull á P. totara lítur út eins og ber. Upp úr honum vex eitt, stakt fræ. Mynd frá Wikipediu en hana á Kahuroa.


Innan skyldra ættkvísla af gagnviðarætt þekkjast svipaðir ummyndaðir könglar. Það bendir til að þessi þróun hafi hafist fyrir mjög löngu eða áður en ýmsar ættkvíslir ættarinnar urðu til (Farjon 2008, Tudge 2005).

Þegar fræin ganga heil aftan úr þeim dýrum – oftast fuglum – sem éta veislumatinn, þá fá þau drjúgan skammt af áburði með dritinu og spíra nær samstundis í sumum tilfellum. Þessi tengsl ættkvíslarinnar við fugla hafa leitt til þess að tegundirnar eiga auðveldara með að komast á milli eyja í Kyrrahafinu en mörg önnur tré, svo framarlega sem fuglar geta flogið á milli þeirra með fræ í sarpinum (Farjon 2008). Rétt er líka að nefna að til eru fuglar sem melta fræin. Slíkir fuglar eru alveg gagnslausir við að dreifa tegundum.

Eins og hjá öllum öðrum berfrævingum í heiminum sér vindurinn um frjóvgun könglanna.

ree

Önnur mynd af þessum furðulegu könglum innan ættkvíslarinnar. Í þessu tilfelli eru fræin blá eða með bláan hjúp og vaxa upp úr rauðum eða rauðgulum berjum. Myndin fengin héðan.


Fræðiheitið

Fræðiheitið Podocarpus er sett saman úr grískum orðum með vísan í þessa furðulegu köngla. Podo + carpus merkir beinlínis fæðukönglar eða fæðuber með vísan í að könglarnir í heild eru ætir (Eckenwalder 2009). Samt eru þeir ekki endilega borðaðir af mönnum, en allar tegundirnar virðast treysta á að fuglar og í sumum tilfellum spendýr, éti könglana og skili af sér fræjunum. Hér að ofan segir frá því að þessi ætt trjáa kom fram þegar risaeðlur réðu jörðinni. Þar sem fuglar eru afkomendur þeirra má vel velta því fyrir sér hvort risaeðlur hafi áður dreift fræjum gagnviða. Það verður að teljast líklegt.

ree

Víða um heim eru gagnviðir ræktaðir. Hér er það Podocarpus henkelii. Myndin er fengin héðan.


Radarinn og gagnviðir

Gagnviðir vaxa helst á suðurhveli jarðar og það kann að vera ástæða þess að helstu grasafræðingar heimsins hafa ef til vill ekki sinnt ættkvíslinni sem skyldi. Þeir virðast margir hverjir vera nokkuð heimakærir. Þegar þar við bætist að ættkvíslin er önnur af tveimur stærstu ættkvíslum barrtrjáa í heiminum er eins og hún lendi dálítið utan við radarinn. Það virðist vera miklu skemmtilegra að skoða eitthvað sjaldgæft. Þetta hefur leitt til þess að þegar nýjar tegundir ættkvíslarinnar uppgötvast vekur það ekki mikla athygli. Einn helsti barrtrjásérfræðingur heimsins, Aljos Farjon (2008), gerir þetta að umtalsefni í bók sinni A Natural History of Conifers. Sú bók er frumheimild þessa pistils.

Farjon segir frá því hvað það vakti mikla athygli þegar Wollemia nobilis fannst fyrst í september (sumar heimildir segja ágúst) árið 1994. Við sögðum frá þeim lifandi steingervingi í sérstökum pistli þegar tréð átti 30 ára fundarafmæli. Nánast um leið og tegundin fannst voru gerðir út leiðangrar til að reyna að finna hana á fleiri stöðum. Jafnvel voru leigðar þyrlur til að fljúga með grasafræðinga í óaðgengileg gljúfur í leit að svona trjám. Þegar bókin var gefin út hafði tegundin aðeins fundist á þremur aðskildum stöðum sem þó eru nálægt hver öðrum. Síðan hefur einn fundarstaður í viðbót uppgötvast. Hann er líka mjög nálægt upphaflega fundarstaðnum.

Aftur á móti fundu grasafræðingar einnig nokkrar tegundir af nýjum gagnviðum á svipuðum tíma og framan af 21. öldinni. Þær fundust á einöngruðum stöðum og aðeins fá tré á hverjum stað. Hjá sumum eru aðeins þekktir einn eða tveir vaxtarstaðir. Þrátt fyrir það hafa ekki verið gerðir út neinir dýrir leiðangrar vestrænna grasafræðinga til að kanna þessar tegundir frekar eða leita þeirra í nágrenninu. Því er í raun lítið hægt að fullyrða um hvort þessar tegundir séu ef til vill í útrýmingarhættu eða hvort þær séu nokkuð algengar og engin ógn steðjar að þeim. Þær gætu líka verið afbrigði af öðrum tegundum. Það hefur bara enginn tékkað á því.

ree

Tegundinni Podocarpus ramosii var fyrst lýst árið 2006 samkvæmt The Gymnosperm Database. Samkvæmt sömu heimild vex tegundin bæði á Filippseyjum og Borneó. Myndin er fengin héðan.


Farjon birtir töflu í sinni bók þar sem fram kemur hvaða barrtré þekkjast aðeins af einum stað í heiminum. Þar eru hvorki fleiri né færri en 9 tegundir af gagnviðum. Þann lista ber þó að skoða í því ljósi að sennilega fer því fjarri að öll kurl séu komin til grafar. Þessar tegundir hafa fundist á tímabilinu frá 1844 til 2003 og dreifast vítt og breitt um suðurhvel jarðar.

Allt er óljóst um hvort þetta eru leifar tegunda sem áður uxu á stærra svæði eða hvort þær hafi borist á einangraða staði fyrir hreina tilviljun og þróast þar yfir í nýjar tegundir vegna skorts á samneyti við ættingjana. Farjon telur líklegast að þetta séu tegundir sem hafi einangrast fyrir löngu og þá oftast vegna undangenginna loftslagsbreytinga. Sumar þeirra kunna að vera útbreiddari en við teljum. Til að fá úr því skorið þarf meiri rannsóknir sem ekki stendur til að framkvæma.

ree

Tafla sem sýnir níu tegundir gagnviða sem allar eiga það sameiginlegt að aðeins er vitað um hverja þeirra á einum stað í heiminum. Þó kann þó að vera að einhverjar þeirra vaxi víðar en ekki hefur verið leitað skipulega að þeim (Farjon 2008). Á vefsíðunni The World Flora Online eru sjö af þessum níu taldar vera sjálfstæðar tegundir en tvær þeirra er réttast að flokka með öðrum tegundum. Þetta bendir til að einhverjar grasafræðirannsóknir hafi verið unnar á þessum tegundum frá því að Farjon gaf út sína bók árið 2008.

 

Viðarnytjar

Í hitabeltinu er viður trjáa af þessari ættkvísl vanalega hafður í miklum metum. Reyndar á það ekki bara við um þessa ættkvísl, heldur alla ættina. Ættkvísl gagnviða er þó mest notuð en það er sennilega fyrst og fremst vegna þess að hún er algengari en aðrar ættkvíslir ættarinnar.

Oft er það þannig að trén eru leituð sérstaklega uppi til að höggva þau niður og nýta timbrið. Þar sem hitabeltisskógar eru að jafnaði mjög tegundaríkir er það svo að gagnviðir mynda sjaldnast samfellda skóga. Þess í stað vaxa þeir stakir eða í litlum lundum innan um aðrar tegundir. Þetta hefur leitt til þess að útflutningur á timbri sérstakra tegunda gagnviða er mjög lítill. Til þess eru þau of fágæt á hverjum stað. Nær allt timbrið er nýtt af heimamönnum á hverjum stað.

Segja má að viður þessara trjáa sé að mestu notaður á hefðbundinn hátt. Hann er nýttur í glugga, hurðir, húsgögn, klæðningar og margt fleira. Ein tegund frá Nýja-Sjálandi, Podocarpus totara virðist þola saltvatn og ásókn sjávarlífvera betur en aðrar tegundir ættarinnar. Þess vegna er viður hennar nýttur í báta- og skipasmíði. Þetta hefur verið þekkt frá ómunatíð, enda smíðuðu Maórar sína frægu, stóru eintrjáninga úr þessum trjám eins og greint er frá hér framar (Farjon 2008).

ree

Mynd af vef Wikipedia af Podocarpus totara á Nýja-Sjálandi. Myndin er í eigu síðunnar.


Viðurinn er léttur og mjúkur og vanalega nær alveg lyktarlaus. Hann er oftast gul- eða ljósbrúnn en annars mismunandi milli tegunda. Hjá sumum tegundum er hann nokkuð rauðleitur. Sjaldnast er sjáanlegur munur á kjarnvið og rysju. Á þeim tegundum sem einhver munur sést er kjarnviðurinn að jafnaði rauðleitur (Eckenwalder 2009). Þar sem tegundin vex háttar oftast þannig til að vaxtartíminn nær yfir allt árið. Því er sjaldnast hægt að telja árhringi hjá gagnviðum.

ree

Sneiðar af gagnviðum. Myndin fengin af þessari síðu þar sem fjallað er um ástralskar viðartegundir.


Aðrar nytjar

Þrátt fyrir mikinn fjölda tegunda eru fáar þeirra nýttar í þágu mannkyns. Það er þá helst í timburiðnaði eins og segir hér að framan og svo í garðrækt.

Samkvæmt bók Farjons (2008) eru aðrar nytjar en viðarnytjar mjög sjaldgæfar þegar horft er til gagnviða. Talið er að fræ margra tegunda séu æt en þau eru sjaldan nýtt á þann hátt. Fuglarnir fá að éta þau óáreittir. Farjon stingur upp á að það sé einfaldlega vegna þess að trén vaxa sjaldan nema stök innan um önnur tré eða í litlum lundum. Því hafi heimamenn ekki fyrir því að leita þau uppi til að hirða af þeim könglana. Trjánum er gjarnan plantað í garða, enda eru tegundirnar æði sérstæðar. Stærri trjám er þá plantað í stóra garða en sumar af lægri tegundunum geta hentað í steinhæðir og minni beð. Flestar tegundirnar þola vel klippingu og því eru þær gjarnan nýttar í þétt og falleg, sígræn limgerði.

ree

Limgerði úr stífklipptum gagnviðum. Myndin fengin héðan.


Af þeim tegundum sem ræktaðar eru til skrauts í görðum hafa verið valdir ýmsir klónar. Þeir hafa þá verið valdir vegna frávika í vexti. Finna má hangandi vaxtarlag, dvergvöxt, óvenjulega stærð á barri eða óvenjualega liti, einkum bláleitt eða gullið (Eckenwalder 2009). Almennt er talið að tegundirnar séu ekki nægilega harðgerðar fyrir svalt loftslag nema hvað stöku tegundir frá Suðureyju Nýja-Sjálands hafa verið reyndar með þokkalegum árangri. Einkum eru það dvergvaxnar tegundir og í einhverjum tilfellum blendingar, sem þar hafa orðið til. Ef til vill má reyna eitthvað af þeim efniviði hér á landi.

ree

Í Hooker-dal á Nýja-Sjálandi vex Podocarpus nivalis. Sú tegund þrífst ágætlega í Skotlandi og gæti ef til vill þrifist hér. Myndin er tekin á Nýja-Sjálandi og er frá InaturalistGT en eigandinn er © Elizabeth Byers.


Samanburður

Við endum þennan pistil (fyrir utan aukakaflann) á stuttum samanburði á tveimur einkennisættkvíslum barrtrjáa í heiminum. Önnur er í norðrinu og kallast furur eða Pinus. Hin er í suðrinu og kallast gagnviðir eða Podocarpus. Báðar hafa þróað svipaðan fjölda tegunda og hvor um sig er stærst barrtrjáaættkvísla á sínu hveli jarðarinnar. Báðar eiga met í fjölda vaxtarstaða á sínu hveli og í fjölbreytileika. Þótt ættkvíslirnar teljist einkennisbarrtré sinna svæða hafa þær báðar náð að koma sér fyrir beggja vegna miðbaugs. Þar standa fururnar reyndar gagnviðunum langt að baki og hafa ekki gert þetta nema á fáeinum stöðum.

Þar með lýkur því sem ættkvíslirnar eiga sameiginlegt.

Rétt er taka fram að þar sem báðar ættkvíslarnar eru stórar eru undantekningar á flestu sem er nefnt hér að neðan.

Fururnar þrífast oftast á svölum svæðum, mynda venjulega opna skóga, vaxa gjarnan á þurrum stöðum og eru oftast frumherjar í sinni vist. Gagnviðir vaxa helst í regnskógum eða öðrum rökum og hlýjum stöðum. Þeir vaxa venjulega innan um önnur tré eða í litlum lundum og finnast gjarnan sem undirgróður í hávaxnari skógum. Þetta má líka orða með því að segja að furur eru að jafnaði ljóselskar á meðan gagnviðir eru skuggþolnir.

Barrið á furum er nállaga en er breiðara og sverðlaga hjá gagnviðum. Þetta tengist klárlega mismunandi vist. Miklu minna vatn tapast úr barri sem er nállaga en því sem er breitt, flatt og stórt. Furur hafa trjákennda köngla sem oft eru nokkuð eldtraustir og flestar tegundir mynda vængjuð fræ sem treysta á vinddreifingu. Gagnviðirnir mynda köngla sem líkjast berjum og treysta á að fuglar eða spendýr dreifi fræjunum. Það má heita merkilegt að þriðja stærsta ættkvíslin, einir eða Juniperus, velur svipaða vaxtarstaði og fururnar en treystir á fugla og spendýr til að dreifa fræjunum eins og gagnviðirnir. Fjöldi tegunda innan einiættkvíslarinnar er þó aðeins tæpur helmingur á við hinar ættkvíslirnar. Við verðum líka að nefna að þótt tegundir af furuættkvíslinni séu fleiri en tegundir greniættkvíslarinnar (sem er af sömu ætt), þá er einstaklingsfjöldi grenitrjáa miklu, miklu meiri en hjá furum og gagnviðum.


Viðbót: Fjöldi tegunda 

Í kafla hér dálítið ofar er tafla sem sýnir fjölda ættkvísla og tegunda innan ætta. Þar kemur ekki fram hvaða ættkvíslir hafa flestar tegundir. Slíkar tölur geta verið nokkuð á reiki samkvæmt heimildum því ekki liggur alltaf fyrir hvar mörk tegunda kunna að liggja. Í lok þess kafla lofuðum við viðbótarkafla um fjölda tegunda og hér kemur hann. Kaflinn sýnir nokkuð vel að grasafræðingar eru ekki endilega sammála þegar kemur að því að skilgreina tegundir.

Farjon (2008) segir að þrjár stærstu ættkvíslirnar séu einiættkvíslin, Juniperus, í þriðja sæti með 52 tegundir og síðan gagnviðir, Podocarpus, með 108 og furur, Pinus, trjóna á toppnum með 109 tegundir (Farjon 2008). Má jafnvel segja að munurinn á þessum tveimur stærstu ættkvíslum sé innan skekkjumarka. Þær eru langstærstu ættkvíslir barrtrjáa í heiminum þegar horft er til fjölda tegunda. Aðrar heimildir geta haft aðrar tölur. Má nefna að Eckenwalder (2009) segir að tegundir gagnviða séu 82 en að fururnar séu 97. Bæði Eckenwalder og Farjon eru þó sammála um að furuættkvíslin sé stærst og svo komi gagnviðarættkvíslin. Svo verðum við að nefna aftur að óvíst er að allart tegundir gagnviða hafi verið greindar því sumir gagnviðir vaxa á svæðum þar sem litlar grasafræðirannsóknir hafa farið fram.

ree

Margar tegundir gagnviða eru úrvals limgerðisplöntur á slóðum þar sem loftslag er í heitara lagi. Hér er það Podocarpus macrophyllus í Kyoto Botanical Garden í Japan. Myndina tók Tom Christian en við fengum hana héðan.


Eckenwalder (2009) gerir þennan mismun á milli fjölda tegunda samkvæmt heimildum að umtalsefni í sinni stóru bók Conifers of the World. Hann segir að margt geti ruglað talninguna. Fyrir það fyrsta nefnir hann að sumar tegundirnar geta blandast saman. Hann vill ekki kalla blendingana sérstakar tegundir. Í annan stað segir hann að trén innan sömu tegunda geti verið býsna ólík innbyrðis. Hann nefnir að stundum líti ung tré allt öðruvísi út en eldri tré og vaxtarstaðir, hitastig og aðgangur að birtu, vatni og næringu, geti haft áhrif á útlit. Því telur hann að sumir oftelji tegundirnar. Eins og með svo margt annað er viðkemur þessari ættkvísl er þörf á meiri rannsóknum til að fá úr þessu skorið. Í sínu riti nefnir Eckenwalder grasafræðinginn Farjon sem dæmi um barrtrjáafræðing sem gæti hafa oftalið tegundirnar. (Eckenwalder 2009 bls. 495).

Til að flækja málin enn frekar má segja frá því að á vefsíðunni The Gymnosperm Database segir að ættkvísl gagnviða sé stærsta ættkvísl barrtrjáa í heiminum og að tegundir þeirra séu taldar vera 111. Þetta er þó eitthvað málum blandið því sama heimild gefur upp 119 tegundir af furum. Sá sem skrifar þennan pistil er alveg viss um að 119 er stærri tala en 111. Fururnar hafa vinninginn. Fururnar hafa vinninginn. Önnur vefsíða, sem við leitum oft til, heitir The World Flora Online. Hún gefur upp samtals 105 viðurkennd nöfn fyrir gagnviði en 132 viðurkennd nöfn fyrir furur. Það er það mesta sem við höfum rekist á hvað furur varðar. Báðar þessar virtu vefsíður eru nær tölum Farjons en Eckenwalders.

Allar þessar helstu heimildir eru þó sammála um að þetta séu tvær stærstu ættkvíslir barrtrjáa í heiminum. Meira getum við ekki fullyrt.

ree

Ekki einfaldar það greiningu gagnviða að sumir þeirra geta tímgast við aðrar tegundir ættkvíslarinnar. Þannig varð meðal annars til yrkið 'County Park Fire' sem hér er í hollenskum garði. Það yrki er talið vera blendingur. Hann er skráður sem Podocarpus lawrencei × nivalis. Myndina tók Derek Spicer og við fengum hana héðan þar sem sagt er frá fleiri yrkjum sem til hafa orðið við blöndun þessara tegunda.

 

Að lokum viljum við þakka Pétri Halldórssyni fyrir vandaðan yfirlestur og Úlfi Óskarssyni fyrir að benda okkur á að bæði þessi merka ættkvísl og ættin í heild eiga skilið að um þær yrði fjallað. Úlfur kom einnig með þarfar ábendingar sem við að sjálfsögðu tókum tillit til.


Heimildir

 

James E. Eckenwalder (2009): Conifers of the World. The Complete Reference. Timber Press, Portland & London.


Aljos Farjon (2008): A Natural History of Conifers. Timber Press, Inc. Portland, Oregon, USA.


Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.

 

Vefsíður: The Gymnosperm Database (2024): Podocarpus. Sjá: Podocarpus (yellowwood) description. Sótt 8. september 2024.


WFO, The World Flora Online (2024): Podocarpus L'Hér. ex. Pers. Sjá: Podocarpus L'Hér. ex. Pers. Sótt 8. september 2024.


Í aðrar heimildir er vísað beint í texta.






 

Comments


Heimilisfang:

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Kjarnaskógi

600 Akureyri

Netfang: ingi@kjarnaskogur.is

bottom of page