top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Sitkagreni á Eiðsvelli

Updated: May 9, 2023

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að minnast á hversu mikil blómgun hefur verið í trjám og runnum í vor og sumar. Að hluta til, ef til vill að stærstum hluta, er það hinu góða sumri í fyrra að þakka. Þá mynduðust blómvísar sem hafa glatt okkur í vor og fyrripart sumars.

#TrévikunnarSE að þessu sinni er eitt af þessum trjám sem blómstra óvenju mikið í ár. Það er sitkagreni sem stendur á Eiðsvelli nánast alveg á horninu á Grænugötu og Glerárgötu. Þar stendur það ásamt nokkrum öðrum af sömu tegund og skýla öllum garðinum.


Karlblóm á greninu. Tréð losar sig við þau þegar lengra líður á sumarið. Í þeim myndaðist frjó sem vindurinn feykti í burtu. Vonandi lenda sem flest á kvenblómum.


Skiptir veðrið í máli?

Á Akureyri hafa verið gerðar veðurfarsmælingar frá því um 1880. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, hefur greint frá því að frá þeim tíma hefur meðalhiti í mánuði aðeins tvisvar sinnum farið yfir 14°C. Það voru júlí 2021 og ágúst 2021. Þriðji hlýjasti mánuðurinn á Akureyri var fyrir nærri 90 árum. Í júlí 1933 var meðalhitinn 13,3°C. Metið í júlí í fyrra var slegið um heila gráðu og var 14,3°C. Aftur fór meðalhitinn yfir 14°C í ágúst. Þetta er einmitt sá tími sem blómvísar margra trjáa þroskast. Því er það engin furða að blómgunin er óvenju mikil í sumar. Veðrið síðsumars í fyrra skiptir öllu máli.





Eiðsvöllur

Eiðsvöllur var lengi vel tún sem íbúar á Eyrinni nýttu sér. Í aðalskipulagi Akureyrar frá árinu 1927 var ákveðið að þar skyldi vera „opinn skemmtigarður“. Lítið var þó unnið í því. Hermenn hreiðruðu um sig á vellinum í síðari heimsstyrjöld og byggðu þar bragga. Þegar þeir fóru af landi brott voru uppi ýmsar hugmyndir um nýtingu túnsins. Kom til tals að reisa þar ráðhús, slökkvistöð eða verkalýðshöll. Íbúar í nágrenni vallarins mótmæltu þessum áformum og Fegrunarfélag Akureyrar (sem stofnað var 1949) lagði íbúunum lið. Varð úr að fara eftir aðalskipulaginu frá 1927 og gera þarna skrúðgarð. Nú er þarna hinn snotrasti garður og margar fallegar trjátegundir vaxa þar og oftast nær er garðurinn skreyttur sumarblómum þegar við á. Það hefur þó eitthvað dregist þetta árið. Einu sinni áður hefur tré vikunnar verið úr garðinum. Var það í apríl árið 2020. Þá var mjög fallegt birki fyrir valinu.

Full ástæða er til að velja fleiri tré á vellinum í framtíðinni sem tré ársins.

Eins og títt er hjá þallarættinni allri er blómgunin meiri ofar í trénu. Þá er möguleiki á lengra flugi, bæði fyrir frjó og fræ þegar þar að kemur, enda eru fræ ferðalangar.

Sitkagrenið

Þetta stóra sitkagreni er sérlega áberandi í garðinum. Það er formfagurt og veitir gott skjól ásamt öðrum grenitrjám sem standa þarna í nágrenninu. Eitt þeirra er reyndar hærra en okkar tré. Það stendur aðeins innar í garðinum. Þetta tré er samt nægilega fallegt og áberandi til að vera valið tré vikunnar en meginástæða útnefningarinnar er samt þessi mikla blómgun í trénu þetta árið. Tréð er reyndar líka fallegt þótt það standi ekki í fullum blóma eins og meðfylgjandi vetrarmynd ber vott um.


Samkvæmt hávísindalegum mælingum Bergsveins Þórssonar og Sigríðar Hrefnu Pálsdóttur er þetta tré nú einir 18 metrar á hæð og er enn í góðum vexti.

18 metra hátt sitkagreni á Eiðsvelli. Það stendur á horni Grænugötu og Geislagötu.



Til eru fræ

Þetta árið hefur tré vikunnar blómstrað óvenju mikið eins og svo mörg önnur tré. Sitkagreni treystir algerlega á vindinn til að bera frjó á milli plantna en hefur ekki tekið upp sambýli við býflugur eða önnur skordýr. Hvert tré ber bæði kvenblóm og karlblóm. Fyrst birtust á okkar tré urmull af karlblómum sem nú eru óðum að hverfa. Eins og víðar í lífríkinu er það svo að tréð hefur ekkert með karlkynið að gera þegar ekki er lengur þörf á því. Karlblómin mynda sitt frjó og hverfa svo. Áður en þau hverfa með öllu birtust kvenblóm. Þau eru yst á greinunum þar sem meiri líkur eru á að frjóið af öðrum trjám fjúki á þau. Þau eru upprétt til að byrja með og nokkuð rauðleit. Stundum eru þau enn rauðari en á þessu tré. Ef frjóvgun heppnast þroskast kvenblómin í köngla sem hanga á greinunum. Þegar fræin í könglunum verða fullþroskuð opnast þeir og fræið flýgur sína leið. Ef allt fer að óskum lendir það á góðum stað þar sem það spírar og upp vex myndarlegt, íslenskt grenitré.


Karl- og kvenblóm á sitkagreninu. Kvenblómin verða síðar könglar.



Greinin á miðmyndinni hér að ofan viku síðar. Könglarnir þroskast vel og allt frjó farið úr karlreklunum. Þeir hanga þó enn á trénu.


Höfundur tók myndirnar.

244 views0 comments

Comments


bottom of page