top of page

Íslenskur víðir

Updated: Nov 19, 2023

Fjölmargar víðitegundir hafa verið fluttar inn og ræktaðar á Íslandi. Full ástæða er til að fjalla um margar þeirra og nú þegar hefur sumra þeirra verið getið. Þessi pistill er ekki um þær heldur um tegundir sem almenn sátt er um að kalla megi íslenskar og um mikilvægi þeirra á Íslandi. Íslenskar víðitegundir skipa stóran sess í flóru landsins og vandfundin eru þau gróðurvistkerfi á landinu sem ekki hafa einhvern víði. Umfjöllun um hverja tegund er þó haldið í lágmarki því hver um sig verðskuldar sérstakan pistil. Að auki veltum við því fyrir okkur af hverju tegundirnar eru ekki fleiri en raun ber vitni. Svo skoðum við hvar víðinn er helst að finna og hvernig hann getur blandast innbyrðis. Í lokin förum við svo yfir hvernig víðir nemur land og hversu heppilegur hann getur verið til landgræðslu


Víðir, mest gulvíðir, í jaðri Vaðlaskógar að hausti til. Þarna speglar hann sig eins og öðrum fegurðardísum er tamt. Mynd: Sig.A.

Gulvíðir, loðvíðir og birki í Þjórsárdal. Mynd: Sig.A.


Tegundir

Á Íslandi eru aðeins fjórar víðitegundir sem kalla má innlendar. Þær hafa allar komið sér sjálfar til landsins án hjálpar frá mannskepnunni. Sennilega hafa þær allar verið hér allar frá því fyrir ísöld. Í ritum frá 18. og 19. öld eru þær taldar allt að helmingi fleiri. Stafar það líklega af því hversu fjölbreyttar tegundirnar geta verið í útliti og að þær geta auðveldlega blandast saman (Helgi Hallgrímsson 1995). Tegundirnar fjórar eru grasvíðir, Salix herbacea, gulvíðir, S. phylicifolia, loðvíðir, S. lanata og fjallavíðir, S. arctica sem áður var nefndur grávíðir. Um sumar þeirra hefur þegar verið fjallað á þessum síðum. Þó er rétt að renna aðeins yfir þær allar í stuttu máli til að auðvelda lesandanum skilning á muninum á milli tegunda. Lýsingin er byggð á lýsingunum sem finna á vefsíðunni floraislands.is (Hörður Kristinsson án ártals). Hægt er að sjá nánari lýsingu á hverri tegund með því að smella á fyrirsagnirnar og pistlar um þær tegundir sem ekki hefur þegar verið fjallað um bíða birtingar.

Víðir, einkum gulvíðir, í jaðri Vaðlaskógar. Vel fer á því að sjá víði í skógarjöðrum. Mynd: Sig.A.Minnst íslenskra víðitegunda. Grasvíðir er jarðlægur, sjaldan meir en 10-20 cm á hæð með kringlóttum eða nær kringlóttum blöðum. Hann er algengur um allt land upp fyrir 1000 metra, en hittist líka fyrir hér og hvar á láglendi. Aðalheimkynni grasvíðisins eru í snjódældum til fjalla, en einnig vex hann víða í mólendi eða jafnvel á mýraþúfum.

Grasvíðir er auðþekktur frá öðrum íslenskum víði á blaðlöguninni. Hann getur þó verið töluvert breytilegur í útliti eftir vaxtarstöðum.

Grasvíðir í hraungrýti. Mynd: Sig.A.


Mjög algengur um allt land nema á láglendi sunnan og vestanlands. Hann er ein af algengustu jurtum til fjalla og á hálendinu. Á hálendinu er hann einna lífseigastur allra runna og stendur lengur af sér uppblástur og harðviðri en nokkur annar. Fjallavíðirinn er ætíð lágvaxinn runni, oftast jarðlægur. Hann rís oftast ekki meir en 10-20 (50) cm frá jörðu en láréttar greinar geti orðið töluvert lengri. Hann finnst hæst í 1100 m yfir sjávarmáli, nema á jarðhitasvæði í Öskju þar sem hann vex í 1200 m hæð.

Þessi víðir er afar breytileg tegund. Á það við um blaðlögun, hæringu, gerð rekla og lit þeirra. Afbrigðileg eintök hans getur oft verið erfitt að greina frá loðvíði en þekkist frá honum á mjög smáum eða engum axlablöðum. Einnig er munur á aldinum grávíðis og loðvíðis og verður farið nánar í þá sálma þegar fjallað verður sérstaklega um fjallavíðinn.

Fjallavíðir er ótrúlega harðgerður. Myndin sýnir kvenkyns plöntu.

Mynd: Sig.A.


Loðvíðirinn er algengur um allt land en sums staðar þó fátíður á láglendi. Hann er runni sem oft er hálfur til einn metri á hæð, en getur auðveldlega orðið 2-3 metrar við góð skilyrði ef hann er ekki klipptur af búfé. Loðvíðirinn er oftast auðþekktur á þykkum, breiðum og vel gráloðnum blöðum, og á greinilegum axlablöðum á ársprotunum. Hann er þó mjög breytilegur og eintök með mjórri og minna loðnum blöðum geta líkst fjallavíði. Í lok september birtum við nokkuð ítarlegan pistil um loðvíði og má nálgast hann hér.


Loðvíðir er áberandi í garðrækt og í íslenskri vist. Mynd: Sig.A.


Stærstur af íslensku víðitegundunum. Þetta er runni sem verður oft 5 m hár við góð skilyrði, jafnvel hærri þar sem hann vex inni í þéttum skógi. Gulvíðir er algengur um allt landið upp í 550 til 600 m hæð, en vex sjaldan hærra. Hann kann oftast best við sig í deiglendi og velur sér lægri og votari svæði en birki. Birki og gulvíði má þó oft finna á sömu svæðum.

Gulvíðir breiðir mikið úr sér til hliðanna ef hann hefur pláss til þess. Hann myndar oft háflkúlulaga runna sem verða 5-10 m í þvermál og 4-5 m á hæð.

Laufblöðin eru dökkgræn, gljáandi og að jafnaði hárlaus á efra borði, ljósgræn eða lítið eitt grádöggvuð og mött á neðra borði.

Gulvíðirinn er afar breytilegur í útliti, meðal annars stærð og lögun laufblaðanna. Hann er samt oftast auðþekktur frá öðrum víði en þó getur verið erfitt að greina jarðlæga sprota frá fjallavíði og ungar fræplöntur geta líkst viðju. Vaxtarlag viðju og gulvíðis er ólíkt þannig að engin ástæða er til að rugla saman eldri plöntum.

Blómstrandi gulvíðir að vori. Mynd: Sig.A.


Allar ofangreindar tegundir geta myndað blendinga sín á milli. Verður meira fjallað um það hér aðeins neðar.


Gulvíðir í Krossanesborgum sem ber sterk einkenni loðvíðis. Stuttar greinar og mikil hæring á neðra borði laufa. Ekki er hægt að útiloka erfðaflæði milli tegundanna. Mynd: Sig.A.


Ættfræði

Í pistli okkar um víðiættkvíslina í heild sinni kom fram að til eru þrennskonar grunnlitningafjöldi innan ættkvíslarinnar. Það á ekki við um íslenska víðinn. Allur íslenskur víðir hefur grunnlitningafjölda upp á 19 litninga eins og algengast er í heiminum. Aftur á móti merkir það ekki að allur íslenskur víðir hafi sama litningafjölda. Ástæða þess er sú að sumar tegundir eru tvílitna en aðrar fjöllitna.

Tvöfaldur litningafjöldi (diploids) er 32 litningar (2n = 32). Það er eins og við þekkjum þetta best. 19 litningar koma frá báðum foreldrum sem samtals gefa okkur 19 litningapör eða 32 litninga. Grasvíðir og loðvíðir eru tvílitna tegundir.

Svo eru til tegundir sem eru fjöllitna. Þá hafa þær fleiri litninga en sem nemur tvöfaldri litningatölu. Erfitt getur verið að telja með nákvæmni fjölda litninga í fjöllitna frumum en með bættri tækni verður það alltaf auðveldara. Fjallavíðir og gulvíðir eru fjöllitna. Í eldri heimildum er fjöldinn nokkuð misvísandi og verður að taka þeim niðurstöðum með fyrirvara. Almennt er þó talið að gulvíðir sé sexlitna (2n = 114) en meiri óvissa ríkir um fjölda litninga í grasvíði. Sennilega hafa mismunandi stofnar mismunandi fjölda litninga. Hafa sést tölur frá 2n = 76 til 2n = 190. (Jóhann Pálsson 1997).


Ýmsar víðitegundir og birki nema land á eyrum við Hörgá. Mynd: Sig.A.


Aðrar tegundir

Víðifræ eru mjög létt og geta borist langar leiðir með vindi. Því má alveg gera ráð fyrir að frá þeim tíma, sem liðinn er frá því ísöld lauk, hafi víðifræ borist hingað frá öðrum löndum. Þau hafa haft um 10-12 þúsund ár til til að nema hér land. Hvernig stendur þá á því að aðeins fjórar víðitegundir eru taldar hafa verið hér við landnám? Til samanburðar má nefna að á heimskautasvæðunum eru fleiri en 50 víðitegundir.

Í fyrsta lagi ber að geta þess að víðifræ eru skammlíf. Stundum lifa þau ekki nema í sólarhring eða tvo. Spírunarhæfni þeirra minnkar mjög hratt og þótt þau berist til landsins er alveg óvíst að þau séu lifandi.

Víðir og birki að vaxa upp á Norðurlandi. Myndir: Sig.A.

En gefum okkur að einhver fræanna séu lifandi er þau berast til landsins. Það er hreint ekki óhugsandi. Ef það gerist þurfa þau líka að lenda á heppilegum stað, ná þar að spíra og vaxa upp. Það hefur alveg örugglega gerst, oftar en einu sinni. Samt hefur það ekki dugað til.

Til þess ber að líta að í allri víðiættinni (ösp meðtalin sem er af sömu ætt en annarri ættkvísl) hafa plönturnar sérbýli. Það merkir að hver planta er annað hvort karlkyns eða kvenkyns og ber æxlunarfæri eftir því. Á þessu eru að vísu fáeinar undantekningar en þær skipta litlu máli fyrir heildina. Sérbýlið gerir það að verkum að erfiðlega hefur gengið fyrir víðitegundir að nema land fjarri sínum venslahópi. Til þess að það takist þurfa að berast einstaklingar af báðum kynjum inn á sama svæðið. Sumir telja þó að dæmi séu um kvk. plöntur sem myndað hafi fræ án undangenginnar frjóvgunar. Slík dæmi eru þó fá og óstaðfest. Að auki verður víðirinn ekki langlífur ef miðað er við margar aðrar trjá- og runnategundir. Þannig er ekki nóg að bæði kynin berist á sama svæði, heldur þarf það að gerast á tiltölulega skömmum tíma sem spannar ævilengd víðisins.

Gulvíðir, loðvíðir og birki í Mývatnssveit. Mynd: Sig.A.

Sumar tegundir, eins og frænkur víðisins, aspirnar, geta fjölgað sér með rótarskotum. Það getur víðirinn almennt ekki. Að vísu geta víðigreinar, sem brotna af plöntum, fest rætur en það dugar ekki til að viðhalda tegundinni áratugum saman. Auk þess geta greinar sem leggjast að jörðu stundum skotið rótum og má meðal annars stundum sjá það hjá gulvíði. Öspin getur aftur á móti viðhaldist með endalausum rótarskotum áratugum og jafnvel öldum saman. Sennilega hefur einmitt blæöspin gert það á Íslandi. Ekkert bendir til þess að blæaspir fjölgi sér með fræi á Íslandi þó það kunni að hafa gerst. Vel má vera að þær blæaspir sem hér finnast séu enn af fyrstu kynslóð landnema. Það vekur auðvitað upp spurningu um hvernig skilgreina beri íslenskar tegundir en við látum það liggja á milli hluta í bili. Rétt er einnig að geta þess að til eru fáeinar víðitegundir sem setja rótarskot. Ber þar hæst sandeyravíði, Salix interior. Ræktun hans hefur ekki gengið vel á Íslandi.


Eins og sjá má er fjalldrapi er ekki eins vinsæl beitarplanta og víðirinn. Mynd: Sig.A.

Allt þetta gerir það að verkum að líkurnar á því að tvær plöntur af sömu tegund en sitthvoru kyni nemi land í órafjarlægð frá venslahópnum innan þeirra tímamarka sem ævilengd víðitegundanna setur (e.t.v. 40-200 ár) og nægilega nálægt hvor annarri til að saman geti þær myndað fræ, eru hverfandi. Einhverjar hafa eflaust náð til Íslands og jafnvel myndað blendinga með þeim tegundum sem fyrir voru en í aldanna rás minnkar erfðaefni þeirra í afkomendunum og nú er ekki hægt að sýna fram á að það hafi nokkru sinni gerst.

Víðir getur verið fallegur á öllum tímum árs. Myndin tekin í Kjarnaskógi. Mynd: Sig.A.


Brekkuvíðir

Til eru víðiblendingar á Íslandi en menn af öllum kynjum eru ekki endilega sammála um hversu algengir þeir eru. Hér verður tiltekið eitt dæmi um frægan víði sem margir telja blendingstegund. Er það hinn fyrrum mjög svo vinsæli ´Brekkuvíðir´ sem er þétt og falleg limgerðisplanta. Brekkuvíðirinn er kvenkyns og myndar stundum mikið fræ. Sú framleiðsla hefur dregið töluvert úr vinsældum hans. Annar galli er hversu maðksækinn hann er. Því hefur ræktun hans dregist mikið saman. Brekkuvíðirinn mun vera ættaður úr Fljótshlíð en er kenndur við grasbýlið Brekku í Hveragerði hvar hann var fyrst ræktaður. Þeir fræðingar sem skoðað hafa brekkuvíði eru allir sammála um að hann sé einhvers konar gulvíðir. Sumir telja jafnvel að hann sé einfaldlega sérstakur klónn af gulvíði og beri þá að skrá sem S. phylicifolia ´Brekka´. Þeir sem hallast að þessu hafa bent á að hér og þar um landið má sjá villtar plöntur af gulvíði sem eru vissulega mjög líkir gulvíði.

Brekkuvíðilimgerði geta haldist þétt árum saman með réttir klippingu.

Mynd: Sig.A.

Hitt var þó lengi algengara að telja að brekkuvíðir til blendingstegundar gulvíðis og einhvers annars víðis. Hafa þá bæði loðvíðir og fjallavíðir verið nefndir til sögunnar. Brekkuvíðir er mjög þéttur og blaðfallegur runni. Jóhann Pálsson (1997) taldi að loðvíðir væri líklegt foreldri. Brekkuvíðirinn stendur mikið nær gulvíði en loðvíði í útliti. Það þarf ekki að koma á óvart ef kaflinn hér á undan er lesinn með athygli. Loðvíðirinn er tvílitna en gulvíðirinn fjöllitna, sennilega sex litna. Þess vegna er miklu meira erfðaefni í genamengi loðvíðisins komið frá gulvíðinum en loðvíðinum. Þar með er einföld skýring á þessu komin fram. Afkomendur þessara tegunda hljóta því að vera fjórlitna. Að auki má ímynda sér að brekkuvíðir sé afkvæmi blendings annars vegar og hreins gulvíðis hins vegar. Þá er erfðaefni loðvíðisins (eða fjallavíðisins) enn minna en ella.

Þegar loksins vísindamenn tóku uppp á því að telja litningana kom hið sanna í ljós. Brekkuvíðirinn er sex litna, rétt eins og annar gulvíðir. Hann er því ekki blendingur, heldur sérstakt afbrigði af gulvíði (Samson Bjarnar Harðarson 2006). Þessi saga styður þá tilgátu að víðiblendingar á Íslandi séu ekki eins algengir og áður var talið. Rétt er þó að geta þess að þótt brekkuvíðirinn teljist ekki blendingur útilokar það ekki aðra blendinga.


Allur brekkuvíðir er kvenkyns og hann á það til að mynda mikið fræ.

Mynd: Sig.A.


Tígulvíðir?

Gulvíðir getur verið nokkuð breytilegur í útliti, sérstaklega þegar nær dregur þeim hæðarmörkum sem hann þrífst við. Þá getur hann verið líkur fjallavíði. Vel má vera að þar sé stundum um einhverja blendinga að ræða. Hafa grasafræðingar freistast til að greina slíkar plöntur sem Salix planifolia. Það er tegund sem vex þvert yfir norðurhluta Norður-Ameríku frá Alaska til Labrador og hefur verið kölluð tígulvíðir, demantsvíðir eða ameríkugulvíðir á íslensku. Hörður Kristinsson (án ártals) hefur bent á að breytileikinn frá fjallavíði yfir í gulvíði er stigvaxandi. Því er ekki gerlegt að afmarka tígulvíðinn eða aðgreina hann frá gulvíði sem sérstaka tegund. Mun líklegra er að þau eintök sem greind hafa verið sem tígulvíðir á Íslandi séu í raun blendingar fjallavíðis og gulvíðis eða óvenjulegur gulvíðir. Einnig kunna umhverfisaðstæður að spila inn í. Hreinn gulvíðir vex ekkert mjög hátt yfir sjó, eins og áður greinir. Þegar hann nálgast sín hæðarmörk getur vel verið að vöxturinn verði annar en á láglendi og það dugi til að blekkja grasafræðinga.

Ekki er alltaf auðvelt að greina í sundur fjallavíði og jarðlægan gulvíði. Þessi blaðgerð bendir eindregið til gulvíðis en vaxtarlag til fjallavíðis. Mynd: Sig.A.

arðlægi demantsvíðirinn ´Flesja´, Salix planifolia ssp. pulchra 'Flesja', getur vissulega minnt á jarðlægan gulvíði. Hann vex ekki villtur á Íslandi en er ræktaður sem þekjuplanta í görðum. Mynd: Sig.A.


Aðrir blendingar

Allar íslensku tegundirnar geta myndað blendinga sín á milli. Að auki er mikill fjölbreytileiki til staðar í þessum fjórum tegundum. Það þarf ekki að koma á óvart þegar þess er gætt hve lengi þær hafa verið í landinu. Því er ekki alltaf víst að plöntur, sem ekki eru dæmigerðar fyrir ákveðna tegund, séu endilega blendingar. Þeir gætu allt eins verið óvenjulegir einstaklingar.

Sjálfsáinn víðir af ýmsum tegundum við Eyvindará á Héraði. Ekki er ólíklegt að þarna megi finna einhverjar blendingstegundir en alaskavíðir er þarna algengastur. Mynd: Sig.A.

Hin síðari ár hefur borið nokkuð á því að ýmsar víðitegundir, einkum jörfavíðir, Salix hookeriana, alaskavíðir, S. alaxensis og viðja, S. myrsinifolia, hafi sáð sér út. Aðrar víðitegundir hafa einnig sáð sér út en í minna mæli. Má þar nefna selju, S. caprea, sem dæmi. Í einhverjum tilfellum hafa þessar tegundir myndað kynblendinga með innlendu tegundunum. Er allur gangur á því hvort fólk telur það æskilegt eða ekki. Sumir fagna fjölbreytileikanum á meðan aðrir telja þessa fjölgun víðitegunda vera ógn við líffjölbreytileika. Svo eru það þeir sem segja að þegar planta fer að sá sér út geti hún gert tilkall til ríkisborgararéttar burt séð frá því hvenær eða hvernig hún barst til landsins. Aðrir eru á öndverðum meiði.


Loðvíðir, gulvíðir, alaskavíðir og jörfavíðir nema land á Þjórsárbökkum. Mynd: Sig.A.


Þessir blendingar virðast hvergi hafa verið teknir í ræktun svo neinu nemi. Á því er þó ein undantekning. Það er hinn svokallaði hreggstaðavíðir, Salix ''. Hann er harðgerður, seltuþolinn, hraðvaxta og nægjusamur en ekki laus við ásókn ryðsveppa. Hann er stundum talinn blendingur viðju og brekkuvíðis.

Hreggstaðavíðir í vindi. Þá gefst tækifæri til að mynda saman efra og neðra borð blaðanna. Mynd: Sig.A.


Íslensk flóra

Flóra landsins er fremur tegundasnauð miðað við nágrannalönd okkar og önnur þau lönd sem búa við svipað loftslag og hér ríkir. Má jafnvel kalla það sérkenni íslensku flórunnar. Þess vegna óttast ýmsir að innfluttar tegundir ógni einkennum íslenskrar flóru. Aðrir fagna auknum fjölbreytileika. Það sem ræður þessari tegundafátækt er sú staðreynd að landið er eyja, fjarri öðrum löndum og að kuldaskeið ísaldar hafa útrýmt stærstum hluta þess gróður sem óx hér fyrir ísöld. Aðeins fáar þeirra hafa komist hingað aftur af sjálfsdáðum eða lifað af á íslausum svæðum.


Víðir er hluti af íslenskum vistkerfum. Það sést vel þegar land er friðað fyrir beit. Mynd: Sig.A.

Annað, sem segja má um íslenska flóru, er að hún er samsett úr plöntum sem segja má að hafi þrenns konar útbreiðslusvæði. Þær geta haft austræna, vestræna eða pólhverfa útbreiðslu. Þetta endurspeglast í þessum fjórum víðitegundum sem almenn sátt er um að kalla íslenskar. Hér verða tegundirnar aftur nefndar og sagt frá útbreiðslu þeirra.


Víða má sjá víði við veggirðingar. Á myndinni má bæði sjá víði og birki ásamt fleiri tegundum. Fjær eru heppileg set fyrir víðifræ en þar heldur sauðfjárbeit víðinum niðri. Stundum hefur því verið haldið fram að vöxtur víðis við veggirðingar stafi ekki af minni sauðfjárbeit heldur hnattrænni hlýnun. Ef það er rétt er veðurfar ekki það sama beggja vegna girðinganna eins og sjá má. Mynd: Sig. A.


Ekki þarf alltaf mikla beit til að halda niðri víði. Það sést á sinunni að þarna er ekki þung beit. Samt virðir víðirinn veggirðinguna. Mynd: Sig.A.Grasvíðir

Grasvíðirinn, eða smjörlauf er fyrsta, íslenska víðitegundin sem fjallað var sérstaklega um sem tré vikunnar. Hann er pólhverf tegund sem er algeng í fjalllendi allt í kringum norðurheimskautið.


Gulvíðir og Loðvíðir

Þessar tegundir hafa báðar austræna útbreiðslu Þeir vaxa um alla norðanverða Evrasíu en skyldar tegundir finnast í Ameríku, þar með talið á Grænlandi. Í tilfelli loðvíðisins er sá ættingi flokkaður sem sérstök undirtegund. Plöntur af þeirri undirtegund geta verið mjög líkar þeim íslensku og hafa verið ræktaðar hér í görðum.


Fjallavíðir

Hefur vestræna útbreiðslu og finnst hvergi í Evrópu nema hér og svo í litlum mæli í Færeyjum. Þar eru austurmörk tegundarinnar. Sá sem þetta ritar er samt ekki fullkomlega sannfærður um að tegundin sé rétt greind í Færeyjum. Um það verður lítillega fjallað í pistli um fjallavíði.

Fjölbreyttur víðir nemur land við Eyjafjarðará í kjölfar friðunar. Mynd: Sig.A.


Vist

Segja má að víðitegundir hafi nær alla tíð verið veigamikill þáttur í gróðurfari landsins. Frjókornarannsóknir í mýrum sýna að víðit breiddist mjög hratt út þegar ísa leysti. Steindór Steindórsson (1980) frá Hlöðum lýsti gróðursamfélögum sem hann kallaði víðikjarr og víðiflesjur. Í þeim eru gulvíðir, loðvíðir og fjallavíðir ríkjandi tegundir. Í pistli um loðvíði var farið yfir hugtök sem Náttúrufræðistofnun notar til að lýsa gróðursamfélögum (vistgerðum). Kemur þar einnig fram hversu mikilvægur víðirinn er í íslenskri vist. Víðitegundir geta einnig komið fyrir í vistkerfum svo sem lyngmóum, deiglendi og mýrlendi. Að auki eru gulvíðir og loðvíðir hluti af birkiskógum landsins, einkum ungum skógum.

Mynd frá síðustu öld af girðingu í kringum þjóðgarðinn í Skaftafelli. Þegar girt var var þetta einsleitt land, beggja vegna við girðinguna. Mynd: Sig.A.


Gömul vormynd af víðiflesju við Lagarfljót á Héraði. Þarna má sjá bæði gulvíði og loðvíði. Mynd: Sig.A.


Víðir til beitar

Almennt má segja að víðir sé eftirsóttur til beitar. Sauðfé og kýr sækja mjög í að éta víði en hann virðist ekki höfða eins vel til hrossa. Því má stundum sjá víði (og reyndar einnig birki) vaxa upp úr nánast nauðbitnum beitarhólfum hrossa. Það gerist ekki þar sem kúm og kindum er haldið til beitar. Sá sem þetta pikkar minnist þess er hann í æsku sinni sá kýr leggjast á girðingar til að teygja sig í alaskavíði, vefja langri tungunni um greinarnar og slíta þær af.

Í ritum landgræðslunnar (Kristín Svavarsdóttur o.fl. 2006) er sagt að allar innlendu víðitegundirnar séu eftirsóttar af sauðfé nema grasvíðir. Kemur það þeim er þetta ritar nokkuð á óvart, sérstaklega í ljósi þess að grasvíðir er stundum nefndur smjörlauf. Bendir það til að einhvern tímann hafi grasvíðirinn þótt góður til beitar.


Víðir, innan og utan girðingar þar sem nautgripum er beitt. Mynd: Sig.A.

Björn í Sauðlauksdal (1783) taldi allan víði góðan til beitar fyrir kýr og sauðfé. Um víði almennt skrifaði hann: „Ungr vídir er gott fódr, bædi nauta og sauda, sem fitna vel áf honum, og fá þyckt skinn.

Horft inn í skógræktargirðingu á Jökuldal. Friðunin hefur gert víði, einkum loðvíði, kleift að vaxa upp innan girðingarinnar. Mynd: Sig.A.


Hann skrifaði að auki um hverja víðitegund sérstaklega. Um grasvíði skrifaði hann þetta: „Þessi smá-vidir er eitt hið besta fiár-fódr, enn ecki sæka hestar her so mikid eptir honum sem Biskup Gunnerus skrifar um norska hesta“.

Þetta er merkilegur texti og sýnir að Björn hafði erlend rit til að styðjast við en treysti þó betur á eigin rannsóknir. Hann skrifaði einnig um sama víði: „ . . . því ein hest-byrdi af þessum vídi, er betri enn hey-kapall“. Ekki er á þessu að ráða annað en hann líti á smjörlaufið sem ljómandi fína beitarplöntu.

Svo virðist sem hann telji fjallavíðinn, sem hann kallar grávíði, sístan til búfjárbeitar. Um hann skrifar hann: „Þessi vídir brúkaz her í hardindum fyrir nauta fódr, og hefir þat luckaz; enn þó er allr annar vídir þar til betri.“

Bitinn víðir í frjóu landi. Mynd: Sig.A.


Þess má einnig geta að fuglar eins og gæsir og álftir geta vel étið víði. Þær éta samt ekki meira af honum en svo að þar sem land er friðað fyrir sauðfjárbeit vex upp víðir, jafnvel þótt um kjörlendi gæsa sé að ræða eins og á sandeyrum við ár. Að sögn Snorra Baldurssonar (bls. 300) sækir rjúpan mikið í grasvíði er líður á sumarið. Étur hún blöð, brum og sprota fram eftir hausti.

Álftir í lágflugi yfir eyrum Eyjafjarðarár. Mynd: Sig.A.


Þar sem land er friðað fyrir beit eða dregið verulega úr henni tekur víðir að jafnaði fljótt við sér ef aðstæður leyfa. Meira um það í næstu köflum.


Mismunandi gerðir af víði, mest gulvíði og loðvíði, nemur land í Lögmannshlíð þar sem beit léttir. Mynd: Sig.A.


Beit og landnám víðis

Fræðilega er talið að hægt sé að reikna út einhvers konar beitarþol fyrir meðalárferði á einsleitu og algrónu landi. Erfitt er að taka tillit til þess þegar mjög fjölbreyttar vistgerðir koma fyrir í beitilandinu. Ekki er heldur ljóst hvernig taka skal tillit til vistfræðilegra þátta á borð við samsetningu gróðurs og breytinga á gróðurfari og uppskeru í tíma. Einkum er þetta erfitt á jaðarsvæðum (Ólafur Arnalds 2020). Vandinn vex ef landið er hvorki algróið né einsleitt þótt vel gróin svæði kunni að vera á milli rofsvæða og auðna. Hin síðari ár hefur verið bent á að ógjörningur er að meta beitarþol á slíku landi. Öll beit á rofnu landi flokkast einfaldlega sem rányrkja sem byggir á ofbeit. Svo má auðvitað benda á, eins og Ólafur hefur gert, að ef miðað er við hámarksbeit í meðalárferði telst það of mikil beit (og þar með ofbeit) ef árferðið er lélegra en í meðalári jafnvel þótt um einsleitt land sé að ræða. Um það er ekkert hægt að fullyrða fyrr en eftir á, þegar skaðinn er skeður.

Rætur, sennilega víðirætur, í moldarflagi. Moldin sem fýkur burt varð til vegna kolefnisbindingar plantna sem þarna uxu áður. Nú losnar kolefnið í formi koltvíoxíðs og eykur á hamfarahlýnun jarðar. Mynd: Sig.A.Sveinn Runólfsson (2016) skrifaði grein um þetta í Bændablaðið meðan hann var landgræðslustjóri. Finna má greinina hér. Sveinn segir í grein þessari: „Ekki er hægt að reikna beitarþol á landi sem er lítt gróið og þar sem er mikið rof eða umhverfisskilyrði eru að öðru leyti mjög takmarkandi, því lítil beit hefur þar mjög mikil áhrif til hins verra. Rannsóknir hafa sýnt að beit getur hægt á eða komið í veg fyrir sjálfgræðslu, sem er ákjósanleg leið til endurheimtar vistkerfa þar sem viðhlítandi aðstæður eru fyrir hendi." Því er ljóst að erfitt getur verið fyrir víði og annan gróður að nema land á rofnu landi ef það er nýtt til beitar fyrir húsdýr. Ekki þarf að koma á óvart að beitarvistfræðingar hafa horfið frá því að nota hugtakið beitarþol. Sérstaklega á fjölbreyttum beitarsvæðum og viðkvæmum svæðum eins og á Íslandi.


Það má vel halda því fram að gróðurinn á barðinu sé þannig að hann þoli beit. Vandinn er að féð sækir í nýgræðinginn. Því þolir svona land ekki beit. Mynd: Árni Tryggvason.

Önnur mynd af sama svæði. Hrútafell gnæfir yfir. Víðirinn á barðinu á ekki mikla möguleika á að sá sér út og stöðva rofið þegar nýgræðingurinn er fjarlægður jafnóðum. Mynd: Árni Tryggvason.Fleiri vísindamenn hafa tekið undir skoðanir Sveins í þessum efnum. Okkar helsti jarðvegsfræðingur, Dr. Ólafur Arnalds, gaf út lítið kver með konu sinni og samstarfsmanni, Ásu L. Aradóttur (2015). Heitir það Að lesa og lækna landið. Þar segir á bls. 15: „Íslensk vistkerfi mótuðust án beitardýra. Því er beitin ekki náttúrulegur hluti íslenskra gróðurlenda og þau eru mörg hver afar viðkvæm fyrir beitinni. Tegundasamsetning breytist hratt þegar beit er hafin og gróðurhulan getur skerst verulega sé aðgát ekki höfð. Við beit þarf að gæta þess að gróðurhula skerðist ekki og sum gróðurlendi eru illa fallin til beitar. Sauðfé sækir í gróður á illa grónu landi því nýgræðingur sem þar nemur land er næringarríkur, en beitin viðheldur slæmu ástandi landsins. Því er mikilvægt að gera kröfu um sæmilega samfellda gróðurhulu í beitilandi.“

Sæmilega vel gróið land þar sem finna má víði sem haldið er niðri að mestu. Fjær sér í illa farið og rofið land. Þetta land hentar því ekki til beitar þótt vel gróin svæði kunni að vera inni á milli rofsvæða. Svona landnýting er ósjálfbær. Myndin er fengin héðan og er eftir Ólaf Arnalds.


Þarna var áður mikið rof eins og sést til hægri á myndinni. Nú hefur landið verið nær algerlega beitarfriðað um nokkurra ára skeið. Nú eru rofabörðin að lokast og gróður að taka við sér. Víðir, mest loðvíðir, er farinn að vaxa á ný. Víða er staðan þó þannig að rofið hefur náð að eyða gróðri með öllu. Á þannig stöðum gerist mjög lítið í langan tíma nema gripið sé til aðgerða. Mynd og upplýsingar: Jón Kristófer Arnarson.


Víðir til landgræðslu

Notagildi plöntutegunda í landgræðslu er meðal annars metið út frá hæfileika þeirra til að dreifast og nema land. Er þar þó vandratað meðalhófið, því sumar plöntur eru svo duglegar að dreifa sér að mörgum verður um og ó. Einkum á það við um plöntur sem komu til landsins á eftir hreindýrunum og teljast því innfluttar. Íslensku víðitegundirnar gulvíðir og loðvíðir eru afkastamiklir landnemar á friðuðu landi. Ef þær hafa komið sér fyrir sjá þær sjálfar um að sá sér út, binda kolefni, auka grósku og dýralíf og verja landið gegn hvers kyns áföllum.


Víðiplöntur í landgræðslu á Hólasandi. Mikill skortur á næringarefnum og jarðvegur heldur illa vatni. Hvoru tveggja er heldur óheppilegt fyrir víðinn, en lúpínan getur vonandi hjálpað til við að mynda frjósamar víðiflesjur sem stundum eru nefndar víðrar. Hún gerir landið frjósamara og myndar jarðveg sem heldur betur vatni en sandurinn. Hvoru tveggja þiggur víðirinn með þökkum. Aftur á móti getur lúpínan verið erfið í samkeppni fyrir víðinn. Mynd: Sig.A.


Víðir skipar víða stóran sess í íslenskri vist eins og fram kemur í pistlum um hverja tegund. Allar tegundirnar hafa reyndar ekki enn fengið sinn pistil en sú tíð rennur sjálfsagt upp. Þar sem mikilvægi víðitegunda í gróðurframvindu er óumdeilt er ekkert undarlegt með að reynt hafi verið að nýta hann til landgræðslu. Gerðar hafa verið athuganir með að stinga græðlingum, gróðursetja plöntur og með að sá víðifræi beint.

Landgræðslan segir frá því í riti um notkun íslenskra víðitegunda til landgræðslu að athuganir hafi verið gerðar á landnámi gulvíðis og loðvíðis við mismunandi aðstæður og einnig tilraunir með því að sá víði þar sem tilgátur um áhrif áburðargjafar og raka á landnám þeirra á gróðurlitlum melum var skoðuð.


Séð yfir svæðið norðan við Hjálparfoss í átt að Dímon og Áslákstungum. Loðvíðirinn bætir landið fyrir sjálfsáningu birkis. Svo er lúpínan mætt á svæðið og mun bera hraustlega á allt saman. Mynd: Hreinn Óskarsson.

Náttúrulegt landnám víðis getur verið umtalsvert þar sem skilyrði eru hagstæð. Það má auðvitað sjá þetta um nánast allt land, t.d. þar sem land hefur verið friðað í kringum flugvelli og þar sem veggirðingar hafa haldið. Víða á Eyjafjarðarsvæðinu hafa vegir, beggja vegna við dalbotna, verið friðaðir með girðingum þannig að beit hefur lagst af neðan veganna. Má sjá merki þessa í Eyjafirði, Hörgárdal og víðar. Einnig í Skagafirði og í raun víða um land. Ekki er það þó endilega sá víðir sem við köllum íslenskan sem er að nema land. Alaskavíðir og viðja eiga þar sína hlutdeild. Þetta landnám mun með tímanum mynda víðikjarr sem ver landið gegn hverskyns áföllum.

Samkvæmt ofangreindum rannsóknum virðist landnámið mest í lífrænni jarðvegsskán og þunnum mosa en yfirleitt lítið í grasi, sinu og á lítt grónum melum. Þar sem land er mjög illa gróið getur önnur landgræðsla stuðlað að betra seti fyrir fræ og hjálpað þannig til við landnámi víðis á gróðurlitlum melum. Slíkir melar geta verið ótrúlega lengi að ná sér ef ekkert er að gert.

Samkvæmt sömu heimild gefa sáningatilraunir ekki afgerandi svör um möguleika sáningar við fjölgun víðis. Tilraunirnar sýndu samt að fræið spíraði bæði á mel og grassverði en afföl voru mjög mikil. Því komust mjög fáar plöntur á legg.

Í ljósi þessa urðu niðurstöðurnar þær að lítil von er um að sáningar séu vænleg leið til að koma víði á legg í stórum stíl.


Hér hefur baunagras undirbúið jarðveginn fyrir loðvíði og birki í nágrenni við Skaftafellsjökul. Niturbinding baunagrassins sést vel á grænu grasinu. Ef landið væri ekki friðað fyrir beit húsdýra væri þarna væntanlega hvorki baunagras né smárunnar. Mynd: Sig.A.

Hvaða vistgerð hentar best?

Til að landnám víðis geti átt sér stað þurfa bæði að vera til staðar hentugur svörður til landnáms og nóg framboð á fræi. Í mjög illa förnu landi er hvorugt til staðar.

Ef mikinn víði er að finna í nágrenninu má ætla að fræframboð sé nægilegt. Þá getur verið heppilegt að búa í haginn fyrir landnámið með uppgræðslu og friðun lands.


Þéttbeitt hestahólf á Skeiðum. Þar hefur skapast set fyrir víði sem hrossin virðast ekki éta. Fjær sést í enn meira landnám víðis á bökkum Þjórsár. Þar er gróður gisinn og því gott set fyrir víðifræ. Mynd: Sig.A.

Lífræn jarðvegsskán og smávaxinn gróður getur verið mjög heppilegur fyrir landnám víðis ef fræframleiðsla er til staðar og beit er ekki takmarkandi þáttur. Mynd: Sig.A.


Hér á landi má finna staði þar sem víðir hefur vaxið upp í kjölfar áburðardreifingar og sáningar grasfræs á lítt gróið land. Virðist það vera sú aðferð sem Landgræðslan veðjar helst á. Sumir telja að sama árangri megi ná með því að nota niturbindandi belgjurtir til að undirbúa landnám víðisins. Sérstaklega á það við um lágvaxnar tegundir eins og baunagras, hvítsmára, gullkoll og seljahnútu svo dæmi séu tekin. Þar sem víðirinn hefur numið land getur hann notið góðs af því að fá stórvirkari belgjurtir með sér. Eykur það mjög á frjósemi landsins.

Víðir nemur land í Hörgárdal. Mynd: Sig.A.


Annað sem skiptir verulegu máli er lífræn jarðvegsskán. Hún er að jafnaði samfélag gerla (cyanobakteríur), fléttna, mosa, grænþörunga og sveppa sem lifa í eða ofan á efstu millimetrum jarðvegsins. Þetta líffélag heldur jarðvegsögnum saman þannig að það er til muna traustara. Á slíkum svæðum gengur landnámið mikið betur en á sambærilegum minna grónum svæðum (Kristín Svavarsdóttur o.fl. 2006). Uppgræðsla getur örvað myndun lífrænnar jarðvegsskánar, sem er hagstæð fyrir landnám víðis. Myndir af svona svæðum má sjá hér aðeins ofar. Á þeim er gott set fyrir fræ víðitegunda og reyndar birkis líka. Komið hefur í ljós að víðir og birki geta hjálpað hvort öðru að nema land. Um það var aðeins fjallað í pistli um loðvíði.


Þetta fellur vel að reynslu manna sem sýnir að á friðuðu landi kemur víðirinn fyrst á þeim stöðum sem henta honum best. Víðirinn bætir síðan lífsskilyrðin í kringum sig og þá er betra tækifæri fyrir aðrar plöntur að sá sér líka og komast á legg.

Tilvonandi víðikjarr. Mynd: Sig.A.Helstu heimildir

Ása L. Aradóttir, Kristín Svavarsdóttir og Sigurður H. Magnússon (2006): Landnám víðis og árangur víðisáninga. Í Innlendar víðitegundir: Líffræði og notkunarmöguleikar í landgræðslu (ritstjóri Kristín Svavarsdóttir), bls. 59-72. Landgræðsla ríkisins, Gunnarsholt.


Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (1783): Grasnytjar. Ljósprentun frumútgáfunnar gefin út árið 1983. Bókaforlag Odds Björnssonar, Náttúrugripasafnið á Akureyri og Ræktunarfélag Norðurlands.


Helgi Hallgrímsson (1995): Gulvíðir - Pálmavíðir - Rauðvíðir - Slútvíðir. Um gulvíði á Íslandi og hin ýmsu nöfn hans. Í: Skógræktarritið 1995. Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Reykjavík.


Hörður Kristinsson (án ártals): Flora Íslands http://floraislands.is/salixlan.html Sótt 08.09. 2022.


Jóhann Pálsson (1997): Víðir og víðiræktun á Íslandi. Í Skógræktarritið. Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Reykjavík.


Jón Kristófer Arnarson: Munnlegar upplýsingar.


Krisín Svavarsdóttir og Ása L. Aradóttir (2006): Gulvíðir og loðvíðir. Eiga víða við. Leiðbeiningar um ræktun. Landgræðsla ríkisins 2006. Sjá: https://land.is/wp-content/uploads/2018/01/Gulv%C3%AD%C3%B0ir-og-lo%C3%B0v%C3%AD%C3%B0ir.pdfÓlafur Arnalds og Ása L. Aradóttir (2015): Að lesa og lækna landið. Landvernd, Landbúnaðarháskóli Íslands og Landgræðslan.


Ólafur Arnalds (2020): Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa. Rit LbhÍ nr. 130. Landbúnaðarháskóli Íslands. Sjá: https://www.moldin.net/uploads/3/9/3/3/39332633/rit_lbh%C3%8D_nr_130_%C3%81standsrit.pdf?fbclid=IwAR2eYOMIr867CAJ7gZxrmbxS6rFuwsIhei4iedj1OJ3t9vVUHIibX9eoxmI


Samson Bjarnar Harðarson 2013: Söfnun og varðveisla ræktaðra íslenskra víðiyrkja. Yndisgróður. Landbúnaðarháskóli Íslands, Hvanneyri.


Snorri Baldursson (2014): Lífríki Íslands. Vistkerfi lands og sjávar. Bókaútgáfan Opna og Forlagið. Reykjavík.


Steindór Steindórsson (1980): Flokkun gróðurs í gróðurfélög. Í: Íslenskar landbúnaðarrannsóknir 12.


Sveinn Runólfsson (24. feb. 2016): Beitarþol er löngu úrelt hugtak. Í Bændablaðið Sjá: https://www.bbl.is/skodun/lesendabasinn/beitarthol-er-longu-urelt-hugtak


480 views0 comments

Recent Posts

See All

Kommentare


bottom of page