top of page

Loðvíðir

Updated: Jun 18, 2023

Vandfundin eru þau svæði í heiminum þar sem víðir skipar jafn stóran sess í vistkerfum og garðrækt eins og hér við ysta haf. Því er sjálfsagt að segja dálítið frá víði á þessum síðum. Við veljum nú þá víðitegund sem er einna mest áberandi á landinu. Sérstaklega á sendnu landi. Heitir hún loðvíðir eða Salix lanata. Seinna verður haldið áfram með umfjöllun um víði.


Loðvíðir í Aldey í Skjálfandafljóti. Mynd: Sig.A.


Ættfræði

Almenn sátt er að tala um fjórar tegundir af víði sem innlendar. Það eru gulvíðir Salix phylicifolia, loðvíðir, S. lanata, fjallavíðir, S. arctica og grasvíðir eða smjörlauf, S. herbacea. Aðeins sú síðasttalda hefur fengið umfjöllun á okkar síðum fram til þessa og er hún þó síst til þess fallin að gera tilkall til þess að kallast tré. Hinar koma síðar.

Loðvíðir er víða áberandi í Mývatnssveit. Mynd: Sig.A.


Allar hafa þessar íslensku víðitegundir grunnlitningatölu upp á 19 litninga (Jóhann Pálsson 1997). Það auðveldar þeim að mynda blendinga sín á milli og telja margir að þeir finnast víða á Íslandi. Loðvíðirinn er það sem kallað er tvílitna (diploids) sem merkir að hver planta fær 19 litninga frá hvoru foreldri sem saman gerir 19 litningapör eða 32 litninga. Sama á við um grasvíðinn. Aftur á móti eru gulvíðir og fjallavíðir fjöllitna (polyploid). Ef fjöllitna tegundir og tvílitna tegundir ná að æxlast saman leggja tvílitna tegundir mun minna erfðaefni í hið nýja genamengi. Þess vegna er ekki algengt að sjá plöntur sem standa nokkurn vegin mitt á milli loðvíðis og gulvíðis eða loðvíðis og fjallavíðis. Aftur á móti geta grasvíðir og loðvíðir myndað slíka blendinga án vandræða ef blómgun tegundanna fer fram á sama tíma. Reyndar er það ekki alltaf svo. Því vilja sumir halda því fram að minna beri á loðvíðiblendingum á Íslandi en ætla mætti. Það sem sumir telja að sé einhver loðvíðiblendingur sé í raun hreinn loðvíðir, en bara óvenjulegur á einhvern hátt.

Algengustu víðiblendingar loðvíðis eru líklega blendingar hans og grasvíðis, enda eru þeir erfðafræðilega líkir. Hákon Bjarnason (1979) segir þá algenga.

Loðvíðir klæðir halla á lóðamörkum. Mynd: Sig.A.


Grávíðir, gráviður og loðvíðir

Í nafnatalningunni í kaflanum hér að ofan má vel vera að einhver sakni tegundarheitisins „grávíðir“. Það sem áður var kallað grávíðir kallast nú fjallavíðir. Er það vel, enda var og er orðið grávíðir af mörgum notað yfir loðvíðinn. Það þarf ekkert að koma á óvart því loðvíðir er miklu grárri en fjallavíðirinn. Orðið gráviður hefur einnig heyrst. Tengdaforeldrar þess er þetta pikkar töluðu alltaf um grávið þegar þau töluðu um loðvíði. Líklegt verður að teljast að þau sæmdarhjón hafi ekki verið eina fólkið á Héraði sem notaði það heiti yfir loðvíðinn.


Loðvíðir ofarlega í Búðargili. Engin furða að sumir kalli hann grávíði eða grávið. Mynd: Sig.A.

Þótt heitið grávíðir, eða gráviður, hafi í talmáli margra átt jafnt við um loðvíði og fjallavíði er rétt að hafa það í huga að þegar heitið grávíðir sést á prenti er vanalega ekki átt við loðvíði, heldur það sem nú kallast fjallavíðir. Nánar verður fjallað um þetta atriði í pistli um íslenskar víðitegundir, sem nú er í smíðum.


Loðvíðir við skógarjaðar. Mynd: Sig.A.

Lýsing

Loðvíðir ber nafn með rentu. Laufin eru gráloðin og skera sig vel frá flestum öðrum gróðri. Hann er að jafnaði auðþekktur frá öðrum íslenskum víði á lit og lögun laufanna. Aftur á móti má sums staðar finna innfluttar plöntur í görðum sem hafa svipaðan lauflit en lag laufanna er ekki það sama. Þetta er ekki einfalt mál því blöð loðvíðis á Íslandi geta verið nokkuð misjöfn af stærð, lögun og hæringu. Oft eru þau dálítið bylgjuð í jöðrum en ekki alltaf.


Blöð loðvíðis eru oft dálítið bylgjuð á jöðrum. Mynd: Sig.A.


Stærð og lögun laufanna er nokkuð breytileg. Almennt má þó segja að þau séu þykk, breið og mikið gráloðin. Annað einkenni sem vert er að nefna er að loðvíðir hefur greinileg axlarblöð á ársprotum. Stundum eru blöðin mjórri og minni og geta þá líkst fjallavíði. Fjallavíðir hefur ekki áberandi axlarblöð á ársprotum og er það ágætis greiningaratriði.


Litlu blöðin við stofn aðalblaðanna kallast axlarblöð. Þau eru áberandi á loðvíði eins og hér má sjá. Mynd: Sig.A.


Tveir loðvíðiklónar. Annar alveg jarðlægur og með stærri blöð. Hann er framan við hinn klóninn en virðist vera að tapa í samkeppni við annan gróður. Mynd: Sig.A.

Ljóst má vera að loðvíðir er runni en ekki tré. Hann hefur marga stofna ef hann vex upp á við en ekki einn, ráðandi stofn eins og trjám er eðlislægt. Aftur á móti er stærð hans mjög misjöfn. Oftast er hann lágvaxinn eða frá um 50-150 cm á hæð. Þó eru til alveg jarðlægir klónar og stöku dæmi eru um plöntur sem verða allt að fjórir metrar á hæð, en það er sjaldgæft. Hörður Kristinsson segir á vefsíðunni floraislands.is að loðvíðir geti orðið um 2 m á hæð „eða meira þar sem hann ekki er klipptur af búfé“. Mun þessi klipping vera meginástæða þess að víða er loðvíðir lægri en genasamsetningin segir til um.


Haustklipping á loðvíði. Loðvíðir er eftirsótt beitarplanta. Mynd: Sig.A.


Það er auðvitað alveg rétt hjá Herði að loðvíðir getur orðið enn hærri. Samson Bjarnar Harðarson (2013) segir frá því í skýrslu um víðiklóna að til er loðvíðir á Íslandi sem nær meira en fjögurra metra hæð.

Stórvaxinn loðvíðir á Gunnfríðarstöðum í Austur Húnavatnssýslu. Bak við hann stendur Páll Ingþór Kristinsson. Runninn er vel yfir 4 m á hæð og sverleiki aðalgreina um 6 cm í þvermál og um 30-40 ára gamall. Mynd tekin 23. febrúar 2013. Hana tók Samson Bjarnar Harðarson. Myndina má finna hér.


Blómgun

Loðvíðirinn er sérbýlisplanta. Það merkir að hver planta er annaðhvort karlkyns eða kvenkyns og myndar blóm samkvæmt því.

Blóm víðiplantna eru í svokölluðum reklum og hefur áður verið fjallað um þau á þessum síðum. Á reklunum myndast svo mörg blóm sem annað hvort eru öll karlkyns eða kvenkyns á sömu plöntunni. Reklar loðvíðisins eru stundum nefndir „víðikettlingar“ af ástæðum sem þeim er þetta ritar eru með öllu huldar. Þeir eru nokkuð stórir, sérstaklega ef miðað er við stærð plantnanna. Þeir eru 2,5-8 cm að jafnaði. Til samanburðar má nefna að reklar gulvíðis eru að jafnaði 2-4 cm. Þar af leiðir að loðvíðirinn myndar fleiri blóm og getur myndað meira fræ en gulvíðirinn (Kristín Svavarsdóttir, ritstj. 2006).


Reklar loðvíðis með karlblómum. Mynd: Sig.A.


Samkvæmt rannsóknum á vegum Landgræðslunnar og fleiri (Kristín Svavarsdóttir ritst. 2006) framleiðir loðvíðir mikið fræ á Íslandi. Meira en gulvíðir, sem víða er að finna í sambærilegri vist. Fræið spírar líka fyrr og betur en hjá gulvíði. Aftur á móti vex gulvíðirinn meira og hraðar, enda verður hann að jafnaði hærri og meiri um sig. Þetta virðist loðvíðirinn vinna upp með meiri fræframleiðslu og betri spírun.


Þroskuð loðvíðifræ bíða þess að golan grípi þau og feyki á nýjar slóðir.

Mynd: Sig.A.


Reklar loðvíðis birtast mjög snemma á vorin. Veðurfar ræður miklu um hvenær sjá má víðiblómin en gjarnan blómstrar hann í maí, skömmu áður eða um líkt leyti og laufgun hefst. Eru reklarnir mjög áberandi og litfagrir. Sérstaklega eru karlblómin falleg. Þau bera tvo fræfla hvert sem hafa áberandi gula frjóhirslur. Karlreklarnir falla af plöntunum þegar þeirra er ekki lengur þörf. Kvenreklarnir myndast að jafnaði heldur seinna en karlreklarnir. Þó þannig að blómgunin skarast, enda yrði annars ekki mikið úr kynæxlun. Kvenblómin eru ekki eins áberandi og eru grænleit á litinn en frævan er gulleit. Kvenreklarnir eru lengri en karlreklarnir. Í kvenblómunum myndast fræin sem verða að jafnaði fullþroska í júlí. Þá klofnar aldinið í tvennt og svifhár fræjanna mynda mikinn ullarhnoðra sem auðveldar fræjunum að fjúka með vindi.

Sennilega treystir loðvíðirinn alfarið á skordýrafrævun eins og svo algengt er innan víðiættkvíslarinnar.


Hér hefur fræ náð að spíra í klettahólma. Mynd: Sig.A.



Útbreiðsla

Loðvíðir er algengur runni um land allt utan jökla. Reyndar er lítið um hann sums staðar á láglendi, einkum á Suðurlandi. Hann finnst víða upp í um 1000 m hæð til fjalla. Hæst er vitað um hann á jarðhitasvæði í Öskju í 1180 m hæð yfir sjávarmáli (Hörður Kristinsson). Víðast hvar er hann lykiltegund í íslenskum vistkerfum. Hann vex einnig um öll Norðurlönd, Norður-Evrópu og Skotland. Einnig í norðurhluta Rússlands og austur um alla Síberíu.

Í Færeyjum er hann sárasjaldgæfur og vex þar eingöngu í klettum þar sem sauðfé nær ekki til hans (Jóhannes Jóhansen 2000).

Loðvíðir í íslensku árgljúfri (Kolugljúfur) þar sem erfitt er að komast að. Í Færeyjum finnst loðvíðir aðeins í klettum þar sem sauðfé kemst ekki að. Mynd: Sig.A.


Um norðanverða Norður-Ameríku vex undirtegund af loðvíði. Kallast hún Salix lanata subsp. richardsonii. Munurinn er tvíþættur. Annars vegar eru blómin ljósari og nánast hvít eða rjómagul í stað hinna gulu blóma sem við þekkjum hér á landi. Hitt atriðið tengist laufunum. Þau eru að jafnaði heldur minni og kringlóttari og að auki er hæringin á efra borði ekki alltaf eins áberandi. Ung blöð eru þó alveg jafn hærð og á aðaltegundinni. Þar sem loðvíðir á Íslandi er fjölbreyttur er ekki alltaf auðvelt að greina þarna á milli.


Lágvaxinn loðvíðir frá Alaska, Salix lanata subsp. richardsonii, við Drottningarbraut. Blöðin minni og kringlóttari en á íslenskum loðvíði sem vex í sömu beðum. Mynd: Sig.A.


Loðvíðir virðist aldrei hafa borist frá Íslandi til Grænlands. Er Ísland því vestasti hluti náttúrulegrar útbreiðslu tegundarinnar.


Loðvíðir á hálendi Íslands á víða undir högg að sækja. Gera má ráð fyrir að hér hafi áður verið samfellt víðikjarr. Mynd: Sig.A.


Vist

Á Íslandi eru runnategundir gjarnan lykiltegundir í þeim plöntusamfélögum sem þær vaxa í. Vegna vaxtarlags síns geta þeir haft áhrif á umhverfi sitt á ýmsa vegu. Fyrir það fyrsta mynda þeir skjól sem aðrar tegundir geta nýtt sér. Á vetrum safnast snjór í kringum einstakar plöntur sem vernda lággróðurinn og miðlar vatni. Undir runnunum eru næringarefni oft í meiri styrk en utan þeirra, meðal annars vegna þeirra örvera og sveppa sem lifa í sambýli við þá.


Rannsóknir hafa sýnt að birki vex betur með víði en án. Sennilega stafar það af rótarsveppum sem nýtast báðum tegundum.

Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.


Helstu sveppir sem vaxa með loðvíði eru þeir sömu og vaxa með öðrum, íslenskum víðitegundum að sögn Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur (2022). Má þar nefna eirlökku, Laccaria laccata, sem er appelsínugulur sveppur sem vex með mjög mörgum trjám. Að auki má finna litla kögrategundir, Cortinarius spp. og smáar ljóskutegundir, Hebeloma spp.


Glæra sem fjallar um sveppi sem numið hafa land með loðvíði í Surtsey. Þar hefur Guðríður Gyða greint sveppi með tveimur af þeim þremur loðvíðiplöntum sem þar eru. Mynd: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.


Snorri Baldursson (2014) sagði frá tilraunum Sigurðar H. Magnússonar sem snéru að birkisáningu. Kom þar í ljós að birki sem var svo heppið að spíra nálægt víði var að jafnaði stærra og kröftugra en hitt sem ekki óx nálægt víði. Plöntur sem voru innan við 65 cm frá víði voru tvisvar til fimm sinnum stærri að umfangi en þær sem voru lengra frá. Vaxtaraukinn var jafn mikill burt séð frá stærð víðisins svo líklega er þetta svepprótinni að þakka. (bls. 283)


Villtur loðvíðir getur verið ótrúlega þéttur og kúlulaga. Þessi vex í Vaðlaheiði gegnt Akureyri. Mynd: Sig.A.


Af þessum sökum er loðvíðir ákaflega mikilvæg tegund, rétt eins og aðrir runnar á Íslandi. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (2022) hefur bent á að laufblöð loðvíðis rotna hraðar en lauf hinna víðitegundanna. Það er eins og í þau vanti einhver rotvarnarefni sem kunna að vera í hinum laufunum. Áður en blöð af öðrum víðitegundum rotna er ekkert eftir af blöðum loðvíðisins nema æðakerfið. Vel má vera að þetta leiði til þess að næringarefnin úr blöðum loðvíðis nýtist svarðnautum hans fyrr en svarðnautum annarra tegunda. Það er að vísu órannsakað og getur aðeins gengið upp ef aðrar lífverur ná að nýta þessi efni að hausti, áður en þeim skolar burt.


Loðvíðir skipar stóran sess í íslenskri vist. Myndir: Sig.A.


Allur víðir er ljóselskur og í flestum vistkerfum er hann frumherjaplanta sem nemur snemma land. Loðvíðirinn er engin undantekning frá því. Sjá má þetta á svæðum þar sem jöklar hopa og beit heldur ekki niðri eðlilegri framþróun. Dæmi um slíka staði eru í Skaftafellsþjóðgarði þar sem þrjár af fjórum víðitegundum námu land eftir að jöklar tóku að hopa (Kristín Svavarsdóttir og Ása L. Aradóttir 2006). Annars finnst loðvíðir í mjög breytilegri vist.


Víðir og birki klæða land eftir að jökullinn hopaði í þeim hluta Vatnajökulsþjóðgarðs sem kenndur er við Skaftafell. Mynd: Sig.A.

Svo er að sjá sem birki og víðir geti hjálpast að. Stafar það sennilega af jarðvegsbætandi eiginleikum örvera og sveppa á rótum plantnanna. Því er það svo að víðir vex vel í nágrenni við birki og öfugt. Þar sem finna má víði á birkið auðveldara með að nema land. Tilraunir Landgræðslunnar hafa staðfest þetta. Samkvæmt þeim hafa víðitegundir jákvæð áhrif á landnám ungra birkiplantna. Einnig kann að vera um óbein áhrif að ræða eins og skjól fyrir vindi og áhrif á snjósöfnun sem getur haft jákvæð áhrif á vatnsbúskap (Kristín Svavarsdóttir og Ása L. Aradóttir 2006). Aftur á móti er loðvíðirinn ljóselskur og lifir ekki inni í mjög þéttum birkiskógum. Hann finnst frekar í jöðrum skóga og þar sem birkið verður ekki mjög hávaxið og myndar því minni skugga.



Loðvíðir og birki í Hljóðaklettum og Dimmuborgum. Myndir: Sig.A.


Loðvíðirinn myndar mestu og samfelldustu breiðurnar í fremur sendnum jarðvegi. Virðist hann kunna betur við þá vist en gulvíðirinn og birkið. Loðvíðir getur einnig orðið ríkjandi tegund þar sem áfok er nokkuð mikið. Bendir það til þess að hann þoli það betur en margar aðrar tegundir. Þetta verða að teljast eftirsóknarverðir eiginleikar til landgræðslu. Þetta getur stuðlað að því að loðvíðir verndi og verji jarðveg svo hann eigi auðveldara með að takast á við ytri áföll eins og kulda eða öskufall. Víða til heiða má sjá stóra fláka af loðvíði sem merki um horfna grósku.


Loðvíðir, gulvíðir, birki og fleiri tegundir nema land framan við Svínafellsjökul. Mynd: Sig.A.


Vistgerðir

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands, ni.is, er sagt frá stóru verkefni stofnunarinnar sem miðar að því að flokka og skilgreina mismunandi vistkerfi landsins, sem auðvitað eru háð hvert öðru. Útkoman úr þessu verkefni er að flokka landið í svonefndar vistgerðir: Vistgerð er landeining sem býr yfir ákveðnum eiginleikum hvað varðar gróður, dýralíf, jarðveg og loftslag. Innan sömu vistgerðar eru aðstæður með þeim hætti að þar þrífast svipuð samfélög plantna og dýra“ segir á vef stofnunarinnar.


Loðvíðir við þrjá fossa. Hjálparfoss, Gullfoss og Ullarfoss. Myndir: Sig.A.


Í flokkun Náttúrufræðistofnunar er loðvíðirinn sérstaklega nefndur í víðimóavist og víðikjarrvist.

Víðimóavist fær eftirfarandi lýsingu: „Þurrir til rakir, allvel grónir móar með loðvíði, fjallavíði, krækilyngi og fleiri mólendistegundum. Vistgerðin finnst á láglendi og á miðhálendinu, einkanlega á flötum eða lítið eitt hallandi framburðarsléttum. Jarðvegur er víða sendinn og á snjóþungum svæðum er þekja lífrænnar jarðvegsskánar umtalsverð. Gróður er fremur lágvaxinn. Þekja æðplatna og mosa er allmikil en þekja fléttna lítil.“ Þessi vist finnst einkum inn til landsins, á sendnu deiglendi og er algengust á gosbeltinu. Helstu æðplöntur eru: Krækilyng, Empetrum nigrum, loðvíðir, fjallavíðir, S. arctica og fjalldrapi, Betula nana.


Víðimóavist. Þarna er rakur og sendinn jarðvegur. Mynd: Sig.A.


Víðikjarrvist er lýst svona: „Þurrt til deigt gróskumikið kjarrlendi á láglendi, í brekkurótum og hlíðum og á gróðursælum stöðum til fjalla, vaxið gulvíði, loðvíði, krækilyngi og fleiri mólendistegundum. Land er vel gróið, gróður fremur hávaxinn, æðplöntur eru ríkjandi, mosar allmiklir en fléttur fremur rýrar. Hvönn og annar hávaxinn blómgróður eins og blágresi og burnirót eru sums staðar áberandi.“ Vistin finnst fyrst og fremst „Á láglendi og lágheiðum um allt land, þar sem sauðfjárbeit er lítil eða engin. Algengust á Suðurlandi, Vestfjörðum, Norðausturlandi og Austurlandi.“ Ríkjandi tegundir æðplantna í vistgerðinni eru bláberjalyng, Vaccinium uliginosum, krækilyng, Empetrum nigrum, fjalldrapi, loðvíðir og gulvíðir, S. phylicifolia. Almennt má segja um þessa vistgerð að hún er mjög tegundarík.


Þessi mynd er tekin nyrst á Hólasandi í Öxarfirði. Hún er þögull vitnisburður um baráttu við hamslaust sandfok sem þarna eyddi öllum gróðri og ógnaði bæjum. Svæðið var girt af árið 1954 og friðað fyrir beit. Var það forsenda þess að hægt væri að hefja landgræðsluaðgerðir. Meðal annars var sáð þarna melgresi til að hemja sandinn. Jarðvegur tók að myndast og annar gróður að vaxa upp af fræi sem þangað barst eða leyndist undir sandinum. Nú er melgresið nánast horfið en eitt strá er þarna til minja. Annars má sjá gulvíði, loðvíði, birki og fjalldrapa. Grái liturinn stafar af loðvíði. Myndina tók Andrés Arnalds 26. ágúst 1985. Veitti hann einnig þessar upplýsingar.




Mikil gróska í Gjánni í Þjórsárdal. Sennilega má flokka þetta land að hluta sem víðikjarrvist. Mynd: Sig.A.

Skaðvaldar

Loðvíðir er ákaflega eftirsótt beitarplanta. Því getur sauðfjárbeit skaðað loðvíði. Það sést best í friðuðu landi, þar sem loðvíðir tekur oft undraskjótt við sér. Allra best er að éta loðvíðinn ef næringarástand hans er gott. Því er það svo að ef borið hefur verið á loðvíði og sauðfé kemst í gróðursetninguna getur orðið talsvert tjón á gróðri.


Loðvíðir í rofnu beitilandi á mismunandi stöðum. Svona land losar meira kolefni en það bindur. Mynd: Sig.A.

Fjölmörg skordýr lifa að verulegu leyti á víðitegundum. Samkvæmt bókinni Heilbrigði trjágróðurs (2014) eru fimm tegundir skordýra á Íslandi sem geta valdið verulegu tjóni á víði. Loðvíðirinn fer ekki varhluta af því. Á vorin eða snemmsumars má oft sjá skaða á blöðum víðis eftir víðifeta, Hydriomena furcata, haustfeta, Operophtera brumata og tígulvefara, Epinotia solandriana. Í öllum þessum tilfellum eru blöðin étin og uppvafin.

Skemmdir eftir vefara á víðiblöðum. Í þessu tilfelli reyndar á gulvíði.

Mynd: Sig.A.


Víðiblaðlýs, Cavariella spp. geta líka valdið tjóni á loðvíði. Þá verða blöðin dálítið klístruð. Fimmti skaðvaldurinn er asparglittan (sem sumir kalla asparglyttu), Phratora vitellinae. Skilur hún eftir nagbletti á blöðum.

Gott er að hafa í huga að þótt aðeins sé nartað í laufblöðin þarf það ekki að vera svo slæmt. Ef ekkert étur úr garði þínum telst hann varla partur af vistkerfinu.


Nagblettir á laufum loðvíðis. Mynd: Sig.A.

Svokallaðir ryðsveppir Urediniomycetes geta líka herjað á loðvíði. Hafa sumir þeirra hrjáð víðinn öldum saman. Eins og svo algengt er þegar svo háttar valda fæstir þeirra verulegum skaða. Aftur á móti geta þeir haft áhrif á fegurðarsmekk manna. Algengasti sveppurinn á loðvíði er víðiryð, Melamposora epitea. Það er mjög algengt á fjallavíði og loðvíði um allt land. Síðsumars og á haustin getur loðvíðir orðið gulflekkóttur af gróum þessa ryðsvepps. Þessi sveppur veldur sjaldan verulegu tjóni þótt hann þyki ekki til prýði. Þó eru þess dæmi, samkvæmt áðurnefndri bók um heilbrigði trjágróðurs, að sveppurinn geti dregið það mikið úr vexti að yngstu sprotarnir nái ekki fullum þroska fyrir haustið. Afleiðingin verður þá aukið kal (Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson 2014). Þeir sem vilja fræðast meira um þessa skaðvalda er bent á bók þeirra fóstbræðra.


Gróblettir á neðra borði loðvíðilaufs. Mynd: Sig.A.


Loðvíðir í görðum


Þegar garðrækt hófst við hús á Íslandi til fegurðarauka hafa sjálfsagt margir flutt loðvíði í sína garða. Aftur á móti hentar hann ekkert sérstaklega vel í vel formuð og klippt limgerði. Því var lengi vel lítið um loðvíði í íslenskri garðrækt.


Loðvíðir klæðir stall í Síðuhverfi. Mynd: Sig.A.

Samkvæmt Jóhanni Pálssyni (1997) jókst ræktun hans er líða tók á áttunda áratug síðustu aldar. Svo tók hún stökk eftir 1980. Má jafnvel segja að hann hafi verið hátískuplanta á þeim árum. Ástæða þessa telur Jóhann vera að á þeim tíma voru frjálslegri form að ryðja sér til rúms í garðahönnun í stað stífklipptra limgerða. Loðvíðirinn nýtur sín best í görðum þar sem frjálslegt vaxtarlag hans fær að njóta sín. Loðvíðir er gjarnan notaður framan við limgerði, í steinhæðir, kanta, hleðslur og í blönduð beð með allskonar runnum, trjám og fjölæringum. Þannig nýtir form og litir víðisins síns best. Í garðyrkjustöðvum ættu alltaf að vera til staðar upplýsingar um vaxtarlag þeirra klóna sem ræktaðir eru. Sums staðar fer vel á því að hafa lágvaxinn loðvíði á meðan aðrar aðstæður kunna að kalla á hærri plöntur.


Blandað beð á Brekkunni. Loðvíðirinn fyrir miðri mynd setur mikinn svip á beðið. Mynd: Sig.A.

Loðvíðir á opnum svæðum í þéttbýli

Loðvíðir er talsvert notaður á opnum svæðum í þéttbýli og sést það vel á Akureyri. Hér er hann meðal annars notaður við umferðarmannvirki og í almenningsbeðum. Á slíkum stöðum er það kostur að loðvíðir þarf ekki mikið og almennt viðhald. Samt gerist það stundum að sumar grastegundir, svo sem húsapuntur, Elymus repens, ná nánast að leggja undir sig loðvíðinn. Líta má á slíkt sem hálfvillt samfélag og virðist ekki mikið amast við því í bænum.


Loðvíðir, ásamt blómstrandi mjólkurjurt á umferðareyju. Mynd: Sig.A.

Annars er allt hið sama að segja um loðvíði á opnum svæðum og í einkagörðum nema hvað algengara er að planta mörgum loðvíðiplöntum saman á opnum svæðum. Það þekkist reyndar líka í garðrækt en er ekki eins algengt.


Loðvíðir við Drottningarbraut. Við hana má sjá bæði íslenskan loðvíði og amerísku undirtegundina frá Alaska. Mynd: Sig.A.


Loðvíðir í smekklegu beði í Hrafnagilshverfi. Mynd: Sig.A.

Dæmi um loðvíði í landi Akureyrar má finna t.d. á hringtorgum, í nýlegum beðum við Drottningarbraut og í beðum við Hlíðarbraut, svo aðeins örfá dæmi séu nefnd.


Beð við Hlíðarbraut í kvöldsólinni. Mynd: Sig.A.


Loðvíðir til landgræðslu

Árið 1998 hófst rannsóknarverkefni sem hafði það að markmiði að finna leiðir til að nýta íslenskar víðitegundir til landgræðslu. Niðurstöður verkefnisins voru birtar í riti sem ber nafnið „Innlendar víðitegundir. Líffræði og notkunarmöguleikar í landgræðslu“ (2006). Þar kemur fram að loðvíðir (og reyndar einnig gulvíðir) er gagnleg planta til landgræðslu. Sérstaklega á það við þegar stuðla skal að náttúrulegri framvindu og eflingu staðargróðurs með notkun innlendra tegunda. Hefur það verið kallað „vistheimt“ hin síðari ár. Rétt er þó að hafa í huga að innfluttar tegundir geta vel hentað til landgræðslu og óþarfi að afskrifa þær eingöngu vegna uppruna.




Loðvíðir í Stuðlagili þar sem hann fær skjól fyrir beit húsdýra. Myndir: Sig.A.


Loðvíði má nota til jarðvegsverndar, landgræðslu og til að stuðla að endurheimt birkiskóga, enda hjálpast birki og víðir að eins og áður greinir. Loðvíðir framleiðir mikið fræ og getur auðveldlega sáð sér út ef aðstæður eru heppilegar og fræframboð fyrir hendi.


Valur Eyþórsson, ljósmyndari, gengur um svæði sem fjalldrapi, loðvíðir og birki klæða landið. Fjær, handan lækjar, er enn meiri gróska með hvönn, lúpínu og hærri trjágróðri. Mynd: Sig.A.


Göngufólk dáist að loðvíði, birki og fleiri tegundum sem þarna vinna á.

Mynd: Sig.A.


Á gróðurlitlu og rofnu landi takmarkast vöxtur plantna oft af skorti á næringarefnum, sérstaklega nitri, og svo skorti á vatni. Að auki er jarðvegsyfirborð oftast óstöðugt á slíkum stoðum vegna frostlyftingar og rofs sem oftast er komið til vegna ofnýtingar í árhundruð. Á slíkum stöðum getur verið erfitt að koma sjálfgræðslunni af stað. Getur þá hjálpað að bera á tilbúinn áburð, koma lífrænum efnum á svæðið svo sem seyru eða heymoði, eða koma fyrir belgjurtum eins og baunagrasi, hvítsmára, lúpínu og gullkolli. Sjá nánar um notkun belgjurta í skógrækt.


Loðvíðir og umfeðmingur. Um umfeðminginn og loðvíðinn má segja allt það sama og um lúpínu og loðvíði hér að ofan. Því má þó bæta við að umfeðmingur getur vafið sig upp eftir trjágróðri. Mynd: Sig.A.

Ef gróðurframvindan er komin af stað, t.d. með friðun og landgræðslu á lítt grónu landi, eða ef einhver jarðvegsskán er fyrir hendi, getur loðvíðir gert mikið gagn. Hákon Bjarnason, skógræktarstjóri, ritaði bókina Ræktaðu garðinn þinn (1979). Þar segir hann að loðvíðirinn sé einhver besta vörn gegn mold- og sandfoki. „Samtímis er hann ein besta beitarplanta landsins og því geta þessir eiginleikar ekki notið sín nema á alfriðuðu landi.“ Þetta má vissulega til sannsvegar færa, þótt Landgræðslan þegi um það þunnu hljóði í sínum ritum.


Bitinn víðir. Mynd: Sig.A.


Björn í Sauðlauksdal

Sá merki maður: Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, gerði sér grein fyrir gildi víðis í baráttunni við uppblástur. Jóhann Pálsson (1997) telur að Björn hafi verið sá fyrsti til að átta sig á þessu. Í riti sínu, Grasnytjum, sem gefið var út árið 1783, skrifaði Björn (að vísu með gotnesku letri, svo eitthvað kann sá er þetta færir inn að hafa mislesið) um „sandvíði“ Salix aneraria, sem samkvæmt lýsingu er það sem við í dag köllum loðvíði: „Sand-vidir hefir lodin blød, og lángar tága rætur“.


Loðvíðir í rofabarði. Trefjaræturnar sem Björn í Sauðlauksdal talaði um sjást ágætlega. Mynd: Sig.A.

Um téðan víði segir hann: „Þat tel eg með lucku minni, at þetta óvand-sædda vídir kyn elr sig á þessari lendu; þvíæt væri þat ecki, þá mundi áblis jørd min fyrir laungu odrin at audn og eydi sandi. Svo kemur lýsing sem við sleppum í bili og svo þetta: Lauf þessa vídis er her slegid med liá, og er gott fiár-fódur, þó er hann þarfari at binda jard-veg, og því læt eg miøg spara slátt hanns. Hann vex her í einum saman sandi, enn ecki hefir eg getað enn þá til vissu nenrar komid á þann veg, at planta hann; þó veit eg þat, að hann þarf rakt og sendid land, leir þolir hann nockurn, en ecki feita jørd. Þat eru mestu jardar spiøll at rífa hann, nema þar sem hann er ordinn Daudr, og at ber-beinum.“


Loðvíðir við þrjár þekktar byggingar á Akureyri. Myndir: Sig.A.


Loðvíðir nálægt Stöng í Þjórsárdal. Mynd: Sig.A.


Loðvíðir í skógum

Nú er það svo að loðvíðir telst ekki til trjáa og verður seint ræktaður til viðarnytja í íslenskum skógum. Aftur á móti er hann fallegur runni. Full ástæða er til að planta honum í skógarjaðra eða við rjóður þar sem nægrar birtu gætir. Aftur á móti er það svo að víða birtist hann bara sjálfur ef land er friðað vegna skógræktarframkvæmda. Þá er alveg óþarfi að planta honum. Hin gráu lauf loðvíðisins geta lífgað mjög upp á skógarjaðra og veitt fjölbreytni í lit og vaxtarlagi.


Loðvíðir og annar gróður sprettur upp þar sem land hefur verið friðað vegna skógræktar. Mynd: Sig.A.


Loðvíðir í skógræktarlandi í Þjórsárdal. Mynd: Sig.A.


Loðvíðir er einnig hluti af birkivistkerfum landsins. Ef markmið skógræktar er að endurheimta birkiskógavistkerfi er gráupplagt að hafa loðvíðinn með. Margir sumarbústaðaeigendur rækta yndisskóg í sínum löndum. Þar er oft mjög gott pláss fyrir loðvíði. Ekki síst við lóðamörk þannig að íslensk náttúra og skógræktarreitirnir falli vel hvort að öðru. Einnig er það algengt að þegar sumarbústaðalönd eru friðuð kemur í ljós að þar leynist loðvíðir sem fær þá tækifæri til að vaxa og breiðast út.



Nokkrar myndir af loðvíði í skóglendi og tilvonandi skóglendi. Myndir: Sig.A.


Laufhey

Víðir er ákaflega eftirsótt beitarplanta af sauðfé eins og áður hefur komið fram. Reyndar eru nánast allar tegundir víðis, þar með talið loðvíðirinn, eftirsóttar beitarplöntur hjá sauðfé og nautgripum en síður hjá hrossum.


Rofið land losar kolefni í andrúmsloftið sem eykur á hamfarahlýnun í heiminum. Tré og runnar binda kolefni. Myndin sýnir beitiland þar sem sjá má rofið land og loðvíði. Mynd: Sig.A.

Stefán Stefánsson skrifaði um flóru Íslands árið 1901. Var það tímamótaverk endurútgefið árin 1924 og 1948. Steindór segir um loðvíði: „Víðir þessi er einhver hin besta búfjárhagaplanta og rífur fé hana í sig mjög gráðugt, einkum framan af sumri, meðan ársprotarnir og blöðin eru mýkst. Víða er og mikið af honum í slægjulöndum saman við annað gras (laufhey) og sums staðar, t.d. í Þingeyjarsýslu, eru víðibreiðurnar, þar sem hann vex nærri einvörðungu, slegnar og þykir gott fóður“. Því miður er sá sem þetta ritar ekki með frumheildirnar frá Stefáni við höndina en treystir á grein Jóhanns Pálssonar (1997) um efnið. Frá því hefur verið greint að á Hólsfjöllum hafi loðvíðir verið uppistaðan í laufheyi og Stefán Bogi Sveinsson (2022) segist hafa munnlegar heimildir fyrir því að á Héraði hafi verið slegið laufhey, sennilega á árunum milli 1960 og 1970. Átti það að vera hið besta fóður. Að auki ilmaði taðan alveg sérstaklega vel.


Loðvíðibreiður við Skjálfandafljót. Ætli þarna hafi áður verið slegið laufhey? Myndir: Sig.A.

Björn Halldórsson (1783) sem áður er nefndur segir frá nytjum loðvíðis í riti sínu Grasnytjum. Telur hann víðinn hið besta fóður og segir að hann megi hvort heldur sem er slá eða rífa en fljótlegra sé að rífa hann þar sem mikið er af honum.


Loðvíðir við veggirðingu. Miðað við magn sinu handan girðingar er beitin ekki mikil. Hún dugar samt til að halda niðri loðvíðinum. Mynd: Sig.A.


Sjálfsagt hafa báðir þessir heiðursmenn haft rétt fyrir sér. Að minnsta kosti eru þess ótal dæmi að loðvíðir og reyndar annar víðir líka, lætur undan síga í beittu landi. Ef ofbeit liðina alda hefur ekki þýtt algert hrun vistkerfa (því miður þekkjast slík dæmi á Íslandi) geta þessar víðiplöntur birst aftur þegar landið er friðað fyrir beit. Má meðal annast sjá þetta meðfram vegagirðingum um nánast allt land. Þeim er ætlað að halda búfé í burtu af þjóðvegum en hliðarverkun þeirra er að ýmiss gróður tekur vaxtarkipp.


Loðvíðir finnst víða á hálendinu eins og hér við Sænautasel. Mynd: Sig.A.


Helstu heimildir


Andrés Arnalds: Munnleg heimild 09.03.2021.


Ásgeir Svanbergsson (1989): Tré og runnar. Önnur útgáfa. Gefin út af frumkvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur. Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf.


Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (1783): Grasnytjar. Kafli CXI. Ljósprentun frumútgáfunnar gefin út árið 1983. Bókaforlag Odds Björnssonar, Náttúrugripasafnið á Akureyri og Ræktunarfélag Norðurlands.


Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson (2014): Heilbrigði Trjágróðurs. Skaðvaldar og varnir gegn þeim. Iðunn. Reykjavík.


Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur: Munnleg heimild 01.09. 2022.


Hákon Bjarnason (1979): Ræktaðu garðinn þinn. 3. útgáfa, aukin og endurskoðuð 1987. Iðunn, Reykjavík.


Hörður Kristinsson (án ártals): Flora Íslands http://floraislands.is/salixlan.html Sótt 02.09. 2022.


Jóhann Pálsson (1997): Víðir og víðiræktun á Íslandi. Í Skógræktarritið. Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Reykjavík.


Jóhannes Jóhansen (2000): Føroysk Flora. Føroya Skúlabókagrunnur. Tórshavn.


Kristín Svavarsdóttir og Ása L. Aradóttir (2006): Gulvíðir og loðvíðir. Eiga víða við. Leiðbeiningar um ræktun. Landgræðsla ríkisins 2006. Sjá: https://land.is/wp-content/uploads/2018/01/Gulv%C3%AD%C3%B0ir-og-lo%C3%B0v%C3%AD%C3%B0ir.pdf


Kristín Svavarsdóttir (ritstj. 2006 ): Innlendar víðiteguir: Líffræði og notkunarmöguleikar í landgræðslu. Landgræðsla ríkisins. Sjá: https://land.is/wp-content/uploads/2018/01/Innlendar-v%C3%AD%C3%B0itegundir.pdf


Náttúrufræðistofnun Íslands. Vefur: https://www.ni.is/ Sótt 02.09. 2022.


Christopher Newsholme 1992. Willows. The Genus Salix. B.T. Batsford. London.


Samson Bjarnar Harðarson 2013: Söfnun og varðveisla ræktaðra íslenskra víðiyrkja. Yndisgróður. Landbúnaðarháskóli Íslands, Hvanneyri.


Stefán Bogi Sveinsson. Munnleg heimild 29.09. 2022.





504 views

Recent Posts

See All
bottom of page