top of page

Einkímblöðungatré

Updated: Jul 10, 2023


Sennilega hefur þú, lesandi góður, hvorki heyrt eða séð þetta orð sem hér er notað sem fyrirsögn. Það er ekkert undarlegt enda er orðið varla til í orðabókum eða hvers kyns orðasöfnum. Ástæðan er sú að strangt til tekið verða einkímblöðungar ekki tré.


Þessi mynd er tekin í skoska bænum Dalkeith skammt frá Edinborg. Eru tré á myndinni? Mynd: Sig.A. Einkímblöðungar og tvíkímblöðungar eru hutök sem áður hafa verið útskýrð að hluta á þessum síðum. Var það gert í pistli sem fjallaði um þróun gróðurs. Þessi pistill vakti töluverða umræðu og því hefur verið ákveðið að fjalla aðeins meira um muninn á einkímblöðungum og tvíkímblöðungum. En fyrst smá upprifjun fyrir þá sem nenna ekki að opna pistilinn sem vísað er í hér að ofan. Barrtré (stundum kölluð berfrævingar) komu fram á undan því sem við köllum oftast blómplöntur (dulfrævingar). Af barrtrjám eru komnar þær plöntur sem við köllum tvíkímblöðunga. Fyrstu tvíkímblöðungarnir voru væntanlega tré enda enginn grundvallarmunur á viði sem barrtré og lauftré mynda. Svo hættu sumir tvíkímblöðungarnir að mynda við og urðu að jurtum. Af þeim eru einkímblöðungar komnir. Sumir þeirra hafa vissulega vaxið upp í trjástærð en mynda ekki eiginlegan við eins og önnur tré. Eru þau þá tré eða ekki? Það fer sjálfsagt eftir því hvernig við skilgreinum tré.


Getur bambus talist til trjáa? Mynd: Sig.A.


Tvíkímblöðungar


Tvíkímblöðungar eru þær æðplöntur kallaðar sem á okkar tímum hafa mesta útbreiðslu og langmestu fjölbreytnina. Á Íslandi eru öll tré sem við þekkjum annað hvort tvíkímblöðungar eða barrtré. Að auki eru langflest blóm líka tvíkímblöðungar.

Þetta óskáldlega nafn: Tvíkímblöðungur, er lýsandi fyrir fyrirbærið. Fyrstu laufblöðin köllum við kímblöð. Meðal tvíkímblöðunga eru þau alltaf tvö. Þau geta verið gjörólík þeim laufblöðum sem koma síðar. Dæmi um slíkt er þessi lúpína sem við sjáum hér til hliðar.

(Mynd: Sig.A.)


Tvíkímblöðungar hafa einnig aðra eiginleika sem rétt er að minnast á. Eitt er það að vaxtarbroddurinn, eða brumhnappurinn, er alltaf á efsta eða ysta sprotanum. Þar eru yngstu sprotarnir og þar fer nývöxturinn fram, rétt eins og hjá barrtrjánum. Gallinn við þetta kerfi er að brumhnappurinn er fremur illa varinn fyrir afræningjum sem kunna að leggja hann sér til munns. Þau tré sem tilheyra tvíkímblöðungum eru eins dæmigerð tré og við getum ímyndað okkur. Rót, stofn, greinar og lauf. Að auki þekkjum við öll blómin sem flestir eru líka tvíkímblöðungar. Lauf tvíkímblöðunga hafa oftast einn miðstreng eftir endilöngu blaðinu og út frá þeim myndast æðstrengir til allra átta og mynda mismunandi mynstur og mismunandi blaðgerð. Síðan vaxa blöðin út frá jöðrunum þegar þau stækka. Yngstu blöðin eru þau sem lengst eru frá stofni og megingreinum trjánna.

Hin dæmigerðu blóm tvíkímblöðunga hafa nær alltaf blómhluta (fræfla, frævur o.s.frv.) sem talan fjórir eða fimm ganga upp í. Það er þó ekki alveg algilt.

Rætur tvíkímblöðunga geta verið fjölbreyttar að gerð. Oft eru elstu rætur trjáa álíka þykkar og elstu greinarnar eða jafnvel stofninn. Svo minnka þær smám saman eftir því sem fjær dregur. Nýjar rætur myndast fyrst og fremst á gömlu rótunum en ekki frá stofni plantnanna.


Einkímblöðungar

Einkímblöðungar komu seinna til sögunnar en tvíkímblöðungar. Þeir eru á ýmsan hátt ólíkir forfeðrum sínum. Fyrir það fyrsta er kímblaðið aðeins eitt og er nafnið af því dregið. Það myndar strax eins konar grasstrá. Annað einkenni er að vaxtarbroddurinn eða brumhnappurinn er neðst á laufinu. Þar er það vel varið fyrir afræningjum. Á þennan hátt fundu einkímblöðungar eiginlega upp nýja aðferð til að verða planta. Þetta snilldar bragð hefur gert það að verkum að grasættin, sem einmitt er ætt hinna dæmigerðu einkímblöðunga, hefur lagt undir sig nánast allar gresjur heimsins. Þeir þola að öllu jöfnu betur beit en tvíkímblöðungar.


Einkímblöðungar hafa tilhneigingu til að hafa löng og mjó laufblöð og æðstrengir

blaðanna liggja alltaf eftir því endilöngu en ekki út frá sérstökum miðstreng. Yngsti hluti blaðanna er næst rótinni en elsti hlutinn (og sá sem er minnst girnilegur í augum og munni grasæta) er lengst í burtu frá þessu ferska og nýja. Þess vegna visna grös fyrst í endann. Það skýlir brumhnappnum fyrir grasætum. Þetta vita allir sem slitið hafa upp grasstrá og nagað neðri endann sem er safaríkur og góður. Þetta er einnig er ástæðan fyrir því að síðsumars og á haustin, þegar grastegundir eru fullsprottnar, er erfitt fyrir grasbítanna að ná í næringarríkan nývöxt nema með því að fara ofar í landið (þar sem vöxtur byrjaði síðar og er hægari) eða í rýrara land. Þar er auðveldara að ná í nýgræðinginn. Þetta sjáum við vel á Íslandi. (Mynd: Sig.A.)Flöskupálmi er algeng stofuplanta en fékk að fara út á pall í myndatöku. Laufblöð hans koma upp um ættina. Hann er einkímblöðungur. Neðst má sjá að endi lengstu blaðanna er tekinn að visna. Mynd: Sig.A.Blóm dæmigerðra einkímblöðunga hafa blómhluta sem talan þrír gengur nær alltaf upp í. Það er ekki alveg algilt en mikill meirihluti þeirra er þannig. Þetta má ganga úr skugga úr með því að skoða puntustrá. Myndin hér til hliðar sýnir blómgun í íslensku melgresi (Mynd:Sig.A.)

Rætur einkímblöðunga eru aldrei mjög þykkar, en sumir hafa reyndar tekið upp á því að safna forðanæringu í hnýði sem við köllum gjarnan lauka. Það má meðal annars sjá hjá páskaliljum og matlauk. Annars vaxa ræturnar oftast beint frá stofni plantnanna frekar en frá eldri rótum. Þess vegna þykkna þær mjög lítið.


Eitt hefur einkímblöðungum aldrei tekist. Þeir kunna ekki að framleiða við. Ef það telst vera skilyrði til að geta talist tré er fyrirsögnin á pistlinum beinlínis röng. Einkímblöðungar hafa aldrei náð því að láta stofna sína þykkna á sama hátt og tré gera. Þetta skapar þeim ákveðinn vanda ef þeir ætla að verða stórir.

Samt ætlum við að segja stuttlega frá nokkrum ættbálkum einkímblöðunga og tegundum sem gera tilkall til þess að vera tré. Þeir leysa þennan vanda á mismunandi hátt.


Ættbálkar einkímblöðunga

Áður en haldið verður áfram er sennilega rétt að útskýra aðeins flokkunareininguna ættbálkur. Við höfum áður útskýrt muninn á hugtökunum tegund, ættkvísl og ætt. Um ættir og ættkvíslir. Við höfum einnig fjallað um muninn á tegund og deilitegund. Tegundir og deilitegundir en ekki sagt frá flokkunareiningunni sem kallast ættbálkur.

Ef til vill er auðveldast að útskýra þetta með því að ímynda sér tré. Svokallað ættartré. Við getum þá litið á laufin sem fulltrúa tegunda. Hvert lauf er sér tegund. Lauf sem vaxa á sömu smágreinum tilheyra þá sömu ættkvíslinni og eru náskyldar. Smágreinarnar vaxa út úr stærri greinum. Þær eru þá allar skyldar en hver þeirra er sérstök ættkvísl. Stærri greinin, sem ættkvíslagreinarnar vaxa út úr, kallast þá ættir. Þær greinar vaxa út úr öðrum stærri greinum sem eru þá fulltrúar ættbálkanna. Greinarnar sem við nefnum ættir og eru allar komnar af sömu greininni mynda einn ættbálk.


Myndin hér til hliðar er af teikningu sem Charles Darwin rissaði upp á sínum tíma í minnisbók sína og skrifaði: "I think" við myndina.

Innan einkímblöðunga eru taldir vera 10 ættbálkar. Helmingur þeirra er með tegundir sem eru einhvers konar tré. Innan tvíkímblöðunga eru miklu fleiri ættbálkar og flestir innhalda einhverskonar tré. Hér verður ekki meira fjallað um þá fimm ættbálka einkímblöðunga sem ekki innihalda tré en hina fimm er rétt að skoða aðeins betur.


Laukabálkur, Asparagales

Í þessum ættbálki eru meðal annars jukkur og svokölluð drekatré. Á fræðimálinu heitir bálkurinn eftir aspasættinni. Innan aspasættarinnar má reyndar finna fáeina runna en engin tré. Þarna eru líka hýasintur, írisar, laukar (sem gefur bálknum íslenska heitið) orkideur og fleiri ættir sem ekki mynda tré. En þarna eru einnig ættir sem tekist hefur að vaxa upp í trjástærð. Má þar nefna ættina Aspholadaceae en innan hennar eru jukkur eða Yucca spp. Áður hefur hér verið fjallað um frægasta tré ættkvíslarinnar sem hljómsveitin U2 nefndi eina af sínum plötum eftir. Því er óþarfi að fara nánar út í þá sálma en rétt að geta þess að margir eiga stofublóm af þessari ættkvísl. Innan þessarar ættar eru líka Aloe spp. Frægust er án efa Aloe vera sem margir rækta. Náskyldar henni og af sömu ættkvísl, eru einskonar tré í Afríku, Madagaskar og á Arabíuskaga.

Aloe Dichotoma vex í eyðimörkum í sunnanverðri Afríku. Sama ættkvísl og Aloe vera sem flestir þekkja. Myndin er fengin héðan og þar má lesa meira um þetta tré.


Bæði Yucca og Aloe hafa það fram yfir flesta einkímblöðunga að geta látið stofna sína þykkna þegar þeir eldast eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Sá vöxtur er samt töluvert frábrugðinn stofnum á trjám tvíkímblöðunga.

Önnur fræg tré, ef tré skyldi kalla, eru af ættkvíslinni Dracaena sem kallast drekatré á flestum tungumálum. Sum þeirra geta orðið allt að 20 metrar á hæð sem er miklu meira en Yucca spp. og Aloe spp. geta gert. Sum þeirra, eins og hið eiginlega drekatré, D. Draco, gefa frá sér rauðleitan, gúmmíkenndan vökva sem kallast drekablóð. Drekatré hefur einnig tekist að mynda stofna sem þykkna með aldrinum eins og jukkurnar geta. Þau vaxa á mjög þurrum stöðum. Enskumælandi menn sem rækta þau segja því gjarnan: "Drain your dragon."

Drekatré, Dracaena Cinnabari. Myndin er fengin héðan.


Innan laukbálksins er enn ónefnd ein af furðulegri „trjám“ sem vaxa á jörðinni. Þau mætti kalla grastré, Xanthorrhoea spp þótt þau séu hvorki gras né tré. Grastré vaxa villt í Ástralíu. Mest áberandi eru þau í suðvestur hluta álfunnar, en þar er jurtaríkið ákaflega sérstakt. Grastré hafa stuttan stofn sem getur þó náð allt að 3 m hæð með tíð og tíma. Upp úr honum vex alveg hellingur af eins konar grasi í löngum brúskum. Þegar trén blómstra myndast puntur upp úr grasinu, ekki ósvipað og við þekkjum hjá mörgum grastegundum. Í stofni grastrjánna vottar ekki fyrir neinu sem kalla mætti við. Í stað hans eru trefjar. Það sem fljótt á litið gæti verið börkur er í raun samfastir blaðfætur grasstráanna. Þeir límast saman með gúmmíkenndu efni. Það veitr brumhnöppunum góða og mikilvæga vernd því reglulega geysa skógareldar á svæðinu. Þá fuðrar grasið upp en stofnarnir standa eftir og laufgast á ný. Á hverju ári fellir grastréð einn blaðhring. Þannig stækkar stofninn mjög hægt en örugglega. Myndin fengin héðan.

Grastré líkjast ekki nokkrum öðrum plöntum og verðskuldar fleiri myndir.


Miðmyndin sýnir stofn grastrjáa. Hann er það gamall að innsti hluti hans hefur rotnað í burtu. Myndirnar eru héðan en þær tók Ian Fraser.


Skrúfupálmaætt Pandanaceae


Skrúfupálmar eru af ættbálki sem við ættina er kenndur og kallast Pandanales. Reyndar er það eina ættin í ættbálknum. Þeir bera nafn sitt af því að efsti hluti trjánna lítur út eins og snúið hafi verið upp á hann þannig að halda mætti að laufin myndi eins konar spíral. Hjá sumum tegundum mætti einnig halda að snúið hafi verið upp á stofninn. Þetta er misjafnlega áberandi eftir tegundum. Að öðru leyti er vöxtur bæði róta og stofns líkur hjá þessum ættbálki og þeim næsta nema hvað sumar tegundirnar mynda greinar og eru þá ekki mjög líkir pálmum í vextinum. Hver grein hefur sinn brumhnapp. Myndin hér til hliðar var fengin héðan.


Innan þessarar ættar er ættkvísl sem heitir Pandanus spp. Það er aðal ættkvíslin innan ættarinnar. Innan hennar má finna tegundir sem ná allt að 30 metra hæð. Skrúfpálma má einkum finna allt í kringum Indlandshaf og við hlýjar strendur vestast í Kyrrahafi. Flestir lifa nær alveg við ströndina en til eru tegundir sem lifa innar í landinu og jafnvel upp til fjalla.


Skrúfpálmi. Sjá má á stofninum hvernig hann vex eins og tappatogari. Einnig er eins og snúið sé upp á blöðin. Myndin er fengin héðan. Myndin er tekin í Kakadu-þjóðgarðinum í Norður-Ástralíu.


Pálmatrjáabálkur Arecales

Innan þessa ættbálks er bara ein ætt eins og hjá Skrúfpálmabálki. Hér er það pálmaættin, Arecaceae sem áður var kölluð Palmae. Innan þeirrar ættar eru um 200 ættkvíslir og 2600 tegundir. Flest okkar þekkja pálmatré enda vaxa þau víða og eru eitt af undrum veraldarinnar.


Eitthvað svipað þessu sjáum við mörg fyrir okkur þegar talað er um pálmatré. Myndin er fengin héðan.


Flestar tegundir eru frá Asíu, einkum suð-austurhluta Asíu og svo í báðum Ameríkunum og Ástralíu. Aðeins fáeinir finnast í Afríku. Vekur það dálitla furðu hversu fáar tegundir finnast þar þótt þeir séu einkennandi fyrir ákveðin svæði. Flestar tegundirnar vaxa í hitabeltinu eða heittempraða beltinu. Allir pálmar hafa einn brumhnapp sem er vel varinn. Það er mikilvægt því að ef hann skemmist drepast pálmarnir nær alltaf. Þó eru til vissar tegundir sem geta endurnýjað brumhnappinn. Á pálmatrjám er brumhnappurinn eða vaxtarsprotinn kallaður „pálmahjarta“ á mörgum tungumálum. Hann er oftast efst á stofninum og blöðin vaxa frá honum eins og öðrum einkímblöðungum. Engin önnur ætt plantna er með jafn stóran brumhnapp.

Flestir pálmar líta út eins og við ímyndum okkur þá. Stórir með mjóan stofn, nokkuð beinir og með lauf efst á stofninum. Til eru pálmatré sem hafa þó kosið að fara aðra leið. Sumir þeirra mynda alls engan stofn heldur vaxa blöðin beint upp úr jörðinni. Þótt furðulegt megi virðast eru einnig til fáeinir pálmar sem mynda eins konar stofn sem vex neðanjarðar. Sennilega hjálpar það eitthvað til við að ná í vatn. Svo eru til pálmar af ættkvíslinni Calmus spp. sem teljast vera klifurplöntur. Innan þeirrar ættkvíslar eru 370 mismunandi tegundir.

Uppbygging stofnanna er gjörólík þeirri uppbyggingu sem við erum vön. Þeir þykkna ekki heldur fjölgar bara og svo vaxa trefjar á milli þeirra. Að sjá þverskurð af slíkum stofni er eins og að sjá þverskurð af ljósleiðara. Samt getur „viður“ pálmatrjáa verið mjög sterkur og er nýttur til smíða.

Myndin er fengin héðan. Sjá má í skurðsárinu hvernig trén vaxa.


Á þessu er sú undantekning að svokallaðir flöskupálmar þykkna með aldrinum. Það stafar af því að pálminn safnar forðanæringu í neðsta hluta stofnsins.

Af þessari stóru ættkvísl langar mig að nefna vaxpálma Ceroxylon spp. sem verða hæstir allra pálma. Þeir geta náð allt að 60 metra hæð og vaxa hátt í Andesfjöllum.

Myndin hér til hliðar er fengin héðan og sýnir Ceroxylon quindiuense í Kólombíu.


Í Kína má nefna Trachycarpus fortunei, sem er með ákaflega vel varinn brumhnapp. Hann þolir meira að segja snjó og ís. Enginn pálmi vex við kaldara loftslag en hann.

Rætur pálmatrjáa eru mjög sérstakar. Þær eru sjaldnar meira en einn cm á þykkt en geta verið meira en 13.000 á fersentimetra. Þær geta vaxið mjög langt út frá stofnunum og halda þeim stöðugum jafnvel þótt þeir vaxi í hvítum fjörusandi sem hafaldan reynir að skola í burtu. Má vera að það séu einmitt ræturnar sem eiga stærsatn þátt í hversu vel þeim hefur gengið í lífsbaráttunni.

Vel má vera að við föllum seinna meira um pálma, enda eru þeir stórmerkilegirMyndin er fengin af Flickrsíðu og sýnir Trachycarpus fortunei sem oftast er talin sú tegund pálma sem þolir mestan kulda.+


Svarthvít mynd sem sýnir hversu grannar rætur pálmatrjáa eru. Myndin fengin frá FlickrsíðuGrasbálkur Poales

Innan þessa ættbálks eru fjölmargar stórar ættir. Má þar nefna ananas (sem kom við sögu hér, grasaætt og starir. Alls eru ættirnar 18 í grasbálknum. Mikilvægasta ættin innan bálksins er án efa grasættin Poaceae með um 650 ættkvíslir og hátt í 10.000 tegundir. Allt gras sem við þekkjum tilheyrir þessari ætt, jafnt hér á Íslandi sem á gresjum Afríku. Að auki eru þrjár tegundir innan ættarinnar ábyrgar fyrir um helmingi þeirra kaloría sem dýrategundin sem kallar sig viti borna borðar. Það eru hveiti, hrísgrjón og maís. Þetta er samt útúrdúr í okkar sögu. Það sem skiptir hér máli er að bambus er líka af grasaætt. Margar tegundir af honum vaxa upp í trjáhæð. Til eru tegundir sem ná allt að 40 metra hæð í suðausturhluta Kína. Það er töluvert hærra en flest tré hitabeltisins. Að auki verður að koma fram að risapandan er algerlega háð þessum plöntum um fæðu.


Er þetta gras eða tré? Myndin er fengin héðan.


Bambusskógur. Myndin er héðan.


Margar tegundir eru mjög sérstakar. Sem dæmi má nefna að algengt er að margar tegundir blómstra bara einu sinni og drepast svo. Þá blómstra allir einstaklingarnir á stóru svæði á sama tíma svo þeir geti myndað fræ.

Þar sem mikið er um bambus er hann mikið nýttur. Við þekkjum sennilega öll hvernig hann vex og að hann er holur að innan. Hann er nýttur til smíða, til hljóðfæragerðar og matar svo dæmi séu tekin.


Veitingastaður í Kína sem reistur er úr bambus. Myndin er fengin héðan.


Engiferbálkur Zingiberales

Bálkur þessi er nefndur eftir Zingiberaceae eða engifersætt. Þar eru margs konar nytjaplöntur eins og engifer, kardimommur og túrmerik. Þar eru reyndar engin tré svo við ræðum það ekki frekar. Aftur á móti eru sjö aðrar ættir innan ættbálksins. Þar af eru tvær sem gera tilkall til trjáaheitisins. Ber þar fyrst að nefna bananaættina Musaceae. Tegundir innan þeirrar ættar eru í raun risasavaxnar plöntur frekar en tré enda er stofn þeirra ekki trjákenndur. Stofninn er jurtkenndur en nægilega trefjaríkur til að geta haldið plöntunum uppréttum og stórum. Þess vegna haga tegundirnar sér eins og tré í þeim vistkerfum sem þær er að finna. Frægust þessara plantna er auðvitað bananinn sem tilheyrir ættkvíslinni Musa spp. og inniheldur 30 til 40 tegundir í Asíu. Bananar eru aftur á móti ræktaðir um allan heim þar sem veður hentar þeim. Þar er um að ræða tegundablending tveggja tegunda. M. Acuminata og M. Balbisiana. Blendingur þessi er algerlega ófrjór og því eru engin fræ í aldininu. Sennilega á það þátt í því hversu vinsæll hann er. Evrópa er allt of köld fyrir bananarækt en hann má rækta í gróðurhúsum. Stundum er því haldið fram að stærsta bananaplantekra Evrópu sé í gróðurhúsi Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi.


Musca acuminata er annað foreldri ræktaðra banana. Plantan er stundum kölluð villibanani. Myndin fengin héðan.Innan engiferbálksins er einnig ætt sem kallast trönublómaætt eða Strelitziaceae. Hún inniheldur þrár ættkvíslir sem allar geta myndað mjög stórar plöntur. Sennilega eru tegundir af ættkvíslinni Ravenale spp. þeirra þekktust. Sérstaklega Ravenala madagascariensis sem í Orðabanka Árnastofnunar er kallað ferðamannatré. Það er eftirlæti margra grasafræðinga enda útlitið mjög spes. Laufblöðin vaxa efst á allt að 30 m löngum og beinum stofni og minna á laufblöð bananaplantna nema hvað þau mynda einhvers konar eftirlíkingu af blævæng. Þarna uppi myndast einnig blóm sem treysta algerlega á lemúra sem frjóbera. Þeir sem hafa séð teiknimyndina Madagaskar kannast örugglega við þessa plöntu þótt þeir hjá DreamWorks Pictures hafi hugsanlega aðeins fært í stílinn. Að auki má sjá þetta tré víða í myndinni.


Ferðamannatré, Ravenala madagascariensis. Myndin er fengin héðan. Ef þið trúið ekki útlitinu getið þið leitað sjálf á alnetinu. Eins og sjá má eru neðstu laufin dauð en þau vernda vaxtarbroddinn og bæta smám saman við stofninn.


Eftirmáli

Þessi grein er fyrst og fremst byggð á 7. Kafla bókarinnar The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Bókinn er eftir Colin Tudge og er útgefin árið 2005. Kaflinn heitir From Palms and Screw Pines to Yuccas and Bamboos: The Monocot Trees.

Íslensku heitin eru fengin úr orðabanka Árnastofnunar: ordabanki.hi.is en myndirnar eru flestar fengnar að láni á netinu. Við hverja þeirra eru upplýsingar um hvaðan þær eru fengnar. Myndir sem merktar eru Sig.A. eru teknar af höfundi texta.


Þekkið þið einhver tré á myndinni?

297 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page