Í marsmánuði fjölluðum við aðeins um ættfræði trjáa í þættinum #TrévikunnarSE. Við tökum nú upp þráðinn að nýju og reynum að útskýra muninn á tegund (species) og deilitegund (subspecies) sem stundum er kallað undirtegund. Munurinn á þessu er ekki alltaf ljós og það sem sumir telja skýrt afmarkaða tegund telja aðrir til deili- eða undirtegunda. Að auki er gott að hafa í huga að ekkert í veröldinni er svo einfalt að ekki megi flækja það með útskýringum. Almennt má segja að hver tegund innihaldi plöntur sem í meginatriðum eru eins og gera sömu eða svipaðar kröfur til umhverfisþátta. Hópar innan hverrar tegundar geta svo þróast sitt í hverja áttina og má þá kalla deili- eða undirtegundir. Sjálfur Darwin skoðaði þetta mikið og fjallaði töluvert um þetta í bók sinni Um uppruna tegundanna. Hann komst að þeirri niðurstöðu að í sjálfum sér skipti þetta ekki máli! (þar með getur þú hætt að lesa núna). Afbrigði (Varietas) og deilitegundir væru bara plöntuhópar sem væru að þróast yfir í sér tegundir. Hvar við drögum svo mörkin á milli tegunda er mannanna verk en ekki náttúrunnar.
Hvað er tegund?
Hin víðtekna skilgreining líffræðinga á tegund er að það sé hópur lífvera sem getur eignast saman frjó afkvæmi. Þannig eru t.d. hestar og asnar ekki sama tegund því þótt þeir geti eignast saman afkvæmi (múldýr eða múlasna) eru þau ófrjó og geta því ekki eignast afkvæmi. Þetta á ekki alveg eins vel við í plönturíkinu. Þar verða stundum til frjóir blendingar (Hybridal) milli tegunda. Slíkt getur leitt til genaflæðis milli tegunda og er vel þekkt á milli fjalldrapa og birkis á Íslandi. Svona genaflæði er einnig þekkt í dýraríkinu en er þar sennilega ekki eins algengt og hjá plöntum. Darwin greinir frá því í höfuðriti sínu að hann hafi varið löngum tíma í að rannsaka tvo plöntuhópa, sem við getum kallað A og B (sá sem hér lemur á lyklaborðið er búinn að gleyma nöfnunum). Hann gat frjóvgað A með B og fengið frjó afkvæmi en ekki B með A. Eru A og B þá sama tegund eða ekki? Darwin svaraði því sjálfur og sagði að það væri algert aukaatriði. Annað hvort eru það tvær tegundir eða ein tegund að þróast í tvær.
Hvar eru mörk tegunda?
Í belti yfir nær alla Evr-Asíu norðanverða vex ljómandi fallegur víðir með bládöggvaða ársprota. Á öllu útbreiðslusvæðinu virðast ekki vera nein vandamál við fræmyndun. Vestast (allt til Noregs) heitir tegundin fagurvíðir (Salix daphnoides) en austast (á Kamtsjatkaskaga) heitir hún döggvíðir (Salix rorida). Þetta eru vissulega líkar tegundir og er helst að þekkja þær á axlarblöðunum. En hvar liggja mörkin milli þeirra? Það er algerlega óljóst þótt vel megi greina í sundur plöntur frá vestasta og austasta hluta útbreiðslusvæðisins.
Myndin hér að neðan sýnir hávaxinn fagurvíði á Skeiðum á Suðurlandi.
Dæmi úr dýraríkinu
Áður en lengra er haldið er rétt að taka dæmi af einhverju sem margir þekkja og við getum yfirfært á plönturíkið.
Við tilheyrum þeirri tegund manna (Homo) sem kallar sig vitiborna (sapiens). Því er það svo að tegundin maður kallast Homo sapiens á latínu. Nú er það svo að aðrar tegundir manna eru ekki til. Svo hefur ekki alltaf verið. Einu sinni gengu um Evrópu manneskjur sem kallaðar hafa verið neanderdalsmenn eftir dal einum í Þýskalandi. Ef þessi hópur manna hefur verið sérstök tegund getum við kallað þá Homo neanderthalensis. Ljóst er að þessir tveir hópar hafa eignast saman afkvæmi. Ef þau hafa að jafnaði verið frjó má segja að þetta sé ein og sama tegundin. Til að greina á milli þessara hópa má þá skilgreina þá sem undirtegundir sömu tegundar. Þá erum við Homo sapiens sapiens en frændur okkar Homo sapiens neanderthalensis. Sambærileg dæmi eru fjölmörg í plönturíkinu. Það liggur t.d. alls ekki alltaf fyrir hvort hópur líkra plantna í Ölpunum og norður í Síberíu tilheyra sömu tegund eða ekki. Það er þó ljóst að þær eiga sameiginlega forfeður og voru einu sinni sama tegundin. Aðgreiningin varð fyrst landfræðileg og því hafa þær ekki endilega þróast eins. Því er það svo að oft ber heimildum hreint ekki saman um hversu margar tegundir eru til innan tiltekinna ættkvísla.
Bergfura, fjallafura og dvergfura
Í Alpafjöllum má finna mörg tré. Þar má meðal annars finna fururnar bergfura, fjallafura og dvergfura. Þessar furur vaxa misjafnlega hátt til fjalla. Neðst í fjöllunum vex bergfuran og myndar hún oftast einstofna tré. Ofar eru hinar tvær og mynda þær að jafnaði runna. Við trjámörkin er dvergfuran og er minnst þeirra þriggja. (Myndin hér að ofan er frá trjámörkum í Austurríki. Runnarnir á myndinni eru fjalla- eða dvergfurur en trén eru evrópulerki). Mörkin milli þessara furuhópa eru stundum óljós. Eins og svo víða virðist bæði erfðir og umhverfi ráða miklu um vöxtinn. Sumir líta á þetta allt saman sem afbrigði af sömu tegund en aðrir telja þetta tvær eða þrjár tegundir. Ef þetta eru þrjár mismunandi tegundir má skrá þetta svona á fræðimálinu: Bergfura (Pinus unicinata), fjallafura (Pinus mugo) og dvergfura (Pinus pumila). Ef þetta er allt sama tegundin þarf að ákveða hvort þetta eru afbrigði (Varietas, oftast stytt sem var.) eða deilitegundir (Subspexies, oftast stytt sem ssp.) Algengt er að flokka bergfuruna sem sérstaka deilitegund en dvergfuruna sem afbrigði af fjallafuru (semsagt enn minni munur en á milli hinna). Þá má skrá þetta svona: Bergfura (Pinus mugo ssp. unicinata), fjallafura (Pinus mugo ssp. mugo) og dvergfura(Pinus mugo var pumila).
Hér er komið efni í mikið og alvarlegt rifrildi milli fræðimanna um langa framtíð sem ekki er líklegt til að skipta almenning nokkru máli. En það er alveg ljóst að furunum er alveg sama hvað þær eru kallaðar og hvort þær tilheyra einni, tveimur eða þremur tegundum. Myndin hér að neðan sýnir fjallafuru í Skriðdal.
Myndir og texti: Sigurður Arnarson.
Comments