top of page

Bergflétta

Updated: Aug 8, 2023

Í umfjöllun okkar um tré vikunnar höfum við seilst víða. Alltaf má þó róa á ný mið. Nú skoðum við plöntu sem með góðum vilja má kalla runna en hann hefur ekki fyrir því að mynda stofna, heldur lætur öðrum það eftir. Tré vikunnar hjá Skógræktarfélaginu er þekjandi klifurplanta sem víða sést í skógum Evrópu og kallast bergflétta eða Hedera helix.Lýsing

Flestir runnar geta staðið undir sér sjálfir. Það getur bergfléttan ekki. Hún treystir á aðra. Samt telst hún vera sígrænn runni. Þar sem hún vex villt skríður hún um skógarbotna og yfir það sem á vegi hennar verður, svo sem grjóthleðslur og trjástofna. Þessa náttúrulegu vaxtarstaði getum við nýtt okkur í garð- og skógrækt og látið plöntuna þekja jörðina á skuggsælum stöðum og vaxa upp eftir trjástofnum og veggjum. Bergflétta er sérstaklega skuggþolin tegund en þolir þó vel að vaxa í sólskini. Stofninn er grannur og marggreindur.

Talið er að bergfléttur geti orðið mörg hundruð ára gamlar í skógum. Þær geta endurnýjað sig töluvert því greinarnar geta skotið rótum þar sem þær skríða um. Þannig getur plantan verið miklu eldri en elstu, lifandi greinar á hverjum einstaklingi.


Bergflétta vex upp eftir hlyntré í Kaupmannahöfn. Mynd: Sig.A.


Blöð

Hin sígrænu blöð geta verið mismunandi á hverri plöntu fyrir sig. Getur það meðal annars farið eftir því hvernig þau njóta sólar og hvenær sumarsins þau vaxa. Blöðin eru oft með áberandi æðamynstri sem stundum er ljósara en sjálf blöðin. Í öðrum tilfellum eru jaðrarnir ljósari. Almennt má þó segja að þau séu dökkgræn og leðurkennd. Vanalega eru þau 3-5-sepótt á aðalstofni en á þeim sprotum sem bera blóm eru þau heilrend, egglaga eða tígullaga (Ásgeir Svanbergsson 1989). Hvert laufblað verður um tveggja til þriggja ára gamalt og endurnýja sig þá. Gömlu blöðin falla af á vorin, rétt eftir að nývöxtur hefst (Hafsteinn Hafliðason 2017). Þannig tekst þeim að endurnýja sig ef þær verða fyrir einhverju áfalli.


Bergflétta er skógarbotnsplanta. Í skógum má vænta þess að jarðvegur sé djúpur og frjósamur. Rætur bergfléttu vilja gjarnan gott pláss og því eru þær helst ræktaðar í djúpum pottum í gróðrarstöðvum eins og þessi. Mynd: Sig.A.


Vöxtur

Ólíkt flestum öðrum klifurplöntum sem vaxa á Íslandi þarf ekki að hjálpa þessari að vefja sig upp eftir einhverjum stoðum þegar hún hefur á annað borð komið sér fyrir. Plantan er með svokallaðar heftirætur á skuggahlið greinanna sem hafa það hlutverk að festa plöntuna við hrjúft yfirborð eins og múrvegg eða trjábol. Þær þrengja sér inn í hverja glufu og skoru sem á vegi þeirra verður. Í upphafi getur þó verið heppilegt að hjálpa henni að koma sér fyrir en svo sér hún um sig sjálf. Losni grein, t.d. af vegg, myndar hún ekki aftur heftirætur og þá er gott að klippa þær greinar af. Ungar rætur vaxa gjarnan yfir eldri rætur. Þannig getur greinaþykknið orðið býsna umfangsmikið með tímanum. Slíkar flækjur geta virkað sem ágætis einangrun á gömlum steinhúsum.


Bergfléttur geta klætt steinveggi í útlöndum og gert þá hlýlegri. Miðmyndin frá Færeyjum, hinar frá Skotlandi. Myndir: Sig.A.Bergfléttur geta einnig klætt veggi á Íslandi og gert þá hlýlegri. Frá vinstri; Akureyri, Mosfellsbær og Reykjavík. Myndir: Sig.A.


Heftiræturnar eru ekki eiginlegar rætur sem draga upp vatn og næringarefni. Aftur á móti geta þær ummyndast í slíkar rætur ef aðstæður eru heppilegar. Ef heftiræturnar lenda á stað þar sem gott er að taka upp vatn og næringarefni, þá gera þær það. Þennan eiginleika notfærum við okkur ef við viljum fjölga plöntunni. Mjög auðvelt er að ræta græðlinga af bergfléttu og skyldum tegundum sem haga sér svipað.


Sérhæfðar heftirætur festa bergfléttu við heppilegt undirlag. Myndir: Sig.A.


Vaxtarstaðir

Upprunalega er bergfléttan skógarplanta. Því fer vel á því að búa henni slík skilyrði.


Við bæinn Dalkeith í Skotlandi má sjá bergfléttu þekja skógarbotn. Hún vex einnig upp eftir trjánum og yfir girðingarstaura. Myndin tekin í marsmánuði. Mynd: Sig.A.


Um vestanverða Evrópu vex tegundin mjög víða í skógum. Skyldar tegundir vaxa einnig um norðanverða Afríku, í Asíu og finnast nú í Ameríku. Þangað hafa þær verið fluttar inn frá Evrópu. Samkvæmt Frans-Emil Wielgolaski og Egil Kiær (1978) vex bergflétta í víða villt í Evrópu og í Noregi frá Oslóarfirði og nálægt ströndum allt norður til Bergen. Á þeim slóðum vex hún frekar hægt. Í Skotlandi og Írlandi, þar sem mikið er af henni, hafa menn ekki áhyggjur af því að hún vaxi of hægt. Í sömu bók segir að hún verði um 8-10 metrar á hæð. Þar í landi eru nafngreind yrki til sem vaxa hraðar en verða þá ekki endilega eins þéttvaxin. Samkvæmt sömu heimild er bergflétta ræktuð í görðum allt norður til Þrándheims (Frans-Emil Wielgolaski og Egil Kiær 1978). Ekkert ætti því að vera því til fyrirstöðu að rækta þær hér.


Þessi planta lætur sér vel líka þótt hún hafi ekki mikinn jarðveg til að vaxa í. Hún er í Edinborg. Mynd: Sig. A.


Í Vestur-Evrópu hefur bergflétta vaxið frá því löngu fyrir síðustu ísöld. Þar sem bergfléttur vaxa villtar á veggjum eða trjástofnum skapa þau mjög heppilega vist fyrir ýmis smádýr. Þær hjálpa því mikið til við að auka líffjölbreytni. Alls konar skordýr og áttfætlur eins og köngulær halda til í skjóli blaðanna. Það skapar síðan heppilega fæðu fyrir ýmsa spörfugla. Snjáldurmýs og leðurblökur kunna einnig að nýta sér þessa vistgerð. Ólíklegt verður þó að telja að þau dýr nýti sér bergfléttur sem dvalarstaði á Íslandi.(Hafsteinn Hafliðason 2017).


Íslenskir smáfuglar kunna vel að meta skjólið sem bergfléttur veita. Myndin tekin á Húsavík. Hana tók Vignir Sigurólason.


Balmoral kastali í Skotlandi er sumardvalarstaður Bretadrottningar. Til að prýða þennan snotra sumarbústað er notuð bergflétta. Einnig má finna þar fleiri klifurplöntur. Í skógunum í kring má finna alls konar plöntur og tré, enda hefur Karl sonur hennar mikinn áhuga á skógrækt og hvers kyns ræktun. Mynd: Sig.A.


Önnur mynd frá sama kastala. Mynd: Sig.A. Þess má geta (án þess að það komi bergfléttum við) að einu sinni var Elísabet Englandsdrottning á göngu með lífverði sínum. Rakst hún þá á tvo bandaríska ferðamenn sem vissu að Kastalinn væri sumardvalarstaður Bretadrottningar. Túristarnir, tvær ungar stúlkur, spurðu þetta virðulega fólk hvort þau hefðu ef til vill séð drottninguna þarna. „Nei“, svaraði Elísabet. „Ég hef ekki hitt hana, en hann hefur gert það“ sagði hún og benti á lífvörð sinn. Þetta þóttu þeim bandarísku merkileg tíðindi og báðu þessa góðlegu konu um að taka mynd af sér með þessum manni sem var svo frægur að hafa hitt drottninguna. Það fylgdi sögunni að lífvörðurinn hafi þá tekið myndavélina og tekið mynd af þessum þremur konum. Túristarnir fóru glaðar sinn veg. Þá mun drottningin hafa sagt við lífvörðinn: „Mikið væri gaman að vera fluga á vegg þegar þær sýna foreldrum sínum þessa mynd.“


Ef ætlunin er að rækta bergfléttu til að þekja veggi er ráðlegt að planta henni dálítið frá veggnum. Þar má vænta að jarðvegurinn sé betri en alveg við vegginn. Svo vex plantan við jörðu þar til hún nær vegnum og fer þá að feta sig upp á við.


Haustmynd úr Grasagarðinum í Laugardal. Þar vex bergflétta sem þekjuplanta og fær að fara upp í trén. Mynd: Sig.A.


Blómgun og aldin

Þeim sem þetta ritar er ókunnugt um að bergflétta hafi borið blóm eða aldin á Íslandi. Það merkir samt ekki að það hafi ekki gerst. (Viðbætur: Bæði Sigurður Þórðarson og Ólafur Sturla Njálsson hafa staðfest að tegundin getur blómstrað á Íslandi en hvorugur þeirra hefur séð aldin á Íslandi). Greinarnar sem bera blómvísa bera öðru vísi blöð en aðrar greinar. Þær eru tungulaga og líkjast beykiblöðum (sjá síðar). Blómin eru gulgræn að lit og mörg saman í gisnum sveipum. Í blómsveipunum þroskast svört ber. Fuglar geta síðan dreift þeim með driti sínu, ef allt gengur upp. Plantan getur einnig fjölgað sér kynlaust. Greinarnar skjóta víða rótum þannig að gamlar plöntur geta orðið mjög umfangsmiklar með tíð og tíma.


Myndir teknar í mars í skoskum skógum. Bergfléttan lífgar upp á umhverfið.

Myndir: Sig.A.


Reynsla á Íslandi

Hér á landi hefur bergflétta stundum reynst nokkuð viðkvæm en hefur þó verið í ræktun frá því fyrir 1950. Hin síðari ár hefur alltaf orðið auðveldara og auðveldara að rækta hana hér og sést hún nú í auknum mæli í görðum. Lítið er þó enn um gamlar og flottar bergfléttur á Akureyri. Við hjá Skógræktarfélaginu höfum sett nokkrar plöntur við nýja stíginn í gegnum Vaðlareit og verður fróðlegt að fylgjast með þeim í framtíðinni. Það sem helst truflar bergfléttur virðist vera kuldi og þurrkur á vetrum. Því þrífst hún enn betur sunnanlands en norðan heiða. Þegar lauf þorna verða þau brún en að jafnaði nær plantan sér aftur. Sé plantan í góðu skjóli minnka líkurnar á því að hún verði fyrir skaða á vetrum.


Bergflétta vex upp gamlan grenitrjástofn í garði á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Gott er að hafa í huga að bergflétta er skógarplanta. Í skógum er jarðvegur oftast nær frjór og þornar lítið. Því er best að bjóða henni upp á frjóan og ekki of þurran jarðveg.


Bergflétta á vegg í fjölbýli í Vesturbænum í Reykjavík. Einn íbúi hússins gróðursetti þrjár plöntur fyrir rúmlega 20 árum. Um er að ræða tvö yrki þótt það sjáist ekki á myndinni. Mynd og upplýsingar: Halldóra Hafdís Arnardóttir.


Sóleyjargötubergfléttan á Húsavík. Mynd: Vignir Sigurólason.


Fræðiheitið

Latínuheiti bergfléttunnar er Hedera helix. Ættkvíslarheitið Hedera er af óþekktum uppruna en viðurnefnið helix merkir umvefjandi og er mjög viðeigandi fyrir tegundina. Heimildum ber hreint ekki saman um fjölda tegunda innan ættkvíslarinnar. Grasafræðingarnir hjá Kew Gardens telja þær vera 92 (World Flora Online) og við sættum okkur við þá tölu. Svo er að sjá sem af þeim séu einar sjö sem stundum eru ræktaðar í görðum í Evrópu. Sjálf bergfléttan, H. helix ber samt höfuð og herðar yfir aðrar bergfléttur í ræktun. Langflest yrkin eru af henni. Hinar sex eru H. azorica frá Azoreyjum, H. canariensis sem er frá samnefnum eyjum og Norður-Afríku, H. colchica frá Mið-Austurlöndum, sem er kenndur við Híberíuskaga en vex nærri Atlantshafinu norður með Evrópu, H. nepalensis frá háfjöllum í Himalajafallgarðinum og H. rhombea frá Japan. Norskri bók sem áður var vísað í segir að þar í landi sé H. colchica eina tegundin utan hinnar hefðbundnu H. helix sem ræktuð er þar í landi. Slík planta er í Grasagarðinum í Laugardal og er mjög falleg. Mynd af henni er hér neðar í næsta kafla. Þessi ágæta norska bók er reyndar komin nokkuð til ára sinna og nýrri heimildir segja að H. hibernica vaxi villt allt norður til Norðurlanda. Má vera að áður hafi menn ekki gert mikinn greinarmun á þessum tegundum. Í sumum listum var áður talað um Hedera helix var. hibernica sem nú er flokkuð sem H. hibernica. Þetta er skoðað betur í næsta kafla.


Vesturgata 43 á Akranesi. Mynd af ja.is.

Ásdísi Arnardóttur er hér með þökkuð ábendingin.


Ein eða tvær tegundir?

Nýjustu tískustraumar í greiningu plantna nýta sér erfðaefni til að skera úr um mun á tegundum. Þá hefur komið í ljós að það sem við í daglegu tali köllum bergfléttur eru í raun tvær náskyldar tegundir. Hefðbundin skilgreining líffræðinnar á tegundum er sú að lífverur sem geta eignast saman frjó afkvæmi séu ein og sama tegundin. Á þessu eru að vísu allmargar undantekningar, sérstaklega í grasafræðinni. Verður ekki farið nánar í þá sálma hér. Aftur á móti hefur komið í ljós að sumar bergfléttur í Evrópu eru það sem kallað er tvílitna (diploids, 2n=48)) en aðrar fjórlitna (tetraploids, 2n=96). Þar sem vaxtarsvæði þeirra skarast hafa þrílitna plöntur (triploids, 2n=72) aldrei fundist. Það bendir sterklega til þess Þessir hópar geta engan vegin æxlast saman og eru því núna skilgreindir sem tvær tegundir. H. hibernica vex vestar í Evrópu og oftar nær sjó. Kallast hún írabergflétta. Svo tekur H. helix, sem við köllum bergfléttu, smám saman við og er einráð þar sem minni úrkomu er að finna fjær ströndum (McAllister & Rutherford 1990). Þess skal samt geta að greinin sem hér er vísað í er meira en 30 ára gömul og vel má vera að einhver hafi í millitíðinni fundir þrílitna bergfléttu.


Ung bergflétta vex á ungum greinum. Í fjarska má sjá hina frægu brú Forth Bridge á milli South og North Queensferry í Skotlandi. Mynd: Sig.A.

Líklegt má telja að bergfléttan, Hedera helix (tvílitna) sé sú upprunalega, ef svo má segja. Einhverra hluta vegna hefur orðið stökkbreyting sem tvöfaldaði litningafjöldann í erfðamenginu. Afleiðingin varð sú að fram kom gróskumeiri planta. Hún er núna kölluð H. hibernica eða írabergflétta. Áður en menn áttuðu sig á þessum litningafjölda voru menn af ýmsum kynjum búnir að sjá að sumar bergfléttur voru grófari og kröftugri en aðrar. Þá þótti rétt að telja þær plöntur sem sérstakt afbrigði af bergfléttu. Var það kallað H. helix var. hibernica. Erfðafræðin hefur nú gert það nafn úrelt. Ef menn vilja endilega greina þessar tegundir í sundur, en hafa ekki aðgang að tæknibúnaði til að telja litningafjölda í frumukjörnum, má sjá að hæring tegundanna er ekki eins og lykt þeirra ekki heldur (McAllister & Rutherford 1990). Þetta með hæringuna er atriði sem Ólafur Sturla Njálsson hefur tamið sér að skoða. Hann telur að allar þær grófblaða bergfléttur sem hann hefur skoðað á Íslandi séu að öllum líkindum H. hibernica en þær fínlegu séu H. helix. Má vel vera að það sé rétt. Í þessari grein, sem hér er vísað til, eru fleiri atriði nefnd og áhugasamir geta skoðað það sjálfir með því að opna tengilinn.

Svo má velta því fyrir sér hvort þetta skipti okkur nokkru máli.


Hér reynir bergflétta að vaxa upp eftir greinum grenitrés. Þetta er ef til vill ekki heppilegasti staðurinn til að vaxa, en vel má reyna. Mynd: Sig.A.


Yrki

Í hinum stóra heimi eru fjölmörg nafngreind yrki í ræktun. Mörg með óvenjulega blaðliti eða sérstaklega áberandi æðamynstur. Til eru bæði ljósir litir og ryðbrúnir í ræktun. Einnig tvílit blöð og sjálfsagt sitthvað fleira. Að auki eru yrkin misjafnlega grófgerð og vaxa mishratt. Ef tekst að ræta blómstrandi greinar, sem bera öðruvísi lauf, halda greinarnar áfram að hafa það laufform. Það hefur verið nýtt til að búa til yrki með óvenjulega blaðlögun. Reyndar er það svo að slíkar greinar mynda ekki endilega heftirætur. Því gerist það iðulega að slík yrki eru ekki ræktuð sem klifurplöntur heldur sem uppréttir runnar í útlöndum.

Sem dæmi um hversu mörg yrki eru í ræktun má nefna að í bókinni Shrubs & Climers er fjallað um og sýndar myndir af 30 yrkjum af bergfléttum. Þær myndir sýna mikla fjölbreytni í lögun og lit blaða. Reyndar eru það ekki allt saman talin hrein yrki af H. helix, heldur eru þar með nokkrar skyldar tegundir og blendingar. Aftur á móti er til lítið hefti sem ber nafnið Everything you need to know about the Ive plant and its fifty types. Heftið er án ártals og höfunda er ekki getið. Ég læt lesandanum eftir að finna út úr því hversu mörg yrki eru þarna til umfjöllunar en af þeim eru 31 yrki af venjulegri bergfléttu.


Sóleyjargötubergfléttan í ræktun í gróðrarstöð á Akureyri. Mynd: Sig.A.


Sum yrki hafa verið reynd á Íslandi en ekki er mikil reynsla af þeim enn þá. Það á sérstaklega við um þau yrki sem eru óvenjuleg á einhvern hátt. Sjá má nokkur yrki af bergfléttum í Lystigarðinum á Akureyri. Þau vaxa í nokkrum skugga á vegg á kaffihúsinu í garðinum sem nú ber heitið Lyst. Allt eru það yrki með venjulegan grænan lauflit en þau eru misjafnlega kröftug og með misstór laufblöð. Í Sólskógum eru tvö yrki í ræktun. Bæði græn, annað mun fínlegra en hitt. Hið fínlegra er viðkvæmara. Ganga þau vanalega undir nafninu ´Gróf´ og ´Fín´. Grófa yrkið er í garði þess sem þetta ritar. Er það enn ungt og á eftir að koma í ljós hvernig það spjarar sig, en hingað til hefur það vaxið vel og þolað tvo vetur í garðinum. Þessi tvö yrki hafa lengi verið í ræktun og að öllum líkindum er sú sem kallast ´Gróf´ Sóleyjargötu-bergfléttan en hin fína væntanlega ´Baltica´ (sjá neðar).

Í Sólskógum eru nú í uppeldi náskyldar plöntur sem gaman verður að fylgjast með í náinni framtíð og hafa skrautlegri blaðlit. Sú tegund er til í Grasagarðinum í Reykjavík og stendur sig betur en ætla mætti miðað við erlendar fræðibækur.


Hedera colchica 'Sulphur Heart' í Grasagarðinum í Laugardal. Sama ættkvísl en önnur tegund en hin hefðbundna bergflétta. Yrkið er einnig í forræktun í Sólskógum í Kjarnaskógi á Akureyri en engin reynsla er komin af henni norðan heiða. Annað yrki sem reynt hefur verið á Íslandi heitir 'Variegata' og er með hvítsprengd blöð. Bæði yrkin kom Prófessor Hugh McAllister með til landsins haustið 2007 (Ólafur Sturla Njálsson, munnleg heimild). Mynd: Sig.A.


Sá klónn sem mest hefur verið ræktaður á Íslandi var fyrst settur í garð fyrir árið 1950 við Hringbraut 10 í höfuðborg lýðveldisins. Mun Kári heitinn Sigurbjörnsson, garðyrkjumaður, hafa plantað henni. Hann sá um garðinn um miðja síðustu öld. Löngum hefur skipulag Hringbrautar verið nokkuð undrunarefni. Það hófst ekki með þeim mislægu gatnamótum sem þar eru nú og aldrei er hægt að rata í gegnum nema fyrir slembilukku. Þannig taldi almenningur um miðja síðustu öld að húsið við Hringbraut 10 stæði við Sóleyjargötu. Svo gerðist það, sennilega upp úr miðri síðustu öld, að götunúmerum var breytt. Húsið sem stóð við Hringbraut 10 hefur síðan staðið við Sóleyjargötu 37. Þess vegna gengur bergfléttan, sem plantað var við Hringbraut, undir nafninu „Sóleyjargötubergfléttan“. Henni var mikið fjölgað um tíma og má eflaust finna víðsvegar um landið, mest þó á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Vel má vera að þetta sé enn sú bergflétta sem mest er ræktuð. Talið er að þessi fræga bergflétta hafi komið til landsins frá Edinborg í Skotlandi. Víst er að þar er mikið um bergfléttu.


Sóleyjargata 37 sem áður var Hringbraut 10. Þar var frægustu bergfléttu landsins plantað fyrir 1950. Mynd: Ágúst H. Bjarnason.


Hinn vel kunni trjáræktandi, Ólafur Sturla Njálsson, hefur skoðað þessa bergfléttu sérstaklega. Hans niðurstaða er sú að þetta sé ekki hin dæmigerða bergflétta Hedera Helix, heldur frænka hannar H. hibernica sem á íslensku kallast írabergflétta. Hárgerðin skilur á milli þessara tegunda. Reyndar hefur Ágúst H. Bjarnason bent á að sennilega sé réttara að tala um þrimla (trichomes) í þessum efnum, en óþarfi að fara of djúpt í fræðin í þessari grein.


Ólafur Sturla segir að prófessor Hugh McAllister hafi staðfest sína greiningu. Má vel vera að þetta sé allt saman rétt. Sérstaklega í ljósi þessarar heimildar. Bergflétturæktun og -rannsóknir á Íslandi eru bara ekki komin lengra en þetta. Vísbendingar eru um að áður fyrr hafi menn ekki gert mikinn greinarmun á þessum tegundum eins og frá er sagt hér ofar. Að vísu er sá galli á þessari Njarðargjöf að samkvæmt McAllister & Rutherford (1990 sjá kort) finnst H. hibernica ekki í Edinborg. Sóleyjargötubergfléttan er talin hafa borist hingað frá þeirri ágætu borg þegar garðyrkjumaðurinn Kári Sigurbjörnsson hafði umsjón með garðinum. Þáverandi eigandi hússins hafði viðskiptatengsl við borgina og fékk þaðan ýmsar tegundir sem reyndar voru í garðinum. Á þessu má eflaust finna einhverjar skýringar, eins og þá að hún hafi komið úr garðrækt, eða eitthvað allt annað. Um 1970 barst annað yrki til landsins. Það var Óli Valur Hansson sem kom með þann klón. Hann er fíngerðari og þéttvaxnari og kom frá Eystrasaltslöndunum. Þeim klóni fylgir yrkisheitið ´Baltica´. Hana má víða finna. Áðurnefndur Ólafur Sturla segir að það sé klárlega H. helix.


Þrimill (trichomes) á laufblaði. Strangt til tekið er þetta ekki hár.

Mynd: Ágúst H. Bjarnason.

Ólafur Sturla er nú með sex mismunandi yrki í ræktun. Eitt þeirra er komið frá vel kunnum skógræktarmanni. Sá heitir Einar Gunnarsson. Haustið 2003 fóru félagar úr Skógræktarfélagi Íslands til Írlands að skoða skóga. Téður Einar var með í för. Í ferðinni fékk hann áhuga á bergfléttum, einkum eftir að þarlendum umsjónarmönnum skóga varð tíðrætt um þær. Þegar heim var komið lét Einar það verða eitt af sínum fyrstu verkum að kaupa einar sex bergfléttur í blómabúð í Bankastræti. Engar upplýsingar voru þar að hafa um nöfn yrkja eða uppruna. Plantaði hann þeim öllum í garð sinn. Ein reyndist mjög kröftug og það er eitt af yrkjunum sem Ólafur Sturla er með í ræktun í Nátthaga. Yrkið nefnir hann ´Erin´. Það er samsett úr stöfum úr nafni Einars og minnir dálítið á Írland, þar sem áhugi Einars á bergfléttum kviknaði.


Bergfléttan ´Erin´ í garði Einars Gunnarssonar við Grenimel 32 fær að vaxa upp eftir stofni sitkagrenis sem er um 17 metrar á hæð. Á þessum tæpu tveimur áratugum sem liðnir eru frá því að Bergfléttan var gróðursett þarna er hún orðin mjög voldug eins og vænta mátti miðað við umsagnir Íranna.

Myndir og upplýsingar: Einar Gunnarsson.

Samson Bjarnar Harðarson hefur skoðað mismunandi bergfléttur og mun frá honum komið yrki frá Balkanskaga sem til er á nokkrum stöðum. Er það fingerðara en algengustu yrki á markaði.

Bergflétta frá Krímskaga í Úkraínu í uppeldi í Kristnesi í Eyjafirði (þarna má sjá ofnotkun á ákveðni forsetningu). Þetta er eitt af þeim yrkjum sem Samson Bjarnar hefur flutt inn. Þetta kom hann með úr grasagarðinum í Moskvu og hefur það reyns mjög vel. Mynd: Sig.A.

Löng reynsla er af ræktun viðkvæmari yrkja af bergfléttum innan dyra. Geta þær verið til mikillar prýði sem stofublóm en það er utan við efni þessa pistils.


Notkun

Bergflétta hefur öldum saman verið nýtt til skreytinga. Sagnir eru til um að fyrir 3000 árum hafi plantan verið nýtt til að lífga upp á hátíðarhöld í Egyptalandi. Seinna tóku Rómverjar upp svipaða siði. Einkum á vetrum þegar blöðin eru glansandi græn og fín, en flest lauftré nakin. Norðar í Evrópu áttuðu menn sig á því að með því að rækta bergfléttu við húsveggi virkaði hún sem einangrun.


Jólaskreytingar. Sumar með fínlegri bergfléttu. Mynd: Sig.A.

Á tímum Viktoríu drottningar náði ræktun þessarar tegundar ákveðnu hámarki í Bretlandseyjum. Þá var farið að rækta ýmiss yrki hennar innan dyra. Hin síðari ár hefur notkunin aukist á ný, einkum í garðrækt, þar sem ýmiss ný yrki hafa komið á markað.

Lítil bergflétta með áberandi æðarmynstri skríður yfir dauðan, mosavaxinn trjábol. Mynd: Sig.A.Bergfléttan og beykið

Hafsteinn Hafliðason skrifaði grein um bergfléttur árið 2017. Þar segir hann frá því að bergflétta og skógarbeyki, Fagus sylvatica, séu ævifélagar. Upprunaleg útbreiðslusvæði þeirra eru þau sömu og tegundirnar virðast hafa þróast saman nánast frá upphafi vega. Þegar svo er má búast við að báðar tegundir geti haft nokkurt gagn af sambýlinu.


Bergflétta í beykitrjám. Sjá má vetrarlauf beykisins neðst til vinstri.

Mynd: Sig.A.

Í beykiskógum getur bergfléttan þakið skógarbotninn og vafið sig upp eftir stofnum og greinum til að komast í meira ljós. Þegar hún gerir það geta hin sígrænu lauf skýlt hýsli sínum. Ung beykitré halda laufum sínum yfir veturinn eins og fram kemur hér. Þau geta því skýlt ungum bergfléttum fyrir vetrarveðrum á meðan hún er að koma sér fyrir. Þannig græða báðar tegundir. Um svona sambýli má lesa frekar hér. Sumir telja þó að líta beri á bergfléttuna sem ásætu sem hefur hag af sambýlinu en beykið ekki. Um slíkt má lesa hér og hér. Fyrri krækjan er á ásætur í erlendum skógum, en sú síðari í íslenskum skógum.


Bergflétta á beykistofni í Skotlandi. Sjá má hvaða greinar hafa borið blóm. Blöð þeirra eru öðruvísi. Fuglarnir hafa étið aldinin þegar myndin er tekin. Þessar aldinbæru greinar voru óvenju neðarlega. Mynd: Sig.A.


Þegar bergfléttan hefur náð meira en tveggja metra hæð fer hún að mynda blóm. Hún getur þá lyft blómum sínum hærra en á skógarbotninum. Þannig eru þau á bjartari stað í krónum trjánna, sem getur verið heppilegt fyrir frævara. Eins og áður segir bera blómstrandi greinar öðruvísi laufblöð en þau sem ekki blómgast. Svo er að sjá sem það sé partur af aðlöguninni. Þau eru þá nánast alveg eins og beykilaufin!


Fínleg bergflétta í blómakeri í Austurríki. Mynd: Sig.A.Samantekt

Bergfléttu má nota sem þekjuplöntu í beðum eða sem klifurplöntu. Þannig hefur hún verið nýtt um aldir. Hún getur klifrað upp alla hrjúfa hluti og er tilvalið að nota hana til að klæða trjástofna eða veggi og fá þannig græna liti allt árið. Einnig má nota hana sem inniblóm og í skreytingar.


Heimildir


Ásgeir Svanbergsson (1989): Tré og runnar. Önnur útgáfa. Gefin út af frumkvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur. Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf.


Hafsteinn Hafliðason (2017): Bergfléttan og hennar nánustu. Í Garðyrkuritið 2017. Garðyrkjufélag Íslands.

Francic Ritter (ritsjt.1996) Schrubs & Climbers. The Royal Horticultural Society Plant Guides. Dorling Kindersley Limited, London.


Frans-Emil Wielgolaski og Egil Kiær (1978): Hagens busker og trær í fager· 1. Det norke hagesleskap í samarbeid með H. Aschehoug & co (W. Nygaard). Osló.


Munnlegar heimildir Ágúst H. Bjarnason 23.08.20222

Einar Gunnarsson 24.08.2022

Halldóra Hafdís Arnardóttir 21.08.2022 Ólafur Sturla Njálsson 23.08.2022 Sigurður Þórðarson ágúst 2022.

760 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page