top of page

Álmurinn Sunnuhlíð 10

Updated: Apr 9, 2023

Vorið 2022 verður sjálfsagt lengi í minnum haft hér fyrir norðan. Önnur eins blómgun í trjám og runnum er svo mikil að elstu menn snarmissa minnið. Ein af þessum trjátegundum sem nú blómstra sem aldrei fyrr er álmur eða Ulmus glabra. Það eru ekkert mjög mörg álmtré á Akureyri en eitt þeirra verður nú fyrir valinu sem #TrévikunnarSE og það af góðri ástæðu. Tréð er algerlega þakið blómum og fræþroski er byrjaður!


Álmtré við Sunnulíð.


Staðsetning

Gatan Sunnuhlíð liggur beint upp af samnefndri verslunarmiðstöð í Þorpinu. Gatan tekur skarpa beygju til suðurs og þar á horninu er hús númer 10 Í húsinu er starfandi hárgreiðslustofa sem heitir Hárstúdíóið Sunna. Við þetta hús stendur þetta glæsilega tré, rétt við götuna. Það er alveg þess virði að fara að því og skoða. Það er óvíst að svona mörg blóm sjáist í bráð á einu og sama álmtrénu. Spennandi verður að fylgjast með fræmynduninni og hvort fræin nái fullum þroska. Allt bendir til að svo verði.


Nærmyndir af blómum. Önnur eins blómgun sést ekki oft á Íslandi.


Eigendur

Eigendur garðsins og þar með trésins eru Bryndís Arna Reynisdóttir, hárgreiðslumeistari og eiginmaður hennar, Garðar Ægisson. Þau fluttu í húsið árið 2005 og þá var þessi álmur í garðinum. Hann hefur hækkað töluvert og hefur verið klipptur til þannig að nú er það einstofna tré frekar en marggreindur runni. Þegar þetta er skrifað hefur álmurinn náð 7,5 metra hæð og hefur alla burði til að verða enn hærri á næstu árum og áratugum.


Fleiri fræmyndir. Óvíst að annað tækifæri gefist á næstu árum.


Um tegundina

Á Íslandi er aðeins ræktuð ein álmtegund. Hún kallast einfaldlega álmur og er algengasta tegund álmtrjáa í Evrópu. Tegundin vex frá Írlandi í vestri og allt austur til Litlu-Asíu og Kákasus. Það vex að auki allt frá heimskautsbaug í norðri og suður til Pelopsskaga ef marka má Wikipediu. Það getur orðið um 40 metra hátt á heimaslóðum. Þroskuð álmtré hafa að jafnaði breiða og hvelfda krónu og fá gula haustliti.

Þótt þessi tegund sé ekki mikið ræktuð á Norðurlandi þrífst hún hér prýðilega. Nágrannar okkar í Sólskógum eiga hana til sölu og er reynslan góð.


Álmlauf.


Fræ

Allt bendir nú til að þetta tré, sem og önnur álmtré, geti þroskað fræ í sumar. Þegar fræin byrja að falla af trénu eru þau fullþroskuð. Þau missa spírunarhæfni sína mjög hratt og því er mikilvægt að sá þeim strax eftir að þau eru tínd. Ætti þá að vera hægt að fjölga álmtrjám mikið hér í bæ.


Fræ að þroskast. Utan um fræið myndast vængir sem hjálpa því að komast á heppilega staði. Sjá hér.


Vetrarálmur

Hver árstíð á sér sinn sjarma. Falleg tré geta verið falleg allt árið. Álmurinn við Sunnuhlíð 10 er eitt þeirra. Svo lífgar það upp á myrkasta tíma ársins að stofninn hefur verið vafinn með jólaljósum. Meðfylgjandi þrjár vetrarmyndir sendi eigandi garðsins, Bryndís Arna Reynisdóttir, til okkar og veitti góðfúslegt leyfi til birtingar þeirra. Þær eru allar teknar í desember 2021. Fyrstu árin eftir að þau hjónin eignuðust garðinn voru jólaljós sett á allt tréð, en nú er það orðið svo stórt að það er látið nægja að setja lósin á stofninn. Kemur það vel út eins og sjá má á myndunum.

Álmurinn að vetri til. Myndir: Bryndís Arna Reynisdóttir

Sumarmyndirnar tók Sigurður Arnarson.


419 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page