top of page

Þeyrinn í þyrnunum

Í mörgum pistlum um tré vikunnar höfum við sagt frá tengingum trjáa við dulræn öfl og hvers kyns hindurvitni. Ein af þeim ættkvíslum trjáa sem oft er tengd við allskonar dulspeki er þyrniættkvíslin eða Crataegus spp. Helst er Það tegundin snæþyrnir, C. monogyna, sem ber þessi tengsl og þá mest á Bretlandseyjum. Aftur á móti er í þessum sögum ekki endilega reynt að fullyrða hvaða tegund ættkvíslarinnar er um að ræða í hvert skipti. Við gerum því ráð fyrir að öll ættkvíslin eigi sér slíkar tengingar. Því þykir okkur við hæfi að birta þennan pistil núna, því um áramót eru margir andar á kreiki ásamt álfum og huldufólki.


Þyrnir sem vindar við Aberlady Bay, nálægt Edinborg í Skotlandi, hafa mótað. Fjær sér í skóg sem vex eins og skógar gera almennt. Myndin frá desember 2020: Sig.A.

Þyrnar eru taldir harðgerðir í erlendum garðyrkjubókum og þótt við ræktum þá helst við góð skilyrði á Íslandi er það ekki alltaf svo í útlöndum. Þar vaxa villtar tegundir oft á erfiðum og jafnvel hinum ólíklegustu stöðum. Oft vaxa þeir þar sem vindar móta krónuna meira en almennt getur talist. Tegundirnar finnast oft í klettum eða á sendnum og vindasömum svæðum þar sem lítið er um önnur tré. Það lítur út fyrir að áður fyrr hafi fólk litið á þessa vaxtarstaði sem vísbendingu þess að trén nytu sérstakrar verndar dulrænna afla. Mest var þessi trú áberandi á Írlandi. Þar tengjast þyrnar gjarnan ævintýrum, álfum og ýmsum dulrænum fyrirbærum (Wills 2018).


Tvær myndir af síberíuþyrni, Crataegus sanguinea, í Lystigarðinum á Akureyri. Þegar tréð er í haustlitum og hefur svona stofn er vel hægt að trúa allskonar ævintýrum sem tengjast ættkvíslinni. Myndir: Sig.A.


Wills (2018) tiltekur nokkur dæmi í sinni bók: A History of Trees um slíkar tengingar.

Ein sagan segir frá vafasamri og illri kvenveru sem kölluð var the phooka. Þetta er ekki sérnafn, heldur eru þetta almennt fremur óviðkunnanlegar verur sem ganga undir þessu nafni. Orðið skilaði sér í íslensku og er enn notað en hefur skipt um kyn. Er þar komið orðið púki. Púki þessi kallaði ekki allt ömmu sína þegar kom að hvers kyns illvirkjum og almennum leiðindum, en phooka áttu sér ýmsar hliðar. Eitt sinn vorkenndi ein phooka hópi írskra uppreisnarmanna sem voru umkringdir af fjölmennum enskum her og ákvað að bjarga þeim. Henni tókst að gabba hershöfðingjann að snæþyrni sem þarna stóð og festi hann við tréð með silki úr kóngulóarvef. Þá gat púkinn tekið á sig mynd hershöfðingjans og leitt herinn í burtu frá uppreisnarmönnunum. Svona geta írskir púkar verið sniðugir ef þeir hafa aðgang að þyrnum.


Írskir púkar, eða phooka, geta tekið á sig ýmsar myndir en eru mjög oft sýndir með horn. Þessi mynd er héðan.

Einnig eru til sögur um snæþyrni í Skotlandi og Englandi, ef marka má Wills (2018), þar sem hulduverur tengjast trjánum. Á 13. öld hitti Skotinn Thomas the Rhymer drottningu Álfalands við snæþyrni og var þar numinn á brott í ríki hennar. Þarna virðist þyrnirinn búa yfir svipuðu afli og stórir steinar og björg búa yfir á Íslandi. Það getur verið gott að hafa það í huga núna um áramótin því allur er varinn góður. Önnur saga segir frá endalokum Merlins galdrakarls við hirð Artúrs konungs. Samkvæmt henni tókst vatnadísinni Viviane, eða Lady of the Lake, að festa hann, allt til enda veraldarinnar, í töfrum gæddum snæþyrni. Annars er þessi vatnadís frægust fyrir að færa Artúri konungi sverðið Excalibur.

Vatnadísin Viviane (hún á reyndar nokkuð mörg nöfn) með sverðið góða, löngu áður en hún festi Merlin í þyrnirunna. Myndin fengin héðan.


Vegna þessara tenginga við andaheim var sérstaklega mikilvægt að klippa ekki blómin af snæþyrnum án sérstaks leyfis ef þeir voru í uppáhaldi álfa eða hvers kyns dísa eða annarra hulduvera. Annars mátti eiga von á sérstökum hefndaraðgerðum sem leiddu til einstakrar ógæfu. Samhliða auknum aldri trjánna gat trúin á trén og vættina sem fylgdu því, vaxið og fests sig betur og betur í sessi, þannig að minna og minna mátti snerta þau. Slík tré gátu náð mjög háum aldri, þar sem þau voru í raun alfriðuð. Fræg er skosk saga frá lokum 18. aldar. Þar stóð mikill álagaþyrnir við þorp eitt. Allir þorpsbúar vissu að það fylgdi því mikil ógæfa að skerða þetta tré á einn eða annan hátt. Svo rammt kvað að því að ef einhver taldist líklegur til að gera trénu eitthvað, svo sem rífa af því grein, snérust þorpsbúar til varnar og gengu í skrokk á viðkomandi til að hefndin og ólukkan lenti ekki á þeim sjálfum. Þar með höfðu álfarnir í rauninni þorpsbúa í vinnu hjá sér við að verja tréð og sjá um að álögin væru virk. Því fylgdu sannarlega mikil óheppni að skerða tréð hið minnsta, því þá mátti búast við líkamlegum refsingum þorpsbúa (Wills 2018). Enn þann dag í dag þykir mörgum tryggara að biðja tré af þessum tegundum afsökunar ef til stendur að klippa af því greinar eða skerða á annan hátt, ef marka má Wills (2018).


Við göngustíg að Aberlady Bay nálægt Edinborg stendur þessi þyrnir. Þarna eru þær greinar sem vaxa inn á stíginn fjarlægðar. Ekkert er vitað hvort þeir sem sjá um viðhald stígsins hafa rætt við tréð eða íbúa þess um þessar framkvæmdir. Mynd: Sig.A.


Hjátrú, tengd þessum trjám, segir líka að alls ekki megi bera greinar af trénu inn í íbúðarhús. Það gæti valdið misklíð milli íbúa hússins. Aftur á móti getur verið heppilegt að planta þessum trjám við íbúðarhús, svo framarlega sem greinarnar eru ekki bornar inn. Það getur varið húsin fyrir ásókn illra anda og bægir einnig frá eldingum, ef marka má vin okkar Wills (2018). Diana Wells (2010) þekkir svipaða siði og nefnir sérstaklega að margir telji það boða ógæfu að bera blómin inn.


Snæþyrnir í fullum blóma. Myndin fengin frá Wikipediu.


Tengingar á Íslandi

Því miður skrifar Simon Wills (2018) ekkert um þyrna á Íslandi, enda vaxa þeir ekki lengur villtir hér á landi, þótt þeir hafi verið hér fyrir ísöld. Aftur á móti eru til ýmsar tegundir af þyrnum í ræktun hér á landi. Um eina þeirra höfum við fjallað áður og má sjá þann pistil hér. Í undirbúningi eru pistlar um fleiri tegundir. Til að fá einhverja hugmynd um sambærilegar tengingar við þyrnana hér á landi, eins og finna má hjá Bretum, leituðum við til Bryndísar Fjólu Pétursdóttur sem er manna fróðust um álfa og huldufólk í Lystigarðinum. Í þeim garði er villiepli sem kennt er við Síberíu en er hingað komið frá Noregi. Það stendur nálægt hrafnþyrninum sem flestar myndirnar eru af í pistlinum sem vísað er í hér ofar. Við þetta eplatré býr huldukona að nafni Pía. Það telst víst frekar fágætt nafn meðal huldukvenna á Íslandi en gæti sem best tengst því að tréð barst hingað frá Noregi. Ef til vill fylgdi hún með. Bryndís Fjóla segir okkur að milli þessara tveggja trjáa sé ljósbogi og að þar sé gott að vera, enda mikil heilun undir ljósboganum. Og Bryndís heldur áfram: „Þyrnirinn gefur frá sér mikið ljós og annaðhvort er það vegna álfanna eða álfarnir dragast að því þess vegna“. Álfarnir í þyrninum og Pía huldukona hafa ekki mikil samskipti en njóta bæði góðs af orku hvors annars, að sögn Bryndísar.


Í forgrunni til hægri er síberíueplið en fjær sér í hrafnþyrninn í haustlitum. Því miður er myndavélin ekki nægilega fullkomin til að ná ljósboganum en þyrnirinn er í sólarbirtu. Efstt til vinstri sér í upplýst reyniblöð. Reynir er gjarnan tengdur ýmsum öndum. Mynd: Sig.A.

Þyrnar og kristin trú

Wills (2018) og Wells (2010) segja í sínum bókum frá ýmsu öðru en ólukku sem fylgja kann þessum trjám. Samkvæmt Nýja testamenti Biblíunnar var það frá Jósep frá Arímaþeu sem fékk leyfi hjá Pílatusi að taka lík Krists af krossinum og koma því fyrir í gröfinni sem hann svo hvarf úr á dularfullan hátt að morgni páskadags eins og flestir þekkja. Leit á biblian.is segir okkur að frá þessu sé sagt í 19. kafla Jóhannesarguðspjalls, 23. kafla Lúkasarguðspjalls, 15. kafla Markúsarguðspjalls og 27. kafla Matteusarguðspjalls. Alltaf er það Jósep frá Arímaþeu sem kemur við sögu. Svo taka enskar þjóðsögur við.


Síberíuþyrnir, Crataegus sanguinea, í garði í Síðuhverfi þegar langt er liðið á haustið. Við höfum þessa mynd með til að minna á af hverju ættkvíslin kallast þyrnar. Mynd: Sig.A.

Jósep frá Arímaþeu fór nefnilega til Englands eftir þetta til að stofna kristinn söfnuð. Hafði hann með sér hið heilaga gral og er það enn í Englandi, samkvæmt sögunni. Jósep fékk að búa á svæði sem kallast Avalon við Glastonbury þar sem á okkar tímum er árlega haldin fræg tónlistarhátíð. Þar stakk hann niður göngustaf sínum og upp úr honum spratt þyrnir, enda var því trúað að þyrnikóróna Krists hafi verið úr slíku tré. Sumir töldu jafnvel að göngustafur Jóseps heitins frá Arímaþeu hafi verið gerður úr sama tré og þyrnikórónan. Þessi þyrnir, sem spratt upp úr göngustafnum hans Jóseps, var samt ólíkur öðrum. Hann blómstraði nefnilega tvisvar á ári. Annars vegar blómstraði hann á páskum, hins vegar á jólum. Þannig minnir hann alla tíð á þessar tvær mikilvægu hátíðir kristinna manna (Wills 2018, Wells 2010). Nú gengur þessi tvíblómstrandi þyrnir undir nafninu Crataegus monogyna 'Biflora' með augljósri vísan í þessa tvöföldu blómgun.

Það urðu örlög þessa trés að hermaður hjó það niður í ensku borgarastyrjöldinni (1642 - 1651) því mótmælendum þótti óviðeigandi að hafa átrúnað á slíku tré eða trjám almennt. Sagan segir að er tréð féll hafi það fallið á aumingja hermanninn og þyrnar trésins stungist í augu hans og blindað hann. Átti það að vera refsing æðri máttarvalda. Sögu þessa trés lauk samt ekki þarna. Af því höfðu verið teknir græðlingar og afkomendurnir eru enn til og ennþá hafa þeir þessa sérstöðu, samkvæmt Wills (2018) og Wells (2010), að blómstra sem næst þessum tveimur trúarhátíðum; jólum og páskum.

Hrafnþyrnir, Crataegus chlorosarca, að hausti í Lystigarðinum. Fáar tegundir standa þyrnum jafnfætis í litadýrð á haustin. Því miður er enginn snæþyrnir, C. monogyna, í garðinum. Mynd: Sig.A.

Tengsl þyrna við kóngafólk

Svona merkileg ættkvísl trjáa tengist líka kóngum og drottningum á Bretlandseyjum. Enn á ný höfum við upplýsingarnar fyrst og fremst frá Wills (2018). Árið 1485 varð fræg orrusta sem kennd hefur verið við Bosworth. Þar laut í lægra haldi Ríkharður III fyrir Hinrik VII. Þótti það tíðindum sæta að eftir orrustuna fannst kóróna hins látna Ríkharðs í þyrnirunna, væntanlega snæþyrnir, sem þarna óx. Á þessum tíma varð til merkilegur málsháttur í enskri tungu. Cleave to the crown, though it hang on a bush. Þetta átti að minna fólk á að vera trútt yfirvaldinu, burt séð frá því hvernig það varð til.


Á sendnum ströndum Aberlady Bay í Skotlandi eru fá tré en þó eru þar nokkrir þyrnar. Þeir eru mótaðir af hafvindunum. Við Bosworth hefur þyrnirinn sjálfsagt haft annað vaxtarlag enda er sá staður eins nálægt því að vera í miðju Englandi og hugsast getur. Þar gætir varla sterkra hafátta sem móta trjákrónur. Mynd: Sig.A.

María Skotadrottning er annar einvaldur sem tengist þyrnum. Hún var mjög hrifin af þessum trjám og er sögð hafa plantað þeim sjálf við ýmiss tækifæri. Lengi var þekkt eitt tré í Edinborg sem hún var sögð hafa plantað og var um þriggja alda gamalt er það fell í stormi árið 1836.

Þessum þyrni á Akureyri var sjálfsagt plantað af almúgamanni og í honum hefur aldrei fundist nein kóróna. Mynd: Sig.A.

Tengsl við vorhátíð

Áður fyrr var 1. maí (eða einhver annar dagur um þær mundir) mikill hátíðardagur á Bretlandseyjum og reyndar víðar í Evrópu. Hafði sá dagur ekkert með verkalýðsbaráttu að gera. Dagurinn var notaður til að fagna vorkomunni og stundum kallaður May Day. Þrátt fyrir að alls ekki megi skerða þyrna sem eru í uppáhaldi hjá hulduverum tíðkaðist á þessum hátíðum að skera greinar með blómum af þyrnunum, sem einmitt blómstra snemma á vorin, og hengja yfir dyrakarma. Af þessum sökum eru þyrnar stundum nefnd May tree á enskri tungu, þótt hawthorn sé miklu algengara heiti. Í tengslum við þessi hátíðarhöld voru gjarnan valdar maídrottningar í hverju þorpi. Þótt það mikill heiður fyrir ungar og ólofaðar stúlkur að fá þá nafnbót (Wills 2018, Wells 2010). Rétt er að nefna að þar sem tréð kallast hawthorn á ensku hefur heiti þess stundum ranglega verið þýtt sem hafþyrnir. Það er allt önnur tegund.


Börn að dansa í kringum maísúlu í enska þorpinu Welwyn. Takið eftir skreytingunum efst á súlunni. Hefðin mælir fyrir að nota blómstrandi þyrnigreinar. Myndina tók Paul Barnett og má finna hana á Wikipedíu.


Þessi hátíð er talin eiga rætur í siðum Rómverja sem heiðruðu Flóru, gyðju gróðurs, á þessum degi og sumir telja hátíðina enn eldri og tengja hana við Kelta og aðra evrópska þjóðflokka. Sérstakir „maístaurar“ (maypole) voru reistir að þessu tilefni og dansað í kringum þá. Þessir staurar minna mjög á sambærilega staura í sænskri menningu. Um þá er dansað á miðsumarshátíðum á Jónsmessu.


Sænskir dansarar, að rifna úr kátínu, dansa í kringum miðsumarssúlu. Myndin fengin héðan en hana á Wiglaf.Venjan var að skreyta þessa staura með blómum af þyrnum og dansa í kringum þá. Þessi siður hefur látið mjög í minnipokann hin síðari ár en er þó enn haldinn hátíðlegur, einkum í smærri þorpum (Wills 2018, Wells, 2010).


Þótt Englendingar kenni þyrnana stundum við maí, þá vekja þeir mesta athygli á Íslandi á haustin. Mynd: Sig.A.


Ensk saga

Við endum þennan pistil um tengsl þyrna við ýmsar sögur með því að nefna að á enskri tungu visar orðið thorn fyrst og fremst til þessarar tegundar en ekki annarra þyrnirunna. Staðarnöfn eins og Thornhill, Thornton og Thornbury visa öll í þyrna. Skammt frá Thames ánni í London var í eina tíð hæð ein sem kallaðist Thorney Island. Bendir það til þess að áður hafi hæðin verið eyja, enda átti áin það til að breyta farvegi sínum ótt og títt áður en Englendingar tóku að temja hana. Vilhjálmur sigurvegari byggði kirkju þarna mitt á milli þyrnanna á sínum tíma. Hún varð seinna að víkja fyrir enn veglegra húsi sem enn stendur og margir þekkja. Heitir það Westminster Abby. Þessi fræga bygging stendur á stað sem nefndur er eftir huldutrjám. Þar er ekki lengur pláss fyrir villta þyrnirunna.


Snæþyrnir, Crataegus monogyna í Dartmoor í Devon á Englandi. Ekki er erfitt að trúa því að svona tré sé í tengslum við hulduheima. Myndina tók Paul Dryhurst og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.


Heimildir:


Bryndís Fjóla Pétursdóttir. Munnlegar upplýsingar 22. september 2023.


Diana Wells (2010): Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.Simon Wills (2018): A History of Trees. Pen & Sword Whie Owl. Barnsley, South Yorkshire, England.


Í netheimildir er vísað beint í texta.120 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page